Við vinnum fyrir þig

Translate to

Hækkun menntastyrkja

Stjórnir þriggja fræðslusjóða sem félagið er aðili að; Landsmennt, Ríkismennt og Sveitamennt, hafa samþykkt eftirfarandi hækkanir á einstaklingsstyrkjum úr sjóðunum :

 

Landsmennt
Stjórn Landsmenntar hefur samþykkt að hækka hámarksupphæð einstaklingsstyrkja í 70.000 kr. frá og með 1. júlí nk. Upphæð styrkja er miðuð við greidd iðgjöld síðustu 12 mánaða en hægt er að fá styrk (þá lægri) eftir 6 mánaða aðild. Styrkur getur þó aldrei orðið hærri en 70.000 kr eða mest 75% kostnaðar.

Hækkun á geymdum rétti (uppsafnaður réttur) er eftirfarandi:
• 2015 verður hægt að taka út kr. 190.000.- fyrir eitt samfellt nám/námskeið. Ferðakostnaður vegna náms getur að hámarki orðið kr. 70.000.- (nær til náms sem hefst eftir 1.júlí 2015)
• 2016 verður hægt að taka út kr. 200.000.- og 2017 verði upphæðin orðin 210.000.-
Ekki hefur verið gerð breyting á styrkjum til meiraprófs eða til tómstundanámskeiða.
Hækkunin nær til þess náms sem hefst eftir 1. júlí 2015.

Ríkismennt
Stjórn Ríkismenntar hefur samþykkt að hækka hámarksupphæð einstaklingsstyrkja í 75.000 kr. f.o.m. 1. júní 2015. Upphæð styrkja er miðuð við greidd iðgjöld síðustu 12 mánaða en hægt er að fá styrk (þá lægri) eftir 6 mánaða aðild. Styrkur getur þó aldrei orðið hærri en 75.000 kr eða mest 75% kostnaðar.
Hækkun á geymdum rétti (3ja ára) verður til samræmis við þessa hækkun kr. 225.000.-
Engin breyting er á styrkjum til meiraprófs eða styrkum til tómstundanámskeiða.

Hækkunin nær til náms/námskeiða sem hefjast eftir 1. júní 2015.

Sveitamennt
Stjórn Sveitamenntar hefur samþykkt að hækka hámarksupphæð einstaklingsstyrkja í 75.000 kr. frá og með 1. júní sl. Upphæð styrkja er miðuð við greidd iðgjöld síðustu 12 mánaða en hægt er að fá styrk (þá lægri) eftir 6 mánaða aðild. Styrkur getur þó aldrei orðið hærri en 75.000 kr eða mest 75% kostnaðar.
Hækkun á geymdum rétti (3ja ára) verður til samræmis við þessa hækkun kr. 225.000.-
Engin breyting er á styrkjum til meiraprófs eða styrkum til tómstundanámskeiða.

Hækkunin nær til náms/námskeiða sem hefjast eftir 1. júní 2015. 

Niðurstaða kosninga vegna kjarasamninga milli SGS og SA

Niðurstaða kosninga vegna kjarasamninga milli Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna Bárunnar, stéttarfélags undirritaður þann 29. maí 2015.  Gildir frá 1. maí 2015 til 31. desember 2018.

Á kjörskrá voru 844,  120 greiddu atkvæði eða 14,22 %

Já sögðu 86 eða 71,67 %

Nei sögðu 32 eða 26,67 %

Auðir og ógildir 2 eða 1,67 %

Samningurinn er samþykktur.

 

KJARASAMNINGUR SAMÞYKKTUR ALLS STAÐAR

Niðurstöður atkvæðagreiðslu um kjarasamninga Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins á hinum almenna vinnumarkaði liggja nú fyrir og voru samningarnir samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta. Starfsgreinasambandið fór með umboð 15 aðildarfélaga í viðræðunum og hélt utan um sameiginlega rafræna atkvæðagreiðslu um samningana. Í heildina var kjörsókn rúmlega 25%, já sögðu 79,95% en nei sögðu 18,43%. Auðir seðlar voru 1,62%. Á kjörskrá voru 9.589 manns.

