Við vinnum fyrir þig

Translate to

Fjallað um veikindi og starfsendurhæfingu í nýjum kjarasamningi

Í kjarasamningum aðildarsamtaka ASÍ og SA, sem undirritaður var 5. maí 2011, er sérstaklega kveðið á um veikindi og starfsendurhæfingu og aðkomu launþega- og vinnuveitendasamtaka að stýrihópi á vegum VIRK. Í samningnum segir að samningsaðilar einsetji sér að endurskoða uppbyggingu á fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu og vinnuvernd.

Í samningnum segir ennfremur: „Markmiðið er að stuðla að því að brugðist sé við veikindum með fyrirsjáanlegum hætti og að starfsmanni sem veikist bjóðist viðeigandi úrræði sem fyrst. Þetta felur m.a. í sér aukinn sveigjanleika á vinnumarkaði til að tryggja það að einstaklingar sem veikjast eða slasast og eru í virkri starfsendurhæfingu hafi möguleika á að koma til baka í samræmi við vinnugetu sína á hverjum tíma.

Ljóst er að þessu markmiði verður aðeins náð ef gagnkvæmt traust ríkir milli atvinnurekenda og starfsmanna úr veikindum, fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu í fyrirtækjum o.s.frv.

Samningsaðilar taka þátt í stýrihópi á vegum VIRK sem vinnur að þeim markmiðum sem nefnd eru hér að framan.

Sérstaklega verður fylgst með þróunarverkefni sem er að fara af stað á vegum VIRK um forvarnir og starfsendurhæfingu.“ Tekið er fram að samningsaðilar munu nýta sér þessa þekkingu og reynslu í starfi sínu.

VIRK fagnar þessari yfirlýsingu um endurskoðun á uppbyggingu á fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu og vinnuvernd, því fjölmargar rannsóknir benda til að því lengur sem starfsmaður er fjarverandi frá vinnu, t.d. vegna veikinda og slysa, þeim mun líklegra er að hann falli út af vinnumarkaði.

Rannsóknir hafa einnig sýnt að með því grípa eins fljótt inn í veikindaferli og auðið er þeim mun fyrr næst bati. Til dæmis getur hluti af bataferli viðkomandi starfsmanns verið að gefa honum færi á að koma til vinnu miðað við starfsgetu. Hægt er að bjóða upp á ýmsa möguleika eins og styttri vinnutíma, breytt verkefni, aðlögun að  vinnuumhverfi eftir  þörfum starfsmannsins eða fara jafnvel hægar af stað og bjóða starfsmanninn velkominn í kaffi, að sitja fundi og ýmsa viðburði.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Helstu atriði í yfirlýsingu ríkisstjórnar í tengslum við kjarasamningana

Ríkisstjórnin hefur gefið út sérstaka yfirlýsingu í tengslum við gerð kjarasamninganna 4. maí. Hún er afrakstur samráðs stjórnvalda og aðila á almenna vinnumarkaðinum. Yfirlýsingin byggir m.a. á áherslum sem Alþýðusamband Íslands hefur lagt fram í samskiptum sínum við stjórnvöld. Áherslur sem lúta að bættum lífskjörum, meiri atvinnu, velferð og menntun. Með yfirlýsingunni skuldbinda stjórnvöld sig til að leggja grunn að varanlegum hagvexti og velferð í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Meginatriðið er að örva hagvöxt með arðsömum og sjálfbærum fjárfestingum, án þess aðmarkmiðum um afkomu ríkissjóðs sé ógnað.

Hér á eftir er gerð stutt grein fyrir nokkrum efnisatriðum yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. 

 

Hækkun bóta almannatrygginga og persónuafsláttar

Stjórnvöld munu endurskoða bætur almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninganna, þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og um verður samið í kjarasamningunum.

Tekju- og eignatenging vaxta- og barnabóta verður endurskoðuð á þessu ári.

Verðtryggingpersónuafsláttar verður lögfest og mun persónuafsláttur hækka samkvæmt því í ársbyrjun 2012.

