Við vinnum fyrir þig

Translate to

Ályktun frá stjórn Bárunnar vegna fjárfestingastefnu Festu, lífeyrissjóðs

Báran sendi fulltrúa sína á aðalfund Festu lífeyrissjóðs og tóku þeir virkan þátt í umræðum á fundinum. Eitt helsta hitamálið á fundinum var fjárfestingastefna lífeyrissjóðsins. Allmargir komu upp og töldu óeðlilegt að lífeyrissjóður í eigu láglaunafólks væri að fjárfesta í fyrirtækjum þar sem firring væri ríkjandi og stjórnendur gerðu launakröfur sem næmu jafnvel nokkrum árslaunum verkafólks.

Stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum upplýsti um að stjórn Festu hefðu komið sér saman um hluthafastefnu þar sem tekið væri á þessum málum. Einnig steig formaður stjórnar í pontu og lýsti því yfir skýrt og skorinort að auðvitað ætti Festa lífeyrissjóðs ekki að taka þátt í svoleiðis rugli, svo notuð séu hans eigin orð.

Í framhaldi af þessum aðalfundi sendi stjórn Bárunnar frá sér eftirfarandi ályktun:

Stjórn Bárunnar, stéttarfélags vekur athygli á og fagnar nýrri hlutafélagastefnu sem stjórn Festu lífeyrissjóðs kynnti á aðalfundi 13. maí síðastliðinn.

Í hlutafélagastefnunni kemur skýrt fram að Festa lífeyrissjóður mun ekki fjárfesta í né leggja fé til þeirra fyrirtækja þar sem rekin er ofurlaunastefna eða bónusgreiðslur til stjórnenda.

Í hluthafastefnunni kemur fram að Festa lífeyrissjóður geri kröfu til að fyrirtæki, sem sjóðurinn fjárfesti í, sýni ábyrgð gagnvart samfélagslegum gildum og að starfskjör stjórnenda séu í hófi og séu í samræmi við þau starfskjör sem almennt séu í boði á þeim markaði sem fyrirtækið starfar á.

Stjórn Bárunnar fagnar einnig orðum stjórnarformanns á aðalfundinum þar sem skýrt kom fram að ekki stæði til að taka þátt í þeirri firringu sem ríkir meðal stjórnenda sumra  fyrirtækja um leið og almennum starfsmönnum er neitað um sómasamleg laun.

Stjórn Bárunnar stéttarfélags álítur til að með þessu hafi Festa lífeyrissjóður gengið fram fyrir skjöldu og sýni ábyrgð sem fleiri aðilar sem höndla með almannafé megi taka sér til fyrirmyndar.

Selfossi 21. maí 2013

Halldóra endurkjörin

Aðalfundur Bárunnar, stéttarfélags var haldinn í gærkvöldi, mánudaginn 5. maí.

Fjölmenni var og setið í hverju sæti í sal og fram á gangi. Venjuleg aðalfundarstörf tóku eðlilega mestan tíma. Formaður las sína skýrslu og þar kom meðal annars fram að það fjölgar jafnt og þétt í félaginu og starfsemin er vaxandi. Mikil áhersla hafi verið lögð á að efla trúnaðarmannakerfi félagsins og skapa tengsl við vinnustaði og atvinnurekendur. Ársreikningar félagsins voru kynntir og lagðir fyrir fundinn. Nokkur umræða skapaðist um reikningana en rekstur félagsins stendur í miklum blóma og gefur félaginu aukið svigrúm í þjónustu sinni við félagsmenn. Í því ljósi lagði stjórn fram ákveðnar tillögur fyrir fundinn um breytingar á reglugerð sjúkrasjóðs. Þar var ákveðið að bæta í ýmsa styrki og að auki kemur inn nýr liður varðandi tannlæknakostnað. Einnig kom fram að félagið hugar að kaupum á einu orlofshúsi til viðbótar en mikil ásókn er í þessi hús og fer vaxandi. Stjórn Bárunnar hefur líka ákveðið að halda verði niðri til hagsbóta fyrir félagsmenn en verð á gistingu hefur ekki verið hækkað síðustu fjögur ár. Þess má geta að ársreikningar eru aðgengilegir á skrifstofu félagsins.

