Við vinnum fyrir þig

Translate to

41. þing ASÍ hófst í dag

Rúmlega 300 þingfulltrúar frá 51 félagi innan Alþýðusambandsins mættu til þriggja daga þings á Hilton Nordica í dag kl. 10. Yfirskrift þingsins er Samfélag fyrir alla – jöfnuður og jöfn tækifæri.

Í opnunarræðu brýndi Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ  þingfulltrúa á þingi ASÍ til samstöðu til að verjast aðförinni að velferðarkerfinu og vaxandi misskiptingu í samfélaginu. Um kjaramál sagði Gylfi Arnbjörnsson m.a.:

„Það er alveg ljóst að í komandi kjarasamingum verður að leiðrétta kjör félagsmanna ASÍ til jafns við aðra. Það er krafa félaga okkar.

En það er einnig ljóst að það verður engin sátt um efnahagslegan stöðugleika ef hann á að byggja á vaxandi misskiptingu og fátækt og stöðugt veikari innviðum velferðarkerfisins.

Það verður engin sátt við verkalýðshreyfinguna þegar ráðist er að lífeyrisréttindum okkar, réttindum atvinnuleitenda eða skorið á tækifæri til endurkomu til vinnu eftir veikindi og slys.

Nú er einfaldlega komið nóg. Það er ljóst að ríkisstjórnin er fyrir ríka fólkið og verkalýðshreyfingin verður að beita afli sínu til að forða því að Ísland framtíðarinnar verði land misskiptingar og glataðra tækifæra. Land þar sem fyrirtækjum og efnafólki eru hyglað á kostnað alls almennings.“

 

Verðskrá á dekkjaverkstæðum

Neytendastofa kannaði á dögunum verðmerkingar á dekkjaverkstæðum höfuðborgarsvæðisins. Nú er komið að því að landsmenn þurfa að skipta yfir á vetrardekkin og eiga neytendur rétt á því að geta gert verðsamanburð á milli verkstæða og leitað eftir bestu tilboðunum.
Farið var á 35 dekkjaverkstæði og athugað hvort verðskrá yfir alla framboðna þjónustu væri sýnileg.

Könnunin leiddi í ljós að af þessum 35 dekkjaverkstæðum voru 12 þeirra ekki með verðskrá til staðar en það var hjá Barðanum Skútuvogi, Vöku Skútuvogi, Max 1 Bíldshöfða, Kvikkfix Hvaleyrarbraut, Dekkjahúsinu Auðbrekku, Bílkó Smiðjuvegi, Bíla áttunni Smiðjuvegi, Sólningu Smiðjuvegi, Hjólbarðaverkstæði Bílabúðar Benna Vagnhöfða, Hjólbarðaverkstæði Grafarvogs Gylfaflöt, Klett Suðurhrauni og Sólningu Hjallahrauni. Á tveim verkstæðum var verðskrá til staðar en ekki sýnileg en það var hjá Gúmmívinnustofunni Skipholti og Nýbarða Lyngási.

Könnuninni verður fylgt eftir með annarri heimsókn á næstu vikum og mun þá koma í ljós hvort rekstraaðilar dekkjaverkstæðanna hafi farið eftir fyrirmælum stofnunarinnar og bætt verðmerkingar sínar. Hafi það ekki verið gert geta verkstæðin átt von á sektum. Neytendastofa mun halda áfram að fylgja eftir sjálfsögðum rétti landsmanna og veita fyrirtækjum landsins nauðsynlegu aðhaldi sem skilar sér í formi góðrar og réttrar verðmerkingu vara. Stofnunin hvetur neytendur til að vera á verði og koma ábendingum til skila í gegnum rafræna neytendastofu á vefslóðinni www.neytendastofa.is

Tekið af heimasíðu Neytendastofu.

Bónus með lægsta verðið á matarkörfunni

Bónus var með lægsta verðið á matarkörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu 10. október sl. Matarkarfan kostaði 16.086 kr. hjá Bónus en hún var dýrust hjá Víði á 19.650 kr. sem er 3.564 kr. verðmunur eða 22%. Oftast var 25-50% verðmunur á hæsta og lægsta verði vöru, en sjá mátti allt að 180% verðmun. Eins og svo oft áður er nánast engin verðmunur á nýmjólk og stoðmjólk eða 1%.

