Við vinnum fyrir þig

Translate to

Meginmarkmið Starfsgreinasambandins í höfn með nýjum kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins

Á heimasíðu Starfsgreinasambandsins kemur fram að meginmarkmið samninganefndar SGS var að endurheimta þann kaupmátt sem glatast hefur frá upphafi efnahagshrunsins, minnka atvinnuleysið og tryggja hinum lægst launuðu auknar kjarabætur. Sá samningur sem undirritaður var í gær er veigamikill þáttur í þeirri vegferð, upphaf að endurreisninni

Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld þurftu að koma að málinu saman svo væntingar gangi eftir og verðbólga drekki ekki kjarabótunum. Krafan um 200 þúsund króna lágmarkslaun strax náðist ekki. Hún kemur hins vegar í áföngum, fer úr kr. 165 þús. í kr. 182 þús. 1. júní og svo 193 þúsund 1. des. 2012 og loks í 204 þús. krónur 1. febrúar 2013, en hækkunin er tæp 24% á samningstímanum.

 

Það var skýr krafa Starfsgreinasambandsins allan tíman að krónutöluhækkun kæmi á launataxtana, enda kemur það þeim sem vinna á strípuðum launatöxtum mun betur. Það hefur því tekist enn eina ferðina að verja og bæta kaupmátt hinna lægst launuðu, allt að 13% á samningstímanum. Þá hefur einnig tekist að ná fram umframhækkun í fiskvinnslu og ræstingu, en reiknitölur í bónus- og ákvæðisvinnu hafa setið eftir í kjarasamningum liðinna ára. Það er nú lagfært verulega.

Óbreytt yfirlýsing ríkisstjórnarinnar er ekki grundvöllur til að byggja á

Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins segir þá yfirlýsingu sem ríkisstjórnin kynnti aðilum vinnumarkaðarins í dag ganga of skammt. Hann vill ekki fara efnislega í hvað það er sem standi í ASÍ en segir það einkum vera atriði sem lúti að atvinnu-, skatta- og lífeyrismálum.

„Formenn okkar landssambanda og stærstu aðildarfélaga hitta sitt bakland á morgun og það er ljóst að við verðum að fá skýrari svör varðandi nokkur efnisatriði fyrir þá fundi eigi að vera hægt að byggja þriggja ára kjarasamning á þessum forsendum“, segir Gylfi. „Takist það á að vera hægt að hefja vinnu við lokafrágang kjarasamninga strax í kjölfarið.“

Tekið af heimasíðu ASÍ

Námskeið fyrir trúnaðarmenn

Trúnaðarmannanámskeið I 2. þrep verður haldið 4. til 5. apríl 2011 í sal Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna. Farið verður í helstu ákvæði laga sem varða réttindi og skyldur launafólks og launagreiðenda. Stéttarfélagið kynnir réttindi félagsmanna sinna  hjá félaginu.

Skráning á námskeiðið fer fram á þjónustuskrifstofunni í síma 480-5000 og einnig í tölvupósti á thor@midja.is.  Síðasti skráningardagur er 29. mars nk.

Endurskoðuð hagspá ASÍ – botninum náð og hægur vöxtur framundan

Allt bendir til þess að viðsnúningur sé að verða í íslensku efnahagslífi og hægur bati sé framundan næstu árin.Staðan á vinnumarkaði verður áfram erfið en mun lagastí takt við batnandi efnahagslíf. Í lok spátímans verður atvinnuleysið komið niður í 5,2%. Tímabundnar aðgerðir stjórnvalda styðja við heimilin og staða þeirra vænkast nokkuð en verður áfram þröng.

Endurskoðaða hagspá ASÍ 2011-2013 má lesa í heild sinni hér.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Kjaraviðræðurnar og aðkoma ríkisins

Í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir ber öllum saman um mikilvægi þess að efla atvinnustigið. Það er grunnurinn að kjarabótum til lengri tíma litið og forsenda þess að kjarasamningar náist.

Hagkerfið þarf innspýtingu fjármagns,  ekki síst erlendar fjárfestingar ef hagvöxtur á að aukast þannig að atvinnuleysið minnki og kaupmáttur aukist. Nú eru horfurnar frekar neikvæðar. Þess vegna er enn mikilvægara að ríkisvaldið beiti sér sérstaklega fyrir stórátaki og þá dugir ekki bara stækkun álversins í Straumsvík, Búðarhálsvirkjun, kísilmálmverksmiðja í Helguvík, hreinkísilverksmiðja í Grindavík og natríumklóratverksmiðja á Grundartanga. Þessar framkvæmdir skapa rúmlega tvö þúsund ársverk og um fimm til sex hundurð varanleg störf. Betur má ef duga skal. Nærtækasta, öflugasta og verðmætasta verkefnið er enn og aftur álverið í Helguvík, en þá þarf að virkja í neðri hluta Þjórsár. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Um þá framkvæmd virðist ekki vera pólitísk sátt í núverandi ríkisstjórn. Því verður að breyta.

Sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir þeim vanda að vera í óvissu með sitt rekstrarumhverfi meðan ekki er lokið umræðunni um hvort kvótaskerðing kemur til framkvæmda á næstu misserum eða ekki. Fullyrt er að útvegurinn haldi að sér höndum í viðbótarfjárfestingum upp á allt að 10 milljarða á ári meðan málið er í pólitískri óvissu. Vissulega geta menn haft sínar skoðanair á kvótakerfinu, en mestu skiptir að þau sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtæki sem starfa í greininni geti búið við eins örugg starfsskilyrði og mögulegt er. Annað er ótækt. Vel rekin og örugg fyrirtæki munu þá eflast meðan önnur verr rekin munu hverfa úr greininni eins og gengur.

Tekið af heimasíðu SGS

Villandi málflutningur opinberra starfsmanna um lífeyrismál

Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að samræma lífeyrisréttindi landsmanna vegna þess óréttlætis sem ríkir milli annars vegar þeirra starfsmanna hins opinbera sem eru í samtökum opinberra starfsmanna og þeirra starfsmanna hins opinbera sem eru félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ, ásamt þeim mikla fjölda launamanna sem starfa á almennum vinnumarkaði.

Ljóst hefur verið frá upphafi þessarar vinnu að núverandi lífeyriskerfi opinberra starfsmanna er ekki sjálfbært og safnast hefur upp um 500 milljarða króna halli sem ríki og sveitarfélög eru í ábyrgð fyrir. Alþýðusamband Íslands hefur í mörg ár vakið athygli bæði samtaka opinberra starfsmanna og stjórnvalda á því að þessi alvarlega staða ógni verulega stöðu og framtíð mennta-, velferðar- og heilbrigðiskerfisins þar sem sífellt meiri fjármunir fara til þess að halda þessu kerfi uppi. Þrátt fyrir það hefur þessi vandi haldið áfram að vaxa og er nú að

Af hálfu opinberra starfsmanna hefur jafnan verið lögð áhersla á tvö megin atriði. Annars vegar að staðinn verði vörður um áunnin réttindi opinberra starfsmanna – þ.e. að ekki komi til skerðingar þeirra – og hins vegar að slík jöfnun verði gerð upp á við – þ.e. að réttindi á almennum vinnumarkaði verði hækkuð til jafns við opinbera vinnumarkaðinn. Jafnframt hefur verið samstaða um að lífeyriskerfið verði sjálfbært, þannig að hver kynslóð standi undir sínum réttindum, en hvíli ekki á bakábyrgð launagreiðanda.

Af hálfu ASÍ hefur verið fallist á þessa meginkröfu, en einnig vakin athygli á því að aðilar verði að gera sér grein fyrir því að það muni leggja gríðarlegar byrðar á ríki og sveitarfélög sem fyrirfram er vitað að muni leiða til niðurskurðar á þjónustu og uppsagna opinberra starfsmanna. Af hálfu samtaka opinberra starfsmanna hefur ekki verið vilji til þess að fulltrúar almenna vinnumarkaðarins komi að umræðu um stöðu lífeyriskerfis opinberra starfsmanna og skipaði ríkisstjórnin sérstakan starfshóp með fulltrúum stjórnvalda og opinberra starfsmanna til að fjalla um þau mál. Fulltrúum Alþýðusambandsins þykir þetta miður en hafa ekki afsalað sér réttinum til þess að hafa skoðun á því í hvað fjármunum ríkis og sveitarfélaga verði varið í framtíðinni.

Viðræður ASÍ við Samtök atvinnulífsins grundvallast á fyrrgreindu markmiði um að jafna lífeyrisréttindin á almenna vinnumarkaðinum gagnvart hinum opinbera í stað þess að réttindi þeirra verði færð niður að þeim réttindum sem eru á almenna vinnumarkaðinum. SA hefur hins vegar í ljósi þessarar kröfu okkar farið fram á að fá upplýsingar um áform stjórnvalda varðandi lífeyriskerfi opinberra starfsmanna, m.a. í ljósi þess að hvorki ASÍ né SA hafa aðgang að þeirri umræðu. Ef ætlunin er að jafna lífeyrisréttindi almenns launafólks upp að réttindum opinberra starfsmanna, er mikilvægt að fá upplýsingar um upp að hverju er verið að jafna! Því settu samtökin fram minnisblað við ríkisstjórnina, þar sem afstöðu samtakanna er lýst. Eins og fram kemur í minnisblaðinu hefur Alþýðusambandið lagt ofuráherslu á að staðið verði við öll áunnin réttindi opinberra starfsmanna –en hins vegar er farið fram á að tryggt verði að lífeyriskerfi opinberra starfsmanna verði gert sjálfbært þannig ekki verði frekari skuldaaukning í sjóðum þeirra, umfram þá 500 milljarða sem nú þegar hafa safnast upp og lenda munu á skattgreiðendum næstu árin. Fullyrðingum opinberra starfsmanna um að Alþýðusambandið hafi uppi hugmyndir um skerðingu á lífeyrisréttindum réttindum opinbera því alfarið vísað á bug.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ

Tekið af heimasíðu ASÍ

Orlofshús Bárunnar, stéttarfélags sumarið 2011

Báran, stéttarfélag auglýsir orlofshús félagsins við Flúðir og einnig íbúð félagsins á Akureyri til umsókna fyrir sumarið 2011.Umsóknarfrestur er til 26. apríl nk. Hægt er að sækja um á heimasíðu félagsins www.baran.is. eða í gegnum síma Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna 480-5000.

