Við vinnum fyrir þig

Translate to

Fremstar meðal jafningja

Í veftímariti Alþýðusambandins sem kom út í dag í tilefni af 1. maí er viðtal við Halldóru S. Sveinsdóttur formann Bárunnar.  

Sjá meðfylgjandi grein

 

Orðræðan gegn konum miklu illskeyttari

Nafn: Halldóra Sigríður Sveinsdóttir. 

Staða: Formaður í Bárunni, stéttarfélagi.  

Lengd formannssetu: Frá 2010 til dagsins í dag.

Lífsmottó: Vertu þú sjálfur. 

 

Hver er staða kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar almennt að þínu mati. Getur það reynst konum erfiðara en körlum að komast til áhrifa innan hennar og ef svo er hvernig þá?  

Staða kvenna innan ASÍ er að mörgu leyti sérstök. Sem betur fer hefur staðan breyst og konum fjölgað í forystu félaga á landsvísu og það er mjög jákvætt. Hins vegar er ennþá langt í land að fullu jafnrétti er náð. Það sem hindrar konur að bjóða sig fram í forystu er að orðræðan gegn þeim er miklu illskeyttari og þær eru oftar en ekki kenndar við einhverja pólítíska flokka, taldar boðberar einhverjar stefnu sem auðveldar að keyra niður mannorð þeirra og kemur þeim ekkert við.  Með öðrum orðum eru að mati karlægra sjónarmiða ekki sjálfstæðar heldur boðberar annarra.  Síðan eru þær mun gjarnari að verða fyrir aftökum á netmiðlum ef karllægum sjónarmiðum er ekki fylgt eftir.

Mynd: Halldóra Báran
Halldóra S. Sveinsdóttir, formaður Bárunnar.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að stíga fram og gefa kost á þér til formennsku í félaginu þínu og hvernig gekk sú vegferð?

Árið 2010 var komið að máli við mig og ég beðin um að taka við formennsku í félaginu. Ég hafði ekki leitt hugann að því en ákvað að slá til eftir smá umhugsunarfrest. Ég er fljót að segja já ef til mín er leitað.  Það kemur manni skemmtilega á óvart hvað þetta er fjölbreytt, krefjandi og skemmtilegt starf. Það er enginn dagur eins og alltaf eitthvað nýtt til þess að takast á við. Maður hefur kynnst fullt af góðu fólki og eignast góða vini.  

Réttlætiskenndin í blóð borin

Var verkalýðsbarátta hluti af þínu umhverfi þegar þú varst að alast upp, áttir þú þér fyrirmyndir í baráttunni?  

Það eru forréttindi að alast upp í sjávarþorpi eins og Þorlákshöfn. Umræður á mínu æskuheimili voru um fiskveiðar, vinnu við fiskveiðar og kaup og kjör. Við vorum svo lánsöm í skólanum okkar að hafa róttækan vinstri sinnaðan kennara flest grunnskólaárin sem sáði góðum og gildum  fræjum. Réttlætiskenndin er mér í blóð borin og hef aldrei getað látið kyrrt liggja ef á einhverjum er brotið. Ég hef verið svo heppin að kynnast mörgu góðu og heiðarlegu fólki. Fyrirmyndir eru margar þá sérstaklega þær sem eru alltaf sjálfum sér samkvæmar, heiðarlegar og góðar manneskjur. Svo einfalt er það. 

Lítur þú á þig sem fyrirmynd kvenna í verkalýðshreyfingunni og telur þú það að einhverju leyti vera hlutverk þitt að greiða götu annarra kvenna til áhrifa?  

Konum í hreyfingunni hefur ekki auðnast að sýna hverri annari þann styrk sem til þarf til þess að greiða götu annarra kvenna. Þegar Drífa Snædal var hrakin úr embætti heyrðist ekkert frá neinum hópi kvenna innan hreyfingarinnar. Ég hefði  viljað sjá sterka kvennahreyfingu stíga fram og segja „þetta líðum við ekki“ Konur ná ekki að vera fyrirmyndir vegna þeirrar menningar sem hefur viðgengist innan hreyfingarinnar. Það eru þeir sem ná að berja sér á brjóst helst í fjölmiðlum án nokkurrar innistæðu sem eru „hetjurnar“ en ekki þær/þeir sem sannarlega eru hetjurnar.    