Þar til viðbótar munu stjórnvöld í samráði við aðila vinnumarkaðarins skoða möguleika á hækkun krónutölu persónuafsláttar eða ígildi hennar í formi lækkunar skatthlutfalls á lægsta skattþrepi frá árslokum 2013.

 

Bætt þjónusta við atvinnuleitendur

Stjórnvöld skuldbinda sig til að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Ráðist verður í sérstakt tilraunaverkefni þar sem stéttarfélögin verða helstu veitendur þjónustunnar. Markmiðið er að bæta þjónustu við atvinnuleitendur hvað varðar skráningu, vinnumiðlun og vinnumarkaðsúrræði.

 

Átak gegn svartri atvinnustarfsemi, kennitöluflakki og fyrir bættum viðskiptaháttum

Ráðist verður í tímabundið átaksverkefni ríkisskattstjóra, ASÍ og SA til að sporna við svartri atvinnustarfssemi.

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir lagabreytingum til að koma í veg fyrir starfssemi aðila sem hafa ítrekað rekið félög í þrot (kennitöluflakk). Sérstaklega verða hæfisskilyrði forsvarsmanna fyrirtækja með takmarkaða ábyrgð skoðuð og hvernig megi sporna við misnotkun slíkra félaga.

Stjórnvöld beita sér strax fyrir lagabreytingum til að bæta réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti í framhaldi af því að fyrirtæki hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta.

Stuðlað verður að því að tryggja heilbrigða samkeppni þegar verklegar framkvæmdir og þjónusta er boðin út. Unnið verður að því að tryggja betur en nú er að í útboðslýsingum vegna opinberra innkaupa sé að finna skýr ákvæði um hæfi bjóðenda og val á tilboðum og að meginreglan verði að starfsmenn séu í föstu ráðningasambandi. Ennfremur er aðkallandi að kveða með skýrum hætti á um gerð útboðsgagna, um skil á launagreiðslum og samábyrgð verktaka og undirverktaka. Skoðað verði hvaða breytingar þarf að gera á gildandi lögum til að styrkja stöðu og réttindi launafólks sem starfar hjá fyrirtækjum á verktakamarkaði.

 

Sókn í atvinnumálum – fjárfestingar

Sameiginlegt markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er að skapa fjölbreytt og vel launuð störf og auka hagvöxt í 4-5% á ári í stað 2-2,5%. Markmiðið er að draga verulaga úr atvinnuleysi á samningstímanum. Í því skyni verða fjárfestingar örvaðar og hvatar til nýsköpunar búnir til jafnframt því að atvinnulífinu verði sköpuð hagstæð skilyrði sem stuðla að hagvexti. Stefnt að því að fjárfestingar í lok samningstímans verði ekki lægri en 350 milljarðar króna á ári. Þær voru 200 milljarðar árið 2010.

Sem lið í að ná þeim markmiðum mun ríkið ráðast í fjölda verklegra framkvæmda í ár og næsta ár. Þá er lögð áhersla á að fjárfestingar í virkjunum og gerð raforkusamninga verði á viðskiptalegum grundvelli og taki tillit til umhverfisgæða. Stefnt er að því að frumvarp til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjanna verði afgreitt á vorþingi. Landsvirkjun heldur áfram rannsóknum í Þingeyjarsýslum.

Hvatt til fjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja og unnið verður að því að kynna betur ný lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Þá mun verða ráðist í ýmsar aðgerðir til að efla nýsköpun og vaxtagreinar.

Alþýðusambandið lagði einnig mikla áherslu á að stjórnvöld ykju ýmsar hvataaðgerðir til að treysta stöðu nýsköpunar og þekkingargreina ásamt orkufrekum iðnaði sem styðji við markmið ASÍ um að auka vægi grænna greina í hagkerfinu.

