Við vinnum fyrir þig

Translate to

REYNT TIL ÞRAUTAR AÐ NÁ SAMNINGI VIÐ SVEITARFÉLÖGIN

Stíf fundarhöld um nýjan kjarasamning SGS við Samband íslenskra sveitarfélaga hafa staðið yfir undanfarna daga og standa enn. Fundir voru haldnir í Karphúsinu þar til á fjórða tímann síðastliðna nótt og í morgun hittist svo samninganefnd SGS til að taka stöðuna. Þegar þessi orð eru skrifuð standa vonir til þess að skrifað verði undir nýjan kjarasamning innan skamms. SGS mun flytja frekari fréttir af gangi mála eftir því sem fram vindur.

Tekið af heimasíðu SGS

MÁL FÉLAGSLIÐA TIL RÁÐHERRA

Fulltrúar Félags íslenskra félagsliða, Starfsgreinasambandsins og Eflingar fóru á fund Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra í morgun til að fylgja eftir kröfum um löggildingu stéttarinnar. Gert var grein fyrir áralangri baráttu félagsliða fyrir löggildingu og mikilvægi hennar fyrir veg og virðingu þeirra hátt í eitt þúsund sem sótt hafa sér nám í félagsliðun.

Lögð var áhersla á að kynna námið og starfið og mikilvægi þess að fá löggildingu, ekki bara fyrir starfandi félagsliða heldur einnig vegna aukinnar gæði þjónustu sem félagsliðar veita.

Landlæknisembættið hefur verið með til umfjöllunar mönnunarþörf og menntunarþörf heilbrigðisstétta og hefur nú skilað skýrslu um málið til ráðherra. Valdið er því í hans höndum og var skorað á hann að bregðast hratt og örugglega við óskum um löggildingu.

Hér má sjá minnisblað sem afhent var ráðherra á fundinum.

Frétt tekin af heimasíðu SGS

Desemberuppbót 2015

Nú styttist í að vinnuveitendur greiði starfsfólki desemberuppbót fyrir árið 2015. Uppbótin á að greiðast eigi síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma. Þeir sem eiga rétt á uppbótinni þurfa að hafa verið í samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku í desember.

 

DESEMBERUPPBÓT 2015

Almenni samningur milli SGS og SA  kr. 78.000.

Samningur f.h. Ríkissjóðs og SGS kr. 78.000.

Samningur SGS og Launanefndar sveitarfélaga kr. 100.700.

Samningur SA vegna Sólheima við Báruna, stéttarfélag kr. 73.600 (ekki búið að semja).

Samningur Dvalar og hjúkrunarheimilisins Kumbaravogs  kr. 93.500 (ekki búið að semja).

Vinnustaðasamningur Mjólkurbús Flóamanna kr. 78.000.

Bændasamtök Íslands og SGS kr. 78.000.

Landssamband smábátaeigenda og SGS kr. 78.000.

Landsvirkjun og SGS kr. 112.600.

VIÐRÆÐUM VIÐ SVEITARFÉLÖGIN SLITIÐ

Viðræðum við Samband Íslenskra sveitarfélaga var slitið í vikunni og deilunni vísað til ríkissáttasemjara. Viðræður hafa staðið yfir í haust en lítið hefur miðað í launamálum. Það vantar sameiginlegan skilning á þeim ramma sem unnið er út frá samkvæmt SALEK-samkomulaginu og að mati samninganefndar Starfsgreinasambandsins skortir samningsvilja hjá samninganefnd sveitarfélaganna.

Önnur atriði en launamálin hafa verið útkljáð að mestu og því stóðu vonir lengi til þess að hægt væri að klára samningana fljótt og örugglega þegar niðurstaðan í launamálin fengist. Þegar komið var að leiðarenda varðandi launaliðinn var það sameiginlegt mat þeirra sem voru í samfloti í samningunum, þ.e. SGS, Flóabandalagsins og opinberu félaganna, að nauðsynlegt væri að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.

