Við vinnum fyrir þig

Translate to

Ályktun frá trúnaðarráði Bárunnar, stéttarfélags.

Báran, stéttarfélag harmar þá stöðu sem launafólk innan ASÍ hefur orðið vitni að vegna átaka innan hreyfingarinnar (ASÍ) þar sem ráðist hefur verið að starfsfólki hreyfingarinnar, forseta ASÍ og fleirum og vegið að grundvallarréttindum launafólks.

Trúnaðarráð Bárunnar, fordæmir þá ósvífnu og óskiljanlegu ákvörðun Baráttulista stjórnar Eflingar að segja öllu starfsfólki á skrifstofu félagsins upp störfum. Slíkar aðgerðir hafa til þessa aðeins tíðkast í fyrirtækjarekstri og þá sem algjört neyðarúrræði ef hagræða hefur átt í rekstri. Ein af frumskyldum stéttarfélaga er að verja rétt fólks til vinnu og þeim ber skylda til að sýna gott fordæmi og stuðla þannig að því að réttindi vinnandi fólks séu ávallt sett ofar öðrum hagsmunum. Velferð starfsfólks á að vera í fyrsta sæti.

Trúnaðarráð Bárunnar lýsir yfir stuðningi við forseta ASÍ, Drífu Snædal sem komið hefur starfsfólki Eflingar til varnar í þessu dæmalausa máli. Trúnaðarráð Bárunnar átelur jafnframt að hvorki Miðstjórn ASÍ né Starfsgreinasamband Íslands hafa séð ástæðu til að taka afstöðu með starfsfólki og grundvallargildum verkalýðshreyfingarinnar með því að fordæma skilyrðislaust framgöngu meirihluta stjórnar Eflingar. Þessi framganga gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir baráttu hreyfingarinnar fyrir betri kjörum.
Trúnaðarráð Bárunnar vekur jafnframt athygli á að mikill meirihluti starfsfólks Eflingar sem nú missir vinnuna eru konur en það dregur úr trúverðugleika hreyfingarinnar í baráttunni fyrir jafnrétti og aukinni virðingu fyrir kvennastörfum almennt.

Trúnaðarráð Bárunnar fordæmir það ofbeldi sem einkennt hefur umræðuna í kringum málefni Eflingar. Félagsfólk í verkalýðshreyfingunni á skýlausa kröfu til þess að forsvarsmenn hreyfingarinnar sýni háttsemi í orðavali og ráðist ekki á félaga sína eða starfsfólk með yfirgangi og ósannindum. Hreyfingin og félagar hennar verðskulda meiri virðingu en umræðan undanfarna mánuði hefur borið vitni um. Ofbeldi á hvergi að þrífast og síst af öllu innan verkalýðshreyfingarinnar. Trúnaðarráð Bárunnar lýsir yfir fullum stuðningi við starfsfólkið.
Trúnaðarráð Bárunnar hafnar útskýringum stjórnar Eflingar og telur einsýnt að ástæða uppsagnanna sé krafa um hollustu við formann og stefnu hans umfram kröfur um fagmennsku og þjónustu við félagsfólk.

Trúnaðarráð Bárunnar furðar sig á framgöngu formanns SGS og VR/LÍV sem verja aðför meirihluta stjórnar Eflingar að starfsfólki og telur þá hafa brugðist trausti verkalýðshreyfingarinnar sem formenn tveggja stærstu landssambandanna innan ASÍ. Ennfremur hafa þeir brugðist þeim skyldum sínum að verja starfsfólki gegn ósvífinni aðför að réttindum þess. Stjórn Bárunnar telur einsýnt að ef verkalýðshreyfingin treystir sér ekki til að verja eigið starfsfólk þá verði erfitt að taka slaginn fyrir almenna félagsmenn vegna þess fordæmis sem þetta gefur atvinnurekendum.

