Við vinnum fyrir þig

Translate to

Frá almennum félagsmönnum innan aðildafélaga SGS

Eftirfarandi bréf hefur verið sent til formanns Starfsgreinasambandsins og til Morgunblaðsins:

Ástæðan er að við erum nokkur hópur félagsmanna víða af landinu sem er mjög ósáttur við afgreiðslu framkvæmdarstjórnar Starfsgreinasambandsins í kjölfarið á skoðun sem framkvæmd var á fjárreiðum sambandsins. Erfiðlega hefur gengið að fá haldbær svör og því er þessi leið farin. Formaður sambandsins lagði fram þá tillögu sem samþykkt var og því er þessum spurningum beint til hans. Ekki var einhugur um þessa afgreiðslu innan stjórnarinnar og vildi hluti stjórnar fara aðra leið sem hefði verið eðlilegri að okkar mati.

 

Við teljum að meirihluti framkvæmdastjórnar hafi tekið ranga ákvörðun um starfslok framkvæmdarstjóra og erum ósátt við þá ákvörðun að skoða ekki fjármálin lengra aftur í tímann fyrst á annað borð er grunur um misferli. Það er krafa að það verði síðar skoðað.

Eins og þetta tiltekna mál lítur út fyrir okkur þá er ekkert sem segir okkur að hagsmunir hins almenna félagsmanns hafi verið hafðir að leiðarljósi. Frekar hafa menn tilfinningu fyrir því að þarna sé verið að halda hlífiskildi yfir ákveðnum aðilum til að tryggja að þeir þurfi ekki að taka afleiðingum gerða sinna frekar en nokkur annar í þessu samfélagi sem á annað borð hefur komist í einhverja ábyrðarstöðu. Við teljum þetta bera vott um hugarfar sem á ekki heima í verkalýðsbaráttu þar sem hver króna í umslag launamannsins kostar blóð, svita og tár og baráttan fyrir að halda því sem náðst hefur er hörð og óvægin.

Málið snýst um gagnrýni okkar er á vinnubrögð og hugarfar forystunnar. Við teljum að verkalýðshreyfingin eigi að ganga í fararbroddi með bætt vinnubrögð og gegnsæi í ákvörðunum sínum og gerðum

Forystumenn okkar eru leiðtogar þess hóps í þessu samfélagi sem hvað minnst ber úr býtum á vinnumarkaðnum og teljum að öll vinnubrögð eigi að vera hafinn yfir allan vafa um að eitthvað annað ráði en hagsmunir félagsmanna.

Við teljum ennfremur að á tímum sem þessum þar sem launamenn eiga í vök að verjast þá eigi það að vera forgangsmál okkar að endurvekja traust á verkalýðshreyfingunni og safna félagsmönnum á bak við forystuna svo viðsemjendur okkar fari ekki í neinar grafgötur með það afl sem sameinuð verkalýðshreyfing er.

Við teljum almennt að vinnubrögðum innan verkalýðshreyfingarinnar sé í mörgu áfátt þrátt fyrir að þar séu innanborðs hið mætasta fólk sem ekki má vamm sitt vita. Við teljum nauðsynlegt að málefni okkar séu rædd opinskátt og séu teknar ákvarðanir sem klárlega vekja upp spurningar hjá félagsmönnum þá þurfi skýringar að fylgja svo ekki skapist andrúmsloft tortryggni og sundrungar. Það er það síðasta sem við þurfum á að halda núna. Mál af þessu tagi býður upp á spurningar sem félagsmenn eiga fullan rétt á að fá svör við frá sínum forystumönnum.

Bak við ykkur forystumenn stendur stór hópur fólks sem er tilbúinn til að styðja ykkur til allra góðra verka. Til að vekja áhuga og kraft þessa fólks þá þarf öll umræða að vera uppi á borðinu og öll vinnubrögð hafin yfir allan vafa.

Við munum halda áfram þessari baráttu okkar áfram þar til menn eru tilbúnir til að setjast niður og ræða stöðuna og hvernig hægt er að bæta hlutina. Þessi umræða þarf að fara fram sem víðast, ekki bara í hópi forystumanna heldur innan félaganna, á síðum blaðanna, í netheimum og ekki síst í hjarta hvers þess sem gefur sig út fyrir að starfa til heilla launamönnum.

Að endingu óskum við eftir að þetta verði birt á heimasíðu félags yðar, félögum til upplýsingar.


