Við vinnum fyrir þig

Translate to

1. maí – Myndir og samantekt

Frábær dagur,

Á miðvikudaginn var 1. maí haldinn í ljúfu veðri. Dagurinn heppnaðist einstaklega vel og var einnig vel sóttur.

Kröfugangan hófst klukkan 11:00 og leiddi lögreglan gönguna á undan hestamönnum frá Sleipni, fánaborg og Lúðrasveit Selfoss fylgdu þar fast á eftir og loks allir þeir sem mættu í gönguna.
Við viljum þakka öllum þeim aðilum sem lögðu okkur lið til að skipuleggja gönguna.

Labbað var niður Austurveginn og endað á Hótel Selfoss þar sem tók við dagskrá og veitingar.

Kærar þakkir fyrir frábæran dag kæra launafólk

1. maí – Kveðja formanns

Til hamingju með daginn okkar 1. maí, alþjóðlegan baráttudag launafólks.

Þegar kemur að 1. maí kemur upp í hugann hverjar eru helstu félagslegu áskoranir sem launafólk stendur frammi fyrir. Verkalýðshreyfingin hefur í gegnum tíðina barist fyrir velferð félagsmanna og er það stöðug og lifandi barátta. Við þurfum alltaf að huga að afkomu okkar fólks og var markmið kjarasamninga sem gerðir voru á almennum markaði að ná hér niður verðbólgu og vöxtum, endurreisa tilfærslukerfi heimila og vinnandi fólks. Á móti verða vægast sagt mjög hóflegar launahækkanir. Það er alltaf á ábyrgð launafólks að ná hér niður verðbólgu þó það séu ýmis önnur áhrif sem hefur áhrif á verðbólgu og hefur ekkert með launafólk að gera. Þetta er gömul saga og ný en vonandi gengur þetta eftir og í framhald komi stöðugleiki sem kemur öllum til góða.

Launamunur kynjanna er og hefur verið áskorun sem við öll þekkjum og virðist vera ákveðin hefð fyrir því og fast í okkar menningu því miður. Í starfsgreinum þar sem konur eru í meirihluta eins heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og menntagreinum eru laun almennt lægri samanborið við starfsgreinar þar sem karlar eru í meirihluta. Vorið 2020 í tengslum við kjarasamninga aðildarfélaga BSRB, ríkis og sveitarfélaga lýsti ríkisstjórnin því yfir sett yrði af stað vinna til þess að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og að leiðrétta þyrfti kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta.

Í september 2021 skipaði Katrín Jakobsdóttir (þá forsætisráðherra) aðgerðarhóp með öllum aðilum vinnumarkaðarins um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði.  Markmiðið var að koma á fót þróunarverkefni um virðismat starfa til að greina hvaða þættir það eru sem einkenna kvennastörf og eru vanmetnir. Að útrýma launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum. Hópurinn hefur skilað af sér og fyrir liggur upplegg að virðismatskerfi í þágu launajafnréttis unnið af Jafnlaunastofu.

Nánar um Virðismatskerfið

 

Við gerð kjarasamninga 2024 var hluti af aðgerðum/loforðum stjórnvalda að unnið verði að virðismatskerfi sem byggir á tillögum aðgerðarhóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Gert verði ráð fyrir að innleiðing taki allt að þrjú ár og nýtt kerfi liggi fyrir eigi síðar en í árslok 2026. Minnsti launamunur hjá okkar fólki eins og staðan er núna er hjá starfsmönnum sveitarfélaganna þar sem notað er starfsmatskerfi. Þar er samt launamunur og við viljum útrýma launamun almennt. Við höfum verk að vinna, tökum höndum saman og hættum ekki fyrr en launamun kynjanna verður útrýmt. Við erum bjartsýn á að ný ríkisstjórn sýni þessu verkefni jafnmikla alúð og fráfarandi forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir hefur gert.

