Við vinnum fyrir þig

Translate to

Sameiginleg yfirlýsing ASÍ, BSRB og ÖBÍ

um samninga SI við sérfræðilækna

Stórir hópar gætu þurft að neita sér um læknisþjónustu

Hótun sérfræðilækna um að hætta að hafa milligöngu milli Sjúkratrygginga Íslands (SI) og sjúklinga er óþolandi tilraun til að beita sjúklingum sem vopni í baráttu þeirra við að ná samningi við SI. Ljóst er að slík innheimta mun bitna harkalega á sjúklingum og hafa alvarlegar afleiðingar fyrir lífeyrisþega og lágtekjuhópa.

Read more „Sameiginleg yfirlýsing ASÍ, BSRB og ÖBÍ“

Fréttabréf Bárunar

Stytting vinnuvikunar, orlofsuppbót, félagsmannasjóður og fleira

Kæri félagi

Samið var um styttingu vinnuvikunnar í síðustu kjarasamningum hjá ríki og sveitarfélögum. Í dagvinnu tók nýtt fyrirkomulag gildi 1. janúar sl, og í vaktavinnu 1. maí á þessu ári. Ferli innleiðingarinnar hefur gengið nokkuð vel hjá starfsmönnum ríkisins og Reykjavíkurborgar. Ekki hafa öll sveitarfélög skilað inn niðurstöðum vegna styttingarinnar. Í samkomulaginu (fylgiskjalinu) stendur að náist ekki samkomulag um breytt skipulag vinnutíma styttist vinnutími starfsfólks sem nemur 13 mínútum á dag. Svo virðist sem að mörg sveitarfélög utan Reykjavíkurborgar hafi tekið ákvörðun um að stytting um 13 mínútur á dag væru aðeins í boði og ekki hið eiginlega umbótasamtal ekki tekið. Það er eins og að hið eiginlega umbótasamtal sem á að taka hafi ekki farið fram á sumum stöðum hvað þá atkvæðagreiðsla um niðurstöður. Ef svo er þarf að fara í ferlið aftur. Á næstu dögum verður farið yfir niðurstöður og hvernig aðhað hlutirnir voru framkvæmdir og við munum kynna þær niðurstöður.

Read more „Fréttabréf Bárunar“

Bíllyklar Fundnir

Kæru Félagsmenn,

Við þrif á bústað Bárunnar í Grýluhrauni fannst lyklakippa með bíllyklum og einum litlum lykli á.

Ef einhver hefur átt í erfiðleikum með að komast heim eftir dvöl í Grýluhrauni má hann endilega hafa samband við okkur í síma 480-5000 eða senda póst á baran@baran.is.

Taka þarf fram gerð bíls og kunna einhver deili á kippunni.

Báran Stéttarfélag

Pistill forseta ASÍ

Bakslag í öryggismálum sjómanna

Enn eru menn sem voru í áhöfninni á Júlíusi Geirmundssyni að glíma við eftirköst covid-veikindanna sem komu upp um borð. Skipstjórinn lagði heilsu áhafnarinnar í hættu með því að halda áfram veiðiferð þrátt fyrir smit meðal áhafnarinnar. Enn er of snemmt að segja hvort einstaka sjómenn nái sér að fullu en nú eru fimm mánuðir liðnir frá þessu glæpsamlega athæfi. Samkvæmt sjómannalögum ber skipstjóri nær alla ábyrgð um borð en hafa skal í huga að lögin eru miðuð út frá þeim veruleika að fjarskipti voru lítil sem engin við útgerð. Í dag eru skipstjórar iðulega í miklum samskiptum við útgerðina í landi varðandi ákvarðanir um borð og nær óhugsandi að útgerðin hafi ekki verið meðvituð um stöðuna og verið með í ráðum. Engu að síður gengur þessi tiltekni skipstjóri fram fyrir skjöldu og axlar ábyrgð en útgerðin er laus allra mála. Dómurinn yfir skipstjóranum er svo í engu samræmi við alvarleika málsins þar sem hann er sviptur skipstjóraréttindum í fjóra mánuði en heldur réttinum til að vera stýrimaður á meðan. Stýrimaður leysir skipstjóra af og því hefur þessi dómur nær engin áhrif á hvorki skipstjóra né útgerð.

