Við vinnum fyrir þig

Translate to

Gagnrýnir ákvörðun kjararáðs

Laun æðstu embættis- og ráðamanna þjóðarinnar hafa hækkað um mörg hundruð þúsund krónur á undanförnum mánuðum. Um áramótin hækkuðu laun dómara um allt að 50 prósent samkvæmt ákvörðun kjararáðs.

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, furðar sig á þessari ákvörðun og segir ljóst að þetta muni hafa áhrif á endurskoðun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

„Það verður að hafa það í huga að allar svona hækkanir þær tala inn í þær viðræður sem eru í gangi og hugsanlega uppsögn á kjarasamningum út af breyttum forsendum í febrúar. Mér finnst stundum eins og kjararáð, gerðardómur og fleiri átti sig ekki alveg á alvarleika þess að gefa stefnumótandi viðmið sem verða að sjálfsögðu notuð,“ segir Drífa við fréttamann Vísi.

Sjá frétt á visir.is

 

 

 

Afnám tolla á fatnaði og skóm um áramótin

Frá og með 1. janúar 2016 var tollur af fatnaði og skófatnaði afnuminn en megintilgangur þess er að styrkja stöðu innlendrar verslunar í samkeppni við erlenda. Um er að ræða 324 tollskrárnúmer í 12 tollskrárköflum.

Þá voru tollar einnig felldir niður af vara- og aukahlutum fyrir reiðhjól, af einnota og margnota bleium og bleiufóðri, af dömubindum og tíðatöppum og ís úr sojabaunum, hrísgrjónum, höfrum, hnetum og/eða möndlum sem inniheldur minna en 3% af mjólkurfitu miðað við þyngd. Á árinu 2017 þegar síðari áfanginn kemur til framkvæmda falla niður tollar af allri vöru í köflum 25 til 97 í tollskrá.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Fjármála- og efnahagsráðuneytisins https://www.fjarmalaraduneyti.is

Jólakveðja

Christmas-Snowman-Digital-Wallpapers

Þjónustuskrifstofa stéttarfélaganna á Suðurlandi  verður lokuð 24. desember. 28 til og með 30. desember eru skrifstofurnar opnar frá kl.08.00 – 16.00. Við opnum eftir áramót mánudaginn 4. janúar kl. 08.00.

 

Starfsfólk skrifstofanna sendir félagsmönnum og fjölskyldum

þeirra jóla og hátíðarkveðjur.

Vinna um hátíðarnar

Nú eru hátíðar að ganga í garð og eftir áramót er algengt að fyrirspurnir berist stéttarfélögunum um hvernig  þessi dagar skuli greiddir. Til dæmis þá eru dæmi um að fólk sé látið mæta t.d. klukkan tíu á aðfangadag og fari ekki á stórhátíðarkaup fyrr en eftir fjóra tíma á dagvinnu. Þetta er ekki rétt samkvæmt kjarasamningum.

Að fenginni reynslu er því rétt að koma eftirfarandi á framfæri:

Samkvæmt kjarasamningum ber atvinnurekendum að greiða starfsfólki álag á stórhátíðum, en þeir jóladagar sem eru stórhátíðir teljast:

  • aðfangadagur eftir kl. 12 (ath. samningurinn kveður á um að greiða skuli stórhátíðarálag eftir klukkan 12, óháð því hvenær vinna hefst að morgni)
  • jóladagur
  • gamlársdagur eftir kl. 12 (ath. samningurinn kveður á um að greiða skuli stórhátíðarálag eftir klukkan 12, óháð því hvenær vinna hefst að morgni)
  • nýársdagur

Annar í jólum telst auk þess almennur frídagur.

Öll vinna á stórhátíðardögum greiðist með tímakaupi, sem er 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Fyrir yfirvinnu á öðrum frídögum skal greiða 80% álag á dagvinnutímakaup eða 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Í vaktavinnu eru til tvær reglur um greiðslur á þessum dögum. Annarsvegar hjá þeim sem eru með vetrarfrí og svo hjá hinum sem ekki eru með vetrarfrí. Sjá nánar í kjarasamningum.

Þeir félagsmenn sem telja sig ekki hafa fengið greitt í samræmi við ofangreint er hvatt til að benda atvinnurekanda sínum á þetta eða hafa samband við félagið

Mikill verðmunur á jólamat

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á jólamatvöru í átta matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu sl. mánudag. Kannað var verð á 108 algengum vörum sem eru í boði fyrir jólahátíðina. Bónus Korputorgi var með lægsta verðið í 50 tilvikum af 108, Krónan Lindum í 38 tilvikum og Víðir Skeifunni í 12 tilvikum. Samkaup-Úrval Hafnarfirði var með hæsta verðið í 56 tilvikum af 108, Hagkaup Holtagörðum í 22 tilvikum, Iceland Vesturbergi 17 og Fjarðarkaup í 11 tilvikum. Oftast var á milli 25-50% verðmunur á hæsta og lægsta verði en sjá mátti allt að 147% verðmun.