Telur þú þig, og aðra kvenkyns formenn, vera með aðrar áherslur/tón eða sýn en karlar í áhrifastöðum innan verkalýðshreyfingarinnar og skiptir það máli að hafa kynjahlutföll þeirra sem sinna trúnaðarstörfum innan hreyfingarinnar sem jöfnust? 

Hreyfingin, karlar og konur eru flest hugsjónafólk með sterka réttlætiskennd. Það er oftast ekki mikið um ólíkar áherslur heldur ólíka nálgun sem gerir það að verkun að staðan innan hreyfingarinnar verður óstöðug. Í öllum umræðum er nálgun kynjanna oft með ólíkum hætti. Konur vilja skoða málið, lúslesa allt og hafa á hreinu hvernig á að framkvæma hlutina á meðan karlar fara yfir „stóru myndina“. Konur eru almennt ekki stóryrtar.  Kynjahlutföll þurfa að sjálfsögðu að vera sem jöfnust en sum sambönd/félög samanstanda af miklum meirihluta karlkyns sem skekkir að sjálfsögðu heildarmyndina því miður.  

Fyrsti kvenleiðtogafundur ASÍ

Telur þú að reglulegt og skipulagt kvennastarf innan verkalýðshreyfingarinnar, sbr. kvenleiðtogafundir og kvennaráðstefnur, gætu nýst konum sem vilja hafa áhrif innan ASÍ, og ef svarið er já, hvernig þá?   

Það er eiginlega alveg undarlegt að ekki hafi tekist að sameina konur í sterka heild sem hefur rödd. Kvennaráðstefnur hafa verið nokkrar á undanförnum árum en einhvern veginn hefur samstaðan ekki náð flugi sem segir að það er ekki nóg. Eftir síðustu kvennaráðstefnu var ályktunun ráðstefnunnar ekki tekin til efnislegrar umræður heldur beittu ákveðnir aðilar öllu sínu valdi til þessa að gera þetta allt ótrúverðugt og marklaust. Fyrsti kvennleiðtogafundurinn var haldinn núna í mars sá fyrsti í sögu ASÍ. Það voru áhugaverðir fyrirlestrar um allt sem við kemur okkur í hreyfingunni. Hvernig við hugsum kynslóð eftir kynslóð og þær hindranir sem okkur er í blóð bornar án þess að taka eftir því. Hvernig „kvennlæg störf“ eru vanmetin þegar kemur að jafnvirði starfa og hvar er sóknarfæri fyrir okkar láglaunaða kvennahópa. Það eru mörg krefjandi verkefni framundan og áskorunir fjölmargar. Kvennleiðtogafundurinn hitti alveg í mark var virkilega hvetjandi, fróðlegur, faglegur og vonandi sá fyrsti af mörgum.  

Til hamingju með daginn

Við förum stolt inn í daginn þegar við horfum á þau réttindamál sem komin eru til vegna baráttu launafólks í gegnum tíðina. Þetta er lifandi barátta þar sem púlsinn þarf að vera hverju sinni á hvar á helst að bera niður. Húsnæðismál, vextir verðtrygging, réttlát umskipti og svo má lengi telja. 

​Á framhaldsþingi ASÍ sem lauk núna fyrir helgi var verið að skila af sér málefnavinnu þar sem þingfulltrúar af öllu landinu tóku þátt í. Þetta var góð vinna og lætur verkalýðshreyfinginn sig flest varða þegar kemur að kjörum launafólks. Niðurstaða þessarar vinnu er svo nýrrar forystu ASÍ að fylgja eftir því sem grasrótin leggur til og er samþykkt á  þinginu sem stefna Alþýðusambandsins í þeim mikilvægu málum sem við vinnum að. 

Síðastliðið haust varð niðurstaða að fresta þingi ASÍ vegna þess að fjórir formenn ásamt einhverjum af fulltrúum þeirra félaga gengu út af þinginu. Sólveig Anna formaður Eflingar, Hörður Guðbrandsson formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur, Ragnar Ingólfsson formaður VR og Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akranes. Tekin var sú ákvörðun þá að fresta þingi og reyna að ná sáttum. Einnig drógu þau til baka framboð sín til forseta og varaforseta á þinginu. Nú liggur fyrir kosning nýrrar forystu ASÍ og er nokkur breyting miðað við fyrri uppstillingu. 