Til formanns Starfsgreinasambands Íslands, Björns Snæbjörnssonar


Á fundi SGS 26 maí síðastliðinn var samþykkt tillaga Björns Snæbjörnssonar um starfslok Skúla Thoroddsen vegna trúnaðarbrests. Í afgreiðslunni fellst að gerður verði stafslokasamningur sem tryggir Skúla laun á uppsagnafresti ásamt orlofi og áunnum réttindum og að hann verði einungis endurkrafinn um hluta þess fjár sem hann er grunaður um að hafa dregið sér. Spyrja verður hvort þessi viðbrögð framkvæmdastjórnarinnar séu viðtekin venja komi sambærileg mál upp innan raða forystumanna hreyfingarinnar og hvort þeir formenn félaga sem stóðu að umræddri samþykkt séu með henni að víkja hreyfingunni undan ábyrgð á spillingu innan eigin raða. Þá viljum við undirritaðir félagsmenn stéttarfélaga í Starfsgreinasambandi Íslands, fá svör formanns SGS við eftirfarandi spurningum og óskum eftir að þau svör verði birt sem fyrst á opinberum vettvangi, almennum félagsmönnum til glöggvunar.

 

 


1.
Hvers vegna er grun um refsivert misferli í starfi ekki fylgt eftir með ákæru?


2.
Voru hagsmunir félagsmanna í SGS hafðir að leiðarljósi þegar þú lagðir fram þá tillögu sem samþykkt var af meirihluta framkvæmdarstjórnar?


3.
Hvað kostar þessi starfslokasamningur?


4.
Telur þú sem forystumaður í verkalýðshreyfingunni að þessi viðbrögð við skýrslu Deloitt séu til þess fallin að auka traust á verkalýðshreyfingunni?


5.
Telur þú sem formaður stærstu samtaka launþega innan Alþýðusambands Íslands ekki eðlilegt að birta frétt á heimasíðu sambandsins um gagngera breytingu í starfmannahaldi SGS með útskýringum?

 


Þessum spurningum er beint til Björns Snæbjörnssonar formanns SGS sem lagði fram tillögu fyrir framkvæmdarstjórn Starfsgreinasambands Íslands um að semja við Skúla Thoroddsen um starfslok þrátt fyrir að rökstuddur grunur sé um umboðssvik og fjárdrátt. Við teljum að Björn verði að útskýra fyrir okkur sauðsvörtum almúganum hvers vegna sumir eru jafnari fyrir lögunum en aðrir, svo við getum tekið mið af því í okkar störfum sem við kunnum að takast á hendur fyrir verkalýðshreyfinguna.

 


Loftur Guðmundsson, Bárunni stéttarfélagi


Ragnhildur Eiríksdóttir, Bárunni stéttarfélagi


Hjalti Tómasson Bárunni stéttarfélagi


Agnes Einarsdóttir, Framsýn stéttarfélagi


Olga Gísladóttir, Framsýn stéttarfélagi


Svava Árnadóttir, Framsýn stéttarfélagi


Valdimar Gunnarsson, Einingu – Iðju


Tryggvi Jóhannesson, Einingu – Iðju


Ólafur P. Agnarsson, Einingu – Iðju


Óskar Guðjón Kjartansson, Drífanda stéttarfélagi


Albert Sævarsson, Drífanda stéttarfélagi


Gunnhildur Elíasdóttir, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga


Eygló Jónsdóttir, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga


Sigurjón Skæringsson, Eflingu, stéttarfélagi

 

 

Afrit sent á mbl.is

Formenn aðildafélaga Starfsgreinasambands Íslands

 

Kynningarfundur vegna sveitarfélagssamnings á morgun í sal ÞSS Selfossi

Þann 30. júní sl. var undirritaður samningur milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinasambands íslands vegna félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum. Báran er aðili að Starfsgreinasambandi Íslands.

Kynningarfundur vegna kjarasamningsins verður haldinn miðvikudaginn 13. júlí klukkan 12.00 í sal Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna, Austurvegi 56, Selfossi. Í boði verður léttur hádegismatur.

Einnig geta fulltrúar félagsins komið á vinnustaðinn og kynnt samninginn. Hægt er að panta fund með því að hafa samband við skrifstofu félagsins í síma 480-5000.

Við viljum minna á atkvæðagreiðsluna sem núna stendur yfir. Atkvæði verða að hafa borist kjörstjórn félagsins sem staðsett er á Selfossi fyrir kl. 16:00, þann 18. júlí nk. Atkvæði sem berast eftir það verða ekki talin, póststimpill gildir ekki.

Launamenn, athugið launaseðla !

