Við vinnum fyrir þig

Translate to

Reiknivél fyrir félagsmenn

Það er mikið hagsmunamál fyrir launafólk að geta farið yfir með tiltölulega einföldum hætti hvort laun og aðrar greiðslur séu í samræmi við kjarasamninga, þ.e. kannað hvort þeirra launaseðill sé réttur.

Starfsgreinasambandið, fyrir hönd allra sinna aðildarfélaga, hefur látið setja upp reiknivél þar sem félagsmenn geta nýtt sér til að reikna út laun sín, kannað hvort launaseðlar þeirra séu réttir og annað það sem snertir margvíslegar greiðslur.

Leitast hefur verið við að hafa reiknivélina eins einfalda í notkun og kostur er og má því búast við að hún nái ekki utan um öll möguleg tilfelli. Hér er um fyrstu útgáfu að ræða og m.a. á eftir að leggja lokahönd á þýðingar og fleira. Notendur eru beðnir að koma ábendingu og athugasemdum á framfæri á sgs@sgs.is.

Með þessu framtaki er verið að leitast við að efla þjónustuna við félagsmenn og gera þeim auðveldara að gæta sinna hagsmuna og kjara.

Reiknivél SGS

Vörukarfan hækkað um 0,5%-2,6% í matvöruverslunum frá því í maí

Á fimm og hálfum mánuði eða frá því í lok maí fram í byrjun nóvember hefur vörukarfa ASÍ hækkað um 0,5%-2,6% í sjö verslunarkeðjum en vörukarfan endurspeglar almenn matarinnkaup meðalheimilis.

Mest hækkaði vörukarfan í Nettó, um 2,6% og næst mest í Bónus, 2,4%. Minnst hækkaði vöruakarfan í Hagkaup milli mælinga eða um 0,5% en í 6 tilfellum af 7 hækkaði vörukarfan 1,5%-2,6%. Verð hækkaði í flestum vöruflokkum en minnstu verðhækkanirnar voru í flokki grænmetis og ávaxta og kjötvara og lækkaði verð í þeim vöruflokkum í einhverjum tilfellum. Verðmælingar fóru fram vikurnar 18-25. maí og 2.- 9. nóvember 2020.

Vörukarfan hækkar um 2,6% í Nettó og 2,4% í Bónus
Mest hækkaði vörukarfan eins og áður segir í Nettó um 2,6%. Munar þar mestu um hækkun drykkjarvara 5,6% og hækkun á mjólkurvörum og ostum, 5,1%. Næst mest hækkaði vörukarfan í Bónus, 2,4% en þar hækkuðu grænmeti og ávextir mest eða um 6,8% og þá hækkuðu mjólkurvörur og ostar um 4,5%.

Minnst hækkaði vörukarfan í Hagkaup, 0,5% en þar lækkaði verð á kjötvöru um 1,8% milli mælinga. Sykur, súkkulaði og sælgæti lækkaði einnig lítillega í verði í Hagkaup en verð á brauði- og kornvörum stóð nánast í stað milli mælinga. Drykkjarvörur hækkuðu þó mikið í Hagkaup eða um 6,2%.

Af lágvöruverðsverslununum Bónus, Krónunni og Nettó hækkaði verð minnst í Krónunni, um 1,5% samanborið við 2,4% verhækkun á vörukörfunni í Bónus og 2,6% í Nettó. Ef litið er til annara verslana sem teljast ekki til lágvöruverðsverslana og eru ýmist með lengri opnunartíma eða eru staðsettar á fleiri stöðum á landinu má sjá að vörukarfan í Iceland hækkar mest eða um 2,1% samanborðið við 1,8% hækkun á vörukörfunni í Kjörbúðinni og 1,7% í Krambúðinni.

