Við vinnum fyrir þig

Translate to

Formannafundur afstaðinn

Formenn og varaformenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins hittust á tveggja daga fundi á Ísafirði dagana 9. og 10. september. Til umfjöllunar voru hefðbundin mál  og dagskrá vetrarins en auk þess var sérstaklega fjallað um vinnustaðaeftirlit og mansal á vinnumarkaði. Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ fjallaði um verkefni sambandsins og stéttarfélaga í vinnustaðaeftirliti og kom fram sterkur vilji til að efla það enn frekar um allt land. Snorri Birgisson sérfræðingur hjá lögregluyfirvöldum fjallaði um mansalsmál á vinnumarkaði. Starfsgreinasambandið er með fulltrúa í samráðshópi á vegum innanríkisráðuneytisins sem stendur fyrir fræðslufundum um mansalsmál. Slíkir fundir eru á dagskrá í vetur víða um land til að stefna saman lögregluyfirvöldum, félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisstarfsfólki og verkalýðsfélögum til að fræðast og koma á samstarfi ef grunur vaknar um mansal.

Fjárlagafrumvarpið var til umfjöllunar og var samþykkt ályktun á fundinum sem fyrstu viðbrögð SGS:

„Formannafundur Starfsgreinasambandsins mótmælir harðlega þeirri herferð sem ríkisstjórnin er í gegn atvinnulausum og öðru tekjulágu fólki og birtist í nýju fjárlagafrumvarpi. Skerðing á bótatíma atvinnulausra er afturhvarf til fortíðar. Með hækkun á matarskatti er verið að velta álögum frá tekjuhæsta fólkinu yfir á lágtekjufólk. Formenn og varaformenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins sem nú funda á Ísafirði munu berjast hart gegn öllum þeim áformum sem birtast í frumvarpinu og verða til þess að rýra enn afkomu almenns launafólks og sérstaklega þeirra tekjulægstu.“

Tekið af heimasíðu SGS

Formenn lýsa þungum áhyggjum af ferðaþjónustunni

Fram kom í máli margra formanna sem sátu samninganefndarfund hjá Starfsgreinasambandinu á fimmtudaginn var, að ástandið í kjaramálum fólks sem starfar innan ferðaþjónustunnar hefur aldrei verið jafn slæmt. Í sumar hafa komið óvenju mörg mál inn á borð stéttarfélaganna sem fjalla um að ekki eru greidd laun samkvæmt kjarasamningum. Einn fundarmanna gekk svo langt að segja: „Það er varla að það komin inn launamanneskja með rétt laun í veitingabransanum.“ Fundarmenn voru sammála um að ekki væri endilega um að ræða svik og pretti heldur væru atvinnurekendur oft illa upplýstir um kjarasamninga og leita sér ekki réttra upplýsinga.

Algengt er að greitt sé vaktaálag í stað yfirvinnu þó að ekki sé um eiginlegar vaktir að ræða. Jafnaðarkaup er algengt þar sem ekki er gerður greinarmunur á dagsvinnu og yfirvinnu og jafnvel eru þess dæmi að starfsfólk sé á dagvinnukaupi á kvöldin og um helgar. Þá er svört vinna allt of tíð og sömuleiðis að ekki sé skilað af fólki gjöldum í stéttarfélög, lífeyrissjóði, starfsmenntasjóði, sjúkrasjóði o.s.frv.. Slíkt rýrir réttindi starfsfólks verulega og dæmi eru um að fólk sé jafnvel ekki tryggt í vinnunni. Atvinnurekendur verða að gera sér grein fyrir því að þá eru þeir skaðabótaskyldir ef eitthvað kemur fyrir.

Verkalýðsfélög um allt land hafa staðið í ströngu við að reikna út rétt laun, sækja leiðréttingar fyrir starfsfólk, heimsækja vinnustaði og upplýsa launagreiðendur og starfsfólk um þá samninga sem gilda á vinnumarkaði. Fjölmiðlaumræðan í sumar hefur hjálpað mikið til enda er forsenda þess að fólk leiti réttar síns að það viti að á því sé brotið.