Niðurstöðurnar voru alls staðar afgerandi og teljast samningarnir á hinum almenna vinnumarkaði sem undirritaðir voru 29. maí síðastliðinn því samþykktir hjá eftirfarandi félögum: AFLi Starfsgreinafélagi, Öldunni stéttarfélagi, Bárunni stéttarfélagi, Drífandi stéttarfélagi, Einingu – Iðju, Framsýn stéttarfélagi, Samstöðu stéttarfélagi, Verkalýðsfélagi Akraness, Verkalýðsfélagi Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis, Verkalýðsfélagi Snæfellinga, Verkalýðsfélagi Suðurlands, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga og Verkalýðsfélagi Þórshafnar. Niðurstöður atkvæðagreiðslu SGS 22062015

Tekið af heimasíðu SGS

 

 

 

NÝR SAMNINGUR VIÐ EDDUHÓTEL UNDIRRITAÐUR

Starfsgreinasamband Íslands hefur undirritað nýjan kjarasamning vegna sumarstarfsfólks hjá Edduhótelum. Samningurinn tekur mið af nýgerðum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði en í þessum samningi er sem fyrr ákvæði um launaauka sem er hluti af seldum veitingum og gistingu. Samningurinn verður lagður fyrir framkvæmdastjórn SGS til staðfestingar eftir að niðurstöður úr atkvæðagreiðslu vegna almenna samningsins liggja fyrir.

Kjarasamningur SGS við Edduhótel 2015

Kauptaxtar Edduhótel sumar 2015

Atkvæðagreiðsla hafin um nýjan kjarasamning

Rafræn atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífins hófst í  morgun, 12. júní, kl. 8:00 og mun henni ljúka kl. 12:00 þann 22. júní nk. Allir kosningabærir félagsmenn fá atkvæðaseðil og kynningarbækling sendan í pósti. Í bæklingnum er lykilorð sem þarf að nota þegar greitt er atkvæði. Þeir sem ekki hafa aðgang að tölvu geta mætt á skrifstofu Bárunnar og kosið. Félagsmenn fara inn á heimasíðu Starfsgreinasambandsins, www.sgs.is og smella á „Kjarasamningar 2015“. Þar er hægt að greiða atkvæði með því að nota lykilorðið sem er fremst í bæklingnum.  Þeir félagsmenn sem starfa á almenna markaðnum en fá ekki sent lykilorð geta haft samband við Báruna, stéttarfélag til að kæra sig inn á kjörskrá.  Nánari upplýsingar í síma 480-5000.

Atkvæðagreiðsla

Ályktun miðstjórnar ASÍ um stöðu mála í mjólkuriðnaði

Stjórnvöld hafa í samstarfi við bændur og afurðastöðvar gert miklar breytingar á starfsskilyrðum mjólkurframleiðslunnar. Það hefur löngum verið skoðun miðstjórnar ASÍ að núverandi fyrirkomulag í mjólkuriðnaði sé hvorki besta leiðin til að bæta hag neytenda né að það skapi næga hvata fyrir framleiðendur til þess að auka samkeppnishæfni, framleiðni og lækka vöruverð. Þvert á móti hefur núverandi fyrirkomulag komið í veg fyrir að virkja þá hvata sem leiða til heilbrigðrar samkeppni sem kemur öllum til góðs. Nýleg dæmi, þar sem MS hefur kerfisbundið komið í veg fyrir innkomu nýrra aðila á markað gert stórum aðilum kleift að nýta, og í mörgum tilfellum misnota, sér markaðsráðandi stöðu til að koma í veg fyrir samkeppni.

