Við vinnum fyrir þig

Translate to

Allir að mæta á félagsfundinn

Félagsfundur verður haldinn að Austurvegi 56 Selfossi, 3. hæð, mánudaginn 23. mars kl. 20.00.

Á dagskrá fundarins auk hefðbundinna fundarstarfa verður:

Staða í kjaraviðræðum SGS og SA. 

Atkvæðagreiðsla um boðun verkfalls.

Önnur mál

Stjórnin

 

Félagsfundur nk. mánudag1

Rafræn atkvæðagreiðsla hefst á mánudag

Klukkan átta mánudaginn 23. mars nk. hefst rafræn atkvæðagreiðsla um heimild til verkfallsboðunar fyrir félagsmenn sem starfa eftir kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins, þ.e. á almenna vinnumarkaðinum. Í dag voru send út kjörgögn vegna atkvæðagreiðslunnar sem ættu að berast til félagsmanna á mánudaginn eða í síðasta lagi á þriðjudaginn. Ef einhverjar spurningar vakna er hægt að hafa samband við starfsfólk Bárunnar, stéttarfélags í síma 480-5000.

Að þessu sinni verður um rafræna atkvæðagreiðslu að ræða. Lykilorðið sem fylgir með kjörgögnum veitir félagmanni aðgang að kosningunni.

Ef einhver telur sig eiga að vera á kjörskrá en hefur ekki fengið send gögn er hægt að kæra sig inn. Viðkomandi þarf að hafa samband við skrifstofu  Bárunnar sem sendir málið til kjörstjórnar til athugunar.

Nánari upplýsingar á heimasíðu SGS

Auglýsing Bárunnar og SGS

BOÐA TIL VERKFALLA NEMA SKÝRRI KRÖFU UM 300 ÞÚS. KRÓNA LÁGMARKSLAUN VERÐI MÆTT

Starfsgreinasamband Íslands, sem fer með samningsumboð fyrir um ríflega tíu þúsund manns, hefur boðað til umfangsmikilla verkfallsaðgerða frá og með 10. apríl næstkomandi. Viðræðum sambandsins við Samtök atvinnulífsins var slitið fyrir sléttri viku síðan en mikið skildi þá á milli samningsaðila og ekkert þokaðist í samningsátt. Samtök atvinnulífsins hafið haldið fast við þá stefnu að laun almenns verkafólks hækki ekki um meira en 3-4%. Í krónum talið þýðir það hækkun grunnlauna um 6.000-9.500 kr. Slíkt er algerlega óviðunandi og var samninganefnd Starfsgreinasambandsins því knúin til að slíta viðræðunum og hefja undirbúning aðgerða. Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins: „Það er full alvara á bakvið þær kröfur sem við höfum sett fram en auðvitað vonumst við til að hægt verði að afstýra verkfalli.“

Eru með 201 þúsund króna grunnlaun í dag
Taxtar félagsmanna innan Starfsgreinasambandsins á almenna vinnumarkaðnum í dag eru frá 201.317 krónum en eftir 4 mánaða störf er lágmarkstekjutryggingin 214.000 krónur. Flestir hópar innan raða SGS eru með samningsbundna taxta upp á 207.814 krónur til 222.030 krónur eftir 7 ára starf. Hópferðabílstjórar sem eru í hæsta virka taxta hjá SGS eru með 238.043 krónur í grunninn eftir 7 ára starf.

Krafa um 300 þúsund króna grunndagvinnulaun innan þriggja ára
Starfsgreinasambandið hefur sett fram mjög skýr markmið í kröfugerð sinni; að lægstu taxtar verði komnir upp í 300 þúsund krónur innan þriggja ára, þ.e. að almennt verkafólk hafi möguleika á að framfleyta sér á grunndagvinnulaunum – svo er ekki í dag. Að auki vilja félagsmenn sambandsins:

  • Að fólk með hærri starfsaldur og/eða þeir sem hafi sótt sér fræðslu og menntun njóti þess.
  • Að laun í útflutningsgreinum hækki sérstaklega.
  • Að vaktaálag hækki og heimild fyrirtækja til að greiða eftir vaktaálagi verði skilyrt við ákveðið hlufall af dagvinnutíma. Ella sé greidd yfirvinna.
  • Að desember- og orlofsuppbætur hækki.

