Við vinnum fyrir þig

Translate to

Eljan

Fréttablað Verslunarmannafélags Suðurlands og Bárunnar, stéttarfélags er komið út. Meðal efnis í blaðinu er grein um álag í starfi. Félagsmenn stéttarfélaganna kvarta oftar en áður undan auknum kröfum atvinnurekenda um aukin afköst í daglegu starfi og spurning hver hagnaðurinn verði þegar upp er staðið. Einnig er viðtal við Lovísu Guðnadóttur um reynslu hennar af starfsemi Virk, starfsendurhæfingu og Davíð Jóhannesson vinnuvélastjóra um stöðu og framtíð verkalýðshreyfingarinnar.

Góð þátttaka í 1. maí hátíðarhöldum á Selfossi

Góð þátttaka var í 1. maí hátíðarhöldunum á Selfossi í gær sem hófust með kröfugöngu frá Tryggvatorgi. Hestamenn úr Sleipni fóru fyrir göngunni. Hátíðardagskráin fór fram fyrir utan húsnæði stéttarfélaganna að Austurvegi 56. Björgvin Franz Gíslason stýrði dagskránni og skemmti gestum ásamt ævintýrapersónum úr Stundinni okkar. Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar stéttarfélags var ræðumaður dagsins.

Gunnlaugur Bjarnason nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurlands kynnti sýn unga fólksins á málefnum verkalýðshreyfingarinnar. Félagar úr Bifreiðaklúbbi Suðurlands mættu með fornbíla og Íslandus Ísbar fagnaði deginum með andlitsmálningu og afslætti á ís. Um tvöhundruð manns mættu í kaffi hjá stéttarfélögunum  að dagskrá lokinni. Ræðu Halldóru má sjá í heild hér fyrir neðan:

Kæru félagar til hamingju með daginn.

Þegar ég var beðin að flytja ræðu 1. maí þá hugsaði ég hvað get ég talað um sem passar þessum baráttudegi og fólk hefur þolinmæði til að hlusta  á. Að sjálfsögðu var málið sára einfalt. Þegar ég leiddi hugann að þessum alþjóðlega baráttudegi, hvernig hann kom til og hver tilgangurinn með honum er fylltist ég ákveðnu stolti. Saga er eitthvað sem stenst tímans tönn og er ekki hægt að taka frá okkur.

Á þingi Evrópskra verkalýðsfélaga í París árið 1889 var samþykkt tillaga frá Frökkum að 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks. Frakkar lögðu til að verkafólk notaði daginn til fjöldafunda til að fylgja eftir kröfum um 8 stunda vinnudag og aðrar umbætur á kjörum sínum. Það kemur ekki á óvart að Frakkar skyldu leggja þetta til enda eru þeir seinþreyttir til verkfalla.

Valið á þessum degi styðst við rótgróna hefð í sunnanverðri Evrópu þar sem menn tóku sér oft frí þennan dag. Að  heiðnum sið var hann táknrænn fyrir endalok vetrarins og upphaf sumarsins.

Þann 31.október 1896 ritaði skáldið Einar Benediktsson  „Ef verkamennirnir færu að halda saman, mundu auðmennirnir vanda sig betur og græða það á dugnaði og fyrirhyggju, sem þeir vinna nú á ódýrleik allra starfsmanna við framleiðslu og iðnað. Og því fyrr sem félagsskapur verkamanna byrjar, því fyrr kemst hinn starfandi, arðberandi kraftur í þjóðinni til þeirra valda, sem honum ber með réttu, jafnt hér eins og annars staðar í heimi.“

Árið 1923 var fyrst gengin kröfuganga hinn 1. maí á Íslandi. Dagurinn varð lögskipaður frídagur á Íslandi árið 1972.

Hinn 1. maí gengur launafólk undir rauðum fána og leikinn er alþjóðasöngur verkalýðsins, Internasjónalinn.Upprunaleg merking þessara tákna er fyrst og fremst krafa um breytingar og réttlátara þjóðfélag. Rauði liturinn á fána verkalýðshreyfingarinnar táknar uppreisn gegn ranglæti. Hann þýðir að nú sé nóg komið, auk þess sem hann táknar dagrenninguna.

Verkalýðshreyfinginn á Íslandi telur aðeins rétt rúm 100 ár.

Mér þykir gaman að segja frá því að Báran, stéttarfélag rekur sögu sína til 1903 með stofnun Bárunnar á Eyrarbakka eða í 108 ár.