 

Alþýðusamband Íslands hefur ítrekað ályktað að aukinn innflutningur landbúnaðarvara, minnkun framleiðslutengdra styrkja og afnám opinberrar verðlagningar geti bæði aukið framleiðni og samkeppnishæfni mjólkuriðnaðar og skilað ábata til framleiðenda og jafnt verið eina vörn sem neytendur hafa gegn þessum einokunartilburðum. Vert er að árétta að þessum sjónarmiðum hélt fulltrúi ASÍ fram árið 2003 í nefnd sem skipuð var af þáverandi landbúnaðarráðherra og hafði það hlutverk að móta nýja stefnu fyrir mjólkurframleiðslu hér á landi. Það voru hins vegar mikil vonbrigði þegar samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu var loks undirritaður í kjölfarið að lítið tillit hafði verið tekið til tillagna mjólkurnefndarinnar. Miðstjórn ASÍ gagnrýndi þetta harðlega á sínum tíma.

Frá þeim tíma hefur mjólkurframleiðsla verið undanþegin samkeppnislögum en Alþingi ákvað í kjölfar gagnrýni ASÍ að viðhalda aðhaldshlutverki Verðlagsnefndar mjólkurframleiðslu, en takmarkaði umboð hennar verulega. Afleiðingin hefur verið veruleg samþjöppun í mjólkuriðnaði á meðan aðhald í formi erlendrar samkeppni hefur verið í lágmarki og í reynd nánast engin. Framleiðni í íslenskum mjólkuriðnaði er lág í alþjóðlegum samanburði og meðalnyt kúa mun lægri hér á landi en í nágrannalöndum.  Segja má að varnaðarorð fulltrúa ASÍ frá nefndarstarfinu árið 2003 hafi orðið að veruleika. Þrátt fyrir að Verðlagsnefnd mjólkurafurða hafi haldið aftur að verðþróun á mjólkurafurðum undanfarin áratug er ljóst að mjólkuriðnaðurinn stendur frammi fyrir verulegum breytingum bæði hvað varðar stuðning hins opinbera og innra skipulag.  Þannig hafa mjólkurframleiðendur krafist frjálsrar verðmyndunar á hrámjólk til bænda og að dregið verði úr framleiðslustýringu, en samhliða því hefur verið vaxandi óánægja meðal neytenda um meinta einokunartilburði mjólkuriðnaðarins gagnvart nýsköpun í greininni.

Nú er svo komið að miðstjórn ASÍ og stjórn BSRB hafa sameiginlega lýst því yfir, að samböndin muni hætta allri þátttöku í Verðlagsnefnd mjólkurafurða.  Jafnframt er það krafa miðstjórnar ASÍ að allur mjólkuriðnaðurinn, frá framleiðendum til smásöludreifingar, verði felldur undir ákvæði samkeppnislaga og lúti sömu reglum og önnur atvinnustarfsemi, þmt. ákvæði um takmörkun á áhrifum og umfangi markaðsráðandi aðila.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Atkvæðagreiðsla um nýjan samning við SA

Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins verður með rafrænum hætti og fer fram frá kl. 8:00 föstudaginn 12. júní til kl. 12:00 mánudaginn 22. júní nk. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar verða kynntar eftir hádegi 22. júní.

Allir félagsmenn eru á kjörskrá í atkvæðagreiðslunni. Þeir sem ekki hafa aðgang að tölvu geta kosið á skrifstofum síns félags. Félagsmenn fara inn á heimasíðu Starfsgreinasambandsins (www.sgs.is) og smella á „Kjarasamningar 2015“ á forsíðunni. Þar getur viðkomandi greitt atkvæði með því að nota lykilorðið sem hann fær sent í pósti.

Allir kosningabærir félagsmenn fá sendan kynningarbækling í pósti í tengslum við atkvæðagreiðsluna, en bæklingurinn inniheldur m.a. lykilorð viðkomandi.

Kjarasamningar 2015

Kynning á kjarasamningum

Báran, stéttarfélag og Verslunarmannafélag Suðurlands halda kynningarfund vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem undirritaðir voru þann 26. maí sl. Fundurinn verður haldinn á Hótel Selfossi næstkomandi mánudag þann 8. júní og hefst kl. 19:00.

Eitthvað nart verður á borðum.

Félagsmenn, mætum og kynnum okkur málin.

