Við vinnum fyrir þig

Translate to

Reiknivélar vegna breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum

Breytingar á lögum um virðisaukaskatt og almenn vörugjöld tóku gildi um ármót og ættu neytendur nú þegar að sjá þess merki í verðlagi hjá verslunum og þjónustuaðilum. Mikilvægt er að neytendur séu vel á verði og sýni söluaðilum aðhald svo tilætlaðar breytingar skili sér eins og vænta má í breytingum á verðlagi.

Breytingarnar eru tvíþættar. Annars vegar breytingar á virðisaukaskatti sem nú þegar ættu að hafa haft áhrif á verðlag á vörum og þjónustu og hins vegar afnám almennra vörugjalda sem ætla má að skili sér að fullu á næstu vikum.

Hér að neðan (á heimasíðu ASÍ) er að finna dæmi um áhrif breytinganna á verðlag og reiknivélar þar sem neytendur geta áætlað áhrif breytinganna á verð á ýmsum vörum og þjónustu. Rétt er að taka fram að reiknivélarnar eru settar fram til viðmiðunar fyrir neytendur og gera ráð fyrir óbreyttri hlutfallslegri álagningu söluaðila. Í þeim tilvikum þar sem vörugjaldið er föst krónutala ss. á sykri og sætum matvörum ráðast breytingar af álagningu söluaðila hverju sinni en reiknivélin áætlar þau lágmarks áhrif sem ætla má að breytingarnar hafa á verðlag.

Hér má nálgast reiknivélar vegna breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum.

 

Almennur virðisaukaskattur

Allflestar vörur og þjónusta bera almennan virðisaukaskatt sem lækkaði um áramót úr 25,5% í 24%. Verð lækkar um 1,2% vegna þessara breytinga. Hér má nefna vörur eins og föt og skó, lyf, húsgögn, húsbúnað, raftæki, áfengi, tóbak, snyrtivörur, tryggingar og þjónustu ýmsa þjónustu.

 

Dæmi af vörum og þjónustu þar sem virðisaukaskattur lækkar úr 25,5% í 24%

Vara                   Verð fyrir 1.jan. 2015            Verð eftir 1. jan. 2015
Skór                          15.000                                        14.821
Hársnyrting                  5.000                                          4.940
Bíll                        3.500.000                                   3.458.167
Sófi                          200.000                                      197.610
Lyf                               3.000                                         2.964

 

Neðra þrep virðisaukaskatts

Neðra þrep virðisaukaskattsins hækkaði um áramót úr 7% í 11% og hækkar verðlag vara í þessu þrepi um 3,7% vegna þessa. Helstu liðir í þessu skattþrepi eru matur og óáfengar drykkjarvörur, veitinga- og gistiþjónusta, bleiur, bækur, dagblöð, tímarit og geisladiskar, heitt vatn og raforka til húshitunar, afnotagjöld útvarps- og sjónvarpsstöðva og aðgangur að vegamannvirkjum (Hvalfjarðargöng).

 

Dæmi af vörum og þjónustu þar sem virðisaukaskattur hækkar úr 7% í 11%

Vara                    Verð fyrir 1. jan. 2015            Verð eftir 1. jan. 2015
Nýmjólk 1 l.                        129                                     134
Brauðostur 1 kg.               1.500                                  1.555
Bananar 1 kg.                      289                                    300
Bleiur                               1.400                                  1.452
Skáldsaga/kilja                  2.990                                 3.100

 

Matvörur sem báru vörugjöld (sykurskatt)

Vörugjöld á sykur og sætar matvörur (sykurskattur) voru feld niður um ármót.  Áhrif breytinganna á verð einstakra vara ræðst af því hversu mikinn sykur/sætuefni þær innihalda en vörugjald er að jafnaði 210 krónur á hvert kíló sykurs sem vara inniheldur. Um er að ræða vörur eins og sykur, gosdrykki, ís, sultur, sætabrauð, sælgæti, sætar mjólkurvörur o.fl. Virðisaukaskattur af þessum vörum hækkar jafnframt úr 7% í 11%. Miða má við að þeim mun sætari sem varan er þeim mun þyngra vegur afnám vörugjaldsins í verðinu og þeim mun meira ætti varan að lækka í verði. Vörur sem innihalda hlutfallslega lítinn sykur kunna hins vegar að hækka þar sem hækkun virðisaukaskatts á matvörur vegur þyngra en afnám vörugjaldsins.