 

Átak til að auka menntun og efla vinnumarkaðsúrræði

Öllum sem eftir því leita verða tryggð námstækifæri strax næsta haust. Framhaldsskólum verður gert kleift að taka inn þá umsækjendur yngri en 25 ára sem uppfylla skilyrði og þeim sem eru 25 ára og eldri verður gefinn kostur á úrræðum í framhaldsfræðslu. Þá verður heildstætt nám í fjarkennslu í boði á framhaldsskólastigi. Auk þess verða sköpuð námstækifæri fyrir allt að 1000 atvinnuleitendur haustið 2011.

Á næstu þremur árum verðu m.a. unnið að því að:

– Gera skil á milli framhaldsskólans og framhaldsfræðslunnar sveigjanlegri.

– Lög um námslán og námsstyrki verða endurskoðuð.

– Stofnaður verður sérstakur þróunarsjóður til að efla starfstengt nám á framhaldsskóla- og háskólastigi og vinnustaðanámssjóður efldur.

– Framangreint átak verður unnið í samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.

 

Úrbætur í lífeyrismálum, starfsendurhæfingu og húsnæðismálum

Áfram verður unnið að samræmingu lífeyrisréttinda og skal starfshópur skila af sér fyrir 1. september nk. og breytingar kynntar Alþingi. Í framhaldinu verður lagður grundvöllur að nýju samræmdu og sjálfbæru lífeyriskerfi fyrir allan vinnumarkaðinn. Viðurkennt er að mikill ójöfnuður er í áunnum lífeyrisréttindum landsmanna, þar sem verulega hallar á launafólk á almennum vinnumarkaði. Því er heitið, hvað varðar það sem liðið er, að ríkisvaldið skoði sérstaklega hvernig rétt sé að standa að inngreiðslum til að jafna uppá við lífeyrisréttindi í almenna kerfinu.

Ríkisstjórnin mun beitir sér fyrir því að lögfest verði skylda allra launagreiðenda til greiðslu 0,13% iðgjalds til Starfsendurhæfingarsjóðs og jafnhátt iðgjald frá lífeyrissjóðunum. Þannig tekst að tryggja uppbyggingu markvissrar starfsendurhæfingar sem stuðlar að virkni þeirra sem hafa dottið út af vinnumarkaði sökum slysa eða veikinda.

Unnið er að mótun tillagna um fjölbreyttari valkosti í húsnæðismálum og samræmingu á stuðningi við leigjendur og eigendur íbúðarhúsnæðis. Horft verður til jafnræðis milli búsetuforma við skiptingu þeirra fjármuna sem varið er til vaxtabóta og húsaleigubóta.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar má lesa í heild sinni  hér:

https://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettir1/yfirlysing-tengd-kjarasamningum5mai2011.pdf

Helstu atriði nýrra kjarasamninga

Stéttarfélögin hafa lagt mikla áherslu á að tryggja félagsmönnum sínum launahækkanir þessa árs, en fullyrða má að þær kjaraviðræður sem fram hafa farið á undanförnum mánuðum séu þær erfiðustu sem átt hafa sér stað áratuga skeið. Fyrir utan erfitt efnahaglegt árfeði var ýmislegt annað sem truflaði.

Það hjálpaði samningamönnum okkar að finna þá miklu eindrægni og staðfestu sem ríkti í stéttarfélögunum um þá stefnu sem tekin var í viðræðunum. Þegar atvinnurekendur komu fram af óbilgirni lét verkalýðshreyfingin ekki beygja sig heldur þétti raðirnar. Sá þrýstingur sem undirbúningur allsherjarverkfalls framkallaði sýndi atvinnurekendum að verkalýðshreyfingin ætlaði að láta sverfa til stáls. Í framhaldinu hófust samningaviðræður að nýju og nú með breyttu viðhorfi SA. Eftir standa aðildarsamtök ASÍ með mun betri samning en hreyfingunni stóð til boða fyrir páska. Mesti ávinningurinn er sá að í mjög þröngri stöðu tókst með sameiginlegri launastefnu aðildarsamtaka ASÍ að tryggja þeim meiri kjarabætur sem búa við lakari kjör og lægri tekjur.

