Við vinnum fyrir þig

Translate to

Hvað kostar að æfa knattspyrnu haustið 2015?

Verðlagseftirlit ASÍ tók saman æfingagjöld í knattspyrnu hjá 16 íþróttafélögum víðsvegar um landið. Borin voru saman æfingargjöld hjá 4. og 6. flokki félaganna. Svo verðlagseftirlitið gæti borið gjöldin saman var fundið út mánaðargjald, þar sem félögin hafa ekki samræmda uppsetningu á gjaldskránni. Sum eru með gjaldskrá fyrir eitt ár í senn, önnur annargjöld og jafnvel er búið að setja sölu á varningi eða vinnu við mót inn í gjaldskrána.

 

  1. flokkur

Verðlagseftirlitið bar saman gjaldskrá fyrir 4. flokk eða 12 og 13 ára börn. Dýrast var að æfa hjá Breiðabliki en hjá þeim kostar mánuðurinn 8.250 kr. eða 33.000 kr. fyrir haustönnina sem spannar 4 mánuði. Ódýrast var að æfa hjá ÍR og UMF Selfoss en þar kostar mánuðurinn 5.500 kr. eða 22.000 kr. fyrir 4 mánuði. Verðmunurinn er 50% eða 11.000 kr.

 

  1. flokkur

Verðlagseftirlitið bar einnig saman gjaldskrá fyrir 6. flokk eða 8 og 9 ára börn. Dýrast var að æfa hjá Breiðabliki en þar kostar mánuðurinn 7.417 kr. eða 29.667 kr. fyrir 4 mánuði. Ódýrast var að æfa hjá KA en þar kostar mánuðurinn 4.667 kr. eða 18.667 kr. Verðmunurinn er 59% eða 11.000 kr.

 

Miklar hækkanir frá því í fyrra

Gjaldskrá félaganna hefur aðeins staðið í stað hjá tveimur félögum í báðum flokkum, FH og Knattspyrnufélaginu Víkingi. Einnig var sama gjaldskrá fyrir 6. flokk á milli ára hjá Knattspyrnufélaginu Haukum. Önnur félög hafa hækkað gjaldskrána um 2-25%.

Hjá 4. flokki var mesta hækkunin hjá Þór Akureyri, úr 20.000 kr. í 25.000 kr. eða um 25%, hjá KA og HK um 13%, hjá Fram um 12% og hjá KR, Gróttu og UMF Selfoss um 10%.

Í 6 . flokki var mesta hækkunin hjá Fram, úr 18.667 kr. í 21.667 kr. eða um 16%, hjá Þór um 14%, HK um 12%, Breiðabliki og UMF Selfoss um 11% og hjá KR, Stjörnunni og Gróttu um 10%.

 

Nánari upplýsingar á heimasíðu ASÍ.

 

 

 

SAMNINGUR VIÐ LANDSVIRKJUN SAMÞYKKTUR

Kjarasamningur Starfsgreinasambandsins og Landsvirkjunar sem undirritaður var 24. september síðastliðinn var samþykktur með 96% greiddra atkvæða. Samningurinn var lagður fyrir í póstatkvæðagreiðslu og lauk henni 16. október 2015. 23 starfsmenn voru á kjörskrá og kusu 17 af þeim, sem sagt 74% kjörsókn. Já sögðu 16 og nei sagði einn. Samningurinn telst því samþykktur og gildir hann afturvirkt frá 1. mars 2015 til 31. desember 2018.

Samninginn í heild sinni má nálgast hér PDF.

ÞING SGS LÝSIR YFIR STUÐNINGI VIÐ BARÁTTU STARFSFÓLKSINS Í RIO TINTO ÍSLANDI

Þing Starfsgreinasambands Íslands haldið á Hótel Natura dagana 14. og 15. október 2015 lýsir fullum stuðningi við aðgerðir starfsfólks RIO Tinto í Straumsvík. Barátta þeirra er birtingamynd stærri baráttu gegn verktöku og starfsmannaleigum. Það er grundvallarkrafa verkalýðshreyfingarinnar að launafólk sé með kjarasamninga sem standast ákvæði á íslenskum vinnumarkaði og að þeir séu virtir. Tilraunir RIO Tinto til að auka verktöku á alþjóðavísu sem og í Straumsvík er ekkert annað en aðför að samningsbundnum kjörum starfsfólks. Atvinnurekendur skulu ekki komast upp með það að reka fleyg á milli starfsmanna sem annars vegar eru ráðnir sem launamenn og hins vegar verktakar. Krafa fyrirtækisins um aukna verktakastarfsemi er afturhvarf til þeirra tíma þegar atvinnurekendur gátu valið frá degi til dags hverjir fengju vinnu og á hvaða kjörum. Það verður ekki liðið! Það er vaxandi tilhneyging atvinnurekenda að fara þessar leiðir til að svipta launafólk áunnum réttindum og mun verkalýðshreyfingin berjast hart gegn öllum slíkum tilraunum.

