Ríkisstjórnin hefur gefið út sérstaka yfirlýsingu í tengslum við gerð kjarasamninganna 4. maí. Hún er afrakstur samráðs stjórnvalda og aðila á almenna vinnumarkaðinum. Yfirlýsingin byggir m.a. á áherslum sem Alþýðusamband Íslands hefur lagt fram í samskiptum sínum við stjórnvöld. Áherslur sem lúta að bættum lífskjörum, meiri atvinnu, velferð og menntun. Með yfirlýsingunni skuldbinda stjórnvöld sig til að leggja grunn að varanlegum hagvexti og velferð í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Meginatriðið er að örva hagvöxt með arðsömum og sjálfbærum fjárfestingum, án þess aðmarkmiðum um afkomu ríkissjóðs sé ógnað.
Hér á eftir er gerð stutt grein fyrir nokkrum efnisatriðum yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar.
Hækkun bóta almannatrygginga og persónuafsláttar
Stjórnvöld munu endurskoða bætur almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninganna, þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og um verður samið í kjarasamningunum.
Tekju- og eignatenging vaxta- og barnabóta verður endurskoðuð á þessu ári.
Verðtryggingpersónuafsláttar verður lögfest og mun persónuafsláttur hækka samkvæmt því í ársbyrjun 2012.
Þar til viðbótar munu stjórnvöld í samráði við aðila vinnumarkaðarins skoða möguleika á hækkun krónutölu persónuafsláttar eða ígildi hennar í formi lækkunar skatthlutfalls á lægsta skattþrepi frá árslokum 2013.
Bætt þjónusta við atvinnuleitendur
Stjórnvöld skuldbinda sig til að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Ráðist verður í sérstakt tilraunaverkefni þar sem stéttarfélögin verða helstu veitendur þjónustunnar. Markmiðið er að bæta þjónustu við atvinnuleitendur hvað varðar skráningu, vinnumiðlun og vinnumarkaðsúrræði.
Átak gegn svartri atvinnustarfsemi, kennitöluflakki og fyrir bættum viðskiptaháttum
Ráðist verður í tímabundið átaksverkefni ríkisskattstjóra, ASÍ og SA til að sporna við svartri atvinnustarfssemi.
Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir lagabreytingum til að koma í veg fyrir starfssemi aðila sem hafa ítrekað rekið félög í þrot (kennitöluflakk). Sérstaklega verða hæfisskilyrði forsvarsmanna fyrirtækja með takmarkaða ábyrgð skoðuð og hvernig megi sporna við misnotkun slíkra félaga.
Stjórnvöld beita sér strax fyrir lagabreytingum til að bæta réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti í framhaldi af því að fyrirtæki hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta.
Stuðlað verður að því að tryggja heilbrigða samkeppni þegar verklegar framkvæmdir og þjónusta er boðin út. Unnið verður að því að tryggja betur en nú er að í útboðslýsingum vegna opinberra innkaupa sé að finna skýr ákvæði um hæfi bjóðenda og val á tilboðum og að meginreglan verði að starfsmenn séu í föstu ráðningasambandi. Ennfremur er aðkallandi að kveða með skýrum hætti á um gerð útboðsgagna, um skil á launagreiðslum og samábyrgð verktaka og undirverktaka. Skoðað verði hvaða breytingar þarf að gera á gildandi lögum til að styrkja stöðu og réttindi launafólks sem starfar hjá fyrirtækjum á verktakamarkaði.
Sókn í atvinnumálum – fjárfestingar
Sameiginlegt markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er að skapa fjölbreytt og vel launuð störf og auka hagvöxt í 4-5% á ári í stað 2-2,5%. Markmiðið er að draga verulaga úr atvinnuleysi á samningstímanum. Í því skyni verða fjárfestingar örvaðar og hvatar til nýsköpunar búnir til jafnframt því að atvinnulífinu verði sköpuð hagstæð skilyrði sem stuðla að hagvexti. Stefnt að því að fjárfestingar í lok samningstímans verði ekki lægri en 350 milljarðar króna á ári. Þær voru 200 milljarðar árið 2010.