Almennarl aunahækkanir á næstu þremur árum eru 11,4% en hækkun lágmarkslauna er þó mun meiri eða 23,6%. 50.000 króna eingreiðsla kemur til útborgunar þegar samningarnir hafa verið samþykktir í atkvæðagreiðslu og aðrar 25.000 krónur í tveimur greiðslum síðar á árinu.

 

1. Launabreytingar

a. Almenn hækkun

i.1. júní 2011 4,25%

    ii.1. febrúar 2012 3,50%

    iii.1. febrúar 2013 3,25% 
 

b. Krónutöluhækkun á taxta

i.1. júní 2011 12.000

    ii.1. febrúar 2012 11.000

   iii.1. febrúar 2013 11.000
 

c. Lágmarkstekjutrygging í dagvinnu

i.1. júní  2011 182  2011 182 .000

    ii.1. febrúar  2012 193  2012 193 .000

    iii.1. febrúar  2013 204  2013 204 .000 

2. Greiðslur vegna þess hve samningar hafa dregist

a.Eingreiðsla í júní kr. 50.000 fyrir starfsmann í fullu starfi í mánuðunum mars-maí. Starfsmenn sem létu af störfum í apríl eða eru í hlutastarfi fá hlutfallslega greiðslu miðað við starfstíma í mars og apríl. Starfsmenn sem hófu störf í apríl og verða í starfi til 5. maí fá hlutfallslega greiðslu miðað við starfstíma í apríl og maí.

b. Álag á orlofsuppbót 2011 kr. 10.000

c. Álag á desemberuppbót 2011 kr. 15.000


3.
Forsenduákvæði gagnvart ríkisvaldinu verður seinni partinn í júní. Kjaramningurinn gildir til 31. janúar 2014, með endurskoðun í janúar 2012 og janúar 2013. Ákveðinn fyrirvari er á samningnum sem tengist stjórnvaldsaðgerðum og lagabreytingum sem þurfa að eiga sér stað fyrir 22. júní 2011. Ef þær forsendur sem snúa að stjórnvöldum standast ekki gildir samningurinn til 1. febrúar 2012.


4.
Önnur ákvæði kjarasamnings öðlast strax gildi óháð því sem gerist við endurskoðun í júní.


5.
Áætla má að heildarkostnaðarauki atvinnurekenda af kjarasamningnum verði um 12,6% á samningstímanum.

6. Jöfnun lífeyrisréttinda. Samhliða þessum kjarasamningi verður stigið markvisst skref í að jafna lífeyrisréttindi þar sem stefnt er að því að auka framlög í lífeyrissjóði úr 12% í 15,5% á árabilinu 2014-2020. Bókun er um að fyrir árslok 2012 verði komin niðurstaða um samræmt og sjálfbært lífeyriskerfi alls launafólks á vinnumarkaði.
 

 

Helstu ávinningar samningsins

– Almenn launahækkun og eingreiðslur vegna tafa á gerð samnings.

– Sérstök áhersla á hækkun lægstu launa með hækkun launataxta um allt að 21% og lágmarkstekjutryggingar um 23,6%.

– Persónuafsláttur verður verðtryggður frá og með næstu áramótum.

– Lagður grunnur að jöfnun lífeyrisréttinda landsmanna með markvissum hætti á árunum 2014-2020 en hér er um að ræða eitt mikilvægasta réttindamál launafólks um áratuga skeið.

– Með kjarasamningnum er blásið til sóknar í atvinnulífinu með það að markmiði að draga úr atvinnuleysi, m.a. með ýmsum hvataaðgerðum til að treysta stöðu nýsköpunar og þekkingargreina ásamt orkufrekum iðnaði sem styðji við markmið ASÍ um að auka vægi grænna greina í hagkerfinu.

– Átak verður sett af stað í þjónustu við atvinnuleitendur á vegum stéttarfélaganna og menntunarúrræði verða sett á oddinn bæði fyrir yngra fólk og þá sem komnir eru af skólaaldri.

– Atvinnuleysisbætur og bætur almannatrygginga fá hliðstæða hækkun og þeir sem eru á lægstu töxtum.

