Við vinnum fyrir þig

Translate to

Þingsetningarræða forseta ASÍ

Í morgun hófst 44. þing ASÍ. Þinghaldið er afar óvenjulegt vegna aðstæðna í þjóðfélaginu en þingið fer alfarið fram á netinu. Hér fyrir neðan er þingsetningarræða forseta ASÍ:

 

Kæru félagar
Við höfum marga fjöruna sopið síðustu tvö ár og það er frekar dapurt að geta ekki hist í persónu núna, lagt á ráðin, gert upp síðustu ár og brýnt okkur fyrir það sem koma skal. Það er þó huggun harmi gegn að við getum hist í rafheimum með sameiginlega tilfinningu um hvað skiptir máli. Að horfa á þrjú hundruð nöfn spretta upp á skjá, mörg með mynd, er sýnileg áminning um að við erum fjöldahreyfing sem teygir anga sína um allt landið og inn í flestar starfsstéttir. Saman eigum við þetta magnaða afl sem er verkalýðshreyfingin. Hreyfingin okkar er eins og stórfljót, rennur í farvegi sem hefur verið mótaður í áranna rás en brýtur sér stundum leið í nýjan farveg, stundum er áin vatnsmikil svo jafnvel flæðir yfir bakkana en stundum er hún straumléttari. Ég veit ekki hvort þetta er besta myndlíkingin en ég veit að við búum yfir afli sem hægt er að líkja við náttúruafl. Krafturinn er mikill og stundum óbeislaður, á köflum eru flúðirnar svo afgerandi að það má vart greina í hvaða átt vatnið rennur. En fljótið heldur samt áfram að renna, farvegurinn markast af vatninu og markmið okkar er skýrt: bætt lífskjör og betra samfélag.

Við höfum sannarlega náð árangri síðustu tvö árin frá því við hittumst síðast. Fram að COVID í upphafi árs hafði hagur launafólks batnað töluvert. Kjarabæturnar birtust í ýmsum myndum: Lækkun vaxta, lækkun skatta, hærri laun og hærri barnabætur eru þar á meðal. Allt þetta kom til vegna baráttu okkar og þeirra samninga sem gerðir voru fyrir okkar tilstuðlan. Við verðum að muna eftir að fagna þeim árangri sem við höfum náð á meðan við heitum því að halda áfram. Og það er mikið verk óunnið. Við erum með loforð frá stjórnvöldum um að breyta lögum um lífeyrissjóðina til að tryggja betur lífeyrisréttindi launafólks. Við eigum eftir að sjá raungerast loforð um aukna vernd fyrir leigjendur, markviss skref til að afnema verðtrygginguna og ný lög gegn félagslegum undirboðum og launaþjófnaði auk aðgerða gegn mansali. Þetta er allt saman í pípunum, í sumum tilvikum bíða okkar slagir um útfærslu, en í öllum tilfellum hefur okkur þokað fram á við.

Eins og heimurinn allur fengum við risaverkefni í fangið í upphafi árs þegar heimsfaraldur skall á. Við búum í nýjum veruleika sem er ógnvekjandi og það reynir á okkur sem einstaklinga, sem hreyfingu og sem samfélag. Atvinnuleysi er eitur í okkar beinum og í gegnum tíðina höfum við lagt mikið undir í baráttunni fyrir að verja störf og afkomu fólks. Störfin eru hins vegar horfin í bili og hátt í 20 þúsund manns eru án atvinnu hér á landi. Atvinnuleysi er í sögulegum hæðum og okkar stóra verkefni er að takast á við það, að knýja á um vinnumarkaðsaðgerðir sem mæta þessum vanda og tryggja afkomu fólks. Að auki hefur fjöldinn allur misst tekjur vegna minnkandi starfshlutfalls, minni yfirvinnu og hlutabóta og annarra þátta. Strax í vor hlutuðumst við til um aðgerðir til að minnka skaðann; laun í sóttkví, hlutabótaleið, nýsköpun og laun á uppsagnarfresti voru hluti af þeim úrræðum sem stjórnvöld buðu sem viðbrögð við kreppunni. Í vor héldum við reyndar að bráðaúrræðin þyrftu að dekka einn til tvo mánuði og ferðaþjónustan myndi taka við sér fljótt og vel. Nú vitum við betur og þetta verður langhlaup en ekki spretthlaup. Það er hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að bjóða lausnir og framtíðarsýn og í vor kynntum við stefnuskjal undir heitinu „Rétta leiðin – frá kreppu til lífsgæða“ þar sem við vörðuðum veginn út úr kreppunni til að vernda lífskjör og framfærslu og byggja upp betra samfélag. Á krepputímum eru teknar ákvarðanir sem móta framtíðina og það er okkar að sækja fram fyrir hönd almennings í landinu og tryggja að slíkar ákvarðanir séu í þágu okkar allra. Markmið er að stuðla að nýrri atvinnusköpun og jafnara samfélagi, atvinnusköpun í sátt við umhverfið þar sem eru ekki bara búin til ný störf heldur góð störf með góðum aðbúnaði og sanngjörnum kjörum. Réttlát umskipti eru þema þessa þings og ganga út á að breytingar á atvinnuháttum vegna loftslagskrísunnar og tæknibreytinga séu réttlát gagnvart launafólki. Þótt málefnastarfi okkar sé frestað til vorsins þá eigum við að taka hugmyndafræði réttlátra umskipta með okkur inn í þennan vetur. Því nú er tíminn til að byggja upp til framtíðar og það skiptir máli hvernig það er gert.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að atvinnurekendur hafa þrýst á um launalækkanir eða kjaraskerðingar með vísan til ástandsins. Þetta sjónarmið hefur fengið hljómgrunn í fjölmiðlum og stjórnmálum og víðar í samfélaginu undir þeim formerkjum að þegar þrengi að þá verði allir að gefa eitthvað eftir. Við því er tvennt að segja: annars vegar það að launafólk hefur þegar tekið gríðarlegan skell í þessari kreppu í gegnum atvinnuleysi og kjaraskerðingar og hins vegar það að aðhaldsstefna er ekki aðeins gagnslaus á krepputímum, hún er beinlínis skaðleg. Það er ekkert sem rennir stoðum undir þá kenningu að ískaldar launafrystingar þvert á línuna séu rétta leiðin út úr kreppunni, þvert á móti.