 

 

 

Verð á kjötvöru hækkar lítið og grænmeti og ávextir lækka í verði í sumum tilfellum
Ef verðhækkanir eru skoðaðar eftir vöruflokkum má í mörgum tilfellum sjá að töluverðar verðhækkanir í flestum vöruflokkum. Í mörgum tilfellum má sjá miklar verðhækkanir á brauði- og kornvöru, mjólkurvörum og og ostum og á drykkjarvöru. Sykur, súkkulaði og sælgæti hækkar einnig töluvert í sumum verslunum en lítið í öðrum. Þá hækkar ýmis matavara mikið í sumum verslunum en í þeim flokki eru vörur eins og fiskur, pakkavörur og niðursuðuvörur.

Grænmeti og ávextir og kjötvara hækkar minnst og sjaldnast í verði milli mælinga. Í sumum verslunum lækkar verð á grænmeti og ávöxtum milli mælinga en grænmeti og ávextir er sá flokkur matvara sem sveiflast hvað mest í verði. Mjög miklar verðhækkanir urðu á grænmeti og ávöxtum í vor eftir að Covid faraldurinn fór af stað og í síðustu verðmælingu sem náði yfir heilt ár mátti sjá að grænmeti hafði í mörgum tilfellum hækkað í kringum 20%.

Í flestum tilfellum hækkar verð á kjötvörum í matvöruverslunum lítið eða lækkar milli mælinga en undantekningin er 2,4% hækkun á kjötvörum í Iceland.

Í verðtöflunni hér að neðan má sjá verðhækkanir í einstaka vöruflokkum í verslunum. Ef ýtt er á heitið á vöruflokknum raðast verslanirnar eftir því í hvaða verslun viðkomandi vöruflokkur hækkaði mest/minnst.

 

Hér má nálgast fyrri mælingu á vörukörfunni sem náði yfir tímabilið 6.-12. maí 2019 og 18-25. maí 2020.

Um könnunina
Vörukarfan var framkvæmd vikurnar 18-25. maí 2020 og vikuna 2.- 9. nóvember.

Verðlagseftirlitið mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar matar- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, og safa. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðal heimilis.

Verðbreytingar voru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Hagkaup, Kjörbúðinni, Iceland og Krambúðinni.
Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar milli verðmælinga. Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum því haft áhrif á niðurstöðurnar.

Óheimilt er að vitna í niðurstöðurnar í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Ensk og pólsk þýðing á aðalkjarasamningi SGS og SA

SGS hefur látið þýða aðalkjarasamning SGS og SA yfir á ensku og pólsku og má finna þessar útgáfur á heimasíðu félagsins. Í þessum þýddu útgáfum er fyrirvari efst á hverri blaðsíðu um að upprunalega íslenska útgáfan hafi alltaf forgang ef upp kemur ágreiningur. Greiðasölusamningurinn verður svo vonandi klár á næstu vikum, þ.e. bæði á ensku og pólsku.

Þessi útgáfa er liður í því að auka upplýsingagjöf og þjónustu SGS og félaganna gagnvart okkar fjölmörgu erlendu félagsmönnum og vonandi að þetta verði til þess að fleiri verði betur upplýstir um sín réttindi.

English and Polishtranslation of the collective agreement between SA and SGS is now available online.

Drífa Snædal forseti ASÍ – Desemberuppbót en ekki biðraðir

Við vitum öll að sú kreppa sem nú gengur yfir kemur afar misjafnt niður á fólki eftir aldri, atvinnugreinum og búsetu. Ósk eftir aðstoð frá hjálparsamtökum hefur aukist til muna og sama má segja um beiðnir um fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Við hljótum að vera sammála um að draga úr neyðinni og það sé smánarblettur að fólk þurfi að leita á náðir hjálparsamtaka til að geta haldið jól. Það minnsta sem hægt er að gera einmitt núna er að tryggja atvinnuleitendum desemberuppbót sambærilega þeirri sem er að finna í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, þ.e. 94.000 krónur. Það er uppbótin sem aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um sem viðmið og það er eðlileg krafa að atvinnuleitendur fái slíka uppbót. Að sama skapi skal tryggja uppbót fyrir öryrkja sem kemur þeim ekki í koll í harkalegum skerðingum þannig að desemberuppbótin verði skatta- og skerðingalaus. Gerum allavega þetta rétt og drögum úr neyðinni!