– Hækkun framlaga til Fæðingarorlofssjóðs og Ábyrgðarsjóðs launa tryggir launafólki rétt í fæðingarorlofi og launatap í gjaldþrotum fyrirtækja.

– Starfsendurhæfingargjald lögfestir réttinn til endurhæfingar gagnvart öllu launafólki og þeim sem eru á örorkubótum lífeyrissjóðanna.

– Af hálfu stjórnvalda koma til fjölmargar umbætur til að tryggja réttarstöðu launafólks s.s. við sölu fyrirtækja, framkvæmd útboðsmála og til að hefta svarta atvinnustarfsemi.

Kjarsamninginn má lesa í heild sinni hér:

https://www.asi.is/Portaldata/1/Resources/frettaefni/Samningur_ASI_SA_-_lokaskjal_D.pdf

Tekið af heimasíðu ASÍ

Félagsfundur

Félagsfundur verður haldinn í Bárunni, stéttarfélagi mánudagskvöldið 9. maí nk. að Austurvegi 56 í sal á 3. hæð á Selfossi. Fundurinn hefst kl. 20.00.

Dagskrá

1. Kjaramál.

2. Fyrri umræða um breytingar á lögum félagsins.

3. Önnur mál.

Stjórn Bárunnar, stéttarfélags

4% verðmunur á matarkörfunni í lágvöruverðsverslunum

4% verðmunur reyndist vera á matarkörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum síðastliðinn mánudag. Matarkarfan var ódýrust í Bónus þar sem hún kostaði 24.420 kr. en dýrust í Nettó á 25.437 kr. sem er 1.017 kr. verðmunur. Kostur neitaði þátttöku í könnunni.

Mestur verðmunur í matarkörfunni var á „vanillusykri“ sem var dýrastur á 3.750 kr./kg. í Krónunni en ódýrastur á 1.500 kr./kg. í Nettó eða 150% verðmunur. Mikill verðmunur var einnig á „rúðuúða“ sem var dýrastur á 498 kr./l. í Krónunni en ódýrastur á 259 kr./l. í Bónus eða 92% verðmunur. Einnig var töluverður verðmunur á ódýrasta „þurrfóðrinu“ fyrir hunda semvar dýrast á 373 kr./kg. í Bónus og Nettó en ódýrast á 225 kr./kg. í Krónunni eða 66% verðmunur.

Í þessari könnun var ýmist skoðaður ódýrasti valkostur af ákveðinni vöru t.d. ódýrasta kílóverðið af hveiti eða ákveðið vörumerki t.d. haframjöl frá OTA. Mikill verðmunur er almennt á ódýrasta valkosti enda oft um vörumerki frá misjöfnum framleiðendum að ræða. Til dæmis má nefna verðmun á ódýrasta valkosti af ferskum kjúklingaleggjum, sem voru dýrastir á 999 kr./kg. í Krónunni en ódýrastur á 695 kr./kg. í Bónus sem er 44% verðmunur.

Af merkjavöru má nefna að túrtappi frá o.b. er dýrastur á 27 kr./st. í Nettó og ódýrastur í Krónunni á 22 kr./st. sem gera 23% verðmun.


Sjá nánar í töflu.

Vörukarfan samanstendur af 72 almennum neysluvörum til heimilisins t.d. mjólkurvörum, morgunkorni, grænmeti, kjöti, drykkjavörum, ásamt ýmsum pakkavörum, dósamat og fleiru.

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.


Kostur neitaði þátttöku í könnuninni

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum; Bónus Kringlunni, Krónunni Höfða og Nettó Mjódd.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.


Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Stefnt að undirritun samninga í dag

Fundað var í öllum fundarsölum í húsakynnum ríkissáttasemjara í gærkvöldi og hefjast fundir á ný fyrir hádegi í dag. Verið er að ganga frá síðustu lausu endunum í samningum aðildarsambanda ASÍ við SA.

Stefnt er að þriggja ára samningi með forsenduákvæðum sem snúa að ríkisstjórninni. Gangi þær forsendur ekki eftir fyrir júní lok verður um árs samning að ræða.

