Við vinnum fyrir þig

Translate to

Jólafundur með stjórn og trúnaðarmönnum

Hluti fundarmanna
Hluti fundarmanna
IMG_3164
Hlustað í andakt
IMG_3166
Kristín segir frá…….
IMG_3167
….og heldur áfram.
Nýir trúnaðarmenn
Nýir trúnaðarmenn, f.v. Sigurbjörg Sara Róbertsdóttir Fossheimum, Hólmfríður Stella Ólafsdóttir Samkaup-Horninu og Sigrún Sigurðardóttir eldhúsi HSu

Í gærkvöldi var árlegur jólafundur stéttarfélaganna með stjórnum og trúnaðarmönnum. Í fyrsta skipti var fundurinn haldinn sameiginlega og mættu stjórnir og trúnaðarmenn beggja félaganna til fundarins. Fundarstörf voru nokkuð hefðbundin, formenn ávörpuðu fundinn og fóru yfir starfsemi félaganna og örfáar lykiltölur svo sem félagafjölda, kynjaskiptingu  og helstu atriði í starfi félaganna. Starfsmenn þjónustuskrifstofu sögðu fram starfsemi skrifstofunnar en fyrst og fremst var tilgangur fundarins að koma saman og eiga notalega stund saman yfir góðum mat á aðventunni og gefa fólki tækifæri til að hittast og skiptast á skoðunum.

Ágæt mæting var á fundinn þrátt fyrir afspyrnuleiðinlegt veður og ástæða til að hrósa sérstaklega þeim sem lengst komu að en sem kunnugt er voru margar leiðir til og frá Selfossi illfærar sökum hvassviðris og hálku.

Fundir sem þessir eru nauðsynlegir í mörgu tilliti. Fyrst og fremst er það stjórnarmönnum nauðsynlegt að heyra í trúnaðarmönnum og ekki síður er gagnlegt fyrir trúnaðarmenn að heyra hvað félögin og starfsfólk þeirra eru að starfa hverju sinni. Stefnt er að því að þessir fundir verði haldnir sameiginlega í framtíðinni. Trúnaðarmenn voru duglegir að tjá sig um sína hlið á trúnaðarmannastarfinu og hvað er helst að gerast í þeirra nærumhverfi.

Nokkrir nýir trúnaðarmenn voru kynntir til sögunnar en félögin hafa unnið ötullega að því að efla trúnaðarmanna kerfi sín enda eru trúnaðarmenn einn mikilvægasti hlekkur milli félags og félagsmanna.

 

 

Vinningsnúmer í happadrætti stéttarfélaganna

Dregið hefur verið í happadrætti innsendra svara vegna kjörs félagsmanna um fyrirtæki ársins 2014. Finna má vinningsnúmerin hér fyrir neðan. Verðlaunin eru glæsilegar gjafakörfur frá Sláturfélagi Suðurlands. Annar vinningshafinn starfar í Hagkaup og hinn hjá Stracta hotel Hellu. Vinningshafar eru beðnir að hafa samband við Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna í síma 480-5000.

Vinningsnúmerin eru:

 1026 og 1442.

Tæplega 2300 félagsmenn fengu senda könnun frá báðum félögunum um Fyrirtæki ársins en aðeins 91 svar barst til baka. Svarhlutfallið var 4% sem verða að teljast vonbrigði en frá sumum fyrirtækjum, jafnvel stærri fyrirtækjum, barst aðeins eitt svar. Niðurstaða er því ekki marktæk og því ekki hægt að velja um fyrirtæki ársins að þessu sinni.

