Við vinnum fyrir þig

Translate to

Áskorun til allra sveitarfélaga á félagssvæði Bárunnar, stéttarfélags

Báran, stéttarfélag skorar á sveitarfélögin í Árnessýslu að fylgja fordæmi Sveitarfélagsins Árborgar og hækka ekki sínar gjaldskrár. Skilaboð allra aðila vinnumarkaðarins er að halda verðbólgu í skefjun og tryggja stöðugleika. Launafólk getur ekki eitt axlað ábyrgðina.

Read more „Áskorun til allra sveitarfélaga á félagssvæði Bárunnar, stéttarfélags“

Vinningsnúmer í happadrætti stéttarfélaganna

Dregið hefur verið í happadrætti innsendra svara vegna kjörs félagsmanna um fyrirtæki ársins 2013. Finna má vinningsnúmerin hér að neðan. Verðlaunin eru glæsilegar gjafakröfur frá Sláturfélagi Suðurlands. Annar vinningshafinn starfar hjá Lögmönnum Suðurlands og hinn hjá Veitingastaðnum við fjöruborðið. Vinningshafar eru beðnir um að hafa samband við Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi í síma 480-5000.

Alda Alfreðsdóttir, afgreiðslufulltrúi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga dró út heppna vinningshafa.

 Vinningsnúmer

1538

2240

 

Kjörís valið fyrirtæki ársins 2013

Kjörís hefur verið valið fyrirtæki ársins í árlegri könnun sem Báran, stéttarfélag og Verslunarmannafélag Suðurlands standa fyrir meðal félagsmanna sinna.

Ágæt þátttaka var í könnuninni þetta árið og greinilegt að hún vekur meiri athygli með hverju árinu. Markmið könnunarinnar er að gera það eftirsóknarvert fyrir fyrirtæki að hljóta þessa nafnbót og þá um leið að skapa sér gott orðspor á vinnumarkaði.

Fulltrúar starfsmanna og forsvarsmenn fyrirtækisins tóku á móti formönnum félaganna  í dag,  sem mættu með veglega blómakörfu og viðurkenningarskjal til staðfestingar á kjörinu.

Könnun var gerð meðal félagsmanna  varðandi aðbúnað, stjórnun, líðan og kjarasamningsbundin réttindi.

Fimm efstu fyrirtækin eru:

  1. Kjörís
  2. Landsvirkjun
  3. Sláturfélag Suðurlands
  4. Húsasmiðjan
  5. Hótel Selfoss

Á myndinni  hér fyrir ofan  eru í réttri röð: Anna Kristín Kjartansdóttir, skrifstofustjóri, Valdimar Hafsteinsson, framkvæmdastjóri, Gils Einarsson formaður Verslunarmannafélags Suðurlands, Halldóra S. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélag og Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri.

Fyrirtæki ársins 019 Fyrirtæki ársins 017 Fyrirtæki ársins 008

 

 

44% lítilla og meðalstórra fyrirtækja ekki með skattaskil í lagi

Í Fréttabréfi ASÍ sem kom út í gær er kynnt niðurstaða samstarfs Alþýðusambandsins, Samtaka atvinnulífsins og ríkisskattstjóra varðandi  átakið „Leggur þú þitt af mörkum?“ Þar kemur fram að 44% lítilla og meðalstórra fyrirtækja voru ekki með skattaskil í lagi.

Markmið verkefnisins var að hafa leiðbeinandi eftirlit með skilum á staðgreiðslu, tekjuskráningu, vinnustaðaskírteinum, virðisaukaskattskilum og upplýsa um skyldur smærri og meðalstórra rekstaraðila. Í verkefnavali var sérstök áhersla lögð á ferðaþjónustu og aðila tengdum henni, en einnig var sjónum beint að bygginga- og verktakastarfsemi sem og starfsstöðvum sem valdar voru af handahófi.

