Við vinnum fyrir þig

Translate to

Laun á almennum vinnumarkaði 2010 voru 365 þúsund krónur á mánuði

Regluleg laun á almennum vinnumarkaði voru 365 þúsund krónur að meðaltali árið 2011. Algengast var að regluleg laun væru á bilinu 200–250 þúsund krónur og var tæplega fjórðungur launamanna með laun á því bili. Þá voru rúmlega 60% launamanna með regluleg laun undir 350 þúsund krónum á mánuði. Regluleg laun karla voru 393 þúsund krónur að meðaltali á mánuði en regluleg laun kvenna 321 þúsund krónur.

Heildarlaun fullvinnandi launamanna voru 469 þúsund krónur á mánuði
Heildarlaun þeirra launamanna sem teljast fullvinnandi voru að meðaltali 469 þúsund krónur á mánuði. Helmingur launamanna var með heildarlaun undir 418 þúsund krónum árið 2011 sem var miðgildi heildarlauna. Þá voru tæplega 30% launamanna með heildarlaun á bilinu 300-400 þúsund krónur. Greiddar stundir voru að meðaltali 43,4 á viku.

Laun karla og kvenna
Regluleg laun fullvinnandi karla voru 420 þúsund krónur að meðaltali á mánuði en regluleg laun fullvinnandi kvenna voru 361 þúsund krónur. Helmingur karla var með regluleg laun undir 347 þúsund krónum en um 60% kvenna.

Regluleg laun að viðbættri yfirvinnu, það er regluleg heildarlaun, voru 460 þúsund krónur hjá fullvinnandi körlum en 372 þúsund krónum hjá konum. Þá voru heildarlaun fullvinnandi karla 503 þúsund krónur en heildarlaun kvenna 400 þúsund krónur. Helmingur karla var með heildarlaun undir 447 þúsundum króna en það sama gilti um 75% kvenna.

Þær niðurstöður sem hér er greint frá byggjast á launarannsókn Hagstofu Íslands og ná til tæplega 30 þúsund launamanna á almennum vinnumarkaði í atvinnugreinunum iðnaði, byggingarstarfsemi, verslun, samgöngum og fjármálaþjónustu. Frekari umfjöllun um niðurstöðurnar má finna í nýjum Hagtíðindum um laun á almennum vinnumarkaði 2011.

Heimild: Hagstofa Íslands

Báran Orlofshús

Orlofshús Bárunnar, stéttarfélags sumarið 2012

Báran stéttarfélag auglýsir orlofshús félagsins á Flúðum, Akureyri og í Reykjavík til umsókna fyrir sumar 2012. Umsóknarfrestur er til 10. apríl nk. Hægt er að sækja um á heimasíðu félagsins www.baran.is. eða í gegnum síma Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna 480-5000. Úthlutun orlofshúsa mun liggja fyrir 11. apríl nk. Öllum umsóknum verður svarað skriflega.

Read more „Orlofshús Bárunnar, stéttarfélags sumarið 2012“

Ný íbúð Sjúkrasjóðs Bárunnar

Sjúkrasjóður Bárunnar hefur fest kaup á íbúð að Sóltúni 28 í Reykjavík fyrir skjólstæðinga sjóðsins. Íbúðin er fyrst og fremst hugsuð fyrir þá sem einhverra hluta vegna þurfa að dvelja lengri eða skemmri tíma í Reykjavík af heilsufarsástæðum. Í mörgum tilvikum kann að vera ódýrara að leigja íbúðina en að keyra á milli oft í viku.

Read more „Ný íbúð Sjúkrasjóðs Bárunnar“

Söguferð til Víkur í Mýrdal 12. mars 2012.

Báran stéttarfélag og Verslunarmannafélag Suðurlands standa fyrir söguferð til Víkur í Mýrdal laugardaginn 24. mars n.k. Ætlunin er að kynna sér sögu verslunar og atvinnu í Vík í Mýrdal en verslun hefur verið þar frá árinu 1883. Einnig voru stundaðir sjóróðrar við mjög erfiðar aðstæður. Eitt af frægustu og farsælustu skipum í íslenskri siglingarsögu er vélbáturinn Skaftfellingur. Hann var gerður út frá Vestmannaeyjum og þjónustaði Skaftfellinga um árabil. Í dag er báturinn geymdur í skemmu í þorpinu og verið er að vinna að endurbyggingu hans. Markmiðið er að skoða skipið, heimsækja Brydebúð, rölta um þorpið og skoða sögufræg hús. Leiðsögn um Vík, heimsókn í Brydebúð og skemmuna er í boði heimamanna.