Kæru félagar
Meginhlutverk stéttarfélaganna er að semja um kjarasamninga. Báran, stéttarfélag hefur nú fengið niðurstöður úr kjaramálakönnun félagsins. Það er ekki annað hægt en að fagna áhuga þeirra og ekki síst finna samhljóminn með forystu hreyfingarinnar. Það eru skýr skilaboð frá grasrótinni að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á, að ná upp lægstu launum. Meðal annars að afnema tekjutengingar á lífeyrisgreiðslur, auka aðgengi að fullorðinsfræðslu, tryggja lága vexti fyrir íbúðarhúsnæði og tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir alla án íþyngjandi kostnaðar. Þetta samræmist þeirri stefnu sem Alþýðusamband Íslands hefur lagt áherslu á og sjáum við ekki ágreining meðal félagsmanna við stefnu og málflutning Drífu Snædal fyrir hönd ASÍ.
Kæru félagar styrkur okkar er fjöldinn, fjölbreytileikinn, ólíkar áherslur og lýðræðislegt samtal án þess fordæmalausa ofbeldis sem hefur viðgengist.
Fyrir hönd Bárunnar, stéttarfélags Selfossi

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður.

Frá uppstillingarnefnd

Tillaga uppstillingarnefndar til aðalfundar Bárunnar, stéttarfélags 16. maí 2022 Stjórn og nefndir Bárunnar stéttarfélags fyrir aðalfund 2022

Formaður (annað hvert ár):
Halldóra Sigríður Sveinsdóttir

Meðstjórnendur (annað hvert ár):
Jón Þröstur Jóhannesson
Ragnhildur Eiríksdóttir

Varastjórn (kosið á hverju ári):
1. Hildur Guðjónsdóttir
2. Hjalti Tómasson
3. Sylwia Konieczna

Stjórn sjúkrasjóðs (annað hvert ár, kosið 2022)
Halldóra Sigríður Sveinsdóttir
Ragnhildur Eiríksdóttir
Hugborg Guðmundsdóttir
Ingvar Garðarsson
Marta Katarzyna Kuc

Til vara:
1. Guðmundur Kjartansson
2. Áslaug Halla Elvarsdóttir
3. Örn Bragi Tryggvason

Úthlutunarnefnd vinnudeilusjóðs: (fyrir hvern aðalfund)
Halldóra S Sveinsdóttir
Sigrún Sigurðardóttir
Sylwia Katarzyna Konieczna

Til vara:
1. Jóhanna Guðmundsdóttir
2. Alexander Örn Ingason

Kjörstjórn, Bárunnar stéttarfélags (fyrir hvern aðalfund):
Dagný Davíðsdóttir
Bryndís Rósantsdóttir

Til vara:
1. Hjalti Tómasson
2. Halldóra Sigríður Sveinsdóttir

Uppstillingarnefnd, Bárunnar stéttarfélags (fyrir hvern aðalfund):
Kristín Sigfúsdóttir
Sigrún Sigurðardóttir
Jóhanna Guðmundsdóttir

Til vara:
1. Hjalti Tómasson

Skoðunarmenn reikninga:
Þorleifur Sívertsen
Dagný Davíðsdóttir

Til vara:
1. Hugborg Guðmundsdóttir

Siðanefnd (annað hvert ár, 2023 næst).
Ekki kosið í ár.

Kvennaráðstefna ASÍ 2022

Kvennaráðstefna ASÍ „Fitjum upp á nýtt“ var haldin dagana 7. og 8. apríl síðastliðinn undir yfirskriftinni „Örugg afkoma og velferð kvenna“. Meginmarkmið ráðstefnunnar var að efla tengslanet kvenna og styrkja konur til meiri áhrifa innan verkalýðshreyfingarinnar. Í fyrsta sinn í 106 ára sögu Alþýðusambandsins er kvennaráðstefnan haldin undir forystu kvenforseta. Í karllægri verkalýðshreyfingu skiptir máli að konur séu í forsvari til jafns við karla. Innlegg þátttakendanna, sem flutt voru á ráðstefnunni, sneru að öryggi kvenna á vinnustöðum, vanmati á vinnuframlagi kvenna, bæði launuðu og ólaunuðu, og afkomu kvenna á efri árum.

