Við vinnum fyrir þig

Translate to

Samkomulag um endurskoðun viðræðuáætlunar milli SGS, Eflingar, og Samb. íslenskra sveitarf. undirritað

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands og Eflingar – stéttarfélags hafa undirritað samkomulag um endurskoðun viðræðuáætlunar aðila þar sem stefnt er að gerð nýs kjarasamnings fyrir 20. október næstkomandi. Jafnframt drógu SGS og Efling – stéttarfélag til baka vísun kjaradeilu aðila til ríkissáttasemjara.

Þann 1. október 2019 verður hverjum starfsmanni greidd innágreiðsla á væntanlegan kjarasamning að upphæð 125.000 kr. miðað við fullt starf. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. september 2019.  Starfsmenn í fæðingarorlofi og tímavinnufólk fær innágreiðsluna.

Það er sameiginlegur skilningur aðila að ofangreind fjárhæð sé hluti fyrirhugaðra launabreytinga á gildistíma hinna endurnýjuðu kjarasamninga aðila og verði metinn sem hluti af kostnaðaráhrifum þeirra.

Drífa Snædal forseti ASÍ var gestur á félagsfundi Bárunnar stéttarfélags.

Foseti ASÍ Drífa Snædal kom og fundaði með félagsmönnum Bárunnar, stéttarfélags.

Drífa fór yfir áherslur hreyfingarinnar í hinum ýmsu málum, atvinnumál, lífeyrismál, húsnæðismál, stöðu kjarasamninga og jafnréttismál. Drífa fór yfir samkomulag sem ríkið gerði við undirritun lífskjarasamningssins sl. vor. Eitt af meginmarkmiðum kjarasamningsins er að stuðla að vaxtalækkun og hafa þau markmið gengið eftir. Samningsaðilar eru að vinna að tillögum um þær skattkerfisbreytingar sem fram koma í lífskjarasamningum og er sú vinna á seinni stigum.

Drífa fór yfir nýútkomna skýrslu um kjarasamningsbrot á vinnumarkaði og hvað staðan væri bagaleg í þeim efnum.  Fram kom hjá forseta að vinnustaðaeftirlit stéttarfélaganna hefur stóraukist á síðustu árum og er eitt öflugasta verkfæri til þess að takast á við brotastarfsemi á vinnumarkaði en betur má ef duga skal.

Drífa hefur verið í forsetastól ASÍ í að verða ár og fór yfir áherslur í starfi og þann árangur sem náðst hefur. Drífa var full að eldmóði og viðraði ýmsar nýjar og skemmtilegar hugmyndir um áherslur verkalýðshreyfingarinnar til framtíðar. Góður rómur var gerður að heimsókn Drífu og fram kom hjá félagsmönnum mikil ánægja með hana sem málsvara stærstu launþegasamtaka á Íslandi, ASÍ.

Félagsfundur nk. mánudag 2. september kl 17:00

ATH LEIÐRÉTT FUNDARBOÐ !! FUNDURINN  ER KL 17:00 EN EKKI 19:00 EINS OG KOM FRAM Í DAGSKRÁNNI.

 

Næsta mánudag verður félagsfundur kl. 17:00. Drífa Snædal forseti ASÍ kemur sem gestur fundarins.

Drífu langar að hitta grasrótina og fara yfir málin með ykkur. Þetta er opinn fundur þar sem allir félagsmenn eru velkomnir .
Við hvetjum ykkur til þess að mæta og taka með ykkur aðra félagsmenn.

Kjötsúpa í boði fyrir alla !!!

Dagskrá.

  1. Kosning fulltrúa á þing Starfsgreinasambands Íslands dagana 24. – 25. október 2019.
  2. Staðan í kjarasamningum við ríkið, sveitarfélögin og fl.
  3. Önnur mál.

Hlökkum til að sjá sem flesta !!

Starfsfólk Bárunnar, stéttarfélags

Á íslenskum vinnumarkaði gilda íslenskir kjarasamningar

Alþýðusamband Íslands áréttar, af gefnu tilefni, að laun samkvæmt kjarasamningum hér á landi eru lágmarkskjör á íslenskum vinnumarkaði. Það gildir einnig um útlendinga sem koma hingað til starfa og það gildir frá fyrsta starfsdegi. Skiptir þá ekki máli hvort þeir starfa fyrir íslensk eða erlendi fyrirtæki. Þau fyrirtæki sem ekki virða þennan rétt starfsmanna sinna eru brotleg við íslensk lög og stunda launaþjófnað gagnvart starfsmönnum sínum. Slíkt verður aldrei liðið.