Hverjir eru innan SGS – til hverra taka aðgerðirnar?
Samninganefnd Starfsgreinasambandsins á hinum almenna markaði fer með umboð fyrir rúmlega 10.000 manns en Flóabandalagið (Efling, Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis) semur sérstaklega, auk þess sem fjöldi sérkjarasamninga er í gildi og taka aðgerðirnar ekki til þeirra. Þá er töluverður hluti félaga í SGS í störfum hjá ríki og sveitarfélögum. Aðgerðirnar núna snúa eingöngu að Samtökum atvinnulífsins og atkvæði um verkfallsboðun verða greidd af félagsmönnum sem taka laun samkvæmt kjarasamningum á milli SGS og SA. 42% þeirra sem greiða atkvæði um verkfall starfa á matvælasviði (fiskvinnslu, afurðastöðvum, kjötvinnslum og í sláturhúsum) en 32% atkvæðisbærra félaga eru í þjónustugreinum (ferðaþjónustu, ræstingum o.fl.), aðrir hópar telja byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, iðnað og farartækja- og flutningsgreinar.

Alls eru um 50.000 manns innan Starfsgreinasambandsins og er sambandið stærsta landssambandið innan ASÍ.

Um atkvæðagreiðsluna – hvenær hún hefst og hvenær henni lýkur
Atkvæðagreiðslan um verkfall verður rafræn og stendur frá kl. 8:00 þann 23. mars til miðnættis þann 30. mars. Gert er ráð fyrir að niðurstaðan liggi fyrir 31. mars, rúmri viku áður en aðgerðirnar eiga að hefjast.

Nánari upplýsingar veitir: Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS í s. 695-1757

 …

Skipulag aðgerða sem greidd verða atkvæði um:

10. apríl 2015: Allsherjarvinnustöðvun frá klukkan 12:00 á hádegi til miðnættis sama dag, á félagssvæðum þeirra 16 aðildarfélaga sem veitt hafa SGS umboð.

14. apríl 2015: Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða Einingar-Iðju, Stéttarfélagsins Samstöðu og Verkalýðsfélags Suðurlands.

15. apríl 2015: Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða Verkalýðsfélags Snæfellinga, Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis, Bárunnar stéttarfélags og Stéttarfélags Vesturlands.

16. apríl 2015: Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða Framsýnar stéttarfélags, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Öldunnar stéttarfélags, Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur.

17. apríl 2015: Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða AFLs starfsgreinafélags, Verkalýðsfélags Akraness, Drífandi stéttarfélags og Verkalýðsfélags Þórshafnar.

27. apríl 2015: Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða Framsýnar stéttarfélags, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Öldunnar stéttarfélags, Verkalýðsfélags Vestfirðinga, Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur, Verkalýðsfélags Snæfellinga og Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis.

28. apríl 2015: Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða Einingu-Iðju, Stéttarfélagsins Samstöðu og Verkalýðsfélags Suðurlands.

29. apríl 2015: Vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis tekur til félagssvæða  AFLs starfsgreinafélags, Verkalýðsfélags Akraness, Drífandi stéttarfélags, Verkalýðsfélags Þórshafnar, Bárunnar stéttarfélags og Stéttarfélags Vesturlands.

30. apríl 2015: Allsherjarvinnustöðvun frá klukkan 12:00 á hádegi til miðnættis sama dag, á félagssvæðum þeirra 16 aðildarfélaga sem veitt hafa SGS umboð.

12., 13., 15., 18., 19., 20., 21. og 22. maí 2015: Allsherjarvinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis sama dag, á félagssvæðum þeirra 16 aðildarfélaga sem veitt hafa SGS umboð.