ALÞJÓÐLEGT ÁTAK UM AÐBÚNAÐ HÓTELÞERNA

Reglulega berast fréttir af opnun nýrra hótela víðsvegar um Ísland enda hefur fjöldi ferðamanna meira en tvöfaldast á síðustu árum. Það er ljóst að þessir ferðamenn þurfa að gista einhvers staðar og því kemur ekki á óvart að hótelherbergjum fjölgi. Á hinn bóginn taka fáir eftir þeim fjölmörgu starfsmönnum sem sinna hótelþrifum, en daglega þrífa hótelþernur þúsundir hótelherbergja á Íslandi. Líkt og annars staðar í heiminum eru það fyrst og fremst konur með erlendan bakgrunn sem sinna þessum störfum.  Hótelþrif er líkamlega erfitt starf sem oft er unnið undir mikilli tímapressu. Þeir sem unnið hafa við hótelþrif vita að fæstir endast lengi í slíku starfi þar sem álagið er gríðarlega mikið og það er vel þekkt að starfsfólk þjáist oft af álagstengdum verkjum og stressi.

Dagana 3. til 10. desember næstkomandi vekja stéttarfélög víða um heim athygli á vinnuaðbúnaði hótelþerna og beina kastljósinu að þessum erfiðu störfum sem unnin eru daglega á milljónum hótela um allan heim.  Markmiðið með þessari alþjóðaherferð er að opna augu hótelgesta fyrir þessum störfum en um leið þrýsta á atvinnurekendur að bæta starfsaðbúnað og starfskjör þeirra sem sinna hótelþrifum.

Erfitt og hættulegt starf
Á bakvið lúxusinnréttingar og glæsilega ásýnd hótela leynast oft á tíðum hættulegar vinnuaðstæður og mikið vinnuálag þar sem illa launað starfsfólk lyftir þungum dýnum, flytur húsgögn, þurrkar af gólfum  og innréttingum, þrífur margskonar óhreinindi og salerni. Við þessi þrif notar starfsfólk oft hættuleg hreinsiefni, eru undir mikilli tímapressu og síðast en ekki síst verða þeir oft fyrir margskonar áreitni frá hótelgestum.

Þegar stéttarfélög ræða við félagsmenn sem sinna þessum störfum er algengt að þeir kvarti undan vinnuálaginu og þeim kröfum sem gerðar eru til starfsins. Vinnuhraðinn er mikill og ávallt verið að keppa við klukkuna. Þau sem sinna hótelþrifum þurfa að þrífa ákveðinn fjölda herberga á hverjum degi. Í flestum tilfellum má lítið út af bregða til að álagið verði óbærilegt, þannig þarf ekki nema einn starfsmaður að vera veikur til að erfitt sé að uppfylla kvótann sem starfsfólki er ætlað. Í slíkum tilvikum er algengt að starfsfólk sleppi umsömdum kaffitímum til að klára vinnuna á réttum tíma.

Þetta mikla vinnuálag hefur gríðarleg áhrif á líkamlega heilsu starfsfólks og eru vinnuslys og veikindi algeng hjá þeim sem sinna hótelþrifum. Þetta hafa fjölmargar alþjóðlegar rannsóknir sýnt.  Álagið hefur aukist vegna aukinna krafa viðskiptavina, en ekki síður vegna undirmönnunar í kjölfar hagræðinga til að mæta kröfum um arðsemi.

Kynferðislegt áreiti algengt vandamál
Fyrir nokkrum árum komust vinnuaðstæður hótelþerna í kastljós fjölmiðla í kjölfar þess að Dominique Strauss-Kahn, fyrrum forstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, var handtekinn fyrir kynferðislegt áreiti gagnvart hótelþernu á lúxushóteli í New York. Atvikið vakti mikla athygli og beindi sjónum almennings að slæmum aðbúnaði og þeim hættum sem steðja að hótelþernum á hverjum degi. Víðsvegar um heim er algengt að hótelþernur kæri kynferðislegt áreiti og annarskonar ofbeldi af hendi hótelgesta. Norrænar kannanir benda til þess að um 25% þeirra sem starfa við hótelþrif hafa upplifað kynferðislegt áreiti af hálfu gesta. Jafnvel þó engar opinbera tölur liggi fyrir á Íslandi verður að telja líklegt að ástandið sé engu skárra hér á landi.