Ítrekað heyrist því haldið fram að erlent launafólk sem kemur til starfa hér á landi eigi að þurfa, a.m.k. tímabundið, að sætta sig við önnur og lakari laun og önnur starfskjör en gilda fyrir aðra á íslenskum vinnumarkaði. Í því samhengi er m.a. gjarnan vísað í „10 daga regluna“ eða „183 daga regluna“. Staðreyndin er sú að engar slíkar „reglur“ eru til sem veita atvinnurekendum rétt til að hlunnfara starfsmenn sína, þ.m.t. erlenda rútubílstjóra, fararstjóra og byggingamenn sem starfa tímabundið hér á landi. Sama gildir um sjálfboðaliða og starfsnema sem nýttir eru í efnahagslegri starfsemi.

 

A4 oftast með lægstu verðin á skiptibókamarkaði

A4 er oftast með lægstu verðin á notuðum námsbókum fyrir framhaldsskólanema samkvæmt nýrri
könnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var 15. ágúst. A4 var með
lægstu verðin í 23 tilfellum af 42, Penninn Eymundsson í 12 tilvikum og Heimkaup.is í 6 tilvikum.
Mikill verðmunur er á nýjum og notuðum bókum og geta framhaldsskólanemendur sparað sér
skildinginn með því að taka notað fram yfir nýtt. Verðlagseftirlitið getur ekki birt innkaupsverð
skiptibókamarkaðanna á notuðum bókum eins og það hefur gert undanfarin ár og skoðað mun á
innkaupsverði og útsöluverði þar sem þau eru ekki lengur aðgengileg almenningi. Þetta gerir
samanburð á innkaupsverði milli skiptibókamarkaða erfiðan og hamlar eðlilegri samkeppni.
Algengur verðmunur á notuðum bókum í kringum 1.000 kr.
A4 eru oftast með lægstu verðin á skiptibókamarkaði, í 23 tilfellum af 42. Verðin voru í raun enn
lægri daginn sem könnunin var framkvæmd en 25% afsláttur var af öllum vörum þann dag, þ.a.m.
bókum. Penninn Eymundsson eru næst oftast með lægstu verðin eða í 12 tilvikum og Heimkaup.is
sjaldnast eða í 6 tilvikum. Í mörgum tilfellum er mikill verðmunur á skiptibókamörkuðunum og er
algengt að verðmunur sé á bilinu 20-50% eða í kringum 1.000 kr. Mestur var verðmunurinn á bókinni
Þjálfun, heilsa og vellíðan, eða 190% eða 2.950 kr. Lægsta verðið mátti finna í A4, 1.549 kr. en það
hæsta í Pennanum Eymundsson 4.499 kr. Mesta úrvalið af notuðum námsbókum var í A4 en þar
mátti finna alla þá titla sem til skoðunar voru eða 41. Í Pennanum mátti finna 37 titla af 41 en
einungis 11 á Heimkaup.is.
Mikill verðmunur á nýjum og notuðum bókum
Það borgar sig fyrir framhaldsskólanemendur að kaupa notaðar námsbækur sé það mögulegt en
algengt var að yfir 100% verðmunur sé á nýjum og notuðum bókum. Sem dæmi má taka verðmun á bókinni Almenn Jarðfræði en 112% munur er á nýrri og notaðri slíkri bók í Pennanum Eymundsson.
Verðmunurinn var enn meiri á sömu bók í A4 eða 144%. Í Heimkaup má nefna að 166% verðmunur
var á Stærðfræði 3000 en ný bók kostaði 5.290 kr. en notuð 1.990 kr.
Innkaupsverð á notuðum bókum ekki lengur aðgengileg almenningi
Skiptibókamarkaðir reiða sig á að almenningur komi með bækur sem eru ekki lengur í notkun og fái
borgað fyrir þær. Skiptibókamarkaðirnir sjá síðan um að selja þær aftur til neytenda þannig að allir
aðilar fá eitthvað fyrir sinn snúð. Misjafnt er þó hversu mikið skiptibókamarkaðirnir borga fyrir
notaðar bækur og hversu mikið þeir selja bækurnar síðan á. Hingað til hafa þeir sem hafa haft í
hyggju að selja notuðu bækurnar sínar geta séð hvað skiptibókamarkaðarnir borga fyrir bækurnar,
annaðhvort á vefsíðum verslananna eða á listum í verslununum. Þessar upplýsingar eru ekki lengur
aðgengilegar almenningi, hvorki á vefsíðum verslananna né í verslununum sjálfum. Þetta gerir að
verkum að erfiðara er fyrir almenning að gera samanburð á innkaupsverði skiptibókamarkaðanna
sem dregur úr eðlilegri samkeppni og minnkar gagnsæi á markaði. Verðlagseftirlitið getur því ekki
birt innkaupsverð á notuðum námsbókum eða fundið út mun á innkaupsverði og útsöluverði og
skoða álagningu verslananna eins og hefur verið gert undanfarin ár.
Verð var kannað í eftirtöldum verslunum: A4, Pennanum-Eymundsson og Heimkaup.is. Rétt er að
taka fram að ástand notaðra bóka getur verið mjög misjafnt. Hér er aðeins um beinan
verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði, úrval eða þjónustu söluaðila. Einnig má taka
fram að verð breytist mjög ört á þessum tíma í verslunum landsins vegna tíðra verðbreytinga og
ýmiskonar tilboða.
Frétt tekin af heimasíðu ASÍ

