Við vinnum fyrir þig

Translate to

SGS og Efling vísa kjaradeilu við Samband Íslenskra sveitarfélaga til Ríkissáttasemjara

Viðræður Starfsgreinasambandsins og Eflingar – stéttarfélags við Samband íslenskra sveitarfélaga um nýjan kjarasamning hafa staðið yfir undanfarnar vikur og hafa aðilar átt 5 formlega fundi. Fyrir utan kröfugerð aðila um eðlilegar kjarabætur í samræmi við samninga á almenna markaðnum og önnur mál, hafa verkalýðsfélögin krafist þess að Samband sveitarfélaganna efni samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda fyrir starfsfólk sveitarfélaga innan aðildarfélaga ASÍ. Um þessa eðlilegu jöfnun hefur nú þegar verið samið við Reykjavíkurborg og ríkið fyrir hönd þessa hóps.

Það kom því mjög á óvart þegar fulltrúar sveitarfélaganna neituðu með öllu að ræða þessa eðlilegu jöfnun þrátt fyrir fyrri fyrirheit þar að lútandi í tengslum við kjarasamninga 2015 og vilja ekki kannast við fyrri samþykktir. Í síðustu kjarasamningum voru sérstaklega tekin frá 1,5% til að jafna lífeyrisréttindindin. Það er ótrúlegt að sveitarfélögin telji það eðlilegt að félagsmenn okkar búi við lökustu lífeyriskjörin í landinu.

Starfsgreinasambandið og Efling eiga engan annan kost eftir þessa þvermóðskufullu afstöðu Sambandsins en að vísa deilunni til Ríkissáttasemjara. Af hálfu SGS og Eflingar kemur ekki til greina að halda viðræðum áfram nema að lífeyrisréttindi starfsfólks sveitarfélaganna innan ASÍ verði jöfnuð í samræmi við fyrri loforð.

Aðalfundur – vinningshafar happadrættis

Aðalfundur Bárunnar, stéttarfélags var haldinn þann 21. maí og var farið yfir ýmis mál.

 

Tilkynnt var meðal annars um hækkun sjúkrastyrkja.

 

Viðtalsmeðferð vegna sálfræðings, geðhjúkrunarfræðings og

félags- eða fjölskylduráðgjafa, hækka úr 6.000 kr uppí 7.000 kr

Líkamsræktarstyrkur hækkar úr 30.000 kr uppí 36.000 kr

Tannlæknastyrkur hækkar úr 10.000 kr uppí 15.000 kr

Heildarstyrkur úr sjúkrasjóði hækkar úr 70.000 kr uppí 85.000 kr

 

 

Í lok fundar var happadrætti og unnu þær Soffía Sigurðardóttir og Ingigerður Guðmundsdóttir hvor um sig 20.000 kr gjafabréf .

Hægt er að nýta gjafabréf þetta á Orlofssíðu Bárunnar og versla með því hótelgistingar, miðakaup á Útilegukortinu, Veiðikortinu, sumarhúsum og gjafabréf í flug svo dæmi sé tekið.

Soffía og Ingigerður ásamt formanni Bárunnar, Halldóru.

Aðalfundur Bárunnar 2019

Aðalfundur Bárunnar, stéttarfélags verður haldinn þriðjudagskvöldið 21. maí nk. í húsakynnum félagsins að Austurvegi 56, 3. hæð, Selfossi. Fundurinn hefst kl. 19:00.

Dagskrá

1. Venjuleg aðalfundarstörf

2. Breytingar á reglugerð sjúkrasjóðs

3. Kjaramál

4. Önnur mál

Boðið verður upp á veitingar. Aðalfundargestir taka þátt í happdrætti. Við hvetjum félagsmenn til þess að mæta og taka þátt.

Stjórn Bárunnar, stéttarfélags.

1. maí ræða framkvæmdastjóra BSRB

Fyrsti ræðumaður dagsins á Selfossi var Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB.  Stytting vinnuvikunnar var umtalsefni hjá honum en hann lagði líka mikla áherslu á jöfnuð og að allir réru í sömu átt í íslensku samfélagi. Ekki væri hægt að ætlast til þess að launafólk eitt og sér bæri ábyrgð á stöðugleika.  Einnig sagði hann mikilvægt að hér yrði skapað þjóðfélag þar sem allir sætu við sama borð og taldi mörg tækifæri til að svo gæti orðið.

Hér má sjá ræðuna í heild.