Nýr veruleiki hér hjá okkur er mansal sem virðist vera að ryðja sér til rúms í okkar samfélagi.  Mansal er þegar einstaklingur misnotar eða hagnýtir aðra manneskju á einhvern hátt til að græða peninga eða fá önnur hlunnindi. Þetta er ein alvarlegasta birtingarmynd kynbundins ofbeldis. Stéttarfélögin eru að sjá ýmis konar sviðsmyndir, launafólk fær ekki ráðningarsamninga, vinnur 220 klukkustundir eða meira og fær greidd dagvinnulaun. Vinnutíminn er 7 daga vikunnar og aldrei frí. Launafólk sem leigir húsnæði af atvinnurekanda greiðir himinháa leigu og ef ráðningarsamband rofnar þá er fólk sett út á götu. Þetta er ekki algilt svo það sé sagt þá eru flestir atvinnurekendur mjög til sóma en við erum að sjá fleiri og fleiri dæmi um alvarleg brot á vinnumarkaði. Það sem kemur á óvart í þessu er þegar aðilar eru að  útvista at, eru að ráða verktaka og kynna sér ekki hvernig málum er háttað varandi starfmannahald. Hvort sem það er á almennum markaði, ríki eða sveitarfélög er bara verið að hugsa um rekstrarlega hlið ekki mannlega. Þegar vísbendingar verða um mansal verða stéttarfélögin vægast sagt vanmáttug og eru úrræðin mjög veik. Aðferðir þeirra atvinnurekenda sem stunda mansal eru þekktar. Þeir sem stunda mansal treysta á vanmátt okkar og vanþekkingu. Það er mikilvægt að þær stofnanir sem koma að þessum málaflokki byggi upp traust til fórnarlamba. Ef þú þekkir einkenni og aðferðir við mansal, þá eykur þú líkurnar á að uppræta það.

Nánar um Hvernig á ég að þekkja mannsal

 

Við berum öll ábyrgð,  látum þetta ekki líðast  í okkar samfélagi.

Það þarf þjóðfélagslega sátt og samstöðu þannig að allir geta lifað með reisn á mannsæmandi launum. Við þurfum að hugsa upp á nýtt og forgangsraða.

Við fögnum alþjóðlegum baráttudegi okkar í dag, hugsum til framtíðar og sofnum ekki á verðinum.

Hvernig þjóðfélag viljum við sjá?

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.

 

 

Dagskrá 1. maí 2024

Kröfuganga hefst klukkan 11:00

Lúðrasveit Selfoss leiðir gönguna frá Austurvegi 56 að Hótel Selfoss þar sem að dagskrá og skemmtun fer fram.

  • Kynnir er Jónas Yngvi Ásgrímsson, frá VR
  • Ræðumaður verður Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB
  • Annar ræðumaður verður Klaudia  Joanna Figlarska, nemandi í ML

Fríða Hansen ásamt Alexander Frey taka lagið.

Afrekshópur dansakademíunar kemur fram.

Fimleikadeild UMFS sér um andlitsmálun.

Kaffi, kökur og veitingar.

 

Hlökkum til að sjá ykkur

Starfsfólk Bárunnar, stéttarfélags

Súkkulaði hækkar, nema á vörum frá Freyju

Verð á súkkulaði hækkar víða miðað við janúar, en misjafnlega eftir framleiðendum og verslunum. Þetta kemur fram í samanburði Verðlagseftirlits ASÍ á sælgætis- og súkkulaðiverði í síðustu viku miðað við 22. janúar. Verð á súkkulaði frá Nóa Síríus hækkar mest, en verð á vörum frá Freyju hækkar minnst og lækkar í einhverjum tilfellum. 

Verð á öðru sælgæti frá Nóa Síríus og Góu-Lindu tekur minni breytingum en súkkulaðið og stendur í einhverjum verslunum í stað eða lækkar.

Verð hækkaði minnst, og í mörgum flokkum ekki, í þremur verslunum: Heimkaup, Extra og 10-11. 

Súkkulaðiplötur vógu þyngst í hækkunum Nóa Síríus. Þær hækkuðu margar um 15-25% í Bónus, til dæmis 46gr lakkrísrjómasúkkulaði (25%) og súkkulaðiplata með hnetum og rúsínum (19%). Í Krónunni hækkuðu þrjár rjómasúkkulaðiplötur Nóa Síríus (hrein, hnetu&rúsínu og karamellu&salt) um 19%. Lindu mjólkursúkkulaðiplata hækkaði um 12% í Krónunni og Lindu suðusúkkulaði um 10%. Hins vegar stóð verð á Freyju mjólkursúkkulaði með bombum í stað í Bónus. 

Engin dæmi fundust um verðhækkanir á Omnom súkkulaði, en 28 verð voru skoðuð í sex verslunum. Verð á Ritter Sport súkkulaðiplötum (mjólkursúkkulaði, marsipan og saltmöndlu) hefur verið 250 krónur í Krónunni og 249 krónur í Bónus frá ágústlokum. 

