Við vinnum fyrir þig

Translate to

Nordisk Forum á Selfossi

Kynningarfundur um samnorrænu kvennaráðstefnuna Nordisk Forum sem haldinn verður í Malmö í júní, verður haldinn í sal Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna nk. þriðjudag kl.18.00. Léttar veitingar í boði. Sjá meðfylgjandi auglýsingu.

 

 

 

Boðað verkfall hjá framhaldsskólakennurum

Á mánudaginn hefst boðað verkfall framhaldsskólakennara ef samningar takast ekki fyrir þann tíma. Rétt er að benda á að  yfirvofandi verkfall tekur aðeins til þeirra sem eru félagar í Félagi framhaldsskólakennara og Félagi stjórnenda í framhaldsskólum. Verkfallið tekur ekki húsvarða, starfsfólks í mötuneytum, starfsfólks við ræstingar eða annarra sem vinna almenn störf í framhaldsskólum. Þeim er þó óheimilt að ganga í störf kennara.

Félagsmenn í Bárunni stéttarfélags sem starfa innan framhaldsskólanna hafa mætingarskyldu og vinnuskyldu í verkfalli kennara. Félagsmönnum ber að mæta á hefðbundnum tíma og sinna sínum daglegu verkefnum eins og ekkert hafi í skorist eins og þeim er framast unnt. Félagsmenn Bárunnar fá líka óskert laun í verkfalli kennara. Samkvæmt flestum ráðningarsamningum geta stjórnendur falið starfsfólki tilfallandi verkefni og skal starfsfólk ganga í þau verk sem óskað er, þ.e. ef þau ganga ekki inn á verksvið kennara eða stjórnenda í verkfalli. Því er sennilegt að ef til verkfalls kemur verði tækifærið nýtt til að gera hreint eða sinna öðrum störfum sem ekki hefur unnist tækifæri til.

Frekari upplýsingar veitir skrifstofa Bárunnar, stéttarfélags eins getum við komið á fund hjá ykkur og farið yfir málin.

Kveðja,

starfsfólk Bárunnar, stéttarfélags

 

Raunfærnimat á vorönn 2014

Nú hafa yfir 100 einstaklingar á Suðurlandi farið í raunfærnimat hjá Fræðslunetinu og fengið þannig færni sína metna til framhaldsskólaeininga.  Á næstu vikum verða haldnir kynningarfundir á raunfærnimati í hinum ýmsu greinum m.a. fyrir starfsfólk á garðyrkjustöðvum, hestabúum, verslunum og í  leikskólum og fl. sjá mynd hér fyrir neðan.

Við hvetjum félagsmenn sem hafa starfsreynslu á þessum sviðum að nýta sér tækifærið og mæta á kynningarfund í viðkomandi grein.  Kynningarfundirnir verða haldnir í Fjölheimum við Bankaveg á Selfossi.

 Í kvöld kl. 18.00 verður kynning á raunfærni fyrir verslunarfólk. Allar upplýsingar veita Sólveig og Eydís Katla hjá Fræðslunetinu í síma 560-2033.

 

 

 

Fleiri og meiri afslættir

Starfsmenn Þjónustuskrifstofu, hafa nú um skeið verið í sambandi við fjölda fyrirtækja í því skyni að fá afslætti og sérkjör fyrir félagsmenn sína í Verslunarmannafélagi Suðurlands og Bárunnar, stéttarfélags.

Lauslega áætlað þá hefur verið haft samband við um áttatíu fyrirtæki í hinum ýmsu greinum á félagssvæðinu svo sem ferðaþjónustu, bílgreinum, afþreyingu og veitingum.

