Við vinnum fyrir þig

Translate to

Jólakveðja

 

 

Starfsfólk Bárunnar, stéttarfélags óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra, gleðilegra jóla með þökkum fyrir samstarfið á liðnu ári.

Við vonum að nýtt ár beri með sér ný tækifæri til sóknar í átt að bættum kjörum í sátt og samlyndi.

Halldóra, Þór, Hjalti, Þórunn og Hugrún

Starfsfólk í fæðingarorlofi á rétt á desemberuppbót

Nokkuð hefur borið á því að starfsfólk í fæðingarorlofi hafi ekki fengið desemberuppbót. Sökum þessa vill Báran, stéttarfélag vekja athygli á að í flestum kjarasamningum er kveðið á um að eftir eins árs starf teljist fjarvistir vegna lögbundins fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning desemberuppbótar.

Desemberuppbót skal greiða ekki síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi í fyrstu viku í desember.

Félagsmenn í fæðingarorlofi eru beðnir að athuga hvort desemberuppbót hafi ekki örugglega skilað sér fyrir 15. desember sl.

Sé svo ekki er rétt að hafa samband við vinnuveitanda eða skrifstofu stéttarfélagsins.

Vinningshafar

Í byrjun desember sl. var dregið  úr innsendum svörum vegna kjörs félagsmanna Bárunnar, stéttarfélags og Verslunarmannafélags Suðurlands um fyrirtæki ársins á Suðurlandi 2012. Vinningshafar eru Hugrún Ásta Elíasdóttir starfsmaður Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og  Þórður Sindri Ólafsson starfsmaður Húsasmiðjunnar á Selfossi. Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar og Guðmundur Gils Einarsson formaður Verslunarmannafélags Suðurlands afhentu þeim í vikunni glæsilegar gjafakörfur frá Sláturfélagi Suðurlands. Stéttarfélögin óska þeim til hamingju og þakka öllum þeim sem tóku þátt.

 

Félagsmenn athugið!

Þjónustuskrifstofa stéttarfélaganna á Suðurlandi verður lokuð frá kl. 14:00 í dag vegna jólagleði starfsmanna. Opið verður með eðlilegum hætti, 08:00 til 16:00, á morgun föstudag.

Laun um jólin

Samkvæmt kjarasamningum ber atvinnurekendum að greiða starfsfólki álag á stórhátíðum, en þeir jóladagar sem eru stórhátíðir teljast:

aðfangadagur eftir kl. 12,

jóladagur,

gamlársdagur eftir kl. 12,

nýársdagur.

Annar í jólum telst auk þess almennur frídagur. Öll vinna á stórhátíðardögum greiðist með tímakaupi, sem er 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Fyrir yfirvinnu á öðrum frídögum skal greiða 80% álag á dagvinnutímakaup eða 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Í vaktavinnu skal greiða 55% vaktaálag á sérstökum frídögum en 90% vaktaálag á stórhátíðardögum samkvæmt samningi við ríki og sveitarfélög.

Frá Sjúkrasjóði

Greiddir verða styrkir og sjúkradagpeningar úr sjúkrasjóði þ. 21. desember nk.

Síðustu forvöð til að skila inn gögnum er til kl. 16:00 miðvikudaginn 19. desember

Þær umsóknir sem berst eftir það munu verða greiddar út í lok janúar.

Þeir sem sótt hafa um styrki eru beðnir um að fylgjast með hvort greiðsla berst. Upplýsingar um styrki veita Hugrún eða Halldóra í s. 480 5000 eða gegnum netfangið baran@baran.is

 

Bónus lægst

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á jólamat í sjö matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri sl. þriðjudag. Kannað var verð á 98 algengum matvörum sem eru í boði fyrir jólahátíðina. Bónus var með lægsta verðið í 36 tilvikum af 98 og Iceland í 29. Hagkaup var með hæsta verðið í 41 tilvikum af 98 og Nettó í 22 tilvikum. Nóatún bætist nú í hóp þeirra verslanna sem neita að taka þátt í verðkönnun ASÍ, Víðir og Kostur Dalvegi, eru hinar.

