Við vinnum fyrir þig

Translate to

Desemberuppbót 2013

Báran, stéttarfélag:   

Almenni samningur milli SGS og SA  52.100 kr.

Samningur f.h. Ríkissjóðs og SGS  52.100 kr.

Samningur SGS og Launanefndar sveitarf.  80.700 kr.

Bændasamtök Íslands og SGS  52.100 kr.

Landsamband smábátaeigenda og SGS  52.100 kr.

Samningur SA vegna Sólheima við Báruna  52.100 kr.

Samningur Dvalarh. Kumbaravogs  80.700 kr.

Vinnustaðasamningur MS  52.100 kr.

Landsvirkjun og SGS  88.456 kr

Kjarasamningur SGS og NPA miðstöðvar innar 52.100 kr.

 

Önnur sveitarfélög fylgi fordæminu

Alþýðusamband Íslands fagnar þeirri ákvörðun borgarráðs að hætta við fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir Reykjavíkurborgar, en það gerir borgin til að sporna við verðbólgu og auka kaupmátt í komandi kjarasamningum. ASÍ skorar á aðra að fylgja fordæmi borgarráðs.

Forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, skorar á önnur sveitarfélög að fylgja fordæmi höfuðborgarinnar og hækka ekki sínar gjaldskrár. Það sama segir hann eiga við um ríkisstjórnina en í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir víðtækum gjaldskrárhækkunum á ýmsum sviðum sem þurfi að endurskoða.

Hlusta: asi-rikid-tharf-ad-fylgja-fordaeminu

Fyrirtæki ársins 2013

Nú er komið að árlegu vali á fyrirtæki ársins að mati félagsmanna Bárunnar, stéttafélags og Verslunarmannafélags Suðurlands.

Tilgangurinn er að með tímanum verði þetta val að einskonar gæðastimpli á fyrirtæki og með því að öðlast þessa útnefningu skipi þau sér í hóp þeirra fyrirtækja sem eftirsóttast er að vinna hjá.

Kannaðir eru nokkrir lykilþættir sem varða starfsfólk til dæmis hvernig fólki líður í vinnunni, hvernig stjórnun er að mati starfsfólks, hvernig starfsandi er innan fyrirtækisins og hvort starfsmenn eru sáttir við möguleika sína til að komast áfram í starfi hjá fyrirtækinu til dæmis með aukinni menntun.

Einnig er lagt til grundvallar samskipti stéttafélaganna við viðkomandi fyrirtæki. Þar leggja starfsmenn félaganna sitt mat á hvernig samskiptum er háttað og  hvernig gengið hafi að leysa úr ágreiningi, hafi verið um slíkt að ræða.

Könnun er send út til allra félagsmanna þessara tveggja stéttafélaga sem eru um 3400 talsins, á svæðinu frá Selvogi að Lómagnúp. Skilafrestur er til 15. nóvember og athygli er vakin á að hægt er að póstsenda svar sér að kostnaðarlausu. Einnig má koma svörum til félagsins gegnum trúnaðarmenn á vinnustöðum eða beint á skrifstofu félaganna að Austurvegi 56, Selfossi. Könnunin sjálf er án persónueinkenna. Hvert könnunarblað er jafnframt happadrættisseðill og eru viðtakendur hvattir til að halda fylgiseðli til haga til að framvísa ef um vinning er að ræða. Í verðlaun eru veglegar matarkörfur frá Sláturfélagi Suðurlands.

Við hvetjum félagsmenn til að taka þátt í þessari könnun því þetta er ein leið af mörgum til að vekja stjórnendur fyrirtækja til umhugsunar og kveikja metnað til að huga vel að starfsfólki sínu.

SGS leggur fram launakröfur

Forystumenn Starfsgreinasambandins settu launakröfur sínar fram á fundi með Samtökum atvinnulífsins í dag. Fundað var í húsakynnum Starfsgreinasambandsins. Um er að ræða fyrsta fund samtakanna í þessari kjarasamningslotu. SGS hefur þar með umboð til kjarasamningsgerðar fyrir almennt og sérhæft verakfólk á öllu landinu að undanskildum þeim félögum sem eru innan vébanda Flóabandalagsins. 