Ef við notum sömu hagfræðina og hefur verið alls ráðandi síðustu áratugi og sumir segja að byggi á jafnvísindalegum grunni og sjálft þyngdarlögmálið þá munum við rata á hættulega braut. Meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur nú stigið fram og ráðlagt ríkjum að ráðast ekki í aðhaldsaðgerðir en að gera fremur allt til að tryggja afkomu fólks á erfiðum tímum. Því þau ríki sem völdu niðurskurð út úr fjármálakreppunni fyrir rúmum áratug síðan hafa komið hryllilega illa út úr því, bæði heilsufarslega og efnahagslega.
Þegar íhaldssömustu stofnanir heims eins og OECD og Alþjóðabankinn eru farin að leita lausna í afkomutryggingu fyrir alla og meira að segja hin árlega Davos-samkoma hinna ríku og ráðandi kallar eftir auknum jöfnuði þá ætti síðasta vígið að vera fallið. Við heyrum hins vegar enn raddir hér á landi sem vilja fara í blóðugan niðurskurð. Þetta eru oft sömu raddirnar og segja okkur að við séum öll á sama báti. Við erum það ekki og höfum aldrei verið. Fólk sem vinnur á strípuðum töxtum eða hefur misst lífsviðurværið er ekki á sama báti og fjármálaráðherra eða forstjórar. Bara engan veginn!

En hitt er ljóst og það er að sérhagsmunaöflin eru alltaf tilbúin til að stökkva á tækifærið til að hafa afkomuöryggið af fólki. Í þessu landi eru beinlínis öfl sem vilja losna við lágmarksvernd launafólks, sem telja atvinnuleysistryggingar ýta undir leti og að fólki sé fullur sómi sýndur með því að ætla því innan við 300 þúsund krónur til mánaðalegrar framfærslu. Og þetta er einmitt hættan þegar harðnar á dalnum, að réttindi verði gefin eftir og ójöfnuður aukist. Það eru margir sem vilja nýta ferðina og kreppur hafa í áranna rás aukið misrétti.
Í september síðastliðnum þegar forsendur kjarasamninganna voru undir þá voru það ekki við sem sköpuðum óvissu og ófrið. Það voru atvinnurekendur sem ætluðu að nýta ferðina til að knýja á um launalækkanir eða skerðingar. Við bárum gæfu til þess að standa saman gegn þrýstingi og atvinnurekendur urðu uppvísir að ótrúlegum vinnubrögðum í einhverskonar störukeppni sem stóð þar til stjórnvöld stigu inn og skáru atvinnurekendur úr snöru sem þeir hengdu sjálfir.
Verkalýðshreyfingin stóð sameinuð: okkar mat var að farsælast væri fyrir launafólk og samfélagið í heild að halda frið á vinnumarkaði og standa við kjarasamninga, sem við skulum muna að voru gerðir á óvissutímum í kjölfar falls wow-air og tóku mið af óvissu efnahagsástandi.

