Við vinnum fyrir þig

Translate to

Vörukarfan lækkar í verði hjá þremur verslunum

Vörukarfa ASÍ hefur lækkað hjá Bónus, Hagkaupum og Tíu-ellefu á milli verðmælinga verðlagseftirlitsins í apríl og júní. Á þessu tæplega þriggja mánaða tímabili hækkaði vörkarfan hins vegar í verði hjá Krónunni, Nettó, Iceland, Nóatúni, Samkaupum-Úrvali, Samkaupum-Strax og Víði.

Mesta hækkunin er hjá Samkaupum-Strax um 1,4%. Miklar verðsveiflur eru í öllum vöruflokkum hjá öllum verslunum en mesta hækkunin er í sælgæti hjá Bónus um 6% og mesta lækkunin er í kjötvörum hjá Víði um 8,6%.

Sjá könnunina í frétt á heimasíðu ASÍ

 

Eljan

Eljan er komin út og í þessu fyrsta tölublaði ársins er víða komið við.  Árlega berast margar ábendingar um brot á kjarasamningum starfsfólks í ferðaþjónustu og þá sérstaklega yfir sumartímann. Í blaðinu eru leiðbeiningar til sumarstarfsmanna þar sem farið er yfir algeng kjarasamningsbrot.  Einnig eru þrjár greinar um símenntunarmál á Suðurlandi. Meðal annars viðtal við Heimi Bates sem fór í raunfærnimat hjá Fræðsluneti Suðurlands. Gils Einarsson tók saman stutt ágrip af sögu Kaupfélaganna á Suðurlandi.  Aftast í blaðinu er sagt frá afsláttarkjörum fyrir félagsmenn.  Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í blaðinu hægra megin á heimasíðunni.

Kjarasamningur við Sólheima

Talin hafa verið atkvæði vegna samkomulags um breytingar og framlenginu á kjarasamningi milli Bárunnar, stéttarfélag og Sólheima ses.

Niðurstaðan er sem hér segir:

Já sögðu 4 eða 66,7%

Nei sögðu 2 eða  33,3%

Auðir eða ógildir 0

Samningurinn er því samþykktur og gildir til 30. apríl 2015.

 

SGS vekur ungt fólk til umhugsunar um réttindamál

Um þessar mundir stendur Starfsgreinasamband Íslands fyrir átaki undir yfirskriftinni „Þekkir þú þinn rétt?“. Tilgangurinn með átakinu er að vekja unga einstaklinga, sem margir hverjir eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum í sumar, til umhugsunar um réttindi sín á vinnumarkaði, en því miður er raunin oft sú að unga fólkið er illa að sér um réttindi sín og skyldur.

Stéttarfélög um allt land hafa orðið vör við að ungt fólk sé látið vinna svokallaða „prufudaga“ án launa, þá er jafnaðarkaup ennþá töluvert algengt og sömuleiðis gerviverktaka. Nauðsynlegt er að fólk þekki rétt sinn og skyldur varðandi vinnutíma og að ekki er hægt að kalla til fólk á vaktir og senda það heim fyrirvaralaust án launa eins og vill brenna við.

Þetta eru nokkur dæmi um það sem Starfsgreinasambandið telur tilefni til að minna ungt fólk á að varast þegar það stígur sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum. Í viðhengjum á heimasíðu SGS, www.sgs.is  er að finna grunnupplýsingar um það sem ungt fólk þarf að vita þegar það tekur í fyrsta sinn þátt á vinnumarkaðnum.

 

Fésbókarsíðan „Vinnan mín“ external link icon

Ertu búin(n) að fá vinnu í sumar?

Nú er ráðningum í sumarstörf að ljúka. Unga fólkið streymir út á vinnumarkaðinn til að vinna sér inn aur og létta, tímabundið, álaginu á veski foreldra og ættingja.

Reynslan sýnir okkur að unga fólkið veltir því sjaldan fyrir sér hvort verið sé að greiða eftir kjarasamningum. Ánægjan yfir því að fá vinnu er flestu öðru. Einnig skortir oftast þekkingu á þeim réttindum og skyldum sem fylgja vinnunni. Af því tilefni viljum við koma eftirfarandi á framfæri:

Það er ein meginregla í gangi samkvæmt lögum og kjarasamningum:

 Ekki má greiða laun eða bjóða upp á kjör sem eru undir gildandi kjarasamning hverju sinni.

Gæta skal að því að kaup og kjör standist kjarasamning að lágmarki. Annað er lögbrot. Það er líka óleyfilegt að semja sig niður fyrir samninginn, þrátt fyrir að báðir aðilar séu sáttir. Þetta er mjög mikilvægt.

Það er ekkert í kjarasamningum sem heitir jafnaðarkaup.

Það er góð regla að þegar boðið er upp á eina krónutölu fyrir unna klukkustund þá liggi það fyrir hvað er lagt til grundvallar þegar þessi tala er fundin út. Hvað er innifalið í þessari tölu? Hver er vinnutíminn, í hverju felst vinnan? Algengt er, að þegar fólk sættir sig við jafnaðarkaup þá er það um leið að taka á sig launalækkun.