 Þáttur kvenna er nokkuð rýr eftir kosningu í miðstjórn af 15 fulltrúum eru fjórar konur. Mikið er rætt um að ná sáttum innan hreyfingarinnar og er það vel og nauðsynlegt. Í hverju felst sú sátt, alltaf að sætta sömu persónur og leikendur. Felast sættir í því að skerða hlut kvenna til forystu.  Þingið sá ástæðu til þess að álykta og hvetja til þátttöku kvenna til trúnaðarstarfa en ekki að kjósa konur til trúnaðarstarfa. Þetta er afturför til fortíðar og afar undarlegt á tímum jafnréttis?  Brýnt er að rýna í stöðu kvenna og velta fyrir sér hvað veldur svo veikri stöðu til forystu.

Eigið góðar stundir á baráttudegi verkalýðsins.

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.

 

 

1. maí á Selfossi

Kröfugangan fer frá Austurvegi 56 kl. 11:00, Lúðrasveit Selfoss leiðir gönguna að Hótel Selfoss þar sem skemmtun fer fram og boðið verður upp á veitingar.
Félagar úr Sleipni fara fyrir göngunni á hestum. Kynnir er Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar stéttarfélags.
Ræðumaður verður Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Frá námsmönnum FSU verður Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir.
Benedikt Búálfur syngur og skemmtir börnunum. Valgeir Guðjónsson flytur nokkur lög. Boðið verður upp á andlitsmálun fyrir börnin.

Sýnum samstöðu í verki, mætum í kröfugöngu og tökum þátt í hátíðarhöldunum.

 

Sjá auglýsingu

Uppfærður heildarkjarasamningur SGS og SA

Starfsgreinasamband Íslands og Samtök atvinnulífsins undirrituðu nýjan kjarasamning í desember 20022 vegna starfa á almennum vinnumarkaði. Um var að ræða skammtímasamning sem gildir til 31. janúar 2024 þar sem lögð var megináhersla á launaliðinn og því er ekki um að ræða miklar efnislegar breytingar frá fyrri samningi.

Að undanförnu hafa samningsaðilar unnið að því að uppfæra heildarkjarasamninginn m.t.t. þeirra atriða sem samið var um í desember síðastliðnum og er þeirri vinnu nú lokið. Vefútgáfa heildarkjarasamningsins er tilbúin og aðgengileg hér:
Kjarasamningur milli SGS og SA.

Vinna að uppfærðri útgáfu kjarasamnings SGS og SA vegna veitinga-, gisti-, þjónustu- og greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi er hafin og verður uppfærður samningur aðgengilegur á heimasíðu SGS um leið og þeirri vinnu er lokið.

Nýr samningur við Landsvirkjun samþykktur

Starfsgreinasambandið og Landsvirkjun skrifuðu undir nýjan kjarasamning þann 5. apríl síðastliðinn, en um er að ræða samning sem nær til félagsmanna innan aðildarfélaga SGS sem starfa hjá Landsvirkjun vítt og breitt um landið. Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024 og byggir á kjarasamningi SGS og SA sem undirritaður var 3. desember síðastliðinn.

Með kjarasamningnum fylgir ný launatafla sem gildir frá 1. nóvember 2022. Kjaratengdir liðir kjarasamningsins hækka um 5% frá 1. nóvember 2022 og þá taka desember- og orlofsuppbætur einnig hækkunum. Desemberuppbót miðað við fullt starf verður 149.400 kr. á árinu 2023 og orlofsuppbót á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2023 verður 149.400 kr. m.v. fullt starf.

Samningurinn fór í rafræna atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sem stóð yfir dagana 13. til 20. apríl þar sem samningurinn var samþykktur af öllum þeim sem greiddu atkvæði.

Kjarasamningur SGS og Landsvirkjunar 2022-2024.

 

Frétt fengin af heimasíðu SGS.

Mynd fengin af vefsíðu Landsvirkjunar.

Páskafundur trúnaðarmanna

Páskafundur trúnaðarmanna Bárunnar var haldinn 28.03.2023 í vinnustofu Bankans.

Mætingin var mjög góð og var dagskráin frá 13:00 til 19:00.