Í kröfugerð SGS er lögð áhersla á að endurskoða launatöflu þannig að jafnt bil verði milli launaflokka og launaþrepa. Í nýrri launatölfu er lögð áhersla á að bætt verði við nýju 10 ára starfsaldursþrepi ásamt því að öll starfsaldursþrep miðist við starfsgrein en ekki starfsaldur hjá sama fyrirtæki eins og nú er reyndin. Gerð er krafa um að lægsti taxti í launatöflu hækki um 20.000 krónur á samningstímanum og aðrir launaflokkar taki breytingum miðað við endurskoðun töflunnar.

Markmiðið með þessum kröfum er að hækka þá lægst launuðu umfram aðra og tekið verði sérstakt tillit til fólks sem hefur starfað lengi innan sömu starfsgreinar. Þá gerir saminganefnd SGS þá kröfu að desember- og orlofsuppbætur hækki í átt að því sem samið hefur verið um á hinum opinbera vinnumarkaði.

Í undirbúningi kjarasamninga hefur SGS beint sjónum að starfsfólki í fiskvinnslu og ferðaþjónustu í ljósi mjög sterkrar stöðu útflutningsgreina um þessar mundir. Helstu kröfur í fiskvinnslu verði endurröðun í launaflokka auk breyting ákvæða um lágmarksbónus.

Gera þarf stórátak hjá starfsfólki í ferðaþjónustu með því að lyfta henni á sambærilegt plan og aðrar atvinnugreinar. Megináhersla er lögð á að endurskipuleggja starfsheiti með það að markmiðið að reynsla, þekking og menntun endurspeglist í nýrri launatöflu. Þá verði umhverfi vaktavinnufólks endurskipulagt til samræmis við aðrar stéttir.

Kröfugerð SGS er afrakstur umfangsmikillar vinnu innan hvers aðildarfélags þar sem þúsundir félaga hafa tekið þátt. Þá hefur samninganefnd SGS, sem samanstendur af formönnum þeirra 16 aðildarfélaga sem veitt hafa SGS umboð, samþykkt lokakröfugerð.

Þingmenn – standið við stóru orðin

Báran, stéttafélag hefur sen frá sér eftirfarandi ályktun:

Stjórn Bárunnar, stéttafélags mótmælir harðlega þeim niðurskurði á atvinnuskapandi verkefnum á Suðurlandi sem fram koma í framlögðu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Ljóst er að á sama tíma og atvinnulíf á Suðurlandi á undir högg að sækja þá kemur þessi niðurskurður sér sérstaklega illa fyrir fyrirtæki, stofnanir og launafólk á svæðinu.

Skornar eru niður milli 400 og 500 milljónir í hin ýmsu verkefni sem til atvinnumála teljast og ættu að öllu eðlilegu að stuðla að atvinnuaukningu og styrkingu atvinnulífs á Suðurlandi.

Stórn Bárunnar vekur athygli á að meðal núverandi ráðherra eru þingmenn sem höfðu uppi stór orð um niðurskurð og dugleysi fyrri ríksstjórnar í atvinnumálum, ekki síst í aðdraganda síðustu kosninga. Stjórn Bárunnar krefst þess að þessir sömu fulltrúar fólksins og harðast gagnrýndu aðra fyrir kosningar noti völd sín og áhrif til að standa við orð sín og afstýra þeirri ógæfu sem við Sunnlendingum blasir. Athygli ráðamanna er líka vakin á að Sunnlendingar hafa ekki sömu atvinntækifæri og flestir aðrir landshlutar hafa í þeim greinum sem best standa nú um mundir. Því mun þessi niðurskurður bitna harðar á þeim en öðrum. Slæmt er að geta ekki treyst orðum ráðamanna sem kveikt hafa réttmætar væntingar um framgang löngu tímabærra verkefna.

Stjórn Bárunnar hvetur þingmenn kjördæmisins að taka höndum saman og berjast opinskátt fyrir því að þessi niðurskurður nái ekki fram að ganga, miklu fremur að bætt verði fjármagni í þau verkefni sem sannanlega munu verða til að auka atvinnu og létta róður launamanna. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Þessi ályktun hefur verið send í flesta fjölmiðla og á þingmenn kjördæmisins.