Eftir sitja sjómenn í þeirri stöðu að yfirmenn þeirra og atvinnurekendur leggja þá í stórhættu, útgerðin þarf enga ábyrgð að taka og skipstjórinn er snupraður af dómstólum. Það er erfitt að gera sér í hugarlund líðan þessara skipverja, traust þeirra til atvinnurekanda og upplifun af öryggi við vinnu. Til að bíta höfuðið af skömminni var umræddur skipstjóri mættur um borð í síðustu veiðiferð, nú í stöðu yfirstýrimanns. Þrátt fyrir að grettistaki hafi verið lyft í öryggismálum sjómanna er sjómennska nú, eftir sem áður, með hættulegri störfum sem Íslendingar vinna. Starfið eitt og sér er hættusamt og algjörlega óásættanlegt að nú hafi bæst við einn stóralvarlegur áhættuþáttur fyrir sjómenn, þ.e. að þeir geti átt von á að lífi og heilsu sé stefnt í hættu með slæmum ákvörðunum skipstjóra og/eða útgerðar.

Við erum komin áratugi aftur í tímann þar sem sjómenn þurfa í alvöru að berjast fyrir lágmarks öryggi og ekki verður séð að útgerð né samtök útgerðarmanna setji líf og heilsu fram yfir gróða. Þessu máli er ekki lokið og munu stéttarfélög þeirra sjómanna sem í hlut eiga áfram standa með þeim til að ná einhverri sanngirni og réttlæti. Það mun ASÍ líka gera.

Góða helgi,
Drífa

„Hvaða rugl er nú þetta?“

Hlaðvarpsviðtal við Hjalta Tómasson

Í Tilefni af fyrsta Maí útbjó ASÍ vefrit á www.vinnan.is

 

 

Þar er hægt að finna allskonar áhugaverðar greinar og viðtöl sem taka púlsinn á verkalýðshreyfingunni. Meðal annars er þar Viðtal við Hjalta Tómasson, okkar mann þar sem að hann talar um Vinnueftirlitið ásamt öðru.

Hlaðvarpið er hægt að nálgast hér “Glæpasnúðar á vinnumarkaði” og mælum við með að taka sér tíma í að hlusta á þetta áhugaverða hlaðvarp.

Hér má lesa smá úrdrátt úr hlaðvarpinu

Read more „„Hvaða rugl er nú þetta?““

Áskorun til HSu frá fjórum stéttarfélögum

Enn og aftur eru það starfsmenn í ræstingu og nú einnig í þvottahúsi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) sem verða fyrir barðinu á uppsögnum vegna „hagræðingar“. Afl starfsgreinafélag, Báran, stéttarfélag,  Drífandi stéttarfélag og Verkalýðsfélag Suðurlands mótmæla fyrirhuguðum uppsögnum á ræstingafólki og starfsmönnum í þvottahúsi hjá HSU. Réttindi og kjör þeirra starfsmanna sem munu verða ráðnir í þessi störf munu verða lakari en hjá þeim starfsmönnum sem hafa gengt þeim til þessa. Starfsmönnum var tilkynnt í framhaldinu að ekki væri óskað eftir starfsumsóknum frá þeim hjá nýjum atvinnurekanda!

Á vef ríkiskaupa þann 19.02 2021 kemur fram að árangursríkt útboð HSU  á ræstingu hafi átt sér stað, þar sem kemur fram að kostnaður er langt undir kostnaðaráætlun.

https://www.rikiskaup.is/is/moya/news/arangursrikt-utbod-raesting-hsu

Hljómar þessi frétt eins og dæmalaus siguryfirlýsing um að tekist hafi að lækka launakostnað starfsfólks, sem er á algjörum lágmarkstöxtum við erfiða vinnu.

Þetta eru kaldar kveðjur frá yfirstjórn stofnunarinnar og vægast sagt lítilsvirðing fyrir störfum þessa hóps sem hafa ekki síður verið í framlínunni sérstaklega á tímum þessarar farsóttar.

Stéttarfélögin skora á stjórn stofnunarinnar að hætta við fyrirhugaðar uppsagnir og um leið aðför að  þessum störfum. Sýnum störfum jafna virðingu.