FIMMTA ÞING SGS SETT

Fimmta reglulega þing Starfsgreinasambands Íslands var sett kl. 10 í morgun með ræðu Björns Snæbjörnssonar, formanns sambandsins. Þingstörfum lýkur á morgun, 15. október, Þingið er haldið á Hótel Natura í Reykjavík, en yfirskrift þingsins að þessu sinni er „Sterkari saman í 15 ár“. Eftir að ræðu Björns lauk fluttu Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, ávörp. 

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) er landssamband almenns og sérhæfðs verkafólks. SGS er stærsta landssamband innan ASÍ, en 19 verkalýðsfélög eiga aðild að sambandinu með um 50 þúsund félagsmenn.

Aðildarfélög SGS eru þessi:
Báran stéttarfélag, Vlf. Suðurlands, Drífandi stéttarfélag, Efling-stéttarfélag, Vlf. Akraness, Stéttarfélag Vesturlands, Vlf. Snæfellinga, Vlf. Vestfirðinga, Vlsfél. Bolungarvíkur, Stéttarfélagið Samstaða, Aldan stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Vlf. Þórshafnar, Afl-Starfsgreinafélag, Vfl. Grindavíkur, Vlsfél. Keflavíkur og nágrennis (VSFK), Vlsfél. Sandgerðis og Vlf. Hlíf.

 

Dagskrá 5. þings Starfsgreinasambands Íslands Hótel Natura í Reykjavík 14.-15. október 2015

Miðvikudagur 14. október 2015

  • Kl. 10:00 Setning og ávörp gesta
    • Eygló Harðardóttir, ráðherri félags- og húsnæðismála
    • Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
  • Kl. 10:45 Yfirlit yfir þróun og horfur í kjaramálum, Ólafur Darri Andrason
  • Kl. 11:15
    • Álit kjörbréfanefndar, kosning þingforseta og ritara
    • Kosning nefndanefndar
    • Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra SGS 2013-2015
    • Ársreikningar sambandsins 2013 og 2014
  • Kl. 11:45 Matarhlé
  • Kl. 13:00 Kynning á ályktunum, lagabreytingum, starfsáætlun og fjárhagsáætlun Lagabreytingar, fyrri umræða
  •  Kl. 13:30 Almennar umræður
  • Kl. 15:00 Kaffihlé
  • Kl. 15:30
    • Nefndanefnd kynnir niðurstöður sínar
    • Nefndastörf (Kjaranefnd, Starfsháttanefnd, Laganefnd, Kjörnefnd, Atvinnunefnd og Húsnæðisnefnd)
  • Kl. 18:00 Matur

Fimmtudagur 15. október 2015

  • Kl. 09:00 Lagabreytingar, síðari umræða og afgreiðsla
  • Kl. 10:00
    • Almenn umræða
    • Afgreiðsla ályktana frá nefndum
    • Afgreiðsla starfs- og fjárhagsáætlunar
    • Ákvörðun um skatthlutfall
  • Kl. 12:30 Matarhlé
  • Kl. 13:30 Afgreiðslu mála fram haldið
  • Kl. 14:30
    • Kosning formanns SGS
    • Kosning varaformanns SGS
    • Kosning 5 aðalmanna í framkvæmdastjórn SGS
    • Kosning 5 varamanna í framkvæmdastjórn SGS
    • Kosning endurskoðenda og félagslegar skoðunarmanna reikninga
    • Kosning fastanefnda (Laganefnd og Kjörnefnd)
  • Kl. 16:00 Þingslit

Ljósmynd: SGS.

 

SAMNINGUR VIÐ RÍKIÐ UNDIRRITAÐUR

Samninganefndir Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagsins undirrituðu samning við samninganefnd ríkisins í dag (7. október 2015), vegna starfsfólks aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins hjá ríkisstofnunum. Samningurinn er á svipuðum nótum og samið var um á almennum markaði í vor og gildir hann frá 1. maí síðastliðnum. Hækkun frá 1. maí er 25.000 krónur. Þann 1. júní árið 2016 hækka laun um 5,5%, að lágmarki 15.000 krónur auk breytinga á launatöflu. Ári síðar, eða 1. júní 2017,  hækka laun um 4,5% og 1. júní 2018 hækka laun um 3%. Samningurinn gildir til 31. mars árið 2019 og kemur þá til sérstök eingreiðsla 1. febrúar 2019 uppá 45.000 krónur fyrir starfsfólk í fullu starfi og hlutfallslega fyrir starfsfólk í hlutastarfi.  Lágmarkslaun eru hækkuð til samræmis við það sem samið var um á hinum almenna vinnumarkaði og verða 300.000 krónur frá 1. júní 2018 fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sömu stofnun. Framlag í þróunar- og símenntunarsjóði verður hækkað í 0,82% auk þess sem aukið framlag verður sett í stofnanasamninga samkvæmt sérstakri bókun.