26. maí 2015: Ótímabundin allsherjarvinnustöðvun hefst á miðnætti aðfaranótt 26. maí 2015 á félagssvæðum þeirra 16 aðildarfélaga sem veitt hafa SGS umboð.

Valdið er þitt!

Kæru félagar Bárunnar, stéttarfélags.
Kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum eru runnir út og komið að því að semja aftur. Við höfum setið við samningaborðið í um mánuð án nokkurs árangurs.

Samtök atvinnulífsins (SA) hafna kröfum Starfsgreinasambandsins (SGS) og vilja ekki
einu sinni ræða þær efnislega. Sú afstaða knúði okkur til þess að slíta viðræðum og
búa hreyfinguna síðan undir að láta samtakamátt hennar tala.

Félagsmenn um allt land mótuðu kjarakröfurnar. Samtök atvinnulífsins hafna því
algjörlega að lægstu laun verði lífvænleg. Verkalýðshreyfingin er að vígbúast og mun
fylgja kröfunum eftir með verkföllum ef því er að skipta.

Við fylgjum sanngjörnum kröfum eftir með því að leggja niður störf og sækjum því heimild til verkfalls.

Stöndum saman um bætt kjör.

Á næstu dögum kemur rafrænn atkvæðaseðill sendur í pósti til félagsmanna
Bárunnar, stéttarfélags á almennum vinnumarkaði og hvetjum við alla til þátttöku.

Atkvæðagreiðsla hefst mánudaginn 23. mars 2015 kl. 8:00.
Atkvæðagreiðslu lýkur mánudaginn 30. mars 2015 kl. 24:00.

GREIDDU ATKVÆÐI – HAFÐU ÁHRIF!

Samninganefnd Bárunnar, stéttarfélags

Sumarúthlutun orlofshúsa

Báran, stéttarfélag auglýsir orlofshús félagsins á Flúðum, Svignaskarði (skiptibústaður) og íbúð á Akureyri til leigu sumarið 2015 fyrir félagsmenn sína. Umsóknarfrestur er til 16. apríl nk. og úthlutun orlofshúsa mun liggja fyrir 21. apríl nk.

Verð á vikudvöl í bústöðunum er 15.000-.
Leigutímabil frá föstudegi til föstudags. Öllum umsóknum verður svarað skriflega. Hægt er að sækja um í tölvupósti baran@baran.is eða í gegnum síma Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna 480-5000. Einnig má prenta og fylla út meðfylgjandi eyðublað og skila á skrifstofu félagsins að Austurvegi 56, Selfossi.

Leigutímabil er frá föstudegi til föstudags, frá 5. júní til 28. ágúst.

Sumarblað Bárunnar 2015

 

Umsókn um orlofshús hjá Bárunni
Nafn___________________________           kt.______________________

Heimilisfang_____________________           Sími____________________

 

Sótt um hús (setjið x fyrir framan það hús sem við á):

___Þverlág 2, við Flúðir

___Þverlág 4, við Flúðir

___Svignaskarð, Borgarfirði

___Furulundur 8, Akureyri

 

Leigutímabil er frá föstudegi til föstudags, frá 5. júní til 28. ágúst.

Tímabil (vika) sem sótt er um: (Dæmi 10. júlí  – 17. júlí).

1.___________________________________

2.___________________________________

3.___________________________________

 

Félagsskírteinin komin út

Félagsskírtein fyrir árið 2015 ættu nú að hafa borist í hendur félagsmanna. Skírteinið er með sama sniði og síðustu ár en á því koma meðal annars fram hvaða fyrirtæki veita félagsmönnum afslætti. Ástæða er til að þakka þessum fyrirtækjum þáttökuna og hvetjum við félagsmenn til að vera duglegir að nýta sér þá afslætti sem í boði eru. Það er líka ástæða til að hvetja félagsmenn og aðra að versla sem mest í heimabyggð. Það skapar bæði störf og framlegð sem ástæðulaust er að flytja til Reykjavíkur.