Verð á vörum frá Freyju stóð í stað eða hækkaði að meðaltali um minna en 0,25% í Bónus, Krónunni, Fjarðarkaupum, Heimkaupum, Hagkaup, Extra og 10-11. Það lækkaði í Nettó, Kjörbúðinni, Iceland og Krambúðinni. 

Sjá frétt á heimasíðu ASÍ með nánari upplýsingum

Páskafréttabréf Bárunnar.

Heil og sæl kæru félagar.

Kjarasamningar á almenna markaðnum hafa verið samþykktir með afgerandi hætti. Kjörsókn var ekki mikil eða að meðaltali 18%. Markmið þessara samninga er að ná hér niður verðbólgu og vöxtum, endurreisa tilfærslukerfi heimila og vinnandi fólks og að kaupmáttaraukning verði á samningstímanum. Þetta er langtímasamningur með ákveðnum fyrirsjáanleika en litlu innihaldi gagnvart réttindum launafólks. Ríki og sveitarfélög komu að þessum samningum með ákveðin loforð sem á eftir að efna. Samtök atvinnulífsins sluppu nokkuð vel frá þessu, þau náðu að beina spjótum sínum aðallega að ríkinu. Allir vilja ná hér niður verðbólgu og vöxtum og vonandi tekst það, en það er ekki aðeins á ábyrgð launafólks.  Ekki náðist að semja um vinnutímastyttingu sem voru mikil vonbrigði. Flestir hópar hafa þegar fengið vinnutímastyttingu þannig að á vinnustöðum þar sem önnur sambönd eru sem þegar hafa fengið styttingu hvet ég ykkur kæru félagsmenn að óska eftir að farið verið í viðræður um vinnutímastyttingu.

Viðræður við sveitarfélögin eru þegar hafnar og eru viðræður við ríkið að hefjast.

Kæru félagar og fjölskyldur vonandi eigið þið góða og gleðilega páska.

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður.

Kjarakönnun Vörðu 2024 - En alvarleg staða hjá hluta félagsmanna

Varða – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins hefur árlega lagt fyrir kannanir um stöðu launafólks
á Íslandi innan aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og BSRB. Markmið kannananna er
að varpa ljósi á fjárhagsstöðu, stöðu á húsnæðismarkaði og líkamlega og andlega heilsu launafólks
ásamt annarra atriða.

Í janúar 2024 var lögð fyrir könnun meðal félagsfólks innan aðildarfélaga
heildarsamtakanna tveggja og voru niðurstöður hennar birtar í skýrslu í mars 2024 (sjá Varða –
Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, 2024).
Í þessari skýrslu er greint sérstaklega frá stöðu félagsfólks Bárunnar og eru niðurstöðurnar
settar fram í samanburði við félagsfólk í öðrum aðildarfélögum innan ASÍ og BSRB.

 

Skýrsla Vörðu í heild sinni

 

Kristín Heba fór yfir samnburð á almennum kjörum og högum félaga innan íslenskra stéttarfélaga á Páskafundi trúnaðarmanna. Sá samanburður var í raun frekar sláandi og sem kom mest á óvart var sú staðreynd að hversu margir áttu erfitt með ná endum saman. Geta í raun ílla eða ekki ráðið við óvænt útgjöld og eða ekki geta greitt tómstundir og íþróttastörf barna sinna og telja sem dæmi 39% aðspurðra að fjárhagsstaða þeirra sé verri, en árið áður. Annað sem var sláandi í þessum samanburði var að 80% aðspurðra töldu húsnæðiskostnað sinn vega mjög þungt eða þugnt í sínum útgjaldaliðum og að 60% kvenna töldu sig ekki séð fyrir sér og börnum sínum og 47 % karla voru á sömu skoðunn.

Páskafundur trúnaðarmanna sem fór framm þann 18.mars 2024.

Fundinn sóttu trúnaðarmenn Bárunar og var farið yfir meðal annars kjarakönnun Vörðu, þar sem Kristín Heba fór yfir skýrsluna sem má lesa hér að ofan

Það málefni sem fékk hvaða mesta athygli og skiljanlega miða við þá fjölmiðlaumfjöllum sem þau málefni hafa fengið, varðaði vinnustaðaeftirlit og mannsöl, en þar fór Saga Kajrtansdóttir frá vinnueftirliti A.S.Í yfir stöðu mála. Það er því miður ekki einsdæmi að fólk og sér í lagi fólk af erlendum uppruna verði fyrir ítrekuðum brotum af hendi vinnuveitenda, þó svo að lang flest þeirra séu ekki af sömu stærðargráðu og það mál sem er mikið fjallað um í fjölmiðlum í dag.