23.02 2021

F.h. stéttarfélaganna

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, Formaður Afls

Arnar G. Hjaltalín, Formaður Drífanda

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir, Formaður Bárunnar

Guðrún Elín Pálsdóttir, Formaður Verkalýðsfélags Suðurland

Umsóknafrestur í nýjar leiguíbúðir Bjarg íbúðarfélags

Umsóknafrestur í nýjar leiguíbúðir Bjarg íbúðarfélags á Selfossi rennur út 15. Febrúar

Framkvæmdir eru hafnar við tveggja hæða hús Bjargs á Selfossi. Íbúðirnar eru í tveimur húsum sem eru tvær hæðir auk sameiginlegrar frístandandi hjólageymslu.

Gældýrahald er leyft í hluta íbúðanna og merkja þarf sérstaklega við í umsókn ef óskað er eftir íbúð sem heimilar gæludýrahald, sjá reglur Bjargs um gæludýrahald.

Sjá nánar um afhendingu og skil á umsóknum hér

Upphaf leigu er á tveimur tímasetningum, 15. júní 2021 og 15. október 2021. Hér má sjá Heiðarstekk á korti.

Úthlutun orlofshúsa fyrir sumarið 2021

Báran, stéttarfélag auglýsir orlofshús félagsins í Grýluhrauni 9, við Þverlág 2 á Flúðum, Borgarbyggð 12 í Svignaskarði (skiptibústaður), í Kiðárskógi 1 í Húsafelli (skiptibústaður) og íbúð á Akureyri (Ásatún 12) til leigu sumarið 2021 fyrir félagsmenn.

Auglýstur umsóknartími er frá 11. febrúar til 3. mars nk.

Sótt er um á Orlofssíðu Bárunnar, hægt er að fá aðstoð við umsóknarferlið á skrifstofu félagsins að Austurvegi 56, 800 Selfoss eða í síma 480 5000.

Úthlutun orlofshúsa mun liggja fyrir þann 5. mars nk.

Öllum umsóknum verður svarað.

Greiðslufrestur er til 11. mars eftir að úthlutað verður.

Verð á vikudvöl í bústöðunum er 20.000 kr. og fyrir íbúð á Akureyri 22.000 kr.

Vikuleigan á Flúðum, Grýluhrauni og Svignaskarði er frá föstudegi til föstudags.

Vikuleigan á Akureyri og Húsafelli er frá miðvikudegi til miðvikudags.

Íbúðin í Sóltúni 28, Reykjavík, verður ekki úthlutað heldur verður hún í sveigjanlegri leigu eins ávallt.
Báran, stéttarfélag

Tímabilin eru: Þverlág 2, Grýluhrauni 9, Borgarbyggð 12 – frá 28.05.2021 – 27.08.2021.

Akureyri, Kiðárskógi 1 – frá 02.06.2021 – 01.09.2021.

Íbúðin í Sóltúni 28, Reykjavík, verður ekki úthlutað heldur verður hún í sveigjanlegri leigu eins ávallt.

Stytting vinnutíma á almennum vinnumarkaði

Í flestum kjarasamningum sem voru undirritaðir 2019 og 2020 er kveðið á um heimild til að gera breytingar á skipulagi vinnutíma og stytta vinnuvikuna í allt að 36 virkar vinnustundir á viku. Þetta á þó ekki við um öll stéttarfélög, því ýmsir hópar eru með annars konar útfærslu á vinnuskyldu en hefðbundna 40 stunda vinnuviku.

Hjá félagsmönnum innan SGS þarf t.a.m. að gera greinarmun á styttingu vinnutímans hjá annars vegar starfsfólki á almennum vinnumarkaði og hins vegar starfsfólki ríkis og sveitarfélaga.

Hjá starfsfólki á hinum almenna vinnumarkaði var samið um að á grundvelli meirihlutasamþykkis í atkvæðagreiðslu eigi starfsmenn rétt á að fram fari viðræður um vinnutímastyttingu í 36 virkar vinnustundir á viku að jafnaði samhliða niðurfellingu kaffitíma á dagvinnutímabili. Stjórnendur fyrirtækja geta einnig óskað eftir viðræðum.

