Við vinnum fyrir þig

Translate to

Skólakynningar Bárunnar

Í vetur höfum við farið í FSU og kynnt fyrir nýnemum réttindi þeirra og skyldur á vinnumarkaði. Í heimsókninni er þeim bent á að nota APP sem heitir KLUKK en það er tímaskráningar app !

Með því appi er hægt að stimpla sig inn og út úr vinnu og halda þannig vel utan um unna tíma. Það er gps staðsetningartengt.

Þeir nemendur fengu allir penna, buff og hleðslubanka ( svo þau geti nú alltaf verið með næga hleðslu til að geta notað appið KLUKK ) að gjöf frá Bárunni.

 

Einnig hafa hópar úr 10. bekk frá Sunnulækjaskóla og Vallaskóla komið til okkar í heimsókn og fengið fræðslu um réttindi og skyldur á vinnumarkaði.

Það er svo mikilvægt að vita sín réttindi þegar stigið er sín fyrstu skref út á vinnumarkaðinn, því oftar en ekki, er það þessi aldurshópur ásamt útlendingum sem er mest svikinn af sínum vinnuveitendum, þá líklega vegna þekkingarleysi.

Einnig biðjum við þau um að aðstoða þá útlendinga sem þau þekkja, við að skilja sín réttindi á vinnumarkaði.
Saman erum við sterkari, um það snúast stéttarfélög, að styðja við bakið á hvort öðru !

Þau voru mjög áhugasöm og við vonum að þessar heimsóknir verði gott veganesti út í lífið ásamt Pizzunni sem þau fengu í hádegismat 
Að auki fengu þau öll buff með endurskinsmerki að gjöf, það er svo mikilvægt að sjást í myrkrinu !

Takk fyrir komuna, það var frábært að fá ykkur sem og alla hina hópana sem hafa komið til okkar í vetur !

Við náðum myndum af sumum þeirra en því miður ekki alveg öllum en látum nokkar fylgja.

Fræðsludagur Félagsliða

Þann 29. október 2019 var haldið á vegum Starfsgreinasamband Íslands og Félag íslenskra félagsliða árlegur fræðsludagur fyrir félagsliða. Ýmis málefni vöru rædd m.a. formaður Félags íslenskra félagsliða Sigurbjörg Sara Róbertsdóttir kynnti hlutverk og starfsemi félagsins og ræddi hversu mikilvægt er að hafa fagfélag starfandi í þessari starfsstétt.Formaður Kjalar Arna Jakobína Björnsdóttir var með erindi um starfsmat og skýringu á starfsheiti, stigi og launaflokki. Á fundinum kom fram að breytingar á félagsliðanáminu hefur verið í gangi og er menntamálastofnun að leggja lokahönd á að setja námið inní 3.hæfnis-þrep. Þegar það kemur þá verður hægt að sækja um í þriðja sinn löggildingu hjá heilbrigðisráðherra og það verður gert um leið og breyting hefur átt sér stað.Framkvæmdastjóri SGS Flosi Eiriksson ræddi um kjarasamninga og stöðuna á vinnumarkaði. Einnig fulltrúar frá VIRK og Ríkismennt fjölluðu um starfsemi þessara stofnanna.Fræðsludagur heppnaðist vel og ánægja var meðal þátttekanda sem sóttu fræðsluna.

Seinagangur í viðræðum við ríki og sveitarfélög

Heil og sæl kæru félagar.

 

Nú hafa kjarasamningar við ríki, sveitarfélög og þeirra sem taka mið að þeim kjarasamningum verið lausir í 8 mánuði. Krafan um styttingu vinnuvikunnar hefur vafist fyrir samningsaðilum. Í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði náðist sátt um að semja þyrfti á hverjum vinnustað um styttingu vinnuvikunnar og hvernig hún væri framkvæmd. Svipuð niðurstaða sem gengur þó aðeins lengra liggur á samningaborðinu hjá ríkinu varðandi dagvinnuhópana en ekki liggur fyrir niðurstaða vegna vaktavinnufólksins. Í mörg ár hafa stéttarfélögin verið með þá kröfu að 80% vaktavinna verði metin til 100% launa. Það er mjög mikilvægt að niðurstaða náist einnig í vaktavinnunni og að ekki verði skrifað undir fyrr en eitthvað liggur á borðinu með það.

 

Um stóra ágreiningsmálið varðandi jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna markaðarins og hins opinbera hjá starfsmönnum sveitarfélaganna þá hefur fallið dómur þar um, þar sem öllum kröfum stéttarfélaganna var hafnað en á móti viðurkenna sveitarfélögin að þau skuldi félagsmönnum okkar 1,5%. Hvernig farið verður með það og hvað það nær langt aftur er ekki ljóst á þessari stundu og vonandi hefst ekki annar eins slagur um þau mál en kjaradeilan við sveitarfélögin er nú á borði ríkissáttasemjara.

 

Þetta fer vonandi á skýrast á næstu vikum og vonandi næst niðurstaða sem fyrst.

