Við vinnum fyrir þig

Translate to

Burt með láglaunastefnuna

Félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags var haldinn í gærkvöldi á Hótel Selfossi.  Kosnir voru fulltrúar á þing ASÍ sem haldið verður dagana 17 – 19. október nk. Báran á þar þrjá fulltrúa af um það bil 290. Fulltrúar Bárunnar verða Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður, Örn Bragi Tryggvason varaformaður og Hjalti Tómasson varamaður í stjórn.

Miklar umræður urðu um stöðu atvinnumála og komu fram þungar áhyggjur fundarmanna af væntanlegri endurskoðun samninga. Ekki þótti mikil ástæða til bjartsýni eins og kemur fram í eftirfarandi ályktun sem fundurinn samþykkti í lok fundar.

Á fundinum kynnti formaðurinn þjónustukönnun sem framkvæmd var meðal aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins. Þar kemur fram það mat að Báran stendur sig vel í samanburði við önnur félög, sérstaklega þegar kemur að þjónustu við félagsmenn og er vel statt fjárhagslega. Nokkrar breytingar hafa orðið á starfseminni síðustu misseri og er ekki annað að sjá en félagið sé á réttri leið.

Hér er ályktunin sem fundurinn sendir frá sér:

Félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags haldinn á Hótel Selfossi 19. september 2012 krefst þess að ríkisvaldið standi að fullu við þau loforð sem gefin voru í tengslum við kjarasamning sem undirritaður var árið 2011.

Svikin hafa verið loforð um sambærilega hækkun launa og almannatrygginga og hvar er atvinnuuppbyggingin eða úrbæturnar í atvinnumálunum sem gefa einhverja ástæðu til bjartsýni? Verðbólgumarkmið hafa ekki náðst og reikningurinn lendir af því meiri þunga á fólki eftir því sem launin eru lægri.

Meðan launaskrið er hafið í sumum starfsgreinum eru kjör þeirra lægst launuðu enn undir hungurmörkum. Verði ekki staðið við gefin loforð munu kjör þeirra sem fastir eru í viðjum lámarkstaxta versna til muna.

Fundurinn krefst þess að horfið verði frá þeirri láglaunastefnu sem ríkisvaldið hefur forgöngu um með aðgerðum sínum. Það getur ekki verið þjóðhagslega hagkvæmt að halda hluta þjóðarinnar í fátækragildru,  sem leggur sífellt meir byrðar á herðar ríkisvalds og sveitarfélaga á kostnað þeirra sem þó hafa haldið vinnu sinni. Lægstu taxtar verða að hækka og þeirri fullyrðingu að launahækkanir þeirra launalægstu skapi óstöðugleika í efnahagslífinu er vísað til föðurhúsanna. Þar er annarra skýringa að leita.

Félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags minnir á að félagið var eitt þriggja aðildarfélaga ASÍ sem vildi fella samningana við síðustu endurskoðun. Þá kom fram að ástæðan var fyrst og fremst vantraust á ríkisstjórnina sem því miður virðist hafa verið á rökum reist.

Báran, stéttarfélag krefst þess að íslenskt launafólk verði losað út úr viðjum þeirrar  láglaunastefnu sem rekin er í íslensku samfélagi.

Forseti ASÍ heimsótti stjórn Bárunnar, stéttarfélags í gær

Í gærkvöldi  heimsótti Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ stjórn Bárunnar í fundarsal Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi. Þessar vikurnar er Gylfi í mánaðarlangri fundaherferð um landið með stjórnum langflestra þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að ASÍ. Markmið forseta á þessum fundum að heyra í fólki í grasrótinni, áherslur þess og væningar. Gylfi kynnti starf ASÍ í vetur og áherslur hreyfingarinnar í hinum ýmsu málum.  Fundarefnin voru m.a.  atvinnumál, lífeyrismál og staða kjarasamninga. Framundan er endurskoðun kjarasamninga og eru blikur á lofti varðandi forsendur þeirra. Fram kom að markmið um stöðuga verðbólgu á samningastímanum hefðu ekki gengið eftir. Forsendur um gengi krónnunar stóðust ekki eins og búist var við og margt fleira.  Á fundinum urðu líflegar umræður um þessi mál. Stjórn Bárunnar, stéttarfélags hefur verið ósátt með ýmislegt í innra starfi verkalýðshreyfingarinnar og þurfti Gylfi að svara mörgum spurningum um þau mál. Gylfi tilkynnti á fundinum að hann ætlar að bjóða sig fram til endurkjörs á þing ASÍ sem haldið verður í október n.k.

