Við vinnum fyrir þig

Translate to

Aðalfundur Bárunnar 2025

Aðalfundur Bárunnar, stéttarfélags, fór fram miðvikudaginn 14. maí 2025. Fundurinn var haldinn samkvæmt auglýstri dagskrá og gekk hann vel fyrir sig. Soffía Sigurðardóttir var kjörin fundarstjóri og Fjóla Pétursdóttir fundarritari.

Formaður félagsins fór yfir skýrslu stjórnar og Valgerður Kristjánsdóttir kynnti ársreikning félagsins. Þá fór fram kosning í stjórn og nefndir og var tillaga uppstillingarnefndar samþykkt samhljóða þar sem engar aðrar tillögur bárust.

Einnig voru samþykktar tillögur stjórnar um fulltrúa á þing Starfsgreinasambandsins sem fram fer í október, sem og tillögur stjórnar sjúkrasjóðs. Fulltrúar frá Rannsóknarlögreglunni á Suðurlandi héldu fróðlegt erindi um mansal og fundinum lauk með happdrætti.

Mæting var fín og voru fundargestir voru virkir í umræðunni um mansal og þá ógn sem steðjar að íslenskum vinnumarkaði.

Báran, stéttarfélag þakkar fundarfólki fyirr komuna og vonar að allir fari glaðir inn í sumarið.

Aðalfundur Bárunnar, stéttarfélags

Kæru félagar

Aðalfundur Bárunnar, stéttarfélags verður haldinn í Tryggvaskála á Selfossi
þann 14. maí kl. 18:00

Dagskrá

1. Hefðbundin aðalfundarstörf
2. Breyting á reglugerð sjúkrasjóðs

Önnur mál

Fulltrúar frá Rannsóknarlögreglunni á
Suðurlandi munu halda erindi um mansal.

Veitingar í boði.

Hlökkum til að sjá ykkur.

Vel heppnuð 1. maí hátíðarhöld á Selfossi 2025 – Konur í forgrunni á kvennaári

Árleg 1. maí hátíðarhöld verkalýðshreyfingarinnar fóru fram á Selfossi í morgun við góðar undirtektir. Dagskráin hófst með kröfugöngu frá Austurvegi 56 kl. 11:00, þar sem Lúðrasveit Selfoss og Hestamannafélagið Sleipnir leiddu hópinn að Hótel Selfoss þar sem hin formleg dagskrá og fjölskylduskemmtun var haldin.

Helga Kolbeinsdóttir frá FOSS stéttarfélagi stýrði dagskránni með miklum myndarbrag. Aðalræðu dagsins flutti Halla Gunnarsdóttir, formaður VR. Hún flutti kröftuga ræðu og fór yfir hvernig stéttarfélags baráttan um heim allan á undir högg að sækja sem og kvennabaráttan. María Friðmey Jónsdóttir flutti áhrifaríkt ávarp fyrir hönd nemenda við FSU. Báðar lögðu þær áherslu á mikilvægi kvenna í verkalýðsbaráttunni og þá vegferð sem enn er fram undan í jafnréttismálum.

Hátíðin bar þess merki að 2025 hefur verið útnefnt kvennaár í verkalýðshreyfingunni. Markmiðið með kvennaárinu er að draga fram framlag kvenna til verkalýðshreyfingarinnar í fortíð og samtíð, styrkja stöðu kvenna innan hreyfingarinnar og vekja athygli á þeim sértæku áskorunum sem konur mæta á vinnumarkaði. Sérstök áhersla er lögð á að konur gegni lykilhlutverkum í allri dagskrá ársins og það speglaðist vel í dagskrá dagsins.

Tónlistaratriði voru í höndum Júlí Heiðars og Dísu, og Leikfélag Hveragerðis vakti mikla kátínu með skemmtilegum lögum úr Ávaxtakörfunni. Fimleikadeildin sá um andlitsmálun fyrir börnin og boðið var upp á kaffi og veitingar.

Mæting var góð, mikil ánægja ríkti meðal gesta og hátíðin þótti afar vel heppnuð í alla staði. Með þátttöku sinni sýndu þeir sem tóku þátt glæsilega samstöðu og samhug í þágu réttinda launafólks – og að þessu sinni með sérstaka áherslu á jafnrétti kynjanna og virka þátttöku kvenna.

Til hamingju með daginn okkar 1. maí. Við sköpum verðmætin.