Í stutt máli sagt þá hafa viðtökur þessara fyrirtækja verið framar öllum vonum. Langflest hafa fallist á að veita afslætti og sum verulega  en sum fyrirtæki eiga þó erfiðara með það en önnur vegna eðlis starfsemi sinnar og er það skiljanlegt. Þó þótti rétt að reyna við þau líka og var greinilegur áhugi á þessari tillögu okkar  og ekki að vita hvernig það þróast á næsta ári eða árum. Á nýju félags- og afsláttarskírteini eru á bilinu 60 – 70 fyrirtæki sem veita afslætti eða bjóða félagsmönnum önnur sérkjör, gegn framvísun félagsskírteinis

Nokkrar breytingar hafa orðið frá síðasta ári þar sem nokkrir aðilar hafa hætt eða eru að breyta til í rekstrinum. Aðrar hafa komið inn í staðinn og fögnum við því.

Tilgangur þessa framtaks er af tvennum toga, annarsvegar er þetta viðleitni félaganna að létta undir með félagsmönnum sínum en ekki síður að viðhalda eða auka atvinnu á svæðinu með öflugri verslun og þjónustu.

Við hvetjum fólk eindregið til að nýta sér þá afslætti sem í boði eru og munum að hver spöruð króna léttir róðurinn.

Fyrirtækin láta okkar fólk njóta afsláttarkjara, látum fyrirtæki í heimabyggð njóta viðskipta okkar, það er beggja hagur.

Töluvert hefur verið spurt eftir afsláttarskírteinunum og greinilega eru fleiri og fleiri að nýta sér sparnaðinn sem felst í að muna eftir skírteininu.

Kjarasamningurinn samþykktur

Atkvæðagreiðslu er lokið hjá Bárunni, stéttarfélagi, Selfossi um Sáttatillögu Ríkissáttasemjara frá 21. febrúar 2013 og jafnframt Aðalkjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Bárunnar, stéttarfélags sem undirritaður var 21. desember 2013. Atkvæðagreiðslan var rafræn og þeir félagsmenn sem voru í sambandi við skrifstofu lýstu ánægju sinni með það fyrirkomulag. Atkvæðagreiðslunni lauk í dag föstudaginn 7. mars kl. 12:00.

 Á kjörskrá voru 1098, atkvæði greiddu 150 eða 13,66%

Já 122 eða 81,4%

Nei 24 eða 16%

Auðir 4 eða 2,6%

 Samningurinn er því samþykktur.

 

 

Kjörstjórn Bárunnar, stéttarfélags

 

Líf og fjör á öskudaginn

Í dag öskudaginn er búið að vera líf og fjör á Austurvegi 56. Margir hressir krakkar í skrautlegum búningum tóku lagið.  Krakkarnir sögðu að vel hefði gengið að safna nammi og að æfingar fyrir daginn hefðu gengið prýðilega.  Nokkrir starfsmenn skrifstofunnar klæddu sig einnig upp í tilefni dagsins.
 
Öskudagur3 Öskudagur Öskudagur 4 Öskudagur 5

Opið hús

Í dag miðvikudaginn 5. mars milli klukkan 16.00 og 19.30 verður opið hús og heitt kaffi á könnunni.  Boðið verður upp á aðstoð við rafræna atvæðagreiðslu vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.  Einnig er hægt að fá aðstoð á dagtímatíma til hádegis nk. föstudag en þá lýkur atkvæðagreiðslu.

Mikill verðmunur á matvöru

Verslunin Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í 13 verslunum víðsvegar um landið þann 25. febrúar, en farið var í lágvöruverðsverslanir, stórmarkaði sem og klukkubúðir. Hæsta verðið var oftast að finna í klukkubúðinni 10/11 Akureyri eða í meira en helmingi tilvika. Verðmunurinn á hæsta og lægsta verði vöru í könnuninni var frá 9% upp í 218% en oftast var hann 25-75%. Af þeim vörum sem Samkaup–Úrval Selfossi átti til var í um 10% tilvika umbeðin vara óverðmerkt, sem er óviðunandi fyrir neytendur. 