 

ASÍ-UNG ályktar um húsnæðismál ungs fólks

Húsnæðismál ungs fólks var aðal umfjöllunarefnið á 2. þingi ASÍ-UNG sem haldið var í dag. Málið var rætt ítarlega í vinnuhópum sem fjölluðu annars vegar um fyrstu kaup og hins vegar um leigumarkaðinn. Eftirfarandi ályktun um húsnæðismál var samþykkt eftir fjörugar umræður.

 
Húsnæði – mannréttindi ekki forréttindi
 
Þing ASÍ-UNG áréttar að íbúðarhúsnæði á viðráðanlegum kjörum sé grundvallaratriði svo ungt fólk geti komið undir sig fótum og skapað fjölskyldum sínum góð lífsskilyrði. Aðgangur að öruggu íbúðarhúsnæði eru mannréttindi ekki forréttindi. Mikilvægt er að ungt fólk hafi raunhæft val um búsetuform og fái húsnæðisstuðning óháð því hvort það velji að leigja eða eiga húsnæði.
Gera þarf leigu að raunhæfum valkosti á húsnæðismarkaði. Til þess þarf að stuðla að stofnun stórra leigufélaga sem tryggja öruggt langtíma leiguhúsnæði fyrir ungt fólk á viðráðanlegum kjörum. Þetta má m.a. gera með því að koma ónýttum íbúðum lánastofnanna í útleigu í stað þess að láta þær standa auðar. Auka þarf stuðning við leigjendur með því að hrinda sem fyrst í framkvæmd hugmyndum um eitt húsnæðisbótakerfi sem stuðlar að jafnræði milli búsetuforma. Tryggja þarf að tekjuskerðingar í húsnæðisbótakerfinu séu hóflegar svo það gagnist ungu fólki. Núverandi húsaleigubótakerfi styður ekki við ungt launafólk sem er með öllu óásættanlegt.
ASÍ ung telur mikilvægt að greiðslumat vegna íbúðakaupa sé raunhæft og taki aukið mið af stöðu hvers og eins og geri þannig ungu fólki kleift að festa kaup á húsnæði. Hvetja þarf ungt fólk til húsnæðissparnaðar og koma þarf til móts við unga kaupendur með skatta ívilnun sem tryggir hraðari eignamyndun.
 
Tekið af heimasíðu ASÍ
 

Húsnæði – mannréttindi ekki forréttindi

Annað þing ASÍ-UNG hefst í dag og verður haldið í sal Rafiðnarskólans að Stórhöfða 27.   Um 30 stéttarfélög hafa tilnefnt fulltrúa á þingið. Húsnæðismál ungs fólks verður aðal umræðuefnið á þinginu en endanlega dagskrá þess liggur nú fyrir. Yfirskirft þingsins er: Húsnæði – mannréttindi ekki forréttindi.   Á þinginu verður m.a. opnuð ný vefsíða ASÍ-UNG sem sérstaklega er sniðin að ungu fólki og réttindum þess á vinnumarkaði. Fulltrúi Bárunnar, stéttarfélags er Eva Dögg Hjaltadóttir.

 

Samningur um leigu á fræðslusetri undirritaður

Í dag var undirritaður samningur Háskólafélags Suðurlands og Fræðslunets Suðurlands  við Sveitarfélagið Árborg um leigu á Sandvíkurskóla á Selfossi. Í húsinu verða m.a. Fræðslunet Suðurlands, Háskólafélagið, Markaðsstofa Suðurlands, Réttargæslumaður fatlaðra á Suðurlandi og Rannsóknarsetur Háskóla Íslands. Samningurinn er til 10 ára. Fram kom í ræðu Eyþórs Arnalds formanns bæjarráðs Árborgar að um væri að ræða einn stærsta viðburð í sögu skólamála á Suðurlandi.  Mikil ánægja er með þessa nýju og glæsilegu aðstöðu og var samningnum vel fagnað af þeim sem voru viðstaddir undirritunina. 

Stofnanasamningur við Skógrækt ríkisins

Starfsgreinasambandið og Skógrækt ríkisins hafa gert með sér stofnanasamning um forsendur og reglur um röðun starfa við stofnunina, í samræmi við ákvæði kjarasamnings SGS og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, frá 1. júní 2011. Samningurinn nær til allra starfsmanna hjá Skógrækt ríkisins sem starfa og njóta ráðningarkjara samkvæmt kjarasamningi SGS. 