SKÝRSLA HÆFNISETURS FERÐAÞJÓNUSTUNNAR

Skýrslan Hæfni er grunnur að gæðum er komin út. Markmiðið með skýrslunni er að miðla sýn atvinnulífs og menntakerfis á nám í ferðaþjónustu þannig að sú sýn geti verið skólum og yfirvöldum leiðarljós í mótun mennta- og hæfnistefnu fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein.

Starfsgreinasambandið tók þátt í vinnunni ásamt fulltrúum fyrirtækja, stéttarfélaga, skóla og annarra fræðsluaðila, auk fulltrúa ráðuneyta og stofnana. Góð þátttaka og mikill áhugi á verkefninu endurspegla vel þann metnað sem ríkir innan greinarinnar.

Skýrsluna má nálgast hér

Mest brotið á erlendu launfólki – hæstu kröfurnar í ferðaþjónustu og mannvirkjagerð

Undanfarin ár hefur verið hraður vöxtur í efnahagslífinu á Íslandi. Ný rannsókn ASÍ, sem byggir á skoðanakönnunum og launakröfum stéttarfélaga m.a. Bárunnar, bendir til að samhliða þessari þróun hafi jaðarsetning og brotastarfsemi aukist á íslenskum vinnumarkaði. Stéttarfélög fá inn á borð til sín fleiri og alvarlegri mál en áður tengd launaþjófnaði og kjarasamningsbrotum. Brotin virðast einkum beinast gegn hópum sem síður þekkja rétt sinn, þ.e. erlendu launafólki, ungu fólki og einstaklingum með lágar tekjur. Við þessum brotum eru í dag engin viðurlög sem Alþýðusambandið telur algerlega óásættanlegt.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru eftirfarandi:

• Launakröfur vegna launaþjófnaðar og kjarasamningsbrota hlaupa á hundruðum milljóna króna á ári.
• Fjögur aðildarfélög ASÍ gerðu 768 launakröfur árið 2018 upp á samtals 450 milljónir króna og nam miðgildi kröfuupphæðar 262.534 kr.
• Meira en helmingur allra krafna stéttarfélaga eru gerðar fyrir hönd félagsmanna af erlendum uppruna. Um 19% launafólks á íslenskum vinnumarkaði er af erlendum uppruna.
• Um helmingur allra krafna kemur úr hótel-, veitinga- og ferðaþjónustu en hæstu launakröfurnar eru gerðar á fyrirtæki í mannvirkjagerð.
• Niðurstöður spurningakönnunar Gallup eru í takt við launakröfur stéttarfélaga og benda til þess að brotastarfsemi beinist fremur gegn erlendu launafólki og yngra fólki, með lægri tekjur og í óreglulegu ráðningarsambandi og hlutastörfum.
• Skoðun á launakröfum og spurningakönnunin benda til að brotin felist m.a. í vangreiðslum á launum, álagsgreiðslum og ýmsum réttindabrotum.
• Hjá meirihluta launafólks, einkum hjá þeim sem hafa lengri starfsaldur og hærri tekjur, er brotastarfsemi nærri óþekkt.