Fjölmörg þeirra réttinda sem fólki þykja sjálfsögð í dag þurfti mikla baráttu og oft fórnir til að öðlast. Það á við um samningsrétt, uppsagnarfrest, veikindarétt, fæðingarorlof, vinnuvernd, orlofsrétt,  uppbyggingu velferðarkerfisins og margt fleira. Stéttarfélögin hófu síðan byggingu orlofshúsa um allt land. Fyrstu orlofshúsin risu í Ölfusborgum 1962.

Jafnrétti var stór þáttur í baráttunni og þá helst að sérstakir kvennataxtar yrðu afnumdir. Hafðist það með lagasetningu árið 1957.

1920 heyrist í fyrsta sinn krafan um 8 stunda vinnudag hérlendis,. Eftir hörð átök á vinnumarkaði 1942 fékkst 8 stunda vinnudagur inn í samninga, vinnuvikan var því komin niður í 48 stundir. 1972 var 40 stunda vinnuvika loks lögfest. Í kjarasamningum árið 2000 lögðu mörg félög áherslu á að stytta enn frekar vinnuvikuna.

Við stofnum ASÍ árið 1916 voru 1500 félagar innan sambandsins. Í dag eru félagarnir um 100.000.

Þegar maður sér hvað áunnist hefur á þessum 100 árum og hvað við getum myndað mikinn slagkraft með samstöðu fyllist maður stolti yfir því að tileyra þessum stærstu samtökum launafólks á Íslandi.

Það má segja að stéttarfélagsbarátta sé lifandi og óvægin barátta þar sem menn mega aldrei láta deigan síga. Kannski höfum við sofnað á verðinum fyrst krafan um 200.000 króna lámarkslaun er að setja allt á hvolf í þjóðfélaginu. Er virkilega svo að einhverjum finnist 200.000, of mikið?

Kjarasamningar hafa verið lausir síðan 1. desember síðastliðinn og ekki sér fyrir endann á samningalotunni. Við eigum við ramman reip að draga.  Framan af í baráttunni hefur Verkalýðshreyfingin ekki verið nógu samstíga og hafa samböndin  verið með ólíkar áherslur og kröfur í kjarasamningum. Með því að draga fiskveiðistjórnunarkerfið inn í kjarasamninga hafa Útgerðarmenn lyft grettistaki við að þjappa verkalýðshreyfingunni saman og kann ég þeim bestu þakkir fyrir.

Í dag blasir við sú staða að allt stefni hér í allsherjarverkfall. Auðvitað er þetta staða sem engin óskar eftir, en þessi samningalota hefur verið algjört limbó sem ekki er hægt að una lengur við. Samtök atvinnulífsins hafa vægast sagt boðið upp á visst tómlæti og algjört virðingarleysi gagnvart viðsemjendum þ.e.a.s hinum vinnandi manni.

Við höfum verið að kanna hug okkar fólks til verkfallsaðgerða, og það er mikill baráttuhugur í fólki. Síðan kreppan skall á hefur almenningur í landinu sýnt mikið æðruleysi, tekið á sig kaupmáttarskerðingar, launalækkanir og atvinnumissi. En nú segjum við stopp hingað og ekki lengra.

Að lokum vil ég segja þetta

Nú er farið að birta og sumarið ekki langt undan.

Það felast tækifæri í öllum aðstæðum, tækifærið okkar núna er að standa saman og nýta  slagkraftinn til samstöðu um aukna atvinnu og bættra kjara.

Takk fyrir.

Kröfuganga og fjölbreytt hátíðardagskrá 1. maí á Selfossi

Báran stéttarfélag, Verslunarmannafélag Suðurlands, Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi og Félag iðn- og tæknigreina standa fyrir dagskrá á alþjóðlegum baráttu- og hátíðardegi  verkalýðshreyfingarinnar sunnudaginn 1. maí n.k.

Safnast verður saman við Tryggvatorg á Selfossi kl. 11.00 og gengið verður að Austurvegi 56 við undirleik Lúðrasveitar Selfoss. Félagar í Sleipni fara fyrir göngunni á hestum. Að göngu lokinni verður hátíðardagskrá á útisviði. Kynnir er Björgvin Franz Gíslason leikari og ræðumaður dagsins er Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar stéttarfélags. Gunnlaugur Bjarnason nemandi við Fjölbrautaskóla Suðurlands lýsir framtíðarsýn unga fólksins. Karlakór Selfoss flytur nokkur lög og Björgvin Franz ásamt ævintýrapersónunum úr Stundinni okkar skemmta gestum. Að lokinni dagskrá verður boðið upp á morgunkaffi í sal stéttarfélaganna á Suðurlandi. Íslandus ísbar fagnar deginum með andlitsmálningu fyrir börnin og tilboðsverði á ís. Sunnlendingar sýnum samstöðu og fjölmennum.