Upp er runnið heilmikið kvennaár og hafa konur verið kosnar til helstu embætta í okkar samfélagi síðustu misseri. Flottar konur sem við getum verið stolt af. Forsetinn, biskupinn, formenn stjórnmálaflokka, borgarstjórinn og rektor Háskóla Íslands svo eitthvað sé nefnt. Samkvæmt þessu ætti íslenskt samfélag að vera á nokkuð góðum stað hvað varðar jafnrétti en því miður endurspeglar þetta ekki raunveruleika jafnréttis.

Hvort sem litið er til launafólks, aðvinnurekenda eða starfa er íslenskur vinnumarkaður mjög kynskiptur (SB ASÍ) Á almenna markaðnum eru starfandi um 160 þúsund á meðan það eru tæp 60 þúsund á opinbera markaðnum (hjá ríki og sveitarfélögum). Á meðan hlutfall iðnaðarmann er 90% karlar eru 70% skrifstofufólks konur. Konur í meirihluta sinna fræðslustarfsemi, heilbrigðis og félagsþjónustu. Starfandi í hlutastarfi á bilinu 25-64 ára eru 8,2% karlar á móti 24,3% konur. Í nýútkominni skýrslu Vörðu (rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins) sýnir að 73% kvenna segja ástæðu fyrir hlutastarfi vera til að auðvelda samræmi milli fjölskyldu og einkalífs. Engin karl valdi sér hlutastarf vegna fjölskylduaðstæðna. Árið 2023 mældist munur í atvinnutekjum 21,9%. Þetta sýnir mismunandi vinnuframlag kynjanna í launaðri og ólaunaðri vinnu. Konur vinna mikla vinnu inn á heimilinu sem ekki er metin til launa. Karlar unnu að jafnaði 7 klst fleiri tíma á viku. Konur fara fyrr af vinnumarkaði og að jafnaði draga barneignir úr atvinnuþátttöku kvenna. Ráðstöfunartekjur mærða lækka um 30-40% við fæðingu barns á meðan ráðstöfunartekjur feðra lækka lítillega við fæðinu barns. Í samfélagsgerðinni okkar er framlag karla og kvenna ólikt metið. Umönnunarábyrgð er að stærstum hluta á herðum kvenna og takmarkar möguleika þeirra á vinnumarkaði sem hefur áhrif á launatekjur.

Nú eru liðin 50 ár frá kvennafrídeginum og af því tilefni hefur árið í ár verið tileinkað kvennabaráttunni. Árið 1975 tóku kvennasamtök, kvenfélög og stéttarfélög sig saman og skipulögðu dag þar sem konur lögðu niður vinnu. Þó margt hafi breyst þá er langt í land með ná fullu jafnrétti. Í hálfa öld hafa konur krafist aðgerða í þágu jafnréttis. Þann 24. október sl. lögðu 100.000 konur og kvár niður störf til þess að krefjast breytinga. Það viðgengst margvíslegt misrétti því miður, kynbundið ofbeldi, slæm staða kvenna af erlendum uppruna, konur með fötlun láglaunakonur svo dæmi séu tekin. Það er af nógu að taka og baráttan heldur áfram. Áfram stelpur.
Það er margar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum ekki aðeins að standa vörð um þau réttindi sem við þegar höfum náð við þurfum að velta fyrir okkur hvar mun íslenkst launafólk standa þegar misvitrir þjóðarleiðtogar stórþjóða gefa út yfirlýsingar hvern dag sem snertir okkur öll. Hvernig komast svona menn til valda?

Okkur berast fréttir af auknu ofbeldi á hverjum degi. Við þurfum að gæta að okkur í samskiptum, orðræðunni og almennt í mannlegum samskiptum. Orðræðan í samfélaginu er farin að sjást í orði og æði unga fólksins. Öfgafullar skoðanir eru í auknum mæli að birtast okkur. Algengar birtingarmyndir eru meðal annars stafrænt einelti, hótanir, mynddreifing án samþykkis og kynferðislegt áreiti. Á samskiptamiðlum má sjá hverjir hafa hæst í hvers konar umræðum sem að geta haft mótandi áhrif á ákveðna hópa. Hvernig í ósköpunum gerðist þetta af hverju er það fréttaefni að ráðast á persónur og hreinlega slátra þeim á opinberum miðlum. Það virðist engum líða vel í þessu umhverfi. Það er orðið umhugsunarvert þegar sá/sú sem er með mesta „strigakjaftinn“ og árásargjarna umræðu fær allt það pláss sem viðkomandi óskar eftir í fjölmiðlum/á samfélagsmiðlum. Það hefur verið talað um hinn þögla meirihluta sem tekur ekki þátt í umræðunni vegna þess hve ómálefnaleg hún er. Fólk sem lætur ekki draga sig niður á þetta plan skiljanlega þar sem rök og staðreyndir víka fyrir fordómum, tilfinningum og árásargirni.

