Við vinnum fyrir þig

Translate to

Leiðtogi á vinnustað

Trúnaðarmannaráðstefna verður haldin á Hótel Selfossi miðvikudaginn 24. október klukkan 13.00 – 17.00.  Báran, stéttarfélag, Verslunarmannafélag Suðurlands, Verkalýðsfélags Suðurlands og Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi standa í fyrsta sinn fyrir ráðstefnu af þessu tagi. Öllum trúnaðarmönnum félaganna er boðið til ráðstefnunnar sem ber heitið „Leiðtogi á vinnustað“. 

Við þær aðstæður sem ríkt hafa á vinnumarkaði undanfarin misseri hefur berlega komið í ljós gildi trúnaðarmanna á vinnustöðum. Þeir hafa greiðan aðgang að upplýsingum sem snerta kaup og kjör og margir hafa orðið góða þekkingu á samningum og launatöxtum. En trúnaðarmenn hafa ekki bara hagnýtu hlutverki að gegna heldur eru starfsmenn á vinnustað þar sem er trúnaðarmaður, líklegri til að huga að kjörum sínum en ella. Reynslan hefur einnig sýnt að þar sem trúnaðarmenn eru þá eru mál sem upp koma líklegri til að leysast farsællega, bæði launþega og atvinnurekanda til hagsbóta. Samningar á vinnumarkaði eru gerðir til að tryggja lágmarkskjör launamanna. Atvinnurekandinn hefur aðgang að sínum samtökum til að fá upplýsingar um rekstur sinn og að sama skapi þurfa starfsmenn að hafa aðgang að sínu stéttarfélagi til að fá upplýsingar um kjör sín til að tryggt sé að ekki sé farið niður fyrir lágmarkskjör t.d. vegna misskilnings eða rangrar túlkunar kjarasamnings.

Meðal efnisþátta á ráðstefnunni má nefna samskipti og líðan á vinnustað, eitthvað sem við öll mættum huga betur að, hlutverk trúnaðarmannsins, sem verður æ mikilvægara og  raunfærnimat á Suðurlandi verður kynnt. Raunfærnimatið getur aðstoðað fólk sem ekki hefur mikla formlega menntun að baki en mikla reynslu á sínu sviði. Góð útkoma úr raunfærnimati eykur möguleika launamanns á að sækja hærri laun en ella og gerir fólk samkeppnishæfara á vinnumarkaði. Í lok ráðstefnunnar mun Sigríður Klingenberg halda fyrirlesturinn „Orð eru álög“. Þessi fyrirlestur hefur notið mikilla vinsælda enda ekki skrítið, ef einhversstaðar er hægt að finna leiðarvísinn að aukinni lífshamingju þá er það á þessum fyrirlestri .

Stéttarfélögin leggja mikla áherslu á að efla trúnaðarmannakerfi sín og er þessi ráðstefna liður í þeirri viðleitni. Trúnaðarmaðurinn er ekki settur fyrirtækjum til höfuðs heldur til að opna leið til eðlilegra samskipta milli atvinnurekenda og stéttarfélaga. Því hvetja stéttarfélögin atvinnurekendur á svæðinu að gera trúnaðarmönnum kleyft að sækja þessa ráðstefnu enda er kveðið á um slíkt í gildandi kjarasamningum.

Við hvetjum  alla trúnaðarmenn að mæta og  eiga góðan dag.  Skráning fer fram á skrifstofu stéttarfélaganna m.a. á netfangið thor@midja.is

 

Hressir krakkar heimsóttu þjónustuskrifstofuna

Í gær komu í heimsókn til okkar á Þjónustuskrifstofuna nemendur úr 9. og 10. bekk Sunnulækjarskóla Selfossi. Þau kynntu sér þjónustu stéttarfélaganna og fengu gagnlegar upplýsingar um réttindi og skyldur á vinnumarkaði.  Áður en kynningin hófst var boðið upp á pizzur frá Hróa hetti. Að lokinni kynningu voru nemendurnir leystir út með gjöfum frá félögunum.

 

Góður fundur með þingmönnum

Fundur stéttarfélaganna á Suðurlandi með þingmönnum Suðurkjördæmis var haldinn að Hótel Selfoss í gærkveldi. Á fundinn mættu fjórir af tíu þingmönnum og geta það ekki talist góðar heimtur. Stéttarfélögin vilja þakka Björgvin G. Sigurðssyni, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, Sigurði Inga Jóhannssyni og Unni Brá Konráðsdóttur fyrir komuna.  Margrét Tryggvadóttir, Eygló Harðardóttir og Atli Gíslason tilkynntu veikindi og Árni Johnsen  var upptekinn annarstaðar. Ekki er vitað hvað varð um aðra þingmenn sem boðið var til fundarins.

