Við vinnum fyrir þig

Translate to

Ályktun miðstjórnar ASÍ um flugfélagið Play

Play flýgur á undirboðum launa.

Reykjavík 19. maí 2021

Flugfélagið Play ætlar að bjóða lægri flugfargjöld með því að greiða starfsfólki sínu lægri laun en þekkist á íslenskum vinnumarkaði. Grunnlaunin eru töluvert undir grunn atvinnuleysisbótum. Sá samningur sem Play hefur skilað til ríkissáttasemjara er óundirritaður og ekki ljóst hvernig hann er til kominn. Þó er ljóst að hann var gerður áður en hafist var handa við að ráða inn flugfreyjur og -þjóna og enn fremur er ljóst að Play fjármagnar stéttarfélagið (ÍFF) sem gerir þennan samning. Það er því með engu móti hægt að segja að Play fari eftir hefðum og reglum á íslenskum vinnumarkaði og með því að neita að gera kjarasamning við Flugfreyjufélag Íslands segir félagið sig úr samfélagi hins skipulagða vinnumarkaðar. Við það verður ekki unað og er félagið að boða til ófriðar og deilna um ófyrirsjáanlega framtíð ef ekki verður gengið til raunverulegra kjarasamningsviðræðna við félag sem sannanlega er skipulagt af þeim sem eiga að vinna samkvæmt kjarasamningnum.

Í samningi Play við ÍFF, sem óljóst er af hverjum er undirritaður, eru lægstu laun 266.500 krónur. Til samanburðar eru lægstu laun flugfreyja og -þjóna hjá Icelandair 307.000, atvinnuleysisbætur eru 307.430 krónur og lægsti taxti verkafólks er 331.735 krónur. Flugtímar innifaldir í grunnlaunum eru fleiri hjá Play en hjá Icelandair, greiddir yfirvinnutímar færri, greiðslur í lífeyrissjóð eru lægri, dagpeningar lægri og sömuleiðis bifreiðastyrkur og desemberuppbót svo eitthvað sé nefnt. Í samningnum er ekki kveðið á um framlög til starfsendurhæfingar, í orlofssjóð, starfsmenntasjóð eða sjúkrasjóð og ekki gert ráð fyrir launagreiðslum vegna veikinda barna.

Allar stoðir í kjaraumhverfi launafólks á Íslandi eru virtar að vettugi.

Alþýðusamband Íslands krefst þess að Play gangi til kjaraviðræðna við raunverulegt stéttarfélag flugfreyja og -þjóna á Íslandi – Flugfreyjufélag Íslands – og ætlast jafnframt til þess að Samtök atvinnulífsins, sem Play er hluti af, beiti sér fyrir raunverulegum kjarasamningi.

Alþýðusamband Íslands hvetur landsmenn til að sniðganga félagið þangað til það hefur sýnt að það ætli að vera hluti af íslenskum vinnumarkaði og bjóða starfsfólki sínu kaup og kjör sem gilda hér á landi.

Alþýðusamband Íslands hvetur lífeyrissjóði og aðra fjárfesta að sniðganga félagið sömuleiðis en félagið hefur reynt að gera sig gildandi gagnvart fjárfestum með því að stæra sig af óboðlegum launakjörum.

Alþýðusambandið telur vafa vera um lögmæti þess samnings sem Play vísar til sem kjarasamnings og mun beita þeim úrræðum sem tæk eru samkvæmt lögum nr. 80/1938 til þess að verja grunnréttindi launafólks á Íslandi og knýja á um kjarasamning.

Aðalfundur Bárunar, stéttarfélags 2021

Aðalfundur Bárunnar, stéttarfélags verður haldinn þriðjudagskvöldið 18. maí nk. á
Hótel Selfossi. Fundurinn hefst kl. 19.00.

Dagskrá
1. Venjuleg aðalfundarstörf
2. Breytingar á reglugerð sjúkrasjóðs
3. Önnur mál.

Boðið verður upp á kvöldverð. Gætt verður að öllum reglum um sóttvarnir.

Sjáumst kæru félagar.
Stjórn Bárunnar, stéttarfélags

Orlofsuppbót/ persónuuppbót 2021

Báran vill minna félagsmenn á rétt sinn á að fá greidda orlofsuppbót/persónuuppbót, en það er föst fjárhæð sem atvinnurekendum er skylt að greiða starfsfólki sínu í maí/júní ár hvert. Uppbótin miðast við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu (1. maí – 30. apríl) inniheldur orlof og tekur ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum kjarasamninga. Áunna orlofsuppbót skal gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar. Fullt ársstarf telst í þessu sambandi 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof.

Almennur vinnumarkaður
Orlofsuppbót er 52.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1. júní.

Ríki
Orlofsuppbót er 52.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1.júní.

Sveitarfélög
Persónuuppbót er 51.700 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1. maí. 

Sjá nánar í kjarasamningum viðkomandi aðila.

Baráttusamkoma í Sjónvarpinu 1. maí

Annað árið í röð og í annað skiptið síðan 1923 getur íslenskt launafólk ekki safnast saman á 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar. Líkt og í fyrra er brugðist við þessari stöðu með útsendingu frá sérstakri skemmti-og baráttusamkomu sem verður sjónvarpað á RÚV að kvöldi 1. maí (kl. 21:00).

https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/barattusamkoma-i-sjonvarpinu-1-mai/

Baráttukveðjur

Til hamingju með baráttudaginn okkar 1. maí. Annað árið í röð falla niður hátíðarhöldin og kröfugöngur sem hefur verið ómissandi þáttur 1. maí með hestamönnum og lúðraþyt. Koma tímar og koma ráð við tökum bara stór skerf á næsta ári.

Read more „Baráttukveðjur“

Meðalíbúðin kostar nú tólfföld lágmarkslaun

Mánaðaryfirlit ASÍ, sviðs stefnumótunar og greiningar í apríl fjallar um þróun húsnæðismarkaðar.

Ekkert lát er á hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og ekki verða greind teikn um að þeirri þróun verði snúið við á næstunni. Þrátt fyrir talsverða hækkun launa hefur verð á húsnæði farið vaxandi umfram tekjuþróun og er nú svo komið að 85 fermetra íbúð kostar um tólfföld árslaun þeirra sem lægstar tekjur hafa borið saman við tíföld árið 2011.

Read more „Meðalíbúðin kostar nú tólfföld lágmarkslaun“

Orðakista ASÍ

Alþýðusamband Íslands hefur gefið út smáforritið Orðakista ASÍ. Um er að ræða orðasafn ætlað trúnaðarmönnum stéttarfélaga og erlendum félagsmönnum, smáforrit (app) sem þýðir orð tengd íslenskum vinnumarkaði. Allt efni er fengið úr kjarasamningum og öðru útgefnu efni sem tengist vinnumarkaði með beinum hætti. Lögð var áhersla á forrit sem væri einfalt og fljótlegt í notkun. Þegar orð er slegið inn birtast allar myndir þess sem finnast í gögnunum, ásamt þýðingu og setningadæmum. Smáforritið er aðgengilegt fyrir öll snjalltæki, bæði Android og IOS en hægt er að sækja það á Google Play Store og App Store Apple.

Read more „Orðakista ASÍ“