Í samfélagi þar sem við eigum öll samleið skipta samskipti öllu máli og hvernig við komum fram við hvert annað. Verum fyrirmynd fyrir börnin okkar. Við mótum umhverfið okkar, látum það einkennast af hlýju umburðarlyndi og virðingu það kostar ekkert.

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.

1. maí 2025

Báran hvetur allt félagsfólk til þess að fjölmenna í kröfugöngu og mæta í hátíðarkaffi á Hótel Selfoss eftir göngu í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins þann 1. maí. Dagskráin er fjölbreytt að venju:

Lúðrasveit Selfoss og Hestamannafélagið Sleipnir leiða
kröfugöngu kl. 11:00 frá Austurvegi 56 að Hótel Selfossi
þar sem dagskrá og skemmtun fer fram.

Ræðumenn
Halla Gunnarsdóttir
formaður VR
Frá námsmönnum, FSU
María Friðmey Jónsdóttir

Júlí og Dísa taka lagið
Leikfélag Hveragerðis flytur nokkur lög
úr Ávaxtakörfunni

Fimleikadeildin sér um
andlitsmálun

Kaffi og veitingar

Hlökkum til að sjá ykkur.

Kjarasamningsbundnar launahækkanir í apríl

Starfsgreinasambandið fyrir hönd Bárunnar og fleiri stéttarfélaga vill minna félagsmenn á að ganga vel úr skugga um hvort kjarasamningsbundnar launahækkanir skili sér þegar laun fyrir aprílmánuð verða greidd út um næstu mánaðarmót. Annars vegar er um að ræða kauptaxtahækkanir á almennum vinnumarkaði hins vegar hækkanir hjá þeim sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum. Kauptaxtar sambandsins við áðurnefnda aðila hafa verið uppfærðir samkvæmt þessu en í þeim geta félagsmenn m.a. fundið út sín laun út á einfaldan hátt og skoðað nýjar launatöflur.

Starfsfólk á almennum vinnumarkaði:
Lágmarkskauptaxtar kjarasamninga SGS og SA hækkuðu um 0,58% frá og með 1. apríl 2025 vegna kauptaxtaauka.
Kauptaxtar SGS og SA
Kauptaxtar SGS og SA í veitinga-, gisti- og þjónustustarfsemi
Launahækkanir SGS og SA – reiknivél

Laun þeirra sem eru ekki á töxtum og þ.a.l. yfir lágmarkstöxtum kjarasamnings hækka ekki, en þess þarf þó að gæta að laun séu eftir breytinguna að lágmarki jafngóð og skv. kauptöxtum kjarasamnings.

Starfsfólk hjá ríkinu:
Ný launatafla tók gildi frá og með 1. apríl 2025. Hækkun grunnþreps í launatöflu er 23.750 kr., en þó að lágmarki 3,5%.
Kauptaxtar SGS og ríkisins.

Starfsfólk sveitarfélaga:
Ný launatafla tók gildi frá og með 1. apríl 2025. Hækkun grunnþreps í launatöflu er 23.750 kr., en þó að lágmarki 3,5%.
Kauptaxtar SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Vegna aðalfundar 14. maí 2025

Uppstillingarnefnd Bárunnar, stéttarfélags hefur sent frá sér tillögu að lista samkvæmt lögum sem samþykkt voru á aðalfundi 2017. Nefndin leggur fram tillögu að lista til stjórnar og nefnda Bárunnar, stéttarfélags á aðalfundi félagsins sem haldinn verður 14. maí 2025.

Listi uppstillingarnefndar liggur frammi til kynningar hjá Bárunni, stéttarfélagi Austurvegi 56, Selfossi og á heimasíðu félagsins frá og með 27.03 2025.
Frestur til að bjóða sig fram og/eða bera fram aðrar tillögur til uppstillinganefndar er til og með 30. apríl 2025 og skilist á skrifstofu félagsins að Austurvegi 56 Selfossi.

Read more „Vegna aðalfundar 14. maí 2025“

Kauptaxtaauki tekur gildi 1. apríl

Forsendunefnd kjarasamninga hefur úrskurðað að kauptaxtaauki virkjast frá og með 1. apríl næstkomandi. Kauptaxtaaukinn felur í sér að lágmarkstaxtar kjarasamninga hækka um 0,58%. Forsendur þessa eru hækkun launavísitölu á almennum markaði umfram umsamdar taxtahækkanir á fyrsta tímabili stöðugleikasamningsins.