Nokkuð hefur borið á ákveðnum misskilningi hvað varða nýgerða kjarasamninga. Þeir samningar sem búið er að samþykkja kveða á um prósentuhækkun eða krónutöluhækkun. Miðað við launatöflur sem fylgja undirrituðum kjarasamningum þá er ljóst að um sameiginlega túlkun Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands er að ræða.

Samkvæmt útreikningum þá hækka laun kr. 282,353 og þar undir um kr. 12,000 en á laun þar yfir reiknast prósentuhækkun ( 4,25 % ). 


Hér er átt við taxtalaun, ekki laun eftir að reiknaðir hafa verið bónusar eða aðrir kaupaukar svo dæmi sé tekið.

Benda má á að sameiginlegt markmið samningsaðila var að hækka lægstu laun umfram önnur og er þetta sú leið sem samið var um milli atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar.

Séu menn enn í vafa má benda mönnum á að kynna sér nýútgefnar launatöflur þar sem þetta er útreiknað með hækkunum.

Falli menn ekki inn í taxta en eru á launum sem ekki ná fyrrgreindri upphæð skal greiða krónutöluhækkunina.

Rétt er að benda á að ekki hefur verið gengið frá öllum kjarasamningum en ofangreint gildir um alla þá sem afgreiddir hafa verið.

Við hvetjum félagsmenn til að fylgjast með að umsamin hækkun sé rétt reiknuð og vekja athygli vinnuveitanda síns á þeirri túlkun sem hér hefur verið útskýrð.

Nánari upplýsingar er að finna á skrifstofu Bárunnar, stéttarfélags í síma 480 5000

Einnig má senda póst á netföngin:


hjaltit@midja.is
 eða thor@midja.is

Kjarasamningur samþykktur

Kjarasamningur SGS f.h. aðildarfélaga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs var samþykktur í póstatkvæðagreiðslu. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar voru eftirfarandi: Á kjörskrá voru: 1.492 manns Atkvæði greiddu: 494 eða 33% Tekið af heimasíðu SGS Já sögðu: 458 manns eða 92,8% Nei sögðu: 35 manns eða 7,1% Auðir og ógildir: 3 seðlar eða 0,1% Kjarasamningurinn er því samþykktur með miklum meirihluta atkvæða. Kjarasamninginn er að finna hér Launatöflurnar er að finna hér Tekið af heimasíðu SGS

Kjarasamningur við sveitarfélögin

Starfsgreinasamband Ísland fyrir hönd aðildarfélaga skrifaði undir nýjan kjarasamning við Launanefnd sveitarfélaga í síðustu viku eftir langar og strangar viðræður.

Samningurinn fer í kynningu í þessari viku en sjá má kynningarbæklinginn hér

Samningurinn er í takt við þá kjarasamninga sem undirritaðir hafa verið undanfarið og má sjá hann í heild sinni hér

Kynningarbæklingurinn (ásamt kjörseðlum) verður sendur út fljótlega en atkvæði þurfa að hafa borist kjörstjórn Bárunnar, stéttarfélags fyrir kl. 16.00 18. júlí nk.

Þeir sem ekki fá kjörseðil en telja sig eiga að greiða atkvæði um samninginn eru beðnir um að hafa samband við skrifstofu Bárunnar sem fyrst svo hægt sé að kanna málið.

Þar sem erfitt er að ná fólki saman á einn kynningarfund vegna sumarleyfa þá hefur verið ákveðið að fara þá leið að bjóða upp á kynningar á vinnustöðum. Þeir sem þess óska eru beðnir að setja sig í samband við Hjalta Tómasson á skrifstofu Bárunnar, stéttarfélags á netfangið hjaltit@midja.iseða í síma 480 5000

Kjarasamningur samþykktur

Kjarasamningur SGS f.h. aðildarfélaga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs var samþykktur í póstatkvæðagreiðslu.

Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar voru eftirfarandi:

Á kjörskrá voru: 1.492 manns

Atkvæði greiddu: 494 eða 33%

Já sögðu: 458 manns eða 92,8%

Nei sögðu: 35 manns eða 7,1%

Auðir og ógildir: 3 seðlar eða 0,1%

Kjarasamningurinn er því samþykktur með miklum meirihluta atkv

Kjarasamninginn er að finna hér

Launatöflurnar er að finna hér

Á að launa misferli í starfi með feitum starfslokasamning?

Undirritaðir stjórnarmenn í Bárunni, stéttarfélagi lýsa megnri óánægju sinni með afgreiðslu meirihluta framkvæmdarstjórnar Starfsgreinasambandsins vegna gruns um misferli fyrrverandi framkvæmdarstjóra.

