Við vinnum fyrir þig

Translate to

Orlofshús Bárunnar um páska 2016

Báran, stéttarfélag auglýsir orlofshús félagsins á Flúðum og á Akureyri laus til umsókna fyrir páskavikuna 23. – 30. mars 2016. Umsóknarfrestur er til 29. febrúar nk. Hægt er að sækja um í tölvupósti baran@baran.is eða í síma Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna 480-5000. Úthlutun orlofshúsa mun liggja fyrir 2. mars nk. Öllum umsóknum verður svarað skriflega. Nánari upplýsingar í auglýsingu um páskaúthlutun á þessari síðu.

Atkvæðagreiðsla um kjarasamning

Rafræn atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning ASÍ við SA hefst næstkomandi þriðjudag (16. febrúar).  kl. 8.00  og lýkur kl. 12.00 á hádegi þann 24. febrúar.

Það eina sem þú þarft að gera til að greiða atkvæði er að ýta á grænu myndina af kjörkassa sem finna má hægra megin á heimsíðunni. Þar þarf að setja inn lykilorð sem fylgja með kynningargögnum um samninginn og atkvæðagreiðsluna sem ASÍ sendir frá sér á morgun mánudaginn 15. febrúar.

Þeir félagsmenn sem ekki hafa aðgang að tölvu geta kíkt á skrifstofur félagsins og fengið aðgang að viðeigandi tækjabúnaði og aðstoð ef með þarf.

Sýnum samstöðu og greiðum atkvæði!

Upplýsingar um kjarasamninginn

m_asi-atkvaedagreidsla

Líf og fjör á öskudegi

Söngurinn hljómaði um Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna þegar að tugi barna komu í heimsókn í tilefni af öskudeginum. Hér eru þær Sigrún og Irina sem glöddu okkur með fallegum söng. Þökkum öllum gestum okkar og óskum þeim alls góðs.

 

 

Nýtt námskeið fyrir félagsliða

Námskeiðið „Faglegar nálganir og persónulegur styrkur“ er 15 stunda námskeið fyrir félagsliða sem haldið verður hjá Fræðsluneti Suðurlands á Selfossi. Um er að ræða nýtt námskeið sem eru liður í að efla endurmenntun fyrir félagsliða. Félagsmenn og stofnanir geta sótt um námsstyrk vegna námskeiðsins hjá Bárunni.

Hvernig á að efla og viðhalda faglegri nálgun og eldmóði? Beitt verður fjölbreyttum aðferðum við að virkja hæfileika s.s. til faglegra og árangursríkra samskipta, að auka persónulegan styrk og fleira. Verkfærataska félagsliða skoðuð og bætt í hana.

  • Tími: Miðvikudagur 10. febrúar, þriðjudagur 16. febrúar og miðvikudagur 17. febrúar kl. 17.00 – 20.30
  • Staður: Fjölheimar, Selfossi
  • Verð: 30.500
  • Leiðbeinendur: Marín Björk Jónasdóttir, uppeldis- og menntunarfræðingur og náms- og starfsráðgjafi og Þórkatla Þórisdóttir kennari og félagráðgjafi

Nánari upplýsingar og skráning

Nýr samningur undirritaður

 

Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa undirritað nýjan samning sem felur í sér viðbætur við þær hækkanir sem samið var um á síðasta ári á hinum almenna vinnumarkaði. Samningurinn byggir á rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá 27. október 2015 og bókun um lífeyrisréttindi frá árinu 2011 og er ætlað að tryggja jafnræði í kjaraþróun á grundvelli sameiginlegrar launastefnu og jöfnun lífeyrisréttinda. Björn Snæbjörnsson formaður Starfsgreinasambandsins fer með umboð 15 aðildarfélaga sambandsins m.a. Bárunnar stéttarfélags og undirritaði samningin fyrir þeirra hönd. Önnur aðildarfélög sambandsins undirrituðu samninginn einnig (Stéttarfélag Vesturlands og Flóabandalagið).

Samningurinn felur í sér breytingar á launaliðum og lífeyrisréttindum svo:
2016: Í stað 5,5% launaþróunartryggingar kemur 6,2% almenn launahækkun, að lágmarki kr. 15.000 á mánuði. Launahækkunin kemur til framkvæmda 1. janúar 2016 í stað 1. maí 2016. Hafi launagreiðandi framkvæmt almenna hækkun launa gagnvart þorra starfsmanna á tímabilinu 2. maí 2015 til 31., desember 2015 er heimilt að draga hana frá hækkuninni. Þó skal enginn starfsmaður fá minna en 6,2% launahækkun á tímabilinu 2. maí til 31. desember, að lágmarki kr. 15.000 á mánuði.

