Við vinnum fyrir þig

Translate to

Ungar konur hvattar til dáða

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC) hefur sett af stað herferð til að brýna ungar konur á vinnumarkaði til dáða hvar sem þær búa í heiminum. Ætlunin er að vekja þær til umhugsunar um réttindi sín og tækifæri. Yfirskrift verkefnisins er Decisions for Life eða Ákvarðanir fyrir lífið.

Hér má sjá myndband sem ITUC hefur látið gera vegna þessa átaks.

Hér má sjá Facebook síðu átaksins.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Öskudagurinn

Það var líf og fjör á Austurvegi 56 í dag af tilefni af öskudegi. Margir hressir krakkar í skrautlegum búningum tóku lagið. Í hópnum mátti sjá sjóræningja, beinagrind, kjúkling og trúð. Krakkar takk fyrir komuna, það var gaman að fá ykkur í heimsókn.

Stutt frétt af kjaraviðræðum

Kjaraviðræður þokast enn áfram smátt og smátt. Innan Starfsgreinasambandsins og annarra aðildarsambanda ASÍ er nú stefnt að þriggja ára samningi sem byggir m.a. á úrbótum í efnahagsmálum, atvinnumálum og félagsmálum. 
Sá þáttur snýr að ríkisvaldinu og gæti orðið snúinn viðfangs, einkum umræðan um orkuöflun og virkjanir í tengslum við atvinnuuppbygginguna. Náist ekki fljótlega viðunandi samkomulag við ríkið um haldbæra stefnumörkun í atvinnumálum er vart hægt að tala um annað en kjarasamning til skemmri tíma.

Flest sérmál í kröfugerð Starfsgreinasambandsins gagnvart Samtökum atvinnulífsins hafa verið kláruð eða eru í lokafarvegi. Viðræða um launaliði er þó öll eftir en gera má ráð fyrir því að umræður um launabreytingar hefjist af alvöru seinnihluta næstu viku, ef að líkum lætur.

Þá standa einnig yfir kjaraviðræður við Samninganefnd ríkisins og sveitarfélögin vegna þeirra starfsmanna sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum og eru félagar í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins. Í þessum viðræðum er unnið að sérmálum en launaliðir eru enn í biðstöðu.

Tekið af heimasíðu SGS

Eljan

Fyrirhugað er að næsta tölublað Eljunnar fréttablað Bárunnar, stéttarfélags og Verslunarmannafélags Suðurlands  komi út um miðjan apríl. Þessa dagana er verið að undirbúa útgáfu blaðsins.  Aðsendar greinar og tillögur að efni í blaðið skulu berast fyrir 20. mars næstkomandi. Nánari upplýsingar á Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna í síma 480-5000.

Hádegisverðarfundur í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars

Staða konunnar er laus til umsóknar – jafnrétti úr viðjum vanans, er yfirskrift hádegisverðarfundar sem haldin verður á Grand hótel þriðjudaginn 8. mars, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Fundurinn verður í Hvammi og hefst kl. 11:45. Á fundinum verða flutt þrjú áhugaverð erindi auk þess sem í boði verður léttur hádegisverður. Aðgangseyrir er 1900 kr.

Dagskrá fundarins má sjá hér.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Vörukarfan hefur hækkað um 5% í Bónus frá því í nóvember

Miklar hækkanir hafa orðið frá því í haust á grænmeti, ávöxtum, mjólkurvörum, ostum og kjötvörum í vörukörfu ASÍ, að því er fram kemur í nýrri mælingu verðlagseftirlitsins sem gerð var í febrúar (vika 7). Við samanburð á mælingu verðlagseftirlitsins frá því í nóvember 2010 (vika 44) og nú í febrúar, hækkar vörukarfan í öllum verslunum nema 11/11 og Samkaupum-Úrvali, en mesta hækkunin er í Hagkaupum um 9,1% og Bónus um 5,1%. Kostur neitaði að taka þátt í mælingunni.

