Við vinnum fyrir þig

Translate to

Minnir á sögu verkalýðshreyfingarinnar í samhengi við atburði síðustu vikna

Signý Jóhannesdóttir formaður Stéttarfélags Vesturlands skrifar:

Síðustu dagar hafa verið undarlegir fyrir þá sem starfa í verkalýðshreyfingunni. Formaður og framkvæmdastjóri eins stærsta félags í ASÍ, stærsta félags í SGS sem er landssamband almennra félaga verkafólks, hafa sagt af sér. Þau bera starfsfólk félagsins þungum sökum, tala og skrifa um ofbeldismenningu, mannorðsmorð og þeim hafi verið haldið í gíslingu. Starfsmenn félagsins sem flestir eru ráðnir af þessum stjórnendum kvarta undan mjög slæmum vinnuanda á skrifstofunni og lýsingar þeirra eru miður fagrar. Óskir starfsmanna um úrbætur eru hunsaðar og stjórnarmanni sem vill vita hvað er að gerast á vinnustaðnum, sem telur nærri 60 manns, er neitað um upplýsingar og honum úthúðað af forystufólkinu, sakaður um annarlegar hvatir.

Ég hóf störf á skrifstofu Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði 1. september 1979 og hafði þá verið trúnaðarmaður á vinnustað í nokkur ár. Seinna varð ég svo stjórnarmaður í því félagi og síðar formaður, áður en ég fluttist á Vesturlandið og varð formaður og framkvæmdastóri Stéttarfélags Vesturlands. Þessu til viðbótar er ég sérlegur áhugamaður um sögu íslenskrar verkalýðshreyfingar.

Seigla er gott veganesti í þessu starfi.

Á þessum liðlega 40 árum sem liðin eru frá því að ég gerðist verkamaður í þessum víngarði, hef ég kynnst mörgu frábæru fólki. Eins og gengur líka öðrum minna frábærum. Sumir þeir einstaklingar sem mér leist ekkert sérstaklega vel á í upphafi hafa orðið mínir bestu félagar og samstarfsmenn þegar fram liðu stundir. Á sama hátt hefur nánari viðkynning leitt í ljós að oft fellur á glansmyndirnar. Svona er bara lífið og lítið við því að gera, annað en að halda sínu striki og temja sér umburðarlyndi. Samstarfsfólkið er allskonar og formaður í stéttarfélagi þarf að taka á móti hverju vandamáli með því hugarfari að það sé verkefni til að leysa, svo eru það kverúlantarnir sem gefa lífinu lit og maður þarf að láta sér þykja vænt um þá og draga bara djúpt andann. Þegar um samskipti milli stéttarfélaga er að ræða verður maður að temja sér að vinna með því fólki sem valið er til starfa hjá viðkomandi félagi, hvort sem manni líkar eða líkar ekki við persónuna. Þá reynir eimitt á umburðarlyndið.

Í ársbyrjun 2018 tilkynnti formaður Eflingar að hann gæfi ekki kost á sér til starfa fyrir félagið lengur. Hann hafði verið formaður félagsins í 20 ár og átti langan starfsferil hjá gömlu Dagsbrún áður en Efling varð til. Fram á sjónarsviðið kom kona sem vann stórsigur í kosningu til formanns Eflingar. Sá sem boðinn var fram af lista trúnaðarráðs félagsins átti ekki roð í hana. Ekki fór fram hjá neinum að þarna var á ferðinni róttækur einstaklingur, talaði tæpitungulaust um auðvaldið, viðbjóðslega kapítalista sem arðrændu vinnuaflið. Ekki síst konur í ummönnunar- og þjónustustörfum. Hnefinn var á lofti og nú skyldi látið sverfa til stáls.

Ef satt skal segja þekkti ég málfarið, hafði verið í leshring með Ara Trausta, lært um Marx og Engels, kíkt á kommúninsta ávarpið og fleira í þeim dúr, svona þegar ég var í kring um fermingu. Eins hafði ég heyrt af afa mínum Hjálmari í skúrnum, sem var verkakarl á Siglufirði á árunum um og eftir kreppuna miklu, hann talaði með þessum hætti og eru nokkrar tilvitnanir í hann í fundargerðum Verkamannafélagsins Þróttar, þar var ekki skafið af hlutunum.

Nýr formaður Eflingar gerði skurk á skrifstofu félagsins, losaði sig við fólk sem hafði áratuga reynslu af störfum stéttarfélaga, tilkynnti að hún ætlaði að breyta kjarabaráttu Eflingar í alþjóðlega baráttu gegn auðvaldi og kapítalima sem hefði það að aðalstarfi að arðræna vinnuaflið, verkalýðinn.