2017: Í stað 3% almennrar launahækkunar 1. maí 2017 kemur 4,5% almenn launahækkun

2018: Í stað 2% almennrar launahækkunar 1. maí 2018 kemur 3% almenn launahækkun

Lífeyrisréttindi:
Framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð hækkar og verður eftirfarandi:

2016: Framlag atvinnurekenda hækkar 1. júní 2016 um 0,5% stig og verður 8,5%

2017: Framlag atvinnurekenda hækkar 1. júní 2017 um 1,5% stig og verður 10%

2018: Framlag atvinnurekenda hækkar 1. júní 2018 um 1,5% stig og verður 11,5%.

Aukning mótframlags í lífeyrissjóðin skilar aukinni réttindaávinnslu þannig að einstaklingur sem greiðir í lífeyrissjóð skv. þessu alla starfsævina getur vænst þess að fá um 76% af meðaltali ævitekna úr lífeyrissjóði í stað 56% áður. Örorkubætur og barna- go fjölskyldulífeyrir hækka í sama hlutfalli. Tryggt verður að einstaklingur geti valið að verja a.m.k. hluta af hækkun iðgjaldsins í bundna séreign.

Samningurinn fer nú í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna aðildarfélaga ASÍ, upplýsingar um atkvæðagreiðsluna verða kynntar á næstu dögum.

 

Samninginn í heild sinni má nálgast hér.
Fréttatilkynning ASÍ vegna samningsins.

Spurt og svarað um SALEK

Hvað er SALEK?

Svar: SALEK er skammstöfun fyrir samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. SALEK er afrakstur vinnu sem hófst 2013 með úttekt BSRB, KÍ, BHM, ASÍ, SA og samninganefnda ríkis, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga á umhverfi kjarasamninga á hinum Norðurlöndunum, þar sem áhersla var lögð á heildarendurskoðun samningalíkansins.

Hvers vegna SALEK?

Svar: Með samstarfinu vilja heildarsamtökin stuðla að því að bæta þekkingu og vinnubrögð við undirbúning og gerð kjarasamninga með Norðurlöndin sem fyrirmynd. Markmiðið er að auka kaupmátt á grundvelli lágrar verðbólgu, lágra vaxta og stöðugs gengis. Á hinum Norðurlöndunum hefur tekist að auka kaupmátt tvisvar sinnum meira á ári á síðustu 15 árin en hér á landi. Auk þess er samkomulaginu ætlað að stuðla að friði á vinnumarkaði og auknum stöðugleika.

Er samningsrétturinn tekinn af einstaka stéttarfélögum með SALEK samkomulaginu?

Svar: Nei, það er ekkert í þessu samkomulagi sem hróflar við ákvæðum vinnulöggjafarinnar um samningsrétt einstakra stéttarfélaga.

Er þetta kjarasamningur?

Svar: Nei, þetta er rammasamkomulag sem hvert stéttarfélag/landssamband fyrir sig getur unnið út frá. Allir aðilar samkomulagsins fá þó fyrirheit um að njóta sambærilegra launahækkana til ársloka 2018. Þá verður gert samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði.

Kemur þetta samkomulag í staðinn fyrir kjarasamning?

Svar: Nei. Flest félög innan ASÍ sömdu vorið 2015 til þriggja ára um minni launahækkanir en felst í SALEK-samkomulaginu. Á grundvelli þessa rammasamkomulags þarf samninganefnd ASÍ að gera nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins til að tryggja að 85.000 félagsmenn okkar á almennum vinnumarkaði fái sambærilegar launahækkanir og um hefur verið samið á opinbera markaðinum. Sá samningur verður síðan lagður í atkvæðagreiðslu félagsmanna.

Þýðir þetta samkomulag að allar launahækkanir (launaskrið) séu bannaðar?

Svar: Nei, það er ekki hægt að banna launaskrið. Breytingin er sú að opinberir starfsmenn fá nú að njóta launaskriðs sem verður á almennum vinnumarkaði, að frádregnu launaskriði á opinbera vinnumarkaðinum.

Gerir samkomulagið það að verkum að launahækkanir mínar verða takmarkaðar?