Flestar vörurnar sem skoðaðar voru að þessu sinni voru fáanlegar í verslunum Hagkaupa eða í 94 tilvikum af 98, Fjarðarkaup áttu til 88 af 98 og Krónan 85. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Samkaupum-Úrvali Akureyri eða aðeins 57 og Bónus og Iceland áttu aðeins til 64. Verðmerkingum var ábótavant hjá Nettó Mjódd en í 14 tilvikum vantaði verðmiða.
 
Mestur verðmunur í könnuninni reyndist á fersku rósakáli sem var dýrast á 498 kr./kg. hjá Nettó en ódýrast á 258 kr./kg. hjá Bónus, verðmunurinn er 240 kr. eða 93%. Mikill verðmunur var einnig á Þykkvabæjar skyndikartöflum 2*500 gr. sem voru dýrastar á 559 kr./st. hjá Hagkaupum en ódýrust á 447 kr./st. hjá Bónus, verðmunurinn er 112 kr. eða 25%.
 
Minnstur verðmunur í könnuninni reyndist vera á SS Birkireyktu hangilæri frá SS með beini, sem var dýrast á 2.399 kr./kg. hjá Hagkaupum en ódýrast á 2.299 kr./kg. hjá Krónunni sem er 4% verðmunur. Aðeins meiri verðmunur var á 600 gr. konfektkassa frá Lindu, sem var dýrastur á 1.599 kr. hjá Nettó en ódýrastur á 1.439 kr. hjá Iceland sem er 11% verðmunur.
 
Sjá nánari upplýsingar í töflu í frétt á heimasíðu ASÍ.
 
Verslanirnar Nóatún, Kostur Dalvegi og Víðir vilja ekki upplýsa um verð
Kannað var verð á 98 matvörum s.s. kjötvörum, mjólkurvörum, kökum, konfekti, drykkjarvörum, grænmeti og ávöxtum. Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru sem það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur/tilboðsverð af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum. Tilboð eru víða í matvöruverslunum nú fyrir hátíðarnar og verðbreytingar tíðar. Neytendur ættu því að vera vel vakandi vilji þeir gera hagstæð innkaup á jólamatnum.
 
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Akureyri, Krónunni Höfða, Nettó Mjódd, Iceland Granda, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Samkaupum-Úrvali Akureyri og Hagkaupum Skeifunni. Verslanirnar Nóatún, Kostur Dalvegi og verslunin Víðir neituðu þátttöku í könnuninni.
 
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
 
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.
 
Tekið af heimasíðu ASÍ
 

Eljan er komin út

Eljan kom út á föstudag og verður dreift til félagsmanna í vikunni. Í þessu síðasta tölublaði ársins er víða komið við. Í haust var haldið ASÍ–UNG þing þar sem rædd voru ýmis mál sem tengjast hagsmunum ungs fólks. Kristín Hlíf Ríkharðsdóttir og Eva Dögg Hjaltadóttir lýsa upplifun sinni af þinginu. Gils Einarsson tók saman ágrip af sögu Mjólkurbús Flóamanna. Húsnæðismál hafa verið mikið í umræðunni og í blaðinu má finna grein um þau mál. Í nóvember mættu um 60 manns á trúnaðarmannaráðstefnu og í blaðinu eru viðtöl við trúnaðarmenn sem mættu á ráðstefnuna. Þar er einnig viðtal við Magnús Ragnar Magnússon trúnaðarmann á Sólheimum í Grímsnesi um jólahaldið og hlutverk trúnaðarmannsins.

 

 

Hótel Selfoss „Fyrirtæki ársins á Suðurlandi 2012“

Hótel Selfoss var í dag valið „Fyrirtæki ársins  á Suðurlandi“ af félagsmönnum Bárunnar, stéttarfélags og Verslunarmannafélags Suðurlands. Niðurstaðan var kynnt á Hótel Selfossi í morgun. Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar og Gils Einarsson formaður VMS afhentu  Ásbirni Jónssyni hótelstjóra viðurkenningarskjal. Einnig fengu starfsmenn blómakörfu við það tækifæri. Fram kom í máli Halldóru og Gils að mannauður er dýrmætasti hluti hvers fyrirtækis og að Hótel Selfoss væri vel að verðlaununum komið.  Könnun var gerð meðal félagsmanna  varðandi aðbúnað, stjórnun, líðan og kjarasamningsbundin réttindi. Fékk Hótel Selfoss flest stig. Í öðru sæti er Húsasmiðjan og í því þriðja er Bónus sem var í efsta sæti í fyrra.