Stærsta mál fundarins var þó kosning um formann. Sitjandi formaður bauð sig fram til endurkjörs en einnig barst framboð frá Vernharði Stefánssyni mjólkurbílstjóra. Frambjóðendurnir fluttu ágætar framboðsræður og síðan var gengið til kosninga. Niðurstaðan varð sú að Halldóra var endurkjörin formaður til næstu tveggja ára. Greinilegt var á þessari góðu fundarsókn að félagsmenn láta sig félagið miklu varða og vilja taka virkan þátt í að móta og fylgja eftir stefnu félagsins. Einn stjórnarmaður gekk úr stjórn, Loftur Guðmundsson en hann heldur til nýrra starfa í öðru landi og getur því ekki helgað félaginu krafta sína lengur. Stjórn og starfsmenn Bárunnar þakka Lofti fyrir gott samstarf. En maður kemur í manns stað og í hans stað tekur sæti í stjórninni Jón Þröstur Jóhannesson en hann hefur verið varamaður í stjórn.

Frábærum aðalfundi lauk síðan með skemmtilegu uppistandi Sólmundar Hólm en hann á ættir að rekja til Hveragerðis. Hann náði upp frábærri stemmningu og flestir héldu brosandi út í vorkvöldið og vonandi sáttir við niðurstöður fundarins.

Minnum á aðalfund Bárunnar, stéttarfélags

Aðalfundur Bárunnar, stéttarfélags verður haldinn mánudagskvöldið 5. maí nk. í
húsakynnum félagsins að Austurvegi 56, 3. hæð, Sefossi.  Fundurinn hefst kl. 19:00.

Dagskrá
 1. Venjuleg aðalfundarstörf 
 2. Breytingar á reglugerð sjúkrasjóðs 
 3. Önnur mál 

Boðið verður upp á veitingar. Aðalfundargestir  taka þátt í happdrætti. Þegar hefðbundnum
aðalfundarstörfum lýkur ætlar Sólmundur Hólm  Sólmundarson útvarpsmaður og eftirherma að skemmta aðalfundargestum.

Stjórn Bárunnar, stéttarfélags

Fjölmenni í 1. maí göngu

Fjöldi fólks tók þátt í kröfugöngu dagsins á Selfossi sem lagði upp frá Austurvegi 56, klukkan 11 í morgun í blíðskaparveðri. Gangan var upphafið að hátíðahöldum á baráttudegi verkalýðsins á Selfossi. Lúðrasveit Selfoss og félagar úr hestamannafélaginu Sleipni fóru fyrir göngumönnum og gengu fylktu liði að Hótel Selfossi þar sem hátíðarhöldin fóru fram.

Ögmundur Jónasson fyrrverandi formaður BSRB hélt hátíðarræðu dagsins og Mjöll Einarsdóttir fulltrúi eldri borgara á Selfossi tók síðan við. Milli atriða flutti Karlakór Selfoss lög í tilefni dagsins. Unga kynslóðin kunni vel að meta Sveppa og Villa sem héldu uppi miklu stuði. Stéttarfélögin buðu börnum í stuttan reiðtúr í hestagerði og pylsur bakvið hótelið og blöðrurnar hennar Marie vöktu mikla lukku að venju meðal þeirra yngstu. Félagar úr Bifreiðaklúbbi Selfoss sýndu einnig stórglæsilega fornbíla.  Um 600 manns mættu í kaffi.

Stéttarfélögin þakka öllum þeim sem tóku þátt og óska öllum til hamingju með daginn.

P1000656 P1000736 P1000724

 

 

Hátíðardagskrá 1. maí á Selfossi

Hátíðarganga við undirleik Lúðrasveitar Selfoss hefst kl. 11:00. Félagar í Sleipni fara fyrir göngunni á hestum. Lagt verður af stað frá húsi stéttarfélaganna Austurvegi 56 og gengið að Hótel Selfossi þar sem dagskráin verður haldin innandyra. Boðið verður upp á reiðtúra fyrir börnin fyrir aftan hótelið.

Kynnir: Gils Einarsson

Ræður dagsins:

1. Ögmundur Jónasson fv. formaður BSRB

2. Mjöll Einarsdóttir fulltrúi eldri borgara á Selfossi

 

Sveppi og Villi halda uppi fjörinu fyrir yngri og eldri og Karlakór Selfoss flytur nokkur lög. Félagar úr Bifreiðaklúbbi Selfoss sýna stórglæsilega bíla.  Marie verður með blöðrur fyrir börnin.  Grillaðar verða pylsur fyrir gesti og gangandi.  