 

Dæmi af matvörum þar sem vörugjald fellur niður og virðisaukaskattur hækkar úr 7% í 11%. Breytingar á verði ráðast af álagningu smásala en ættu að lágmarki að vera eftirfarandi:

Vara                                       Verð fyrir 1. jan. 2015            Verð eftir 1. jan. 2015
Gosflaska 2 l                                        250                                         213
Gosflaska ½ l                                       130                                         123
Sykur 1 kg                                            400                                         182
Sultukrukka 400 g (ca. 50% sykur)         400                                          368
Sætt kex 300 g    (ca. 30% sykur)          300                                          288
Ís 2 l                                                     800                                         759
Skyr.is – 170 g. (ca. 12 gr. af sykri)         145                                         148

 

Stærri raftæki, bílavarahlutir og byggingavörur sem báru vörugjöld

Almenn vörugjöld sem lögð voru á stærri raf- og heimilistæki, ýmsar byggingavörur og bílavarahluti voru jafnframt feld niður að fullu um áramót auk þess sem virðisaukaskattur á þessum vöruflokkum lækkar úr 25,5% í 24%. Vörugjöld voru lögð á ýmist við innflutning eða hjá framleiðanda og voru hlutfallsleg. Hæst vörugjöld, 25% báru raftæki eins og sjónvörp, hljómflutningstæki og myndbandstæki en samspil niðurfellingar á vörugjöldum og lækkunar á virðisaukaskatti ætti að skila um 21% lækkun á þessum vörum. Ýmis stærri heimilistæki ss. þvottavélar, þurrkarar, eldavélar, kæliskápar og uppþvottavélar báru 20% vörugjöld og ættu breytingarnar að leiða til um 18% verðlækkunar á þessum vörum. Þá báru ýmsar byggingavörur eins og hreinlætistæki, gólfefni og flísar 15% vörugjöld sem og ýmsir bílavarahlutir og ætti verð á þessum vörum að lækka um 14% í kjölfar breytinganna.

 

Dæmi af raftæki þar sem vörugjald fellur niður og virðisaukaskattur lækkar úr 25,5% í 24%. Útreikningarnir og reiknivélarnar byggja á að hlutfallsleg álagning söluaðila haldist óbreytt.

Vara                             Verð fyrir 1. jan. 2015            Verð eftir 1. jan. 2015
Sjónvarp                                  70.000                                    55.331
Sjónvarp                                150.000                                   118.566
Þvottavél                               120.000                                     98.805
Uppvottavél                            140.000                                   115.272
Vaskur                                     25.000                                     21.479
Parketgólf, fm.                           6.000                                      5.155
Flísar, fm.                                 4.000                                       3.437

 Tekið af heimasíðu ASÍ

 

VR stefnir ríkinu!

Verslunarmannafélag Reykjavíkur hefur ákveðið að stefna íslenska ríkinu vegna breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar sem komu til framkvæmdar um áramót. Félagið hefur óskað eftir flýtimeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Eins og kunnugt er voru samþykkt lög frá Alþingi sem meðal annars fela í sér skerðingu á bótarétti og ljóst að þessi breyting kemur mjög illa niður á stórum hópi bótaþega. VR telur að ríkinu hafi verið óheimilt að skerða rétt félagsmanna til atvinnuleysisbóta með því að stytta bótatímabilið um sex mánuði.

VR telur í stefnu sinni að um sé að ræða brot á stjórnarskrá þar sem segir að að með lögum skuli tryggja öllum sem þess þurfa rétt til aðstoðar og breytingarnar gangi gegn 76. grein stjórnarskrárinnar. Einnig telur VR að brotinn sé eignaréttur en áunnin réttindi teljast  eign sem nýtur verndar eignaréttarákvæða stjórnarskrárinnar.  Telur VR að um sé að ræða afturvirka lagasetningu sem brýtur gegn 27. grein stjórnarskrárinnar. Engar málefnalegar ástæður séu til breytinganna, meðalhófs og jafnræðis hafi ekki verið gætt og ekki sé nægur fyrirvari eða aðlögun fyrir félagsmenn.