Eins og áður sagði var Bónus með ódýrustu körfuna á 16.086 kr. en þar á eftir kom Krónan með matarkörfu sem kostar 160 kr. meira en karfan hjá Bónus. Þar næst er Nettó með körfu á 17.439 kr. sem er 8% dýrari en karfan í Bónus og hjá Fjarðarkaupum kostaði karfan 17.532 kr. eða 9% meira en sú ódýrasta.

Matarkarfan var dýrust hjá Víði á 19.650 kr. eða 22% dýrari en ódýrasta matarkarfan, hún var 17% dýrari hjá Samkaupum-Úrvali og 15% dýrari í Nóatúni.

Mestur verðmunur var á appelsínum sem voru dýrastar á 498 kr./kg. hjá Víði en ódýrastar á 178 kr./kg. hjá Iceland sem er 180% verðmunur. 10 egg frá Brúnegg voru dýrust á 798 kr. hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrust á 598 kr. hjá Bónus en það gerir 200 kr. verðmun eða 33%. Einnig má nefna að Nescafé gull 200 gr. var dýrast á 1.398 kr. hjá Iceland en ódýrast á 959 kr. hjá Bónus en það gerir 439 kr. verðmun eða 46%.

Sjá nánar í töflu

Matarkarfan samanstendur af 48 almennum neysluvörum til heimilisins t.d. mjólkurvörum, morgunkorni, grænmeti, kjöti, drykkjarvörum, ásamt ýmsum pakkavörum, dósamat og fleiru.

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum; Bónus, Krónunni, Nettó, Fjarðarkaupum, Iceland, Nóatúni, Víði, Samkaupum Úrval og Hagkaupum.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ.

Grímulaus leið misskiptingar og ójöfnuðar

Félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags var haldinn í gær. Kosið var um fulltrúa á þing Alþýðusambands Íslands sem haldið verður 22. – 24. október nk.  Kynnt var niðurstaða kjaraþings Bárunnar, stéttarfélags sem haldið var þann 23. september sl. Í lok fundar var samþykkt ályktun vegna trúnaðarbrests sem orðið hefur á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda frá undirritun kjarasamninga 21. desember sl. Mikill hiti var í fundarmönnum og var gerð krafa um að hlutur þeirra sem lægstu launin hafa verði leiðréttur og horfið verði frá braut misskiptingar og ójöfnuðar.

Sjá ályktunina í heild:

Grímulaus leið misskiptingar og ójöfnuðar

Báran, stéttarfélag harmar þann trúnaðarbrest sem orðið hefur á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda frá undirritun kjarasamninga þann 21. desember 2013. Enn og aftur þurfa þeir sem lægstu launin hafa að bera hitann og þungann á stöðugleikanum. Samtök atvinnulífsins eru óþreytt að hamra á „góðum árangri“ sem náðst hefur og að allir verði að axla ábyrgð. Seðlabankastjóranum er tíðrætt um „hóflegar launahækkanir“ og stjórnvöld ganga harðast fram með grímulausri atlögu að velferðarkerfinu eins og fjárlagafrumvarpið endurspeglar með t.d hækkun virðisaukaskatts á matvæli, styttingu á réttindum til atvinnuleysisbóta, og niðurfellingu framlags til Virk starfsendurhæfingarsjóðs. Vægast sagt er lítill sem enginn vilji almennt til jöfnuðar í íslensku samfélagi.

Báran, stéttarfélag spyr: Er það sanngjarnt og réttlátt samfélag að meðan 4 af hverjum 10 launþegum á íslandi eru með laun 220.000 og undir á mánuði, þá eru um 20.000 íslendingar með um 20.000.000 í árslaun?

Félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags krefst þess að hlutur þeirra sem lægstu launin hafa, verði leiðréttur og að horfið verði frá braut misskiptingar og ójöfnuðar.

Félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags Selfossi 6. október 2014.

 

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður

 

 

Almennur félagsfundur

Almennur félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags verður haldinn að Austurvegi 56, Selfossi mánudaginn 6. október nk.

Fundurinn byrjar með kjötsúpu kl. 19.00 í boði Bárunnar, stéttarfélags.

Dagskrá:

1. Kosning fulltrúa á þing Alþýðusambands Íslands 22. – 24. október 2014.

2. Niðurstaða kjaraþings Bárunnar, stéttarfélags sem haldið var þann 23. september sl.

Önnur mál.

Stjórn Bárunnar, stéttarfélags hvetur félagsmenn til þátttöku í starfi félagsins.

 

Stjórnin

Fundur með Gylfa Arnbjörnssyni

Stjórnir Bárunnar, VMS og stjórnarmenn frá Félagi mjólkurfræðinga funduðu með Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ í sal stéttarfélaganna á Selfossi í gærkveldi.

