Við vinnum fyrir þig

Translate to

Ensk og pólsk þýðing á aðalkjarasamningi SGS og SA

SGS hefur látið þýða aðalkjarasamning SGS og SA yfir á ensku og pólsku og má finna þessar útgáfur á heimasíðu félagsins. Í þessum þýddu útgáfum er fyrirvari efst á hverri blaðsíðu um að upprunalega íslenska útgáfan hafi alltaf forgang ef upp kemur ágreiningur. Greiðasölusamningurinn verður svo vonandi klár á næstu vikum, þ.e. bæði á ensku og pólsku.

Þessi útgáfa er liður í því að auka upplýsingagjöf og þjónustu SGS og félaganna gagnvart okkar fjölmörgu erlendu félagsmönnum og vonandi að þetta verði til þess að fleiri verði betur upplýstir um sín réttindi.

English and Polishtranslation of the collective agreement between SA and SGS is now available online.

Drífa Snædal forseti ASÍ – Desemberuppbót en ekki biðraðir

Við vitum öll að sú kreppa sem nú gengur yfir kemur afar misjafnt niður á fólki eftir aldri, atvinnugreinum og búsetu. Ósk eftir aðstoð frá hjálparsamtökum hefur aukist til muna og sama má segja um beiðnir um fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Við hljótum að vera sammála um að draga úr neyðinni og það sé smánarblettur að fólk þurfi að leita á náðir hjálparsamtaka til að geta haldið jól. Það minnsta sem hægt er að gera einmitt núna er að tryggja atvinnuleitendum desemberuppbót sambærilega þeirri sem er að finna í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, þ.e. 94.000 krónur. Það er uppbótin sem aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um sem viðmið og það er eðlileg krafa að atvinnuleitendur fái slíka uppbót. Að sama skapi skal tryggja uppbót fyrir öryrkja sem kemur þeim ekki í koll í harkalegum skerðingum þannig að desemberuppbótin verði skatta- og skerðingalaus. Gerum allavega þetta rétt og drögum úr neyðinni!

Í vikunni birti OECD ótrúlega skýrslu um samkeppnismat á Íslandi. Það er eins og dustað hafi verið rykið af skýrslu frá síðustu aldamótum og úreltar kreddur um að draga úr eftirliti séu í sjálfu sér góðar óháð innihaldinu. Við verðum að hafa í huga að reglur um mannvirki eins og aðrar reglur eru til að vernda heilsu og velferð fólks. Það verður að vera í forgrunni við allar ákvarðanir að við séum ekki að slaka á kröfum um velferð. Sama má segja um tillögurnar um að draga úr löggjöf um löggiltar starfsgreinar – slíkar reglur eru settar til að tryggja fagmennsku og gæði umfram allt annað og við eigum að hafa þann metnað áfram. Að „draga úr samkeppnishindrunum“ í leigubifreiðaakstri er til að mynda glórulaus tillaga um að sleppa hark-hagkerfinu lausu og verður til þess eins að draga úr öryggi farþega og lækka tekjur þeirra sem hafa lífsviðurværi sitt af leigubifreiðaakstri. Gerum ekki sömu mistök og aðrar þjóðir í þeim efnum!
Endurreisum atvinnulífið á tryggum ráðningarsamböndum, fagmennsku og öryggi!

Góða helgi,
Drífa

Ný hagspá ASÍ 2020-2022

Í ár dregst verg landsframleiðsla saman um 7,9% í sögulegum samdrætti, þeim mesta frá árinu 1920. Gera má ráð fyrir hægum viðsnúningi í efnahagslífi á næsta ári en efnahagsleg viðspyrna mun þó alfarið ráðast af getu yfirvalda hérlendis og erlendis til að ná böndum á útbreiðslu COVID-19. Spá ASÍ gerir ráð fyrir því að síðari hluta næsta árs verði faraldurinn á undanhaldi og að millilandaferðalög hafi tekið við sér að nýju. Þetta er sett fram með þeim fyrirvara að það er ekki í valdi ASÍ að spá fyrir um þróun COVID-19. Að teknu tilliti til þessa mælist hagvöxtur þó einungis 1,8% á næsta ári en efnahagslegur bati mun verða merkjanlegri árið 2022 með 3,2% vexti þjóðarútgjalda og 3,4% hagvexti.