 

Mestur verðmunur reyndist vera á ódýrustu fersku jarðaberjunum sem fáanleg voru, en þau voru dýrust á 3.740 kr./kg. hjá Krónunni en ódýrust á 1.512 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum, verðmunurinn er 2.228 kr. eða 147%. Minnstur verðmunur að þessu sinni reyndist vera á Jólasíldinni frá ORA sem var dýrust á 829 kr. hjá Hagkaupum og Iceland en ódýrust á 773 kr. hjá Bónus og Krónunni sem er 7% verðmunur.

 

Mikill munur á vöruúrvali verslana

Engin verslun sem skoðuð var átti til allar vörurnar sem skoðaðar voru í mælingunni. Vöruúrval reyndist mest í verslun Krónunnar þar sem fáanlegar voru 96 vörur af 108, Fjarðarkaup átti til 94, Hagkaup 93 og Nettó Mjódd átti 91 vöru. Minnsta úrvalið var hjá hjá Víði en þar voru aðeins til 67 vörur af 108, Bónus átti 78 og Samkaup-Úrval átti 80.

Af þeim vörum sem til voru í öllum verslunum má byrja á því að nefna að mikill verðmunur var á KEA hamborgarhrygg m/beini sem var ódýrastur á 1.485 kr./kg. hjá Víði en dýrastur á 1.898 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 28% verðmunur. Ódýrasti frosni kalkúnninn var ódýrastur á 1.185 kr./kg. hjá Víði en dýrastur á 1.699 kr./kg. hjá Iceland sem er 43% verðmunur. Jólabríe frá MS var ódýrastur á 632 kr. hjá Bónus en dýrastur á 849 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 34% verðmunur. Laufabrauðið frá Ömmubakstri var ódýrast á 1.785 kr. í Bónus en dýrast á 2.298 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 29% verðmunur. Konfektkassinn frá Nóa 135 gr. var ódýrastur á 935 kr. hjá Bónus en dýrastur á 1.298 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 39% verðmunur. Að lokum má nefna að Egils malt og appelsín ½ l. var ódýrast á 138 kr. hjá Víði en dýrast á 209 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 51% verðmunur.

Sjá samanburð í meðfylgjandi skjali

SVEITARFÉLAGASAMNINGURINN SAMÞYKKTUR

Atkvæðagreiðslu er nú lokið um nýjan kjarasamning á milli Starfsgreinasambandsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirritaður var 20. nóvember síðastliðinn. Starfsgreinasambandið fór með umboð 15 aðildarfélaga sinna og var samningurinn samþykktur í öllum félögunum, en í heildina samþykktu yfir 90% þeirra sem greiddu atkvæði. Félögin sem SGS fór með umboð fyrir eru: Aldan stéttarfélag, AFL starfsgreinafélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Þórshafnar og Verkalýðsfélag Vestfirðinga.

Kjörsókn var í heildina 33%, 2.702 félagar voru á kjörskrá og atkvæði greiddu 899. Hér má sjá hvernig atkvæði féllu í einstaka félögum.

Þess má geta að krafa Bárunnar, stéttarfélags í samvinnu við aðra um mat á námi leikskólaliða og stuðningsfulltrúa var samþykkt og er námið hér eftir metið til launa. Starfsheitin leikskólaliði og stuðningsfulltrúi verða tekin upp í starfsmati og þau sem luku námi á árabilinu 2009-2015 þegar námið var stytt verða jafnsett þeim sem ljúka námi eftir 2015 með gildistöku 1. maí 2015.

 

HÓTELÞERNUR KREFJAST GÓÐRA STARFSSKILYRÐA OG VINNUUMHVERFIS

Að ræsta á hótelum fylgir mikil streita og er líkamlega erfitt. Margir eru þar að auki í ótryggu ráðningarsambandi. Þann 4.-11. nóvember sl. stóðu samtök starfsfólks á hótelum, kaffihúsum, skyndibitastöðum, veitingahúsum og í ferðaþjónustu á Norðurlöndum fyrir átaki þar sem beint var sjónum að aðstöðu hótelþerna.

Kastljósinu var beint að vinnuálagi sem hefur aukist mjög hin síðari ár. Margar hótelþernur ná ekki einu sinni að taka kaffitíma. Hið mikla álag hefur líkamlegar afleiðingar og skapar mikla streitu.

Markmið átaksins er að vekja athygli á baráttu herbergisþerna fyrir réttlæti, virðingu og bættum starfsskilyrðum. Við mótmælum ósýnileika þeirra og erfiðum starfsskilyrðum. Við hvetjum hinn alþjóðlega hóteliðnað til að viðurkenna vinnuframlag þeirra og réttindi.