Í vikunni birti OECD ótrúlega skýrslu um samkeppnismat á Íslandi. Það er eins og dustað hafi verið rykið af skýrslu frá síðustu aldamótum og úreltar kreddur um að draga úr eftirliti séu í sjálfu sér góðar óháð innihaldinu. Við verðum að hafa í huga að reglur um mannvirki eins og aðrar reglur eru til að vernda heilsu og velferð fólks. Það verður að vera í forgrunni við allar ákvarðanir að við séum ekki að slaka á kröfum um velferð. Sama má segja um tillögurnar um að draga úr löggjöf um löggiltar starfsgreinar – slíkar reglur eru settar til að tryggja fagmennsku og gæði umfram allt annað og við eigum að hafa þann metnað áfram. Að „draga úr samkeppnishindrunum“ í leigubifreiðaakstri er til að mynda glórulaus tillaga um að sleppa hark-hagkerfinu lausu og verður til þess eins að draga úr öryggi farþega og lækka tekjur þeirra sem hafa lífsviðurværi sitt af leigubifreiðaakstri. Gerum ekki sömu mistök og aðrar þjóðir í þeim efnum!
Endurreisum atvinnulífið á tryggum ráðningarsamböndum, fagmennsku og öryggi!

Góða helgi,
Drífa

Ný hagspá ASÍ 2020-2022

Í ár dregst verg landsframleiðsla saman um 7,9% í sögulegum samdrætti, þeim mesta frá árinu 1920. Gera má ráð fyrir hægum viðsnúningi í efnahagslífi á næsta ári en efnahagsleg viðspyrna mun þó alfarið ráðast af getu yfirvalda hérlendis og erlendis til að ná böndum á útbreiðslu COVID-19. Spá ASÍ gerir ráð fyrir því að síðari hluta næsta árs verði faraldurinn á undanhaldi og að millilandaferðalög hafi tekið við sér að nýju. Þetta er sett fram með þeim fyrirvara að það er ekki í valdi ASÍ að spá fyrir um þróun COVID-19. Að teknu tilliti til þessa mælist hagvöxtur þó einungis 1,8% á næsta ári en efnahagslegur bati mun verða merkjanlegri árið 2022 með 3,2% vexti þjóðarútgjalda og 3,4% hagvexti.

Mikil óvissa ríkir um efnahagslega framþróun um þessar mundir. Ómögulegt er að segja til um útbreiðslu COVID-19, afléttingu ferðatakmarkana, þróun bóluefnis og fleiri aðgerða sem hafa lykiláhrif á efnahagslífið. Spá ASÍ er ein sviðsmynd en horfurnar gætu hæglega verið bjartari eða dekkri.

Útflutningur dregst saman um 28% milli ára og bati verður hægari en væntingar voru um í fyrstu. Spáð er 9,2% vexti útflutnings á næsta ári og 11,4% árið 2021 en sá vöxtur byggir á því að farið verði að rofa til í millilandaferðalögum á síðari hluta næsta árs.