En af nógu er af taka samt sem áður og varða þau brot á almennum réttindum, svo sem launakjör, réttmæta hvíldartíma, skort á mannshæfandi húsnæði, skort á kynnignu réttinda og að engir trúnaðamenn séu á vinnustað, sem gegna mikilvægu hlutverki í því að farið sé eftir þeim lögum er varða réttindi fólks.  Það er því miður sannleikurinn að það eru ekki bara skipulögð glæpagengi sem ítrekað brjóta þessi réttindi, hvort sem það er gert vísvitandi eður ei, einnig mætti lagarammin í kringum þau lög sem þessi málefni varðar vera mun skilmerkilegri.

Sigurlaug Gröndal skólastýra Félagsmálaskóla alþýðunar ræddi svo um þær brotalamir sem eru víðsvegar innan íslensk vinnumarkaðar. Dæmi um þær brotalamir eru brot á öryggis aðstæðum, brot á og mismunun á vinnuaðstæðum, skortur á fræðslu á almennum réttindum starfsfólks. Lítið eða ekkert tillit tekið til kvartanna og eða beiðna starfsfólks, að gerðar séu óraunhæfar kröfur um að starfsfólk sinni störfum sem engan veginn heyrir undir þeirra störf og það beðið um að hlaupa/vinna hraðar, ef um undirmönnun sé að ræða.

Fjóla Pétursdóttir lögfræðingur fór svo yfir mikilvægi trúnaðarmanna og þeirra réttinda sem þeir/þau eiga að búa við á vinnustöðum. Í dag er almennt frekar erfitt að fá fólk til þess að gegna þessari þó mikilvægri stöðu, sem er gerð til þess að fylga eftir réttindum starfsfólks. Það gæti meðla annars orsakast að því að þeim reglum sem gilda eiga er ekki ávalt fylgt eftir og eru dæmi um að trúnaðarmenn hafi verið sagt upp, á röngum og í raun ólöglegum forsendum og hafa þær uppsagnir leytt til dómsmála.

Að lokum fór Halldóra S. Sveinsdóttir formaður Bárunar svo yfir sögu stéttarfélagsins, hlutverk starfsfólks og mikilvægi starfsemi stéttarfélaga almennt á íslenskum vinnumarkaði.

Sóltún 28 komin aftur í útleigu

Orlofsíbúð Bárunnar að Sóltúni 28, Reykjavík er komin aftur í opna útleigu til félagsmanna. Stjórn sjúkrasjóðs Bárunnar ákvað að leigja íbúðina tímabundið til Grindvíkinga vegna eldgosa í og við Grindavík. Fólkið sem var í íbúðinni hefur skilað henni í topp standi og er hægt að leigja hana aftur út eins og venjulega í gegnum Orlofsvef Bárunnar.

 

Mörg Tímabil laus í sumar

Opnað hefur verið fyrir leigu á orlofshúsakostum félagsins sem ekki var úthlutað. Þó nokkrar vikur eru lausar víðsvegar um landið.
Fyrstur kemur fyrstur fær.

Páskaopnun og breytt dagsetning afgreiðslu styrkja úr sjúkrasjóðs.

Vegna páskafrís verðum við að færa til greiðslur á heilsu og forvarnarstyrkjum ásamt greiðslu sjúkradagpeninga.

 

  • Heilsu og forvarnastyrkir: Verða greiddir út miðvikudaginn 27.mars. Síðustu forvöð að sækja um er þriðjudagurinn 26.mars.

    Heilsu og forvarnarstyrkir

  • Sjúkradagpeningar: Afgreiðsla sjúkradagpeninga verður einnig miðvikudaginn 27.mars. Skilafrestur gagna er mánudaginn 25. Mars.

    Sjúkradagpeningar

 

Eftir páska fer afgreiðsla aftur í venjulegt form

 

Lokað verður á skrifstofu Bárunnar eftirtalda daga vegna páskafrís:

 

  • Skírdagur fimmtudagurinn 28.mars
  • Föstudagurinn langi föstudagurinn 29.mars
  • Annar í páskum Mánudagurinn 1.mars

 

Við óskum félagsmönnum góðra stunda yfir páskana.