Það er ljóst að niðurstaða í þessu máli mun hafa áhrif á alla þá sem verða fyrir barðinu á þessum breytingum og því fróðlegt að sjá hvað gerist. Mörg stéttarfélög og fleiri aðilar, svo sem sveitarfélög,  hafa stigið fram og mótmælt þessum breytingum ríkisstjórnarinnar og bent á að þetta muni koma þeim hópi verst sem hvað síst má við því.

Þetta útspil ríkisstjórnarinnar er meðal margra vafasamra aðgerða nú þegar kjarasamningar eru á næsta leyti og öruggt að það mun ekki verða til að auðvelda samningaumleitanir.

Nýr starfsmaður á Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna

 

 

Ásta Björk Ólafsdóttir hefur verið ráðin í fullt starf, sem þjónustufulltrúi á Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi á Austurvegi 56, Selfossi. Ásta Björk er úr Reykjavík en fjölskyldan flutti á Selfossi fyrir þremur árum. Hún er gift Sigurði Lárussyni en samtals eiga þau fjögur börn á aldrinum 3 -23 ára.   Ásta Björk mun útskrifast sem viðurkenndur bókari í febrúar 2015. Hún hefur aðallega unnið við bókhald/launa og skrifstofu störf síðustu ásamt því að reka veisluþjónustu með manninum sínum. Síðast vann hún í Rúmfatalagernum á Selfossi, sem deildastjóri metravöru í tæplega tvö ár.  „Nýja starfið leggst mjög vel í mig. Starfið er skemmtilega fjölbreytt og góður vinnuandi“, segir Ásta Björk. Starfsfólk Þjónustuskrifstofunnar býður hana hjartanlega velkomna til starfa.

 

Breytingar á lögum um vsk og vörugjöld

Um áramótin tóku gildi breytingar á lögum um virðisaukaskatt og vörugjöld sem hafa áhrif á verðlag á flestum vöru- og þjónustuliðum. Breytingar á vörugjöldum ættu að skila sér á næstu vikum en breytingarnar á virðisaukaskattinum hafa strax haft áhrif á verðlag. Neytendur eru eindregið hvattir til að fylgjast vel með breytingunum og hvernig þær skila sér út í verðlag.

 

Helstu breytingar eru eftirfarandi:

Almenna þrep virðisaukaskatts lækkar úr 25,5% í 24%  – lækkar verð um 1,2%

Dæmi um vörur og þjónustu í almenna þrep virðisaukaskatts

  • Föt og skór
  • Lyf
  • Áfengi og tóbak
  • Raforka til almennra nota
  • Þjónusta iðnaðarmanna
  • Húsgögn og húsbúnaður
  • Búsáhöld
  • Verkfæri
  • Tölvur og prentara
  • Símtæki
  • Bílar
  • Bílaviðgerðir
  • Póst og símaþjónusta
  • Tryggingar
  • Hársnyrting
  • Snyrtivörur
  • Skartgripir og úr
  • Hreinlætisvörur
  • Flugfargjöld

Neðra þrep virðisaukaskatts hækkar úr 7% í 11% – Verð vara hækkar um 3,7%

Helstu vörur og þjónustuliðir í neðra þrepi virðisaukaskatts

  • Mat- og óáfengar drykkjarvörur
  • Bækur
  • Dagblöð og tímarit
  • Geisladiskar
  • Heitt vatn
  • Raforka til húshitunar
  • Bleiur og smokkar
  • Gistiþjónusta
  • Veitingaþjónusta
  • Afnotagjöld útvarps- og sjónvarpsstöðva
  • Aðgangur að vegamannvirkjum – Hvalfjarðargöng

 

Almenn vörugjöld eru felld brott  

Almenn vörugjöld eru afnumin en þau vöru lögð á sykur og sætar mat- og drykkjarvörur, stærri raftæki, byggingarvörur og bílavarahluti.

Helstu breytingar á vörugjöldum eru eftirfarandi:

Sykur og sætar mat- og drykkjarvörur (sykurskattur)

Áhrif breytinganna á verð einstakra vara er misjafnt og fer eftir því hversu mikinn sykur/sætuefni þau innihalda en hvert kíló sykurs bar fyrir 1. janúar 210 króna vörugjald. Virðisaukaskattur á þessum vörum hækkar jafnframt úr 7% í 11%.