VIÐRÆÐUM SLITIÐ – AÐGERÐIR UNDIRBÚNAR

Samninganefnd starfsgreinasambandsins lýsti í dag yfir árangurslausum viðræðum við Samtök atvinnulífsins en reynt hefur verið að ná endurnýjun kjarasamninga í nokkra mánuði án árangurs. Kröfur SGS eru skýrar: Að lægstu laun verði komin upp í 300 þúsund krónur innan þriggja ára svo launafólk hafi möguleika til að lifa af dagvinnulaunum. Það eru mikil vonbrigði að Samtök atvinnulífsins voru ekki tilbúin til að koma til móts við þessar kröfur. Starfsgreinasambandið er því nauðbeygt til að hefja undirbúning aðgerða og leita heimildar hjá sínum félögum til verkfallsboðunar.

Þau átök á vinnumarkaði sem þetta hefur í för með sér er afleiðing annars vegar skilningsleysis Samtaka atvinnulífsins á þeim launum sem fólk þarf til að lifa af og hins vegar stjórnvalda sem brugðust algerlega í þeirri tilraun sem gerð var fyrir rúmu ári síðan með hóflegar launahækkanir og aukinn kaupmátt. Til þess að sú tilraun gengi upp þurftu allir að taka þátt en svo er einfaldlega ekki.

Samstaða innan samninganefndar Starfsgreinasambandsins er fullkomin og viðræðurslit voru samþykkt einróma af öllum fulltrúum þeirra 16 aðildarfélaga sem SGS fer með samningsumboð fyrir en þau eru:Báran stéttarfélag, AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélagið Samstaða, Stéttarfélag Vesturlands, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar.

Tekið af heimasíðu SGS.

Öllum tryggð atvinnutengd starfsendurhæfing

Samkomulag hefur náðst milli stjórnvalda og heildarsamtaka vinnumarkaðarins um hvernig framlög úr ríkissjóði til starfsendurhæfingarsjóða skuli háttað. Þetta samkomulag mun því binda enda á þá óvissu sem hópar sem standa utan vinnumarkaðar hafa þurft að sæta um þjónustu hjá VIRK- starfsendurhæfingarsjóði. Samkomulagið tryggir að öllum sem á þurfa að halda er nú tryggð atvinnutengd starfsendurhæfing til að verða virkir á vinnumarkaði. Félags- og húsnæðismálaráðherra mun fá fulltrúa í stjórn VIRK.

VIRK fagnar þessu samkomulagi en Hannes G. Sigurðsson, formaður stjórnar VIRK, skrifaði undir það í gær ásamt Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra og Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Hannes segir það mjög ánægjulegt að aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin taki höndum saman um að tryggja öllum starfsendurhæfingu því það sé ávísun á betri vinnumarkað. Fólk sem hafi lokið starfsendurhæfingu sé dýrmætt fyrir atvinnulífið því kraftar þess geti nýst vel. Óvænt áföll vegna veikinda eða slysa setji oft strik í reikninginn en VIRK hjálpi fólki að bæta líf sitt, nýta styrkleika sína og komast út á vinnumarkaðinn á ný.

Fundur í samninganefnd Bárunnar

Í gærkvöldi var samninganefnd Bárunnar kölluð saman til að ræða stöðuna í samningamálum og taka ákvörðun um næstu skref. Mikil samstað kom fram á fundinum og ljóst að okkar fólk fylgist vel með og hefur sterkar skðanir á hvað skuli gera.

Á fundinum var skipað í verkfallstjórn sem verður til taks ef átök verða. Í verkfallsstjórnina voru skipuð Hjalt Tómasson, sem sér um utanumhald og samskipti við verkfallsstjórnir annarra félaga, Sara Guðjónsdóttir frá leikskólanum Hulduheimum og Friðrik Guðmndsson frá Sólningu. Þess nefnd mun koma saman fljótlega og ráða ráðum sínum.

Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun sem þegar hefur verið send á fjölmiðla:

Köllum eftir virðingu, skilningi og réttlæti!