Fundur formanna aðildarfélaga ASÍ telur skynsamlegt að samið verði til styttri tíma

Fundur formanna aðildarfélaga ASÍ var haldinn  í dag og var ályktað um kjaramál. Þar kemur fram að útilokað er að gera samninga til lengri tíma. Sjá meðfylgjandi ályktun:

Ályktun formannafundar ASÍ um kjaramál

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru lausir 1. desember n.k. Öll heildarsamtök samningsaðila á almennum og opinberum vinnumarkaði hafa undanfarin misseri metið ávinninginn af því ef efnahagsleg umgjörð kjarasamninga hér á landi væri svipuð og á hinum Norðurlöndunum, þar sem traust efnahagsstjórn tryggir stöðugt gengi og lága verðbólgu. Ljóst er að við þær aðstæður er vel gerlegt að auka kaupmátt launa í öruggum skrefum án þess að raska samkeppnisstöðu eða auka atvinnuleysi. Fundur formanna aðildarfélaga ASÍ telur að inn í slíkt umhverfi ættum við að stefna.

Mikil óvissa setur mark sitt á komandi kjarasamninga. Ný ríkisstjórn hefur ekki boðið aðilum vinnumarkaðarins upp á nokkuð samstarf varðandi forsendur kjarasamninga né kynnt hvernig hún sér fyrir sér stjórn efnahagsmála á komandi misserum. Þannig er það ekki ljóst hvernig ríkisstjórnin hyggst ná tökum á óstöðugu gengi krónunnar og þrálátri verðbólgu, hvort og þá hvernig hún sér fyrir sér afnám gjaldeyrishafta án þess að hagsmunir launafólks og heimila verði fyrir borð bornir né hvernig hún ætlar að haga stjórn peningamála til framtíðar. Ekki liggur fyrir hvernig aðgerðir  í þágu skuldsettra heimila verða útfærðar og enn síður hvaða áhrif þær aðgerðir muni hafa á þróun efnahags- og gengismála.

Fundur formanna aðildarfélaga ASÍ telur að við þessar aðstæður sé útiokað að gera samninga til lengri tíma. Fundurinn telur skynsamlegt að samið verði til 6 til 12 mánaða og að sá tími  verði notaður til þess að gefa stjórnvöldum kost á að eyða óvissu, skapa breiða sátt um stefnuna í helstu hagsmunamálum launafólks og samstöðu um nauðsynlegar aðgerðir í efnahagsmálum. Þannig mætti nota stuttan samningstíma til að leggja grunn að kjarasamningi til lengri tíma á næsta ári.

 

Ályktanir þings Starfsgreinasambandsins

Fjórða  þingi Starfsgreinasambands Íslands lauk rétt eftir hádegi í dag. Samþykktar voru ályktanir um atvinnumál, húsnæðismál, kjaramál og ríkisfjármál. Þá var starfsáætlun til tveggja ára samþykkt auk nýrrar fræðslustefnu Starfsgreinasambands Íslands.

Björn Snæbjörnsson (Eining-Iðja) var endurkjörinn formaður til næstu tveggja ára og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir (Afl starfsgreinafélag) var endurkjörinn varaformaður. Miðstjórn sambandsins er óbreytt en í henni sitja Aðalsteinn Á. Baldursson (Framsýn stéttarfélag), Halldóra Sveinsdóttir (Báran stéttarfélag), Kolbeinn Gunnarsson (Vlf. Hlíf), Signý Jóhannesdóttir (Stéttarfélag Vesturlands) og Sigurður Bessason (Efling stéttarfélag).

Þingið var haldið undir yfirskriftinni Samstaða og Samvinna og var það mál fólks að sá hafi verið andinn á þinginu. Næstu verkefni eru kjarasamningar en SGS fer með umboð sextán aðildarfélaga sinna í viðræðunum.

Ályktanir þingsins má sjá hér.

Samstaða og samvinna

Á morgun, miðvikudaginn 16. október  hefst 4. þing  Starfsgreinasambands Íslands á  Hofi á Akureyri undir yfirskriftinni Samstaða og samvinna. Þingið mun fjalla um kjaramál í aðdraganda kjarasamninga, atvinnumál almennt, húsnæðismál og fleira.  Starfsgreinasamband Íslands (SGS) er landssamband almenns og sérhæfðs verkafólks.en 19 verkalýðsfélög eiga aðild að sambandinu með um 50 þúsund félagsmenn. Báran er eitt af þeim félögum sem eiga aðild að sambandinu.