Kæru félagar,
Þessi kreppa verður ekki til að auka ójöfnuð – við munum ekki líða það að skútunni sé siglt eftir úreltum hugmyndir sem hafa skaðað vinnandi fólk um heim allan og mulið undir fjármálaöflin. Við bjóðum lausnir sem felast í að tryggja afkomu og lífsgæði allra en ekki fárra. Við vinnum okkur ekki út úr þessari kreppu með niðurskurði í velferðarkerfunum okkar eða stórfelldum kjaraskerðingum. Við vinnum okkur út úr þessu með því að sækja fram, verja kjörin og verja velferðina. Við krefjumst þess að ríkisfjármálum sé beitt af fullum þunga til að lágmarka skaðann af kreppunni. Við krefjumst þess að þeir sem eru aflögufærir leggi meira af mörkum til samfélagsins; þar get ég nefnt stórfjármagnseigendur og kvótaeigendur, ef kallað er eftir dæmum!

Við erum afar misjafnlega stödd en eins og yfirleitt gerist þá eru það einstaklingar sem síst mega við því sem kreppan bitnar harðast á. Einstaklingar sem hafa ekki sterka rödd í samfélaginu, ungt fólk, fólk af erlendum uppruna og fólk sem hefur verið á jaðri vinnumarkaðarins. Það er okkar hlutverk að ljá þeim rödd, gefa þeim pláss í umræðunni, tala þeirra máli þar sem það á við. Verkalýðshreyfingin er stofnuð til að einstaklingar þurfi ekki að berjast einir, að krafturinn og styrkurinn í fjöldanum veiti skjól og vörn og við megum aldrei missa sjónar á því. Það er erfitt að taka einn hóp út fyrir sviga því það eru mjög margir í erfiðri stöðu. Ég ætla þó að leyfa mér að minna á ábyrgð okkar gagnvart fólki af erlendum uppruna sem hefur lagt þungt lóð á vogaskálarnar síðustu ár til að auka hér lífsgæði og vinna þau verk sem þarf að vinna til að halda samfélaginu gangandi. Atvinnuleysi er sláandi hátt meðal erlendra ríkisborgara og verkalýðshreyfingunni ber að taka á því af fullum þunga. Við þau ykkar af erlendum uppruna vil ég segja, verið velkomin til landsins, verið velkomin í hreyfinguna og við erum heppin að njóta krafta ykkar á vinnumarkaði og í okkar góðu hreyfingu – í því felst styrkur fyrir okkur öll.
Kæru félagar,
Það er aldrei meiri þörf á sterkri verkalýðshreyfingu heldur en þegar völd atvinnurekenda aukast á kostnað launafólks. Við erum í þannig stöðu núna að óprúttnir atvinnurekendur geta boðið örvæntingafullu fólki laun og aðstæður sem teljast ekki boðlegar. Þá kemur það til okkar kasta að heyja baráttuna gegn félagslegum undirboðum og fyrir því að samningar séu virtir. Það þarf að vera refsivert og ekki áhættunnar virði að svína á launafólki. Við eigum enn töluvert í land þar og sú barátta stendur yfir.

Kæru félagar,
Þó að hart sé í ári núna þá munu koma betri tímar og það veltur á okkur hvernig framtíðin lítur út. Verkefnin til skamms tíma eru áframhaldandi barátta fyrir hækkun atvinnuleysisbóta, að kerfin sem launafólk á undan okkur barðist fyrir virki sem skildi þegar virkilega reynir á. Við verðum að verja þau heimili sem hafa fengið harðan skell á þessu ári og við verðum að styðja okkar félagsmenn í vörnum gegn veirunni.

Til lengri tíma skulum við muna það að þegar einhver býður einfaldar lausnir eins og að selja ríkiseignir eða „nýta einkaframtakið“ í heilbrigðisþjónustu þá skulum við ekki pissa í skóinn okkar. Þessi öfl eru komin á fullt skrið en það alversta sem við getum gert núna er að arðvæða okkar grunnstoðir. Þannig eykst misréttið og ójöfnuðurinn, þannig gerist það að fólk þarf að kaupa heilbrigði og menntun og aðeins þau sem hafa efni á því njóta. Þetta er hin stóra barátta framundan, að vernda það sem við höfum byggt upp og láta ekki eina kreppu brjóta það niður. Við skulum líka vera stórhuga og hvika hvergi í okkar kröfum um að allir njóti velferðar og lífsgæða, hvort sem það eru aldraðir eða veikir, vinnandi fólk eða fólk utan vinnumarkaðar. Við skulum byggja upp atvinnu í sátt við náttúru og umhverfi og láta tækniframfarir og framleiðni aukningu verða til góðs fyrir alla en ekki fáa.

