Við vinnum fyrir þig

Translate to

Ný skoðanakönnun – langflestir vilja sameiginlega launastefnu

Ný skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir ASÍ sýnir að 94% þeirra sem taka afstöðu vilja sambærilegar launahækkanir fyrir alla í komandi kjarasamningum á móti 6% sem vilja meiri launahækkanir til þeirra sem starfa í útflutningsgreinum. Þá vilja 48% að verkalýðshreyfingin leggi mesta áherslu á að tryggja kaupmátt launa í yfirstandandi kjaraviðræðum en 24% vilja að áherslan sé að tryggja atvinnuöryggi.

 

Í báðum spurningum voru þeir aðeins spurðir sem eiga aðild að stéttarfélögum. Fyrri spurningin hljóðaði þannig:

Nú standa yfir viðræður um nýja kjarasamninga. Hvort ertu hlynntari því að verkalýðshreyfingin leggi áherslu á sambærilegar launahækkanir fyrir alla, eða meiri launahækkanir til þeirra sem starfa í útflutningsgreinunum, sem njóta nú góðs af gengi krónunnar? 94% sögðust vilja sambærilegar launahækkanir fyrir alla en 6% vildu að þeir fái meiri launahækkanir sem starfa í útflutningsgreinunum.

Hin spurningin snéri að því hvað verkalýðshreyfingin ætti að leggja mesta áherslu á í kjaraviðræðunum. 19% vildu beinar launahækkanir, 48% að kaupmáttur yrði tryggður og 24% að áherslan væri á atvinnuöryggi.

Niðurstöðurnar má skoða betur hér.

Félagsvísindastofnun Háskólans gerði skoðanakönnunina fyrir Alþýðusamband Íslands. Úrtakið var 1200 manna slembiúrtak úr þjóðskrá, 18 ára og eldri. Könnunin var gerð í gegnum síma dagana 5.-16. febrúar 2011. Nettósvarhlutfall var 62,9%.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Mikilvægi trúnaðarmanna á vinnustöðum

Einn mikilvægasti tengiliður hvers stéttarfélags við félagsmenn sína er trúnaðarmaðurinn. Starf trúnaðarmannsins er oft misskilið og jafnvel gert lítið úr því en með bættri fræðslu og aukinni áherslu stéttarfélaganna sjálfra er það óðum að breytast.

Í sumum félögum hefur alla tíð verið haldið vel utan um trúnaðarmenn, en önnur félög hafa ekki verið nógu vakandi fyrir þeim möguleikum sem felast í að vera í góðu sambandi við félagsmenn sína. Við núverandi ástand í efnahags- og atvinnumálum er enn frekar áríðandi að launþegar séu meðvitaðir um réttindi sín og eigi greiða leið að upplýsingum um samninga og hvaða aðstoð er í boði ef upp kemur ágreiningur um kaup og kjör. Þar er trúnaðarmaðurinn mikilvægur hlekkur.

Báran, stéttarfélag og Verslunarmannafélag Suðurlands hafa ákveðið að taka höndum saman og vinna að því markvisst, að efla trúnaðarmenn sína og fjölga í þeirra hópi. Töluvert er um að starfsmenn séu ekki meðvitaðir um þann rétt sinn, sem tryggður er með lögum, að tilnefna eða kjósa trúnaðarmann/menn á sínum vinnustað. Í 9. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur segir að á hverjum vinnustað þar sem starfa 5 eða fleiri er stéttarfélagi heimilt að tilnefna 2 menn til trúnaðarstarfa, þ.e. aðaltrúnaðarmann og einn til vara. Kosið er úr hópi starfsmanna en stundum tilnefna starfsmenn einhverja úr sínum hóp. Kosning er þó æskilegri og eru allir starfsmenn kjörgengir séu þeir skráðir félagsmenn í viðkomandi stéttarfélagi.

 Þjónustuskrifstofa stéttarfélaganna á Suðurlandi hefur á sínum snærum starfsmenn sem veita upplýsingar og aðstoða við kosningar ef þörf er á.

Báran, stéttarfélag – nýr starfsmaður

Hjalti Tómasson hefur verið ráðinn tímabundið hjá Bárunni, stéttarfélagi. Hann mun meðal annars vinna að verkefnum sem snúa að trúnaðarmönnum, vinnustaðakynningum og aðstoða eftirlitsfulltrúa með vinnustaðaskírteinum. Hjalti er boðinn velkominn til starfa hjá Bárunni.

Bunki af ályktunum sendur þingmönnum

Í aðdraganda endurskoðunar kjarasamninga sem fram fór þann 20. janúar sendi fjöldi sambanda og félaga innan ASÍ frá sér ályktanir þar sem vanefndir ríkisstjórnarinnar voru harðlega gagnrýndar. Á formannafundi 19. janúar kom fram sá vilji fundarmanna að öllum alþingismönnum þjóðarinnar yrðu sendar þessar ályktanir. Það hefur nú verið gert og bárust þær þingmönnum í gær undir yfirskriftinni Pacta Sunt Servanda (Samningar skulu standa).

Meðfylgjandi bréf frá forseta ASÍ fylgdi ályktunum.