Ályktun

Undirritaðir stjórnarmenn í Bárunni, stéttarfélags á Selfossi átelja harðlega hvernig meirihluti framkvæmdarstjórnar Starfsgreinasambands Íslands hefur ákveðið að taka á meintum brotum fyrrverandi framkvæmdarstjóra sambandsins.

Sem fulltrúum lægst launuðu stétta þjóðfélagsins ber þeim skylda til að sjá til þess að meðferð fjármuna í þeirra umsjá sé samkvæmt lögum og reglum og grun um annað ber að rannsaka.

Við lýsum yfir fyllsta trausti á þá framkvæmdarstjórnarmeðlimi sem voru andvígir afgreiðslu framkvæmdarstjórnar en krefjum hina um rökstuðning fyrir ákvörðun sinni.

Við teljum félaga í SGS verðsulkda skýringu á ákvörðun meirihluta framkvæmdastjórnar.

Örn Bragi Tryggvason, varaformaður

Ragnhildur Eiríksdóttir, meðstjórnandi

Marta Katarzyna Kuc, meðstjórnandi

Ingvar Garðarsson, meðstjórnandi

Loftur Guðmundsson, meðstjórnandi

Jón Þröstur Jóhannesson, varamaður

Hjalti Tómasson, varamaður

Fleiri félög hafa birt mótmæli sín og má sjá þau á heimasíðum félaganna.

Framsýn, stéttarfélag www.framsyn.is/

Verkalýðsfélag Vestfirðinga www.verkvest.is/

Verkalýðsfélag Akraness https://www.vlfa.is/

Hækkanir á bótum almanna- og atvinnuleysistrygginga í kjölfar kjarasamninga

Í nýafstöðnum kjarasamningum lagði Alþýðusambandið ríka áherslu á að lífeyrisþegum og atvinnuleitendum yrðu tryggðar sambærilegar kjarabætur og launafólki og gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu þess efnis í tengslum við kjarasamningana. Velferðarráðherra kynnti í gær þær hækkanir á bótum almanna- og atvinnuleysistrygginga sem gerðar hafa verið í kjölfar þessa.

Helstu breytingar eru eftirfarandi og taka þær gildi frá 1. júní síðastliðnum:


Almannatryggingar

· Bætur almannatrygginga hækka um 8,1% og fá lífeyrisþegar með óskertar bætur 12.000 króna hækkun sem er sambærilegt og taxtahækkanir kjarasamninga.

· Lágmarksframfærslutrygging hækkar um 12.000 krónur og verður 196.140 fyrir einstakling sem býr einn og 196.030 fyrir hjón og sambúðarfólk.

· Þann 15. júní n.k. fá þeir sem hafa fengið greiddan lífeyrir á tímabilinu frá 1. mars til 31. maí 50.000 króna eingreiðslu. Þeir sem eiga rétt á fullum lífeyrir fá óskerta eingreiðslu án tillits til lækkunar vegna annarra tekna.

· Orlofsuppbót ársins 2011 verður 28,3% af tekjutryggingu og heimilisuppbót í stað 20% sem svarar til 10.000 króna álags á fulla orlofsuppbót líkt og samið var um í kjarasamningum.

· Desemberuppbót ársins 2011 verður 42% af tekjutryggingu og heimilisuppbót í stað 30% sem varar til 15.000 króna álags á fulla desemberuppbót líkt og samið var um í kjarasamningum.

· Uppbót vegna reksturs bifreiðar hækkar um 8,1% og verður 11.705 krónur á mánuði. Sú breyting verður jafnframt gerð frá 1. júní að ekki verður tekið tillit til uppbótar vegna reksturs bifreiðar við útreikning lágmarksframfærslutryggingar.


Atvinnuleysistryggingar

· Grunnatvinnuleysisbætur hækka um 12.000 krónur til samræmis við taxtahækkanir kjarasamninga og verða 161.523 krónur á mánuði.

· Þann 10. júní n.k. fá atvinnuleitendur sem eru að fullu tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hafa staðfest atvinnuleit á tímabilinu frá 20. febrúar til 19. maí sl. 50.000 króna eingreiðslu.

· Atvinnuleitendur fá desemberuppbót sem er 30% af grunnatvinnuleysisbótum en að auki verður greitt 15.000 króna álag á desemberuppbótina líkt og samið var um í kjarasamningum. Desemberuppbót ársins 2011 til atvinnuleitenda verður þá samtals 63.457 krónur.


Annað

· Greiðslur til foreldra langveikra og alvarlegra fatlaðra barna hækka um 8,1%.

