Við vinnum fyrir þig

Translate to

FRÆÐSLUDAGUR FÉLAGSLIÐA

Nær þrjátíu félagsliðar af öllu landinu hittust í sal Bárunnar, stéttarfélags á Selfossi 30. mars til að bera saman bækur sínar, fræðast og fjalla um stöðu stéttarinnar. Félagsliðar eru vaxandi stétt en hafa því miður ekki notið þeirrar stöðu sem sjálfsögð er til dæmis með að löggilda starfsheitið félagsliði sem heilbrigðisstétt. Áskorun hefur verið send á heilbrigðisráðherra í kjölfar bréfaskipta og funda og eru bundnar vonir við að málið nái fram að ganga. Á fræðslufundinum var fjallað um kjarasamninga, starfsmat sveitarfélaganna, áhrif vaktavinnu á heilsu og vellíðan og einnig var erindi um hvernig best sé að rækta sjálfa/n sig. Góður rómur var gerður að fræðsludeginum sem var haldinn í annað sinn á vegum Starfsgreinasambandsins og nú í samstarfi við Félag íslenskra félagsliða. Sterk krafa var um að slíkur dagur skyldi haldinn allavega á árs fresti.

 

Frétt og ljósmynd: SGS

Listi uppstillinganefndar

Listi uppstillinganefndar fyrir kjör í stjórn og nefndir Bárunnar fyrir aðalfund 2016 liggur fyrir í afgreiðslu Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi.

Dagsetning aðalfundar verður auglýst síðar

 

ASÍ 100 ára – fréttatilkynning

Verkalýðshreyfingin er ein öflugasta félagshreyfing þjóðarinnar. Flestir vita af hreyfingunni, margir njóta þjónustu hennar, sýna skilning á hlutverki hennar en þeir eru líklega fleiri sem gera sér ekki grein fyrir hversu stórt hlutverk hennar er í sögu þjóðarinnar síðustu 100 árin. Þess vegna er mikilvægt að rifja upp söguna og vekja athygli á framlagi verkalýðshreyfingarinnar til mótunar íslensks samfélags. Þann 12. mars 2016 verða 100 ár liðin frá því að 20 einstaklingar frá sjö verkalýðsfélögum bundust samtökum til að efla samtakamátt sinn í baráttunni fyrir bættum kjörum og Alþýðusambandið varð til.

Á fyrstu árum hreyfingarinnar snérust baráttumálin um að verkafólk fengi greitt fyrir vinnu í peningum, um hvíldartíma og mannsæmandi mannabústaði. Alla tíð síðan hafa réttindamál af ýmsum toga einkennt starf verkalýðshreyfingarinnar og er nú svo komið að réttindi og aðbúnaður íslensks launafólks er með því allra besta sem þekkist í heiminum. Má þar nefna veikinda- og orlofsrétt, sjúkrasjóði og lífeyrisréttindi. Það má þó ekki sofna á verðinum því stöðugt þurfa stéttarfélögin að verja það sem hefur áunnist auk þess að sækja fram til frekari sigra.

Þjóðminjasafn Íslands
Sögu Alþýðusambandsins verða gerð viðeigandi skil á ljósmyndasýningunni Vinnandi fólk í Þjóðminjasafninu sem opnar 5. mars nk. Þar verður birtu brugðið á það hvernig aðstaða og aðbúnaður vinnandi fólks á Íslandi hefur breyst frá stofnun ASÍ. Sýningin er vitnisburður um framþróun hjá vinnandi fólki á mörgum sviðum á síðustu hundrað árum. Máttur ljósmyndarinnar er magnaður, hún sýnir okkur betur en flest, veruleikann eins og hann var.