Hér má lesa ályktanirnar 18
sem sendar voru öllum alþingismönnum þjóðarinnar í gær.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Afsláttur af hótelgistingu fyrir félagsmenn Bárunnar

Báran stéttarfélag hefur samið við Edduhótel og Fosshótel um afsláttarkjör fyrir félagsmenn. Hótelin gefa út gistimiða sem verða til sölu á Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna. Edduhótelin eru opin yfir sumartímann og mörg Fosshótel eru opin allt árið. Félagsmenn geta því nú þegar komið á Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna og keypt afsláttarmiða á Fosshótel. Gistimiðar á Edduhótel verða seldir frá og með 18. janúar nk.  Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna í síma 480-5000.

Fosshótel:

Verð á gistimiða er krónur 8.000,-. Miðinn gildir fyrir tveggja manna herbergi með baði, morgunverður innifalinn (tveir miðar í júní júlí og ágúst). Aukarúm kostar 5.000 krónur (1 barn undir 12 ára frítt í herbergi með foreldri/um).

Bóka má beint á hótelunum í gegnum síma. Einnig er tekið við bókunum á aðalskrifstofu Fosshótela í síma 562 4000. Ekki er hægt að bóka í gegnum bókunarvél á heimasíðu.


Hótelin sem eru opin í vetur eru:

Fosshótel Lind, Rauðarárstígur 18, 101 Reykjavík allt árið, sími 562 3350

Fosshótel Baron, Baronstígur 2, 101 Reykjavík allt árið, sími 562 3204

Fosshótel Reykholt, 320 Reykholt allt árið*, sími 435 1260

Fosshótel Húsavík, Ketilsbraut 22, 640 Húsavík allt árið*, sími 464 1220

Fosshótel Dalvík, Skíðabraut 18, 620 Dalvík allt árið**, sími 466 3395

Fosshótel Skaftafell, Freysnesi, 785 Öræfum allt árið*, sími 478 1945

Fosshótel Mosfell, Þrúðvangur 6, 850 Hella (01.06. – 31.08), sími 487 5828

Fosshótel Vatnajökull, Lindarbakka, 781 Hornafjörður (09.05. – 25.09), sími 478 2555

Fosshótel Laugar, 650 Laugar (01.06.- 19.08), sími 464 6300

*Opið í vetur, lokað frá 15. desember til byrjun janúar.

**Skert starfsemi yfir vetrartímann gæti hafist í lok október og staðið fram í ca. mars, það þýðir að betra er að hringja á þau hótel með góðum fyrirvara til að athuga hvað er í boði. Skert starfsemi getur þýtt að ekki er næturvakt á hótelinu og jafnvel að veitingar séu ekki í boði.

Edduhótel:

Verð á gistimiða er krónur kr. 8.450,-. Hver miði gildir fyrir tvo í gistingu í tveggja manna herbergi með handlaug í eina nótt. Ekki er innifalin morgunverður.

Greiðslumiðana má nota á öllum Edduhótelunum sem eru 12 hringinn í kring um landið. Gestir sjá sjálfir um að bóka gistingu. Hótelin bjóða gistingu ýmist í herbergjum með handlaug eða með baði og sum hvorutveggja. Á Edduhótelunum er boðið upp á fjölbreyttar veitingar.

Leyfilegt er að taka með sér 1-2 börn í herbergi án þess að greiða aukalega ef fólk hefur svefnpoka eða rúmföt. Við útvegum dýnu.

Sé gist í herbergi m/baði greiðist aukagjald kr. 7.000- á herbergi.

Sé gist í herbergi m/baði á Hótel Eddu Plus* greiðist aukagjald kr.10.100,-.

– Eins má greiða fyrir upgrate í hvort sem er herbergi með baði eða PLUS herbergi með 2 stk af miðum sem gilda fyrir herbergi með handlaug.

Hótel Edda Plus eru Hótel Edda, Akureyri, Stórutjörnum, Laugum í Sælingsdal og Vík. Þar eru herbergi með baði, sjónvarpi og síma.

Allar frekari upplýsingar um hótelin eru veittar í síma 444 4000 og edda@hoteledda.is

Upplýsingar um hótelin má einnig fá á heimasíðunni https://www.hoteledda.is/

 


Edduhótel:

Suðurland

Hótel Edda Skógar

Hótel Edda ML Laugarvatn

Hótel Edda Vík

Hótel Edda ÍKÍ Laugarvatn

Austurland

Hótel Edda Nesjum

Hótel Edda Neskaupstaður

Hótel Edda Egilsstaðir

Norðurland

Hótel Edda Stórutjarnir

Hótel Edda Akureyri

Hótel Edda Laugarbakki

Vestfirðir

Hótel Edda Ísafjörður

Hótel Edda Laugar í Sælingsdal

Báran, stéttarfélag og Verslunarmannafélag Suðurlands boða samninganefndir til fundar miðvikdaginn 11. janúar nk.

Nú er komið að því að setjast þurfi niður og fara yfir stöðuna á kjarasamningum. Endurskoðun skal, samkvæmt samningnum, lokið 20. janúar 2012 og þarf þá að liggja fyrir ákvörðun um hvort samningurinn standi eða verði sagt upp.

Formannafundur ASÍ var haldinn í gær og var niðurstaða fundarins sú að formenn könnuðu baklandið í sínum félögum áður en endanleg ákvörðun yrði tekin.

Báran, stéttarfélag og Verslunarmannfélag Suðurlands boða samninganefndir sínar til fundar þar sem þessi mál verða rædd.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ mun mæta til fundarins og fara yfir forsendur, efndir og vanefndir.


Fundurinn verður miðvikudaginn 11. janúar næstkomandi kl. 19:00 í húsnæði stéttarfélaganna að Austurvegi 56, 3. hæð