Við vinnum fyrir þig

Translate to

Vörukarfan lækkar hjá Kjarval, Krónunni og Nettó

Vörukarfa ASÍ hefur hækkað hjá 9 verslunarkeðjum af 12 frá því í desember 2014 (viku 48) þar til í byrjun júní (vika 24). Þannig hefur vörukarfan hækkað meira en sem nemur breytingu á vsk. og afnáms sykurskatts hjá helmingi verslana.

Mesta hækkunin á þessu tímabili er hjá Iceland, Hagkaup, Víði og Kaupfélagi Skagfirðinga. Á sama tímabili lækkar vörukarfan hjá Kjarval, Krónunni og Nettó. Í heildina er það mat verðlagseftirlitsins að breytingar á virðisaukaskatti og vörugjöldum gefi tilefni til hækkunar á verði matarkörfu meðalheimilis um u.þ.b. 1,5% en þegar innihald matarkörfunnar er skoðað nánar eru áhrifin á einstaka vöruflokka mjög misjöfn.

Um áramótin var virðisaukaskattur á mat- og drykkjarvörur hækkaður úr 7% í 11% auk þess sem vörugjöld voru felld niður af sykri og sætum matar- og drykkjarvörum. Breytingin um áramótin gefur því að hámarki tilefni til 3,7% hækkunar á matvöru en áhrifin á verði þeirra matvara sem innhalda sykur eða sætuefni ráðast af sykurinnihaldi vörunnar. Almennt má því segja að þeim mun sætari sem varan er þeim mun þyngra vegur afnám vörugjaldanna í verðinu og þeim mun meira ætti hún að lækka í verði.

Eins og sjá má á meðfylgjandi súluriti hefur vörukarfan hækkað í verði hjá 9 verslunum af 12 og hjá 7 þeirra er hækkunin mun meiri en skýrist af breytingunum á vsk. og afnámi sykurskatts. Mesta hækkunin er 4,8% hjá Iceland, 4,6% hjá Hagkaup, 4% hjá Viði, 3% hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, 2,5% hjá 10/11 og 2,1% hjá Samkaupum-Úrvali. Í verslunum Bónus, Samkaup-Strax og Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga er hækkunin um og undir 1,5%. Lækkun á verði vörukörfunnar er um 3% hjá Kjarval, 1,1% hjá Nettó og 1% hjá Krónunni.

Í meðfylgjandi töflu má sjá hvernig afnám sykurskattsins og breyting á vsk. skilar sér til neytenda í hverjum vöruflokki fyrir sig.

Afnám sykurskatts hefur lítil áhrif á verð á drykkjarvörum

Vöruflokkurinn drykkjarvörur hefur aðeins lækkað í 6 verslunum af 12 en áætlaði verðlagseftirlitið að þessi vöruflokkur mundi lækka u.þ.b. um 2,5%. Mesta lækkunin er 9,9% hjá Kjarval, 7,2% hjá Nettó, 4,8% hjá Bónus, 4,4% hjá Krónunni, 3,3% hjá Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga og um 0,4% hjá 10/11. Drykkjarvörur hækka í verði um 6,3% hjá Víði, 5,8% hjá Hagkaupum, 3,7% Iceland og um 0,4-1% hjá Samkaup-Strax, Kaupfélagi Skagfirðinga og Samkaup-Úrvali.

Verðlagseftirlitið áætlaði að vöruflokkurinn sætindi ætti að lækka um u.þ.b. 10% vegna afnáms sykurskatts en það er aðeins Bónus sem lækkar í takt við það. Krónan, Nettó og Kaupfélag Vestur-Húnvetninga koma þar á eftir með lækkun á bilinu 6,6-7,7%. Enn minni lækkun er hjá Hagkaup, Samkaup-Úrvali, Víði, Kaupfélagi Skagfirðinga og Kjarval eða um 1,2-4,4%. Í verslunum Iceland, 10/11 og Samkaup-Strax eru sætindi að hækka í verði eða um 0,2-2,2%.

Samkvæmt áætlun verðlagseftirlitsins ætti afnám sykurskattsins og breyting á vsk. í

vöruflokknum mjólkurvörur, ostar og egg ekki að gefa tilefni til hækkunar umfram 2,5% en aðeins Krónan, Nettó og 10/11 eru við eða undir því marki. Mesta hækkunin er um 9,7% hjá Víði,  um 6,9% hjá Hagkaup, 5,4% hjá Bónus, 5,1% hjá Iceland, um 3,4-4,8% hjá Samkaup-Úrvali, Samkaup-Strax, Kaupfélagi Skagfirðinga og Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga, en svo hefur vöruflokkurinn lækkað um 6% hjá Kjarval.

Þegar rýnt er í vöruflokkinn brauð og kornvörur má benda neytendum á að hann inniheldur töluverðan sykur og sætuefni; t.d. brauð, kökur og morgunkorn. Samkvæmt áætlun verðlagseftirlitsins ætti vöruflokkurinn ekki að gefa tilefni til hækkunar umfram 2%. Sjö verslanir eru að hækka verðið um 1-3%. Mesta hækkunin er 6,5% hjá Iceland og 3,7% hjá Hagkaup. Aðeins verslunin Samkaup-Strax er að lækka verðið og nemur lækkunin 0,5%.

Eftir breytingu á vsk. ætti vöruflokkurinn kjötvörur ekki að gefa tilefni til hækkunar umfram 3,7%. En hjá verslunum Bónus, Iceland, 10/11 og Kaupfélagi Skagfirðinga er hækkunin á bilinu 4,5-5,9% meðan aðrar verslanir hækka minna, minnsta hækkunin er 0,1% hjá Nettó. Sömu sögu má segja um ýmsar matvörur en þar er heldur ekki tilefni til meiri hækkunar en 3,7%, en verslanirnar Iceland, Hagkaup, Samkaup-Úrval, 10/11, Víðir, Kaupfélag Skagfirðinga og Kjarval hafa hækkað um 3,8-12,7%. Aðrar verslanir hækka minna og minnsta hækkunin er hjá Bónus 0,4%.

Verðlagseftirlitið mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar matar- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðalheimilis.

Verðbreytingar voru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Í lágvöruverðsverslununum Bónus, Krónunni, Nettó og Iceland; í almennu matvöruverslununum Hagkaup, Nóatúni og Samkaup-Úrvali, Tíu-ellefu, Samkaup-Strax og Víði; í verslunum staðsettum á landsbyggðinni, Kjarval, Kaupfélagi Skagfirðinga og Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga. Því miður var ekki hægt að framkvæma könnun í Kaskó að þessu sinni.

Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar milli verðmælinga. Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða  þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum því haft áhrif á niðurstöðurnar.

Óheimilt er að vitna í niðurstöðurnar í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.