Við vinnum fyrir þig

Translate to

Vertu á verði! Stöndum saman og rjúfum vítahring verðbólgunnar

Báran stéttarfélag og önnur stéttarfélög innan ASÍ hefja í dag átak gegn verðhækkunum undir yfirskriftinni – Vertu á verði. Almenningur og atvinnulífið eru hvött til að taka höndum saman og rjúfa vítahring verðbólgunnar. Átakinu er ætlað að veita fyrirtækjum og stofnunum aðhald í verðlagsmálum og vekja neytendur til aukinnar vitundar.

Sendu ábendingar um verðhækkanir á – www. vertuaverdi.is

Á heimasíðu átaksins www.vertuaverdi.is geta allir sent inn ábendingar um verðhækkanir á fljótlegan og einfaldan hátt. Þannig getum við sameiginlega skapað mikilvægt aðhald, meðvitund og umræðu um verðlagsmál.

Það er hagsmunamál okkar allra að vera á verði og láta vita.

Verðbólgan versti óvinur launafólks

Launafólk er langþreytt á að hóflegar launahækkanir sem samið er um í kjarasamningum séu sífellt notaðar til að réttlæta miklar verðhækkanir og aukna verðbólgu.  Við endurskoðun kjarasamninga nú í janúar lögðu fulltrúar launafólks mikla áherslu á að samstaða yrði meðal fyrirtækja og opinberra aðila um að sýna aðhald í verðhækkunum svo nýtilkomnar launahækkanir skili sér í auknum kaupmætti launafólks.

Allir þurfa nú að taka höndum saman – sýna ábyrgð og stöðva verðhækkanir – það gagnast okkur öllum.

Kaupmáttur – atvinna – velferð

Opinn fundur með ASÍ og stéttarfélögunum á Suðurlandi verður haldinn á Hótel Selfossi  fimmtudaginn 28. febrúar 2013 kl. 19:30. Fjallað verður um stöðu kjaramála og kaupmáttar (baráttu við verðbólguna), sókn í atvinnumálum á Suðurlandi og hugmyndir ASÍ að nýju húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd. Báran, Stéttarfélag hvetur félagsmenn til að mæta  á fundinn.

Mikil hækkun á matvöru

Matvöruverð heldur áfram að hækka. Frá því í haust hefur verð á vörukörfu ASÍ hækkað umtalsvert í nær öllum verslunarkeðjum. Mest er hækkunin í versluninni Iceland, ríflega 10% og í Krónunni 9%. Í verslunum 10-11 hefur vörukarfan hækkað um 6,4%, í Hagkaupum um 5,6% og í Bónus um 4,2%. Í Nóatúni og Samkaupsverslununum nemur hækkunin 2-3%. Í versluninni Víði hefur heildarverð vörukörfunnar hækkað um 1% síðan í haust þrátt fyrir að flestir vöruflokkar aðrir en kjötvörur hafi hækkað nokkuð í verði. Séu kjötvörur undanskildar úr körfunni nemur hækkunin 4% í Víði. Svipaða sögu er að segja úr Nettó en þar hefur heildarverð körfunnar lækkað síðan í september um 2,8%, séu kjötvörurnar hins vegar undanskildar hefur verð körfunnar hækkað um 2,3%.

Miklar hækkanir í flestum vöruflokkum

Í töflunum hér að neðan má sjá verðbreytingar á einstaka vöruflokkum körfunnar í hverri verslunarkeðju frá því í september 2012. Í heildina litið eru miklar almennar verðhækkanir í öllum verslunum á þessu fimm mánaða tímabili. Almennt hækka flestir vöruflokkar um 2-5% milli verðmælinga. Líkt og áður sveiflast verð á kjöti töluvert og hafa þær sveiflur umtalsverð áhrif á heildarverð körfunnar, enda vegur sá vöruflokkur þungt. Verð á grænmeti og ávöxtum hækkar víðast um 9-20% en verð á mjólkurvörum breytist lítið í flestum verslunum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Samanburðurinn nær til verðmælinga verðlagseftirlitsins í matvöruverslunum í september 2012 og mælingar sem gerð var um síðastliðin mánaðarmót.   

Verðlagseftirlitið mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar mat- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðalheimilis.

Verðbreytingar eru skoðaðar í eftirfarandi verslanakeðjum: Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Hagkaupum, Nóatúni , Samkaupum-Úrvali, Víði, 10-11 og Samkaupum-Strax.

Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar í verslanakeðjunum á milli verðmælinga Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða,  þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum því haft áhrif á niðurstöðurnar.  

Óheimilt er að vitna í niðurstöðurnar í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Trúnaðarmannanámskeið

Trúnaðamannanámskeið stendur nú yfir í sal stéttarfélaganna.

Þáttakendur eru um tuttugu og farið er yfir ýmislegt sem viðkemur starfi trúnaðarmannsins.