Félagsmenn sjá um að koma sér á staðinn en þeir sem ekki hafa aðgang að bíl og vantar far geta haft samband við Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi í síma 480-5000. Fólk er beðið að skrá sig því Verkalýðsfélag Suðurlands ætlar að bjóða upp á léttan málsverð og því nauðsynlegt að vita fjöldann sem verður í mat. Síðasti skráningardagur er miðvikudagurinn 21. mars nk.

Fyrirhuguð dagskrá

10.15 Safnast verður saman í bíla á bílaplani Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna, Austurvegi 56, Selfossi. Þeir sem skilja bíla sína eftir leggi við austurgafl hússins.

10.30 Brottför frá Selfossi.

Hægt er að leggja bifreiðum á planinu við Brydebúð sem er staðsett í gamla hluta Víkurþorps (vestast í þorpinu).

12.30 Formleg dagskrá hefst við Brydebúð.

SKRÁNING:

Skráning fer fram í síma 480 5000 eða á thor@midja.is

Launþegar athugið!

Launahækkun starfsmanna á almenna markaðinum samkvæmt samningi SGS og SA hefur tekið gildi. Þessir kauptaxtar gilda frá 1. febrúar 2012 til og með 31. janúar 2013. Launataxtar hækka um kr. 11.000 og almenn laun um 3,5% og eiga að koma til útborgunar næstu mánaðarmót.

Nýir launataxtar samkvæmt samningi SGS við ríki og sveitarfélög taka gildi mánuði seinna eða frá 1. mars 2012. Launataxtar hækka um kr. 11.000 og almenn laun um 3,5%.
 
Launataxtana má nálgast á heimasíðunni undir Kjaramál.

Orlofshús Bárunnar, stéttarfélags um páska 2012

Báran, stéttarfélag auglýsir orlofshús félagsins við Flúðir og einnig íbúð félagsins á Akureyri til umsókna fyrir páskahelgina 2012.

Umsóknarfrestur er til 9. mars og hægt er að sækja um á heimasíðu félagsins www.baran.is eða í gegnum síma Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna 480-5000. Úthlutun orlofshúsa mun liggja fyrir 15. mars.

 

Verð á dvöl um páska er kr. 15.000,-.

Einnig er byrjað að taka við umsóknum vegna sumarúthlutunar.

Félagsskírteini 2012

Félagsskírteini Bárunnar, stéttarfélags hefur verið sent öllum félagsmönnum. Félagsskírteinið gildir jafnframt sem afsláttarkort hjá fjölmörgum fyrirtækjum á félagssvæðinu.
Rétt er að vekja athygli á að á Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi eru seldir til félagsmanna gistimiðar á Fosshótel (gildir allt árið) og Edduhótel, miðar í Hvalfjarðargöngin, Útilegukortið og Veiðikortið.

Félagar eru hvattir til að kynna sér afsláttarkjör sem eru í boði. Stéttarfélögin líta á það sem mikilvægan hluta þjónustu sinnar við félagsmenn að útvega og semja um afslætti þar sem reynslan hefur sýnt að hægt er að ná ýmsum kostnaði heimilisins umtalsvert niður séu kjörin nýtt til fulls. Það munar um hvert prósent þegar verð á vöru og þjónustu fer hækkandi.

Hagsýni og hamingja

Deildir Rauða kross Íslands á Suðurlandi, í samstarfi við kirkjur Suðurprófastsdæmis, kvenfélagasamböndin og verkalýðsfélög á Suðurlandi, standa fyrir stuttum og gagnlegum fræðslufyrirlestrum fyrir almenning. Fyrirlesari er Lára Ómarsdóttir fréttakona, sem á einfaldan og auðskiljanlegan hátt kynnir okkur raunhæfar leiðir til sparnaðar

Fyrirlestrarnir verða haldnir á eftirfarandi stöðum:

Kirkjubæjarklaustur: 31.jan. kl. 17:00 Kapellan á Kirkjubæjarklaustri

Vík í Mýrdal: 31.jan. kl. 21:00 Víkurkirkja , Vík í Mýrdal

Uppsveitir Árnessýslu: 2.febr. kl.20:00 Safnaðarheimili Hrunakirkju

Rangárvallasýslu: 6.febr. kl.20:00 Safnaðarheimilið Hellu

Árborg: 7.febr. kl.20:00 Safnaðarheimili Selfosskirkju

Hveragerði: 9.febr. kl.20:00 Safnaðarheimili Hveragerðiskirkju

 

Við hvetjum félagsmenn til að koma og hlusta á léttan og skemmtilegan fyrirlestur og læra leiðir til að vera hagsýn og hamingjusöm um leið og við spörum peninga og tökum á fjármálum heimilisins og fjölskyldunnar

Aðgangur er ókeypis

Kjarasamningar áfram í gildi – uppsagnarákvæði ekki nýtt

Samninganefnd ASÍ hefur sl. föstudag ákveðið að segja ekki upp gildandi kjarasamningum þrátt fyrir vanefndir stjórnvalda á þeim fyrirheitum sem gefin voru við gerð þeirra. Skrifað var undir framlengingu kjarasamninga eftir hádegið í dag.