Read more „Stofnanasamningur við Skógrækt ríkisins“

Nýr framkvæmdastjóri hjá Starfsgreinasambandi Íslands

Drífa Snædal hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands og tekur til starfa 17. september næstkomandi. Fráfarandi framkvæmdastjóri, Kristján Bragason starfar við hlið Drífu til áramóta. Drífa hefur nýlokið meistaragráðu í vinnurétti frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð en er einnig menntuð tækniteiknari frá Iðnskólanum í Reykjavík og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Áður hefur hún starfað sem framkvæmdastýra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samtaka um Kvennaathvarf. Drífa hefur látið sig málefni vinnumarkaðarins varða bæði í gegnum Iðnnemasamband Íslands á árum áður og í gegnum nám sitt. Í lokaverkefni sínu í viðskiptafræði fjallaði Drífa um kjarasamningagerð og launamun kynjanna en meistararitgerðin fjallaði um lagaumhverfi starfa sem unnin eru inni á heimilum. Þá hafa jafnréttismál verið henni hugleikin og hefur hún skrifað fjölmargar greinar og pistla á því sviði. Drífa er búsett í Reykjavík ásamt dóttur sinni.

Um SGS

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) er landsamband almenns og sérhæfðs verkafólks. SGS er stærsta landssamband innan ASÍ, en 19 verkalýðsfélög eiga aðild að sambandinu með um 50 þúsund félagsmenn.

Aðildarfélög SGS eru þessi:

Báran stéttarfélag,  Efling-stéttarfélag, Vlf. Akraness, Stéttarfélag Vesturlands, Vlf. Snæfellinga, Vlf. Vestfirðinga, Vlsfél. Bolungarvíkur, Stéttarfélagið Samstaða, Aldan stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Vlf. Þórshafnar, Afl-Starfsgreinafélag, Vlf. Suðurlands, Drífandi stéttarfélag, Vfl. Grindavíkur, Vlsfél. Keflavíkur og nágrennis (VSFK), Vlsfl. Sandgerðis og Vlf. Hlíf.

 

 

Samantekt á raforkuverði til heimila

Raforkukostnaður hjá heimilum landsins hefur hækkað mikið frá því í ágúst 2011. Mest er hækkunin hjá viðskiptavinum Rarik dreifbýli/Orkusalan, en heildar raforkukostnaður þeirrra hefur hækkað um 8,6% m.v. 4.000 kWst. notkun á ári. Minnst er hækkunin hjá heimilum á svæði Norðurorku/Fallorku eða um 2,7% fyrir sömu notkun.

Allar dreifiveiturnar hafa hækkað gjaldskrána. Mesta hækkunin var hjá Rafveitu Reyðafjarðar en minnst  hjá HS veitu. Verð raforku hefur ekki hækkað hjá öllum raforkusölum en aðeins Orkusalan, HS orka og Rafveita Reyðafjarðar hafa hækkað gjaldskrána um 6,2% og Orkuveita Reykjavíkur um 4,7%.

Raforkureikning heimilisins má skipta í tvo hluta. Annars vegar er greitt er fyrir flutning og dreifingu raforkunnar til þeirrar dreifiveitu sem hefur sérleyfi á viðkomandi landssvæði og hins vegar er greitt fyrir raforkuna sjálfa til þess sölufyrirtækis sem hver og einn kaupandi velur. Þannig greiðir heimili á Ísafirði ávallt Orkubúi Vestfjarða fyrir flutning og dreifingu á raforku en getur síðan t.d. valið að kaupa raforkuna af Orkuveitu Reykjavíkur.

Í neðangreindum dæmum er gert ráð fyrir að heimilið kaupi raforku af þeirri dreifiveitu sem hefur sérleyfi á flutningi og dreifingu hennar á viðkomandi landsvæði og þeim sölufyrirtækjum sem stofnuð hafa verið utan um raforkusöluna hjá viðkomandi dreifiveitu.

Sjá fréttina í heild sinni hér.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Námsvísir Fræðslunets Suðurlands er kominn út

Námsvísir Fræðslunets Suðurlands er kominn út í vefútgáfu. Hann er fullur af glænýjum námskeiðum í bland við gömul og góð námskeið. Það er hægt að innrita sig beint í gegnum vef Fræðslunetsins. Einnig er hægt að senda tölvupóst á fraedslunet@fraedslunet.is eða hringja á skrifstofutíma í síma 480 8155. Þess má geta að Báran, stéttarfélag styrkir félagsmenn til símenntunar í formi námsstyrkja og hvetur félagsmenn til að kynna sér þá möguleika.

Skoða nýja námsvísinn pdf. Skoða námsvísinn: gagnvirk útgáfa

Reglur um námsstyrki Bárunnar, stéttarfélags