Fundurinn var líflegur og eftir að þingmenn höfðu komið upp og svarað spurningum stéttarfélaganna voru leyfðar spurningar úr sal. Áhyggjur Sunnlendinga komu greinilega fram í spurningum fundarmanna til þingmanna og voru spurningar um atvinnumál og slæma stöðu heilsugæslu og lögreglumála á svæðinu fyrirferðamiklar.

Greinilega kom fram í máli þingmanna að töluverð óánægja ríkir í þeirra röðum með framgang rammaáætlun um orkunýtingu  enda er hún helsta von Sunnlendinga í atvinnusköpun. Voru þingmenn sammála að áríðandi væri að taka hana út úr því pólitíska þrasi sem hún situr föst í, koma henni aftur í faglega umfjöllun og afgreiða hana sem fyrst. Töluðu þingmenn um að deilan væri hugmyndafræðileg milli þeirra sjónarmiða að nýta landsins gæði og þeirra sem vildu stíga varlega til jarðar í þeim efnum. 

Halldóra Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, stéttarfélags fór í pontu og las þingmönnum pistilinn. Taldi hún ófært að þingheimur teldi sér sæmandi að deila um hugmyndafræði meðan heimilin í landinu brynnu upp og atvinnuleysi fer vaxandi. Hvatti hún þingmenn til að sameinast í þeirri aðkallandi vinnu að koma heimilum og einstaklingum til bjargar og leggja hugmyndafræðilegan ágreining til hliðar. Fékk hún miklar undirtektir frá salnum og greinilegt að margir fundarmanna eru sama sinnis.

Fundinum lauk klukkan rúmlega  tíu og vilja félögin þakka fundarstjóra, Olgu Lísu Garðarsdóttur skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurlands fyrir röggsama fundarstjórn og Pamelu Morrison frá Félagi opinberra starfsmanna á Suðurlandi fyrir frábæra tímastjórnun.

 

 

 

 

 

Nýr framkvæmdarstjóri starfsgreinasambandsins í heimsókn

Nýr framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands kom í heimsókn á skrifstofu Bárunnar, stéttarfélags í gær 8. október.

Nýr framkvæmdarstjóri er Drífa Snædal sem tók við starfi 17. september sl. Með henni í för var annar nýr starfsmaður Starfsgreinasambandsins, Árni Steinar Stefánsson.

Drífa hefur mikla þekkingu og reynslu af félagsmálstörfum og er með meistaragráðu í vinnurétti frá Háskólanum í Lundi.

Árni kemur frá Vinnumálastofnun þar sem hann hefur starfað undanfarin ár sem ráðgjafi og sérfræðingur.

Drífa og Árni hafa verið á ferð um landið síðustu vikur og heimsótt skrifstofur aðildarfélaga til að kynna sig og ekki síður, til að kynna sér það mikla starf sem unnið er á vegum aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands.

Báran, stéttarfélag bíður Drífu og Árna velkominn til starfa og lítur björtum augum til framtíðar í samstarfi við þau.

Nýr kjarasamningur fyrir smábáta samþykktur

Atkvæðagreiðslu um kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands Smábátaeigenda er lokið og voru atkvæði talin í húsakynnum ríkissáttasemjara fyrr í dag. Samningurinn var samþykktur af báðum aðilum. Hjá aðildarfélögum Sjómannasambandsins fór atkvæðagreiðslan þannig að 64,3% þeirra sem afstöðu tóku samþykktu samninginn, en 35,7% sögðu nei. Samkvæmt framansögðu er því kominn á samningur milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands smábátaeigenda.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Mikill verðmunur

Starfsmenn þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi framkvæmdu verðkönnun í verslun Kjarvals, á vegum ASÍ í byrjun vikunnar. Hér er frétt ASÍ um könnunina:

Verslunin Iceland Engihjalla var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum, stórmörkuðum og klukkubúðum víðsvegar um landið mánudaginn 1. október.  Hæsta verðið var oftast að finna í verslun 10/11 Laugavegi eða í um helmingi tilvika, en eins og áður sagði var lægsta verðið oftast að finna í versluninni Iceland, Bónus á Akureyri kom þar á eftir með lægsta verðið í um fjórðungi tilvika. Oftast var verðmunurinn á hæsta og lægsta verði vöru frá 25% upp í 75% en í um fjórðungi tilvika var meira en 75% verðmunur. Verslanirnar Kostur og Víðir neituðu að taka þátt í könnuninni.

Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru fáanlegar hjá Fjarðarkaupum Hafnarfirði eða 94 af 99, Nóatún Nóatúni átti til 89 og Hagkaup Skeifunni átti til 83. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Samkaupum-Strax Akranesi eða aðeins 52 af 99, Kaskó Húsavík átti til 57 og 10/11 átti 64.

Mikill verðmunur á öllum vörum í körfunni

Af þeim 99 matvörum sem skoðaðar voru, var verðmunurinn í 16 tilvikum undir 25%, í 30 tilvikum var verðmunurinn 25-50%, í 25 tilvikum var 50-75% verðmunur og í 10 tilvikum var yfir 100% verðmunur. Minnstur verðmunur var á laxasalati frá Eðalsalötum, sem var ódýrast á 318 kr. hjá Iceland og dýrast á 329 kr. hjá Kjarval Hvolsvelli, verðmunurinn er 11 kr. eða 3%. Mestur verðmunur í könnuninni var á ½ l. dós af léttbjór frá Egils, sem var dýrust á 249 kr. hjá 10/11 og ódýrust hjá Iceland á 84 kr. verðmunurinn er 165 kr. eða 196%.

Af öðrum vörum í könnuninni má nefna t.d. að mikill verðmunur er á 2 kg. af Kornax hveiti sem var ódýrast á 278 kr. hjá Bónus en dýrast á 499 kr. hjá 10/11 sem er 79% verðmunur. Annað dæmi um mikinn verðmun má nefna KEA karmelluskyr 200 gr. sem var ódýrast á 149 kr. hjá Iceland en dýrast á 229 kr. hjá 10/11 verðmunurinn eru 80 kr. eða 54%. Morgunmaturinn frá Quaker – koddar 375 gr. var ódýrastur á 516 kr. hjá Iceland en dýrastur á 814 kr. hjá Samkaupum-Strax verðmunurinn eru 298 kr. eða 58%. Laxaflak var ódýrast á 1.998 kr./kg. hjá Nettó og Samkaupum-Úrvali en dýrast á 3.999 hjá 10/11 sem er 100% verðmunur. Sem dæmi um mjög dýra matvöru má nefna ferska myntu sem er seld í t.d. í 20 gr. og 50 gr. umbúðum en er hún dýrust á 18.400 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum en ódýrust á 9.580 kr./kg. hjá Bónus, verðmunurinn er 8.820 kr. eða 92%, .
 
Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu ASÍ.
 
Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.
 
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Akureyri, Krónunni Reyðafirði, Nettó Mjódd, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Nóatúni Nóatúni, Samkaupum Úrval Akureyri, Hagkaupum Skeifunni, Samkaupum Strax Akranesi, Kaskó Húsavík, 10/11 Laugavegi og Kjarval Hvolsvelli.
 
Kostur Dalvegi og Víðir heimiluðu ekki verðlagseftirlitinu að taka niður verð í verslun sinni.
 
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
 
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

 

 

 

 

Opinn fundur með þingmönnum Suðurkjördæmis

Stéttarfélögin á Suðurlandi boða til opins fundar með þingmönnum Suðurkjördæmis. Leitað verður eftir afstöðu þingmanna til ýmissa mála sem efst eru á baugi. Má þar á meðal nefna atvinnumál í kjördæminu, fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir, samgöngumál og löggæslumál. Fundurinn verður haldinn á Hótel Selfossi þriðjudaginn 9. október kl. 20:00. Fundarstjóri verður Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands.

 Stéttarfélögin hvetja Sunnlendinga til að nota tækifærið, kynna sér afstöðu þingmanna Suðurkjördæmis og krefja þá svara beint og milliliðalaust.

 

 

 

Vörukarfan hefur lækkað í Krónunni um 5,5% frá því í júní

Vörukarfa ASÍ hefur ýmist hækkað eða lækkað hjá matvöruverslunum milli verðmælinga verðlagseftirlitsins í júní og nýjustu mælingarinnar nú í september. Á þessu þriggja mánaða tímabili hækkaði vörukarfan mest hjá 10-11 um (2,0%), Víði um (1,9%), Nettó um (0,8%), Samkaupum-Strax um (0,4%) og Nóatúni um (0,1%). Verð vörukörfunnar hefur lækkað töluvert á milli mælinga hjá Krónunni eða um (-5,5%), Hagkaupum um (-3,7%), Samkaupum-Úrvali um (-2,6%) og Bónus um (-1,5%). Vöruflokkurinn mjólkurvörur, ostar og egg hefur hækkað hjá öllum aðilum eða um allt að 8,2%.

Hér má sjá alla verðkönnunina.

Tekið af heimasíðu ASÍ