Einföld ráð til að bæta aðbúnað
Það er mikilvægt að muna að atvinnurekendur bera ábyrgð á starfsöryggi og aðbúnaði starfsfólks síns. Eigendur hótela geta á einfaldan máta bætt það vinnuumhverfi sem hótelþernur búa við á fjölmörgum hótelum í dag og þannig minnkað líkur á vinnuslysum og veikindum:

  • Starfsfólk við hótelþrif fái viðeigandi starfsþjálfun og menntun.
  • Starfsfólk fái tækjabúnað, vinnufatnaði og hreinlætisvörur sem standist allar öryggiskröfur.
  • Starfsfólk fái öryggisbúnað til að verjast áreiti og ofbeldi.
  • Starfsfólk vinni í teymum til að dreifa álaginu og auka öryggi sitt.
  • Settar séu raunhæfar kröfur á starfsfólk varðandi þann fjölda herbergja sem ætlast er til að þrifin séu á hverjum degi.
  • Huga að því við hönnun hótelherbergja að auðvelt sé að þrífa þau.

 

Að lokum er mikilvægt að minna alla þá sem nýta sér hótel hér á landi eða annars staðar að hótelþernur og annað hótelstarfsfólk vinnur mikilvæg og oft á tíðum vanþakklát störf. Þau eru flest á lágum launum, starfa við erfiðan aðbúnað, undir miklu álagi, en þrátt fyrir það reyna þau á hverjum degi að gera vist þína eins ánægjulega og hægt er.

Desemberuppbót 2014

Báran, stéttarfélag:

Almenni samningur milli SGS og SA 73.600. kr.,

Samningur Ríkissjóðs og SGS 73.600. kr.,

Samningur SGS og Launanefndar sveitarf. 93.500 kr.,

Bændasamtök Íslands og SGS 73.600 kr.,

Landsamband smábátaeigenda og SGS 73.600 kr.,

Samningur Sólheima og Bárunnar 73.600 kr.,

Samningur Dvalarh. Kumbaravogs og Bárunnar 93.500 kr.,

Vinnustaðasamningur MS 73.600 kr.,

Landsvirkjun og SGS 105.933 kr.,

Kjarasamningur SGS og NPA miðstöðvarinnar kr. 73.600.

 

Fyrirtæki ársins

Nú er komið að árlegu vali á fyrirtæki ársins að mati félagsmanna Bárunnar, stéttafélags og Verslunarmannafélags Suðurlands. Kannaðir eru nokkrir lykilþættir sem varða starfsfólk til dæmis hvernig fólki líður í vinnunni, hvernig stjórnun er að mati starfsfólks, hvernig starfsandi er innan fyrirtækisins og hvort starfsmenn eru sáttir við möguleika sína til að komast áfram í starfi hjá fyrirtækinu til dæmis með aukinni menntun.

Könnun er send út til allra félagsmanna þessara tveggja stéttafélaga sem eru á svæðinu frá Selvogi að Lómagnúp. Skilafrestur er til 20. nóvember og athygli er vakin á að hægt er að póstsenda svar sér að kostnaðarlausu. Einnig má koma svörum til félagsins gegnum trúnaðarmenn á vinnustöðum eða beint á skrifstofu félaganna að Austurvegi 56, Selfossi. Könnunin sjálf er án persónueinkenna.

Hvert könnunarblað er jafnframt happadrættisseðill og eru viðtakendur hvattir til að halda fylgiseðli til haga til að framvísa ef um vinning er að ræða. Í verðlaun eru veglegar matarkörfur frá Sláturfélagi Suðurlands og verða vinningsnúmerin birt á heimasíðum félaganna.

Við hvetjum félagsmenn til að taka þátt í þessari könnun því þetta er ein leið af mörgum til að vekja stjórnendur fyrirtækja til umhugsunar og kveikja metnað til að huga vel að starfsfólki sínu.