Í átakinu voru heimsóttir 748 lögaðilar um land allt og 1896 kennitölur starfsmanna skráðar.  Farið var í 392 fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og 356 á  landsbyggðinni. Niðurstaða átaksins er að verulegar brotalamir er varðandi skil á opinberum gjöldum og iðgjöldum  starfsmanna í þeim fyrirtækjum sem heimsótt voru. Þá benda þær upplýsingar sem aflað var í heimsóknunum að um svarta vinnu hafi verið að ræða í allt að 15% tilvika

Nánari upplýsingar á heimasíðu ASÍ

Hinir lægst launuðu fá minnst

Margir eiga erfitt með að ímynda sér að fólk lifi af minna en 300.000 krónur í mánaðarlaun. Ráðherrar, atvinnurekendur og fleiri eiga skiljanlega erfitt með að setja sig í þau spor. Í verkalýðshreyfingunni erum við hins vegar í daglegum samskiptum við fólk sem er einmitt að reyna þetta; að lifa af mánaðarlaunum undir 300.000 krónum. Í nýútkominni könnun sem Flóabandalagið lét gera meðal félaga sinna kemur í ljós að karlar eru með að meðaltali 298.000 krónur í dagvinnulaun en konur eru með að meðaltali 255.000 krónur í dagvinnulaun. Við þessar upphæðir bætast greiðslur svo sem vaktaálag, bónusar og yfirvinna en þrátt fyrir það ná heildarlaun kvenna ekki 300.000 krónum að meðaltali. Heildarlaun karlanna fer hins vegar í 414.000 krónur að meðaltali. 40% fólks sem hefur ekki formlega menntun á vinnumarkaði er með heildarlaun undir 300.000 krónum. Þetta er veruleiki verkafólks á Íslandi hvort sem yfirvöld og samningsaðilar trúa því eða ekki.

Það vekur áhyggjur að tillögur SA ganga út frá tveggja prósenta launahækkunum sem gerir um 4.000 króna hækkun fyrir fólkið á lægstu töxtunum. Tvö prósent fyrir fólk með hálfa milljón á mánuði er hins vegar 10.000 krónur. Tillögur SA ganga ekki út á að hækka laun þeirra lægst launuðu.

Það sem vekur enn meiri áhyggjur en afstaða SA er afstaða stjórnvalda. Engar tillögur í skattamálum eða varðandi skuldaniðurfellingu sem litið hafa dagsins ljós eru til að létta láglaunafólki lífið. Þvert á móti er verið að hækka gjöld og nefskatta í gegnum fjárlagafrumvarpið en það eru gjöld sem eru óháð tekjum og koma því hlutfallslega verst niður á láglaunafólki. Skattatillögur ríkisstjórnarinnar ganga út á að láglaunafólk fær engar skattalækkanir en því hærri tekjur sem þú hefur því betur gagnast þér skattalækkunin. Sömu sögu er að segja um nýjasta útspilið, að séreignasparnaður fólks geti nýst til að lækka húsnæðisskuldir. Gott og vel, kemur örugglega einhverjum vel en aftur er þetta aðgerð sem gagnast hátekjufólki best en lágtekjufólki minnst.

Fyrst ber að nefna að fólk með lægri tekjur er með lægri sparnað en aðrir. Í öðru lagi er fólk með lágar tekjur síður líklegt til að leggja fyrir í séreign. Í þriðja lagi er umtalsverður hópur fólks með lægri tekjur á leigumarkaði. Í fyrrnefndri könnun sem gerð var á félagssvæði Flóans er greint frá því að þriðjungur aðspurðra býr í leiguhúsnæði, 12,7% býr í foreldrahúsum en aðeins ríflega helmingur býr í eigin húsnæði. Fólk með hærri tekjur er líklegra til að búa í eigin húsnæði. Það er því ljóst að þessi aðgerð mun koma mismunandi hópum misvel. Þetta er ekki aðgerð til að auka ráðstöfunartekjur þeirra sem lægst hafa launin frekar en aðrar aðgerðir.