Listasafn ASÍ
Í stórfenglegri listaverkagjöf Ragnars Jónssonar í Smára til Alþýðusambands Íslands, sem varð kveikjan að stofnun Listasafns ASÍ 1961, eru mörg af þekktustu myndverkum tuttugustu aldar eftir nokkra fremstu listamenn þjóðarinnar; Ásgrím Jónsson, Jón Stefánsson, Jóhannes Sveinsson Kjarval Nínu Tryggvadóttur og Svavar Guðnason. Á sýningunni, GERSEMAR úr safneign Listasafns ASÍ, sem opnar 5. mars verða verk eftir ofangreinda listamenn sýnd í bland við aðrar og minna þekktar perlur úr safneigninni.

Tónlist hefur leikið stórt hlutverk í verkalýðshreyfingunni alla tíð og tónlist verður einkennandi í afmælisfagnaði ASÍ. Boðið verður til tónleika á fjórum stöðum á landinu 12. mars þar sem ungir og ferskir listamenn stíga á svið í bland við eldri og reyndari.

Reykjavík dagur
Fjölskylduskemmtun í tilefni 100 ára afmælis ASÍ hefst í Hörpu kl. 14 laugardaginn 12. mars. Boðið verður upp á tónleika með Páli Óskari og Úlfi Úlfi í Norðurljósasalnum.  Auk þess setur tvíeykið magnaða, Hundur í óskilum, upp stutta leiksýningu í Kaldalóni kl. 15 og 16 þar sem farið verður yfir athyglisverða hluti úr 100 ára sögu verkalýðshreyfingarinnar. Kl. 17:30 blæs Lúðrasveit verkalýðsins svo til tónleika í Kaldalóni. ASÍ býður svo gestum Hörpunnar upp á afmælisköku, kaffi og djús í tilefni aldarafmælisins. Það er frítt inn á alla þessa viðburði og ekki þarf að ná sér í miða til að vera með á fjölskylduskemmtuninni.

Reykjavík kvöld
Frábærir listamenn koma fram til að fagna þessum tímamótum með okkur: Retro Stefson, Mannakorn, Valdimar, Hundur í óskilum, Mammút og Lúðrasveit Verkalýðsins. Kynnar verða Halldóra Geirharðsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir. Aðgangur er ókeypis en miðar verða afhentir á tix.is og harpa.is og hefst afhending miða föstudaginn 4. mars kl. 12 á hádegi.

Akureyri
Ljósmyndasýning og tónleikar í Hofi á Akureyri laugardaginn 12. mars kl. 20. Fram koma: Agent Fresco, Ylja, Hvanndalsbræður og Emmsje Gauti. Aðgangur er ókeypis en nauðsynlegt er að nálgast miða á tix.is. Afhending miða hefst föstudaginn 4. mars kl. 12 á hádegi.

Ísafjörður
Ljósmyndasýning og tónleikar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði laugardaginn 12. mars kl. 20. Fram koma: Mugison og Lára Rúnars. Aðgangur er ókeypis en nauðsynlegt er að nálgast miða á tix.is. Afhending miða hefst föstudaginn 4. mars kl. 12 á hádegi.

Neskaupstaður
Ljósmyndasýning og tónleikar í Egilsbúð í Neskaupstað laugardaginn 12. mars kl. 20. Fram koma: Bjartmar Guðlaugs, Lay Low og Úlfur Úlfur. Aðgangur er ókeypis en nauðsynlegt er að nálgast miða á tix.is. Afhending miða hefst föstudaginn 4. mars kl. 12 á hádegi.

 

 

Stuðningsyfirlýsing

Stéttarfélögin í Suðurkjördæmi lýsa yfir fullum stuðningi við félaga okkar í Straumsvík og stéttarfélög þeirra í vinnudeilu við Samtök atvinnulífsins og Rio Tinto Alcan. Framganga hins alþjóðlega fyrirtækis með stuðningi SA felur í sér aðför að verkalýðsfélögum og þar með félagsmönnum þeirra og verður ekki lengur við unað.

Framganga SA og stuðningur við aðgerðir Rio Tinto í þessu máli samræmist ekki málflutningi samtakanna um sameiginlegt vinnumarkaðsmódel og sátt þeirri er því fylgir.