Í daglegu amstri og átökum skulum við muna eftir stóru myndinni og að hvert og eitt okkar er lítið peð í sögubókunum en saman getum við skrifað góðan kafla. Ábyrgð okkar er mikil á tímum þar sem félagsstarfi eru skorður settar og fjöldafundir hreinlega bannaðir. Við þurfum vissulega rými til að takast á um stefnur og strauma innbyrðis, en í vetur berum við vonandi gæfu til að beina orkunni út á við, þar sem hennar er sannanlega þörf.

Ég vona að við fáum tækifæri til að hittast fljótlega í raunheimum því það sárvantar eitthvað þegar við getum ekki fundið nálægðina og sprengikraftinn í samtalinu. Þangað til verðum við að nýta tæknina og senda hlýja strauma hvert til annars yfir netheima.
Ég óska okkur öllum velfarnaðar, heilsu og baráttuanda og segi 44. þing ASÍ sett.

Orlofshús Bárunnar stéttarfélags um jól og áramót 2020

Báran, stéttarfélag auglýsir orlofshús félagsins laus til umsókna fyrir jól og áramót, vikurnar:

  1. desember 2020 – 30. desember 2020
  2. desember 2020 – 6. janúar 2021.

Umsóknarfrestur er frá 7. október til 2. nóvember nk. Hægt er að sækja um á Orlofssíðu Bárunnar, einnig verður hægt að fá aðstoð við umsóknaferlið á skrifstofu félagsins að Austurvegi 56, 800 Selfoss eða í síma Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna, 480 5000.

Úthlutun orlofshúsa mun liggja fyrir þann 5. nóvember nk. Öllum umsóknum verður svarað.

 

Verð á vikudvöl í Þverlág 2, 4 og 6 og Grýluhrauni er 20.000 kr. Vikudvöl í orlofsíbúð á Akureyri er 22.000 kr.

 (12 punktar).

Leigutímabil er frá miðvikudegi til miðvikudags. Íbúðin Sóltúni 28, Rvk. verður í sveigjanlegri leigu eins og verið hefur hingað til.

 

Báran, stéttarfélag

Austurvegi 56, 800 Selfoss –  sími 480 5000

baran@baran.is – https://baran.is

Dale Carnegie LIVE ONLINE dla członków związków zawodowych

Verkalýðsfélag Suðurlands, Báran stéttarfélag, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Drífandi og Verkalýðsfélag Grindavíkur zapraszają swoich członków do udziału w kursach Dale Carnegie na wyjątkowych warunkach.

Celem kursu jest:

  • Budowanie pewności siebie, aby być zaangażowanym i wzmocnić swoją pozycję w pracy
    • Ulepszać umiejętności komunikacyjne, aby zbudować zaufanie, zacieśnić współpracę i mieć pozytywny wpływ na środowisko pracy
    • Zwiększyć zdolność komunikacji oraz umiejętności zachowania taktu, także w chwili stresu
    • Poprawić nastawienie i umiejętności radzenia sobie z trudnymi sytuacjami i stresem
    • Rozwijanie umiejętności przywódczych, aby móc inspirować innych

Kiedy:  Kurs rozpoczyna się w środę 27 października i odbywa się raz w tygodniu po 3 godziny od godziny 17-20. Kurs trwa 8 tygodni.

Gdzie: Kurs odbywa sie przez internet przez Webex  Kurs prowadzi dwóch instruktorów/trenerów i jeden z nich jest asystentem technicznym, który pomoże Ci  połączyć dźwięk i obraz.

Cena: Członkowie związków płacą jedynie 13 500 ISK, ale pełna cena to 169 000, a opłata za kurs jest dotowana przez fundusz szkolenia zawodowego. (Osoby, które zapiszą się na kurs, nie mogą otrzymać zwrotu opłaty, chyba że rezygnacja nastąpi z co najmniej dwutygodniowym wyprzedzeniem).

Zapisu na kurs można dokonać tutaj dale.is/alumni lub telefonicznie 555 7080.

W celu uzyskania dalszych informacji prosimy o kontakt z Unnur Magnúsdóttir, unnurm@dale.is , tel. 698- 4130.

 

Móttaka félagsmanna á skrifstofu Bárunnar, stéttarfélags skertar ótímabundið

Vegna aðgerða stjórnvalda og tilmælum sóttvarnarlæknis hefur verið tekin ákvörðun um að skerða komur á skrifstofu Bárunnar. Okkur langar að benda á að flestum erindum er hægt að sinna í gegnum vefsíðu okkar www.baran.is eða í gegnum síma (480-5000) og/eða með tölvupósti (baran@baran.is).