Fyrir fundinn hittist samninganefnd Bárunnar og fór og samþykkti yfir kröfugerðir sem lagðar verða fram fyrir hönd félaganna og stjórn VMS hélt stjórnarfund.

Gylfi hefur verið á fundarferð um landið og óskaði eftir þessum fundi til að fá að heyra hvaða áherslur félögin hér leggðu á í komandi kjarasamningum. Gylfi byrjaði á að fara vítt og breytt yfir stöðuna og hvernig landið lægi að hans mati. Hann fór yfir þá samninga sem gerðir hafa verið eftir að ASÍ skrifaði undir samningana og sagði augljóst að ríkisvaldið hefði breytt um stefnu gagnvart opinberu félögunum. Sú stefnubreyting væri ekki í boði fyrir almennu félögin.  Hann sagði það skoðun sína að alger trúnaðarbrestur hefði orðið milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar og sagðist velta því fyrir sér hvort frekari viðræður myndu skila einhverjum árangri. Framkomið fjárlagafrumvarp benti til þess að ríkisstjórnin ætlaði að halda áfram að velta öllum kostnaði yfir á launafólk og hlífa þeim betur stæðu og nefndi hækkun matarskatts, skerðingu á jöfnunarframlagi til lífeyrissjóðanna og fleiri aðgerðir í ríkisfjármálum sem munu koma lægst launaða fólkinu verst. Hann mótmælti orðum fjármálaráðherra um að þessar breytingar feldu í sér kaupmáttaraukningu fyrir heimilin og rökstuddi gagnrýni sína.

Töluverð gagnrýni kom frá stjórnarmönnum félaganna á hvernig staðið var að gerð síðustu kjarasamninga og hvöttu til þess að ekki yrðu gerð sömu mistökin aftur. Einnig vöktu þeir athygli Gylfa á því að hjá félögunum á Suðurlandi væru sumir lægst launuðu félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar. Sögðu þeir ljóst að það yrði að berjast sérstaklega fyrir hag þeirra og sögðu það koma skýrt fram í kröfugerðum félaganna.

Gylfi varpaði fram þeirri spurningu hvort stjórnarmenn hér treystu sér til að segja til um hvort félagsmenn væru tilbúnir í aðgerðir yrði þróunin á þá leið. Sögðu stjórnarmenn það óljóst á þessu stigi en kölluðu eftir að forysta verkalýðshreyfingarinnar risi upp og veitti þá forystu sem fólk kallaði eftir. Þá væri hugsanlega hægt að svara spurningunni.

Eftir þennan fund með Gylfa þá er ljóst að það stefnir í hörð átök í vetur og greinilegt að þolinmæði verkalýðshreyfingarinnar er orðin verulega teygð. Ekki er ólíklegt að við munum þurfa að taka erfiðar ákvarðanir áður en þessi vetur er liðinn.

Í því sambandi er rétt að minna á félagsfund Bárunnar næst komandi mánudag og hvetjum við alla sem vettlingi geta valdið að mæta.

IMG_3132 IMG_3130 IMG_3129 IMG_3128

Frábært kjaraþing stéttarfélaganna

Báran, stéttarfélag og Verslunarmannafélag Suðurlands héldu sameiginlegt kjaraþing á Hótel Selfoss í gærkveldi, 23. september.

Á þinginu fóru fram fjörugar umræður um kjaramál og unnið var í hópum í ýmsum málum þeim tengdum. Mikil vinna var lögð í að marka stefnu félaganna í komandi kjaraviðræðum og hvaða áherslur fulltrúar á þing ASÍ  22 – 24 . október næstkomandi, skuli leggja inn í þá vinnu sem þar verður unnin.

Fram kom í umræðum að mikil tortryggni ríkir í garð stjórnvalda og hörð gagnrýni á framlagt fjárlagafrumvarp. Töldu ýmsir fundargesta að löngu væri orðið tímabært að verkalýðshreyfingin risi upp af svefninum og léti nú til sín taka af alvöru.

Félögin vilja koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem sáu sér fært að mæta og ekki þá síður til starfsmanna fundarins sem skrifstofa Alþýðusambandsins lagði til en það voru þær Henný Hinz sem átti framsögu um stéttarbaráttu í fortíð, nútíð og framtíð, Eyrún Björk Valsdóttir og Sigurlaug Gröndal. Einnig var framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins Drífa Snædal með framsögu og stjórnaði hópastarfi.