Um samninginn:

  • Kjarasamningurinn felur í sér verulegar launahækkanir við upphaf samnings þar sem að launataxtar hækka um 25.000 kr. eða að meðaltali um 9,78%.
  • Launataxtar hækka um 15.000 kr. þann 1. júní 2016 auk leiðréttingar á launatöflu sem jafngildir 5,9% hækkun að meðaltali.
  • Þann 1. júní 2017 hækka launataxtar um 4,5%
  • Þann 1. júní 2018 hækka laun um 3%.
  • Sérstök eingreiðsla kemur 1. febrúar 2019 að upphæð kr. 45.000, miðað við þá sem eru í fullu starfi 1. janúar 2019 og hlutfallslega fyrir þá sem eru í hlutastarfi.
  • Lagðar verða til 30 milljónir árlega árin 2016 – 2018 til þess að samræma stofnanasamninga þar sem horft verður til þess að leiðrétta sérstaklega þá hópa sem eru með lægri röðun í launatöflu en aðrir sambærilegir hópar.
  • Framlag í fræðslusjóð eykst úr 0,67% í 0,82% sem er mjög jákvætt skref til þess að efla félagsmenn enn frekar í starfi.
  • Launataxtar fyrir tímamælda ákvæðisvinnu í ræstingum hækka um tæplega 34% á samningstímanum.
  • Tekjutryggingin hækkar um 86.000 kr. á samningstímanum og verður komin í 300.000 kr. frá 1. júní 2018.
  • Orlofsuppbót hækkar um 21,5% á samningstímanum og fer í 42.000 kr. við upphaf samnings en verður komin í 48.000 kr. í lok samnings.
  • Desemberuppbót hækkar um tæplega 21% og fer í 78.000 kr. á árinu 2015 en 89.000 í lok samningstíma.

 

Samninginn í heild sinni má nálgast hér.

Samningurinn verður á næstunni lagður fyrir félagsmenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins.  Félög sem veitt hafa Starfsgreinsambandinu umboð munu halda sameiginlega rafræna atkvæðagreiðslu. SGS hvetur alla félagsmenn á kjörskrá til að nýta atkvæðisrétt sinn og greiða atkvæði með samningnum.

Frétt tekin af vef Starfsgreinasambandsins.

Nýr framkvæmdastjóri ASÍ í heimsókn

Við fengum góða gesti hingað á skrifastofuna í vikunni.

Mættar voru til okkar nýráðinn framkvæmdastjóri ASÍ Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, Kristín Ýr Gunnarsdóttir verkefnastjóri kynningar og upplýsingarmála, sem einnig er nýlega byrjuð á skrifstofu ASÍ og, Eyrún Björk Valsdóttir deildarstjóri MFA fræðslusviðs og starfsmannastjóri Alþýðusambandsins . Þeim var auðvitað tekið fagnandi enda bæði gott og gaman að fá góða gesti og ekki verra að fá að ræða beint við fólk úr forystunni og þá aðila sem móta og framfylgja stefnu verkalýðshreyfingarinnar. Svona samtöl milli okkar starfsmanna á plani og þeirra sem eru nær hringiðunni í höfuðborginni eru algerlega nauðsynleg og geta aldrei orðið til annars en að efla starfið.

Á stuttum fundi yfir kaffi og meðlæti var rætt um margt af því sem efst hefur verið á baugi í starfi ASÍ en ekki síður félaganna á staðnum. Við hér á skrifstofunni fengum tækifæri til að viðra skoðanir okkar og hvar okkur þætti að auka mætti áherslur miðað við okkar reynslu. Farið var vítt yfir sviðið, rætt var um launakjör á svæðinu, vinnustaðaeftirlit, samvinnu við ýmsar stofnanir, samvinnu félaga á svæðinu og hvernig skrifstofa ASÍ gæti stutt við starfið út í félögunum. Fyrir utan hversu skemmtilegar þessar konur voru þá fannst okkur bæði gagnlegt og fræðandi að fá þessa heimsókn og vonum við að framhald verði á í framtíðinni. Við vonum líka að þær hafi orðið einhvers vísari um lífið og verkalýðsbaráttuna út á landi.