Mikil óvissa ríkir um efnahagslega framþróun um þessar mundir. Ómögulegt er að segja til um útbreiðslu COVID-19, afléttingu ferðatakmarkana, þróun bóluefnis og fleiri aðgerða sem hafa lykiláhrif á efnahagslífið. Spá ASÍ er ein sviðsmynd en horfurnar gætu hæglega verið bjartari eða dekkri.

Útflutningur dregst saman um 28% milli ára og bati verður hægari en væntingar voru um í fyrstu. Spáð er 9,2% vexti útflutnings á næsta ári og 11,4% árið 2021 en sá vöxtur byggir á því að farið verði að rofa til í millilandaferðalögum á síðari hluta næsta árs.

Góð fjárhagsstaða heimila í aðdraganda faraldursins studdi við einkaneyslu á þessu ári. Samdráttur í einkaneyslu mældist eingöngu 4% á fyrri helmingi ársins 2020 en útlit er fyrir að einkaneyslan dragist meira saman á síðari hluta ársins. Skýr mynd af fjárhagsstöðu heimilanna liggur ekki fyrir en ljóst er að gríðarlegur fjöldi heimila hefur orðið fyrir þungu höggi í kjölfar COVID-19 með vaxandi atvinnuleysi og tekjumissi. Vaxtalækkanir, greiðsluhlé lána, úttekt séreignasparnaðar og fleiri ráðstafanir hafa létt undir með heimilum og stutt neyslu þeirra yfir sumarmánuðina. Þó er hætta á að afleiðingar fjárhagsvanda komi fram á næsta ári þegar atvinnulausir missa tekjutengdar atvinnuleysistryggingar og draga mun úr áhrifum af öðrum úrræðum á borð við greiðsluhlé. Spáð er 5,3% samdrætti í einkaneyslu á þessu ári og útlit er fyrir að vöxtur verði hægur á næsta ári eða einungis 1,7%.

Hrun í komum ferðamanna hefur haft alvarlega afleiðingar á vinnumarkaði. Viðkvæmar aðstæður ríktu á vinnumarkaði áður en útbreiðsla Covid-19 gerði vart við sig en atvinnuleysi hafði þegar byrjað að aukast á síðasta ári. Alls voru yfir 18 þúsund einstaklingar án atvinnu í september mánuði og þar af höfðu 3.274 verið án atvinnu í meira en tólf mánuði. Atvinnuleysi mælist hátt út spátímann en samkvæmt spá ASÍ verður 7,8% atvinnuleysi á þessu ári og mun það fara vaxandi fram á næsta ár þegar það verður 8,6%. Draga mun úr atvinnuleysi 2022 þegar það fer í 6,9% en sá bati á vinnumarkaði er háður viðsnúningi í ferðaþjónustu.

Verðbólga hefur farið vaxandi á árinu og mældist 3,6% í október. Veiking á gengi krónunnar hefur leitt til verðhækkana á innfluttum vörum en á móti hefur dregið úr verðbólguþrýstingi með lægra hrávöruverð og lækkun vaxta. Verðbólga verður yfir markmiði Seðlabankans á næsta ári, um 3,3% og draga mun úr verðbólguþrýstingi er líður á árið. Árið 2022 má búast við að hún verði í kringum 2,5% eða í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Horfur í efnahagsmálum – hagspá ASÍ 2020-2022

Enn er beðið eftir févítinu

Föstudagspistill Drífu Snædal forseta ASÍ vakti mikla athygli. Hún fjallaði um launaþjófnað. bið eftir lagasetningu um févíti og hertar samkomutakmarkanir. Hér fyrir neðan pistillinn:

Launafólk á Íslandi er orðið langeygt eftir lagasetningu um févíti. Grunnhugmyndin er að þegar launafólk verður fyrir launaþjófnaði af hendi atvinnurekenda fái það bætur fyrir. Ekki að bæturnar renni í ríkissjóð eða eitthvert annað heldur að viðkomandi einstaklingur fái bæturnar. Þetta þarf að gerast hratt og vera skilvirkt því það getur fylgt því mikill kostnaður að verða fyrir launaþjófnaði og enn meiri kostnaður ef bíða þarf lengi eftir upggjöri. Margir hafa orðið til þess að flækja málin út frá lagatæknilegum sjónarmiðum en ég minni á að löggjöfin á að þjóna okkur en ekki við henni. Ef við getum verið sammála um grunnhugsunina, sem erfitt er að sjá að heiðarlegt fólk geti verið ósammála, þá ættum við að geta smíðað löggjöf í kringum það.

Við höfum nú beðið í eitt og hálft ár eftir tillögum úr ráðuneytinu, verkalýðshreyfingin hefur sjálf lagt til útfærslu en enn bíðum við. Það gengur ekki lengur! Komum þessu frá þannig að hægt sé að einbeita sér að öðrum risa verkefnum. Þar ber hæst að verja heimili sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli vegna Covid og aðstoða jaðarsetta hópa sérstaklega.

Þær voru erfiðar fréttirnar af hertu samkomubanni og munu þær vafalaust breyta vinnuumhverfi margra. Ég tek undir með yfirvöldum þegar ég hvet til samstöðu um hertar aðgerðir. Það er ekkert annað í stöðunni en að gera okkar allra besta til að sigrast á veirunni. Ef vinnustaðir gæta ekki nógu vel að sóttvörnum hvet ég launafólk til að hafa samband við sitt stéttarfélag eða Vinnueftirlitið. Við eigum öll að vera örugg í vinnunni. Að lokum sendi ég baráttukveðjur til framlínustarfsfólks. Störf ykkar eru ómetanleg á þessum erfiðu tímum.

Drífa Snædal

Sjá frétt á heimasíðu ASÍ

Hurðin verður læst en samt verður opið

Vegna hertra aðgerða stjórnvalda hefur verið tekin sú ákvörðun að loka skrifstofu Bárunnar að Austurvegi 56 ótímabundið. Starfsfólk Bárunnar mun vinna í Fjarvinnu og verður hægt að hafa samband við okkur í gegnum tölvupóst (baran@baran.is) og síma (480 5000). Einnig má koma með gögn í póstkassa okkar sem er á jarðhæð Austurvegs 56.

Við hvetjum félagsmenn að hika ekki við að hafa samband við okkur.  Einnig langar okkur að hvetja alla til þess að fylgjast vel með aðgerðum yfirvalda og fara eftir þeim, frekari upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda og hvernig skal huga að sóttvörnum fyrir þig og þína má finna á www.covid.is .

 

Kær Kveðja,

Starfsfólk Bárunnar, Stéttarfélags

 

Due to the government’s measures to work against covid-19, the decision has been made to close Báranns office at Austurvegur 56 indefinitely. Báranns staff will be working from home  and it will be possible to contact us via e-mail (baran@baran.is) and telephone (480 5000). You can also bring data to our mailbox on the ground floor of Austurvegur 56.

We encourage members not to hesitate to contact us. We would also like to encourage everyone to monitor and follow the actions of the authorities, more information on the actions of the government and how to keep you and your family safe can be found on www.covid.is .

 

Yours sincerely

Staff of Báran, Trade Union

Full fjármögnun námskeiða hjá NTV

 

 

Gerður hefur verið samningur við NTV skólann um fulla fjármögnun á 6 námskeiðum/námsleiðum sem allt eru starfsþróunarmiðuð og verkefnadrifin fjarnámskeið sem boðið verður upp á í samstarfi við aðildarfélög Landsmenntar, , Ríkismenntar, Sveitamenntar og Sjómenntar. Félagsmenn aðildarfélaga sjóðanna munu fá námskeið að fullu niðurgreidd.