Bæði fráfarandi formaður Eflingar og framkvæmdastjóri hafa talað af lítilsvirðingu um forvera sína, allt sem þau hafa sagt um störf Eflingar á liðnum árum og áratugum er að mínu mati byggt á vanþekkingu og hroka. Þau eru reyndar ekki ein um að nota þennan talsmáta, fleiri forkólfar halda að verkalýðsbaráttan hafi hafist við tilkomu þeirra sem bjargvætta inn í hreyfinguna.

Forystumenn stéttarfélaga hafa misjafnan stíl, sumir hafa hátt, fara mikinn í fjölmiðlum og þurfa að lýsa skoðunum sínum á hinum ólíklegustu málum. Þessar vinnuaðferðir eru ekki endilega þær sem skila mestum og bestum árangri fyrir félagsmenn viðkomandi félaga. Margur vinnur verk sín í hljóði og kemur mörgu góðu til leiðar án þess að nærast á stórkallalegum komenntakerfum. Þessir einstaklingar sem þannig vinna eru ekki að sækjast eftir persónudýrkun. En trúið mér maður verður ekki sósíalisti á því að láta sér vaxa skegg og klæðast gallajakka. Á sama hátt vinnast ekki endilega stærstu sigrarnir með steyttum hnefum.

Auk þess að hafa atað forvera sína auri hefur tvíeykinu tekist að tala um starfsfólk Eflingar á þann hátt sem ég hef á langri ævi aldrei heyrt viðbjóðlegan kapítalista tala um starfsfólk sitt. Þetta starfsfólk Eflingar hafa þau tvö að mestu ráðið til starfa. Lýsingar á græðgi, vanrækslu, sjálftöku, gíslatöku og öðrum níðingsskap við fórnarlömbin, formanninn og framkvæmdastjórann. Þarna er eitthvað sem ekki passar, þau tóku við u.þ.b. 40 manna starfshópi sem þau hafa að mestu skipt út og ráðið ca 20 í viðbót. Mér er orða vant í þessu máli.

Það sorglegasta við þetta allt saman er að ég held að þessi svokallaða róttæka forysta hafi vakið upp miklar og óraunhæfar vonir um betri tíð með blóm í haga. Tími Gúttóslaganna er liðinn. Öskukarlinn afi minn lifði þann tíma, fæddur 1877og dó 59. Allt frá tíma þjóðarsáttarinnar 1990, hefur kaupmáttur verkafólks vaxið, ekki jafnt og þétt heldur nokkuð skrikkjótt, að mestu vegna íslensku krónunnar, sem stjórnvöld hafa notað sem sveiflujöfnun. Vöxturinn er ekki alltaf í samræmi við fjölda þeirra aura sem í umslagið hafa komið.

Ef gögn hagdeildar ASÍ eru skoðuð þá sér maður að ennþá er kjarasamningurinn frá 2015, að gefa meiri kaupmátt en margumtalaður Lífskjarasamningur frá 2019. Vissulega eru á því margar skýringar s.s. að allt féll með efnahagsumhverfinu á árunum 2015-2018, en hvert áfallið á eftir öðru hefur dunið yfir frá 2019 og enn sjáum við ekki fyrir endann á Covid.

Ég vil enda þessa hugleiðingu mína á því að óska nýjum formanni Eflingar velfarnaðar í hennar störfum. Það hlýtur að vera gríðarleg áskorun fyrir hana að taka við keflinu. Eitt er að hafa kjarkinn, viljann og getuna, annað er að þurfa að púsla saman vinnustaðum sem augljóslega er í sárum. Næsta verkefni er svo að hella sér í undirbúning kjarabaráttunnar vegna samningana sem lausir eru næsta haust. Til þess þarf mörg samtöl og marga fundi og formaðurinn talar ekki íslensku. Allir þeir sem fundað hafa með túlk, vita hvað það verður miklu tímafrekara og erfiðara.

Fráfarandi formaður Eflingar segir að starfsmennirnir hafi ekki skilið að hún hafi viljað laga félagið að öllum þeim erlendu félagsmönnum sem eiga aðild að félginu en ekki öfugt. Ég veit ekki frá hvað mörgum löndum félagsmenn Eflingar koma en í Stéttarfélag Vesturlands, sem telur rúmlega 1000 greiðandi félagsmenn eru þjóðernin milli 30 og 40. Íslendingar eru 63%, pólverjar eru 18% og fólk með önnur ríkisföng eru 19%. Við reynum að þjónusta alla okkar félagsmenn vel og höfum ekki gert tilraunir til að skilja á milli þjóðerna. Það væri að æra óstöðugan að reyna annað.