 

Samningur og kynningarefni

 

MEGINKRÖFUR Í HÖFN

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur undirritað nýjan kjarasamning vegna starfa á hinum almenna vinnumarkaði. Í upphafi viðræðna fór Starfsgreinasambandið fram með þá skýru kröfu að lágmarkslaun yrðu 300 þúsund krónur innan þriggja ára. Auk þess var lögð áhersla á sérstakar hækkanir hjá starfsfólki í útflutningsgreinum. Órofa samstaða og kraftur félagsmanna í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins skilaði því skýra markmiði sem lagt var upp með í upphafi um  hækkun lægstu launa. Markmið SGS um 300 þúsund króna lágmarkslaun er orðið að veruleika. 

Það var mat samninganefndarinnar að lengra yrði ekki komist eftir hörð átök og eðlilegt að bera samninginn upp til atkvæða meðal félagsmanna. Næstu tvær vikurnar verður samningurinn kynntur í aðildarfélögum SGS og skal niðurstaða atkvæðagreiðslu liggja fyrir 22. júní.

Gildistími samningsins er frá 1. maí 2015 til 31. desember 2018. Hækkanir launa koma til framkvæmda 1. maí ár hvert, alls fjórum sinnum. Frá 1. maí 2018 er lágmarkstekjutrygginin 300 þúsund krónur. Taxtar hækka svo: 1. maí 2015 um 25.000 krónur, 1. maí 2016 um 15.000 krónur, 1. maí 2017 um 4,5% og 1. maí 2018 um 3%. Að auki eru byrjunarlaunaflokkar færðir upp í 1 árs þrep og neðstu launaflokkar eru óvirkjaðir. Launafólk getur því færst til í taxtakerfinu og hækkað þannig í launum umfram það sem hækkanir taxta segja til um, mest hækkar fólk í neðstu þrepunum.

Almennar hækkanir verða 3,2-7,2% við undirritun samnings, prósentuhækkunin fer lækkandi eftir hærri tekjuþrepum. Árið 2016 (1. maí) er almenn hækkun 5,5%, árið 2017 er almenn hækkun 3% og ári síðar 2%.

Lágmarkstekjutryggingin hækkar í fjórum þrepum, verður 245.000 krónur við undirritun samnings, 260.000 árið 2016, 285.000 árið 2017 og 300.000 árið 2018 eins og áður greinir.

Orlofs og desemberuppbætur fara stighækkandi næstu þrjú árin, samtals 23.900 innan þriggja ára eða rúmlega 20%.

Fiskvinnslufólk hækkar sérstaklega og m.a. með tveggja flokka launahækkun til handa þeim sem starfað hafa hvað lengst við fiskvinnslu.  Einnig tókst að tryggja lágmarksbónus í fiskvinnslu sem hefur verið baráttumál SGS frá því hóplaunakerfi var tekið upp í fiskvinnslu. Þar að auki hækkar bónus í fiskvinnslu til viðbótar almennum launahækkunum.

Tekið af heimasíðu SGS

Aðgerðir ríkissstjórnarinnar

Ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðir í 11 liðum til að greiða fyrir kjarasamningum en stefnt er að undirritun samninga Starfsgreinasambandsins, Flóabandalagsins og verslunarmannafélaganna við SA milli klukkan 14 og 15 í dag. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar er svohljóðandi:

Aðgerðir í 11 liðum vegna kjarasamninga

  • Breytingar á tekjuskatti leiða til hækkunar á ráðstöfunartekjum allra launþega
  • Heildarlækkun á tekjuskatti einstaklinga á kjörtímabilinu allt að 16 milljarðar
  • Átak um byggingu 2300 félagslegra íbúða
  • Komið til móts viðefnaminni leigjendur og þá sem kaupa fyrstu íbúð

Aukið samstarf við aðila vinnumarkaðar með stofnun þjóðhagsráðs
Ríkisstjórn Íslands samþykkti í dag ráðstafanir í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Aðgerðirnar eru í 11 liðum og lúta að ýmsum sviðum skatta- og velferðar- og húsnæðismála sem og úrbótum á sviði hagstjórnar og opinberra fjármála. Mikilvæg forsenda fyrir ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar er að kjarasamningar á almennum og opinberum markaði leiði ekki til óstöðugleika í efnahagsmálum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar taka mið af því að í fyrirhuguðum samningum á almennum vinnumarkaði er hugað sérstaklega að þeim tekjulægstu og að lágmarkslaun hækki í 300 þúsund krónur á samningstímanum.