Við viljum að endingu þakka fyrir heimsóknina og um leið bjóða þær Guðrúnu Ágústu og Kristínu Ýr velkomnar til starfa. Eyrúnu Björk þekkjum við vel frá fyrri tíð og höfum átt við hana ánægjulegt samstarf.

Við minnum á félagsfundinn í kvöld

Almennur félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags verður haldinn í kvöld, mánudaginn 21. september að Austurvegi 56, Selfossi. Fundurinn byrjar með kjötsúpu klukkan 19.00.

Dagskrá:

  1. Kosning fulltrúa á þing Starfsgreinasambands Íslands 14. – 15. október 2015.
  2. Staða kjarasamninga.
  3. Önnur mál.

Stjórn félagsins hvetur félagsmenn að mæta á fundinn og taka þátt í starfi félagsins.

 

Röng forgangsröðun í fjárlagafrumvarpinu

Miðstjórn Alþýðusambandsins gagnrýnir forgangsröðun sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Frumvarpið ber vissulega með sér bættan hag í ríkisrekstrinum en um leið blikka ljósin sem vara við ofþenslu í efnahagslífinu. Það er ljóst að eitt helsta verkefni ríkisstjórnarinnar á næstu misserum er að hemja vöxtinn svo ofþensla og verðbólga keyri ekki hér um þverbak með afleiðingum sem þjóðin þekkir því miður allt of vel.

Áherslur í fjárlagafrumvarpinu eru rangar að mati miðstjórnar ASÍ. Velferðarþjónusta í landinu situr á hakanum þar sem aukin framlög dekka fyrst og fremst miklar kostnaðarhækkanir. Framlög til þjónustu í velferðarkerfinu eru ekki að aukast að raungildi sem er dapurlegt þegar hagur þjóðarinnar fer batnandi, en ljóst er að endurreisa þarf velferðarþjónusta eftir hrun.

Miðstjórn ASÍ telur að stór velferðarverkefni sé enn sem komið er ófjármögnuð:

  1. Heilbrigðisþjónustan, einkum kostnaður vegna læknisþjónustu
  2. Endurskipulagning öldrunarþjónustu, búsetuúrræði og þjónusta
  3. Menntaúrræði fyrir þá sem hafa litla formlega menntun
  4. Félagslegt húsnæðiskerfi – jákvætt skref er stigið en dugar engan veginn til

Miðstjórn ASÍ telur þetta allt brýn úrlausnarefni sem nauðsynlegt er að ráðast í. Það er því gagnrýnivert að fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar til að draga úr þensluáhrifum í hagkerfinu sé að halda velferðarþjónustunni niðri. Það er röng forgangsröðun í landi sem vill kenna sig við norrænt velferðarsamfélag og mun þegar til lengri tíma er litið ýta undir ójöfnuð og ágreining.

FINNSK STJÓRNVÖLD RÁÐAST Í AÐGERÐIR GEGN LAUNAFÓLKI

Fyrir skemmstu kynntu finnsk stjórnvöld nýjar tillögur sem miða að því að skerða einhliða laun og ýmis önnur ákvæði í kjarasamningum sem nú þegar hefur verið samið um. Það er skemmst frá því að segja að finnsk stéttarfélög brugðust ókvæða við tillögunum og höfnuðu þeim alfarið enda kveða þær á um meiriháttar skerðingar á yfir-, helgar- og næturvinnu, skerðingu á veikindarétti og sjúkradagpeningum, takmörkunum á orlofsrétti launafólks ásamt fleiru.

Eftir að stéttarfélögin í Finnlandi höfnuðu tillögunum formlega tilkynnti finnska ríkisstjórnin röð aðgerða/lagafrumvarpa sem munu koma illa niður á launafólki þar í landi, en finnsku stéttarfélögin áætla að áhrifin af boðuðum aðgerðum stjórnvalda muni nema 4-6% lækkun á launum. Og ekki nóg með það heldur muni aðgerðirnar bitna verst á viðkvæmum launahópum, s.s. fólki í hlutastörfum og konum.

Í ljósi þessa hafa hin ýmsu stéttarfélög í Finnlandi boðað til víðtækra mótmælaaðgerða þann 18. september til  að mótmæla boðuðum aðgerðum stjórnvalda – aðgerðum sem brjóta m.a. í bága við bága samþykktir ILO og alþjóðlega og evrópska mannréttindasamninga.

Starfsgreinasambandið hefur sent finnskum félögum sínum stuðningsyfirlýsingu þar sem sambandið lýsir yfir fullum stuðningi við baráttu þeirra gegn tillögum ríkisstjórnarinnar.

Tekið af heimasíðu SGS