Við vinnum fyrir þig

Translate to

Fjör á Öskudaginn

Óvenju mikið var um heimsóknir á þjónustuskrifstofuna í gær. Gestir voru flestir í yngri kantinum og komu færandi hendi með söng og gleði. Gaman að sjá hve mörg barnanna höfðu lagt metnað og alúð við gerð búningana og laganna sem þau sungu. Mörg sungu frumsamið efni eða tilbrigði við vel þekkt lög. gamlir standardar eins og Alouetta og Gamli Nói hljómuðu um skrifstofur og ganga og verður að viðurkennast að ekki könnuðust allir við textana sem sungnir voru. En þetta er það sem gerir þetta svo skemmtilegt. Við á skrifstofunni létum okkar ekki eftir liggja og mættum í okkar „fínasta“ pússi. Þar mátti sjá kúreka, mótorhjólatöffara, ömmu gömlu og álf með risavaxin eyru svo einhverjir séu nefndir. Þessi dagur er með þeim skemmtilegri á árinu og gaman að fá tækifæri til að taka á móti smáfólkinu og leysa það út með gjöfum með þakklæti fyrir frábæran söng. Þau áttu það líka svo sannarlega skilið, bæði fyrir dugnaðinn að arka bæinn enda á milli í misjöfnu veðri og ekki síður fyrir frumlegheit í búninga og textagerð.

Við þökkum kærlega fyrir okkur og er strax farið að hlakka til næsta Öskudags

Hér fylgja svo nokkrar myndir frá í gær.

IMG_3273 IMG_3301 IMG_3277 IMG_3259 IMG_3294 IMG_3239 IMG_3257

Órofa samstaða hjá SGS

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins kom saman til fundar í dag föstudag til að meta stöðuna í kjaraviðræðum. Í samninganefnd SGS sitja formenn allra aðildarfélaga sem veitt hafa sambandinu umboð í komandi kjarasamningum. Um morguninn fór fram fyrsti samningafundur við SA undir verkstjórn ríkissáttasemjara, en deilunni var vísað þangað í upphafi mánaðarins. Greint var frá umræðum á samningafundinum og var það skýr niðurstaða samninganefndar SGS að hugsa kjarabaráttuna sem nú stendur yfir til þriggja ára eins og kröfugerð SGS gerir ráð fyrir, en í henni er skýr krafa um 300 þúsund króna lágmarkslaun innan þriggja ára. Önnur landssambönd og stéttarfélög leggja til skammtímasamninga til eins árs en ljóst er að þau viðmið sem SGS  setti fram í sinni kröfugerð er gegnumgangandi í kröfum annarra félaga þó mismunandi áherslur séu varðandi útfærslur og tímaramma.

Það var skýrt um leið og SGS kynnti sínar kröfur fyrir SA í lok janúar að á brattann yrði að sækja og urðu viðbrögð SA þess valdandi að deilunni var strax vísað til sáttasemjara. Allar götur síðan hafa félög innan SGS undirbúið sig undir hugsanleg verkfallsátök og sá undirbúningur hélt áfram hjá samninganefnd í dag. Félögin hafa einnig nýtt tímann til að halda félagsfundi og ljóst er að mikill hugur er í verkafólki um allt land að sækja fram og berjast fyrir hækkun krónutölu í grunnlaun.

Hressir krakkar heimsóttu þjónustuskrifstofuna

Í dag komu í heimsókn til okkar á þjónustuskrifstofuna nemendur úr 10. bekk Vallaskóla Selfossi. Þau kynntu sér þjónustu stéttarfélaganna, fengu gagnlegar upplýsingar um sögu verkalýðsbaráttunnar,  réttindi og skyldur á vinnumarkaði.  Áður en kynningin hófst var boðið upp á pizzur.  Hjalti Tómasson sá um kynninguna og svaraði fjölmörgum spurningum sem tengjast ungu fólki á vinnumarkaði.

 

IMG_0835 IMG_0836 IMG_0837 IMG_0838 IMG_0845 IMG_0847 IMG_0848

Opinn fundur um staðsetningu nýrrar Ölfusárbrúar

Verslunarmannafélag Suðurlands boðar til opins fundar fimmtudagskvöldið 26. febrúar 2015 kl. 20:00 í sal félagsins við Austurveg 56 á Selfossi þar sem umræðuefnið verður um staðsetningu nýrrar Ölfusárbrúar á Selfossi.