Ef erindi þitt þarfnast viðtals, skal hafa samband við okkur í gegnum síma eða tölvupóst og við metum hvort hægt sé að veita viðtal.

Einnig er búið að koma upp aðstöðu frammi á stigapalli þar sem að hægt er að skila gögnum til okkar og sækja um í helstu sjóði.

Á sama tíma og við biðjumst velvirðingar á skertri þjónustu, langar okkur að þakka fyrir skilning á þeim aðgerðum sem að eru nú í gildi.

 

The reception of members at the office of Báran is reduced indefinitely

 

Due to the actions of the government and the recommendations of the epidemiologist, a decision has been made to reduce visits to Báran‘s office. We would like to point out that most errands can be handled through our website www.baran.is or by phone (480-5700) and / or by e-mail (baran@baran.is).

If your errand requires an interview, please contact us by phone or e-mail and we will assess whether an interview can be provided.

Facilities have also been set up in the hallway where it is possible to leave documents to us and apply to the main funds.

At the same time as we apologize for the reduced service, we would like to thank you for your understanding of the measures that are currently in force.

ASÍ hlýtur jafnlaunavottun

Alþýðusamband Íslands hefur hlotið jafnlaunavottun eftir ítarlegt úttektarferli með viðurkenndum vottunaraðila. Meginmarkmið jafnlaunavottunarinnar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr.10/2008. Samkvæmt lögunum skal jafnlaunavottun byggjast á jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Með innleiðingu hans geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Kjarasamningar halda

Lífskjarasamningunum svonefndu sem undirritaðir voru 3. apríl 2019 var ákvæði um sérstaka launa- og forsendunefnd sem hafði það verkefni ,,að leggja mat á forsendur kjarasamningsins og ákvæði hans um hagvaxtarauka og taxtaauka”.  Forsendunefndin var skipuð þremur fulltrúum frá samninganefndum félaganna og þremur frá Samtökum atvinnulífsins. 

Eins og skýrt hefur komið fram í fréttum töldu fulltrúar ASÍ að ekki væru forsendur til að segja kjarasamningum upp núna, meðan fulltrúar SA reyndu að nota ástandið til að ná fram breytingum á kjarasamningum og þá sérstaklega að fresta samningsbundinni launahækkun sem kemur til framkvæmda 1. janúar 2021. Ríkisstjórnin kynnti sérstakar aðgerðir til að stuðla að félagslegum og efnahagslegum stöðugleika í tengslum við Lífskjarasamninginn. Þessar aðgerðir m.a. urðu til þess að SA ákvað að lokum að segja ekki upp samningum og reyndar vandséð að þeir hafi haft til þess forsendur eða rétt. Þess má geta að ASÍ hefur sett fram mjög ákveðna gagnrýni á þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. 

Þessi niðurstaða ASÍ og SA þýðir að samningurinn stendur óbreyttur. 

Þann 1. janúar 2021 hækka kauptaxtar um 24.000 kr. og almenn mánaðarlaun fyrir fullt starf hækka um 15.750 kr. Aðrir kjaratengdir liðir kjarasamningsins hækka um 2,5% á sömu dagsetningu. Einnig hækka lágmarkstekjur fyrir fullt starf og verða 351.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf frá 1. janúar 2020. 

Mikilvægt er að félagsmenn fylgist vel með að umsamdar hækkanir og breytingar skili sér til þeirra með réttum hætti. 

Í kjarasamningi SGS við Samband Íslenskra sveitarfélaga eru ákvæði um að ef það verði breytingar á samningum á almennum markaði eða þeim verði sagt upp, sé hægt að segja upp þeim kjarasamningi. Ljóst er að ekki eru forsendur til slíks og koma því hækkanir í þeim samningi einnig til framkvæmda. Það sama gildir um kjarasamning SGS við ríkið. 

hér má sjá fréttina

Átta atriði sem Samtök atvinnulífsins mættu hafa í huga

Vitræn um umræða um efnahagsmál: átta atriði sem Samtök atvinnulífsins mættu hafa í huga

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins steig fram í fréttum Ríkissjónvarpsins á sunnudagskvöld og lýsti því yfir að ASÍ væri „á góðri leið með að stimpla sig út úr vitrænni umræðu um efnahagsmál”. Sennilega eru þessi ummæli til marks um rökþrot, enda hefur forystu atvinnurekenda ekki tekist að sýna fram á það með raungögnum að ráðlegt sé að slíta kjarasamningum til þess eins að knýja fram launafrystingar þvert á atvinnugreinar. Þar virðast pólitískar kenningar ráða mestu og eru fengnir bæði fyrrverandi og núverandi talsmenn SA til að halda þeim á lofti.