Hverjum gagnast þetta ástand í einu stærsta stéttarfélagi landsins?

Höfundur er formaður Stéttarfélags Vesturlands.

Pistill framkvæmdastjóra SGS

Hugsjónafólk í starfi

Undanfarin tæplega 3 ár hef ég verið svo gæfusamur að starfa hjá Starfsgreinasambandinu. Á þeim tíma hefur verið gengið frá aðalkjarasamningi á almennum vinnumarkaði, kjarasamning við Ríkið og samtök sveitarfélaga og sérkjarasamningum. SGS hefur einnig haldið þing sitt á þessum árum, fræðsludaga starfsfólks og fleira svo fátt eitt sé nefnt af verkefnunum.

Í þessu starfi hef ég átt mikil samskipti og samstarf við starfsfólk aðildarfélaga SGS um land allt, en hjá félögunum 19 starfa að jafnaði 80 til 100 manns ef allt er talið. Mín reynsla af þessu fólki er að það brennur fyrir starfi sínu og baráttumálum hreyfingarinnar. Þetta fólk er í daglegum samskiptum við félagsmenn, hvort það er á skrifstofum félagsins, í eftirlitsferðum á vinnustöðum eða bara í sundi, hvert í sinni heimabyggð. Þau leggja sig fram um að aðstoða og liðsinna okkar félagsmönnum, hjálpa þeim að sækja rétt sinn og verja kjör þeirra og aðbúnað.

Verkalýðshreyfingin á Íslandi er stórt og kraftmikið afl sem starfar í þágu launafólks. Það er auðvelt að missa sjónar á því, en hreyfingin varð það alls ekki sjálfkrafa. Um það ber rúmlega aldargömul saga um átök og baráttu ríkulegt vitni. Það er gott og heilbrigt að það sé í gangi lífleg umræða um starfið í verkalýðshreyfingunni, stefnu hennar og starfshætti. Hún er lifandi hreyfing sem á að vera óhrædd við að ræða leiðir til að efla og bæta lífskjör í landinu. Um það eiga forystu- og félagsmenn að takast á um á félagslegum vettvangi.

Starfsfólk hreyfingarinnar um land allt, hvort sem það er hjá aðildarfélögum SGS eða öðrum stéttarfélögum eiga ekki skilið að gert sé lítið úr þeirra mikilvægu og góðu störfum, nóg er nú að okkur sótt þótt við tökum ekki þátt í því sjálf.

Skrifstofur aðilarfélaga SGS eru mannaðar af fólki sem leggur sig fram um að þjónusta sína félagsmenn af kostgæfni og gæta þeirra réttinda, alla daga, allt árið um kring. Sú þjónusta er eitt þeim hlutverkum sem félagsmenn kunna best að meta og sækja mikið í. Við eigum að tala þessa þjónustu upp, vekja á henni athygli og hvetja fólk til að sækja það sem þau þurfa til sinna félaga og taka þátt í starfi þeirra.

Flosi Eiríksson

Verð á lausasölulyfjum og öðrum vörum í apótekum lægst hjá Costco og Lyfjaveri

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á lausasölulyfjum og ýmsum öðrum vörum sem seldar eru í apótekum, þriðjudaginn 2. nóvember. Verð var kannað í öllum apótekum á landinu eða 26 útibúum. Borgarapótek í Borgartúni var eina apótekið sem neitaði þátttöku í könnuninni.

Costco var oftast með lægsta verðið í könnuninni, á 53 vörum af þeim 149 sem könnunin náði til en Rimaapótek var næst oftast með lægsta verðið, í 11 tilvikum. Hæsta verðið var oftast að finna hjá Lyfjabúrinu, í 39 tilvikum en Lyfja var næst oftast með hæsta verðið í 33 tilvikum.

Algengast var að munur á hæsta og lægsta verði væri á bilinu 40-60% eða í 62 tilvikum af 149. Í 58 tilvikum var munurinn á bilinu 20-40%. Verðlagseftirlit ASÍ hvetur neytendur til að spyrja um samheitalyf, sem gætu verið á hagstæðara verði og athuga með afsláttakjör.