Yfirlýsing samninganefndar ASÍ vegna endurskoðunar kjarasamninga dags. 20. janúar 2012

Samninganefnd ASÍ hefur í dag ákveðið að segja ekki upp gildandi kjarasamningum þrátt fyrir vanefndir stjórnvalda á þeim fyrirheitum sem gefin voru við gerð þeirra.

Ljóst er að mikill meirhluti aðildarfélaga Alþýðusambandsins telur að mikil verðmæti liggi í þeim launahækkunum sem kjarasamningarnir tryggja og að ekki sé forsvaranlegt að grípa til uppsagna þeirra við núverandi aðstæður. Þetta er niðurstaða umfangsmikillar umræðu sem átt hefur sér stað um forsendur kjarasamninga og framgang þeirra undanfarnar tvær vikur meðal samninganefnda rúmlega 50 aðildarfélaga ASÍ. Aðeins þrjú þeirra vildu segja upp samningum.

Þær forsendur sem lúta að beinum samskiptum launafólks og fyrirtækja á borð við kaupmáttaraukningu launa, stöðugu verðlagi og styrkingu krónunnar standast. Því er ekki ástæða til neinna sérstakra viðbragða af hálfu samninganefndarinnar gagnvart atvinnurekendum. Allar forsendur eru fyrir hendi að kaupmáttur almennra launa hækki þriðja árið í röð og mikilvægt að tryggja að af því verði.  Fjórða forsenda kjarasamninga snýr að efndum ríkisstjórnarinnar á þeim fyrirheitum sem gefin voru með yfirlýsingu hennar frá 5. maí 2011.

Það er ekki ofsögum sagt að samskipti verkalýðshreyfingarinnar við ríkisstjórnina vegna vanefnda hennar á mikilvægum liðum yfirlýsingarinnar hafa verið með slíkum ólíkindum að hrikt hefur í stoðum. Í þeim erfiðleikum sem þjóðin er í hafa aðildarfélög Alþýðusambands Íslands lagt mikla áherslu á að skapa forsendur fyrir breiðri sátt á vinnumarkaði og við stjórnvöld. Sátt sem lagt geti grunninn að öflugri sókn í efnahags-, kjara- og atvinnumálum. Mikilvægur liður í þessu var að tryggja frið á vinnumarkaði á sama tíma og sóttar hafa verið kjarabætur fyrir íslenskt launafólk. Með gerð kjarasamninganna á síðasta ári tókst þetta verkefni. Það er því makalaust að það skuli vera ríkisstjórn Íslands sem er sá aðili sem ógnar þeirri sátt sem náðst hefur á vinnumarkaði.

Þrátt fyrir mikla tregðu á stjórnarheimilinu hefur við þessa endurskoðun kjarasamninga tekist að þoka áfram mikilvægum málum. Má þar nefna tilraunaverkefni þar sem stéttarfélögin í samstarfi við atvinnurekendur koma í ríkara mæli að þjónustu við atvinnuleitendur einkum í formi ráðgjafar og vinnumiðlunar. Átak verður gert í baráttunni við félagsleg undirboð í tengslum við útboð þjónustu og verklegra framkvæmda og kennitöluflakk. Alþýðusambandið mun koma að endurskoðun laga um almannatryggingar sem miða m.a. að því að koma á frítekjumarki vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum.

Þegar kemur að atvinnumálum stendur enn margt út af borðinu og fátt verið gert. Sérstök vonbrigði vekur sá seinagangur sem er í afgreiðslu rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem átti að liggja fyrir í lok síðasta árs. Mikilvægt er að sú vinna við faglega forgangsröðun virkjanakosta, sem átt hefur sér stað sl. 10 ár, verði lögð fram á Alþingi og að um hana geti verið breið sátt því með henni yrði lagður grunnur að 10-15 ára uppbyggingu atvinnulífs í sátt við náttúruna.

Þrátt fyrir að tekist hafi að þoka málum áfram eru það mikil vonbrigði og að sama skapi ámælisvert að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar séu með þeim hætti að málum er hleypt í farveg átaka um efnisatriði sem sátt hafði náðst um fyrir átta mánuðum. Innan raða Alþýðusambandsins ríkir mikil gremja í garð stjórnvalda vegna þessa. Það er ólíðandi að íslenskt launafólk skuli ekki geta treyst orðum oddvita ríkisstjórnarinnar.


Sameiginleg yfirlýsing samninganefnda ASÍ og SA vegna opnunarákvæða kjarasamninga 20. janúar 2012.


Yfirlýsing SA.

Tekið af heimasíðu ASÍ