Fæðingarstyrkur til foreldra og ættleiðingarstyrkir hækka um 8,1%.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Nokkrar staðreyndir vegna umfjöllunar um endurskoðun á fjárreiðum Starfsgreinasambands Íslands og starfsloka framkvæmdastjóra

Vegna þeirra orða sem féllu í blaðagrein í Morgunblaðinu laugardaginn 28. maí 2011 þykir undirrituðum rétt að eftirfarandi komi fram:

Í lengstu lög höfum við viljað forðast opinbera umræðu um þau málefni sem rakin eru í umræddri blaðagrein, en nú er svo komið að við sjáum okkur ekki annað fært en svara þeirri kröfu sem þar kemur fram. Ljóst má vera að margir munu reyna allt til að gera undirrituð ótrúverðug í augum þeirra sem ekki þora að takast á við sannleikann í málinu.

 

Á framkvæmdastjórnarfundi Starfsgreinasambands Íslands (SGS) sem haldinn var fimmtudaginn 24. mars 2011 var lögð fram „Bókun vegna skoðunar reikninga SGS“ af þeim Finnboga Sveinbjörnssyni, sviðsstjóra þjónustusviðs SGS, Halldóru S. Sveinsdóttur, sviðsstjóra matvælasviðs SGS og Vilhjálmi Birgissyni, framkvæmdastjórnarmanni þar sem þess var farið á leit við framkvæmdarstjórn að undirrituð fengju heimild til að fá löggilta endurskoðendur til að fara yfir bókhald sambandsins 4 ár aftur í tímann.

Slíkt gekk ekki greiðlega en á fundinum fékkst samþykkt að nefnd, skipuð formanni SGS Birni Snæbjörnssyni, varaformanni SGS Hjördísi Þóru Sigurþórsdóttur og undirrituðum, ásamt endurskoðanda sambandsins, óháðum endurskoðanda og óháðum lögmanni myndi skoða bókhald ársins 2010. Nefndinni var falið að meta og taka ákvörðun um hvort ástæða væri til að rannsaka reikninga sambandsins 4 ár aftur í tímann.

Á framkvæmdastjórnarfundi þriðjudaginn 10. maí 2011 var lögð fram frá óháðum endurskoðanda sem fenginn var til verksins (Deloitte) „Skýrsla um könnun á bókhaldi Starfsgreinasambands Íslands 2010“ og „Minnisblað“ frá óháðum lögmanni, Páli Arnóri Pálssyni hrl.

Í skýrslu Deloitte eru meðal annars gerðar athugasemdir við óútskýrðan erlendan ferðakostnað sem stofnað var til af Skúla Thoroddsen framkvæmdastjóra SGS á árinu 2010. Þar koma fram ófullnægjandi skýringar á gjaldfærðum kostnaði að upphæð samtals kr. 779.285. Þess skal getið að í skýrslu Deloitte kemur fram að dagpeningagreiðslur til framkvæmdastjóra erlendis fyrir árið 2010 námu kr. 1.064.364 þrátt fyrir að kostnaður vegna ferðanna væri þar til viðbótar í mörgum tilfellum einnig greiddur.

Einnig bendir Deloitte á að ökutækjastyrkur framkvæmdastjóra innanlands nam samtals kr. 1.570.791 fyrir árið 2010. Þess ber að geta að framkvæmdastjóri fær að auki fastan bílastyrk kr.62.400 á mánuði á núvirði ( 600 km X 104 ) eða kr. 748.000 á ársgrundvelli. Í skýrslunni er vakin athygli á að framkvæmdastjóri miðar aksturs greiðslur ávallt við heimili sitt þrátt fyrir að ráðningastaður sé í Reykjavík og hann fái fastan bílastyrk miðað við það eins og áður hefur komið fram. Bílastyrkur til framkvæmdastjóra fyrir árið 2010 nam því um 2,3 miljónum króna.

Einnig er vakin á því athygli að ásamt risnu fékk framkvæmdastjóri greiddar kr. 422.745 í dagpeninga vegna ársins 2010 á ferðalögum framkvæmdastjóra innanlands. Bent er á að auk þess að greiddir séu dagpeningar innanlands að hálfu SGS var einnig greitt fyrir fæði og gistingu. Þá eru ótaldar beinar peningaúttektir af korti SGS á ferðum erlendis þar sem engir reikningar hafi verið lagðir fram til skýringa.

Gera má ráð fyrir að upphæðir úttekta með ófullnægjandi skýringum af hálfu framkvæmdastjóra yrðu umtalsvert hærri ef haldlitlar útskýringar hans í skýrslutöku hefðu ekki fallið honum í hag. Voru þar ferðir og kostnaður bæði erlendis og innanlands sem nam tugum ef ekki hundruðum þúsunda sem mikill vafi lék á hvort SGS ætti að bera kostnað af. Endurskoðendur leituðu ekki staðfestingar á því að ferðir innanlands og erlendis hafi verið farnar í embættiserindum.