Fréttabréf Bárunnar

Páskafundur trúnaðarmanna

Páskafundur trúnaðarmanna var haldinn mánudaginn 4. apríl á Hótel Selfoss þar sem trúnaðarmenn og stjórn félagsins komu saman og var farið yfir ýmis mál. Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur ASÍ hélt fyrirlestur um kjaramál og horfurnar í þeim efnum. Halldór Oddson lögfræðingur ASÍ fór yfir ógnir og tækifæri hjá samninganefndum og Fjóla Pétursdóttir lögfræðingur var með erindi um stöðu trúnðarmanna. Einnig var yfir niðurstöðu kjaramálakönnunina sem félagsmenn Bárunnar tóku þátt í og gaf félaginu góðar niðurstöður sem verða nýttar í komandi kjarasamningum. Halldóra formaður fór svo í lokin yfir kröfugerð félagsins og  endaði fundurinn svo með kvöldverði á hótelinu.

Laun hækka vegna hagvaxtarauka

Forsendunefnd ASÍ og SA sem starfar samkvæmt kjarasamningum hefur hist og rætt hagvaxtarauka kjarasamninga. Líkt og greint var frá nýverið (https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/nytt-manadaryfirlit-hagvaxtaraukinn-virkjast/) jókst landsframleiðsla á mann um 2,53% á síðasta ári. Þetta hefur þá þýðingu að hagvaxtarauki kjarasamninga hefur virkjast í fjórða þrepi.

Forsendunefnd ASÍ og SA hefur ákveðið að hagvaxtaraukinn komi til greiðslu 1. maí líkt og kveðið er á um í samningum. Launataxtar munu hækka um 10.500 kr. og almenn laun um 7.875 kr. frá 1. apríl og koma til greiðslu 1. maí.

Nú styttist í orlofsuppbótina

Samkvæmt kjarasamningum eiga félagsmenn rétt á að fá greidda orlofsuppbót/persónuuppbót, en það er föst fjárhæð sem atvinnurekendum er skylt að greiða starfsfólki sínu í maí/júní ár hvert. Uppbótin miðast við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu, inniheldur orlof og tekur ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum kjarasamninga. Áunna orlofsuppbót skal gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar.

Svona lítur orlofauppbótin út í ár

2022

Almennur vinnumarkaður

Orlofsuppbót er 53.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1. Júní.

Ríki

Orlofsuppbót er 53.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1.júní.

Sveitarfélög

Persónuuppbót er 53.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1. maí.

 

 

Páskakveðja frá Halldóru formanni

Kæru félagsmenn.

Núna fer allt að verða með eðlilegum hætti og vonandi allt að fara í eðlilegt horf í bili. Óvissan  er auðvitað þetta hræðilega stríð í Úkraínu sem ekki er ennþá séð fyrir endann á.

 Báran, stéttarfélag ásamt fimm öðrum félögum hafa gert kjaramálakönnun meðan félagsmanna fyrir verðandi kjarasamninga. Hér fyrir neðan fylgja niðurstöður könnunarinnar og mun kröfugerð félagsins byggja á þessum niðurstöðum.

niðurstöður kjaramálakönnunar

 

Núna loksins getum við haldið 1. maí hátíðlegan og hvet ég ykkur kæru félagar til að taka frá daginn.

Gleðilega páska til ykkur allra.

Kveðja,

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir

Föst störf hornsteinn norrænnar velferðar

Norræna verkalýðshreyfingin leggur þunga áherslu á að fastráðningar í full störf verði hin almenna regla í heilbrigðis- og umönnunargeiranum á Norðurlöndum.

Þetta er ein meginniðurstaða nýrrar skýrslu sem SAMAK, samstarfsnefnd alþýðusambanda og jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndum, hefur sent frá sér.

Í skýrslunni kemur fram að hlutfall fólks í hlutastörfum í umönnunar- og heilbrigðisgeiranum er hæst á Íslandi. Þvert á það sem á við um Danmörku, Noreg og Svíþjóð fer þetta hlutfall vaxandi hér á landi. Þá kemur og fram að í öllum löndunum eru konur í meirihluta þeirra sem eru í hlutastörfum og er hlutfallið einnig hæst á Íslandi.

Hægt er að lesa meira um málið hér

Verðlagseftirlit ASÍ

Verð á matvöru í Iceland að meðaltali 38% hærra en lægsta verð

Í verðkönnun ASÍ á matvöru og páskaeggjum sem framkvæmd þann 29. mars mældist mikill munur á verði milli verslana. Þannig var yfir 60% munur á hæsta og lægsta verði á 28 vörum af 141 í matvörukönnuninni, 40-60% verðmunur á 30 vörum og 30-40% verðmunur á 40 vörum.