Kjaraviðræður í hnút- verkfallsboðun rædd

Það er gamall sannleikur og nýr að ekkert fæst án baráttu. Í þeirri baráttu er verkfallsvopnið öflugt en vandmeðfarið. Það ber að nota af ábyrgð. Nú er nauðvörn.

Tilboð Starfsgreinasambandsins sem lagt var fram fyrir páska að kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins var hafnað. Samtök atvinnulífsins standa föst á þeirri kröfu að ekki verði samið á almennum vinnumarkaði nema gengið sé fyrst frá málefnum sjávarútvegsins innan ríkisstjórnarinnar. Þau virðast föst í neti útvegsmanna. Þessi krafa Samtaka atvinnulífsins var ekki til umræðu þegar samningsaðilar hittust í janúar. Þá var óskaði eftir því við Starfsgreinasambandið og önnur aðlidarsambönd ASÍ að samið yrði um samræmda launastefnu til 3ja ára, m.a. til að tryggja stöðugleika og atvinnuppbyggingu hér á landi. Þeim sjónarmiðum var svarað jákvætt og því mátti ætla að vilji hafi verið til samninga. Það reyndist blekking. Samtök atvinnulífsins ætluðu ekki að semja nema þau fengju fram vilja sinn gagnvart ríkisstjórninni. Slík gíslataka stríðir gegn ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/ 1938. Krafan er sett er fram í viðræðum um gerð kjarasmnings milli aðila vinnumarkaðarins. Henni er ætlað að þvinga stjórnarvöld til að framkvæma eitthvað sem þeim ber ekki að gera samkvæmt ákvæðum laganna.  Kjardeilan er kominn í hnút. Samtök atvinnulífsins fara ekki að lögum. Ríkisstjórnin lætur ekki kúga sig. Við verkafólk er ekki samið.

 

Aðgerðarhópur Starfsgreinasambandsins ræðir nú möguleika á verkafallsaðgerðum til að mæta óbilgirni atvinnurekenda. Kjaradeilunni var vísað á borð ríkissáttasemjara í janúar. Viðræður um launaliði hafa reynst áranguslausar. Það er hlutverk ríkissáttasemjara að reyna allar leiðir til að fá menn að samningaborðinu. Takist honum það ekki og láti Samtök atvinnulífsins ekki af ólögmætum aðgerðum sínum blasir verkfallsboðun við með dapurlegum afleiðingum fyrir t.d. ferðaþjónustusumarið, verslun og iðnað í landinu. Það er okkar nauðvörn og barátta sem við verðum að taka eigi árangur að nást í kjaraviðræðunum.

Tekið af heimasíðu SGS

Eina ráðið að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara

Samninganefnd Alþýðusambands Íslands ákvað á fundi í gær að beina því til aðildarsambanda og félaga að vísa kjaradeilum við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara. Það er nauðsynlegt til að knýja á um launahækkanir á þessu ári.

Í samtali við mbl.is í gær sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, að þolinmæði launþegahreyfingarinnar sé brostin. Það liggi fyrir að Samtök atvinnulífsins hafni því að gera samning til eins árs. SA segist vilja fara atvinnuleiðina en hafnar þriggja ára samningi, nema lausn fáist í málefnum sjávarútvegsins. „Þeir tala bara í hring,“ segir Gylfi og bætir við að þá sé eina ráðið að beita aflinu.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Gleðilega páska

Báran, stéttarfélag óskar öllum félagsmönnum sínum gleðilegra páska. Þjónustuskrifstofan opnar aftur þriðjudaginn 26. apríl.

Tillaga SGS að lausn í kjaradeilu

SGS hefur lagt fram tilboð að kjarasamningi við SA hjá ríkissáttasemjara í dag. Tilboð SGS hljóðaði upp á samning til eins árs með 15.000 kr. taxtahækkun frá 1. mars að telja og almenna kauphækkun upp á 4,5% svo og hækkun lágmarkstekjutryggingar í 200.000 kr.  Auk þess sem SGS lagði áherslu á að þar sem samkomulag hefur náðst í sérmálum undanfarnar vikur – héldi það samkomulag inn í nýjan samning.