Á samninganefndarfundinum var rætt um aðgerðir og ljóst er að upplýsingaátak þarf til fyrir atvinnurekendur og bera atvinnurekendasamtök þar þunga ábyrgð. Þá var einnig velt vöngum yfir því hvernig hægt er að bæta kjarasamninga á ferðaþjónustu- og veitingageiranum og hvort tími sé til kominn að einfalda þá þannig að einungis sé heimilt að greiða dagvinnu og yfirvinnu en ekki vaktavinnu. Þetta verður tekið til umræðu við kröfugerð í aðdraganda kjarasamninga í haust. Sem heild á atvinnugreinin erfitt með að standa samninga þó vissulega séu margir atvinnurekendur sem leggja metnað sinn í að vera með allt á hreinu.

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS 

Allt að 46% verðmunur á skólabókum

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á nýjum og notuðum skólabókum fyrir framhaldsskóla í bókaverslunum á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku. Farið var í 6 verslanir og skoðað verð á 32 algengum nýjum námsbókum og borið saman innkaups- og útsöluverð á 25 notuðum námsbókum á þremur skiptibókamörkuðum.

Griffill oftast með lægsta verðið 
Af nýjum skólabókum átti A4 Skeifunni til flestar bækur eða 30 af 32, Eymundsson Kringlunni og Griffill Laugardalshöll áttu til 28 titla. Í helmingi tilvika var á milli 30-45% verðmunur á hæsta og lægsta verði verslananna. Griffill var oftast með lægsta verðið á nýjum bókum í þessari verðkönnun en 17 titlar af 32 voru ódýrastir hjá þeim. A4 kom þar á eftir með lægsta verðið á 12 titlum. Eymundsson var oftast með hæsta verðið á nýjum bókum eða á 25 titlum af 32.
Mestur verðmunur í könnuninni af nýjum bókum var á bókinni “Uppspuni: Nýjar íslenskar smásögur“, en bókin var dýrust á 4.299 kr. hjá  Eymundsson en ódýrust á 2.950 kr. hjá Griffli sem er 1.349 kr. verðmunur eða 46%. Minnstur verðmunur var að þessu sinni 7% á enskubókinni “In line for reading“, hún var var dýrust á 1.799 kr. hjá Eymundsson en ódýrust á 1.685 kr. hjá Forlaginu Fiskislóð og A4. 

Mikill munur á verði skiptibókamarkaðanna
Af þeim þremur bókaverslunum sem starfrækja einnig skiptibókamarkað, var A4 oftast með hæsta útsöluverðið á notuðum skólabókum sem skoðaðar voru eða á 19 titlum af 25. Grifill var oftast með lægsta útsöluverðið eða á 18 titlum og Eymundsson á 11. Á skiptibókamörkuðunum var álagningin mest hjá A4, en munur á innkaupsverði og útsöluverði var á bilinu 60-80%. Hjá Eymundsson og Griffli var munurinn á bilinu 30-50%. Í um 40% tilvika er sama innkaups og útsöluverð á notuðum bókum, hjá Griffli og Eymundsson.

Sjá nánari niðurstöður í töflu 

Námsmenn ættu að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört hjá verslunum við upphaf skólaárs. Úrval notaðra bóka á skiptibókamörkuðum var mjög misjafnt eftir verslunum þegar könnunin var gerð en getur breyst með skömmum fyrirvara.

Kannað var verð á nýjum bókum í eftirtöldum verslunum: Bóksölu stúdenta Háskólatorgi, Eymundsson Kringlunni, A4 Skeifunni, Griffli Laugardalshöll, Forlaginu Fiskislóð og Bókabúðinni Iðnú Brautarholti. Kannað var verð á notuðum bókum í eftirtöldum verslunum: Eymundsson Kringlunni, A4 Skeifunni og Griffli Laugardalshöll. 

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum eða við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Einbeittur brotavilji?

Umræður um launamál hafa verið fyrirferðamiklar á síðustu dögum. Mikið hefur borið á kjarasamningsbrotum og hvernig réttindi fólks eru fótum troðin. Undirrituð vill fagna þeirri umræðu sem farin er af stað í fjölmiðlum og ekki síst þeirri vakningu að standa vörð um kaup, kjör og lágmarkskjarasamninga. Opinber rökstudd umræða er til þess fallin að  fleiri þora að koma fram og vilja skoða sína stöðu og fá leiðréttingu sinna kjara. Hér á eftir koma nokkur dæmi úr fjölmiðlum síðustu daga þar sem lítilsvirðing ákveðinna fyrirtækja gagnvart starfsmönnum þeirra er algjör;

„Það sem er sárast við þetta er ekki upphæðin sem þau missa á tímann heldur það sem er verið að kenna börnunum okkar, er þau stíga sín fyrstu skref út á atvinnumarkaðinn, að þetta sé í lagi að svíkja samninga. Þá spyr maður sig hverskonar skilaboð er verið að gefa þeim,“ (mbl.is 14.08 2014).