Áríðandi er í þessu tilefni að geta þess að fjármunir SGS eru tilkomnir með greiðslum af félagsgjöldum félagsmanna frá verkalýðsfélögum hringinn í kringum landið sem þau greiða fyrir aðild sína að sambandinu. Rétt er einnig að geta þess að á árinu 2010 fóru um 89% af tekjum SGS í laun og utanlandsferðir, en sá mikli kostnaður var kveikjan að þeirri rannsókn sem undirrituð vildu að færi fram á bókhaldi SGS.


Í niðurstöðu lögfræðisviðs Deloitte kemur eftir farandi fram:

Lögfræðisvið Deloitte sendi einnig viðauka með endurskoðunarskýrslunni en þar kemur fram að hafi SGS verið ætlað að greiða fyrir ýmis persónuleg útgjöld starfsmanna sinna á ferðalögum innanlands eða erlendis, umfram það sem dagpeningar eiga að standa straum af, ásamt því að greiða ferðkostnað maka framkvæmdastjóra, formanns eða annarra starfsmanna SGS. Lögfræðingar Deloitte telja að skilgreina þurfi slíkt sérstaklega í starfsreglum eða lögum SGS. Risnukostnaður sem verður til með þessum hætti og greiddur er til starfsmanna SGS eru skattskyldar tekjur sem SGS ber að skila staðgreiðslu af.


Í niðurstöðum lögfræðisviðs Deloitte er bent á að meiri líkur en minni eru á því að bæði framkvæmdastjóri og fyrrverandi formaður SGS hafi farið út fyrir umboð sitt. Það hafi verið gert með því að gjaldfæra hjá SGS ýmsan ferðakostnað sem ekki voru heimildir fyrir samkvæmt starfsreglum eða lögum SGS. Þá eru einnig talda líkur á að framkvæmdastjóri og formaður SGS hafi farið út fyrir umboð sitt hjá félaginu. Leiddar eru að því líkur að þeir hafi jafnvel dregið að sér fjármuni sem ekki teljast eðlilegur risnu eða ferðakostnaður hjá SGS. Líkur eru á að slíkt teljist varða við lög.


Í áliti
frá óháðum lögmanni SGS, Páli Arnóri Pálssyni hrl. kemur eftir farandi fram:

Lögmaður SGS telur að vel hafi tekist til hjá Deloitte þegar kemur að samantekt og útskýringum á úrlausnar- og ágreiningsefni sem takast þarf á við. Slík samantekt og niðurstaða myndi væntanlega auðvelda ákvarðanatöku framkvæmdastjórnar SGS. Telur hann skýrsluna og viðaukann gefa glögga mynd af miklum ferðakostnaði framkvæmdastjóra, einkum og sér í lagi erlendis. Ennig er í skýrslunni skýr mynd af kostnaði fyrrverandi formanns og annarra framkvæmdastjórnarmanna SGS, sem ekki er mikill. Þá telur hann skýrsluna sýna ákveðna veikleika í reglum SGS varðandi kostnað og heimildir framkvæmdastjórans. Þá segir lögmaðurinn einnig ljóst að kostnaður sá er framkvæmdastjóri skapaði SGS fer fram úr því sem eðlilegt má teljast og er að því virðist heimildarlaus í þeim úttektum miðað við niðurstöður skýrslunnar.


Í niðurstöðu lögmannsins kemur fram að hann sé sammála flestu því sem skýrslan varpar ljósi á. Einnig tiltekur hann að í áliti lögfræðisviðs Deloitte komi fram ábendingar um ólögmæti úttekta og kostnaðarfærslna hjá framkvæmdastjóra SGS, og telji lögmaðurinn skýringar framkvæmdastjórans ekki duga til að útiloka brot gagnvart SGS.


Niðurstaða lögmanns SGS er áþekk niðurstöðu lögfræðisviðs Deloitte þ.e. að kostnaður sá sem framkvæmdastjóri hefur látið SGS greiða fyrir virðist hafa farið langt fram úr því sem eðlilegt má teljast. Hægt er að færa rök fyrir því að um fjárdrátt og umboðssvik hafi verið að ræða.

Niðurstöður Deloitte og Páls A. Pálssonar eru alveg skýrar. Fjárdráttur og umboðssvik er grafalvarlegt mál sem ekki verður við unað. Þarna var framið lögbrot sem við teljum okkur ekki geta varið.