Starfsfólk Bárunnar, stéttarfélags

Mikið af lausum vikum í sumar

Opnað hefur verið fyrir leigu á orlofshúsakostum félagsins sem ekki var úthlutað. Þó nokkrar vikur eru lausar víðsvegar um landið.
Fyrstur kemur fyrstur fær.

Sóltún 28

Orlofsíbúð Bárunnar að Sóltúni 28, Reykjavík er komin aftur í opna útleigu til félagsmanna. Stjórn sjúkrasjóðs Bárunnar ákvað að leigja íbúðina tímabundið til Grindvíkinga vegna eldgosa í og við Grindavík. Íbúðin er í topp standi og er hægt að leigja hana aftur út eins og venjulega í gegnum Orlofsvef Bárunnar.

Páskaopnun og breytt dagsetning afgreiðslu styrkja úr sjúkrasjóðs.

Kæru félagsmenn,

nú líður senn að páskum og verðum við að færa til greiðslur á heilsu og forvarnarstyrkjum ásamt greiðslu sjúkradagpeninga.

 

  • Heilsu og forvarnastyrkir: Verða greiddir út miðvikudaginn 27.mars. Síðustu forvöð að sækja um er þriðjudagurinn 26.mars.

    Heilsu og forvarnarstyrkir

  • Sjúkradagpeningar: Afgreiðsla sjúkradagpeninga verður einnig miðvikudaginn 27.mars. Skilafrestur gagna er mánudaginn 25. Mars.

    Sjúkradagpeningar

 

Eftir páska fer afgreiðsla aftur í venjulegt form

 

 

Lokað verður á skrifstofu Bárunnar eftirtalda daga vegna páskafrís:

 

  • Skírdagur fimmtudagurinn 28.mars
  • Föstudagurinn langi föstudagurinn 29.mars
  • Annar í páskum Mánudagurinn 1.mars

 

Við óskum félagsmönnum góðra stunda yfir páskana.

 

Starfsfólk Bárunnar, stéttarfélags

Nýr Kjarasamningur á almenna markaðnum samþykktur

Niðurstöður atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning 18 aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins liggja nú fyrir og var samningurinn samþykktur með 82,72% atkvæða. Nei sögðu 12,85% og 4,43% tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru samtals 23.677 félagsmenn hjá öllum 18 aðildarfélögum SGS. Atkvæði greiddu 4.156 manns eða 17.55%. Atkvæðagreiðsla um samningin stóð yfir dagana 13. til 20. mars.

Telst kjarasamningurinn, sem undirritaður var 7. mars síðastliðinn, því samþykktur hjá eftirtöldum félögum:
AFLi Starfsgreinafélagi, Öldunni stéttarfélagi, Bárunni stéttarfélagi, Drífanda stéttarfélagi, Einingu-Iðju, Framsýn stéttarfélagi, Stéttarfélagi Vesturlands, Stéttarfélaginu Samstöðu, Verkalýðsfélagi Akraness, Verkalýðsfélagi Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis, Verkalýðsfélagi Snæfellinga, Verkalýðsfélagi Suðurlands, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, Verkalýðsfélagi Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélaginu Hlíf.

Kosningar vegna kjarasamnings á almenna markaðnum.

Þitt atkvæði skiptir máli!

Kæru félagsmenn,

Þann 7. mars undirritaði Starfsgreinasamband Íslands, ásamt Eflingu og Samiðn, nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins. Um er að ræða langtímasamning til fjögurra ára sem gildir frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028. Atkvæðagreiðsla félagsfólks um samninginn fer fram dagana 13.-20. mars 2024.

Rafræn atkvæðagreiðsla allra 18 aðildarfélaga SGS um kjarasamninginn hófst kl. 12:00 miðvikudaginn 13. mars og lýkur 20. mars kl. 09:00. Niðurstöður verða kynntar sama dag.

Hægt er að greiða atkvæði á þessari síðu (sjá hnapp að neðan)  Allar upplýsingar um samningin eru einnig inná kosningarsvæði sem og hér að neðan.

 

Kjósa

https://kjosa.vottun.is/Home/Vote/474?lang=IS

Helstu atriði samningsins 

Lækkun verðbólgu með samstilltu átaki verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda, ríkis, sveitarfélaga og annarra - vextir lækki í humátt á eftir.