Edda Björgvins kom síðan í lok fundar og hélt frábæran fyrirlestur sem hét; Húmor á vinnustað – dauðans alvara.

Tilgangur fundarins var, eins og fram hefur komið, að fá fram hjá félagsmönnum vilja þeirra og skoðanir á hvaða málefni og áherslur félögin fara með inn í væntanleg þing ASÍ og inn í kjarasamninga vetrarins.

Fundir sem þessir eru algerlega bráðnauðsynlegir til að forystumenn félaganna fari með skýran vilja félagsmanna sinna inn í þá vinnu sem framundan er.

IMG_1220 IMG_1237 IMG_3067 IMG_3071 IMG_3073 IMG_3079 IMG_3118

Viltu hafa áhrif

Báran, stéttarfélag og Verslunarmannafélag Suðurlands standa fyrir kjaraþingi sem haldið verður í kvöld, þriðjudaginn 23. september, klukkan 16.00 – 21.30.   Það eru ennþá nokkur sæti laus.  Áhugasamir félagsmenn geta skráð sig hjá Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna í síma 480-5000.

Ályktun frá stjórn Bárunnar

Báran, stéttarfélag  lýsir vanþóknun sinni á því hugarfari sem lýsir sér  í flestum þeim aðgerðum stjórnvalda sem snerta almennt launafólk á Íslandi og opinberar, í besta falli algjöra  vanþekkingu á kjörum venjulegs fólks.

Það  verður ekki lengur við unað að láglaunahópar innan verkalýðshreyfingarinnar beri hitann og þungann af viðreisn efnahagslífsins. Hagsmungæsla stjórnvalda gagnvart þeim efnameiri  í formi lækkaðra og niðurfelldra skatta eru stjórnvaldsaðgerðir sem ekki eru til þess fallnar að jafna kjörin.

Almennt launafólk á Íslandi er búið að leggja sitt á vogarskálar efnahagsviðreisnarinnar og hefur borið þær byrðar möglunarlítið meðan ákveðnir hópar samfélagsins hafa komið sér undan því að taka ábyrgð og haldið sínu striki. Ljóst er að nægt fjármagn er til í landinu til að bæta kjör þeirra lægst launuðu. Um það vitna hagnaðartölur fyrirtækja og hækkandi laun stjórnenda þeirra.

Báran, stéttarfélag hvetur stjórnvöld til að setjast niður til heiðarlegra viðræðna um hvernig skipta má lífsgæðum þessa lands á sanngjarnari hátt en nú er.

Selfossi 19.09 2014

 Stjórn Bárunnar, stéttarfélags á Suðurlandi

Vel heppnað þing ASÍ-UNG

Þriðja þing ASÍ-UNG var haldið 12. september 2014 undir yfirskriftinni „Samfélag fyrir alla … líka unga fólkið“. Á þinginu fjölluðu Henný Hinz og Ari Eldjárn m.a. um tekjuskiptingu í samfélaginu og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Þingið sóttu 26 þingfulltrúar og 10 aukafulltrúar. Góð stemmning var meðal þingfulltrúa og almenna ánægja með þá málefnavinnu sem fram fór í aðgreindum hópum. Sú vinna skilaði m.a. eftirfarandi ályktunum:

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs
Þriðja þing ASÍ-UNG ítrekar mikilvægi þess að samfélagið taki aukið tillit til fjölskylduábyrgðar og veiti fjölskyldufólki sveigjanleika til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Í því skyni hefur 3. þing ASÍ-UNG fjallað um málið og setur fram eftirfarandi kröfur til hlutaðeigandi.

– ASÍ-UNG krefst þess að sveitarfélög hafi leikskóla opna yfir sumartíma þar sem oft er erfitt að samræma sumarfrí barna og foreldra.

– ASÍ-UNG krefst samræmingar á starfsdögum og öðrum frídögum hjá leik- og grunnskólum í landinu.

– ASÍ-UNG krefst þess að heimild fáist til að nýta hluta af eigin veikindarétti til að sinna veikindum barna ef þörf krefur.

– ASÍ-UNG krefst þess að stjórnvöld lengi fæðingarorlof, hækki greiðsluþakið og afnemi 80% hámarkið.

– ASÍ-UNG krefst þess að stefnt verði að styttingu vinnuviku án þess að afkoma skerðist.