„Ég fékk uppsagnarbréf í fyrsta skipti á ævinni fyrir að leita réttar míns. Ég hafði bara fengið hrós fyrir mína frammistöðu og fannst gaman að vinna þarna, þannig að mér fannst þetta frekar skítleg framkoma,“ (mbl.is 14.08 2014)

„Það þorði eng­inn að koma með mér, því all­ir voru hrædd­ir um að verða rekn­ir,“ (mbl.is 02.08 2014).

Þessi dæmi eru allt of algeng og virðast vera nokkuð viðloðandi á íslenskum vinnumarkaði því miður. Stéttarfélögin fá mikið af málum á sitt borð og hafa verið ötul að leggja fólki lið í þeim efnum.  Félagsmenn hafa því miður oftar en ekki samband fyrr en ráðingarsambandi er lokið vegna vissrar hræðslu við uppsögn. Miðað við umræðu síðustu daga er það vel skiljanlegt. Sum fyrirtæki virðast ekki vilja gera hlutina samkvæmt leikreglum á vinnumarkaði heldur kjósa þann kost að segja starfsfólki upp ef það leitar réttar síns. Þetta er engum til fyrirmyndar og við verðum að sporna við þessari þróun. Hvernig komumst við fyrir svona vinnubrögð.

Hvað skal gera í þessari stöðu.

  1. Í fyrsta lagi er það skýlaus krafa að farið sé eftir kjarasamningum.
  2. Skriflegur ráðningarsamningur skal gerður eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að starf hefst. (ef starfsmaður er ekki viss um að allt sé í lagi hafa þá samband við trúnaðarmann á vinnustaðum og/eða stéttarfélagið). Þegar um ágreining er að ræða tekur ráðningarsamningurinn af allann vafa.
  3. Kjósa trúnaðarmann á vinnustaðinn ef vinna fleiri en 5 starfsmenn. Lykill að góðu samstarfi milli starfsmanna, atvinnurekanda og stéttarfélags er góður og virkur trúnaðarmaður.
  4. Fá upplýsingar hjá stéttarfélaginu um réttindi og skyldur á vinnumarkaði.

Það er reynsla okkar hjá stéttarfélögunum að oft er þetta skortur á upplýsingum hægt er að leiðrétta hlutina strax áður en einhver missskilningur fer í gang. Góð samvinna milli atvinnurekenda og stéttarfélagann er oft lykilatriði í að koma hlutunum í gott lag eins og dæmin sanna. 

Félögin á Suðurlandi fóru í ákveðna samvinnu við garðyrkjubændur vegna þráláts orðróms um að ekki væri farið eftir kjarasamningum. Félagið hafi undir höndum launaseðil félagsmanns sem fól í sér 5 kjarasamningsbrot. Félagið boðaði fulltrúa félags garðykjubænda á fund og bauð upp á ákveðna samvinnu við að kom hlutunum í lag. Skemmst er frá því að segja að viðbrögð fulltrúa félags garðyrkubænda Bjarna Jónssonar framkvæmdastjóri og Sveins Sælands formanns félags garðyrkjubænda voru alveg til fyrirmyndar. Boðað var til fundar á Flúðum þar sem stéttarfélögin og garðyrkjubændur mættu og fóru yfir málin. Full sátt varð um koma hlutunum í lag og hefur samvinnan verið mjög góð milli aðila.  

Mikið hefur verið hringt til stéttarfélaganna bæði atvinnurekendur og starfsmenn fyrirtækjanna síðan þessi umræða fór af stað í fjölmiðlum. Í flestum tilfellum erum við í góðu samstarfi við atvinnurekendur og erum ávallt fús til þess að aðstoða og  veita upplýsingar eins og þurfa þykir. Að gefnu tilefni vil ég segja við félagsmenn stéttarfélaganna, ef þú ert í einhverjum vafa um þitt ráðningarsamband og ráðningarkjör þín leitaði þá til þíns félags strax.

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.