Samkvæmt kjarasamningum á árunum 2024-2028, ber nefndinni að fylgjast með efnahagslegum forsendum og mögulegum áhrifum á markmið samninga um minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Einnig verður lagt mat á samningsforsendur í september 2025 og september 2026.

Yfirlýsing launa- og forsendunefndar í heild sinni

Launa- og forsendunefnd kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sem skipuð er fulltrúum frá ASÍ og SA, kom saman til fyrsta fundar föstudaginn 7. mars. Á fundinum var úrskurðað að kauptaxtaauki virkjast frá og með 1. apríl næstkomandi. Kauptaxtaaukinn felur í sér að kauptaxtar kjarasamninga hækki um 0,58% frá og með 1. apríl og skýrist af því að launavísitala á almennum markaði hækkaði umfram umsamdar taxtahækkanir viðmiðunartaxtans á fyrsta tímabili stöðugleikasamningsins.

Nefndinni, sem starfar samkvæmt kjarasamningum á árunum 2024-2028, ber að fylgjast með framvindu efnahagslífs og mögulegum áhrifum á markmið samninga um minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Nefndinni ber jafnframt að leggja mat á samningsforsendur í september 2025 og september 2026.

Verðbólga gengið niður og kaupmáttur aukist

Meginmarkmið samninganna er að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Verðbólga mældist um 8% þegar undirbúningur kjarasamninga hófst haustið 2023. Forsendunefndin er sammála um að árangur samninganna hafi verið merkjanlegur, verðbólga mælist í dag 4,2% en 2,7% ef horft er fram hjá áhrifum húsnæðisverðs. Kaupmáttur launa hefur aukist á fyrsta ári samnings.

Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferli í október síðastliðnum og hafa stýrivextir lækkað um 1,50 prósentur frá gerð samninga. Á sama tíma hefur aðhald peningastefnunnar aukist og raunvextir hækkað.

Aukin óvissa um efnahagshorfur

Forsendur eru fyrir áframhaldandi hjöðnun verðbólgu á næstu mánuðum og þar með frekari lækkun vaxta. Hins vegar hefur alþjóðleg óvissa um efnahagshorfur aukist og hætta á að Ísland verði fyrir áhrifum af vaxandi átökum á alþjóðavettvangi og viðskiptastríðum. Forsendunefndin telur mikilvægt að stjórnvöld, Seðlabanki Íslands og fyrirtæki vinni áfram að markmiðum samninganna og skapi þannig forsendur fyrir áframhaldandi minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Þar telur nefndin brýnt að ríki og sveitarfélög vinni með peningastefnunni, gæti hófs í álagningu gjalda og taki markviss skref í íbúðauppbyggingu.

Frétt tekin af heimasíðu ASÍ www.asi.is

8. mars – 8 konur og 8. sýningin.

Við hér á Suðurlandi tökum við fagnandi á móti kvennaárinu 2025. Báran, stéttarfélag, Foss (félag opinbera starfsmanna á Suðurlandi) og Verkalýðsfélag Suðurlands buðu félagskonum í leikhús á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars. Leikfélag Selfoss er með sýninguna „Átta konur“ sem fjallar um átta konur. Verkinu leikstýrir Rakel Ýr Stefánsdóttir.

Félögunum þótti vel við hæfi að nýta það sem er í nærumhverfinu. Þetta er frábær sýning og allir skemmtu sér konunglega.

Takk fyrir okkur og þið sem mættuð takk fyrir samveruna.

 

Konur styðja konur, saman erum við sterkastar!

🎭 Boð í leikhús

Félagskonum er boðið í leikhús laugardaginn 8. mars kl. 18:00 í Leikfélagi Selfoss að
fagna kvennaárinu 2025!

Leikverkið Er „Átta konur“ eftir franska leikskáldið Robert Thomas. Verkið var frumflutt í
París árið 1961 og naut mikilla vinsælda. Árið 2002 var gerð kvikmynd byggð á leikritinu.

Mömmur, ömmur, dætur og vinkonur eru velkomnar!

🎟 Hver félagskona getur fengið tvo miða.

📩 Skráning miða fer fram með tölvupósti á:
👉 vs@vlfs.is – skráningu þarf að fylgja nafn, kennitala og stéttarfélag.

Takmarkað magn miða og fyrirvarinn stuttur
Svo endilega skráið ykkur sem fyrst

Við hlökkum til að njóta kvöldsins með ykkur