Af 83 vörutegundum sem voru skoðaðar voru flestar fáanlegar hjá Fjarðarkaupum Hafnarfirði og Hagkaupum Kringlunni eða 82 af 83, Krónan Granda átti til 79 og Iceland 78. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Samkaupum-Strax eða 51 af 83 og 10/11 átti til 52. Af þessum 52 vörum sem 10/11 áttu til voru þeir dýrastir í 46 tilvikum.

Mestur verðmunur var á ávöxtum og grænmeti
Verð á 11 tegundum á ávöxtum og grænmeti voru skoðuð í könnuninni. Verðmunur á þeim var 70-218%. Minnstur verðmunur var á avacado 70% en það var dýrast á 849 kr. hjá Hagkaupum en ódýrast á 498 kr. hjá Nettó, Fjarðarkaupum, Iceland og Kaskó. Einnig var 70% verðmunur á íslenskri agúrku sem var ódýrust á 420 kr.st. hjá Bónus en dýrust á 714 kr.st. hjá Samkaupum-Strax. Benda má neytendum á að agúrka er seld í stykkjatali í mörgum verslunum, en ein agúrka er að meðaltali 350 gr.

Mestur verðmunur í könnuninni var á appelsínum sem voru dýrastar á 499 kr. hjá 10/11 en ódýrastar á 157 kr. hjá Nettó og Kaskó sem er 342 kr. verðmunur eða 218%.

Minnstur verðmunur var á osti, viðbiti og mjólkurvörum
Minnstur verðmunur að þessu sinni var á 250 gr. mysingi með karamellu sem var ódýrastur á 265 kr. hjá Bónus en dýrastur á 289 kr. hjá Hagkaupum sem er 24 kr. verðmunur eða 9%. Í þessum vöruflokki var mestur verðmunur 59% á 250 ml. KEA skyrdrykk með hindberjum og trönuberjum sem var ódýrastur á 157 kr. hjá Bónus en dýrastur á 249 kr. hjá 10/11. Sem dæmi um aðra mjólkurvöru sem seld er í öllum 13 verslununum má nefna 32% verðmun á 250 gr. MS rækjusmurosti sem var dýrastur á 499 kr. hjá 10/11 og Samkaupum-Strax en ódýrastur á 379 kr. hjá Bónus. 

Af öðrum vörum má nefna að 500 gr. Myllu fittý samlokubrauð var ódýrast á 318 kr. hjá Bónus en dýrast á 499 kr. hjá 10/11, sem er 181 kr. verðmunur eða 57%. Kílóverðið á ódýrasta heila kjúklingnum var 598 kr. hjá Víði en dýrast á 998 kr. hjá Kjarval, sem er 400 kr. verðmunur eða 67%. Mikill verðmunur var einnig á kílóverðinu á frosnum lambahrygg sem var ódýrast á 1.595 kr. hjá Bónus en dýrast á 2.578 kr. hjá Kjarval sem er 983 kr. verðmunur eða 62%. Medium Casa fiesta taco sósa er ódýrust á 232 kr. hjá Krónunni en dýrust á 359 kr. hjá Samkaupum-Strax sem var 55% verðmunur.

Að lokum má benda á að neytendur ættu að skoða vel hvar þeir kaupa uppþvottavélatöflur frá Finish, en Powerball- All in one var ódýrast á 18 kr.st. hjá Bónus en dýrast á 35 kr.st. hjá Kjarval sem er 94% verðmunur eða 17 kr.st. sem er fljótt að safnast saman, en 17 kr.st. á dag í heilt ár eru 6.205 kr. sem má nota í eitthvað annað.   

Sjá nánari upplýsingar í töflu.

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Reykjanesbæ, Krónunni Granda, Nettó Akureyri, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Samkaupum-Úrvali Selfossi, Hagkaupum Kringlunni, Víði Skeifunni, Nóatúni Nóatúni, Iceland Engihjalla, 10/11 Akureyri, Samkaupum-Strax Suðurveri, Kaskó Húsavík og Kjarval Hellu.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