Mætum öll með góða skapið og stöndum saman á þessum alþjóðlega baráttudegi verkalýðsins.

 

Formannskjör: Frá Halldóru Sigríði Sveinsdóttur

Aðalfundur hvers félags er ákveðið uppgjör hvers árs bæði hvað varðar innra starf og afkomu félagsins. Kjarasamningar hafa verið umsvifamiklir á líðandi ári og enn er ekki séð fyrir endann á því. Kjarasamningar eru ákveðið ferli sem krefst heilmikillar vinnu. Félagið fór þá leið að senda út kjarakönnun til allra félagsmanna í september síðastliðnum þar sem félagar gátu komið sínum áherslum á framfæri. Samninganefnd félagsins, stjórn og trúnaðarmenn lögðu svo lokahönd á kröfugerðina.  Niðurstaða kjarasamninganna voru því miður langt undir væntingum hins almenna félagsmanns. Enginn skilningur var af hálfu atvinnurekenda á lægstu laununum. Kjarasamningar voru felldir og síðan samþykktir með smá viðbót. Kjarasamningarnir áttu að fela í sér ákveðið samkomulag allra aðila vinnumarkaðarins um sameiginlega og samræmda launastefnu, tilraun til þess að koma böndum á verðbólguna og stöðugleika til framtíðar. Eins og komið hefur fram skrifaði undirrituð ekki undir þetta samkomulag og benti á að launþegar (ekki síst innan ASÍ) væru einir bundnir af þessu því.  Samkomulagið heldur ekki eins og komið hefur á daginn. Nú verður að endurmeta stöðuna. Verkefnið framundan er stórt, viðamikið, þarfnast samvinnu og samstöðu.

Báran, stéttarfélag hefur haft skýra framtíðarsýn á síðastliðnum árum.  Að veita félagsmönnum góða þjónustu, komast til áhrifa innan verkalýðshreyfingarinnar og ekki síst að fjölga trúnaðarmönnum og styrkja stöðu þeirra. Í stuttu máli er þetta að ganga eftir. Trúnaðarmennirnir eru hryggstykki hvers félags og án þeirra værum við ekki á þeirri leið sem við nú erum. Trúnaðarmannakerfi félagsins er mjög virkt. Þetta er þéttur og góður hópur sem stendur þétt við bakið á sínu félagi sem er ómetanlegt.

Félagið hefur lagt áherslur á að vera í sterku samandi við önnur félög á svæðinu. Árangurinn hefur sýnt sig á ýmsan hátt og má þar nefna að tekist hefur að gera 1. maí að öflugum baráttudegi hér á svæðinu.  Dagskráin er fjölskylduvæn og ungt fólk hefur verið duglegt að mæta. Félagsmenn hafa getað komið og hitt starfsfólk stéttarfélaganna.  Félagið hefur í samvinnu við önnur stéttarfélög haldið sameiginleg námskeið fyrir trúnaðarmenn á svæðinu auk trúnaðarmannaráðstefnu. Einnig hafa félögin verið öflug að sýna þingmönnum okkar aðhald með reglulegum opnum fundum með þeim. 

Það er öflugt og gott starfsfólk á Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna sem greitt hefur götu margra félagsmanna sem leitað hafa til félagsins til að fá upplýsingar um kjarasamninga og í mörgum tilfellum hefur félagið aðstoðað við lausn ágreiningsmála.  Eitt af stærri málum á síðustu mánuðum er baráttan við að fá menntun leikskólaliða viðurkennda. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ekki viljað viðurkenna rétt leikskólaliðanna við að fá menntun þeirra metna til launa.  Félagið tók þá ákvörðun að láta reyna á réttinn fyrir Félagsdómi og á niðurstaðan að liggja fyrir á næstu dögum. Ég tel þetta vera mikið réttlætismál og ekki síst þegar um er að ræða hluta af þeirri baráttu að leiðrétta laun kvenna.

Jæja góðir félagar um leið og ég óska öllum gleðilegs sumars vil ég minna á 1. maí hátíðarhöldin en kjörorð dagsins er „Samfélag fyrir alla“.

Aðalfundur félagsins er þann 5. maí nk. kl. 19:00. Mér þætti vænt um að sjá sem flesta félagsmenn mæta á aðalfund.

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.