Vonast er til að ríkissáttasemjari boði til fundar í deilunni strax eftir helgi og hægt sé að ná samningum undir verkstjórn hennar.

HÓTELÞERNUR KREFJAST GÓÐRA STARFSSKILYRÐA OG VINNUUMHVERFIS

Að ræsta á hótelum fylgir mikil streita og er líkamlega erfitt. Margir eru þar að auki í ótryggu ráðningarsambandi. Þann 4.-11. nóvember 2015 standa samtök starfsfólks á hótelum, kaffihúsum, skyndibitastöðum, veitingahúsum og í ferðaþjónustu á Norðurlöndum fyrir átaki þar sem beint er sjónum að aðstöðu hótelþerna.

Kastljósinu er beint að vinnuálagi sem hefur aukist mjög hin síðari ár. Margar hótelþernur ná ekki einu sinni að taka kaffitíma. Hið mikla álag hefur líkamlegar afleiðingar og skapar mikla streitu.

Markmið átaksins er að vekja athygli á baráttu herbergisþerna fyrir réttlæti, virðingu og bætt starfsskilyrði. Við mótmælum ósýnileika þeirra og erfiðum starfsskilyrðum. Við hvetjum hinn alþjóðlega hóteliðnað til að viðurkenna vinnuframlag þeirra og réttindi.

Samtök starfsfólks á hótelum, kaffihúsum, skyndibitastöðum, veitingahúsum og í ferðaþjónustu á Norðurlöndum mun kynna aðgerðir í vikunni sem átakið stendur yfir. Hótelþernur á Norðulöndum krefjast góðra starfsskilyrða og vinnuumhverfis.

Vikuna sem átakið stendur yfir standa verkalýðsfélög á Norðurlöndum fyrir vinnustaðaheimsóknum, rafrænni upplýsingamiðlun og vitundarvakningu meðal almennings um starfsskilyrði hótelþerna.

#‎fairhousekeeping #‎makemyworkplacesafe

Kynningarbæklingur um átakið (PDF).

Frétt tekin af heimasíðu SGS

AFGERANDI NIÐURSTAÐA Í ATKVÆÐAGREIÐSLU UM NÝJAN SAMNING VIÐ RÍKIÐ

Ríkisstarfsmenn í 15 aðildarfélögum SGS hafa samþykkt kjarasamninginn sem undirritaður var 7. október síðastliðinn í sameiginlegri rafrænni atkvæðagreiðslu. Niðurstaðan var mjög afgerandi – já sögðu 81,8% en nei sögðu 16,3% (auðir seðlar 1,9%). Alls voru 1.012 félagar á kjörskrá og greiddu 258 þeirra atkvæði (25,5% kjörsókn). Starfsgreinsambandið undirritaði kjarasamninginn í umboði eftirtalinna félaga: AFL – starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Stéttarfélagið Samstaða, Stéttarfélag Vesturlands, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Akraness og Framsýn stéttarfélag.

Samningurinn er á svipuðum nótum og samið var um á almennum markaði í vor og gildir hann frá 1. maí síðastliðnum. Hækkun frá 1. maí er 25.000 krónur. Þann 1. júní árið 2016 hækka laun um 5,5%, að lágmarki 15.000 krónur auk breytinga á launatöflu. Ári síðar, eða 1. júní 2017,  hækka laun um 4,5% og 1. júní 2018 hækka laun um 3%. Samningurinn gildir til 31. mars árið 2019 og kemur þá til sérstök eingreiðsla 1. febrúar 2019 uppá 45.000 krónur fyrir starfsfólk í fullu starfi og hlutfallslega fyrir starfsfólk í hlutastarfi.  Lágmarkslaun eru hækkuð til samræmis við það sem samið var um á hinum almenna vinnumarkaði og verða 300.000 krónur frá 1. júní 2018 fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sömu stofnun. Framlag í þróunar- og símenntunarsjóði verður hækkað í 0,82% auk þess sem aukið framlag verður sett í stofnanasamninga samkvæmt sérstakri bókun.