Halldór Oddsson lögfræðingur ASÍ fór yfir nýliðnar kjaradeilur sem var mjög áhugavert. Kom hann með nokkur dómafordæmi varðandi verkföll og miðlunartillögur og fleira skemmtilegt. Næst kom svo Guðrún Margrét Guðmundsdóttir sem er sérfræðingur ASÍ í málefnum innflytjenda og í jafnréttismálum. Hún var með mjög svo áhugaverðan fyrirlestur um jafréttisbaráttuna og stöðu kvenna á vinnumarkaði. Ákveðið var að breyta til og fá atvinnurekanda til að fara yfir vinnutímastyttinguna og kom Bergsteinn forstjóri Set og fór yfir útfærslu þeirra á vinnutímastyttingunni sem hefur vakið mikla lukku meðal starfsmanna og því ber að fagna. Þór Hreinsson skrifstofustjóri Bárunnar og Fjóla Pétursdóttir lögfræðingur fóru yfir helstu fyrirspurnir og þau mál sem koma inn á borð Bárunnar og var áhugavert að sjá hvaða mál það voru og hvernig unnið er að þeim. Halldóra formaður fór svo yfir stöðuna í kjaramálum en nú eru ríki og sveitarfélög í samningslotum og fór hún yfir stöðuna þar og einnig yfir sögu Bárunnar. Loks fór hún Marta okkar yfir námsstyrkina og orlofskosti Bárunnar. Miklar og skemmtilegart umræður sköpuðust og má með sanni segja að dagurinn hafi heppnast mjög vel. Allir voru svo leystir út með páskaeggi.

 

Báran leggur mikið uppúr því að vera í góðum tengslum við trúnaðarmenn félagsins og er þessi fundur partur af því. Hann er haldinn árlega ásamt jólafundinum og þykir okkur ákaflega vænt um þessa hefð og hvetjum við ávallt alla okkar trúnaðarmenn að mæta á þessa fundi og mynda góða tengingu og njóta góðrar fræðslu.

 

Tillaga Uppstillingarnefndar til aðalfundar Bárunnar, stéttarfélags 15. maí 2023

Uppstillingarnefnd Bárunnar, stéttarfélags hefur sent frá sér tillögu að lista samkvæmt lögum sem samþykkt voru á aðalfundi 2017. Nefndin leggur fram tillögu til lista til stjórnar og nefnda Bárunnar. Listi uppstillingarnefndar liggur frammi til tilkynningar hjá Bárunni, stéttarfélagi á Austurvegi 56, Selfossi, frá og með föstudeginum 31. mars 2023.

Á aðalfundi Bárunnar 2023 skal kosið í stjórn um varaformann og þrjá meðstjórnendur og þrjá í varastjórn. Úthlutunarnefnd vinnudeilasjóðs (3 aðalmenn og 2 varamenn), uppstillingarnefnd (3 aðalmenn og 1 varamann), kjörstjórn (2 aðalskoðunarmenn og 1 varamaður). Siðanefnd (3 aðalmenn og 2 varamenn).

Frestur til að bjóða sig fram eða bera fram aðrar tillögur til uppstillingarnefndar er til og með 30. apríl 2023.

 

Niðurstaða fundar uppstillingarnefndar haldinn miðvikudaginn 15. mars 2023

 

Tillaga Uppstillingarnefndar til aðalfundar Bárunnar, stéttarfélags 15. maí 2023

 

 

Stjórn og nefndir Bárunnar, stéttarfélags fyrir aðalfund 2023

 

Varaformaður (annað hvert ár)

Örn Bragi Tryggvason

Meðstjórendur (annað hvert ár)

Ingvar Garðarsson

Magnús Ragnar Magnússon

Helga Sigríður Flosadóttir

Varastjórn (kosið á hverju ári)

Hildur Guðjónsdóttir

Sylwia Konieczna

Hugborg Guðmundsdóttir

 

Úthlutunarnefnd vinnudeilusjóðs: (fyrir hvern aðalfund)

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir

Sigrún Sigurðardóttir

Sylwia Katarzyna Konieczna

Til vara:

Jóhanna Guðmundsdóttir

Alexander Örn Ingason

 

Kjörstjórn, Bárunnar stéttarfélags (fyrir hvern aðalfund)

Bryndís Rósantsdóttir

Jóhannes Sigurðsson

Til vara:

Egill Valdimarsson

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir

 

Uppstillingarnefnd, Bárunnar stéttarfélags (fyrir hvern aðalfund)

Kristín Sigfúsdóttir

Sigrún Sigurðardóttir

Jóhanna Guðmundsdóttir

Til vara:

Heiðar Már Guðnason

 

Skoðunarmenn reikninga:

Þorleifur Sívertsen

Soffía Sigurðardóttir

Til vara:

Mateuz Michal Kuc

 

Siðanefnd (annað hvert ár, 2023)

Oddur Ástráðsson formaður

Kristín Sigfúsdóttir

Egill Valdimarsson

Til vara:

Sigurlaug Ósk Reimarsdóttir

Heiðar Már Guðnason