Könnunina í heild sinni má sjá hér.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Gangur kjaraviðræðna

Samninganefnd ASÍ hitti forystu SA á fundi hjá ríkissáttasemjara 10. febrúar til að freista þess að koma kjaraviðræðum í gang að nýju en þær höfðu að mestu legið niðri í tvær vikur vegna þeirrar kröfu SA að niðurstaða vegna breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu lægju fyrir áður en samið yrði. Niðurstaða þess fundar var að hefja samningaviðræður að nýju. Jafnframt var ákveðið að gefa landssamböndunum og félögunum rými til að vinna áfram að samningum um sín mál. Hefur sú vinna gengið vel.

Mánudaginn 21. febrúar var síðan sett í gang vinna við samninga um sameiginleg mál, önnur en launin sjálf, í samræmi við kröfugerð sem sett var fram af samninganefnd ASÍ. Er unnið í sex hópum að málum sem eru á sameiginlegu borði allra félaga. Þessir hópar eru:
Vaktir og yfirvinna
Jafnrétti, persónuvernd og samráð
Lífeyrismál
Aðilaskipti, kennitöluflakk og svört atvinnustarfssemi
Opinber útboð
Slysa- og veikindaréttur

Þrátt fyrir að forseti Íslands hafnaði lögunum um Icesave staðfestingar er enn unnið að því að gera 3ja ára kjarasamning og miðast viðræður m.a. við stjórnvöld við það. Samkvæmt tímaplani er miðað við það að ljúka þessum viðræðum fyrir miðjan mars en að launabreytingar taki gildi frá 1. mars. Við það er miðað að samningurinn öðlist ekki gildi fyrr en eftir 3ja mánaða aðlögunartíma, þar sem unnið verður að því að hrinda í framkvæmd ýmsum breytingum og ákvörðunum sem stjórnvöld og Alþingi þurfa að efna í tengslum við samninginn. Samkomulag er um að vegna tímabilsins mars-maí verði greidd eingreiðsla og gangi hlutirnir eftir mun samningurinn sjálfur taka gildi í júní. Náist ekki samkomulag við stjórnvöld og Alþingi breytist samningurinn í skammtímasamning fram á haustið.

Ljóst má vera að veik staða íslensku krónunnar setur þróun kjaramála í mikla óvissu vegna mikils ójafnvægis í gjaldeyrishreyfingum auk gjaldeyrishafta. Samninganefnd ASÍ hefur því lagt mikla áherslu á að samhliða afnámi gjaldeyrishaftanna verði mörkuð trúverðug leið til þess bæði að styrkja gengi krónunnar um a.m.k. 15% og jafnframt tryggja stöðuleika hennar.
 
Tekið af heimasíðu ASÍ

Fréttir af samningamálum

Samkvæmt fréttum sem berast úr Karphúsinu þá ganga viðræður um ýmsa kafla aðalkjarasamnings nokkuð vel og þegar er búið að skrifa undir nokkra þeirra.

Í þessari viku hefur verið unnið í samningum vegna kjötvinnslunnar og í veikinda og slysamálum, þ.e. skilgreiningum á vinnuslysum. Mesta vinnan felst í að lagfæra taxta og sníða samninga að nýjum lögum og reglugerðum.

Ekki er farið að ræða launaliði við atvinnurekendur eða ríki og sveitarfélög en töluverðar umræður hafa skapast um niðurstöður könnunarinnar sem er að finna hér neðar á síðunni og telja menn það styðja þá ákvörðun að halda fram sameiginlegri launastefnu þrátt fyrir að lítill hluti verkalýðshreyfingarinnar sé á öðru máli.

Boðað verður til fundar í samninganefndinni þegar ný launatafla lítur dagsins ljós. Ekki þora menn að gefa upp hvenær menn telja að samningum ljúki en menn eru hóflega bjarsýnir um að það gerist upp úr miðjum næsta mánuði.

Frekari fréttir verða birtar hér á síðunni um leið og frá einhverju er að segja.