Mikið líf er í trúnaðarmannakerfi stéttarfélaganna og greinilegt að sú ákvörðun, að fjölga og efla trúnaðarmenn er að skila sér.

Í tilefni dagsins mætti sérstakur gestur og tók hluta námskeiðsins sem fjallar um fágaða framkomu og tískuvitund trúnaðamanna. Félögin líta svo á að fallegur og snyrtilegur trúnaðamaður sé góður trúnaðarmaður.

ASÍ kynnir hugmyndir sínar að nýju húsnæðislánakerfi

ASÍ kynnti í gær á fréttamannafundi hugmyndir sínu að nýju húsnæðislánakerfi á Íslandi. Kerfið byggir á danskri fyrirmynd en húsnæðislánakerfið þar í landi var sett á fót fyrir rúmum 200 árum og hefur á þeim tíma staðið af sér kreppur, styrjaldir og önnur áföll. Meðal kosta nýja kerfisins er að sjálfvirk áhrif verðbólgu á höfuðstól eftirstöðva lánsins verða afnumin og áhættunni af lántökunni er deilt milli fjármagnseigenda og lántaka með sanngjarnari hætti en nú er. 

 

Af hverju nýtt húsnæðislánakerfi?
Til að gefa húsnæðiskaupendum valkost um hagstæð og örugg langtímalán sem byggja á föstum nafnvöxtum og fyrirsjáanleika inn í framtíðina í stað verðtryggðra lána. Meira öryggi – betri kjör.

 Hver er fyrirmynd nýja kerfisins?
Það er óþarfi að finna upp hjólið. Danska húsnæðislánakerfið varð til í lok 18. aldar og hefur staðið af sér byltingar, kreppur, styrjaldir og jafnvel ríkisgjaldþrot í rúm 200 ár. Moody‘s skrifaði skýrslu um það árið 2002 og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tók danska húsnæðislánakerfið út árið 2007. Í báðum tilvikum fékk það toppeinkunn enda hefur enginn þurft að afskrifa kröfur á það kerfi í 200 ár.

Hvernig virkar danska kerfið?

1.      Húsnæðisveðlánum er miðlað í gegnum sérhæfðar stofnanir (húsnæðisveðlánastofnanir) sem mega aðeins sýsla með húsnæðisveðlán og fjármögnun þeirra útlána með húsnæðisskuldabréfaútgáfu til sölu á skuldabréfamarkaði.

2.      Kerfið byggir á föstum nafnvöxtum til skemmri eða lengri tíma, hámarks lánshlutfalli m.v. markaðsvirði allt að 80% og lánstíma allt að 30 árum.

3.      Kerfið byggir á bókhaldslegu jafnvægi á milli eignahliðar (húsnæðisveðlánin) og skuldahliðar (skráðra húsnæðisskuldabréfa) – svokallaðri jafnvægisreglu. Afrakstri af hverju húsnæðisskuldabréfaútboði er miðlað beint til lántakenda og  vaxtagreiðslur og afborganir af húsnæðisveðlánum er miðlað beint til þeirra fjárfesta sem eiga skráðu húsnæðisskuldabréfin.

Hvernig er þetta í framkvæmd?
Íbúðakaupandi fjármagnar kaupin með húsnæðisveðláni (láni með veði í þeirri eign sem hann kaupir) frá húsnæðisveðlánastofnuninni. Stofnunin fjármagnar lánveitinguna með útgáfu húsnæðisskuldabréfs sem hún selur á skuldabréfamarkaði. Húsnæðisskuldabréfið, oftast gefið út í flokki með mörgum alveg eins, er tryggt með þeim húsnæðisveðlánum sem að baki þeim búa. Það sem fæst fyrir húsnæðisskuldabréfið, að frádregnum kostnaði og stimpilgjöldum til ríkisins, fær lántakinn í hendur. Ef skuldabréfamarkaðurinn er líflegur og eftirspurn mikil fæst gott verð fyrir húsnæðisskuldabréfið (t.d. 950 þ. fyrir hverja milljón) og lántakan verður því hagstæð. Ef markaðurinn er á hinn bóginn er í lægð og eftirspurn lítil  fæst ekki eins gott verð (t.d. 850 þ. fyrir hverja milljón) og lántakan verður því ekki eins hagstæð.    

Hvað hefur danska leiðin fram yfir núverandi kerfi?

Danska húsnæðiskerfið er hannað út frá þeirri forsendu að heimilin þurfi að búa við öryggi og stöðugleika í fjármögnun íbúðarhúsnæðis – með tilliti til vaxta, lánstíma og afborgunarskilmála. Ákvörðun nafnvaxta verður á skuldabréfamarkaði og gegnsærri en nú er. Sjálfvirk áhrif verðbólgu á höfuðstól eftirstöðva lánsins verða afnumin. Áhættunni af lántökunni er með þessum hætti deilt milli fjármagnseigenda og lántaka með sanngjarnari hætti en nú er þar sem áhættan af þróun verðlags er nær öll hjá lántakanda. Húsnæðisveðlánastofnanir mega ekki fjármagna sig með innlánum eða stunda áhættusækna fjármálastarfsemi. Þeirra hlutverk er það eitt að miðla með sem hagkvæmustum hætti fjármagni milli íbúðarkaupenda og fjármagnseigenda sem kjósa að ávaxta fé sitt með öruggum og hagkvæmum hætti. 