 

Stéttarfélögin í suðurkjördæmi:

Báran stéttarfélag

Drífandi stéttarfélag

Verkalýðsfélag Grindavíkur

Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis

Verkalýðsfélag Suðurlands

Verslunarmannafélag Suðurlands

Ljósmynd: ASÍ

Nýr kjarasamningur samþykktur

Sameiginlegri allsherjaratkvæðagreiðslu félagsmanna aðildarsamtaka ASÍ um kjarasamning milli aðildarsamtaka ASÍ og SA frá 21. janúar 2016 lauk kl. 12 á hádegi í dag.

Já sögðu 9.724 eða 91,28%. Nei sögðu 832 eða 7,81%. Auðu skiluðu 97 eða 0,91%. Kjarasamningurinn var því samþykktur.

Á kjörskrá voru 75.635. atkvæði greiddu 10.653 eða 14,08%.

Kjörstjórn aðildarsamtaka ASÍ

 

Sjá kjarasamninginn:

Kjarasamningur aðildarfélaga ASÍ við SA 1. janúar  2016 – 31. desember 2018

 

Sjá kauptaxta:

Kauptaxtar 1. janúar 2016 – 30. apríl 2017

 

Loksins boðað skref til að sporna við kennitöluflakki – viðbrögð ráðherra vekja furðu

Í gær var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (kennitöluflakk). Flutningsmenn eru fulltrúar allra flokka sem sitja á Alþingi annarra en Sjálfstæðisflokksins. Meginefni frumvarpsins er að lagt til að stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjórar hlutafélaga megi ekki á næstliðnum þremur árum hafa verið í forsvari fyrir tvö eða fleiri félög sem orðið hafa gjaldþrota. Hér undir fellur einnig það þegar stofnendur, stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar hafa hætt störfum áður en félag verður gjaldþrota og það fært undir stjórn svokallaðra útfararstjóra sem ganga með fyrirtækið í gjaldþrot. Um hæfisskilyrði er að ræða sem einstaklingar, sem ætla að stofna fyrirtæki, gerast stjórnarmenn eða eru ráðnir sem framkvæmdastjórar, þurfa að uppfylla.

Þetta eru fyrstu tilburðir á Alþingi um árabil til að stemma stigu við kennitöluflakki, þrátt fyrir að sá mikil samfélagslegi skaði sem kennitöluflakkið veldur sé löngu þekktur. En kennitöluflakkið þýðir milljarða tap fyrir sameiginlega sjóði landsmanna, auk þess skaða sem það veldur einstaklingum og atvinnulífinu öllu. Að vísu má gagnrýna að ekki sé gengið lengra og lagðar til frekari aðgerðir í baráttunni gegn kennitöluflakkinu. Það ber þó að fagna þessu frumkvæði um leið og vænta má þess að því verði fylgt frekar eftir. Í því sambandi er rétt að minn á tillögur sem Alþýðusambandið hefur sett fram til að sporna gegn kennitöluflakkinu ásamt greinargerð um það efni.

Um leið vekur framtak flutningsmannanna athygli á þeirri staðreynd að iðnaðar- og viðskiparáðherra sem fer með málaflokkinn hefur þrátt fyrir stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar ekki aðeins látið hjá líða að gera nokkuð til að sporna við þeirri samfélagslegu meinsemd sem kennitöluflakkið er heldur hreinlega lagst gegn öllum hugmyndum í þeim efnum. Þannig er haft eftir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í frétt á RÚV að hún „efist hins vegar um að frumvarp Karls virki eins og best verði á kosið. Það sé til að mynda of íþyngjandi fyrir nýsköpunarfyrirtæki þar sem menn þurfa oft á tíðum að gera margar tilraunir með rekstur.“ Gera verður kröfu til þess að ráðherrann skýri hvað hún á við, en í greinargerð ASÍ kemur m.a. fram að allmargir einstaklingar hafi á fáum árum sett 10 fyrirtæki eða fleiri í þrot með stórkostlegum skaða fyrir samfélagið. Þar af setti sami einstaklingur 29 fyrirtæki í þrot og fékk að hald áfram óáreittur. Er það nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi að skapi ráðherrans?