 

Formannskjör: Frá Vernharði Stefánssyni

Verkalýðsmál hafa alltaf verið mér hugleikin. Ég kýs að líta á þau sem baráttu til lengri tíma eða sem einhverskonar langhlaup. Við sjáum ekki endamarkið en við setjum okkur markmið og reynum að ná þeim.

Ég býð mig fram til formannskjörs í Bárunni Stéttarfélagi. Í gegnum tíðina hef ég verið ötull í verkalýðsmálum. Fyrst sat ég í nokkur ár í stjórn Ökuþórs og síðan í stjórn Bárunnar og þekki því vel til í málefnum verkalýðsfélagana. Ég hef starfað sem bílstjóri hjá Mjólkurbúinu í 20 ár og var trúnaðarmaður þar lengi. Áður vann ég í Sláturfélagi Suðurlands.

Síðustu kjarasamningar fóru í rafræna kosningu sem var til þess fallin að efla þátttöku félagsmanna sem var þó með eindæmum dræm. En af hverju tóku svona fáir þátt? Var það vegna þess að kerfið var ekki í lagi eða var áhugaleysi félagsmanna um kjör sín þess valdandi? Efla þarf félagsvitund fólks. Það getur haft áhrif með því að taka þátt, t.d. með því að mæta á fundi, ræða málin, kjósa fulltrúa félagsins í stjórn og nefndir og greiða atkvæði um kjarasamninga. Á sama hátt gæta þarf vel að þjónustu við félagsmenn. Viðmótið þarf að vera gott og þjónustan lipur. Réttast er að líta á stjórn og starfsmenn þjónustuskrifstofu sem þjóna félagsmanna.

Kjaramálin eru þungamiðja félagsins.  Síðustu kjarasamningar gáfu ekki mikið en eins og oft áður virðast ýmsir hópar ætla að ná umtalsvert meiri hækkunum en verkafólk fékk. Það er því mikið verk framundan við að auka kaupmátt launa verkafólks.

Með baráttukveðju býð ég gleðilegt sumar,

Vernharður Stefánsson

 

 

Minnum á orlofsuppbótina

Orlofsuppbót á að koma til greiðslu með næstu útborgun en þó  er, samkvæmt kjarasamningum, heimilt að fresta greiðslu orlofsuppbótar til 1. júní.

Upphæð orlofsgreiðslu fyrir 100% starfshlutfall er kr. 39.500 eða í samræmi við starfshlutfall.

Launþegar eru hvattir til að fylgjast með því að uppbótin skili sér og snúa sér til stéttarfélags síns ef það gerist ekki.

Aðalfundur Bárunnar, stéttarfélags

Aðalfundur Bárunnar, stéttarfélags verður haldinn mánudagskvöldið 5. maí nk. í
húsakynnum félagsins að Austurvegi 56, 3. hæð, Sefossi.  Fundurinn hefst kl. 19:00.

Dagskrá 
 1. Venjuleg aðalfundarstörf 
 2. Breytingar á reglugerð sjúkrasjóðs 
 3. Önnur mál 

Boðið verður upp á veitingar. Aðalfundargestir  taka þátt í happdrætti. Þegar hefðbundnum
aðalfundarstörfum lýkur ætlar Sólmundur Hólm  Sólmundarson útvarpsmaður og eftirherma að skemmta aðalfundargestum.
Stjórn Bárunnar, stéttarfélags

Ríkissamningurinn samþykktur

Talin hafa verið atkvæði vegna samkomulags um breytingar og framlengingu á kjarasamningi við fjármála og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs við  Starfsgreinasambands Íslands. Samkomulagið var undirritað 1. apríl síðastliðinn og félagar greiddu atkvæði um samkomulagið í póstatkvæðagreiðslu. Samningurinn var samþykktur með 71,5% atkvæða en kjörsókn var 30%.

Í samkomulaginu felst launahækkun um að lágmarki 8.000 krónur fyrir fullt starf á mánuði. Greidd verður eingreiðsla við samþykkt samningsins uppá 14.600 krónur og í apríl 2015 greiðist önnur eingreiðsla að upphæð 20.000 krónur miðað við fullt starf. Lágmarkstekjur fyrir fullt starf eftir 4 mánuði eru 214.000 krónur.

Desemberuppbót verður 73.600 á árinu 2014 og orlofsuppbót verður 39.500 krónur.

Önnur atriði samningsins má kynna sér hérPdf-icon