Okkur í ASÍ er bæði ljúft og skylt að standa að vitrænni umræðu um efnahagsmál og höfum því tekið saman nokkur atriði sem gæti verið gott fyrir forystu Samtaka atvinnulífsins, þá og nú, að kynna sér.

1. Hagfræði er ekki raunvísindi

Hagfræði telst til félagsvísinda. Hún fjallar um mannlegt samfélag en ekki náttúrulögmál. Þetta á sérstaklega við þegar hagfræðin reynir að spá fyrir um óorðna hluti, enda getur spáin farið að hafa áhrif á framvinduna, ekki síst ef spámennirnir eru í þeirri stöðu að geta haft slík áhrif sjálfir. Að líkja gengis- og verðbólguþróun við þyngdarlögmálið, eins og einn talsmanna sjónarmiða atvinnurekenda hefur gert á opinberum vettvangi, er því fráleitt. Þær breytur sem eru að verki í hagkerfinu verða ekki færðar undir grunnhugtök eðlisfræðinnar.

2. Verðbólga er margþætt fyrirbæri

Verðbólga telst heldur ekki til náttúrulögmála. Helstu áhrifavaldar á verðbólgu eru nú einmitt mannfólkið og það væri hægt að lista margar óðaverðbólguspár sem ekki hafa gengið eftir. Seðlabankar og ákvarðanir um ríkisfjármál hafa áhrif á verðbólgu, líkt og á gengismál, en þar geta fjársterkir aðilar líka haft áhrif. Á alþjóðavettvangi er sífellt verið að þróa áfram kenningarramma um verðbólgu en af hálfu SA er alltaf spiluð sama gamla platan þar sem verðbólguógninni er beitt sem refsivendi gagnvart almenningi og þá sérstaklega láglaunafólki. Hér má til dæmis vitna í nýlega grein í breska tímaritinu the Economist þar sem bent er á að sambandið milli verðbólgu og atvinnuleysis hafi breyst.

3. Kjaraskerðingar munu dýpka kreppuna

Forystumenn SA telja það úrræði henta best á þessum erfiðu tímum að falla frá umsömdum launahækkunum með tilheyrandi hótunum um atvinnuleysi og óðaverðbólgu. Hið rétta er að verði ekki staðið við gerða samninga munu umsvif dragast saman í hagkerfinu og þannig lengja og dýpka kreppuna. Við blasir að samdráttur í útgjöldum almennings mun einnig verða til þess að auka atvinnuleysi og þannig gera kreppuna enn erfiðari en ella. Lækkun launakostnaðar stuðlar ekki sjálfkrafa að framleiðniaukningu, en það er framleiðniaukningin sem ætti að einblína á. Enn fremur verður fyrirtækjum ekki bjargað frá gjaldþroti með því að lækka launakostnað, vandinn til frambúðar er stærri en svo.

4. Hækkun lægstu launa er góð fyrir samfélagið

Hækkun lægstu launa er góð fyrir samfélagið og sérstaklega góð fyrir hagkerfið á erfiðleikatímum. Launahækkanir þeirra sem minnst bera úr býtum renna beint út í hagkerfið og skila sér m.a. í formi meiri umsvifa í verslun og þjónustu og virðisauka til ríkisins. Það er líka réttlætismál að vinnandi fólk fái sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu sína. Ef menn vilja lækka laun er nærtækast að byrja á þeim sem mestar áhyggjur af hafa launahækkunum almenns launafólks. Þeir telja laun sín í milljónum og eiga aldrei erfitt með að hækka þau um nokkra hundrað þúsund kalla ef á reynir. Almennt launafólk þarf hins vegar á þúsund köllum að halda til að geta haft efni á sömu matarkörfu áfram.

5. Niðurskurður og samdráttur virkar ekki á krepputímum

Fjölmörg ríki fóru þá leið í kjölfar fjármálahrunsins 2008 að draga saman seglin. Þar réði ekki síst pólitík þeirra sem vildu nýta tækifærið til að minnka hið opinbera og draga úr afkomuöryggi láglaunafólks til að geta náð í ódýrt vinnuafl hvar og hvenær sem er. Afleiðingarnar hafa verið skelfilegar og ríkin sem fetuðu þessa braut hafa orðið verst úti í heimsfaraldrinum, bæði efnahagslega og heilsufarslega. Meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varar nú við því að nota kreppuna til að saxa niður og hvetur öðru fremur til að tryggja afkomuöryggi fólks. Niðurskurður og samdráttur er ótækur með öllu á krepputímum. Um þetta hefur myndast samstaða víðast hvar á Vesturlöndum.