 

Samningurinn við Sveitarfélögin samþykktur í atkvæðagreiðslu

Starfsfólk sveitarfélaga í 13 aðildarfélögum SGS hafa samþykkt kjarasamninginn sem undirritaður var 1. júlí síðastliðinn í sameiginlegri rafrænni atkvæðagreiðslu. Já sögðu 78,84% en nei sögðu 21,16%. Alls voru 2.515 félagar á kjörskrá en 378 greiddu atkvæði (15% kjörsókn). Starfsgreinsambandið undirritaði kjarasamning í umboði eftirtalinna félaga: AFL – starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining – Iðja, Stéttarfélagið Samstaða, Stéttarfélag Vesturlands, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands og Verkalýðsfélag Vestfirðinga.

Þessi atkvæðagreiðsla er fyrsta rafræna atkvæðagreiðslan sem Starfsgreinasambandið stendur fyrir og tókst í öllum aðalatriðum vel. Vissulega er kjörsókn dræm en sumarfrí geta haft þar mikil áhrif líka. Ekki var annað að sjá en að fólk kunni vel að meta það að geta greitt atkvæði rafrænt.

Atkvæðagreiðslan er hafin

Í hádeginu í dag hófst rafræn atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands við Samband íslenskra sveitarfélaga sem var undirritaður þann 1. júlí sl. Atkvæðagreiðslan  stendur yfir dagana 11. til 22. júlí nk.   Atkvæðagreiðslan  er með rafrænum hætti og fer hún fram á vef SGS.  Í vikunni voru send bréf til allra kosningabæra aðila þar sem má m.a. finna leiðbeiningar um rafrænu atkvæðagreiðsluna. Með bréfinu fylgir jafnframt kynningarbæklingur um samninginn.  

Lendi einstaklingar í vandræðum með að greiða atkvæði eru þeir hvattir til að hafa samband við skrifstofu SGS eða Báruna, stéttarfélag . 

Kosningavefur Starfsgreinasambandsins

Atkvæðagreiðsla vegna nýs kjarasamnings við sveitarfélögin

Dagana 11. – 22. júlí næstkomandi fer fram atkvæðagreiðsla vegna nýs kjarasamnings SGS við Samband íslenskra sveitarfélaga, sem undirritaður var þann 1. júlí sl. Í þetta skiptið verður atkvæðagreiðslan með rafrænum hætti og fer hún fram á vef Starfsgreinasambandins, www.sgs.is. Í vikunni var sent bréf til allra ksningarbæra aðila þar sem má m.a. finna leiðbeiningar um rafrænu atkvæðagreiðsluna. Með bréfinu fylgir jafnframt kynningarbæklingur um samninginn.

Þeir starfsmenn sem samningurinn nær til eru hvattir til að kynna sér samninginn vel og umfram allt taka afstöðu og greiða atkvæði um nýgerðan samning. Lendi einstaklingar í vandræðum með að greiða atkvæði eru þeir hvattir til að hafa samband við skrifstofu SGS eða Báruna stéttarfélag.

Hér að neðan má nálgast kjarasamninginn í heild sinni, nýja kauptaxtaskrá sem og áðurnefnan kynningarbækling á rafrænu formi.

Kjarasamningur SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga

Kauptaxtar SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga

Kynningarbæklingur vegna nýs kjarasamnings

 

Tilvísun á kosningavef SGS

Er vinnuveitandi þinn rétti aðilinn til að passa upp á réttindi þín?

Kæri launþegi. Já, ég er að skrifa til þín sem þiggur laun frá öðrum en sjálfum þér.

Hvað fyndist þér um það ef atvinnurekandinn þinn gerði kröfu um að þú kysir ákveðinn stjórnmálaflokk? Eða gerði það að kröfu að þú framvísaðir ákveðnu flokksskírteini þegar þú sæktir um vinnu hjá honum? Styddir ákveðið íþróttafélag eða verslaðir bara í ákveðinni verslun? Hann léti jafnvel í það skína að það gæti komið sér illa fyrir þig að samþykkja ekki þessar kröfur. Myndir þú sætta þig við það?

Tæplega, enda vandséð að sú staða gæti komið upp í dag. Það er löngu liðin tíð, ekki satt? Fæst viljum við láta ráðskast með okkur á þennan hátt. Við viljum hafa frelsi til að taka þessar ákvarðanir sjálf á okkar eigin forsendum. Það er hinn eðlilegi gangur í lýðræðissamfélagi.

En hvað ef atvinnurekandi þinn vill ráða því í hvaða stéttarfélag þú greiðir? Er það í lagi? Hvað finnst þér um það?

Skoðum það aðeins.