Húsnæði – mannréttindi ekki forréttindi – ÍTREKUN
Þriðja þing ASÍ-UNG áréttar ályktun frá fyrra þingi er varðar húsnæði en lítið sem ekkert hefur þokast á þeim vettvangi á síðustu tveimur árum. ASÍ-UNG leggur áherslu á að aðgangur að öruggu íbúðarhúsnæði er mannréttindi ekki forréttindi! Íbúðarhúsnæði á viðráðanlegum kjörum er grundvallaratriði svo ungt fólk geti komið undir sig fótum og skapað fjölskyldum sínum góð lífsskilyrði.

Vandinn á húsnæðismarkaðum er margþættur. Húsnæðisverð er hátt og greiðslubyrði af húsnæði er þung. Ungt fólk fær ekki greiðslumat í dag og nánast útilokað er fyrir ungt fólk að safna fyrir útborgun í eigið húsnæði. ASÍ-UNG telur mikilvægt að greiðslumat vegna íbúðakaupa sé raunhæft og taki aukið mið af stöðu hvers og eins og geri þannig ungu fólki kleift að festa kaup á húsnæði.

Framboð af leiguhúsnæði er afar takmarkað, húsaleigan há og húsnæðisöryggi ekkert. Gera þarf leigu að raunhæfum valkosti á húsnæðismarkaði. Til þess þurfa stjórnvöld að styðja við stofnun leigufélaga sem tryggja öruggt langtíma leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. Stuðningur við leigjendur er enn mun minni en við húsnæðiseigendur og hugmyndir um eitt húsnæðisbótakerfi hefur enn ekki verið hrint í framkvæmd. Núverandi húsaleigubótakerfi styður illa við ungt launafólk sem er með öllu óásættanlegt.

ASÍ-UNG gagnrýnir harðlega skuldalækkunaraðgerðir stjórnvalda en með þeim er verið að ráðstafa miklum fjármunum sem nýtast ungu fólki með takmörkuðum hætti. Meginn þorri ungs fólks fær ekki þá aðstoð sem boðið er upp á. Aðgerðir sem skerða lífeyri munu eingöngu fresta þeim vanda sem við búum við og eru því með öllu óásættanlegar.

Þriðja þing ASÍ-UNG spyr því hvaða aðgerðir munu gagnast okkur í þeim vanda sem við búum við í dag?

 

Upprætum svarta atvinnustarfsemi og kennitöluflakk!
Þriðja þing ASÍ-UNG skorar á stjórnvöld að leggja ríkari áherslu á að uppræta svarta atvinnustarfsemi og kennitöluflakk. Ungt fólk sem er að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði eru oft ekki upplýst um réttindi sín og verða því oft fórnarlömb slíkrar starfsemi og standa uppi réttindalaus.

 

Stöðvum svindl á ungu launafólki!
Ungt fólk er í ljósi reynsluleysis síns sérstaklega berskjaldað á vinnumarkaði. Fréttir undanfarinna missera t.d. af hótel- og veitingageiranum þess efnis að það sé orðið undantekning frekar en reglan að lög- og kjarasamningsbundin réttindi ungs launafólks séu virt, þarf að taka alvarlega og svindlið þarf að uppræta. Afleiðingarnar eru ekki bara bein kjararýrnun fyrir þá sem fyrir þessu verða heldur leiðir þetta einnig til félagslegra undirboða sem hefur neikvæðar afleiðingar fyrir starfsgreinina í heild sinni.

Nauðsynlegt er að ráðast í markvisst átak sem felur það í sér að nálgast ungt fólk og fræða það um réttindi sín en jafnframt þarf að fordæma þá atvinnurekendur sem gerast sekir um brot á réttindum launafólks.

Með vísan í framangreint skorar 3. þing ASÍ-UNG á stéttarfélögin í landinu að gera betur í því að fræða unga fólki og jafnframt skera upp herör gegn þeim atvinnurekendum sem kerfisbundið svindla á launafólki.

Á þinginu var ný stjórn ASÍ-UNG kjörin, hana skipa:Freydís Ösp Leifsdóttir (Báran); Unnur Rán Reynisdóttir (Félag hársnyrtisveina);  Linda Rós Reynisdóttir (VR); Eiríkur Þór Theódórsson (StéttVest); Ingólfur Björgvin Jónsson (Efling); Friðrik Guðni Óskarsson (FIT); Guðni Gunnarsson formaður (VM); Einar Magnús Einarsson (Framsýn) og Eva Hrund Aðalbjarnadóttir (Mjólkurfræðingafélagi Íslands).

 

Tekið af heimasíðu ASÍ