 

Hvað er jólalegra en heimagert konfekt?

Báran, stéttarfélag og Fræðslunetið halda námskeið í konfektgerð: Á þessu skemmtilega námskeiði eru útbúnir fylltir konfektmolar í konfekt mótum, handmótaðir konfektmolar, s.s. Mozartkúlur og einnig rommbrauð. Hver og einn býr til a.m.k. 20 mola. Innifalið í verði er eitt konfekt mót og pensill ásamt öllu hráefni og uppskriftahefti.

Námskeiðið er haldið í Fjölheimum Selfossi fimmtudaginn 20. nóvember kl. 18.00 – 20.50. Leiðbeinandi er Kristín Erna Leifsdóttir og er námskeiðið frítt fyrir félaga Bárunnar, stéttarfélags.

Innritun er í síma 560-2030.

Allt að 90% verðmunur á lausasölulyfjum

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á 68 algengum lyfjum sem seld eru án lyfseðils i apótekum víðsvegar á landinu mánudaginn 3. nóvember 2014. Farið var í 21 apótek. Verðmunur á lausasölulyfjum var frá 18% upp í 89%, en oftast var fjórðungs til helmings verðmunur á hæsta og lægsta verði. Lægsta verðið var oftast að finna hjá Lyfjaveri Suðurlandsbraut eða í 24 tilvikum af 68 og Garðs Apóteki Sogavegi í 22 tilvikum. Hæsta verðið var oftast að finna hjá Lyfju Ísafirði eða í 19 tilvikum af 68 og hjá Lyfsalanum Álfheimum í 16 tilvikum.

Mestur verðmunur í könnuninni var á 15 stk. af Ovestin hormóni sem var dýrast á 2.443 kr. hjá Apóteki Vesturlands en ódýrast á 1.290 kr. hjá Siglufjarðar Apóteki sem er 1.153 kr. verðmunur eða 89%. Minnstur verðmunur í könnuninni var á Nicorette Invisibel forðaplástri (7 stk. 25 mg./16 klst.) sem var dýrastur á 4.135 kr. hjá Lyf og heilsu Hveragerði en ódýrastur á 3.490 kr. hjá Garðs Apóteki sem er 645 kr. verðmunur eða 18%.

Af öðrum algengum lausasölulyfjum sem til eru hjá öllum söluaðilum má nefna verkjalyfið Pinex junior (250 mg. – 10 stk.) sem var dýrast á 469 kr. hjá Lyfju en ódýrast á 354 kr. hjá Apótekinu Hólagarði, sem er 32 % verðmunur. Neyðargetnaðarvörnin Postinor (1 stk. 1,5 mg.) var dýrust á 3.140 kr. hjá Lyfju en ódýrust á 1.660 kr. hjá Apóteki Suðurnesja sem er 1.480 kr verðmunur eða 89%. Frunsukremið Vectavir (1%, 2 gr.) var dýrast á 1.708 kr. hjá Lyfsalanum Álfheimum en ódýrast á 1.230 kr. hjá Garðs Apóteki sem er 39% verðmunur. Endaþarmslausnin Microlax (5 ml. 4 stk.) var dýrust á 1.433 kr. hjá Lyfju en ódýrust á 1.060 kr. hjá Lyfjaveri sem er 35% verðmunur.

Athygli vekur að lyfsölukeðjur sem ætla mætti að í krafti stærðarhagkvæmni gætu boðið upp á hagstæðari verð en smærri aðilar á markaði eru ekki að gera það. Verðlagseftirlitið vill hvetja neytendur til að spyrja um samheitalyf, sem gætu verið á hagstæðara verði og athuga með afsláttakjör.

Sjá nánar í töflu.