Á meðal frummælenda verða Guðmundur Valur Guðmundsson, verkefnisstjóri Vegagerðarinnar vegna nýju brúarinnar og Svanur Bjarnason, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Suðursvæði, Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, Kjartan Björnsson, bæjarfulltrúi í Árborg, Guðmundur Lárusson, bóndi í Stekkum, fulltrúi verslunareigenda og jafnvel fleiri.

Opinn fundur um Ölfusárbrú 26  febrúar 2015

Fundurinn er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir. Ráðgert er að fundinum verði lokið kl. 22:00.

Ljósmynd af Ölfusárbrú: MHH.

Fyrirmyndarþjóðfélagið Ísland

Stundum er sagt að gott sé að trúa á sjálfan sig, en sannfærast samt sem áður ekki of fljótt. Þetta ágæta heilræði rifjaðist upp fyrir mér eftir að  forysta Samtaka atvinnulífsins brást við kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands, sem lögð var fram í síðustu viku.
Meginkröfurnar eru 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára. Sérstaklega verði horft til gjaldeyrisskapandi atvinnugreina, launatöflur endurskoðaðar, starfsreynsla og menntun verði metin til hærri launa, desember- og orlofsuppbætur hækki, vaktaálag verði endurskoðað, lágmarksbónus í fiskvinnslu verði tryggður og að starfsheiti verði skilgreind á ný.

Skemmst er frá því að segja að Samtök atvinnulífsins svöruðu strax fullum hálsi og sögðu að enginn samningsgrundvöllur væri til viðræðna um endurnýjun kjarasamninga og bentu á að launabreytingar í nágrannalöndum séu á bilinu 2% til 4% á ári.

Eru sunnlenskir atvinnurekendur sammála ?

Óneitanlega velti ég því fyrir mér hvort atvinnurekendur á Suðurlandi taki undir þessi harkalegu viðbrögð talsmanna Samtaka atvinnulífsins.  Eftir að hafa rætt við forsvarsmenn fjölmargra sunnlenskra fyrirtækja, efast ég stórlega um að þeir taki undir með forystu sinna eigin samtaka.

Samanburður við hin Norðurlöndin

Mönnum hefur verið tíðrætt um hina norrænu leið í kjarasamningum. Miðað við nýja úttekt á dagvinnulaunum á Íslandi og hinum Norðurlöndunum kemur í ljós að dagvinnulaun íslensks verkafólks eru allt að 30% lægri en hjá frændum vorum. Þessar tölur segja í raun og veru allt sem segja þarf í þessum efnum. Forysta atvinnurekenda telur hins vegar að þjóðfélagið fari á hliðina verði gengið að kröfum Starfsgreinasambandsins og hafnar alfarið viðræðum. Ég efast um að þorri þjóðarinnar sé sammála vinnuveitendum.

Vinnuveitendur sannfærist fljótlega

Á hátíðarstundum er gjarnan talað um að Ísland sé í hópi auðugustu ríkja heims. Í slíku fyrirmyndarþjóðfélagi hlýtur almenningur að lifa af dagvinnulaununum og þurfi ekki að treysta á aukavinnu og akkorð til að daglegrar framfærslu. Þannig er staðan engu að síður í dag hér á landi.

Mikil samstaða ríkir innan Starfsgreinasambandsins um kröfugerðina. Helstu talsmenn vinnuveitenda eru á allt öðru máli, þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á að verkafólk á Íslandi býr við lakari launakjör en á hinum Norðurlöndunum.
Augljóst er að enginn lifir á lágmarkslaunum sem eru í dag 201.317 krónur og eftir fjóra mánuði í starfi  214.000 krónur.

Það er ágæt regla að sannfærast ekki of fljótt. Ekki verður öðru trúað en að vinnuveitendur sannfærist fljótlega um nauðsyn þess að bæta launakjör hinna lægst launuðustu í fyrirmyndarþjóðfélaginu Íslandi.

Því fyrr því betra !

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar stéttarfélags.

 

Sveitarfélagið Árborg hefur ekki hækkað gjald á stökum miða í sund

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verðbreytingar á gjaldskrám sundstaða hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins frá 1.janúar 2014 til 1. febrúar 2015. Öll nema Sveitarfélagið Árborg hafa hækkað gjaldið á stökum miða í sund fyrir fullorðna, mesta hækkunin var hjá Reykjanesbæ eða um 38%. Árskort fullorðinna hefur einnig hækkað í verði hjá 11 sveitarfélögum af 15.