Brotastarfsemi gagnvart erlendu launafólki og ungmennum er alvarleg meinsemd á íslenskum vinnumarkaði sem uppræta verður með öllum tiltækum ráðum. Dæmin skipta ekki bara tugum eða hundruðum. Brotin snerta þúsundir einstaklinga. Þessir félagar okkar eiga að njóta kjara og annarra réttinda til jafns við aðra á vinnumarkaði. Það eru hagsmunir samfélagsins alls. Hér er ábyrgð stjórnvalda og samtaka atvinnurekenda mikil.

• Bæta þarf löggjöf og regluverk. Lögbinda verður hörð viðurlög og sektargreiðslur vegna launaþjófnaðar og annarra brota gegn launafólki
• Efla þarf upplýsingamiðlun, eftirlit á vinnumarkaði og eftirfylgni vegna brotastarfsemi. Bæta með kerfisbundnum hætti samstarf og samvinnu stjórnvaldsstofnana og aðila vinnumarkaðarins með samræmdri og öflugri upplýsingamiðlun.
• Stuðningur við brotaþola. Tryggja verður að þeir einstaklingar sem brotið er á sæki rétt sinn með stuðningi verkalýðshreyfingarinnar og samfélagsins alls og þeir njóti öryggis og skjóls.

Í tengslum við gerð kjarasamninga vorið 2019 gaf ríkisstjórn Íslands fyrirheit um að gripið verði til fjölmargra aðgerða gegn launaþjófnaði og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Fyrirheit sem byggja á kröfum og áherslum verkalýðshreyfingarinnar. Fyrir liggur aðgerðaáætlun en verkefnið nú er að fylgja yfirlýsingunni eftir og hrinda að fullu í framkvæmd á næstu mánuðum þannig að stigin verði markviss og afgerandi skref til að uppræta brotastarfsemi á vinnumarkaði.

ÍSLENSKUR VINNUMARKAÐUR 2019 – Erlent launafólk og brotastarfsemi á vinnumarkaði (skýrslan í heild sinni)

Ríkisstarfsmenn fá eingreiðslu

Einngreiðsla að upphæð kr. 105.000 verði greidd hverjum starfsmanni miðað við fullt starf. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu 1 apríl til og með 30. júní 2019. Greiðslan kemur til útborðunar 1. ágúst nk. Sú greiðsla er hluti af fyrirhuguðum launabreytingum þegar þar að kemur.

Ýta á link til að sjá frétt:

https://www.sgs.is/endurskodun-vidraeduaaetlunar-og-eingreidsla/?fbclid=IwAR1j-hUmQSZo0LJiJmHvhf6lGEE031dTMZjHvwyaRE2Y1U4tkXgfQizYQvs#more-361234

Endugreiðsla WOW air gjafabréfa – Umsókn

 

Þeir félagsmenn Bárunnar, stéttarfélags sem keyptu gjafabréf  með WOW air og höfðu ekki tækifæri til þess að nýta það eða keyptu flug sem ekki var farið, gefst kostur á að óska eftir því að fá gjafabréf endurgreidd í formi inneignar á orlofsíðu Bárunnar.

Umsóknarfrestur er til 15. ágúst 2019

Hægt er að  nota inneign þessa til kaupa á öðrum miðum t.d. með flugfélagi Icelandair, hótelmiðum, Útilegukorti eða Veiðikorti.

Einnig er hægt að greiða fyrir orlofshús Bárunnar.

Hér er linkur á Orlofssíðuna til að sjá hvað er í boði https://orlof.is/baran/site/product/product_list.php

 

Umsóknar eyðublað má finna hér að neðan. Það þarf að prenta út, fylla út og koma með til Bárunnar, stéttarfélags. Einnig er hægt að koma á skrifstofu félagsins og fylla það út

Með umsókn þarf að fylgja  kvittun fyrir gjafabréfi/um, flugi ef keypt var og kvittun fyrir því.

 

UMSÓKN