Samið um hófstilltar launahækkanir

  • Fyrirtæki lækki hagnaðarkröfu sína og dragi úr álagningu
  • Hófleg hækkun opinberra gjalda ríkis og sveitarfélaga
  • Vextir húsnæðislána lækki samhliða lækkun verðlags
  • Öll þurfa taka þátt og skila sínu

Endurreisn tilfærslukerfa vinnandi fólks​

  • Barnabætur, vaxtabætur og leigubætur
  • Aðrar umbætur í velferðarmálum

Ströng forsenduákvæði verja launafólk, komi til þess að markmið samnings náist ekki.

Launahækkanir
Á samningstímanum munu launataxtar hækka um samtals 95 til 107 þúsund krónur sem jafngildir tæplega 24% hækkun yfir 4 ár. Hlutfallsbil milli launaflokka og starfsaldursþrepa í launatöflu SGS halda sér út samningstímann.

Laun þeirra sem eru fyrir ofan töflur hækka á samningstíma um 14,5% en þó aldrei um minna en 95.000 kr.

Hækkanir dreifast svona yfir samningstímann:

Febrúar 2024: Lágmark 23.750 kr. eða 3,25%
Janúar 2025: Lágmark 23.750 kr. eða 3,50%
Janúar 2026: Lágmark 23.750 kr. eða 3,50%
Janúar 2027: Lágmark 23.750 kr. eða 3,50%
Samtals: Lágmark 95.000 kr. eða 14,5%

Orlofs- og desemberuppbót
Orlofs- og desemberuppbætur uppfærast á samningstímanum. Orlofsuppbót hækkar um 2.000 kr. á ári og verður 64.000 kr. árið 2027. Desemberuppbót hækkar um 4.000 kr. á ári og verður orðin 118.000 kr. í lok samningstímans.

Orlofsuppbót
2024: 58.000 kr.
2025: 60.000 kr.
2026: 62.000 kr.
2027: 64.000 kr.

Desemberuppbót
2024: 106.000 kr.
2025: 110.000 kr.
2026: 114.000 kr.
2027: 118.000 kr.

Aukin orlofsréttindi
Í samningunum eru orlofsréttindi félagsfólks aukin. Félagsmenn SGS sem hafa unnið í sex mánuði eða lengur í starfsgrein og eru eldri en 22 ára fá nú 25 daga lágmarksorlof, en orlof þeirra var áður 24 dagar.

Þá lengist orlofsréttur þeirra sem unnið hafa í fimm ár hjá fyrirtæki. Var hann áður 25 dagar en lengist í tveimur þrepum upp í 28 daga.

Leiðrétting á kjörum ræstingafólks
Í samningnum náðist mikilsverður árangur í því að bæta kjör ræstingafólks. Um var að ræða sameiginlegt sameiginlegt baráttumál SGS og Eflingar sem Samiðn studdi jafnframt dyggilega.

Til viðbótar við aðrar umsamdar hækkanir samningsins mun ræstingafólk sem starfar undir 22. kafla aðalkjarasamningsins hækka úr launaflokki 6 í launaflokk 8. Það þýðir að í lok samningstíma munu grunnlaun ræstingafólks hafa hækkað um allt að 6 þúsund krónur umfram aðrar launahækkanir, og skilar sú viðbótarhækkun sér inn í vakta- og yfirvinnuálög.

Þá kemur til viðbótar sérstakur ræstingaauki að upphæð 19.500 kr. á mánuði miðað við fulla vinnu. Ræstingaaukinn bætist við laun frá og með ágústlaunum 2024, og verður sér lína á launaseðli sem hækkar ekki vakta- eða yfirvinnuálög.

Mánaðarlaun ræstingastarfsmanns með 5 ára starfsreynslu í fullu starfi munu í september 2024 hafa hækkað um að minnsta kosti 49.866 krónur.

Einnig kemur inn ný grein sem skýrir skilgreininguna á tímamældri ákvæðisvinnu, en brögð hafa verið að því að launafólk fái ekki greitt 20% álag sem fylgja á slíkri vinnu. Nýja greinin styrkir stöðu ræstingafólks til að sækja rétt sinn gagnvart fyrirtæki.

Þá voru heimildir til vinnustaðaeftirlits útvíkkaðar til ræstingafyrirtækja.

Breytingar á greiðasölusamningi
Gerðar eru breytingar á samningi SGS við SA um störf á hótelum og veitingahúsum.