Er viðræðum var slitið sl. föstudag var enn ósamið í málefnum ræstingar og fiskvinnslu og er lögð áhersla á að ná sátt í þeim málum næstu daga.

Samningaviðræðum undir forystu samninganefndar ASÍ við SA var slitið á föstudagskvöld er Samtök Atvinnulífsins slitu viðræðum vegna ágreining við ríkisstjórnina um fiskveiðistjórnunarmál.

Kjaraviðræðum slitið

Slitnað hefur upp úr kjaraviðræðum milli aðila vinnumarkaðarins. Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar yfirgáfu karphúsið á tólfta tímanum sl.föstudagskvöld. Á vef ASÍ má sjá eftirfarandi yfirlýsingu:

„Í upphafi þeirra kjaraviðræðna sem staðið hafa undanfarna mánuði lögðu Samtök atvinnulífisins ríka áherslu á að gerður yrði kjarasamningur til þriggja ára. Rökin voru þau að slíkur samningur myndi skapa stöðugleika sem nauðsynlegur væri á vegferð þjóðarinnar út úr mestu kreppu síðari tíma á Íslandi. Þetta var kölluð atvinnuleiðin. Þrátt fyrir takmarkaðan áhuga ASÍ og aðildarsamtaka þess í fyrstu á langtíma samningi, vegna óvissu í efnahagsmálum, var ákveðið að hefja viðræður á þessum nótum og skoða hvað áynnist.

Fljótlega eftir að viðræður hófust kom í ljós að Samtök atvinnulífsins gerðu það að skilyrði fyrir gerð kjarasamninga, að niðurstaða fengist í sjávarútvegsmálum. SA vildi ekki einungis tryggja lausn í sjávarútvegsmálum, heldur náði krafan einnig til þess að lausnin væri SA og LÍÚ þóknanleg. Samninganefnd ASÍ var ekki reiðubúin að setjast að viðræðum á þessum forsendum og sleit viðræðum. Umræða um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu hafa ekkert með almennar kjaraviðræður á Íslandi að gera. ASÍ og aðildarsamtök þess hafa skoðanir á sjávarútvegsmálum en það hefur aldrei komið til greina hjá Alþýðusambandinu að styðja kröfur SA og LÍÚ varðandi breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Viðræður hófust aftur í febrúar eftir að miðstjórn ASÍ sendi frá sér ályktun þar sem áréttað var að SA bæri samkvæmt landslögum að standa undir þeirri frumskyldu sinni að ganga til kjarasamninga. Sjávarútvegsmálin vofðu þó enn yfir.

LÍÚ var með kverkatak á kjaraviðræðunum. LÍÚ tók 100 þúsund félagsmenn ASÍ í gíslingu. LÍÚ sem er eitt af átta aðildarfélögum SA tók sín eigin samtök í gíslingu og þar með stóra aðila eins og Samtök iðnaðarins, Samtök verlsunar og þjónustu og Samtök ferðaþjónustunnar. Allt var þetta gert til að þvinga fram niðurstöðu í sjávarútvegsmálum sem væri útgerðaraðlinum í landinu þóknanleg. Þetta er ofbeldi og vinnubrögð sem eru LÍÚ til vansa. Þetta framferði varð að lokum til þess að sú vegferð um þriggja ára samning, sem SA hóf sjálft í byrjun árs, rann út í sandinn í dag.

Rökin sem SA lagði upp með, að þjóðarheill krefðist langtímasamnings, véku á endanum fyrir hagsmunum LÍÚ. Það er dapurleg niðurstaða. SA beit svo höfuðið af skömminni með því að ganga á bak orða sinna og svíkja undirritun skammtímasamnings sem lá á borðinu og fresta þannig launahækkun hjá okkar fólki.“

Nýr vettvangur fyrir ungt launafólk

Í síðustu viku var haldinn fundur á Selfossi vegna stofnunar vettvangs fyrir ungt launafólk innan Alþýðusambands Íslands. Markmið verkefnisins er að kalla efir  sjónarmiðum ungs launafólks um verkefni, hlutverk og skipulag vettvangs fyrir ungt launafólk innan ASÍ.  Margar góðar hugmyndir komu frá þátttakendum sem unnið verður með áfram.