1. maí ræða Álfheiðar Österby

Annar ræðumaður dagsins á Selfossi var Álfheiður Österby nemi.  Hún fjallaði um hversu mikilvægt og nauðsynlegt er að stöðugt sé staðið vörð um kjaramál verkamanna og verkalýðshreyfingarinnar. Framtíðin mun gera kröfur um mikla aðlögunarhæfni, þar sem að margar breytingar munu eiga sér stað á skömmum tíma. Þar að auki mun skilgreining á störfum að öllum líkindum einnig breytast með samfélagslegu breytingunum á öld tækninnar. Því mun verða forsenda fyrir því að aðlagast skjótt fjölbreyttum aðstæðum, til að geta átt við breytingarnar.

Sjá ræðu Álfheiðar í heild:

 

Kæru félagsmenn og fjölskyldur og aðrir gestir.

Ég vil byrja á að óska ykkur til hamingju með verkalýðsdaginn.

Það er mér mikill heiður að fá að koma hér fram á þessum merkilega degi og flytja nokkur orð fyrir ykkur.

Eitt af því sem mér leiðist mjög við ræður, eru þegar þær eru langar og því ætla ég að hafa þetta hæfilega stutt.

Ég heiti Álfheiður Østerby og er að ljúka stúdentsprófi núna í vor frá Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Annars er ég bara 19 ára krakki frá Þorlákshöfn, þar sem ég bý.

Ég er afar stolt yfir því að vera frá Þorlákshöfn. Þar býr margt gott fólk og manni líður vel þar. Maður er hluti af einni heild og fær það utanumhald sem er svo nauðsynlegt fyrir hverja manneskju – það er gott að eiga góða að. Við stöndum saman. Við sem búum í Þorlákshöfn erum Þorlákshöfn. Oft er sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp manneskju; og fyrir mér var það þorp Þorlákshöfn. Ég er ógurlega þakklát fyrir að hafa alist þar upp og ekki síður þakklát fyrir að móðir mín, sáluga, flutti með okkur systkinin þangað fyrir rúmum 11 árum. Því er ég líka alveg sammála því að segja að hamingjan sé þar, að hamingjan sé í Þorlákshöfn.

Ég hef svo sem ekki lifað lengi. Ég er námsmaður og er því mín reynsla af vinnumarkaði bundin sumarstörfum og vinnu meðfram námi. Eins og ég sagði áður, þá er ég bara krakki. Ég er bara rétt að byrja líf mitt. En ég veit samt hvað er mikilvægt í lífinu. Til dæmis eru mín gildi í lífinu að verja tíma með fjölskyldunni minni og vinum. Það dýrmætasta í heiminum er kærleikurinn. Og elska ég fjölskylduna mína ógurlega mikið. Ég vil lifa, vera til, geta gert það sem mig langar. Hlaupið ef mig myndi langa til. Hlægja og brosa. Gera það sem gerir mig hamingjusama. Fylgja draumum mínum – og lifa lífinu.

En það sem mér finnst mikilvægast og vera grunnurinn að öllum tilgangi okkar hérna á jörðinni, er að bæta heiminn.

Það er bæði mikilvægt og nauðsynlegt að stöðugt sé staðið vörð um kjaramál verkamanna og þau tryggð með kjarasamningum. Kjaramál verkamanna er að sjálfsögðu ekkert annað en lífskjör manna. Hægt er að líta á baráttu verkalýðshreyfingarinnar síðastliðna mánuði og má þar auðveldlega sjá mikilvægi þeirrar baráttu. En með launahækkun og styttri vinnuviku er einmitt verið að stuðla að bættum lífskjörum manna. Við eigum að geta lifað lífinu. Búið í góðu og öruggu umhverfi. Getað varið tíma með fjölskyldu okkar og vinum. Átt tíma til að gera það sem okkur langar – og búið til ánægjulegar minningar. Við eigum að geta lifað lífinu – ekki lifa til að vinna heldur vinna til að lifa. Og því er starf verkalýðsfélaga afar mikilvægt til að staðinn sé vörður um réttindi okkar og þau séu virt.

Mikilvægi þessarar vinnu er ekki nýtt af nálinni. Það hefur lengi verið vitað að lífið eigi að einkennast af meiru en því einu að lifa af. Líklega má rekja það til réttlætiskenndarinnar í okkur, að verkalýðsfélögin voru stofnuð. Til dæmis þegar amma mín var ung, þá vann hún sex daga vikunnar. Í dag erum við með styttri vinnuviku og lengra sumarfrí en þá. Í dag höfum við rétt á veikindafríi og fæðingarorlofi, svo örfátt sé nefnt. Starf verkalýðshreyfingarinnar er heldur ekki á leiðinni að verða úrelt. Við munum stöðugt þurfa á henni að halda. Verkalýðshreyfingin er til þess að vernda fólkið, starfsfólkið. Og má það starf ekki falla í gleymsku né mikilvægi þess.