Einstaklingar skrá sig hjá NTV skólanum eða í gegnum sitt stéttarfélag og mun skólinn senda reikninga beint á skrifstofu fræðslusjóðanna.

Þátttakendur skrá sig á námskeið á slóðinni https://www.ntv.is/is/namskeid/nam-i-bodi-stettarfelags

Verkefnið er tilraunaverkefni fram að áramótum og munu námskeiðin hefjast um mánaðarmótin okt/nóv nk. Öll námskeiðin, námsefni, verkefnavinna, verkefnaskil og samskipti eru inni á nemendaumhverfi NTV skólans í gegnum nettengingu.

Námskeiðin sem um ræðir eru:
Bókhald Grunnur 8 vikur (120 kes.)
Digital marketing 7 vikur (112 kes.)
Frá hugmynd að eigin rekstri 4 vikur (60 kes.)
App og vefhönnun 6 vikur (90 kes.)
Vefsíðugerð í WordPress 4 vikur (50 kes.)
Skrifstofu og tölvufærni 6 vikur (96 kes.)

Nánari lýsingu á námskeiðum má finna með því að smella á slóðina:

https://www.ntv.is/is/um-ntv/yfirlit-flokka/view/stettarfelags-namskeid

Verðkönnun – Mikil hreyfing á matvörumarkaði

Verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á matvöru sem gerð var 8. september sýnir gríðarlegan mun á verðlagi í þeim 14 verslunum sem skoðaðar voru. Í 42 tilfellum af 104 var yfir 100% munur á hæsta og lægsta verði, þar af var munurinn í 14 tilfellum yfir 160%. Í 50 tilfellum var munurinn 40-100%.
Könnunin náði bæði til lágvöruverðsverslana og minni verslana sem eru margar hverjar með lengri opnunartíma auk verslana sem eru staðsettar á landsbyggðinni og eru hluti af stærri keðjum. Mikil hreyfing hefur verið á matvörumarkaði undanfarið þar sem nýjar verslanir hafa komið í staðinn fyrir gamlar en það getur haft áhrif á verðlag.
Verðlag í 10-11, Krambúðinni og Samkaup Strax hátt en verðlag í Iceland lækkað
10-11 sker sig úr og er með hæsta verðið í lang flestum tilfellum og munar töluvert miklu á verðlagi í 10-11 og þeim verslunum sem næstar koma. 10-11 var með hæsta verðið í 73 tilfellum af 104, Samkaup Strax næst oftast, í 11 tilfellum og Krambúðin í 9 sinnum. 10-11 verslunum hefur fækkað töluvert og eru nú einungis fjórar eftir, þar af þrjár í miðbæ Reykjavíkur. Þrjár nýjar matvöruverslanir undir nafninu Extra hafa opnað á þessu ári en þær eru staðsettar í Reykjavík, Reykjanesbæ og á Akureyri. Verð hjá Extra á þeim vörum sem voru í könnuninni er upp og ofan, stundum nokkuð lágt en í öðrum tilfellum tiltölulega hátt. Extra er í eigu Basko sem á einnig 10-11. Samkaup Strax verslunum hefur fækkað mikið og er einungis ein eftir í Reykjavík en hún er í eigu Samkaupa rétt eins og Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland.
Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni, í 60 tilfellum af 104, Krónan næst oftast, í 13 tilfellum og loks Fjarðarkaup í 9 tilfellum. Ef verslununum er raðað upp miðað við verðlag á þeim vörum sem voru til skoðunar í þessari könnun má sjá að Iceland hefur fært sig töluvert nær lágvöruverðsverslunum í verði en áður. Iceland er til að mynda oft með lægra verð en Hagkaup í þessari könnun en í fyrri könnunum  var það á hinn veginn, þ.e. Iceland oftar með hærra verð.
Krambúðum fjölgar á landsbyggðinni og hækkar matvöruverð
Töluverð umræða hefur verið um matvöruverslanir á landsbyggðinni undanfarið en íbúar sumstaðar hafa verið ósáttir við að Kjörbúðinni hafi verið skipt út fyrir Krambúðina. Verð í síðarnefndu versluninni er mörgum tilfellum töluvert hærra rétt eins og könnunin sýnir. Krambúðirnar eru staðsettar á 21 stað víðsvegar um landið, þar af eru 10 verslanir á höfuðborgarsvæðinu.
Í þessari könnun má einnig sjá verð í Kjarval og Kr. búðinni sem er eru báðar í eigu Festis rétt eins og Krónan. Út frá verði á þeim vörum sem könnunin náði til virðist verðlag í Kjarval og Kr. verslunum vera á svipuðum slóðum og verðlag í Kjörbúðinni, Fjarðarkaupum og Iceland en Kjarval og Kr. búðin eru staðsettar í fjórum minni bæjum á landsbyggðinni þar sem nokkuð langt er í næstu verslun.
Í verðtöflunni hér að neðan má sjá dæmi um verð. Sjá einnig hitamynd hér.
Sama verðkönnun var framkvæmd í minni verslunum á landsbyggðinni en hér má nálgast niðurstöður úr þeirri könnun.
Um könnunina
Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Mjódd, Bónus Smáratorgi, Krónunni Lindum, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Hagkaup Skeifunni, Kjörbúðinni Garði, Krambúðinni Laugardal, Heimkaup.is, Samkaup Strax, Tíu ellefu Laugavegi, Extra Barónstíg, Kr. Þorlákshöfn, Kjarval Hellu.
Í könnuninni var hilluverð á 104 vöru skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. Til að fá fram röðunina á verslununum eru frávik frá lægsta verði reiknuð og raðast verslanirnar því eftir því hversu langt þær eru frá þeirri verslun sem er með lægstu verðin. Þar sem verð vantar eru meðalverð notuð.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.
Sjá nánari upplýsingar og flettitöflu með öllum vörunum í frétt á heimasíðu ASÍ.