6. Það er ekki allt á vonarvöl

Kreppan vegna heimsfaraldursins hefur sannarlega komið illa við ákveðnar atvinnugreinar og landshluta. Launafólk hefur tekið mikinn skell í gegnum atvinnuleysi, hlutabætur, skert starfshlutfall og minnkaða yfirvinnu. Sum fyrirtæki standa einstaklega illa. En efnahagsþróun hefur engu að síður, enn sem komið er, verið hagfelldari en óttast var í fyrstu, ekki síst þar sem atvinnulífið hefur notið góðs af sterkri fjárhagsstöðu heimila og af sértækum úrræðum stjórnvalda. Góð eiginfjárstaða, vaxtalækkanir og úrræði stjórnvalda hafa gert heimilum kleift að halda lífi í hagkerfinu þrátt fyrir efnahagsáfallið. Með því að beita sértækum aðgerðum til að mæta þeim sértæka vanda sem nú er uppi er hægt að milda áhrifin af kreppunni og tryggja að við komumst í gegnum hana með sem minnstum skaða.

7. Ójöfnuður er vondur fyrir hagkerfið og samfélagið

Sífellt berast upplýsingar um vaxandi ójöfnuð á Íslandi. Nú síðast skýrði Hagstofan frá því að eignir 10% ríkustu Íslendinganna hefðu aukist um 40% á fjórum árum. Á sama tíma berast fréttir af því að 200 fjölskyldur á Suðurnesjum hafi þurft mataraðstoð fyrir helgi. Við þessar aðstæður býður forysta SA fólkinu í landinu upp á þann málflutning að standi samningar um hækkun launa þeirra sem minnst bera úr býtum verði efnahagslífi þjóðarinnar stefnt í áður óþekktan voða. Slíkar staðhæfingar minna einna mest á málflutning eftir hrun fjármálakerfisins 2008 þegar látið var að því liggja að almenningur bæri þar mesta sök vegna kaupa á flatskjám. Sú stofnanavædda brjálsemi sem leiddi til Hrunsins byggðist á hugmyndafræði, sérhagsmunum og siðleysi. Kreppur leiða oft til vaxandi ójöfnuðar og það er hlutverk okkar allra að tryggja að svo fari ekki núna. Þar stendur verkalýðshreyfingin sameinuð gegn sérhagsmunaöflunum.

8. Nýfrjálshyggjan er dauð

Viðbrögð ríkisstjórna á Vesturlöndum við efnahagskreppunni eru öll á þann veg að beita stýritækjum ríkisins af fullum þunga til að lina hamfarirnar sem COVID-faraldurinn veldur. Nýfrjálshyggjan veitir ekki þau svör sem þarf til að mæta vandanum. Stjórnmálamenn sem áður reiddu sig á hana hika nú ekki við að beita inngripum og styrk ríkisins með tilheyrandi fjárútlátum. Þeir sem halda að markaðslausnir nýfrjálshyggjunnar komi nú til bjargar eru í undarlegu sambandsleysi við umheiminn.

Að lokum má taka fram að óttist forysta SA að ASÍ hafi ætlað að láta þeim einum eftir sviðið í umræðum um efnahagsmál þá er það ekki rétt. ASÍ setur almannahag ofar sérhagsmunum í stefnumótun sinni og hlustar á þá hagspekinga sem hafa uppfært þekkingu sína síðustu ár. Kreddur og hugmyndafræði misskiptingar verða aldrei heppilegur grundvöllur fyrir „vitræna umræðu um efnahagsmál“.

LIVE ONLINE – Dale Carnegie námskeið fyrir félagsmenn

Félagsmönnum  Bárunnar stéttarfélags, ásamt félagsmönnum hjá Verkalýðsfélagi Suðurlands, Drífanda stéttarfélagi, Verkalýðsfélagi Grindavíkur og Verkalýðsfélagi Sandgerðis býðst að fara á DALE CARNEGIE Online námskeið á einstökum kjörum.

Markmið námskeiðsins eru:
Efla sjálfstraust til að láta til sín taka og styrkja sig í starfi.
Bæta samskiptahæfni til að byggja traust, auka samvinnu og hafa jákvæð áhrif á starfsumhverfið.
Auka tjáningarhæfni til að tjá sig af lipurð og háttvísi, líka undir álagi.
Bæta viðhorf og hæfni til að takast á við krefjandi aðstæður og álag.
Efla leiðtogafærni til að geta veitt öðrum innblástur.