Nokkuð hefur borið á því meðal fyrirtækja á félagssvæðum félaganna að ýmist er hótað eða reynt að flytja starfsmenn yfir í stéttafélög sem ekki hafa samningsumboð á svæðinu. Slíkt kemur í flestum tilvikum upp í kjölfar afskipta stéttarfélaganna af kjaramálum starfsmanna. Tilgangurinn er aðeins einn; að losna við afskipti viðkomandi stéttarfélags. Stéttarfélög hafa þær lögboðnu skyldur að gæta að og fylgja því eftir að kjarasamningar séu virtir. Það er hinsvegar afstaða sumra atvinnurekenda að með afskiptum sínum séu stéttarfélögin að hafa afskipti af rekstri fyrirtækjanna. Það eru í það minnsta rökin sem við starfsmenn stéttarfélaganna að fáum að heyra. Að telja samningsbrot eðlilegan þátt í rekstri fyrirtækis hlýtur að teljast einkennileg afstaða.

Bara svo því sé haldið til haga; atvinnurekanda er það óheimilt að taka svona ákvörðun fyrir hönd starfsmanna sinna. Við getum gengið svo langt að segja að það sé ekki mál atvinnurekandans hverjum launþeginn treystir best til að gæta hagsmuna sinna. Og líka þetta:  Ekki er heimilt að greiða til stéttarfélags sem ekki hefur samningsumboð á viðkomandi svæði. Svo einfalt er það. Það má til dæmis nefna að VR hefur ekki samningsumboð á félagssvæði Verslunarmannafélags Suðurlands frekar en Verslunarmannafélag Suðurlands geti gert samninga fyrir hönd félagsmanna VR. Efling, stéttarfélag hefur ekki samningsrétt á félagssvæði Bárunnar og svo framvegis.

Í lögum félaganna er skýrt kveðið á um hvað telst félagssvæði stéttarfélags og hvaða skyldur og réttindi fylgja í þeim efnum. Atvinnurekendur eru ekki undanþegnir því að hlýta lögum, frekar en aðrir. Við hvetjum atvinnurekendur og launþega sem eru að velta þessum málum fyrir sér að kynna sér  lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 og að kynna sér í framhaldinu hvaða stéttarfélög hafa samningsumboð á svæðinu. Það er yfirleitt fyrsta greinin í félagslögunum.

Þetta getur valdið launþeganum töluverðum skaða. Launþegi sem fluttur er milli félaga getur tapað áunnum réttindum úr sjóðum félaganna og getur einnig lent í því að það er enginn sem hefur heimild til að vinna fyrir hann eða reka mál fyrir hans hönd ef upp kemur ágreiningur um laun eða kjör. Launþeginn situr uppi með tapið ef á honum er brotið en launagreiðandinn kemst upp með að brjóta á viðkomandi. Og fleirum í sömu stöðu. Taktu afstöðu félagi og láttu ekki snuða þig um það sem þú hefur rétt til.

Samið við sveitarfélögin

Þann 1. júlí sl. undirritaði Starfsgreinasamband Íslands samninga við Samband Íslenskra sveitarfélaga í  fyrir hönd aðildarfélaga sinna m.a. Bárunnar stéttarfélags.

Samningurinn gildir frá 1. maí 2014 til 30. apríl 2015 og koma launahækkanir í tveimur skrefum þannig að fyrsta hækkun gildir frá 1. maí 2014 og síðan verða aftur breytingar á launatöflu um áramótin 2014/2015. Breytingar voru gerðar á tengitöflu og launatöflu þannig að misjafnt er hvernig hækkanirnar koma út hjá einstaka starfsfólki en krónutöluhækkanirnar á tímabilinu eru frá tæplega 10.000 krónum upp í 28.000 krónur á mánuði. Til að dreifa hækkuninni með sem sanngjörnustum hætti var starfsmatinu breytt þannig að færri stig þarf nú til að hækka um launaflokk. Kynningarefni með dæmum verður sent von bráðar á félagsmenn. Desemberuppbót hækkar um 15,9%, og verður á árinu 93.500 krónur og framlag sveitarfélaganna í starfsmenntunarsjóði hækkar einnig um 0,1% eins og í öðrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið á árinu.

Ákveðið var að halda sameiginlega rafræna atkvæðagreiðslu og skal henni lokið fyrir 22. júlí næstkomandi. Félagar fá sent heim kynningaefni og lykilorð vegna hennar.

Samninginn í heild sinni má nálgast hér.