Frétt frá ASÍ

Vörukarfa ASÍ hefur lækkað hjá sjö verslunum

Vörukarfa ASÍ hefur lækkað hjá sjö verslunum frá því í september 2015 þar til nú í febrúar. Hjá sex verslunum hefur vörukarfan hækkað í verði, mest um 7,3% hjá 10/11. Mesta lækkunin á þessu tímabili er 3,8% hjá Hagkaupum og um 2% hjá Nettó, Kjarval, Iceland, Samkaupum-Úrval og Kaupfélagi Skagfirðinga. Á sama tímabili hefur matur og drykkur í vísitölu neysluverðs lækkað um 0,7%. Næst mesta lækkunin er hjá Kjarval, 2,2%.

Á þessu tímabili má sjá verðbreytingar í öllum vöruflokkum bæði hækkanir og lækkanir. Grænmeti og ávextir hafa lækkað töluvert í verði hjá flestum verslunum og drykkjarvörur hækkað í öllum verslunum nema Kaskó.

Á meðfylgjandi súluriti má sjá hvernig verslanirnar, sem skoðaðar voru, eru ýmist að hækka eða lækka verð. Mesta hækkunin er 7,3% hjá 10/11, 1,5% hjá Kaskó, 1,1% hjá Samkaupum-Strax, um 0,5% hjá Kaupfélagi Vestur Húnvetninga en minnst hjá Víði og Krónunni.

Mesta lækkunin er 3,8% hjá Hagkaupum, og um 2% hjá Nettó, Iceland, Samkaupum-Úrval, Kaupfélagi Skagfirðinga og Kjarval. Verslunin Bónus lækkar minnst eða um 1%.

Breytingar í öllum vöruflokkum

Í töflunni hér að neðan má sjá verðbreytingar á milli mælinga í einstaka vöruflokkum. Töluverðar verðbreytingar eru í öllum vöruflokkum hjá öllum verslunum. Sem dæmi um hækkanir hefur vöruflokkurinn drykkjarvörur hækkað hjá tólf verslunum af þrettán, mest um 7,3% hjá 10/11, 5,2% hjá Samkaupum-Úrval, 4,8% hjá Nettó, 401% hjá Víði og um 3,7% hjá Hagkaupum.

Mjólkurvörur, ostar og egg hafa hækkað í verði hjá sjö verslunum af þrettán, mest um 11,5% hjá 10/11 og svo um 1,9% hjá Hagkaupum en lækkaði í verði um 3,6% hjá Kaskó og 1,7% hjá Iceland.

Vöruflokkurinn brauð og kornvörur hefur lækkað í verði hjá ellefu verslunum af þrettán mest um 3,8% hjá Krónunni, 3,2% hjá Hagkaupum, 2,9% hjá Bónus og um 2,8% hjá Víði. Mikil verðhækkun var hjá 10/11 eða 9,1%. Verslunin 10/11 er eina búðin sem hefur hækkað verðið í flestum vöruflokkum og eru hækkanirnar miklar. Ýmsar matvörur(sem innihalda m.a. sósur, krydd, fisk og feitmeti) hafa hækkað um 11,6%, sætindi um 10% og mjólkurvörur um 11,5%. Eini vöruflokkurinn sem lækkar í verði eru kjötvörur eða um 0,7%.

Verðlagseftirlitið mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar matar- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðal heimilis.

Verðbreytingar voru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Í lágvöruverðsverslununum Bónus, Krónunni, Nettó og Iceland; í almennu matvöruverslununum Hagkaupum og Samkaupum-Úrvali, Tíu-ellefu, Samkaupum-Strax og Víði; í verslunum staðsettum á landsbyggðinni Kaskó, Kjarval, Kaupfélagi Skagfirðinga og Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga.

Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar  milli verðmælinga. Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða  þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum því haft áhrif á niðurstöðurnar.