Könnunin var gerð í eftirtöldum apótekum: Apóteki Hafnarfjarðar, Tjarnarvöllum 11; Apótekarinn Hafnarstræti 95, Akureyri; Apótekinu Hólagarði, Lóuhólum 2-6; Garðs Apóteki, Sogavegi 108; Lyf og heilsa Hveragerði; Borgar Apóteki, Borgartúni; Lyfju Ísafirði; Lyfjavali Álftamýri, Álftamýri 1-5; Lyfjaveri, Suðurlandsbraut 22; Reykjavíkur Apóteki, Seljavegi 2; Rima Apóteki, Langarima 21; Skipholts Apóteki, Skipholti 50B; Urðarapóteki, Vínlandsleið 16; Akureyrarapóteki, Kaupangi við Mýrarveg; Apóteki Vesturlands, Smiðjuvöllum 32, Akranesi; Siglufjarðar Apóteki, Norðurgötu 4B; Apóteki Garðabæjar, Litlatúni 3; Apóteki Suðurnesja, Reykjanesbæ; Gamla apótekinu Melhaga 20-22; Lyfsalanum, Álfheimum 74; Austurbæjar Apóteki, Ögurhvarfi 3.

Árbæjarapótek og Apótek Ólafsvíkur neituðu þátttöku í könnuninni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Styrkir úr menntasjóðum

Báran vill vekja athygli félagsmanna sinna á menntasjóðum sem félagið er aðili að. Sjóðirnir eru til þess ætlaðir að styðja félagsmenn til ýmiskonar náms. Meðal þess sem er styrkt eru tölvunámskeið ýmiskonar, tungumálanám og þar með talið íslenskunám fyrir útlendinga, framhaldsnám, háskólanám, starfsnám og tómstundanámskeið allskonar.

Við hvetjum fólk til að kanna réttindi sín og nýta sér það sem er í boði. Hér er leið til að lækka kostnað við nám og því um að gera að láta drauminn rætast.

Atygli er vakin á að hægt er að flytja réttindi milli aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins og einnig er hægt að nýta réttindi frá Verslunarmannafélagi Suðurlands. Starfsmenn sjóðsins sjá um að afla þeirra upplýsinga sem til þarf en félagar þurfa sjálfir að gefa upp hvaða félög þeir hafa greitt til. Ekki er til kerfi sem heldur utan um það.

Til að öðlast rétt til styrks þarf umsækjandi að hafa greitt til félagsins í minnst sex mánuði af síðustu tólf. Til að hljóta fullann styrk þarf að hafa verið greitt af sem nemur lágmarkslaunum síðustu tólf mánuði. Ef það næst ekki, til dæmis ef félagi hefur verið í hlutastarfi, þá greiðist hlutfallslega miðað við lágmarkslaun. Fullur styrkur er kr. 60.000 á hverju tólf mánaða tímabili en heimilt er samkvæmt reglum sjóðanna að reikna upp síðustu þrjú árin og sá sem hefur áunnið sér fullan rétt öll árin á þá rétt á kr. 180.000. Þetta er hægt að gera einu sinni fyrir hvern félagsmann.

Meirapróf er styrkt sérstaklega. Sá sem á fullann rétt í sjóðinn getur fengið að hámarki kr. 100.000 einu sinni. Falli hann hinsvegar undir fyrgreinda þriggja ára reglu getur styrkurinn þó orðið hærri.

Greidd eru 75% af námskeiðsgjöldum en að hámarki kr. 60.000 nema ef um starfsnám er að ræða en þá greiðast 90% af námskeiðskostnaði en að hámarki 60.000. Bóka eða efniskostnaður er ekki greiddur, aðeins námskeiðsgjöld. Það er því nauðsynlegt að fá sundurliðaðan kvittun frá fræðslustofnun.

Umsóknir með kvittunum fyrir greiðslu þurfa að berast fyrir 10. hvers mánaðar en greitt er út þ. 15. Beiðnir sem berast eftir 10. eru afgreiddar í næsta mánuði á eftir.