Ríkisstjórnin mun meðal annars beita sér fyrir breytingum á tekjuskatti einstaklinga sem munu leiða til hækkunar á ráðstöfunartekjum allra launþega, en þó sérstaklega millitekjuhópa. Sem dæmi má nefna að ráðstöfunartekjur um 65% fullvinnandi launamanna munu aukast um 50 þúsund eða meira á ári og ráðstöfunartekjur launþega með meðaltekjur munu aukast um tæpar 100 þúsund á ári. Breytingarnar munu einnig leiða til einföldunar tekjuskattkerfisins og aukins gagnsæis og skilvirkni, en skattþrepum verður fækkað úr þremur í tvö. Þá mun persónuafsláttur hækka til samræmis við verðlagsbreytingar.
Með aðgerðunum mun heildarlækkun á tekjuskatti einstaklinga því nema um allt að 16 milljörðum króna á kjörtímabilinu. Það samsvarar tæpum 13% af tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga miðað við áætlun fjárlaga 2015.

Ríkisstjórnin skuldbindur sig einnig, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins, til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Þannig verði stuðlað að fjölgun ódýrra og hagkvæmra íbúða með það að markmiði að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma og ráðist í átak um byggingu 2.300 félagslegra íbúða á tímabilinu 2016-19.

Einnig verði stuðlað að lækkun byggingarkostnaðar, meðal annars með endurskoðun byggingarreglugerðar og gjaldtöku sveitarfélaga. Húsnæðisbætur verði hækkaðar til að styðja við almennan leigumarkað og lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda og skattlagningu breytt í þeim tilgangi að lækka leiguverð og auka framboð á leigumarkaði. Þá verði komið sérstaklega til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð, m.a. með því að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignarsparnað til þess. Unnið verður að framangreindum markmiðum í samráðshópi ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka aðila á vinnumarkaði með hliðsjón af fyrirliggjandi vinnu stjórnvalda við umbætur á húsnæðismarkaði  og hugmyndum sem komið hafa upp í samráðshópnum.

Í því skyni að bæta samspil ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar lýsir ríkisstjórnin sig reiðubúna að stofna sérstakt þjóðhagsráð þar sem aðild eigi oddvitar ríkisstjórnar og fulltrúar Seðlabankans, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins.

Aðrar aðgerðir lúta að jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða, niðurfellingu tolla á fatnað og skó, lækkun á kostnaði sjúklinga, auknum framlögum til framhaldsfræðslu og starfsmenntunar, átaki gegn skattaundanskotum, einföldun og endurskoðun regluverks og eftirlits með atvinnustarfsemi, stefnumörkun í opinberum fjármálum og samstarfi um mótun vinnumarkaðsstefnu og skipulag vinnumarkaðsmála.

Tekið af heimasíðu SGS

SGS FRESTAR VERKFÖLLUM – VIÐRÆÐUR HAFNAR

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands (Bárunnar, stéttarfélags) hefur gengið frá samkomulagi við Samtök atvinnulífsins um að fresta fyrirhuguðum verkföllum um sex daga.  Ljóst er að viðræður eru hafnar af fullum þunga og það er mat samninganefndarinnar að gefinn skuli tími til að reyna til þrautar um að samningar náist. Kröfugerð Starfsgreinasambandsins er sem fyrr grundvöllur áframhaldandi viðræðna.

Frestun verkfalla verður sem hér segir:

Verkfalli 28. og 29. maí er frestað til 3. og 4. júní.

Ótímabundnu verkfalli 6. júní er frestað til 12. júní.