Stefnt er að undirritun kjarasamninga eftir hádegi í dag.

Eljan

Fréttablað Verslunarmannafélags Suðurlands og Bárunnar, stéttarfélags er komið út. Meðal efnis í blaðinu er grein um álag í starfi. Félagsmenn stéttarfélaganna kvarta oftar en áður undan auknum kröfum atvinnurekenda um aukin afköst í daglegu starfi og spurning hver hagnaðurinn verði þegar upp er staðið. Einnig er viðtal við Lovísu Guðnadóttur um reynslu hennar af starfsemi Virk, starfsendurhæfingu og Davíð Jóhannesson vinnuvélastjóra um stöðu og framtíð verkalýðshreyfingarinnar.

Góð þátttaka í 1. maí hátíðarhöldum á Selfossi

Góð þátttaka var í 1. maí hátíðarhöldunum á Selfossi í gær sem hófust með kröfugöngu frá Tryggvatorgi. Hestamenn úr Sleipni fóru fyrir göngunni. Hátíðardagskráin fór fram fyrir utan húsnæði stéttarfélaganna að Austurvegi 56. Björgvin Franz Gíslason stýrði dagskránni og skemmti gestum ásamt ævintýrapersónum úr Stundinni okkar. Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar stéttarfélags var ræðumaður dagsins.

Gunnlaugur Bjarnason nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurlands kynnti sýn unga fólksins á málefnum verkalýðshreyfingarinnar. Félagar úr Bifreiðaklúbbi Suðurlands mættu með fornbíla og Íslandus Ísbar fagnaði deginum með andlitsmálningu og afslætti á ís. Um tvöhundruð manns mættu í kaffi hjá stéttarfélögunum  að dagskrá lokinni. Ræðu Halldóru má sjá í heild hér fyrir neðan:

Kæru félagar til hamingju með daginn.

Þegar ég var beðin að flytja ræðu 1. maí þá hugsaði ég hvað get ég talað um sem passar þessum baráttudegi og fólk hefur þolinmæði til að hlusta  á. Að sjálfsögðu var málið sára einfalt. Þegar ég leiddi hugann að þessum alþjóðlega baráttudegi, hvernig hann kom til og hver tilgangurinn með honum er fylltist ég ákveðnu stolti. Saga er eitthvað sem stenst tímans tönn og er ekki hægt að taka frá okkur.

Á þingi Evrópskra verkalýðsfélaga í París árið 1889 var samþykkt tillaga frá Frökkum að 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks. Frakkar lögðu til að verkafólk notaði daginn til fjöldafunda til að fylgja eftir kröfum um 8 stunda vinnudag og aðrar umbætur á kjörum sínum. Það kemur ekki á óvart að Frakkar skyldu leggja þetta til enda eru þeir seinþreyttir til verkfalla.

Valið á þessum degi styðst við rótgróna hefð í sunnanverðri Evrópu þar sem menn tóku sér oft frí þennan dag. Að  heiðnum sið var hann táknrænn fyrir endalok vetrarins og upphaf sumarsins.

Þann 31.október 1896 ritaði skáldið Einar Benediktsson  „Ef verkamennirnir færu að halda saman, mundu auðmennirnir vanda sig betur og græða það á dugnaði og fyrirhyggju, sem þeir vinna nú á ódýrleik allra starfsmanna við framleiðslu og iðnað. Og því fyrr sem félagsskapur verkamanna byrjar, því fyrr kemst hinn starfandi, arðberandi kraftur í þjóðinni til þeirra valda, sem honum ber með réttu, jafnt hér eins og annars staðar í heimi.“

Árið 1923 var fyrst gengin kröfuganga hinn 1. maí á Íslandi. Dagurinn varð lögskipaður frídagur á Íslandi árið 1972.