Mikill verðmunur á þjónustu

Allt að 9.000 kr. verðmunur er á þjónustu við dekkjaskipti fyrir jeppa af stærri gerðinni með álfelgu af stærð 265/60R18. Þetta kemur fram í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði hjá 27 hjólbarðaverkstæðum víðsvegar um landið þann 27. október sl. N1 var oftast með hæsta verðið á þjónustunni en Titancar í Kópavogi var alltaf með lægsta verðið.

Mestur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti á jeppa (t.d. Mitshubishi Pajero)  með 18´  álfelgu (265/60R18) sem var ódýrust á 5.000 kr. hjá Titancar en dýrust á 14.010 kr. hjá N1 verðmunurinn var 9.010 kr. eða 180%. Fyrir stálfelgu af sömu stærð var ódýrast að umfelga á 5.000 kr. hjá Titancar en dýrast á 12.685 kr. hjá Höldur dekkjaverkstæði Akureyri. Verðmunurinn var 7.685 kr. eða 154%.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á dekkjaskiptum fyrir meðalbíl (t.d. Subaru Legacy) á 16´´ stálfelgum (205/55R16) en hún var ódýrust á 5.000 kr. hjá Titancar en dýrust á 7.420 kr. hjá N1, verðmunurinn var 2.420 kr. eða 48%. Fyrir bíl á álfelgu af sömu stærð var þjónustan ódýrust á 5.000 kr. hjá Titancar en dýrust á 8.614 kr. hjá N1. Verðmunurinn var 3.614 kr. eða 72%.

13 hjólbarðaverkstæði með sama verð og í fyrra
Af þeim hjólbarðaverkstæðum sem borin eru saman á milli ára hafa 13 þeirra ekki hækkað hjá sér verðið á þjónustu við dekkjaskipti á meðalbíl með 15´´ álfelgu (195/65R15) frá því í október 2013. Mesta hækkunin var hjá Dekkjahúsinu um 10% og þar á eftir kom hækkun hjá Hjólbarðaverkstæði Sigurjóns um 8%, hjá N1 um 7%, hjá VIP dekk um 6%, hjá Gúmmívinnustofa SP dekk um 5% og hjá Hjólbarða og smurþjónustunni Klöpp og Bernard um 1%. Verð þjónustunnar hefur lækkað hjá Dekkverk um 500 kr. milli ára sem er lækkun upp á 9%.

Sjá nánar niðurstöður í töflu.

Hjólbarðaverkstæði Grafarvogs, Dekkjahöllin, Barðinn, Pústþjónusta BJB, Askja, Hjólbarðaþjónusta  Magnúsar, Toyota/Bílaverkstæði Austurlands, Bílaáttan, Kraftbílar, Bílverið, Sólning og Hjólbarðaverkstæði Kaldasels neituðu þátttöku í könnuninni

Kannað var verð á þjónustu við dekkjaskiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu á álfelgum og stálfelgum af stærðum 14,15, 16 og 18´´ á 29 hjólbarðaverkstæðum í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi. Verðin í könnuninni eru án afsláttar en verkstæðin bjóða upp á margskonar afsætti t.d. FÍB, eldri borgara og staðgreiðslu, viðskiptavinir eru því hvattir til að spyrja um afslátt.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð á þjónustu að ræða en ekki var lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Norræn starfsmannaskipti

Með það að markmiði að auka norræna samvinnu hefur Norræna ráðherranefndin haft forgöngu um að gera ríkisstarfsmönnum á Norðurlöndum kleift að stunda tímabundið störf eða nám á starfsvettvangi sínum í ríkisstofnunum annars staðar á Norðurlöndum.

Tilgangurinn er að gefa ríkisstarfsmönnum tækifæri til að auka þekkingu sína á stjórnun, stjórnsýslu og löggjöf annars staðar á Norðurlöndum. Þetta fyrirkomulag er ekki bundið við að skiptin séu gagnkvæm en útilokar það ekki heldur.