 

Ekkert um okkur án okkar

Þing ASÍ var sett í morgun. Hér má finna ávarp varaformanns ASÍ-Ung.

 

Þingfulltrúar og aðrir góðir gestir

Ég heiti Ástþór Jón Ragnheiðarson. Ég starfa sem þjálfari og er varaformaður ASÍ-UNG.

ASÍ-UNG eru samtök ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar sem sjá til þess að hagsmunamál ungs fólks á vinnumarkaði séu ávallt á dagskrá Alþýðusambandsins.

Síðastliðið starfsár hefur verið ákaflega viðburðarríkt hjá ASÍ-UNG. Við höfum staðið fyrir hinum ýmsu viðburðum sem miða að ungu, vinnandi fólki. “Ertu með vinnuna í vasanum” – pallborðsumræður og fundur um skilin milli vinnu og einkalífs var haldinn í stúdentakjallaranum. Tekið var þátt í “ungir leiðtogar” námskeiðinu. CPow sem er heimsátak alþjóðaverkalýðshreyfingarinnar ITCU gegn hamfarahlýnun, en þar er af nógu að taka.

Þá hefur ASÍ-UNG einnig átt fulltrúa í hinum ýmsu nefndum innan verkalýðshreyfingarinnar. Ástþór Jón var settur fulltrúi ASÍ í ETUC-youth committe, sem er nefnd innan evrópsku verkalýðshreyfingarinnar og hefur hann verið okkar málsvari þar, og sótti meðal annars ráðstefnu í Portúgal í lok janúar.
Innan ASÍ eigum við svo fulltrúa í öllum fastanefndum og einnig situr formaður fundi miðstjórnar ASÍ.

Ég get sagt, full sjálfstrausts, að ASÍ-UNG hefur haft í nógu að snúast og svo sannarlega gætt hagsmuna ungmenna innan verkalýðshreyfingarinnar. Fyrstur manna skal ég viðurkenna að við hefðum getað verið sýnilegri, en það veltur líka á því hve sýnileg heildarstamtökin leyfa okkur að vera. Hve mikil raunveruleg áhrif við fáum að hafa.