Samninginn í heild sinni má nálgast hér.

Mikill verðmunur á milli verkstæða

Allt að 7.179 kr. verðmunur er á þjónustu við dekkjaskipti fyrir jeppa af stærri gerðinni með álfelgu af stærð 265/60R18. Þetta kemur fram í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði hjá 24 hjólbarðaverkstæðum víðsvegar um landið þriðjudaginn 27. október. Gúmmívinnustofan SP dekk var oftast með hæsta verðið á þjónustunni en Titancar í Kópavogi var alltaf með lægsta verðið.

Eftirtalin bifreiðaverkstæði neituðu þátttöku í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ: N1, Nesdekk, Sólning, Dekkjahöllin, Barðinn, Bifreiðaverkstæði Grafarvogs, Klettur, Bílverið og Hjólbarðaverkstæði Kaldasels.

Mikill verðmunur á milli verkstæða
Mestur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti á jeppa (t.d. Mitshubishi Pajero)  með 18´´ álfelgu (265/60R18) sem var ódýrust á 6.000 kr. hjá Titancar en dýrust á 13.179 kr. hjá Gúmmívinnustofunni SP dekk, verðmunurinn var 7.179 kr. eða 120%. Fyrir stálfelgu af sömu stærð var ódýrast að umfelga á 6.000 kr. hjá Titancar en dýrast á 12.384 kr. hjá Gúmmívinnustofunni SP dekk. Verðmunurinn var 6.384 kr. eða 106%.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á dekkjaskiptum fyrir smábíl, minni meðalbíl og meðalbíl á 14, 15 eða 16´´ stálfelgum. Þjónustan var ódýrust á 4.500 kr. hjá Titancar en dýrust á 7.607 kr. hjá Toyota, verðmunurinn var 3.107 kr. eða 69%. Fyrir álfelgu af sömu stærð var þjónustan ódýrust á 4.500 kr. hjá Titancar en dýrust á 8.120 kr. hjá Gúmmívinnustofunni SP dekk. Verðmunurinn var 3.620 kr. eða 80%.

Sex hjólbarðaverkstæði með sama verð og í fyrra
Af þeim hjólbarðaverkstæðum sem borin eru saman á milli ára hafa sex þeirra ekki hækkað hjá sér verð á dekkjaskiptum á meðalbíl með 15´´ álfelgu (195/65R15) frá því í október 2014. Mesta hækkunin var hjá Dekkverk um 20% og Dekkjahúsinu um 18%. Kvikkfix hefur hækkað um 12% en Gúmmívinnustofa SP dekk, Bílabúð Benna og Max 1 um 2-4%. Verð þjónustunnar hefur lækkað hjá Betra gripi milli ára úr 7.530 kr. í 6.929 kr. eða um 8%. Verðið hefur lækkað um 1% hjá Vöku.

Sjá nánar niðurstöður í töflu.

N1, Nesdekk, Bifreiðaverkstæði Grafarvogs, Sólning, Klettur, Dekkjahöllin, Bílverið, Barðinn og Hjólbarðaverkstæði Kaldasels neituðu þátttöku í könnuninni.

Kannað var verð á þjónustu við dekkjaskiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu á álfelgum og stálfelgum af stærðum 14,15, 16 og 18´´ á 29 hjólbarðaverkstæðum í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum. Verðin í könnuninni eru án afsláttar en verkstæðin bjóða upp á margskonar afslætti t.d. félagskírteini Bárunnar, FÍB, eldri borgara og staðgreiðslu. Viðskiptavinir eru því hvattir til að spyrja um afslátt.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð á þjónustu að ræða en ekki var lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

Ályktun formannafundar ASÍ um kjaramál

 

Ályktun um kjaramál

Samþykkt á formannafundi ASÍ 28. október 2015

 

Formannafundur ASÍ lýsir yfir áhyggjum af stöðu efnahags- og kjaramála. Skortur á samstöðu, órói og átök hafa einkennt íslenskan vinnumarkað, allt frá því að þeirri launastefnu sem samið var um á almennum vinnumarkaði í árslok 2013 var hafnað. Síðan þá hefur hver hópur á vinnumarkaði farið fram og reynt að rétta sinn hlut óháð því hvaða áhrif slíkt hefði á aðra hópa eða hagkerfið. Niðurstaðan er sú að horfur eru á vaxandi verðbólgu og hækkandi vöxtum.