Hinn 1. maí gengur launafólk undir rauðum fána og leikinn er alþjóðasöngur verkalýðsins, Internasjónalinn.Upprunaleg merking þessara tákna er fyrst og fremst krafa um breytingar og réttlátara þjóðfélag. Rauði liturinn á fána verkalýðshreyfingarinnar táknar uppreisn gegn ranglæti. Hann þýðir að nú sé nóg komið, auk þess sem hann táknar dagrenninguna.

Verkalýðshreyfinginn á Íslandi telur aðeins rétt rúm 100 ár.

Mér þykir gaman að segja frá því að Báran, stéttarfélag rekur sögu sína til 1903 með stofnun Bárunnar á Eyrarbakka eða í 108 ár.

Fjölmörg þeirra réttinda sem fólki þykja sjálfsögð í dag þurfti mikla baráttu og oft fórnir til að öðlast. Það á við um samningsrétt, uppsagnarfrest, veikindarétt, fæðingarorlof, vinnuvernd, orlofsrétt,  uppbyggingu velferðarkerfisins og margt fleira. Stéttarfélögin hófu síðan byggingu orlofshúsa um allt land. Fyrstu orlofshúsin risu í Ölfusborgum 1962.

Jafnrétti var stór þáttur í baráttunni og þá helst að sérstakir kvennataxtar yrðu afnumdir. Hafðist það með lagasetningu árið 1957.

1920 heyrist í fyrsta sinn krafan um 8 stunda vinnudag hérlendis,. Eftir hörð átök á vinnumarkaði 1942 fékkst 8 stunda vinnudagur inn í samninga, vinnuvikan var því komin niður í 48 stundir. 1972 var 40 stunda vinnuvika loks lögfest. Í kjarasamningum árið 2000 lögðu mörg félög áherslu á að stytta enn frekar vinnuvikuna.

Við stofnum ASÍ árið 1916 voru 1500 félagar innan sambandsins. Í dag eru félagarnir um 100.000.

Þegar maður sér hvað áunnist hefur á þessum 100 árum og hvað við getum myndað mikinn slagkraft með samstöðu fyllist maður stolti yfir því að tileyra þessum stærstu samtökum launafólks á Íslandi.

Það má segja að stéttarfélagsbarátta sé lifandi og óvægin barátta þar sem menn mega aldrei láta deigan síga. Kannski höfum við sofnað á verðinum fyrst krafan um 200.000 króna lámarkslaun er að setja allt á hvolf í þjóðfélaginu. Er virkilega svo að einhverjum finnist 200.000, of mikið?

Kjarasamningar hafa verið lausir síðan 1. desember síðastliðinn og ekki sér fyrir endann á samningalotunni. Við eigum við ramman reip að draga.  Framan af í baráttunni hefur Verkalýðshreyfingin ekki verið nógu samstíga og hafa samböndin  verið með ólíkar áherslur og kröfur í kjarasamningum. Með því að draga fiskveiðistjórnunarkerfið inn í kjarasamninga hafa Útgerðarmenn lyft grettistaki við að þjappa verkalýðshreyfingunni saman og kann ég þeim bestu þakkir fyrir.

Í dag blasir við sú staða að allt stefni hér í allsherjarverkfall. Auðvitað er þetta staða sem engin óskar eftir, en þessi samningalota hefur verið algjört limbó sem ekki er hægt að una lengur við. Samtök atvinnulífsins hafa vægast sagt boðið upp á visst tómlæti og algjört virðingarleysi gagnvart viðsemjendum þ.e.a.s hinum vinnandi manni.

Við höfum verið að kanna hug okkar fólks til verkfallsaðgerða, og það er mikill baráttuhugur í fólki. Síðan kreppan skall á hefur almenningur í landinu sýnt mikið æðruleysi, tekið á sig kaupmáttarskerðingar, launalækkanir og atvinnumissi. En nú segjum við stopp hingað og ekki lengra.

Að lokum vil ég segja þetta

Nú er farið að birta og sumarið ekki langt undan.

Það felast tækifæri í öllum aðstæðum, tækifærið okkar núna er að standa saman og nýta  slagkraftinn til samstöðu um aukna atvinnu og bættra kjara.