Dæmi um hve mikill  verðmunur getur verið á einstakri matvöru var allt að 99% verðmunur á 200 gr. KEA skyri milli verslana. Allt að 47% verðmunur var á sólkjarnarúgbrauði, 64% verðmunur á Sóma samlokum og 63% verðmunur á súpukjöti. Bónus var oftast með lægsta verð á matvöru í könnuninni eða í 57% tilfella en Krónan næst oftast, í 20% tilfella. Bónus var einnig að jafnaði með lægsta meðalverðið og var verð í versluninni að meðaltali 2,8% frá lægsta verði. Iceland  var oftast með hæsta verðið eða í 68 tilvikum. Því til viðbótar var  meðalverð í versluninni hæst. Þannig var verð á vörum í könnuninni að meðaltali lengst frá lægsta verði eða 38% hærra en lægsta verð.

Minni verðmunur var á páskaeggjum en algengast var að munur á hæsta og lægsta verði væri 10-20%. Mestur verðmunur var á minni páskaeggjum. Bónus var oftast með lægsta verð á páskaeggjum, í 27 tilfellum af 32 en Iceland oftast það hæsta, í 24 tilfellum. Meðalverð á páskaeggjum í Iceland var einnig hæst eða að meðaltali 24% hærra en lægsta verð.

Bónus með lægsta meðalverð á matvöru og páskaeggjum

Bónus var að jafnaði með lægsta verðið á matvöru í könnuninni eða lægsta meðalverðið. Það merkir að þar sem verðið í Bónus  var ekki það lægsta var það að meðaltali 2,8% hærra en lægsta verð. Verð í Krónunni var að meðaltali 6,4% hærra en lægsta verð og verð í Nettó 15,4% hærra en lægsta verð. Verð í Hagkaupum og Fjarðarkaupum var um 20% frá lægsta verði. Eftir fylgja Kjörbúðin og Heimkaup og svo Iceland þar sem meðalverð er hæst eða að meðaltali 38% frá lægsta verði. Breyting verður á þegar meðalverð á páskaeggjum er skoðað en þar kemur Fjarðarkaup á eftir Krónunni með þriðja lægsta meðalverðið sem er 5,6% frá lægsta verði. Hagkaup kemur þar á eftir og Nettó með fimmta lægsta meðalverðið sem er litlu lægra en í Heimkaup. Kjörbúðin er með næst hæsta meðalverðið og Iceland það hæsta. Sjá nánar um aðferðarfræði við útreikning í lok fréttar.

Allt að 63% munur á kílóverði á súpukjöti og 137% munur á kílóverði á frosnum bláberjum

Oft mátti finna mikinn mun á hæsta og lægsta verði í öllum vöruflokkum og á mörgum algengum vörum. Sem dæmi má nefna 99% mun á hæsta og lægsta verði á 200 gr. hreinu Kea skyri. Lægst var verðið í Bónus, 175 kr. en hæst í Iceland, 349 kr. Í flokki brauð- og kornvöru má nefna 70% verðmun á Finn Crisp hrökkbrauði og 141% mun á hæsta og lægsta kílóverði af haframjöli. Þá var 39% munur á frosnu ókrydduðu lambalæri, 63% munur á kílóverði af frosnu súpukjöti og 54% munur á SS malakoffi í sneiðum. Einnig var mikill verðmunur var á frosinni vöru en þar má nefna 137% verðmun á frosnum bláberjum, 61% verðmun á Sun Lolly og 50% verðmun á Dalooon vorrúllum. Í flokki þurrvöru og dósamatar má nefna 65% verðmun á hökkuðum tómötum og 47% verðmun á púðursykri.

Allt að 72% verðmunur á páskaeggjum
Bónus var oftast með lægsta verðið á páskaeggjum, í 27 tilvikum af  32 en Iceland oftast með það hæsta, í 24 tilvikum. Krónan var í mörgum tilfellum nálægt Bónus í verði og munaði oft einungis 1 kr. á verði þó dæmi væru um meiri verðmun á páskaeggjum milli verslana.