Almenn skilyrði

Skiptin eru ekki bundin við sérstök störf eða starfshópa. Starfið eða námið verður þó að vera í faglegum tengslum við verksvið umsækjanda og teljast bæði stofnun og starfsmanni til gagns. Dvölin skal skemmst vera 1 mánuður og lengst 12 mánuðir og þarf helst að vera öll innan sama almanaksárs.

Árleg fjárveiting ráðherranefndarinnar sem skiptist á milli einstakra landa er veitt til að greiða ferðakostnað, kostnað vegna húsnæðis o.fl.

Þeirri fjárhæð sem til ráðstöfunar er fyrir Ísland er skipt niður á styrkþega. Vegna takmarkaðrar fjárveitingar getur þurft að velja úr umsóknum eða takmarka dvalartíma hvers og eins.

Á dvalartímanum nýtur starfsmaður venjulegra mánaðarlauna frá ráðuneyti/stofnun í heimalandinu, þar með greiðslna í lífeyrissjóð og hækkunar starfsaldurs, eins og um órofinn starfstíma væri að ræða. Þetta er ein af forsendum þess að starfsmaðurinn hljóti styrkveitingu.

Styrkur

Á vegum ráðherranefndarinnar er greiddur styrkur og er hann nú jafngildi 11.000 danskra króna á mánuði.

Ráðherranefndin greiðir ennfremur ferðakostnað til og frá dvalarstað. Lögð er áhersla á að leitað sé ódýrasta fargjalds sem kostur er á. Velji styrkþegi að notfæra sér dýrara fargjald greiðir hann sjálfur mismuninn.

Dvelji styrkþegi 6 mánuði eða lengur getur hann einnig fengið endurgreiddan ferðakostnað fjölskyldu sinnar, ef hún flytur með, ennfremur hugsanlegan kostnað vegna flutninga á nauðsynlegri búslóð.

Mögulegt er að fá greidda eina heimferð fyrir styrkþega og fjölskyldu hans meðan á dvölinni stendur, sé dvalið 6 mánuði eða lengur.

Endurgeiðsla útgjalda

Gert er ráð fyrir að hlutaðeigandi ráðuneyti/stofnun greiði til bráðabirgða öll útgjöld vegna styrkveitingarinnar þ.m.t. dvalarstyrk og ferðakostnað en ráðherranefndin endurgreiði síðan útgjöldin. Gögn vegna endurgreiðslna skal senda fjármálaráðuneytinu.

Umsóknir

Umsókn um styrk sendist til fjármálaráðuneytisins. Í umsókn skal eftirfarandi koma fram:

  1. Nafn, kennitala og heimili umsækjanda.
  2. Starfsheiti, vinnustaður og starfstími hjá þeirri stofnun sem starfsmaður starfar hjá.
  3. Starfssvið eða verksvið.
  4. Menntun og fyrri störf.
  5. Heiti stofnunar sem samkomulag hefur verið gert við um skiptidvöl, hvenær áætlað er að fara og til hve langs tíma sótt er um.
  6. Hverjir umsækjandi áætlar að fari með honum úr fjölskyldu hans ef um lengri dvöl er að ræða.
  7. Hvernig dvölin er skipulögð.
  8. Hvort umsækjandi hafi fengið eða eigi von á öðrum styrkjum eða aðstoð í sama skyni og um hve háa fjárhæð er að ræða.
  9. Aðrar upplýsingar sem máli skipta.

Umsókn skal fylgja umsögn ráðuneytis/stofnunar þar sem m.a. þess sé getið að um launað leyfi sé að ræða.

Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestur um styrk til dvalar á næsta ári er til 30. nóvember næst komandi.

Umsóknum og fyrirspurnum skal beina til:

Guðmundar H. Guðmundssonar, Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, fjármála- og efnahagsráðuneytinu,
Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík.
Sími: 545-9340, bréfasími: 562-8280, tölvupóstur: guðmundur.h.guðmundsson@fjr.i

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast hér

Tekið af heimasíðu Fjármála- og efnahagsráðuneytisins.