Úthlutun orlofshúsa mun liggja fyrir 29. apríl nk. Öllum umsóknum verður svarað skriflega.

Verð á vikudvöl er kr. 15.000,-.

Jákvæður fundur en mikil vinna eftir

Forystumenn Alþýðusambandsins og SA áttu í gær fund með sjö ráðherrum ríkisstjórnarinnar, þar á meðal forsætis- og fjármálaráðherra. Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ segir fundinn hafa verið efnisríkan en á honum fóru aðilar vinnumarkaðarins yfir þau atriði kjaraviðræðna sem að snúa að stjórnvöldum.

Gylfi segir mörg þeirra mála í góðum farvegi og ekki mikill skoðanamunur, frekar deili menn um útfærslur og fjármögnun. Þannig sé t.d. þokkaleg samstaða í starfshópi um menntunarúrræði fyrir atvinnulausa og miklar væntingar um að hægt verði að koma á greiðsluskyldu atvinnurekenda og lífeyrissjóða vegna Starfsendurhæfingarsjóðs en sú umræða er í góðum farvegi. Meiri ágreiningur er t.d. varðandi þá kröfu aðila vinnumarkaðarins að fá að axla meiri ábyrgð á þjónustu við atvinnulausa. Varðandi grundvöll efnahagsstefnunnar, bæði forsendur gengisþróunar og hagvöxt og atvinnumál eru hins vegar stóri ásteytingarsteinninn.

„Það er alveg ljóst að það þarf að auka fjárfestingar í atvinnulífinu. Af hálfu ASÍ viljum við að ríkisstjórnin skuldbindi sig til að standa fyrir ákveðinni innspýtingu í hagkerfið á næstu þremur árum, bæði beint í formi vegaframkvæmda í einkaframkvæmd eða með öflugri sókn í stóriðju og orkuframkvæmdum. Miðað við þau verkefni sem við vitum að eru í hendi geta þetta verið um 200 milljarðar í nýjum fjárfestingum á næstu þremur árum sem gæti aukið hér hagvöxt frá 2-2,5% í allt að 4%. Ríkisstjórnin vill ekki binda sig í ákveðnum verkefnum og talar um að margir hafi áhuga á að koma hingað með fjárfestingar. Það er auðvitað gott, en við þurfum hins vegar ákvarðanir. Það verður ekki hægt að hækka laun eða fjölga störfum í landinu á væntingunum einum saman. Ef eitt verkefni dettur upp fyrir verður eitthvað annað að koma í staðinn. Mikilvægast er auðvitað að við þurfum að vita hvað ríkisstjórnin ætlar sér í virkjanamálum og því verður að hraða vinnu með rammaáætlunina og klára hana fyrir sumarleyfi. Það er ljóst að atvinnumálin verða þyngsta málið sem snýr að stjórnvöldum,“ segir Gylfi. „Við lögðum áherslu á það í morgun að tíminn væri að hlaupa frá okkur ef það á að klára samninga fyrir næstu útborgun launa. Málin verða að komast fyrir alvöru á hreyfingu þannig að þau klárist í næstu viku,“ segir forseti Alþýðusambandsins.

Tekið af heimasíðu ASÍ

ASÍ 95 ára

Alþýðusamband Íslands varð 95 ára laugardaginn, 12. mars. Það er ljóst að margir mikilsverðir sigrar hafa unnist í baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir bættum kjörum og betra lífi á tæpri öld. Vökulögin, vinnulöggjöfin, lífeyrissjóðir, sjúkrasjóðir, atvinnuleysistryggingar og húsnæðismálin eru dæmi um þetta. Það er ljóst að margt væri með öðurm hætti í okkar þjóðfélagi ef baráttu verkalýðshreyfingarinnar hefði ekki notið við. Þessa er hollt að minnast á merkum tímamótum.

Síðar á árinu verður gefin út á bók saga Alþýðusambands Íslands frá 1916 til vorra dag. Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur ritar bókina.

Tekið af heimasíðu ASÍ.

Ungar konur hvattar til dáða

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC) hefur sett af stað herferð til að brýna ungar konur á vinnumarkaði til dáða hvar sem þær búa í heiminum. Ætlunin er að vekja þær til umhugsunar um réttindi sín og tækifæri. Yfirskrift verkefnisins er Decisions for Life eða Ákvarðanir fyrir lífið.

Hér má sjá myndband sem ITUC hefur látið gera vegna þessa átaks.

Hér má sjá Facebook síðu átaksins.

Tekið af heimasíðu ASÍ