Óheimilt er að vitna í niðurstöðurnar í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

 

Nýr kjarasamningur milli Bárunnar og Dvalarheimilisins Kumbaravogs

Atkvæðagreiðslu um kjarasamning milli Bárunnar, stéttarfélags og Dvalar og hjúkrunarheimilisins Kumbaravogs lauk þann 21. febrúar.

Á kjörskrá voru alls 35. Þátt í atkvæðagreiðslunni tóku 23 eða 66% félagsmanna á kjörskrá. Af þeim sögðu 23 já eða 100%.

Helstu atriði samningsins eru:

  • Kjarasamningurinn felur í sér verulegar launahækkanir við upphaf samnings þar sem launataxtar hækka um 25.000 kr. en þó að lágmarki um 7,7%.
  • Að meðaltali hækka laun starfsfólks samkvæmt kjarasamningnum um 9,45% afturvirkt frá 1. maí 2015.
  • Þann 1. júní 2016 hækka launataxtar um 15.000 kr. en þó að lágmarki um 5,5%.
  • Þann 1. júní 2017 hækka laun um 2,5%. Auk þess kemur inn ný launatafla þar sem bil á milli launaflokka verður 1,1% þannig að sama bil verður aftur á milli flokka til samræmis við niðurstöðu sem samið var um árið 2014.
  • Þann 1. júní 2018 hækka launataxtar um 2,0%.
  • Sérstök eingreiðsla kemur 1. febrúar 2019 að upphæð kr. 42.500, miðað við þá sem eru í fullu starfi í desember 2018 og enn í starfi í janúar 2019. Greitt er hlutfallslega fyrir þá sem eru í hlutastarfi.
  • Með nýjum kjarasamningi var sérstök áhersla á hækkun lægstu launa og hækkar því tekjutryggingin um 40,2% á samningstímanum eða 86.000 kr. og fer úr 214.000 kr. í 300.000 kr. í júní 2018.
  • Orlofsuppbót hækkar um 23% á samningstímanum og fer í 44.500 kr. í maí 2016 en verður komin í 48.000 kr. í lok samnings.
  • Desemberuppbót hækkar um tæplega 21% og fer í 100.700 kr. á árinu 2015 en 113.000 kr. í lok samningstíma.

Breyting á grein 2.6.2 um vaktavinnu Gerð var breyting á grein 2.6.2 um vaktavinnu, þar sem stofnunum er nú gert að leggja drög að vaktskrá 6 vikum áður en að hún tekur gildi þar sem jafnframt er lögð áhersla á að uppsöfnun vinnutíma sé takmörkuð eins og frekast er unnt.

  • Er hér verið að horfa til þess að viðverukerfi eða tímabankar leiði ekki til verulegra frávika á raunvinnutíma miðað við ráðið starfshlutfall í hverjum mánuði. Þá eiga starfsmenn að fá í framhaldinu einnar viku svigrúm til að gera athugasemdir og óska eftir breytingum á fyrirliggjandi drögum að vaktskrá. Einnig fá nú starfsmenn greidda 2 tíma aukalega ef þeir eru kallaðir til vinnu um helgar eða á næturvakt með stuttum fyrirvara, miðað við 8 tíma vakt.

Upprætum brotastarfsemi á vinnumarkaði

Alþýðusamband Íslands hefur í samstarfi við aðildarsamtök sín hleypt af stokkunum verkefninu Einn réttur, ekkert svindl! Verkefninu er beint gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi en síðustu mánuði hafa stéttarfélögin orðið vör við vaxandi brotastarfsemi á vinnumarkaði. Sérstaklega í byggingargeiranum og ferðaþjónustunni sem eru helstu vaxtargreinar í þeirri uppsveiflu sem nú ríkir á vinnumarkaði.

Samkvæmt mati Vinnumálastofnunnar fjölgaði störfum um 5500 á síðasta ári og áætlað er að störfum fjölgi um yfir 8000 á næstu þremur árum. Það má því ljóst vera að ekki er möguleiki að manna öll þessi störf með öðrum hætti en að flytja inn starfsmenn erlendis frá. En það eru einmitt erlendir starfsmenn og ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði sem helst er verið að brjóta á.