 

 


Á vinnuréttarvef ASÍ kemur eftirfarandi fram:


“Telja verður að atvinnurekandi hafi til þess fulla heimild að víkja manni úr starfi ef hann verður uppvís af refsiverðri háttsemi í starfi og þurfi ekki sérstaka áminningu. Gjaldkeri dregur sér fé, afgreiðslumaður hnuplar úr verslun. Sakir verða þá að liggja ljósar fyrir við brottrekstur og ber atvinnurekanda að sýna fram á þær.”

Undirrituð líta á þetta mál sem trúnaðarbrot og umboðssvik þar sem farið er langt fram yfir heimildir og þar með brot á starfsskyldum og ráðningarsamingi og lögðu því fram eftirfarandi tillögu við framkvæmdastjórn SGS.


Tillaga um starfslok framkvæmdastjóra

„Að ráðningarsamningi við framkvæmdarstjórann verið rift vegna brota á starfsskyldum, er varða fjárdrátt og umboðssvik. Að auki verði þess krafist að framkvæmdastjóri greiði til baka óheimilar úttektir vegna ársins 2010. Framkvæmdarstjórn ber skylda til að kæra málið til lögreglu enda um saknæmt athæfi að ræða samkvæmt áliti tilkvaddra endurskoðenda og lögfræðinga.“

Á fundinum óskuðu undirrituð eftir því að fá bókað í fundargerð af hverju framkvæmdarstjórn teldi ekki fært að fylgja málinu eftir eins og kemur fram í tillögu okkar. Sömuleiðis var óskað eftir að rökstuðningi fyrir því að framkvæmdastjóri yrði ekki sóttur til saka fyrir umrædd brot yrði bókaður í fundargerð. Okkur til mikilla vonbrigða var ekki fallist á slíkar bókanir þar sem efnisleg umræða hefði þegar farið fram um tillögur fundarins.


Lokaorð

Sem formenn stéttarfélaga hafa undirrituð þurft að leiðbeina félagsmönnum okkar sem hafa orðið uppvísir af ýmsum brotum gegn atvinnurekanda sínum. Þetta eru vandasöm og viðkvæm mál sem varða réttindi félagsmannsins og hvort mögulegt sé að verja hann í slíkri stöðu.

Verði starfsmaður uppvís af þjófnaði er málið nær undantekningalaust kært til lögreglu af vinnuveitanda og starfsmanninum vikið úr starfi. Lögfræðingar stéttarfélaga benda á að verði menn uppvísir að slíkum brotum hafi þeir fyrirgert rétti sínum til uppsagnarfrests og megi vísa fyrirvaralaust úr starfi.

Staðreyndir skýrslunnar blasa við, framkvæmdastjóri og fyrrverandi formaður SGS fóru óvarlega með fjármuni SGS, niðurstöður skýrslunnar og álit lögfræðinga staðfesta að svo sé. Lausleg könnun okkar hefur því miður einnig leitt í ljós að árið 2010 var engin undantekning þegar kemur að meðferð framkvæmdarstjóra og fyrrverandi formanns á fjármunum SGS. Má í því samhengi benda á greiðslur fyrir viðgerð á bíl fyrrverandi formanns SGS, Kristjáns Gunnarsonar og gjafabréf til framkvæmdastjóra SGS án nokkurrar heildar framkvæmdastjórnar SGS. En það eru atriði sem koma fram í bókaldi SGS fyrir árið 2009 eftir lauslega yfirferð þess.

Þrátt fyrir þessar niðurstöður endurskoðenda og lögmanna og ofangreinda tillögu undirritaðra,samþykkti meirihluti framkvæmdastjórnar SGS að ljúka málinu með starfslokasamningi við framkvæmdastjóra þar sem honum yrðu greidd laun og önnur réttindi í uppsagnarfresti. Honum yrði eingöngu gert að greiða til baka kr. 526.889. Hvorki var tekin ákvörðun um að skoða málefni fyrrverandi formanns sambandsins, Kristjáns Gunnarssonar, né fleiri ár aftur í tímann þrátt fyrir að lausleg skoðun á bókhaldi fyrri ára gæfi fullt tilefni til.

Nú er svo komið innan framkvæmdastjórnar SGS og verkalýðshreyfingarinnar að þau brot sem liggja fyrir í skýrslu Deloitte og í minnisblaði óháðs lögmanns SGS, skipta minnstu máli í umræðunni, verknaðurinn sjálfur er orðinn aukaatriði. Á meðan gengur rógsherferð gegn þeim sem hófu rannsóknina sem virðist eingöngu til þess fallin að gera okkur ótrúverðug og málstað okkar veikan.