Það er nefninlega þannig, að til þess að ASÍ-UNG geti haft áhrif á hagsmunamál ungs fólks, þurfa heildarsamtökin að gera okkur kleift að hafa þau áhrif.

Nú liggur fyrir frumvarp um breytingu á fæðingarorlofslögum. ASÍ hefur komið að vinnu við þetta frumvarp og styður það, en það gerir ASÍ-UNG ekki. Það vill nefninlega svo til að þó svo að við eigum að sjá til þess að málefni ungs fólks séu ávallt á dagskrá, fáum við ekki alltaf að taka þátt í þeim málum, sem er ákaflega slæmt, sérstaklega þegar um er að ræða málefni af þessari stærðargráðu.

Ég held að ekki sé hægt að finna grímulausara dæmi um skort á samstafi og samráði heldur en akkurat í þessari vinnu. Málefni sem varðar ungt fólk, fyrir ungt fólk, en án aðkomu ungs fólks.
Í grunninn hljóðar þetta frumvarp þannig að:
– fæðingarorlof lengist upp í 12 mánuði
– orlofinu er jafnskipt milli foreldra eða 6 mánuðir á hvort
– tökutími styttist úr 24 mánuðum niður í 18
Fljótt á litið er þetta flott, þarna er verið að auka jafnrétti kynjanna með jafnri skiptingu. En þegar betur er að gáð þá koma ýmsir vankantar í ljós. Jafnrétti er nefninlega mikilvægt, en velferð barnsins á ávalt að vera í forgrunni.

Þannig er mál með vexti að þetta er frumvarp sem hentar hálauna og forréttindafólki vel.

Velferð barns, jafnréttissjónarmið og þar eftir götum, eru ekki höfð í fyrirrúmi, þrátt fyrir tilraunir til þess að láta okkur halda það, staðreyndirnar eru einfaldlega:
– Tökutími fer úr 24 mánuðum niður í 18.
– Börn einstæðra mæðra fá styttra orlof, ekki er gert ráð fyrir að þær fái 12 mánaða orlof, heldur mesta lagi 7.
– Þetta hentar vel tekjumiklu fólki, sem þolir skerta innkomu í nokkurn tíma, þar sem fyrir eru góðir sjóðir.
Þetta er akkurat ekkert annað en sparnaðaraðgerð, færri koma til með að fullnýta rétt sinn. Einstæðar mæður fá minna og feður munu taka minna orlof, því miður blasir það við. Síðan er þessi orðræða um skiptingu orlofs fáránleg. Þetta á að vera jafnt? Faðirinnn á jafn mikinn rétt á orlofi og þar eftir götum? Sá eini sem á rétt á orlofinu er barnið, hvort sem það sé tekið jafnt eða meirihluta með öðru foreldri.

Það að ASÍ taki þátt í aðgerðum sem hentar forréttinda og háluna fólki vel, í nafni jafnréttis og á kostnað þeirra sem minna meiga sín, er með öllu óásættanlegt. Við eigum að vera málsvari jaðarsettra hópa, en ekki forréttindahópa.

Í fjölmiðlum er því gjarnan haldið fram að verkalýðshreyfingin sé ósamstíga og ósammála, að við göngum ekki í takt og séum klofin. En það er líka akkurat það sem gerist, þegar ekki er unnið saman, eins og í þessu máli hér. Til þess að koma fram sem sterk, sameinuð heild, þá verðum við að vinna saman og eiga samtalið, til þess erum við hér, málsvarar ungs fólks.
En við skulum ekki dvelja í fortíðinni. Það er okkur unga fólkinu eðlislægt að horfa fram á veginn. Horfumst í augu við það sem hefur farið á mis, lærum af mistökum okkar og setjum okkur það markmið að gera betur í framtíðinni, með þátttöku allra. Aðeins þannig myndast sterk og sameinuð heild sem gætir hagsmuna vinnandi fólks.