Í viðræðum á að gera tillögur um fyrirkomulag hléa með það að markmiði að ná fram gagnkvæmum ávinningi og bæta nýtingu vinnutíma þar sem því verður við komið. Ef formlegir kaffitímar eru felldir niður á að skipta ávinningi vegna bættrar nýtingar vinnutíma og aukinnar framleiðni milli starfsmanna og atvinnurekanda, hlutdeild starfsmanna felst í viðbótarstyttingu virks vinnutíma.

Náist samkomulag um niðurfellingu kaffitíma verður virkur vinnutími 36 klst. á viku, án skerðingar mánaðarlauna. Fyrirkomulag styttingar virks vinnutíma geta verið útfærð á marga vegu, t.d:
1. Tekin eru sveigjanleg hvíldarhlé frá vinnu, eitt eða fleiri.
2. Hádegishlé lengt.
3. Hver vinnudagur styttur, umsaminn fjöldi vinnudaga
styttur eða einn dagur vikunnar styttur.
4. Styttingu safnað upp í frí heila eða hálfa daga.
5. Blönduð leið.

Nánari upplýsingar um fyrirkomulag, gildistöku og atkvæðagreiðslu samkomulags má finna í 5. kafla kjarasamnings SGS og SA.

Hvað varðar styttingu vinnutímans hjá starfsfólki ríkis og sveitarfélaga þá má finna ýtarlegar leiðbeiningar og fræðsluefni á kynningarvefnum betrivinnutimi.is

Veikindadagar á almennum vinnumarkaði teljast í vinnudögum – ekki almanaksdögum

Á síðustu árum hefur ítrekað komið til ágreinings milli ASÍ og SA um hvernig telja skuli veikindadaga. SA hefur haldið því fram að telja skuli almanaksdaga í forföllum en ASÍ haldið því fram að einungis skuli telja þá daga sem launamaður hefði að óbreyttu átt að vinna. Félagsdómur staðfesti túlkun ASÍ með dómi sínum þann 17. desember sl. í máli Verkalýðsfélags Snæfellinga gegn Íslandshótelum.

Deilan hefur aðallega lotið að því hvernig telja skuli úttekt veikindadaga á fyrsta starfsári þ.e. þegar starfsmenn ávinna sér tvo daga fyrir hvern unnin mánuð. Niðurstaða Félagsdóms var mjög afgerandi og þar segir að leggja verði til grundvallar „… að starfsmaður á fyrsta starfsári taki aðeins út veikindarétt sinn þá daga sem hann hefði að óbreyttu átt að vera að vinna, það er þegar hann hefur forfallast, en ekki þegar hann átti að vera í fríi.

Fyrir Félagsdómi var deilt um fleira. Atvik málsins voru þau að starfsmaður hafði samið um að taka sitt fulla starf út með því að vinna lengri vinnudaga og eiga því fleiri frídaga á móti. Í þeim tilvikum segir Félagsdómur að atvinnurekanda geti verið „… heimilt að telja forföll í klukkustundum og draga þær frá áunnum veikindarétti í klukkustundum.“ Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að hér er Félagsdómur ekki að tala um talningu yfirvinnustunda í ávinnslu eða úttekt, heldur einungis þær stundir sem færðar eru skv. heimild í kjarasamningum. Starfsmaður sem t.d. skilar 100% starfi á 4 dögum í stað fimm, ávinnur sér áfram 2 daga fyrir hvern unnin mánuð en þegar að úttekt kemur kann að vera eðlilegt, veikist hann í heila viku, að telja hann taka út 5 veikindadaga en ekki 4. Dómurinn breytir hins vegar engu fyrir hlutavinnustarfsmann sem vinnur t.d. 4 daga í viku (80%). Í hans tilviki myndi úttektin áfram vera 4 dagar en ekki fimm.

Um talningu veikindadaga og dóminn er nánar fjallað á Vinnuréttarvef ASÍ. Jafnframt er rétt að vekja athygli á því að þrátt fyrir dóminn hefur vinnuréttarvefur SA ekki verið uppfærður og því enn haldið fram að telja skuli almanaksdaga við úttekt.

https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/veikindadagar-a-almennum-vinnumarkadi-teljast-i-vinnudogum-ekki-almanaksdogum/