Starfsfólk hótela og veitingahúsa hækka um 1 launaflokk. ​Almennt starfsfólk úr lfl. 5 í lfl. 6. Sérþjálfaðir úr lfl. 6 í lfl. 7​

Á móti kemur að heimilt verður að greiða vaktaálag þar til fullum vinnuskilum er náð. Yfirvinnukaup greiðist eftir full vinnuskil.​

Í 5. kafla um fyrirtækjaþátt eru heimildir auknar til að semja um upptöku jafnaðarálags að gefnu samþykki stéttarfélags og starfsfólks.

Stéttarfélög hafa fulla aðkomu að viðræðum um slíkt og aðgang að öllum gögnum sem liggja til grundvallar útreikningum á jafnaðarálagi.

Réttindi í vinnu
Í samningum náðist árangur í að styrkja mikilvæg réttindamál félagsfólks á vinnustað, sem má finna í nýjum og lagfærðum kjarasamningsákvæðum.

Þar má nefna nýjan undirkafla 7.6 sem styrkir rétt starfsmanns sem leggur fram athugasemd við atvinnurekanda vegna aðbúnaðar eða öryggis á vinnustað. Samkvæmt ákvæðum kaflans er atvinnurekanda óheimilt að láta starfsmann gjalda þess í starfi að hafa komið með slíka ábendingu. Jafnframt ber atvinnurekanda að bregðast við og upplýsa starfsmann um framgang málsins.

Þá eru ákvæði varðandi störf og réttindi trúnaðarmanna styrkt verulega. Heimilt verður að kjósa þrjá trúnaðarmenn á vinnustöðum með meira en 120 félagsmenn, en frá upphafi lagasetningar um trúnaðarmenn hefur aðeins verið hægt að kjósa tvo trúnaðarmenn að hámarki á hverjum vinnustað, óháð stærð. Einnig mælir nýtt ákvæði fyrir um að trúnaðarmaður og atvinnurekandi skuli gera samkomulag um þann tíma sem trúnaðarmaður hafi til að sinna störfum sínum. Þá er námskeiðsseturéttur trúnaðarmanna aukinn úr 5 dögum í 10 á seinna ári skipunartíma og verða trúnaðarmenn sem vinna vaktavinnu tryggðir gegn launatapi sökum námskeiðssetu.

Forsendur um verðlag og hagþróun
Samningurinn er byggður á þeirri forsendu að verðbólga, og þar með vextir, náist hratt niður. Þetta er ein mikilvægasta kjarabót samninganna til viðbótar við launahækkanir og aukningu á skattfrjálsum bótum hins opinbera.

Hafi verðbólga ekki lækkað niður fyrir tiltekið mark á umsömdum dagsetningum, og ekki náðst samkomulag við SA um hvernig það skuli bætt, verður heimilt að segja samningnum upp á tveimur tímapunktum á samningstímanum. Einnig verður heimilt að segja samningi upp hafi stjórnvöld ekki staðið við yfirlýsingar sínar varðandi endurreisn bótakerfa og önnur atriði.

Einnig er forsenduákvæði sem tryggir að taxtalaun dragist aldrei aftur úr launavísitölu vegna launaskriðs hærra launaðra hópa. Þá eru forsenduákvæði sem tryggja hlutdeild launafólks í aukinni framleiðni hagkerfisins, fari hún yfir visst mark.

Tímaröðun endurskoðunarákvæða er svona:

2025: Kauptaxtar skulu hækka sjálfkrafa 1. apríl til samræmis við launavísitölu, hafi hún hækkað umfram kauptaxta SGS.

Hafi 12 mánaða verðbólga í ágúst ekki lækkað niður fyrir 4,95%, eða hafi stjórnvöld ekki staðið við fyrirheit skv. yfirlýsingu, verður heimilt að segja samningi upp þannig að hann falli úr gildi 31. október.

2026: Sömu fyrirvarar varðandi kauptaxta og 2025.

Laun hækka um vissa prósentu 1. apríl hafi framleiðni í hagkerfinu aukist umfram 2% og ekki verið efnahagssamdráttur á undangengnu ári.

Hafi 12 mánaða verðbólga í ágúst ekki lækkað niður fyrir 4,7% verður heimilt að segja samningi upp þannig að hann falli úr gildi 31. október.

2027: Sömu fyrirvarar varðandi kauptaxta og framleiðni og árið 2026.