 

Dæmi um sætar mat og drykkjarvörur sem báru vörugjald (sykurskatt)

  • Sykur, molasykur, púðursykur o.þ.h. – 210 kr/kg
    • Gosdrykkir – 21 kr/lítra
    • Ís – 32 kr/lítra
    • Sultur, grautar, ávaxtamauk – 210 kr/kg af viðbættum sykri
    • Kex og sætabrauð – 210 kr/kg af viðbættum sykri
    • Súkkulaði og sælgæti – 210 kr/kg af viðbættum sykri
    • Sætar mjólkurvöru – 210 kr/kg af viðbættum sykri
    • Sætt morgunkorn – 210 kr/kg af viðbættum sykri

 

Stærri raftæki sem bera 25% vörugjöld – lækka í verði um 21%

Virðisaukaskattur á þessum vörum lækkar jafnframt úr 25,5% í 24%

 

Dæmi um vörur sem báru 25% vörugjald

  • Sjónvörp
    • Útvörp, hljómflutningstæki og hátalarar
    • Myndbandstæki
    • Heimabíókerfi

 

Stærri raftæki sem bera 20% vörugjöld – lækka í verði um 18%

Virðisaukaskattur á þessum vörum lækkar jafnframt úr 25,5% í 24%

 

Dæmi um vörur sem báru 20% vörugjald

  • Þvottavélar
    • Þurrkarar
    • Eldavélar, helluborð og ofnar
    • Kæliskápar
    • Frystiskápar- og kistur
    • Uppþvottavélar
    • Örbylgjuofnar

 

Byggingavörur og bílavarahlutir sem báru 15% vörugjöld – lækka í verði um 14%

Virðisaukaskattur á þessum vörum lækkar jafnframt úr 25,5% í 24%

Dæmi um vörur sem báru 15 % vörugjald

  • Vaskar, baðker, sturtuklefar, salernisskálar
    • Blöndunartæki
    • Gólfefni
    • Flísar
    • Veggfóður
    • Gipsplötur, þiljur
    • Lampar og ljósabúnaður
    • Rafgeymar
    • Stuðarar
    • Gírkassar
    • Vatnskassar
    • Baksýnisspeglar

Upplýsingar um breytingar teknar af heimasíðu ASÍ.

Persónufrádráttur hækkar

Nú um áramót taka breytingar á skattalögum gildi eins og flestum mun kunnugt um.

Ein breytingin er að persónufrádráttur hækkar um 0,8%. Hann verður samtals kr. 610,825  á ári, úr kr. 50.496 í 50.902 á mánuði.

Það þýðir að skattleysismörk hækka að sama skapi, úr kr.135.330 á mánuði í kr. 142,153

Upplýsingar hér neðar og til hliðar á síðunni hafa verið uppfærðar miðað við þessar breytingar.

Opnunartími skrifstofunnar

Þjónustuskrifstofa stéttarfélaganna á Suðurlandi verður lokuð á aðfangadag og gamlársdag. Skrifstofan  verður opin mánudaginn 29. desember og þriðjudaginn 30. desember .  Við opnum eftir áramót þann 2. janúar kl.8.00..  Báran, stéttarfélag sendir félagsmönnum og fjölskyldum þeirra jóla og hátíðarkveðjur.

Vinningshafar úr happadrætti stéttarfélaganna

Formenn félaganna ásamt Margréti Ýr Bárðardóttur
Formenn félaganna ásamt Margréti Ýr Bárðardóttur vinningshafa

Nýlega voru afhentir vinningar í happadrætti stéttarfélaganna sem haldið var meðfram vali starfsfólks á fyrirtæki ársins.

Heppnir vinningshafa voru Margrét Ýr Bárðardóttir frá Hólshúsum í Gaulverjabæjarhrepp sem starfar hjá Hagkaupum Selfossi og Gunnar Aron Ólason frá Hellu, starfsmaður Stracta Hótel.

Vinngur var vegleg kjötkarfa frá Sláturfélagi Suðurlands.

Báran og Verslunarmannafélag Suðurlands óska vinningshöfum til hamingju og gleðilegra jóla.

Greiðsla styrkja úr menntasjóðum og sjúkrasjóði.

Vegna fyrirspurna sem borist hafa þá er rétt að taka fram eftirfarandi:

Menntasjóður var greiddur út 15. desember sl. og verður næst afgreiddur 15. janúar nk. Minnt er á að skila inn umsóknum og gögnum síðasta lagi 10. janúar.

Sjúkrasjóður greiðir út mánudaginn 22. des nk. Síðust forvöð að skila inn gögnum á morgun, fimmtudag.