Gjaldskrá fullorðinna
Stakt gjald í sund kostar 573 kr. að meðaltali. Öll sveitarfélögin nema Árborg hafa hækkað gjaldið á stökum miða en þar kostar stakur miði ennþá 600 kr. Mesta hækkunin er 38% hjá Reykjanesbæ en þar hækkar gjaldið úr 400 kr. í 550 kr. Garðabær hækkar um 14% og Vestmannaeyjar 10%. Eins og sést á töflunni hér fyrir neðan er lægsta staka gjaldið fyrir sundferðina 415 kr. á Akranesi en hæsta staka gjaldið er 650 kr. í Reykjavík og Fjarðarbyggð.

10 miða kort hefur hækkað í verði hjá 13 sveitarfélögum af þeim 14 sem selja slík kort. Hæst er það á 4.700 kr. í Kópavogi en lægst á 3.400 kr. í Vestmannaeyjum sem er 38% verðmunur. Kortið hefur mest hækkað um 14% Seltjarnarnesi og Akureyri.
Allt að 123% verðmunur er á hæsta og lægsta verði árskorts í sund. Hæsta verðið er 35.700 kr. hjá Fljótdalshéraði en lægsta verðið er 16.000 kr. hjá Ísafjarðabæ sem er 19.700 kr. verðmunur. Árskortið hækkar mest um 14% hjá Reykjanesbæ úr 22.000 kr. í 25.000 kr. eða um 3.000 kr.

Börn á grunnskólaaldri
13 sveitarfélög af þeim 15 sem voru skoðuð eru með gjaldskrá fyrir börn, en oft er frítt inn fyrir börn sem búsett eru í sveitarfélaginu. Sjö þeirra hafa hækkað verð á stakri ferð í sund á milli ára. Hæsta gjaldið fyrir eina staka sundferð er 290 kr. hjá Ísafjarðabæ en lægst er gjaldið á 120 kr. á Seltjarnarnesi sem er 170 kr., verðmunur eða 142%. Mest hefur gjald á stakri ferð hækkað um 14% hjá Sveitarfélaginu Skagafirði eða úr 220 kr. í 250 kr. en það er fyrir utan að Reykjanesbær rukkar nú 150 kr. fyrir sundferðina sem var áður ókeypis.

10 miða kort fyrir börn kostar mest 2.275 kr. á Ísafirði en lægst er það á 870 kr. í Hafnarfirði. Mesta hækkun á 10 miða korti er 10% hjá Garðabæ og Fljótdalshéraði.
13.400 kr. verðmunur er á hæsta og lægsta verði árskorta barna, lægsta gjaldið greiða foreldrar á Akureyri 2.000 kr. en hæsta gjaldið greiða foreldrar á Fljótsdalshéraði 15.400 kr.

Misjafnar reglur sveitarfélaganna
Börn að grunnskólaaldri fá frítt í sund miðað við fæðingarár eða afmælisdag. Misjafnt er á milli sveitarfélaga hvenær barnagjald er tekið upp. Algengast er að greiða barnagjald fyrir börn frá 6 til 18 ára. En hjá sumum sveitarfélögum hefst gjaldtaka ekki fyrr en barn verður 10 ára. Einnig teljast börn í sumum sveitarfélögum fullorðin 16 ára. Flest sveitarfélög eru með frítt inn fyrir eldri borgara og öryrkja. Misjafnt er milli sveitarfélaga hvenær gjald fellur niður eða á bilinu 67-70 ára. Í sumum sveitarfélögum þar sem frítt er í sund fyrir börn, öryrkja og eldri borgara á það aðeins við íbúa viðkomandi sveitarfélags. Ýmis afsláttur er í boði hjá sveitarfélögum s.s. fjölskyldukort, paraafsláttur, magnkaup og ungmenna afsláttur.