Samtök starfsfólks á hótelum, kaffihúsum, skyndibitastöðum, veitingahúsum og í ferðaþjónustu á Norðurlöndum mun kynntu aðgerðir í vikunni sem átakið stóð yfir. Hótelþernur á Norðulöndum krefjast góðra starfsskilyrða og vinnuumhverfis.

Vikuna sem átakið stóð yfir stóðu verkalýðsfélög á Norðurlöndum fyrir vinnustaðaheimsóknum, rafrænni upplýsingamiðlun og vitundarvakningu meðal almennings um starfsskilyrði hótelþerna.

En átak í viku tíma er ekki nóg. Það þarf að hafa vakandi auga með og vinna stanslaust að því að þessum málum verði komið í ásættanlegt horf.

Reynsla undanfarinna ára og missera hefur kennt okkur að mjög víða er pottur brotinn í starfsskilyrðum þessara hópa og þá ekki síst hótelþerna og þeirra sem eru í svipuðum störfum á smærri gististöðum og veitingahúsum.

SAMNINGUR VIÐ SVEITARFÉLÖGIN – ATKVÆÐAGREIÐSLA HÓFST Í MORGUN

Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga hófst á slaginu kl. 8:00  á morgun (1. desember) og stendur hún til miðnættis þann 8. desember næstkomandi. Allir kosningabærir félagsmenn fá kynningarbækling sendan í pósti og ætti hann að berast félagsmönnum á næstu dögum. Í bæklingnum má m.a. finna lykilorð sem þarf að nota þegar greitt er atkvæði.

Allir félagsmenn eru á kjörskrá í atkvæðagreiðslunni og er framkvæmdin með rafrænum hætti. Þeir sem ekki hafa aðgang að tölvu geta kosið hjá stéttarfélagi sínu. Félagsmenn fara inn á heimasíðu Starfsgreinasambandsins (www.sgs.is) og smella á „Kjarasamningar 2015“ á forsíðunni. Þar geta félagsmenn greitt atkvæði með því að nota lykilorðið sem finna má á forsíðu bæklingsins.

Ef einhver félagsmaður Bárunnar, stéttarfélags sem starfar hjá sveitarfélögunum fær ekki kynningarbækling og lykilorð þá getur sá hinn sami haft samband við félagið og kært sig inn á kjörskrá.

Kynningarfundur vegna kjarasamninga

Þann 20. nóvember 2015 var undirritaður nýr kjarasamningur á milli Starfsgreinasambandsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Atkvæðagreiðsla um samninginn hefst kl. 08:00 þann 1. desember og stendur hún til miðnættis 8. desember. Atkvæðagreiðslan verður með rafrænum hætti og fer fram á vef SGS (www.sgs.is). Kjörgögn verða send út á næstunni.

Kynningarfundur vegna samninganna verður haldinn þriðjudaginn 1. desember kl. 17.00 að Austurvegi 56, Selfossi, 3. hæð. Við viljum hvetja þá sem ekki geta mætt að koma við á skrifstofunni og fara yfir samninginn.

 

NÝR SAMNINGUR VIÐ SVEITARFÉLÖGIN UNDIRRITAÐUR

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) skrifaði undir nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga á áttunda tímanum í kvöld, föstudaginn 20. nóvember. SGS undirritaði kjarasamninginn í umboði eftirtalinna félaga: Báran stéttarfélag, AFL – starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag,  Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Stéttarfélagið Samstaða, Stéttarfélag Vesturlands, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis og Framsýn stéttarfélag.

Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. maí 2015 til 31. mars 2019. Samningurinn felur í sér eftirfarandi launabreytingar:

  • Við upphaf samnings eða 1. maí 2015 hækka launataxtar um 25.000 kr. en þó að lágmarki um 7,7%.
  • Þann 1. júní 2016 hækka launataxtar um 15.000 kr. en þó að lágmarki um 5,5%.
  • Þann 1. júní 2017 kemur inn ný launatafla þar sem bil á milli launaflokka verður leiðrétt í 1,1% á milli flokka, til samræmis við þá niðurstöðu sem samið var um 1. maí 2014.
  • Þann 1. júní 2018 hækka launataxtar um 2%.
  • Sérstök eingreiðsla kemur 1. febrúar 2019 að upphæð kr. 40.500, miðað við þá sem eru í fullu starfi í desember 2018 og enn í starfi í janúar 2019. Greitt er hlutfallslega fyrir þá sem eru í hlutastarfi.
  • Tekjutryggingin hækkar um 86.000 kr. á samningstímanum og verður komin í 300.000 kr. l. maí 2018.

Þá hækkar desemberuppbót um rétt innan við 21% á samningstímanum og fer í 113.000 kr. í lok samnings og orlofsuppbætur um 23% verða 48.000 kr. í lok samningstímans. Stefnt er að því að atkvæðagreiðsla hefjist kl. 08:00 þann 1. desember og að henni ljúki á miðnætti 8. desember. Frekari upplýsingar og kynningarefni verður sent út á næstunni.

Hægt er sjá samninginn í heild sinni hér.