Svar: Gagnvart félagsmönnum ASÍ hjá hinu opinbera tryggir samkomulagið að þeir fái sambærilegar launahækkanir og kveðið var á um í gerðardómi í sumar. Gagnvart félagsmönnum ASÍ á almennum vinnumarkaði tryggir samkomulagið að SA skuldbindur sig að tryggja þeim einnig sambærilegar launahækkanir.

Eru stéttafélög óþörf með svona samkomulagi?

Svar: Nei, þvert á móti sýnir þetta styrkleika okkar fyrirkomulags. Við getum verið stórt og sterkt afl í samskiptum við hið opinbera og samtök atvinnurekenda en samhliða búið einstaka stéttarfélögum betra svigrúm til þess að sinna hagsmunum sinna félagsmanna.

Er það forysta hvers tíma sem getur gert breytingar á samkomulaginu, allt eftir því hvernig vindar blása?

Svar: Forysta verkalýðshreyfingarinnar hefur að sjálfsögðu ekkert sjálfdæmi um það með hvaða hætti samningalíkan er byggt upp. Þar hafa stéttarfélögin og félagsmenn þeirra síðasta orðið. Með umræddu rammasamkomulagi er ekki búið að ákveða eitthvert eitt samningalíkan, heldur er hér verið að hefja umræðu sem við teljum að muni taka 2-3 ár að ljúka.

Verður það gert í nánu samráði og samstarfi við aðildarfélög ASÍ og félagsmenn þeirra?  Ef við náum á endanum saman um innviði nýs samningalíkans verður það lagt í atkvæðagreiðslu allra þeirra tæplega 100.000 félagsmanna sem eru innan raða ASÍ.

Hvað gerist núna þegar búið er að gera SALEK-samkomulagið?

Svar: Fyrsta verkefnið er að ljúka kjarasamningum við ríki og sveitarfélög vegna félagsmanna ASÍ sem starfa á þeim hluta vinnumarkaðarins. Næst er að tryggja félagsmönnum ASÍ á almennum vinnumarkaði sambærilegar launahækkanir á næstu árum og hér um ræðir. Síðan verðum við að hefja umræðu um þróun og mótun þess samningalíkans sem vonandi tryggir okkar félagsmönnum kaupmáttaraukningu á grundvelli lágrar verðbólgu, lágra vaxta og stöðugs gengis. Samhliða verðum við að ræða við stjórnvöld um það með hvaða hætti þau þurfa að beita agaðri hagstjórn til að koma í veg fyrir kollsteypur vegna ofþenslu.

Ef þú hefur frekari spurningar vegna SALEK-samkomulagsins sendu þær þá á asi@asi.is

Frétt tekin af heimasíðu ASÍ

Frétt Fréttatímans um mansal á Suðurlandi

(Af vef Fréttatímans 15.janúar 2016)

Tvær pólskar konur á þrítugsaldri réðu sig til starfa á gistiheimili á Suðurlandi en eigandinn var kærður til lögreglu vegna stórfelldra brota á kjarasamningi sem stéttarfélagið telur að flokkist undir mansal. Konurnar voru látnar vinna alla daga vikunnar og svara í síma gistiheimilisins nótt og dag.

Konurnar komu til landsins frá Póllandi í júlí 2014 en í september höfðu þær ekki fengið krónu útborgaða og voru auk þess hvergi á skrá. Lögreglan hefur hinsvegar ekki enn yfirheyrt gistihúsaeigandann þótt meira en ár sé liðið frá brotunum. Þá á enn eftir að yfirheyra ýmis vitni.

Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Selfossi, segir að lögreglan taki málið mjög alvarlega þrátt fyrir þetta. Það sé bara svo mikið að gera hjá embættinu og kynferðismál séu sett í forgang: „Þú hellir ekki meira í trektina en stúturinn ræður við,“ þannig er það nú bara,“ segir hann.

Eigandi gistiheimilisins rekur marga slíka staði þar sem er boðið upp á gistingu og morgunmat. Upphaflega sömdu konurnar um að vinna tíu tíma á dag, sjö daga vikunnar fyrri eitt þúsund evrur á mánuði, sem er langt undir lágmarkskjörum á Íslandi. Fyrstu dagana var eigandinn vingjarnlegur og vinnan eins og samið hafði verið um. Hann hafði sagt þeim við komuna að það borgaði sig ekki að fá kennitölu, þá yrðu þær rukkaðar um skatt.

Eftir að önnur starfskona frá Litháen hætti, tóku konurnar yfir verkefni hennar og vinnudagurinn var nú allt að fimmtán tímar á sólarhring, auk þess sem ætlast var til að þær tækju við bókunum á öllum tímum sólarhringsins. Undir lokin voru þær alveg hættar að komast nokkuð frá gistiheimilinu.