Birtingarmyndir brotastarfseminnar eru fjölmargar. Algengast er að laun og önnur starfskjör séu langt undir þeim kjarasamningsbundnum réttindum sem hér gilda. Inn á borð stéttarfélagana koma mál þar sem veikinda- og slysaréttur er ekki virtur. Ung stúlka slasaði sig við vinnu en var látin halda áfram að vinna. Seinna kom í ljós að hún hafði handleggsbrotnað og var þá sagt að taka sér frí (launalaust) meðan hún jafnaði sig. Annað dæmi er svokallaður prufutími eða reynsluráðning þar sem ungmenni eru látin vinna launalaust í einhverja daga en sumir atvinnurekendur telja fjarstæðu að borga fólki meðan það er að „læra“. Það er síðan alveg óvíst hvort af ráðningu verður eða næsti starfsmaður til prufu tekur við.

Mikill fjöldi starfsmanna frá A-Evrópu hefur komið hingað til lands til starfa í byggingariðnaði síðustu mánuði. Oft í tímabundið starf hjá erlendum verktakafyrirtækjum og starfsmannaleigum. Þessir starfsmenn eru hvergi skráðir og eru á launum og öðrum starfskjörum eins og tíðkast í þeirra heimalöndum. Í sumum tilfellum er um fagmenntaða starfsmenn með áratuga reynslu að ræða sem eru á kjörum eins og 18 ára unglingar sem eru að byrja á vinnumarkaði. Þessi hluti vinnumarkaðarins er að mestu undir yfirborðinu þó það beri að skrá starfsmennina hjá Vinnumálastofnun og þeir eigi að njóta kjara og réttinda samkvæmt kjarasamningum og lögum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.

Þriðja dæmið eru erlend ungmenni sem koma hingað í sjálfboðavinnu en nokkuð hefur verið um það að fyrirtæki, sérstaklega í ferðaþjónustu ráði til sín sjálfboðaliða í ólaunaða vinnu. Ef um efnahagslega starfsemi er að ræða í samkeppni við önnur fyrirtæki þá ber að greiða kjarasamningsbundin laun fyrir vinnuna.

Fyrir utan þann skaða sem einstakir starfsmenn verða fyrir vegna brotastarfseminnar liggur fyrir að þessi fyrirtæki eru að skjóta sér undan því að greiða sína skatta og skyldur til samfélagsins. Þá skapar hún þeim  fyrirtækjum sem virða kjarasamninga og lög og vilja greiða sínu fólki sanngjörn laun óásættanlega samkeppnisstöðu. Mikilvægt er að sporna við þessari brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði áður en hún nær að festa hér rætur. Það ber öllum fyrirtækjum að virða þær reglur sem hér gilda. Það á líka við um erlendu fyrirtækin sem hingað koma með sína starfsmenn.

Alþýðusambandið og aðildarsamtök þess hafa ákveðið að ráðast að vandanum með öllum tiltækum ráðum. Þar er markvisst og skilvirkt vinnustaðaeftirlit lykilatriði. Samhliða er verið að bæta skráningu og upplýsingamiðlun milli stéttarfélaganna um fyrirtæki og forsvarsmenn þeirra sem uppvísir eru að brotastarfsemi.

Þegar er hafið kynningarátakið Einn réttur – ekkert svindl! sem beinist annars vegar að erlendum starfsmönnun og hins vegar ungu fólki á vinnumarkaði. En mikilvægt er að þessir hópar séu sérstaklega upplýstir um sín réttindi og þá aðstoð sem stéttarfélögin veita.