 

Guðrún Elín Pálsdóttir formaður Verkalýðsfélags Suðurlands.

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags

 

 

Vetrarfrí – fyrir fólk í vaktavinnu !

 

Oft fáum við spurningar eins og :

Hvað er vetrarfrí ?

Á ég rétt á vetrarfríi?

Hvernig er það greitt ?

Fyrir hvaða daga er veitt vetrarfrí ?

 

Hér að neðan getið þið fengið svar við þessum spurningum.

 

Ýttu á myndina til að lesa nánar.

Sveitarfélögin ákváðu að vísa til Ríkissáttasemjara

SGS og Eflingu barst núna eftir hádegið bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem tilkynnt var að sveitarfélögin hefðu einhliða ákveðið að vísa yfirstandandi kjaradeilu til Ríkissáttasemjara. Ástæðan sem tilgreind er og vísað til er ályktun sem samþykkt var í tilefni af kvennafrídeginum á þingi SGS í síðustu viku. Þar var meðal annars var fjallað um stöðu ófaglærða verkakvenna og stöðunni kjaradeilunni.

Sveitarfélögin virðast telja ástæðu til að slíta viðræðum við SGS og Eflingu þegar þau segja hlutina eins og þeir eru alveg óhrædd við að berjast fyrir eðlilegum réttindum og betri kjörum fyrir sitt fólk. Kjarkurinn er nú ekki meiri en svo hjá samninganefnd sveitarfélaganna að þau treystu sér ekki til þess að koma þessu á framfæri á fundi né að hafa samband með beinum hætti við okkur sem sína viðsemjendur.

Er það raunar í samræmi við þeirra framgöngu og málatilbúnað síðan samningar runnu út í apríl, hvort sem það snýr að jöfnun lífeyrisréttinda, innágreiðslum, fyrirkomulag viðræðna eða öðrum atriðum.

það er skrýtinn veruleiki sem birtist í þessu bréfi sveitarfélaganna að telja það ekki  ,,að koma illa fram við kvennastéttir og að þeim sé sýnd takmarkalaus lítisvirðing í yfirstandandi viðræðum“ að neita að ræða kröfur þessa hóps, vísa hluta þeirra til dómstóla og sýna sjónarmiðum okkar í engu skilning.

Starfsgreinasambandið mun ekki láta hræða sig frá því að álykta á sínum þingum um það sem brennur á okkar fólki eða standa fast á okkar réttmætu og eðlilegu kröfum.

Það er aftur á móti ljóst að þessi málatilbúnaður sveitarfélaganna stuðlar með engu móti að lausn þessarar alvarlegu deilu og hvaða afleiðingar það getur haft er alfarið á ábyrgð Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

Skammist ykkar

Stjórnir og trúnaðarmenn stéttarfélaganna í Suðurkjördæmi sendu frá sér eftirfarandi ályktun vegna vinnubragða samninganefndar sveitarfélaganna gagnvart kjarasamningaviðræðum sem nú eru í gangi:

 

 

 

HÖRÐ OG ÓSVEIGJANLEG AFSTAÐA SVEITARFÉLAGANNA MIKIL VONBRIGÐI

Deilur hafa staðið milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands um efndir á samkomulagi frá því í júlí 2009 um jöfnun lífeyrisréttinda hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Eftir afdráttarlausa neitun sveitarfélaganna á að ræða lausnir í yfirstandandi kjaraviðræðum átti SGS ekki annan kost en að vísa ágreiningsefnum til Félagsdóms í samræmi við lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Sveitarfélögin vildu ekki að málið fengi efnislega meðferð og lögðu því fram frávísunarkröfur. Félagsdómur féllst á þær að hluta en vísaði ekki frá kröfu SGS að sveitarfélögunum væri skylt samkvæmt kjarasamningi að koma til viðræðna um mögulega lausn.

Sveitarfélögin gátu ekki einu sinni fellt sig við þá hóflegu niðurstöðu og hafa kært úrskurð Félagsdóms til Hæstaréttar. Endurspeglar sú aðgerð þá óbilgirni og hörku sem sveitarfélögin hafa sýnt í þessu máli og þann einbeitta vilja að standa ekki við undirritað samkomulag um að jafna lífeyriskjör þeirra starfsmanna sem hvað lökust hafa kjörin.

Málflutningur sveitarfélaganna vekur líka upp spurningar um hvernig hægt sé að gera samninga við aðila sem kalla samninga sem þau sjálf skrifa undir ,,skúffuskjal“ sem ekki hafi neitt gildi og skipti engu máli. Slíkur málatilbúnaður er óvenjulegur dónaskapur í garð samtaka launafólks og forystumanna þeirra sem fram að þessu hafa ekki talið ástæðu til að efast um heilindi viðsemjanda þegar skrifað er undir kjarasamninga og samkomulög þeim tengdum.

Þessi harða og ósveigjanlega afstaða gagnvart starfsmönnum sveitarfélaganna er gríðarlega mikil vonbrigði og getur haft afar alvarlegar afleiðingar á næstu vikum.