 

Brást við með dónaskap

Við vorum úrvinda, að vinna svona alla daga, án þess að fá neitt frí,“ segir önnur þeirra í viðtali við Fréttatímann en hún er komin aftur til Póllands.

„Við lögðum til við eigandann að hann réði eina konu í viðbót, en hann taldi að þetta væri síst of langur vinnudagur. Þetta væri hans fyrirtæki, hann réði og hann gæti fundið aðrar konur í okkar stað, strax á morgun.“

Hún segir að upp frá þessu hafði eigandinn orðið mjög ruddalegur í garð þeirra, komið drukkinn og verið með leiðindi, þótt allt hafi verið í stakasta lagi. Eftir mánuð hafi hún spurt hvort þær færu ekki að fá útborgað, en hann hafi brugðist við með dónaskap og sagst borga þegar honum sýndist.

Hann féllst eftir þrjá mánuði á að greiða þeim hundrað þúsund krónur inn á reikning og skrifaði í skýringartexta að um væri að ræða gjöf. Hann hafði sagt konunum að það þýddi ekki að leita til stéttarfélagsins þar sem hann væri með það i vasanum. Hann væri auk þess með góð sambönd innan lögreglunnar. Konurnar leituðu þó aðstoðar félagsins að lokum. Það gekk í málið en konurnar áttu þá inni milljón hvor í vangoldin laun.

Málið var einnig kært til lögreglu þar sem stéttarfélagið taldi að um væri að ræða mansal. Lögreglan er enn með málið til rannsóknar, eins og áður sagði, þótt meira en ár sé liðið frá brotunum.

 

Óttuðust að enda á götunni

Önnur kvennanna segist hafa upplifað mikinn vanmátt og áttað sig á því að ef til vill fengju þær engin laun. Þær væru óskráðar og réttlausar og þar sem þær ættu ekki fyrir miða til Póllands gætu þær endað á götunni. Hún segir að fólk frá Póllandi sé vant því að réttindi verkafólks sé látin lönd og leið, löndin séu fátæk og fólk fallist á að vinna meira fyrir lægri laun, án þess að kvarta. Margir vilji notfæra sér þetta. „Útlendingar vinna betur, þeir eru ódýrari og eru ekki til vandræða, og þeir tala stundum ekki einu sinni ensku. Hvar eiga þeir þá að fá hjálp.”

halldora

 

Mörg fyrirtæki á gráu svæði

„Lögfræðingur hans gafst fljótlega upp enda augljóst að við vorum með gjörunnið mál. Skjólstæðingur hans var með allt niðrum sig í málinu,“ segir Halldóra Sigr. Sveinsdóttir, formaður Bárunnar stéttarfélags á Selfossi, um mál pólsku kvennanna en það var félagið sem kærði gistihúsaeigandann fyrir mansal en hann lét stúlkurnar vinna allan sólarhringinn, mánuðum saman og borgaði þeim óverulega upphæð þegar á hann var gengið og skráði það í bókhaldið sem gjöf. Þegar stéttarfélagið hóf afskipti af málinu tók við mikið stríð sem lyktaði þannig að stúlkurnar fengu greidda eina milljón hvor.

 

Halldóra segir að starfsmenn félagsins hafi sótt fræðslufundi um mansal en það sé mun algengara en margir halda. Sérstaklega séu mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu og byggingaiðnaði á gráu svæði. „Við höfum dæmi þess að starfsfólk hefur verið við vinnu í allt að þrjú ár án þess að vera skráð. Oft eru fyrirtæki með sjálfboðaliða og erlendar starfsmannaleigur eru farnar að koma inn í ferðaþjónustuna. Það er mikið um að atvinnurekendur hóti starfsfólki með því að segja: „Ef þú ferð í stéttarfélagið þá getur þú bara farið. Erlent starfsfólk á oftast í engin hús að venda þannig að það lætur flest yfir sig ganga.“

 

Rekist á fleiri slík mál

Hún segir að það hafi fljótlega runnið upp fyrir þeim, að þótt mansal sé stórt orð, hafi líklega fleiri slík mál, tvö til þrjú, rekið á fjörur félagsins, án þess að þau hafi gert sér grein fyrir að það félli undir skilgreininguna. Þar af sé allavega eitt mál sem tengist sama gistihúsaeiganda og var með pólsku stelpurnar í vinnu. „Ef fólki er haldið nauðugu, það er hvergi á skrá, látið vinna allan sólarhringinn og fær ekki borguð laun, þá er það mansal,“ segir Halldóra. Ég vona að lögreglan taki málið föstum tökum. Það má ekki klúðra svona alvarlegum málum, því það er nógu erfitt að fá þau upp á yfirborðið. Við höfum haldið vinnustaðafundi um þessi mál og enginn þorir að taka til máls. Síðan kemur í ljós að einhver hefur elt okkur niður á skrifstofu eftir fundinn og hefur þá jafnvel hræðilega sögu að segja.