Komið hefur verið á fót sameiginlegum samráðs- og aðgerðahópi fulltrúa frá þeim stjórnsýslustofnunum sem koma með einum eða öðrum hætti að eftiliti með vinnumarkaðnum og aðilum vinnumarkaðarins. Auk þess að skipuleggja sameiginlegar aðgerðir og miðla upplýsingum sín á milli, vinnur hópurinn að því að skýra og styrkja regluverkið og þá löggjöf sem að þessum málum snýr og auka heimildir í vinnustaðaeftirliti.

Ljóst er að verkefnið er ærið og snýr ekki síst að því að breyta viðhorfinu í samfélaginu til þessara mála því við berum öll ábyrgð og það tapa allir á undirboðum og svartri atvinnustarfsemi nema svindlararnir.

 

 

Sameiginlegur fundur stéttarfélaganna á Suðurlandi

Halldór Grönvold IMG_3791 IMG_3793

Þau Halldór Grönvold og Dröfn Haraldsdóttir frá ASÍ komu í heimsókn í gær til að kynna verkefni til að stemma stigu við undirboðum á vinnumarkaði og eftirliti með kjarasamningum

Verið er að hleypa af stokkunum nýrri starfsemi stéttarfélaganna undir samheitinu Einn réttur – ekkert svindl þar sem markmiðið er að höfða til og fylgjast með fyrirtækjum þar sem grunur er um að verið sé að misnota erlent vinnuafl og ung fólk.

Hér er ekki um átak að ræða heldur verkefni sem í framtíðinni verður hluti af starfsemi stéttarfélaga og aðildarsambanda ASÍ. Þróun á vinnumarkaði hefur því miður verið með þeim hætti að kjarasamningsbrot og misnotkun vinnuafls er orðin að reglu, frekar en undantekningu í sumum atvinnugreinum. Við þessu þarf að bregðast fljótt þar sem verið er að vega að undirstöðum vinnumarkaðarins hér á landi og réttindum launafólks sem barist hefur verið fyrir gegnum árin og teljast orðið til mannréttinda í dag.

Á félagssvæðum stéttarfélaganna eru það fyrst og fremst fyrirtæki í ferðaþjónustu og veitingageiranum sem virðast eiga erfitt með að virða lög og kjarasamninga. Einnig er ástæða til að fylgjast með fyrirtækjum í byggingariðnaði en stéttarfélögin á höfuðborgarsvæðinu  hafa í vaxandi mæli orðið að grípa til harkalegra aðgerða vegna innfluttra starfsmanna sem ekki fá greitt samkvæmt kjarasamningum.

Það er ljóst að fyrirtæki í þessum greinum þurfa að hugsa sinn gang ef ekki á illa að fara. Þessi hegðun skekkir mjög samkeppnisaðstöðu milli fyrirtækja sem starfa eftir lögum og reglum samfélagsins og virða kjarasamninga. Fyrirtæki sem hafa sitt á hreinu og skila sínu til samfélagsins eiga erfitt með að keppa á jafnréttisgrundvelli við þau fyrirtæki sem kjósa að fara á svig við gildandi kjarasamninga í þeim eina tilgangi að auka hagnað eigenda sinna. Einnig sýnir reynslan að sömu fyrirtæki og stunda undirboð á markaði eru gjarnan við sama heygarðshornið þegar kemur að því að greiða til samfélagsins. Þessi fyrirtæki verða seint talin til burðarása íslenks atvinnulífs þrátt fyrir stórar yfirlýsingar í fjölmiðlum um hvað þau séu að leggja til samfélagsins og þau séu vaxtarbroddur íslenks efnahags. Það er einfaldlega rangt, þessi fyrirtæki eru afætur á samfélaginu og allir tapa á starfsemi þeirra nema hugsanlega eigendurnir sem oft taka inn skjótfenginn gróða en skilja aðra eftir með tapið. Þar verður launafólk oft illa úti.

Fyrirtæki á Suðurlandi og víðar meiga reikna með að fá eftirlitsfulltrúa í heimsókn án fyrirvara og þurfa að svara erfiðum spurningum séu kjaramál ekki í lagi og mjög verði gengið hart eftir að það sé lagað sem ekki stenst lög eða kjarasamninga.