Tímarnir eru alltaf að breytast. Og tímarnir breytast enn örar með tilkomu nýrrar tækni. Framtíðin mun gera kröfur um mikla aðlögunarhæfni, þar sem að margar breytingar munu eiga sér stað á skömmum tíma. Þar að auki mun skilgreining á störfum að öllum líkindum einnig breytast með samfélagslegu breytingunum á öld tækninnar. Því mun verða forsenda fyrir því að aðlagast skjótt fjölbreyttum aðstæðum, til að geta átt við breytingarnar.

Mér sem ungri manneskju finnst nauðsynlegt að við stöndum einnig vörð um umhverfið í öllum þessum öru breytingum og að við stuðlum að sjálfbærni þess til framtíðar.

Því skulum við á þessum degi, tileinkuðum verkalýðsfólki, standa vörð um mikilvægi þess að verkalýðsbaráttunni verði ávallt að halda áfram og að gildi hennar falli ekki í gleymsku í hugum okkar. Því við eigum rétt á því að geta lifað lífinu og átt okkur líf umfram vinnunnar. Við höfum rétt á því að geta varið tíma með fjölskyldu okkar. Við eigum að geta átt tíma í að gera það sem gefur líf okkar gildi, stundað áhugamál okkar, og geta notið þess að vera til. Á þessum degi skulum við vera stolt yfir því sem hefur verið áorkað. Við skulum standa saman á þessum degi, og einnig alla aðra daga, og stuðla þannig að áframhaldandi bjartri framtíð.

Takk fyrir mig

Fjölmenni tók þátt í 1. maí hátíðarhöldum

Mikið fjölmenni safnaðist saman í ágætis veðri á Selfossi í dag til að taka þátt í kröfugöngu sem stéttarfélögin á Suðurlandi stóðu fyrir í tilefni af 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Vel var mætt í hátíðardagskrá á Hótel Selfoss enda kjaramál ofarlega í huga fólks í kjölfar þess að skrifað var undir nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fyrir þrem vikum, þar sýndi sig vel að samstaðan skilar árangri. Yfirskrift dagsins var Jöfnum kjörin – Samfélag fyrir alla og  er greinilegt að þessi yfirskrift átti góðan hljómgrunn hjá fólki.

Gangan fór frá húsi stéttarfélaganna við Austurveg 56 að Hótel Selfoss þar sem boðið var upp á veitingar og hátíðardagskrá á vegum stéttarfélaganna á Suðurlandi. Aðalræðumaður dagsins var Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB og Álfheiður Österby námsmaður.

Í kjölfarið fylgdu skemmtiatriði meðal annars frá Leikfélagi Selfoss sem flutti atriði úr sýningu sinni Á vit ævintýranna. Unnur Birna og Dagný Halla Björnsdætur fluttu nokkur lög. Í Sleipnishöllinni var ungviðinu boðið á hestbak og var mikil ásókn í það en félagar úr þeirra röðum fóru einnig í fararbroddi kröfugöngunnar.

 

 

KVEÐJUR Á BARÁTTUDEGI VERKALÝÐSINS

Kæru félagar.

Til hamingju með alþjóðlegan baráttudag launafólks.

Nú þegar kjarasamningar hafa verið samþykktir á almennum markaði vil ég þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg í kjarasamningsgerðinni bestu þakkir.

Það er umhugsunarefni hvað lítil þátttaka var í atkvæðagreiðsu um kjarasamningana. Í Starfsgreinasambandi Íslands voru tæplega 40.000 á kjörskrá en aðeins greiddu 12.78% að meðaltali atkvæði. Niðurstaðan var að 80% sögðu já, 17% nei. Lífskjarasamningurinn endurspeglar hóflegar launahækkanir, sem gætu leitt til aukins kaupmáttar á grundvelli lágrar verðbólgu, lágra vaxta, stöðugs gengis og tengingu við hagvöxt. Eins konar rammasamkomulag milli aðila vinnumarkaðarins.

Núna eru viðræður í gangi við ríki og sveitarfélög. Vegna samkomulags um launaþróunartryggingu (Saleks samkomulagsins https://www.asi.is/media/241206/3740_001.pdf ) er upphafshækkun ASÍ hópsins hjá ríkinu 0,4% en 1,7% hjá sveitarfélögunum. Það er forgjöf áður en við förum að semja um launahækkanir.

Verkalýðshreyfingin hefur verið fyrirferðamikil í kjarabaráttunni og aldrei fengið eins mikla athygli í fjölmiðlum, þess vegna kemur kjörsóknin á óvart.