Fólk er oft svo hrætt. Það kemur jafnvel frá löndum þar sem lögregla og verkalýðsfélög ganga fyrir mútum. Menn komast upp með það í lengstu lög að kúga þetta fólk.“

Hún bendir á að þessar stelpur séu nú þegar farnar úr landi. Félagið hafi komið þeim í samband við annan vinnuveitanda eftir að málið kom upp. Þær hafi unnið þar um hríð en séu núna komnar aftur til Póllands. Þessi ævintýri endi hinsvegar ekki alltaf vel. Þetta fólk sé hvergi á skrá, það eigi engin réttindi og ef eitthvað komi fyrir, slys eða veikindi, sé fólkið sent slyppt og snautt úr landi, án þess að eiga rétt á neinni aðstoð frá samfélaginu. Flest slík mál komi aldrei upp á yfirborðið.

https://www.frettatiminn.is/gistihusaeigandi-kaerdur-fyrir-mansal/

 

 

Ályktun miðstjórnar ASÍ vegna úrskurðar kjararáðs um hækkun launa dómara

Ályktun miðstjórnar ASÍ vegna úrskurðar kjararáðs um hækkun launa dómara

Miðstjórn ASÍ gagnrýnir harðlega ákvörðun kjararáðs um laun dómara og krefst þess að stjórnvöld setji á hátekjuskatta til þess að stemma stigu við ofurlaunum.

Á fundi kjararáðs þann 17. desember sl. úrskurðaði ráðið um meira en 40% hækkun á launum dómara og verulega hækkun á launum bankastjóra Landsbankans. Þessar launahækkanir eru úr öllum takti við þann veruleika sem þorri launafólks býr við. Miðstjórn ASÍ telur augljóst, að kjararáð sé með þessum úrskurði sínum að taka mið af þeirri ofurlaunaþróun sem átt hefur sér stað hjá stjórnendum fyrirtækja á undanförnum misserum. Þarna er verið að hækka hálaunahópa langt umfram aðra og  almenningur sér augljóslega ekki hvaða sanngirni er í því? Það er eitthvað bogið við samfélag sem hækkar mánaðarlaun hátekjufólks um fleiri hundruð þúsund krónur í einu vetfangi á meðan hluti þjóðarinnar berst í bökkum.

Miðstjórn ASÍ varar einnig við því að með þessum nýjustu hækkunum kjararáðs sé í reynd lagður grunnur að frekari launahækkunum æðstu embættismanna ríkisins. Í næstu lotu verður því væntalega haldið fram, að komin sé skekkja í myndina og forseti, ráðherrar og alþingismenn þurfi ámóta glaðning frá kjararáði.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands áréttar andstöðu sína við þessa þróun ofurlaunanna og vill undirstrika að þróun í kjörum æðstu forystumanna bæði atvinnulífs og á hinum opinbera vettvangi hefur aukið hér launamun og valdið mikilli reiði almenns launafólks. Afleiðingin er að sífellt er verið að endurnýja tilefni deilna og átaka í samfélaginu og lýsir miðstjórn ASÍ þessa aðila ábyrga fyrir afleiðingunum. Jafnframt krefst ASÍ þess að ríkisstjórn og Alþingi  bregðist við með þeim eina hætti sem getur skapað sátt meðal almennings og það er að taka hér upp alvöru hátekjuskatta á ofurlaun.

Kennitöluflakk veldur miklu samfélagslegu tjóni

Alþýðusambandið fagnar þeirri umræðu sem skapast hefur í framhaldi af ábendingum ríkisskattstjóra í nýjasta tölublaði Tíundar um það mikla samfélagslega tjón sem skattaundanskot og þá ekki síst kennitöluflakkið veldur. Niðurstaða ríkisskattstjóra er að það vanti 80 milljarða á ári upp á þær skatttekjur sem umsvifin í þjóðfélaginu gefa tilefni til.