Það er kallað að vinna svart þegar laun eru þegin án þess að þeim fylgi launaseðill og greitt sé til samfélagsins það sem lög segja til um.

 Ef launþegi samþykkir, eða fer fram á að vinna svart þá er hann ekki bara að brjóta lög heldur er hann um leið að afsala sér mikilvægum réttindum. Hann á ekki veikindarétt, hefur ekki uppsagnarfrest, er ekki slysatryggður, á engan rétt til orlofs og ávinnur sér ekki rétt til atvinnuleysisbóta. Rísi ágreiningur við vinnuveitanda er hann alltaf í lakari stöðu en atvinnurekandinn. Vinnuveitandinn getur leyst ágreininginn á þann einfalda hátt að reka þann sem er óánægður og sá óánægði hefur enga leið til að leita réttar síns.

Það er óheimilt að láta fólk vinna launalaust á svokölluðum reynslutíma.

Vinna getur aldrei verið launalaus, jafnvel þó fólk sé tekið inn til reynslu. Mörg dæmi eru um að fólk hafi skilað upp í viku vinnu án þess að fá laun.

Ef þú ert í einhverjum vafa um kaup eða kjör hafðu þá samband við stéttarfélagið þitt og fáðu úr því skorið hvort rétt er staðið að málum.

 

Bónus með lægsta verðið í um helmingi tilvika

Verslunin Bónus Skeifunni var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu sl. mánudag. Hæsta verðið var oftast að finna hjá Samkaupum-Úrvali í Hafnarfirði eða í um þriðjungi tilvika. Í um fjórðungi tilvika var hæsta verðið hjá Víði og Nóatúni. Eins og áður sagði var lægsta verðið oftast að finna í Bónus eða í um helmingi tilvika. 

Oftast var verðmunurinn á hæsta og lægsta verði vöru frá 1% upp í 25% en algengt var að sjá 25-50% verðmun. Mesti verðmunur í könnuninni var 138%. 

Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru fáanlegar hjá Hagkaupum Eiðistorgi eða 102 af 105, Fjarðarkaup Hafnarfirði átti til 99 og Krónan upp á Höfða 96. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Bónus eða aðeins 79 af 105. 

Minnstur verðmunur á mjólkurvörum, osti og viðbiti
Af þeim 105 matvörum sem skoðaðar voru, var verðmunurinn minnstur á mjólkurvörum, osti og viðbiti eða alltaf undir 34%, en oftast var verðmunurinn frá 1% upp í 50%. Minnstur verðmunur var á 1,5 l. af Nýmjólk, sem var ódýrust og á sama verði hjá Bónus, Krónunni, Nettó, Fjarðarkaupum, Samkaupum-Úrvali, Hagkaupum og Víði  á 193 kr./stk. og 2 kr. dýrari hjá Iceland eða 1% verðmunur. Mestur verðmunur í könnuninni var á avacado, sem var dýrast á 899 kr./kg. hjá Hagkaupum en ódýrast á 378 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum sem er 521 kr. verðmunur eða 138%. En alltaf var yfir 50% verðmunur á þeim ávöxtum og grænmeti sem skoðuð voru.

47% verðmunur á lambahrygg
Af þeim vörum sem til voru í öllum verslununum má nefna að mikill verðmunur var á Þrif leysigeisla 550 ml. sem var ódýrastur á 475 kr. hjá Bónus en dýrastur á 668 kr. hjá Víði sem gerir 41% verðmun. Annað dæmi um mikinn verðmun ½ l. af Coca cola í plasti sem var ódýrast á 145 kr. hjá Bónus en dýrast á 188 kr. hjá Nóatúni sem er 43 kr. verðmunur eða 30%. Frosinn lambahryggur var ódýrastur á 1.698 kr./kg. hjá Iceland en dýrastur á 2.499 kr./kg. hjá Hagkaupum sem er 801 kr. verðmunur eða 47%. Nýja þurrvaran Vilko hrökkbrauð 370 gr. sem var ekki til í öllum verslununum var ódýrust á 428 kr./stk. hjá Krónunni en dýrust á 519 kr./stk. hjá Hagkaupum og Nóatúni sem er 21% verðmunur.  
 
Sjá nánari upplýsingar í töflu.  

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Skeifunni, Krónunni Höfða, Nettó Granda, Iceland Vesturbergi, Nóatúni Grafarholti, Hagkaupum Eiðistorgi, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Víði Skeifunni, Samkaupum-Úrval Hafnarfirði.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ

 

 

Suðurland, nýlenda Íslands?

 

Þessi grein birtist í Sunnlenska í morgun:

 

Hvernig stendur á því að eitt auðugasta landssvæði Íslands, hvort heldur talað er um náttúruauðæfi eða ræktað land, búskap og matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og náttúrugersemar, skuli skila íbúum sínum jafn lágum tekjum og raun ber vitni?