Góð fjárhagsstaða heimila í aðdraganda faraldursins studdi við einkaneyslu á þessu ári. Samdráttur í einkaneyslu mældist eingöngu 4% á fyrri helmingi ársins 2020 en útlit er fyrir að einkaneyslan dragist meira saman á síðari hluta ársins. Skýr mynd af fjárhagsstöðu heimilanna liggur ekki fyrir en ljóst er að gríðarlegur fjöldi heimila hefur orðið fyrir þungu höggi í kjölfar COVID-19 með vaxandi atvinnuleysi og tekjumissi. Vaxtalækkanir, greiðsluhlé lána, úttekt séreignasparnaðar og fleiri ráðstafanir hafa létt undir með heimilum og stutt neyslu þeirra yfir sumarmánuðina. Þó er hætta á að afleiðingar fjárhagsvanda komi fram á næsta ári þegar atvinnulausir missa tekjutengdar atvinnuleysistryggingar og draga mun úr áhrifum af öðrum úrræðum á borð við greiðsluhlé. Spáð er 5,3% samdrætti í einkaneyslu á þessu ári og útlit er fyrir að vöxtur verði hægur á næsta ári eða einungis 1,7%.

Hrun í komum ferðamanna hefur haft alvarlega afleiðingar á vinnumarkaði. Viðkvæmar aðstæður ríktu á vinnumarkaði áður en útbreiðsla Covid-19 gerði vart við sig en atvinnuleysi hafði þegar byrjað að aukast á síðasta ári. Alls voru yfir 18 þúsund einstaklingar án atvinnu í september mánuði og þar af höfðu 3.274 verið án atvinnu í meira en tólf mánuði. Atvinnuleysi mælist hátt út spátímann en samkvæmt spá ASÍ verður 7,8% atvinnuleysi á þessu ári og mun það fara vaxandi fram á næsta ár þegar það verður 8,6%. Draga mun úr atvinnuleysi 2022 þegar það fer í 6,9% en sá bati á vinnumarkaði er háður viðsnúningi í ferðaþjónustu.

Verðbólga hefur farið vaxandi á árinu og mældist 3,6% í október. Veiking á gengi krónunnar hefur leitt til verðhækkana á innfluttum vörum en á móti hefur dregið úr verðbólguþrýstingi með lægra hrávöruverð og lækkun vaxta. Verðbólga verður yfir markmiði Seðlabankans á næsta ári, um 3,3% og draga mun úr verðbólguþrýstingi er líður á árið. Árið 2022 má búast við að hún verði í kringum 2,5% eða í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Horfur í efnahagsmálum – hagspá ASÍ 2020-2022

Enn er beðið eftir févítinu

Föstudagspistill Drífu Snædal forseta ASÍ vakti mikla athygli. Hún fjallaði um launaþjófnað. bið eftir lagasetningu um févíti og hertar samkomutakmarkanir. Hér fyrir neðan pistillinn:

Launafólk á Íslandi er orðið langeygt eftir lagasetningu um févíti. Grunnhugmyndin er að þegar launafólk verður fyrir launaþjófnaði af hendi atvinnurekenda fái það bætur fyrir. Ekki að bæturnar renni í ríkissjóð eða eitthvert annað heldur að viðkomandi einstaklingur fái bæturnar. Þetta þarf að gerast hratt og vera skilvirkt því það getur fylgt því mikill kostnaður að verða fyrir launaþjófnaði og enn meiri kostnaður ef bíða þarf lengi eftir upggjöri. Margir hafa orðið til þess að flækja málin út frá lagatæknilegum sjónarmiðum en ég minni á að löggjöfin á að þjóna okkur en ekki við henni. Ef við getum verið sammála um grunnhugsunina, sem erfitt er að sjá að heiðarlegt fólk geti verið ósammála, þá ættum við að geta smíðað löggjöf í kringum það.

Við höfum nú beðið í eitt og hálft ár eftir tillögum úr ráðuneytinu, verkalýðshreyfingin hefur sjálf lagt til útfærslu en enn bíðum við. Það gengur ekki lengur! Komum þessu frá þannig að hægt sé að einbeita sér að öðrum risa verkefnum. Þar ber hæst að verja heimili sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli vegna Covid og aðstoða jaðarsetta hópa sérstaklega.