Allt frá því rannsókn málsins hófst hafa undirrituð mátt þola að vera rægð fyrir það eitt að vilja koma sannleikanum á framfæri. Hart hefur verið vegið að æru okkar innan verkalýðshreyfingarinnar og lítið gert til að leiðrétta þær rangfærslur sem komið hefur verið af stað, en niðurstöður rannsóknarinnar tala sínu máli.

Virðingarfyllst,

Finnbogi Sveinbjörnsson, sviðsstjóri þjónustusviðs SGS og formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, Halldóra S. Sveinsdóttir, sviðsstjóri matvælasviðs SGS og formaður Bárunnar-stéttarfélags Vilhjálmur Birgisson fulltrúi í framkvæmdastjórn SGS og formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Ályktanir samþykktar á stofnþingi ASÍ-UNG

Stofnþing ASÍ-UNG ályktaði um nokkur mál sem brenna á ungu fólki í dag eins og svo oft áður. Þetta eru menntamál, húsnæðismál, jafnréttismál og fjölskyldumál.

Ályktun ASÍ-UNG um fjölskyldu- og jafnréttismál

ASÍ-UNG telur mikilvægt að öll börn hafi sömu tækifæri óháð aðstæðum fjölskyldna. Börn hafi gott aðgengi að tómstundum og heitum, næringarríkum máltíðum. ASÍ-UNG telur nauðsynlegt að tannlæknaþjónusta sé hluti af heilbrigðiskerfinu og kostnaðarþátttaka í samræmi við það. ASÍ-UNG vill draga úr tekjutengingu barnabóta og minnka mun á fjárhagsstuðningi milli einstæðra foreldra og hjóna/sambúðarfólks.

ASÍ-UNG vill útrýma launamun kynjanna og leggur ríka áherslu á að tryggja fæðingarorlofsréttindi og endurheimta þær skerðingar sem orðið hafa á síðustu misserum.

———–

Ályktun ASÍ-UNG um menntamál

Stofnþing ASÍ-UNG ályktar um nauðsyn þess að auka fjölbreytni og aðsókn í iðn- og starfsnám ásamt því að stuðla að hugarfarsbreytingu í þjóðfélaginu gagnvart iðn- og starfsnámi og efla þarf raunfærnimat.Einnig telur ASÍ-UNG að kynna þurfi og efla starfsnám í grunnskólum.Sérstaklega er þörf á viðhorfsbreytingu á námi tengdu fiskvinnslu og sjávarútvegi.

ASÍ-UNG telur að skoða þurfi lengingu á skyldunámi um tvö ár þ.e. til 18 ára aldurs.Auka þarf framboð á námi með vinnu þ.e. fjarnám eða kvöldskóla og gera aðgengilegt fyrir alla um allt land.ASÍ-UNGvill hvetja skóla og kennara til þess að nýta síðustu daga skólaársins á vorin til þess að sýna nemendum hvaða atvinnumöguleikar eru í boði á hverju landsvæði og jafnvel fá nemendur til þess að prófa sjálf ýmis handtök.

ASÍ-UNG skorar á stjórnvöld til að fylgja eftir markmiðum í áætlun Ísland 2020 að gefa fólki annað tækifæri til náms með því aðauka aðgengi að styrkjum, námslánum ásamt möguleikum á greiðslum úr fræðslusjóðum á meðan á námi stendur.

ASÍ-UNG telur mikilvægt að breyta þurfi ásýnd verkalýðshreyfingarinnar,verkalýðsfélög eru ekki bara sumarbústaðir og íþróttastyrkir.Gera þarf ungu fólki grein fyrir mikilvægi starfsins sem fer þar fram og efla þarf fræðslu ungs fólks um réttindi og skyldur á vinnumarkaði.Fá atvinnurekendur og mennta- og menningarmálaráðuneytið með í að útbúa fræðsluefni til ungs launafólks um vinnumarkaðinn.

Það er ekki púkó að vera í stéttarfélagi.

————

Ályktun ASÍ-UNG um húsnæðismál

ASÍ-UNG krefst þess að valkostum á húsnæðismarkaði sé fjölgað t.d með auknu framboði á leigu-og kaupleiguhúsnæði. ASÍ-UNG telur það vera grundvallaratriði að allir hafi möguleika á öruggu búsetuformi sem hentar á viðráðanlegum kjörum. Draga þarf úr tekjutengingu í húsaleigubótakerfinu þannig að námsmönnum og ungu launafólki sé tryggður ásættanlegur húsnæðisstuðningur.

Tekið af heimasíðu ASÍ