Tekið af heimasíðu ASÍ

 

 

Vaxandi ójöfnuður á vesturlöndum er áhyggjuefni

Á síðustu árum hafa augu fræðasamfélagsins og alþjóðastofnana beinst í auknum mæli að vaxandi ójöfnuði innan þróaðra ríkja. Þessi þróun hefur verið sýnileg beggja vegna Atlantshafsins en alþjóðlega efnahagskreppan varð þó til að hægja á henni tímabundið sem skýrist m.a. af því hversu mikið af auði tapaðist hjá hinum tekjuhæstu við efnahagshrunið. Á Norðurlöndunum, þ.m.t. á Íslandi, mælist ójöfnuður lítill í alþjóðlegu samhengi en á árunum fyrir hrun fór hann engu að síður vaxandi. Norðurlöndin hafa þannig ákveðna sérstöðu, jöfnuður er og hefur verið mikill þar í samanburði við önnur OECD ríki en án þess að það hafi orðið til þess að draga úr hagvexti eða lífskjörum á Norðurlöndunum.

Hækkun á matarskatti strax komin út í verðlagið

Eins og verðlagseftirlit ASÍ greindi frá fyrir helgi benda fyrstu vísbendingar um áhrif breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum á matvöruverð til þess að hækkun á neðra þrepi virðisaukaskattsins hafi nú þegar skilað sér út í verðlag til neytenda en í flestum matvöruverslunum sjást takmörkuð áhrif af afnámi vörugjalda. Í heildina er það mat verðlagseftirlitsins að  breytingarnar gefi tilefni til hækkunar á verði matarkörfu meðal heimilis um u.þ.b. 1,5% en þegar innihald matarkörfunnar er skoðaða nánar eru áhrifin á einstaka vöruflokka mjög misjöfn.

Um áramót var virðisaukaskattur á mat- og drykkjarvörur hækkaður úr 7% í 11% auk þess sem vörugjöld voru feld niður (s.k. sykurskattur) af sykri og sætum mat- og drykkjarvörum. Breytingin gefur því að hámarki tilefni til 3,7% hækkunar á ósætum matvörum en áhrifin á verð matvara sem innhalda sykur eða sætuefni ráðast af því hversu mikinn sykur varan inniheldur. Almennt má því segja að þeim mun sætari sem varan er þeim mun þyngra vegur afnám vörugjaldsins í verðinu og þeim mun meira ætti varan að lækka í verði.

Sá vöruflokkur í matvörukörfunni sem afnám sykurskattsins hefur mest áhrif á er eins og gefur að skilja sykur, súkkulaði og sætind. Í heildina má áætla að samspil breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum gefi tilefni til u.þ.b. 10% lækkunar á þeim vöruflokki. Þegar skoðaðar eru breytingar á verði þessa vöruflokks milli verðmælinga verðlagseftirlitsins í lok nóvember sl. og í byrjun janúar má sjá að í flestum verslunum hefur verð á vörum í þessum vöruflokk hins vegar hækkað, mest um u.þ.b. 3% í Tíu ellefu, Samkaup-Úrval, Kjarval og Kaskó. Á þessu eru undantekningar þar sem sykur og sætindi hafa lækkað í verði milli mælinga en mest nemur lækkunin 5% í Bónus og ríflega 4% í Hagkaupum.

Áhrif afnáms vörugjalda eru einnig talsverð í drykkjarvöruflokknum en ýmsar sætar drykkjarvörur báru vörugjöld. Áætla má að samspil breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum gefi tilefni til a.m.k. 2,5% lækkunar á vöruflokknum í heild. Hjá flestum verslunum hafa drykkjarvörur þó hækkað frá því lok nóvember, mest í Víði um 5,4%, Samkaupum-Úrval um 4,5% og í Iceland, Kaupfélagi Vestur Húnvetninga, Kaupfélagi Skagfirðinga og Nettó um 3-4%. Í nokkrum verslunum hefur vöruflokkurinn hins vegar lækkað, mest í Kjarval um 7,8%, í Krónunni um 5,4% og Bónus um 4,3%.

Í vöruflokknum brauð og kornvörur er einnig að finna ýmsar sætar matvörur ss. sætabrauð, kex, sætt morgunkorn o.fl. sem báru vörugjöld. Áætla má að breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum gefi samanlagt tilefni til u.þ.b. 2% hækkunar á þessum vöruflokki en samkvæmt mælingu verðlagseftirlitsins hafa brauð og kornvörur hækkað umfram það í öllum verslunum, mest hjá Kaupfélagi Skagfirðinga um 5,8% og minnst í Hagkaupum um 2,5%.