Þær voru erfiðar fréttirnar af hertu samkomubanni og munu þær vafalaust breyta vinnuumhverfi margra. Ég tek undir með yfirvöldum þegar ég hvet til samstöðu um hertar aðgerðir. Það er ekkert annað í stöðunni en að gera okkar allra besta til að sigrast á veirunni. Ef vinnustaðir gæta ekki nógu vel að sóttvörnum hvet ég launafólk til að hafa samband við sitt stéttarfélag eða Vinnueftirlitið. Við eigum öll að vera örugg í vinnunni. Að lokum sendi ég baráttukveðjur til framlínustarfsfólks. Störf ykkar eru ómetanleg á þessum erfiðu tímum.

Drífa Snædal

Sjá frétt á heimasíðu ASÍ

Hurðin verður læst en samt verður opið

Vegna hertra aðgerða stjórnvalda hefur verið tekin sú ákvörðun að loka skrifstofu Bárunnar að Austurvegi 56 ótímabundið. Starfsfólk Bárunnar mun vinna í Fjarvinnu og verður hægt að hafa samband við okkur í gegnum tölvupóst (baran@baran.is) og síma (480 5000). Einnig má koma með gögn í póstkassa okkar sem er á jarðhæð Austurvegs 56.

Við hvetjum félagsmenn að hika ekki við að hafa samband við okkur.  Einnig langar okkur að hvetja alla til þess að fylgjast vel með aðgerðum yfirvalda og fara eftir þeim, frekari upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda og hvernig skal huga að sóttvörnum fyrir þig og þína má finna á www.covid.is .

 

Kær Kveðja,

Starfsfólk Bárunnar, Stéttarfélags

 

Due to the government’s measures to work against covid-19, the decision has been made to close Báranns office at Austurvegur 56 indefinitely. Báranns staff will be working from home  and it will be possible to contact us via e-mail (baran@baran.is) and telephone (480 5000). You can also bring data to our mailbox on the ground floor of Austurvegur 56.

We encourage members not to hesitate to contact us. We would also like to encourage everyone to monitor and follow the actions of the authorities, more information on the actions of the government and how to keep you and your family safe can be found on www.covid.is .

 

Yours sincerely

Staff of Báran, Trade Union

Full fjármögnun námskeiða hjá NTV

 

 

Gerður hefur verið samningur við NTV skólann um fulla fjármögnun á 6 námskeiðum/námsleiðum sem allt eru starfsþróunarmiðuð og verkefnadrifin fjarnámskeið sem boðið verður upp á í samstarfi við aðildarfélög Landsmenntar, , Ríkismenntar, Sveitamenntar og Sjómenntar. Félagsmenn aðildarfélaga sjóðanna munu fá námskeið að fullu niðurgreidd.

Einstaklingar skrá sig hjá NTV skólanum eða í gegnum sitt stéttarfélag og mun skólinn senda reikninga beint á skrifstofu fræðslusjóðanna.

Þátttakendur skrá sig á námskeið á slóðinni https://www.ntv.is/is/namskeid/nam-i-bodi-stettarfelags

Verkefnið er tilraunaverkefni fram að áramótum og munu námskeiðin hefjast um mánaðarmótin okt/nóv nk. Öll námskeiðin, námsefni, verkefnavinna, verkefnaskil og samskipti eru inni á nemendaumhverfi NTV skólans í gegnum nettengingu.

Námskeiðin sem um ræðir eru:
Bókhald Grunnur 8 vikur (120 kes.)
Digital marketing 7 vikur (112 kes.)
Frá hugmynd að eigin rekstri 4 vikur (60 kes.)
App og vefhönnun 6 vikur (90 kes.)
Vefsíðugerð í WordPress 4 vikur (50 kes.)
Skrifstofu og tölvufærni 6 vikur (96 kes.)

Nánari lýsingu á námskeiðum má finna með því að smella á slóðina:

https://www.ntv.is/is/um-ntv/yfirlit-flokka/view/stettarfelags-namskeid