Takk fyrir.

Kröfuganga og fjölbreytt hátíðardagskrá 1. maí á Selfossi

Báran stéttarfélag, Verslunarmannafélag Suðurlands, Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi og Félag iðn- og tæknigreina standa fyrir dagskrá á alþjóðlegum baráttu- og hátíðardegi  verkalýðshreyfingarinnar sunnudaginn 1. maí n.k.

Safnast verður saman við Tryggvatorg á Selfossi kl. 11.00 og gengið verður að Austurvegi 56 við undirleik Lúðrasveitar Selfoss. Félagar í Sleipni fara fyrir göngunni á hestum. Að göngu lokinni verður hátíðardagskrá á útisviði. Kynnir er Björgvin Franz Gíslason leikari og ræðumaður dagsins er Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar stéttarfélags. Gunnlaugur Bjarnason nemandi við Fjölbrautaskóla Suðurlands lýsir framtíðarsýn unga fólksins. Karlakór Selfoss flytur nokkur lög og Björgvin Franz ásamt ævintýrapersónunum úr Stundinni okkar skemmta gestum. Að lokinni dagskrá verður boðið upp á morgunkaffi í sal stéttarfélaganna á Suðurlandi. Íslandus ísbar fagnar deginum með andlitsmálningu fyrir börnin og tilboðsverði á ís. Sunnlendingar sýnum samstöðu og fjölmennum.

Kjaraviðræður í hnút- verkfallsboðun rædd

Það er gamall sannleikur og nýr að ekkert fæst án baráttu. Í þeirri baráttu er verkfallsvopnið öflugt en vandmeðfarið. Það ber að nota af ábyrgð. Nú er nauðvörn.

Tilboð Starfsgreinasambandsins sem lagt var fram fyrir páska að kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins var hafnað. Samtök atvinnulífsins standa föst á þeirri kröfu að ekki verði samið á almennum vinnumarkaði nema gengið sé fyrst frá málefnum sjávarútvegsins innan ríkisstjórnarinnar. Þau virðast föst í neti útvegsmanna. Þessi krafa Samtaka atvinnulífsins var ekki til umræðu þegar samningsaðilar hittust í janúar. Þá var óskaði eftir því við Starfsgreinasambandið og önnur aðlidarsambönd ASÍ að samið yrði um samræmda launastefnu til 3ja ára, m.a. til að tryggja stöðugleika og atvinnuppbyggingu hér á landi. Þeim sjónarmiðum var svarað jákvætt og því mátti ætla að vilji hafi verið til samninga. Það reyndist blekking. Samtök atvinnulífsins ætluðu ekki að semja nema þau fengju fram vilja sinn gagnvart ríkisstjórninni. Slík gíslataka stríðir gegn ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/ 1938. Krafan er sett er fram í viðræðum um gerð kjarasmnings milli aðila vinnumarkaðarins. Henni er ætlað að þvinga stjórnarvöld til að framkvæma eitthvað sem þeim ber ekki að gera samkvæmt ákvæðum laganna.  Kjardeilan er kominn í hnút. Samtök atvinnulífsins fara ekki að lögum. Ríkisstjórnin lætur ekki kúga sig. Við verkafólk er ekki samið.

 

Aðgerðarhópur Starfsgreinasambandsins ræðir nú möguleika á verkafallsaðgerðum til að mæta óbilgirni atvinnurekenda. Kjaradeilunni var vísað á borð ríkissáttasemjara í janúar. Viðræður um launaliði hafa reynst áranguslausar. Það er hlutverk ríkissáttasemjara að reyna allar leiðir til að fá menn að samningaborðinu. Takist honum það ekki og láti Samtök atvinnulífsins ekki af ólögmætum aðgerðum sínum blasir verkfallsboðun við með dapurlegum afleiðingum fyrir t.d. ferðaþjónustusumarið, verslun og iðnað í landinu. Það er okkar nauðvörn og barátta sem við verðum að taka eigi árangur að nást í kjaraviðræðunum.

Tekið af heimasíðu SGS