 

 

 Fyrstu fimm sætin:

Hótel Selfoss

Húsasmiðjan, Selfossi

Bónus

Sólheimar ses

MS, Selfossi

Mikill verðmunur á vinsælum bókatitlum

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðsamanburð á jólabókum í 10 bókabúðum og verslunum  víðsvegar um landið sl. mánudag. Kannað var verð á 69 bókatitlum, sem eru í bókartíðindum 2012. Eymundsson, Griffill Skeifunni og bókabúð Máls og menningar Laugavegi töldu það ekki þjóna hagsmunum sínum að verðlagseftirlitið upplýsti neytendur um verð. Þar með er brotin árlöng hefð fyrir því að neytendur geti borið saman verð hjá öllum helstu bóksölum landsins í verðkönnun ASÍ fyrir jólin. Í yfir helmingi tilvika var á milli fjórðungs og helmings verðmunur á hæsta og lægsta verði milli verslana. Lægsta verðið var oftast að finna í Bónus Egilsstöðum eða á 32 titlum af 69. Hæsta verðið var oftast að finna í Bókabúðinni Iðu Lækjargötu eða í 46 tilvikum af 69.

Mikill munur á vöruúrvali

Mikill munur er á vöruúrvali á milli matvöruverslana sem selja bækur og bókabúða.  Af þeim bókatitlum sem könnunin náði til voru flestir þeirra fáanlegir hjá Bóksölu stúdenta Sæmundargötu eða 65 af 69 og Bókabúðin Iða átti 64 titla. Fæstir bókatitlarnir voru fáanlegir hjá Iceland Granda eða 30 af 69, Samkaup-Úrval Hafnarfirði átti 36 titla af 69 og Krónan Granda átti 37.

Mestur verðmunur í könnuninni var á bókinni Ljósmóðirin eftir Eyrúnu Ingadóttur, sem var á lægsta verðinu hjá Krónunni Granda á 3.490 kr. en dýrust hjá Hagkaupum Holtagörðum á 5.790 kr. sem er 2.300 kr. verðmunur eða 66%. Minnstur verðmunur í könnuninni var á bókinni Þar sem mannlífið blómstrar eftir Harald S. Magnússon sem var á lægsta verðinu hjá A4 Skeifunni á 2.490 kr. en dýrust hjá Bókabúðinni Iðu á 2.695 kr. sem er 8% verðmunur.

Mikill verðmunur á vinsælum titlum

Sem dæmi um töluverðan verðmun á vinsælum titlum fyrir jólin má nefna að skáldsagan Kuldi eftir Yrsu Sigurðardóttur var ódýrust á 3.890 kr. hjá A4 en dýrust á 5.590 kr. hjá Forlaginu Fiskislóð, verðmunurinn er 1.700 kr. eða 44%. Einnig var mikill verðmunur á unglingabókinni Aþena – að eilífu kúmen eftir Margréti Örnólfsdóttur sem var ódýrust á 2.885 kr. hjá Bónus en dýrust á 4.290 kr. hjá Bókabúðinni Iðu Lækjargötu sem er 49% verðmunur. Ævisagan Appelsínur frá Abkasíu eftir Jón Ólafsson var ódýrust á 4.781 kr. hjá Bónus en dýrust á 5.990 kr. hjá Bókabúðinni Iðu sem er 25% verðmunur. Einnig má nefna að bókin Frábært hár eftir Írisi Sveinsdóttur var ódýrust á 2.997 kr. hjá Iceland en dýrust á 4.699 kr. hjá Hagkaupum sem er 57% verðmunur.

Sjá töflu í frétt á heimasíðu ASÍ

Eymundsson, Griffill og Mál og menning Laugavegi neituðu þátttöku í könnuninni.

Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum á sama tíma: Forlaginu Fiskislóð, A4 Skeifunni, Bóksölu Stúdenta Sæmundargötu, Bókabúð Iðu Lækjargötu, Iceland Granda, Nettó Akureyri, Hagkaupum Holtagörðum, Bónus Egilsstöðum, Krónunni Granda og Samkaupum-Úrvali Hafnarfirði.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Neytendur ættu einnig að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört í verslunum á þessum árstíma.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