Ný skoðanakönnun – langflestir vilja sameiginlega launastefnu

Ný skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir ASÍ sýnir að 94% þeirra sem taka afstöðu vilja sambærilegar launahækkanir fyrir alla í komandi kjarasamningum á móti 6% sem vilja meiri launahækkanir til þeirra sem starfa í útflutningsgreinum. Þá vilja 48% að verkalýðshreyfingin leggi mesta áherslu á að tryggja kaupmátt launa í yfirstandandi kjaraviðræðum en 24% vilja að áherslan sé að tryggja atvinnuöryggi.

 

Í báðum spurningum voru þeir aðeins spurðir sem eiga aðild að stéttarfélögum. Fyrri spurningin hljóðaði þannig:

Nú standa yfir viðræður um nýja kjarasamninga. Hvort ertu hlynntari því að verkalýðshreyfingin leggi áherslu á sambærilegar launahækkanir fyrir alla, eða meiri launahækkanir til þeirra sem starfa í útflutningsgreinunum, sem njóta nú góðs af gengi krónunnar? 94% sögðust vilja sambærilegar launahækkanir fyrir alla en 6% vildu að þeir fái meiri launahækkanir sem starfa í útflutningsgreinunum.

Hin spurningin snéri að því hvað verkalýðshreyfingin ætti að leggja mesta áherslu á í kjaraviðræðunum. 19% vildu beinar launahækkanir, 48% að kaupmáttur yrði tryggður og 24% að áherslan væri á atvinnuöryggi.

Niðurstöðurnar má skoða betur hér.

Félagsvísindastofnun Háskólans gerði skoðanakönnunina fyrir Alþýðusamband Íslands. Úrtakið var 1200 manna slembiúrtak úr þjóðskrá, 18 ára og eldri. Könnunin var gerð í gegnum síma dagana 5.-16. febrúar 2011. Nettósvarhlutfall var 62,9%.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Mikilvægi trúnaðarmanna á vinnustöðum

Einn mikilvægasti tengiliður hvers stéttarfélags við félagsmenn sína er trúnaðarmaðurinn. Starf trúnaðarmannsins er oft misskilið og jafnvel gert lítið úr því en með bættri fræðslu og aukinni áherslu stéttarfélaganna sjálfra er það óðum að breytast.

Í sumum félögum hefur alla tíð verið haldið vel utan um trúnaðarmenn, en önnur félög hafa ekki verið nógu vakandi fyrir þeim möguleikum sem felast í að vera í góðu sambandi við félagsmenn sína. Við núverandi ástand í efnahags- og atvinnumálum er enn frekar áríðandi að launþegar séu meðvitaðir um réttindi sín og eigi greiða leið að upplýsingum um samninga og hvaða aðstoð er í boði ef upp kemur ágreiningur um kaup og kjör. Þar er trúnaðarmaðurinn mikilvægur hlekkur.

Báran, stéttarfélag og Verslunarmannafélag Suðurlands hafa ákveðið að taka höndum saman og vinna að því markvisst, að efla trúnaðarmenn sína og fjölga í þeirra hópi. Töluvert er um að starfsmenn séu ekki meðvitaðir um þann rétt sinn, sem tryggður er með lögum, að tilnefna eða kjósa trúnaðarmann/menn á sínum vinnustað. Í 9. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur segir að á hverjum vinnustað þar sem starfa 5 eða fleiri er stéttarfélagi heimilt að tilnefna 2 menn til trúnaðarstarfa, þ.e. aðaltrúnaðarmann og einn til vara. Kosið er úr hópi starfsmanna en stundum tilnefna starfsmenn einhverja úr sínum hóp. Kosning er þó æskilegri og eru allir starfsmenn kjörgengir séu þeir skráðir félagsmenn í viðkomandi stéttarfélagi.

 Þjónustuskrifstofa stéttarfélaganna á Suðurlandi hefur á sínum snærum starfsmenn sem veita upplýsingar og aðstoða við kosningar ef þörf er á.