Fundurinn telur mikilvægt að breyta um vinnubrögð við gerð kjarasamninga og horfa til þess hvernig við getum byggt upp kaupmátt til framtíðar með raunverulegum verðmætum. Þar getum við lært margt af félögum okkar á öðrum Norðurlöndum. Þar er mikið lagt upp úr ábyrgð, aga og vönduðum undirbúningi til að tryggja sem hagfelldasta útkomu fyrir launafólk. Nýtt samningalíkan byggi á Norrænu samfélagsgerðinni sem grundvallast á þeirri sýn að nota hagvöxt og aukna verðmætasköpun til þess að bæta lífskjör og tryggja jöfnuð. Meiri verðmæti eru sótt í aukinn útflutning en forsendan er sterk samkeppnisstaða, frjáls utanríkisviðskipti og aðgangur að mörkuðum. Samstaða og sameiginlegur skilningur er á því að skipta verður auknum verðmætum með sanngjörnum hætti með áherslu á bætt lífskjör, jöfnuð og traust velferðarkerfi.

Formannafundur ASÍ telur mikilvægt þróað verði íslenskt samningalíkan þar sem horft verði til þeirra vinnubragða sem tíðkast hafa á Norðurlöndunum. Fyrsta skrefið í þá átt er að tryggja sem best jafnræði milli hópa í launaþróun á komandi misserum, þar með talið að jafna lífeyrisréttindi milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins, tryggja meira jafnræði varðandi áhrif launaskriðs og jafna kynbundinn launamun á vinnumarkaði. Þá verða allir hópar að axla ábyrgð á breyttum vinnubrögðum. Þannig getum við í sameiningu náð hámarksárangri við að byggja upp kaupmátt og efla lífskjör til lengri tíma litið.

Formannafundurinn styður það rammasamkomulag sem undirritað var af helstu viðsemjendum á almennum og opinberum vinnumarkaði 27.10.2015 um breytt og bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga og telur það leggja grunn að bættum lífskjörum launafólks til framtíðar.

Jafnframt áréttar formannafundurinn mikilvægi þess að stjórnvöld taki upp ábyrga hagstjórn og breytta peningastefnu sem hafi að markmiði að treysta stöðugleika. Það er á ábyrgð stjórnmálanna að tryggja félagslegan stöðugleika og víðtæka sátt um forgangsröðun í velferðarmálum, einkum heilbrigðis-, mennta- og húsnæðismálum.

Átt þú eftir að kjósa? – Rafræn atkvæðagreiðsla um nýjan samning við ríkið

Báran, stéttarfélag vill minna félagsmenn á að atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning við ríkið lýkur á miðnætti fimmtudaginn 29. október. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar verða kynntar daginn eftir. Atkvæðagreiðslan er með rafrænum hætti og eru allir félagsmenn sem starfa eftir samningi SGS við ríkið á kjörskrá. Þeir sem ekki hafa aðgang að tölvu geta kosið á skrifstofu félagsins.

Til að greiða atkvæði fara félagsmenn inn á heimasíðu Starfsgreinasambandsins (www.sgs.is) og smella á „Kjarasamningar 2015“ á forsíðunni. Þar getur viðkomandi greitt atkvæði með því að nota lykilorð sem hann fær sent í pósti. Allir kosningabærir félagsmenn fengu sendan kynningarbækling í pósti í tengslum við atkvæðagreiðsluna, en bæklingurinn inniheldur m.a. lykilorð viðkomandi.