 


Costco og Lyfjaver með lægsta verðið en Lyfjabúrið og Lyfja með hæsta verðið

Með því að skoða meðalverð er auðveldara að átta sig á verði hjá þeim verslunum sem eru hvorki með hæsta verðið né það lægsta. Ef litið er til meðalverðs eða hversu hátt eða lágt verð á vörum í könnuninni var að jafnaði hjá söluaðilum má sjá að Costco var að meðaltali með lægsta verðið. Vöruúrvalið hjá Costco var einnig minnst en einungis 63 vörur voru til af 149 sem könnunin náði til. Taka skal fram að til að geta keypt lyf hjá Costco verður að greiða árlegt aðildargjald upp á 4.800 kr. Meðalverð á vörum í könnuninni var næst lægst hjá Lyfjaveri sem var með töluvert meira úrval en Costco eða 135 vörur af 149. Lyfjabúrið með hæsta meðalverðið en 115 vörur fengust þar og Lyfja var með næst hæsta meðalverðið. Í töflunum hér að neðan má sjá uppröðunina á söluaðilum eftir meðalverði og fjölda vara sem til var í hverri verslun.

Nánari upplýsingar á heimasíðu ASÍ

Pistill forseta ASÍ

Play er enginn leikur fyrir launafólk

Þegar ég byrjaði að vinna fyrir verkalýðshreyfinguna þá trúði ég því varla að á íslenskum vinnumarkaði væru hópar sem væri búið að svipta rödd sinni, þyrðu ekki að koma fram og greina frá aðstæðum sínum og væru kúgaðir til að vinna fyrir laun undir lágmarkslaunum. Síðan er ég reynslunni ríkari og hef ítrekað hitt fólk sem hefur ekki rödd og eina vonin er að stéttarfélögin leggi lið og ljái rödd og styrk, sem þau gera daglega.

Read more „Pistill forseta ASÍ“

Útreikningur veikindalauna vaktavinnufólks

Stytting vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki á opinberum vinnumarkaði tók gildi þann 1. maí sl. Á sama tíma tóku í gildi fylgiskjal 2 hjá ríki, Reykjavíkurborg og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu og fylgiskjal 3 hjá sveitarfélögum . Við gildistökuna breyttist launamyndun vaktavinnufólks, t.d. fjölgar vaktaálagsflokkum og greiddur er sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölbreytileika og fjölda vakta.

Read more „Útreikningur veikindalauna vaktavinnufólks“

Af hverju er greitt í stéttarfélag?

Það gætir ákveðins misskilnings á almennum vinnumarkaði um það hvort hægt sé að sleppa greiðslu iðgjalda í stéttarfélag eða hvort velja megi stéttarfélag eftir geðþótta þvert á félagssvæði og jafnvel kjarasamnninga.
Samkvæmt lögum nr. 55/1980 er atvinnurekendum skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags sem gert hefur kjarasamning um störf hans. Atvinnurekanda er einnig skv. lögunum skylt að skila til stéttarfélagsins gjöldum í fræðslusjóð, sjúkrasjóð og orlofssjóð.

Read more „Af hverju er greitt í stéttarfélag?“

Hlaðvarp ASÍ

Fræðslumál í aðdraganda kosninga

Alþýðusamband Íslands hefur sett fram áherslupunkta í aðdraganda alþingiskosninga 2021. Af því tilefni kynnir ASÍ röð þátta í hlaðvarpi þar sem starfsmenn samtakanna ræða málin við einstaklinga með innsýn í málefnin og stöðuna í stjórnmálunum. Í þessum þætti ræðir Eyrún Björk Valsdóttir, sviðsstjóri hjá ASÍ, við Ingibjörgu Elsu Guðmundsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins um menntamál.

Smelltu hér til að hlusta 

Fleiri þættir  

Reiknivél SGS

Það er mikið hagsmunamál fyrir launafólk að geta farið yfir með tiltölulega einföldum hætti hvort laun og aðrar greiðslur séu í samræmi við kjarasamninga, þ.e. kannað hvort þeirra launaseðill sé réttur.

Starfsgreinasambandið, fyrir hönd allra sinna aðildarfélaga, er með  reiknivél þar sem félagsmenn geta nýtt sér til að reikna út laun sín, kannað hvort launaseðlar þeirra séu réttir og annað það sem snertir margvíslegar greiðslur.

Leitast hefur verið við að hafa reiknivélina eins einfalda í notkun og kostur er og má því búast við að hún nái ekki utan um öll möguleg tilfelli.

 

Reiknivél SGS