 

Allur samningurinn (heildarútgáfa væntanleg)

Langtímasamningur við SA til fjögurra ára undirritaður

Stöðugleika- og velferðarsamningur í höfn

Breiðfylkingin, sem samanstendur af Starfsgreinasambandinu, Samiðn og Eflingu, hefur undirritað nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins vegna starfa á hinum almenna vinnumarkaði. Samningurinn var undirritaður í húsakynnum ríkissáttasemjara á sjötta tímanum í dag. Um er að ræða langtímasamning en gildistími samningsins er frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028.

Meginmarkmið samnings 

  • Lækkun verðbólgu og vaxta með samstilltu átaki verkalýðshreyfingar, ríkis, atvinnurekenda, sveitarfélaga og annarra​.
  • Endurreisn tilfærslukerfa heimila vinnandi fólks​.
  • Kaupmáttaraukning verði á samningstímanum.

 

Launahækkanir 

Hækkanir eru á formi blandaðrar leiðar krónutölu og prósentu. Launahækkanir koma til áhrifa á fjórum dagsetningum með árs millibili á samningstíma.

1. febrúar 2024 3,25% eða að lágmarki 23.750 kr.
1. janúar 2025 3,5% eða að lágmarki 23.750 kr.
1. janúar 2026 3,5% eða að lágmarki 23.750 kr.
1. janúar 2027 3,5% eða að lágmarki 23.750 kr.

Krónutöluhækkun á samningstíma er 95.000 kr. sem jafngildir 24% hækkunar lægstu launa.

Aðrir kjaratengdir liðir taka almennum hækkunum í kjarasamningi.

 

Ár​ Orlofsuppbót Desemberuppbót
2024​ 58.000​ kr. 106.000​ kr.
2025​ 60.000​ kr. 110.000​ kr.
2026​ 62.000​ kr. 114.000​ kr.
2027​ 64.000​ kr. 118.000​ kr.

 

Forsenduákvæði 

Samningurinn stendur og fellur með því að markmið um lækkun verðbólgu náist, sem aftur eru forsenda vaxtalækkunar. Til að styrkja forsendur og markmið kjarasamninganna mun sérstök launa- og forsendunefnd taka þegar til starfa. Verkefni nefndarinnar er að fylgjast með framvindu þeirra þátta í efnahagslífinu sem áhrif geta haft á markmið samningsins, leggja formlegt mat á forsendur kjarasamningsins og eftir atvikum semja um viðbrögð við forsendubresti sem treysta forsendur samningsins og stuðla að því að hann haldi gildi sínu.

 

Einnig eru í samningnum tvö forsenduákvæði sem koma snúa að annars vegar að vörn gegn launaskriði og hins vegar tryggingu launafólks á hlutdeild í framleiðniaukningu.

 

Framlag stjórnvalda

Framlag stjórnvalda er mikilvægur hluti af ávinningi kjarasamningsins. Ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðaáætlun sem felur í sér fjárframlög til ýmissa mála sem gagnast vinnandi fólki. Er þar um að ræða aukningu ríkisútgjalda um 20 milljarða á ári. Helstu atriðin í framlagi stjórnvalda eru:

 

  • Húsnæðisstuðningur
    • Sérstakur vaxtastuðningur vegna hás vaxtakostnaðar
    • Húsnæðisbætur – Grunnfjárhæð hækkar. Sérstök viðbót miðast að því að styðja betur við fjölmennari fjölskyldur

 

  • Barnafjölskyldur
    • Barnabætur, markmiðið er að fjölga viðtakendum barnabóta og að skerðingarmörkin verði hækkuð í átt að miðtekjum
    • Fæðingarorlof – Hámarksupphæð hækkar úr 600.000 kr. í 900.000 kr. á tímabilinu
    • Gjaldfrjálsar skólamáltíðir

 

  • Önnur atriði
    • Gjaldskrár hins opinbera – Ríkið skuldbindur sig til að hækka ekki umfram 2,5% á árinu 2025. Tilmæli til sveitarfélaga um að endurskoða áður útgefnar hækkanir og halda þeim innan 3,5% vegna barnafjölskyldna.

 

Nú tekur við kynning og atkvæðagreiðsla um samninginn meðal félagsmanna. Niðurstaða afgreiðslu samningsins á að liggja fyrir ekki síðar en miðvikudaginn 20. mars næstkomandi.