Við lifum í heimi þar sem gott aðgengi er að upplýsingum og við getum „google“ allt sem við viljum vita. Það er umhugsunarvert hvað fjölmiðlar eru ekki vandir að virðingu sinni og endurspeglar fjölmiðlaumræðan oftast ekki þann raunveruleika sem við þekkjum, mikið er um rangfærslur í þeirra málfluningi. Oftar en ekki gefa fjölmiðlar ekki rétta mynd af þeirri miklu vinnu sem unnin er innan stéttarfélaganna og verkalýðshreyfingarinnar. Við vitum hvað er rétt og megum vera stolt af þeirri baráttu sem okkar félagar hafa haldið á lofi í 100 ár.

Fyrir margt löngu hitti ég mæta konu á förnum vegi. Konan spurði mig „hvert ertu að fara“. „Á fund hjá verkalýðshreyfingunni“ svaraði ég.  Hún varð hugsi og sagði svo hvað kemur frá verkalýðshreyfingunni. Ég svarði um hæl án þess að hugsa „allt gott kemur frá verkalýðshreyfinunni“. Ef litið er yfir farin veg og rúmlega 100 ára saga skoðuð þá eru puttaför hreyfingarinnar á flestum þeim velferðarmálum sem snúa að kjörum fólks. Baráttan fyrir bættum kjörum er lifandi barátta og heldur áfram því við viljum jafna kjörin og búa til samfélag fyrir alla.

Baráttukveðjur,

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.

 

SAMIÐ UM LAUNAÞRÓUNARTRYGGINGU

Í apríl var undirritað samkomulag um launaþróunartryggingu til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Laun félagsmanna í aðildarfélögum ASÍ sem starfa hjá sveitarfélögum munu hækka um 1,7 prósent að meðaltali vegna samkomulagsins og laun félaga ASÍ sem starfa hjá ríkinu um 0,4 prósent að meðaltali. Launaþróunartryggingin er afturvirk og gildir frá 1. janúar 2019. Samkomulag þetta er mikilvægur liður í að tryggja að launaþróun félagsmanna hjá ríki og sveitarfélögum dragist ekki aftur úr launaþróun á almennum markaði.

Samkomulagið sem undirritað var í dag er gert á grunni rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins frá október 2015. Aðild að samkomulaginu eiga íslenska ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Alþýðusamband Íslands, BSRB og Samtök atvinnulífsins.

Í rammasamkomulaginu er kveðið á um að launaþróun þeirra sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum verði ekki lakari en á almennum vinnumarkaði. Með því er ætlunin að tryggja að laun opinberra starfsmanna sitji ekki eftir í almennri launaþróun.

Horft er til þróunar launa á almenna markaðinum annars vegar og hjá þeim félagmönnum sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum hins vegar á tímabilinu nóvember 2013 til nóvember 2018.

Samkomulag um launaþróunartryggingu

ORLOFSUPPBÓT OG ORLOFSUPPBÓTARAUKI 2019

Báran vill minna félagsmenn á rétt sinn á að fá greidda orlofsuppbót, en orlofsuppbót er föst fjárhæð sem atvinnurekendum er skylt að greiða starfsfólki sínu í maí/júní á ári hverju. Uppbótin miðast við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu, inniheldur orlof og tekur ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum.

Almennur vinnumarkaður: Þeir sem starfa á almennum vinnumarkaði og hafa verið í fullu starfi á orlofsárinu 1. maí 2018 – 30. apríl 2019 eiga rétt á fullri uppbót að upphæð 50.000 kr. Í nýjum kjarasamningiá almenna markaðinum var jafnframt samið um eingreiðslu (orlofsuppbótarauka) að upphæð 26.000 kr. sem kemur sem sérstakt álag á orlofsuppbót árið 2019. Þeir sem starfa á almennum vinnumarkaði eiga því að fá orlofsuppbót að upphæð 76.000 kr. sem greiðist eigi síðar en 2. maí 2019 (venjan er 1. júní).  Við útreikning á orlofsuppbót þá telst fullt ársstarf vera 45 vikur eða meira fyrir utan orlof. Þeir sem hafa verið samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum miðað við 30. apríl sl. eða í starfi fyrstu vikuna í maí eiga rétt á uppbót.

Ríki og sveitarfélög: Þar sem ekki er enn búið að semja við ríki og sveitarfélög um nýja kajarasamninga verður full orlofsuppbót eins og í fyrra, þ.e. 48.000 kr. Þegar samningar nást við viðkomandi aðila þarf að greiða uppbót miðað við það sem samið verður um. Orlofsuppbótin á að koma til greiðslu 1. júní hjá starfsfólki ríkisins en 1. maí hjá starfsfólki sveitarfélaga. Þeir sem eru í starfi til 30. apríl næst á undan eiga rétt á uppbót.

Nánari upplýsingar um orlofsuppbót – texti úr kjarasamningum