Margar mjólkurvörur eru sætar og báru því vörugjöld. Samspil umræddra breytinga gefa að mati verðlagseftirlitsins tilefni til u.þ.b. 2,5% hækkunar á vöruflokknum mjólkurvörur, ostar og egg. Í flestum verslunum er hækkun vöruflokksins talsvert umfram það, mest í Víði 8,7% og 4-5% í Kaupfélagi Skagfirðinga, Iceland, Kaskó, Nettó og Samkaupum-Strax. Í Bónus og Krónunni hækkuðu mjólkurvörur, ostar og egg um 1,7% en hjá Kjarval lækkuðu þessar vörur hins vegar um 5,3%.

Af þessum niðurstöðum er ljóst að sú skattalækkun sem fólst í lækkun vörugjalda á matvörum á enn að lang mestu leyti eftir að skila sér til neytenda. Verðlagseftirlitið mun á næstu vikum og mánuðum áfram fylgjast náið með verðþróun á matvörumarkaði og fylgja því eftir að neytendur fái í sinn hlut það sem þeim ber.

Samanburðurinn nær til verðmælinga verðlagseftirlits ASÍ í matvöruverslunum í lok nóvember  2014 og í annarri viku janúarmánaðar 2015.

Verðlagseftirlitið mælir breytingar á verði matvörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Matvörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar mat- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, og safa. Við samsetningu vörukörfunnar eru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af matarkörfu meðalheimilis.

Verðbreytingar eru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Hagkaupum, Nóatúni , Samkaupum-Úrvali, Víði, 10-11 og Samkaupum-Strax, Kjarval, Kaskó, Kaupfélagi Skagafjarðar og Kaupfélagi Vestur Húnvetninga.

Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar í verslanakeðjunum á milli verðmælinga en ekki er um beinan verðsamanburð að ræða,  þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum því haft áhrif á niðurstöðurnar.

Óheimilt er að vitna í niðurstöðurnar í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Neytendum er bent á reiknivél á heimasíðu ASÍ þar sem áætla má tilætluð áhrif breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum á verð ýmissa vöruflokka.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Laun á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin

Mikið hefur verið fjallað að undanförnu um laun á Íslandi í samanburði við kjör launafólks á hinum Norðurlöndunum, en lítið hefur verið um haldbærar upplýsingar um hver þessi munur er. Undanfarin ár hafa hagstofur innan ESB og EES landanna unnið að samræmingu hagskýrslugerðar um laun og tekjur einstakra starfsstétta. Því er orðið mun auðveldara að bera saman laun eftir starfsstéttum en áður var. Í þessari úttekt er litið til reglulegra dagvinnulauna á almennum vinnumarkaði á Norðurlöndunum árið 2013.

Það hallar á lágtekjuhópana á Íslandi

Það er athyglisvert að skoða launamun á Norðurlöndunum eftir einstaka starfsstéttum að teknu tilliti til skattkerfis áhrifa og verðlags. Á meðfylgjandi mynd má sjá muninn á dagvinnulaunum á Íslandi og að meðaltali á hinum Norðurlöndunum eftir að tekið hefur verið tillit til bæði verðlags og skatta.

Það er áberandi að munurinn á dagvinnulaunum á Íslandi og hinum Norðurlöndunum er mun minni meðal tekjuhærri hópanna en hjá tekjulægri hópunum. Þannig eru og dagvinnulaun stjórnenda á Íslandi í raun 5% hærri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Hluta af þessum mun má skýra með minni tekjujöfnunaráhrifum íslenska skattkerfisins, þar sem hátekjur hér á landi eru skattlagðar mun minna en á hinum Norðurlöndunum og því verður hlutfallslega meira eftir í buddu hátekjuhópa hér á landi.

Ef litið er á dagvinnulaun sérfræðinga eru þau um 3-5% lægri hér á landi en í  hinum löndunum, hæst eru laun sérfræðinga í Noregi en lægst í Svíþjóð.

Mestur munur á dagvinnulaunum er hins vegar gagnvart verkafólki og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki.  Hér á landi eru dagvinnulaun verkafólks allt að 30% lægri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum.

Þá er einnig áberandi á myndinni að meiri munur er á launum kvenna en karla í öllum starfsstéttum. Það bendir til þess að óleiðréttur launamunur kynjanna sé meiri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.

Ítarlegri fréttaskýringu má sjá hér.

Tekið af heimasíðu ASÍ