Námskeiðið hefst þann 14.október og er einu sinni í viku í 8 vikur, 3 tíma í senn frá kl 18-21.
Námskeiðið fer fram í gegnum Webex þjálfunarumhvefi á netinu. Tveir þjálfarar halda námskeiðið og er annar þeirra tæknilegur aðstoðarmaður sem hjálpar þér að tengjast í hljóð og mynd.
Verð fyrir félagsmenn er aðeins kr. 13.500- en fullt verð á námskeiðið er kr. 169.000-. Starfsmenntasjóðirnir niðurgreiða námskeiðið fyrir félagsmenn fyrrgreindra stéttarfélaga.

Skráning á námskeiðið fer fram á www.dale.is/skraning eða í síma 555-7080. Einnig er hægt að skrá sig á Live Online kynningarfund á www.dale.is/einstaklingar.

Félagsfundur Bárunnar

Almennur félagsfundur, Bárunnar, stéttarfélags verður haldinn að Austurvegi 56, Selfossi, 3. hæð mánudaginn
28. september nk. Fundurinn byrjar með kjötsúpu kl. 18:00 í boði Bárunnar, stéttarfélags.

Dagskrá:

1. Kosning fulltrúa á Þing Alþýðusambands
Íslands 21. október 2020.
2. Uppsögn kjarasamninga, eru forsendur
brostnar eða ekki?
3. Önnur mál

Tökum ábyrgð á eigin málum.
Stjórn Bárunnar, stéttarfélags.

Gríðarlegur munur á matvöruverði á landsbyggðinni

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði á þriðjudaginn matvöruverð í 15 minni matvöruverslunum á landsbyggðinni. Í ljós kom að í um helmingi tilfella var yfir 80% munur á hæsta og lægsta verði á þeim vörum sem verð var kannað á. Á 56 vörutegundum af þeim 103 sem kannaðar voru, var 60-140% munur á hæsta og lægsta verði og yfir 140% verðmunur á 12 vörutegundum. Mikill verðmunur var á hæsta og lægsta verði í öllum vöruflokkum. Á mörgum þeim stöðum á landinu sem verðkönnunin fór fram eru langar vegalengdir í næstu verslun og reiða margir heimamenn sig því á þær.

Sem dæmi um mikinn verðmun á milli verslana í könnuninni má nefna að 106% eða 1.373 kr. munur var á hæsta og lægsta kílóverði af brauðosti og 103% eða 1.183 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði af Cheeriosi. Á ungnautakjöti var 100% eða 1.597 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði, á smjöri var um 50% verðmunur og um 60-70% munur var á verði á mismunandi brauðtegundum. Þá var mikill munur á hæsta og lægsta kílóverði á þvottaefni eða 156% og 80% á kaffipúðum.

Sem dæmi um verðmun innan vöruflokka var í flestum tilfellum um 80-100% munur á hæsta og lægsta verði á kjöti og fiski, yfirleitt um eða yfir 100% verðmunur á dósamat og þurrvöru og oft um 80-100% munur á snakki og gosi og annarri drykkjarvöru. Þrátt fyrir mikinn verðmun í öllum vöruflokkum var munurinn á verði á grænmeti hvað mestur, oft 2-300%. Miðað við þennan mikla verðmun í öllum vöruflokkum er ljóst að verðlag í verslununum getur haft mikil áhrif á heimili sem reiða sig á verslanirnar.

Vöruúrvalið í verslunum var mjög misjafnt. Mest var úrvalið í Skagfirðingabúð en þar fengust 94 vörur af 103 en minnst var úrvalið í Versluninni Ásbyrgi þar sem einungis 24 vörur fengust. Í nokkrum verslunum var mikið um að vörur væru ekki verðmerktar.

Þrjár verslanir neituðu þátttöku í könnuninni, Melabúðin, Kassinn Ólafsvík og Kostur í Njarðvík. Við samanburð á milli verslana ber að athuga að hér er um mjög margar mismunandi verslanir að ræða, allt frá litlum verslunum sem eru í eigu einstaklinga til verslana sem eru hluti af stærri verslanakeðjum.

Um könnunina:
Í könnuninni er einungis um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Í könnuninni var hilluverð á 103 vöru skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina.

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Kjörbúðinni Garði, Krambúðinni Laugardal, Kr. Þorlákshöfn, Kjarval Hellu, Fjölval Patreksfirði, Hjá Jóhönnu Tálknafirði, Skerjakollu Kópaskeri, Urð Raufarhöfn, Versluninni Ásbyrgi, Dalakofanum Laugum, Hlíðakaup Sauðarkróki, , Skagfirðingabúð Sauðárkróki (KS), Jónsabúð Grenivík, Kauptúni Vopnafirði, Hraðbúðinni Hellissandi, Kassanum Ólafsvík, Kosti Reykjanesbæ og Melabúðinni.

Sjá verðtöflu í frétt á heimasíðu ASÍ