Samkomulag í höfn

Betri vinnubrögð – aukinn ávinningur

Heildarsamtök launafólks og atvinnurekenda á almennum og opinberum vinnumarkaði skrifuðu í dag undir samkomulag um breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Markmið samkomulagsins er að tryggja varanlega aukningu kaupmáttar á Íslandi á grundvelli lágrar verðbólgu, stöðugs gengis krónunnar og lægri vaxta. Með samkomulaginu er lagður grunnur að sátt á vinnumarkaði, auknu samstarfi og minni  átökum. Ennfremur er stefnt að auknum efnahagslegum og félagslegum stöðugleika í landinu.

Samkomulagið er afrakstur af vinnu svokallaðs SALEK-hóps, þar sem eiga sæti helstu viðsemjendur á almennum og opinberum vinnumarkaði. Undir forystu ríkissáttasemjara hefur hópurinn unnið að því undanfarin þrjú ár að innleiða bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga á Íslandi til að tryggja atvinnulífinu stöðugleika og launafólki auknum ávinningi að norrænni fyrirmynd. Ástæður þess að aðilar eru sammála um að breytinga sé þörf eru m.a. eftirfarandi.

  • Þrátt fyrir næstum tvöfalt meiri launahækkanir á Íslandi hefur kaupmáttur aukist helmingi minna en á hinum Norðurlöndunum á síðustu 15 árum. Uppsafnað munar þetta ríflega 14% í hreinum kaupmætti á þessum árum.
  • Verðbólga á Íslandi hefur verið þrefalt meiri en á hinum Norðurlöndunum síðustu 15 árin.
  • Frá aldamótum hefur gengi krónunnar fallið um 50% en gengi mynta hinna Norðurlandanna haldist nánast óbreytt gagnvart evru.
  • Vegna mikillar verðbólgu og efnahagslegs óstöðugleika á Íslandi hafa vextir að jafnaði verið þrefalt hærri en á hinum Norðurlöndunum.

Samkomulagið felur í sér mörkun sameiginlegrar launastefnu til 2018 til að stöðva svokallað höfrungahlaup á vinnumarkaði, stofnað verði Þjóðhagsráðvinnumarkaðar, Seðlabanka og stjórnvalda ásamt því sem stefnt verði að nýju samningalíkani á íslenskum vinnumarkaði.

Nýtt samningalíkan gerir ráð fyrir eftirfarandi:

  • Svigrúm til launabreytinga verður skilgreint út frá samkeppnisstöðu gagnvart helstu viðskiptalöndum.
  • Fyrirtæki sem framleiða vöru og þjónustu til útflutnings eða í samkeppni við innflutning móta svigrúm til launabreytinga.
  • Jöfnun lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði
  • Opinberum starfsmönnum verður tryggð hlutdeild í launaskriði á almennum vinnumarkaði
  • Kjarasamningar miða að því að auka kaupmátt á grundvelli stöðugs gengis.

Aðilar samkomulagsins skuldbinda sig til þess að ljúka gerð kjarasamninga til ársloka 2018 en að þeim tíma loknum verði nýtt vinnumarkaðslíkan tekið í notkun.  Að lokið verði við gerð samkomulags um jöfnun lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði. Að samið verði við stjórnvöld um efnahagslegar mótvægisaðgerðir vegna þrýstings sem höfrungahlaup á vinnumarkaði hefur valdið.

Forystufólk eftirfarandi aðila skrifuðu undir samkomulagið í Iðnó í dag: Alþýðusamband Íslands (ASÍ), Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Samtök atvinnulífsins (SA), Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Samninganefnd ríkisins (SNR). Samkomulagið nær til 70% launafólks sem á aðild að stéttarfélögum á Íslandi.

Rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins

Glærukynning frá fréttamannafundinum í dag

Sjá frétt á heimasíðu ASÍ.