Nýtt húsnæðislánakerfi á Íslandi – danska leiðin. Ítarefni.

Nýtt húsnæðislánakerfi á Íslandi – danska leiðin. Glærur.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Miðstjórn ASÍ ályktar

Verslanir Hagkaups, Kosts, Nóatúns og Víðis neituðu að veita verðtökufólki frá Verðslagseftirliti ASÍ  upplýsingar um verðlag í verslunum sínum. Miðstjórn ASÍ sendi frá sér eftirfarandi ályktun í gær:

Ályktun miðstjórnar ASÍ – Hvað er verið að fela?

Miðstjórn ASÍ lýsir vonbrigðum með að verslanir Hagkaups, Nóatúns, Kosts og Víðis neiti verðlagseftirliti ASÍ að skrá vöruverð í verslunum sínum. Hvað hafa þær að fela?

Verðlagseftirlit ASÍ hefur um árabil unnið að því að auka upplýsingastreymi til neytenda og efla þannig neytendavitund um leið fyrirtækjum og stofnunum hefur verið veitt aðhald.

Með því að vísa verðlagseftirliti ASÍ á dyr eru Hagkaup, Nóatún, Kostur og Víðir að senda launafólki kaldar kveðjur og ljóst að þessar verslanir ætla ekki að sýna samstöðu í því að halda verðbólgu í skefjum á næstu mánuðum. Miðstjórn ASÍ hvetur launafólk til að sýna aðhald sitt í verki með því að hætta að versla við aðila sem ekki treysta sér til að upplýsa um verðlag í sínum verslunum.

Orlofshús Bárunnar stéttarfélags um páska 2013

Báran, stéttarfélag auglýsir orlofshús félagsins við Flúðir og einnig íbúð félagsins á Akureyri til umsókna fyrir páskavikuna 27. mars til 3. apríl 2013. Umsóknarfrestur er til 10. febrúar og hægt er að sækja um í tölvupósti baran@baran.is eða í gegnum síma Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi 480-5000. Úthlutun orlofshúsa mun liggja fyrir 20. febrúar.

 

Verð á dvöl um páska er kr. 15.000.

 

Breytingar á kauptöxtum

Þann 1. febrúar næstkomandi koma til framkvæmda nýir kauptaxtar fyrir þá sem starfa á almenna markaðinum eftir samningi SGS og SA. Þessir kauptaxtar gilda frá 1. febrúar 2013 til og með 30. nóvember 2013. Launataxtar hækka um kr. 11.000 og almenn laun um 3,25% auk þess sem reiknitölur og föst álög hækka um 3,25%, en þó ekki lægra en 9 kr. Þessar hækkanir þýða að lágmarkstekjur fyrir fullt starf (fullar 173,33 unnar stundir á mánuði/40 stundir á viku) hækka um 11.000 kr. og verða 204.000 kr.

 Kauptaxtana má nálgast hér.

 

Kjarasamningur fyrir aðstoðarfólk fatlaðs fólks

Starfsgreinasambandið og NPA miðstöðin hafa undirritað kjarasamning sem tekur gildi 1. febrúar næstkomandi. NPA miðstöðin hefur það að markmiði að veita fötluðu fólki á öllum aldri stuðning til að nýta notendastýrða persónulega aðstoð. Þannig hefur miðstöðin til dæmis aðstoðað við ráðgjöf við starfsmannamál, ráðningar, launa- og skipulagsmál og fleira. NPA verkefnið er tilraunaverkefni sem byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf sem veitir einstaklingunum stjórn, val og möguleika til fullrar þátttöku og til sjálfstæðs lífs með persónulegri aðstoð á öllum sviðum lífsins.

Gerð kjarasamningsins er liður í því að búa til ramma utan um störf aðstoðarfólks fatlaðs fólks innan NPA verkefnisins. Samið var um kauptaxta, vaktavinnufyrirkomulag, greiðslur á ferðum  og fleira. Þá var ákveðið að halda áfram að ræða hvernig farið yrði með fyrirkomulag hugsanlegra sólarhringsvakta og sofandi vakta. Samningurinn nær til aðstoðarfólks fatlaðs fólks um allt land að undanskildu Flóasvæðinu, þ.e. þess starfsfólks sem er í Eflingu, Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis, en þessi félög undirrituðu kjarasamning fyrir nokkrum mánuðum síðan. Samningurinn gildir því fyrir félagsmenn Bárunnar.

 Kjarasamninginn milli SGS og NPA má lesa hér.