 

Báran, stéttarfélag fagnar þeim stuðningi sem er í þjóðfélaginu varðandi kröfur SGS um 300 þúsund innan þriggja ára. Jafnframt harmar félagið það skilningsleysi sem endurspeglar viðbrögð Samtaka atvinnulífsins.

Samninganefnd Bárunnar, stéttarfélags skorar á forsvarsmenn atvinnulífsins að endurskoða afstöðu til þeirra krafna sem 16 félög í Starfsgreinasambandi Íslands hafa lagt fram, kröfuna um 300 þúsund króna lágmarkslaun innan þriggja ára. Krafan er í fullu samræmi við þau lágmarks neysluviðmið sem gefin hafa verið út af opinberum aðilum. Samningsaðilar á vinnumarkaði hljóta að hafa þá samfélagslegu skyldu að tryggja öllum laun sem duga til framfærslu, annað er ekki ásættanlegt í nútíma samfélagi. Fundurinn skorar á SA að koma að samningaborðinu og sýna launþegum þá virðingu að semja um laun sem endurspegla þau neysluviðmið sem viðurkennd eru í samfélaginu.

 

Báran, stéttarfélag fagnar hugmyndum um norrænt vinnumarkaðsmódel en kallar einnig eftir skilgreiningu Samtaka atvinnulífsins á hinu norræna módeli þegar dagvinnulaun á Íslandi eru nær þriðjungi lægri en á hinum Norðurlöndunum.

 

Nokkur umræða varð um þá stöðu sem upp er komin varðandi samstöðu innan raða Starfgreinasambandsins, þá staðreynd að enn einu sinni ber Starfsgreinasambandið ekki gæfu til að koma saman undir einu merki og veltu fundarmenn fyrir sér ástæðum þess. Mikil óánægja kom fram um þetta og töldu fundarmenn ástæðu til að taka umræðu um það á vettvangi SGS eftir að samningum er lokið.

Formaður vill að lokum koma á framfæri ánægju með trúnaðarmenn félagsins. Þeir hafa verið boðnir og búnir til að leggja vinnu af mörkum fyrir félagið og fylgjast vel með því sem er að gerast. Félagið verður öflugra þegar trúnaðarmenn eru virkir og greinilegt að Við hjá Bárunni þurfum ekki að kvarta yfir áhugaleysi.

 

 

 

Við köllum eftir virðingu

Eftirfarandi ályktun var samþykt á fundi samninganefndar Bárunnar, stéttarfélags sem haldinn var að Austurvegi 56, mánudaginn 23.febrúar:

 

 

 

Köllum eftir virðingu, skilningi og réttlæti!

 

Báran, stéttarfélag fagnar þeim stuðningi sem er í þjóðfélaginu varðandi kröfur SGS um 300 þúsund innan þriggja ára. Jafnframt harmar félagið það skilningsleysi sem endurspeglar viðbrögð Samtaka atvinnulífsins.

Samninganefnd Bárunnar, stéttarfélags skorar á forsvarsmenn atvinnulífsins að endurskoða afstöðu til þeirra krafna sem 16 félög í Starfsgreinasambandi Íslands hafa lagt fram, kröfuna um 300 þúsund króna lágmarkslaun innan þriggja ára. Krafan er í fullu samræmi við þau lágmarks neysluviðmið sem gefin hafa verið út af opinberum aðilum. Samningsaðilar á vinnumarkaði hljóta að hafa þá samfélagslegu skyldu að tryggja öllum laun sem duga til framfærslu, annað er ekki ásættanlegt í nútíma samfélagi. Fundurinn skorar á SA að koma að samningaborðinu og sýna launþegum þá virðingu að semja um laun sem endurspegla þau neysluviðmið sem viðurkennd eru í samfélaginu.

 

Báran, stéttarfélag fagnar hugmyndum um norrænt vinnumarkaðsmódel en kallar einnig eftir skilgreiningu Samtaka atvinnulífsins á hinu norræna módeli þegar dagvinnulaun á Íslandi eru nær þriðjungi lægri en á hinum Norðurlöndunum.

Fyrir hönd samnnganefndar.

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, stéttarfélags