Suðurland sér stærstum hluta landsmanna fyrir raforku og hita sem skapar atvinnu og lífsgæði á stór Reykjarvíkursvæðinu og víðar, framleiðir mestan mat í fyrir stærstan hluta landsmanna, sér langstærstum hluta erlendra ferðamanna fyrir gistingu, afþreyingu og ógleymanlegri upplifun auk þess að reka öfluga verslunar og þjónustukjarna fyrir heimamenn og gesti. Gríðarlegt fjármagn streymir hér um sýslurnar og mikil uppbygging hefur átt sér stað á síðustu árum og áratugum, ekki síst í ferðatengdri þjónustu. Gistiplássum hefur fjölgað stórlega, afþreying fyrir ferðamenn er orðin umtalsverður hluti ferðaþjónustunnar og að auki þá hefur sá tími sem útlendingar ferðast um landið lengst. Hestaferðir, jeppaferðir og snjósleðaferðir verða sífellt vinsælli meðal erlendra ferðamanna.

Af þessum upplestri skyldi ætla að flestir sunnlendingar keyrðu um á lúxusjeppum og gengju í Armani eða Dior með gullhring á hverjum fingri. Grætt á daginn og grillað á kvöldin syndrómið, þið skiljið. Suðurland, þar sem smjör drýpur af hverju strái. Eða hvað?

Tökum ferðamennskuna sem dæmi.

Forsvarsmenn margra þessara fyrirtækja tala hátt um að hjá þeim sé falinn helsti vaxtarbroddur í íslensku efnahagslífi. Pólitískir leiðtogar okkar taka undir þetta og leggja til umtalsvert fjármagn til kynningar á landi og þjóð. Spár segja sumar að hingað muni koma um milljón ferðamenn á ári innan skamms tíma. Hagur fyrir samfélagið ekki satt? Kannski.

Fyrir starfsfólk á lágmarkslaunum hljóta þessar raddir að hljóma ankannalega. Vaxtarbroddur fyrir hvern? Launin sem almennt eru greidd í þessum ferðatengdu atvinnugreinum er svo lág að jaðrar við þjóðarskömm. Og ekki halda að ég sé að sjá ofsjónum yfir launum í öðrum greinum. Laun á Íslandi eru einfaldlega of lág, bara svo það sé á hreinu. En meðal forystumanna í ferðaþjónustunni virðist það vera keppikefli að halda launum niðri með ýmiskonar útfærslum á launagreiðslum sem eiga lítið skylt við siðferði. Laun undir lágmarkstöxtum, jafnaðarlaun þar sem verulega hallar á launþegann, laun greidd í fríðindum, ekki reiknað orlof. Ég get haldið áfram.

Svo ég verði nú ekki tekinn af lífi fyrir þessi skrif þá er mér ljúft og skilt að geta þess að til eru margar heiðarlegar undantekningar á þessu meðal ferðaþjónustuaðila sem eru til hreinnar fyrirmyndar hvað varðar laun og aðbúnað starfsfólks. Þessi fyrirtæki má þekkja úr með því að skoða starfsmannaveltu undanfarinna ára. Fólk hefur nefnilega tilhneygingu til að halda sig við þann vinnuveitanda þar sem því líður vel og er ánægt. Að sama skapi helst hinum fyrirtækjunum yfirleitt illa á starfsfólki.

Þrátt fyrir stanslausa aukningu í ferðamannastraumi þá virðist lítið af þeim peningum sem eytt er á svæðinu skila sér til samfélagsins.  

Ég tek hér dæmi af ferðaþjónustunni því það er nærtækast. Þetta á því miður við um aðrar atvinnugreinar svo sem matvælaframleiðslu og aðra verslun og þjónustu en við ferðamenn líka en umfjöllun um þær bíður betri tíma. En hún mun koma.

Og ekki kenna stéttarfélögunum um þessa þróun. Staðreyndirnar eru þær að það getur munað 10 – 20% og þaðan af meira í launum hvort fólk vinnur á Stór Reykjarvíkursvæðinu eða fyrir austan Hellisheiði. Fólk á sömu samningum og í sömu störfum.

Hvað veldur? Getur það haft með hugarfar okkar sunnlendinga að gera? Afhverju sættum við okkur við lægri laun en annarstaðar gerast? Kannski hér sé sama tregðulögmál að verki og virðist ríkjandi í jöfnun launa milli karla og kvenna. Finnst okkur í lagi að vera í hlutverki nýlendunnar sem hefur allar auðlindirnar en nýtur minnsta hluta þeirra? Svona svipuðu hlutverki og Afríka gengdi á tímum nýlendustefnunnar?

Nú í kringum sveitarstjórnarkosningar er ekki úr vegi að núverandi og væntanlegir forsvarsmenn okkar átti sig á þessu og myndi sér skoðun á hvað þurfi til að breyta þessari þróun. Við sunnlendingar eigum að sjá til þess að stærri hluti hagnaðar verða eftir heima í héraði í formi útsvars og eðlilegra gjalda til samfélagsins. Við eigum að hafa metnað til að gera meiri kröfur til arðsins en við gerum í dag. Eins og staðan er núna erum við sunnlenskt launafólk að tapa á þessum díl.

                                              Hjalti Tómasson