Sem lið í að ná þeim markmiðum mun ríkið ráðast í fjölda verklegra framkvæmda í ár og næsta ár. Þá er lögð áhersla á að fjárfestingar í virkjunum og gerð raforkusamninga verði á viðskiptalegum grundvelli og taki tillit til umhverfisgæða. Stefnt er að því að frumvarp til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjanna verði afgreitt á vorþingi. Landsvirkjun heldur áfram rannsóknum í Þingeyjarsýslum.
Hvatt til fjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja og unnið verður að því að kynna betur ný lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Þá mun verða ráðist í ýmsar aðgerðir til að efla nýsköpun og vaxtagreinar.
Alþýðusambandið lagði einnig mikla áherslu á að stjórnvöld ykju ýmsar hvataaðgerðir til að treysta stöðu nýsköpunar og þekkingargreina ásamt orkufrekum iðnaði sem styðji við markmið ASÍ um að auka vægi grænna greina í hagkerfinu.
Átak til að auka menntun og efla vinnumarkaðsúrræði
Öllum sem eftir því leita verða tryggð námstækifæri strax næsta haust. Framhaldsskólum verður gert kleift að taka inn þá umsækjendur yngri en 25 ára sem uppfylla skilyrði og þeim sem eru 25 ára og eldri verður gefinn kostur á úrræðum í framhaldsfræðslu. Þá verður heildstætt nám í fjarkennslu í boði á framhaldsskólastigi. Auk þess verða sköpuð námstækifæri fyrir allt að 1000 atvinnuleitendur haustið 2011.
Á næstu þremur árum verðu m.a. unnið að því að:
– Gera skil á milli framhaldsskólans og framhaldsfræðslunnar sveigjanlegri.
– Lög um námslán og námsstyrki verða endurskoðuð.
– Stofnaður verður sérstakur þróunarsjóður til að efla starfstengt nám á framhaldsskóla- og háskólastigi og vinnustaðanámssjóður efldur.
– Framangreint átak verður unnið í samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.
Úrbætur í lífeyrismálum, starfsendurhæfingu og húsnæðismálum
Áfram verður unnið að samræmingu lífeyrisréttinda og skal starfshópur skila af sér fyrir 1. september nk. og breytingar kynntar Alþingi. Í framhaldinu verður lagður grundvöllur að nýju samræmdu og sjálfbæru lífeyriskerfi fyrir allan vinnumarkaðinn. Viðurkennt er að mikill ójöfnuður er í áunnum lífeyrisréttindum landsmanna, þar sem verulega hallar á launafólk á almennum vinnumarkaði. Því er heitið, hvað varðar það sem liðið er, að ríkisvaldið skoði sérstaklega hvernig rétt sé að standa að inngreiðslum til að jafna uppá við lífeyrisréttindi í almenna kerfinu.
Ríkisstjórnin mun beitir sér fyrir því að lögfest verði skylda allra launagreiðenda til greiðslu 0,13% iðgjalds til Starfsendurhæfingarsjóðs og jafnhátt iðgjald frá lífeyrissjóðunum. Þannig tekst að tryggja uppbyggingu markvissrar starfsendurhæfingar sem stuðlar að virkni þeirra sem hafa dottið út af vinnumarkaði sökum slysa eða veikinda.
Unnið er að mótun tillagna um fjölbreyttari valkosti í húsnæðismálum og samræmingu á stuðningi við leigjendur og eigendur íbúðarhúsnæðis. Horft verður til jafnræðis milli búsetuforma við skiptingu þeirra fjármuna sem varið er til vaxtabóta og húsaleigubóta.
Tekið af heimasíðu ASÍ
Yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar má lesa í heild sinni hér:
https://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettir1/yfirlysing-tengd-kjarasamningum5mai2011.pdf