Algengast var að munur á hæsta og lægsta verði á páskaeggjum í könnunum væri 10-20% eða í 15 tilvikum af 32. Í 10 tilvikum var 20 – 30% munur á hæsta og lægsta verði, í tveimur tilvikum var 30 – 40% munur.

Almennt var meiri hlutfallslegur verðmunur á minni páskaeggjum, þ.e. stærð nr. 3 og undir. Mestur verðmunur reyndist  vera á Góu páskaeggjum nr. 3 eða 72 % þar sem lægsta verðið var í Bónus kr. 698 og hæsta verðið í Iceland kr. 1199. Í krónum talið var mestur munur á Nóa Siríus XXL Risaeggi, 1.020 kr. en lægsta verðið var í Bónus, 2.907 kr. og hæsta verðið í Nettó, 7.499 kr.

 

Um könnunina

Ýmsar aðferðir eru til að varpa ljósi á niðurstöður í verðkönnunum með mörgum vörum og verslunum. Til að skýra betur verð hjá þeim verslunum sem eru hvorki oft með hæsta né lægsta verðið í verðkönnun og finna út meðalverð má reikna út hlutfallslegt frávik frá lægsta verði hverrar vöru. Þannig raðast verslanirnar eftir því hversu langt verð á vörum í könnuninni er að meðaltali frá lægsta verði.
Í könnuninni var hilluverð á 141 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. Verðkannanir verðlagseftirlits ASÍ gefa upplýsingar um verð á takmörkuðum fjölda lyfja og ekki er hægt að alhæfa um verðlag almennt út fá þeim. Þær gefa þó sterkar vísbendingar.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Mjódd, Bónus Selfossi, Krónunni Granda, Fjarðarkaupum, Iceland Vesturbergi, Hagkaup Eiðistorgi, Kjörbúðinni Sandgerði og á Heimkaup.is. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Trúnaðarmannanámskeið Stéttarfélaganna

Daganna 28-29. mars var haldið trúnaðarmannanámskeið hér hjá Bárunni þar sem trúnaðarmenn Bárunnar og Verkalýðsfélags Suðurlands mættu og var farið yfir margskonar efni. Má þar nefna samksipti á vinnustað og var lögð áherlsa á mikilvægi góðra samskipta. Skoðuð var mismunandi framkoma og áhrif hennar á okkur og aðra, nemendur fengu að kynnast afleiðingum langvarandi slæmra samksipta, eineltis á vinnustað og hvernig bregðast eigi við. Einnig fengu nemendur að kynnast starfsemi stéttarfélaganna og réttindum félagsmanna. Farið var yfir innihald og uppbyggingu kjarasamninga og helstu túlkun á þeim og loks var farið yfir sjóði félaganna og og réttindi félagsmanna í þeim.

Þökkum við nemendum kærlega fyrir.

 

Laun hækka vegna hagvaxtarauka

Laun hækka vegna hagvaxtarauka

Forsendunefnd ASÍ og SA sem starfar samkvæmt kjarasamningum hefur hist og rætt hagvaxtarauka kjarasamninga. Líkt og greint var frá nýverið (https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/nytt-manadaryfirlit-hagvaxtaraukinn-virkjast/) jókst landsframleiðsla á mann um 2,53% á síðasta ári. Þetta hefur þá þýðingu að hagvaxtarauki kjarasamninga hefur virkjast í fjórða þrepi.

Forsendunefnd ASÍ og SA hefur ákveðið að hagvaxtaraukinn komi til greiðslu 1. maí líkt og kveðið er á um í samningum. Launataxtar munu hækka um 10.500 kr. og almenn laun um 7.875 kr. frá 1. apríl og koma til greiðslu 1. maí.

Lífskjarasamningur var undirritaður í apríl 2019 þegar fyrirséð var að gjaldþrot lággjaldaflugfélagsins WOWair myndi hafa neikvæð áhrif á efnahagslíf. Samningurinn studdi við verðstöðugleika og skapaði forsendur fyrir lækkun vaxta. Greining Alþýðusambands Íslands á launahlutfalli hefur leitt í ljós að launahlutfall í hagkerfinu hefur verið stöðugt á samningstímabilinu.