Alþýðusamband Íslands hefur lengi gagnrýnt andvaraleysi og ótrúlegt langlundargeð stjórnvalda gagnvart kennitöluflakki og þeim skaða sem slík starfsemi veldur.  Í október 2013 lagði ASÍ framtillögur í 16 liðum um aðgerðir til að sporna við kennitöluflakki. Tillögunum fylgdi ítarleg úttekt á kennitöluflakkinu í íslensku samfélagi og afleiðingum þess.

Með úttektinni og tillögunum vildi ASÍ setja á dagskrá baráttuna gegn þessum skaðvaldi í íslensku atvinnulífi. Jafnframt bendir ASÍ á að kennitöluflakk og svört atvinnustarfsemi þrífast gjarnan hlið við hlið. Tillögurnar voru sendar ráðherrum ríkisstjórnarinnar og boðin fram liðveisla ASÍ við að uppræta þennan ósóma úr íslensku atvinnulífi. Það er skemmst frá því að segja að engin raunverulegur áhugi hefur komið fram hjá stjórnvöldum á að taka á kennitöluflakkinu af einhverri festu.

Það er von Alþýðusambandsins að umræðan nú verði til að ríkisstjórnin og Alþingi vakni til vitundar um mikilvægi þess að taka á þeirri alvarlegu meinsemd sem kennitöluflakkið er. Enn sem fyrr er ASÍ tilbúið til samstarfs í þeim efnum.

Hvað er kennitöluflakk?
Í sinni einföldustu mynd má lýsa kennitöluflakki sem skipulagðri aðgerð einstaklinga þar sem verðmæti eru tekin út úr einu félagi (hf./ehf.) og sett í annað félag en skuldir og aðrar skuldbindingar skildar eftir og félagið síðan sett í þrot. Mörg dæmi eru um keðju slíkra gjörninga vegna sama rekstursins þar sem sömu einstaklingar eru í forsvari. Fullyrða má að þetta athæfi kosti íslenskt samfélag tugi milljarða króna á ári.

Samfélagslegt tjón
Kennitöluflakk og misnotkun á félögum (hf./ehf.) með takmarkaða ábyrgð hefur alvarleg og víðtæk áhrif fyrir samfélagið allt:

•    Starfsmenn sem eiga útistandandi launakröfur á hin gjaldþrota félög auk þess að tapa starfi sínu og margvíslegum réttindum.

•    Fyrirtæki í hliðstæðum rekstri, og starfsmenn þeirra, sem standa skil á sínu en búa við skekkta samkeppnisstöðu vegna þeirra sem hafa rangt við. Birgja sem fá ekki greidda sína vöru og þjónustu og geta vegna ruðningsáhrifa slíks tjóns, sjálfir orðið gjaldþrota og einstaklingar sem eiga viðskipti við félagið.

•    Sameiginlega sjóði landsmanna sem verða af tekjum sem skipta a.m.k. tugum milljarða á hverju ári. Tekjum sem nýta mætti til að bæta heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi svo dæmi séu tekin.

(tekið af vef Alþýðusambands íslands)

Nýtt tímaskráningar app

t_image568cdb484810c Nýtt tímaskráningar app hefur verið tekið í notkun.

Þetta app er frítt og til þess ætlað að auðvelda launafólki að fylgjast með og halda utan um vinnutíma sinn. Kerfið skráir viðverutíma á vinnustað og heldur meðal annars utan um veikindadaga.

Kerfið nýtir sér einnig staðsetningartækni nútímans og hægt er að láta það minna sig á að skrá sig inn og út af vinnustað. Einnig eægt er að skrá sig gegnum Facebook. Tilgangurinn er að gera launafólki kleyft að fylgjast með vinnutímum og bera saman við launaseðla til að sannreyna að rétt sé reiknað. Einnig er þetta hugsað til að auðvelda stéttarfélögunum að reikna út og sannreyna tímaskráningar og launagreiðslur ef uppi er grunur um að ekki sé rétt reiknað af hálfu launagreiðanda.

Appið má ná nálgast á eftirfarandi síðum:

Apple:

https://itunes.apple.com/us/app/klukk/id1048984062?ls=1&mt=8

Einnig aðgengilegt hjá Google hér:

https://play.google.com/store/apps/details?id=is.stokkur.klukk.android

Stéttarfélögin hvetja alla launamenn á vinnumarkaði að ná sér í þetta app og hlaða niður á farsíma sína. Appið er sáraeinfalt í notkun og ætti að vera öllum aðgengilegt.

Farið verður í öfluga kynningar herferð í febrúar af hálfu Alþýðusambandsins.