Í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins eru um 50.000 manns sem ekki hafa hlotið formlega menntun á vinnumarkaði, þetta er um helmingur starfsfólks á hinum almenna vinnumarkaði. Það er ekki ásættanlegt að allar stjórnvaldaðgerðir sem hingað til hafa verið kynntar miði að því að aðstoða tekjuhærra fólk úr greiðsluerfiðleikum. Það virðist hins vegar vera leynt og ljóst markmið stjórnvalda að einblína á einn hóp frekar en annan og auka með því ójöfnuð meðal landsmanna.

Starfsgreinasambandið hefur lagt til blandaða leið krónutöluhækkunar og prósentuhækkunar í kjarasamningum, einmitt til að tryggja að misskipting aukist ekki frekar.

Drífa Snædal

Yfirlýsing frá samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands vegna kjaraviðræðna SGS við SA

Viðræður vegna kjarasamninga hafa nú ratað inn í auglýsingatíma sjónvarpsins með auglýsingu sem SA birti í gærkveldi. Þar er varað við hækkun launa umfram 2%. Flestir leggjast nú á eitt að koma í veg fyrir að launafólk fái launahækkanir í kjarasamningum sem eru lausir í lok mánaðarins en það er fáheyrt að samtök atvinnurekenda fari frekar í auglýsingaherferðir en að tala við samningsaðila við samningaborðið. Starfsgreinasamband Íslands lagði fram kröfur sínar um síðustu mánaðarmót og þeim var hafnað samstundis. Ítrekaðar tilraunir hafa verið gerðar til að setjast við samningaborðið með Samtökum atvinnulífsins en fátt hefur verið um svör.

Lægstu taxtar á vinnumarkaði eru 191.752 krónur. Ef launamaður hefur unnið í fjóra mánuði hjá sama atvinnurekenda má ekki greiða honum lægra en 204.000 krónur í mánaðarlaun. 2% hækkun á þessi laun þýðir hækkun um 4.000 krónur. Þetta eru tillögur Samtaka atvinnulífsins og Seðlabankans. Samtök atvinnulífsins hafa ekki verið til viðræðu um frekari hækkanir en Starfsgreinasambandið lagði fram kröfu um 20.000 króna hækkun á taxta og þykir mörgum hógvært.

Það er gömul saga og ný að í aðdraganda kjarasamninga keppist greiningadeildir, stjórnvöld og samtök atvinnurekenda við heimsendaspár verði samið um verulegur launahækkanir. Starfsgreinasambandið hefur sagt að vissulega sé launafólk alltaf til í að axla ábyrgð en við gerum það ekki ein. Stjórnvöld hafa lagt fram skattatillögur sem koma millitekjuhópum til góða en lægst launaða fólkið á vinnumarkaði fær engar skattalækkanir. Verð á vörum og þjónustu fer stighækkandi og stjórnvöld leggja á nýjar álögur á almenning í stað þess að leggja skatta á þá sem eru aflögufærir. Þegar kemur svo að kjarasamningum á lægst launaða fólkið á vinnumarkaðnum að „axla ábyrgð“. Hafa ber í huga að þeir hópar sem Starfsgreinasambandið semur fyrir verða síst varir við launaskrið, það er í þeim hópum sem betur standa. Venjulegt verkafólk er oftar en ekki á töxtum og þarf að hífa upp launin með vöktum og yfirvinnu. Í þessu samhengi verður auglýsingaherferð Samtaka atvinnulífsins um að launafólk eigi að axla ábyrgð í besta falli hrokafull og ekki til þess fallin að liðka fyrir samningum.

Það vekur sérstaka athygli að í málflutningi Samtaka atvinnulífsins er ekki vikið orði að ábyrgð atvinnurekenda eða stjórnvalda á að halda verðbólgunni í skefjum. Fyrirtæki innan SA bera ekki síst ábyrgð á því mikla launaskriði sem hefur orðið á vinnumarkaði hjá öðrum en almennu launafólki. Samninganefnd SGS fordæmir að SA skuli varpa allri ábyrgð yfir á launafólk. Starfsgreinasambandið mun aldrei gangast undir slíkan málflutning!

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands

21. nóvember 2013

Í samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands sitja 16 formenn stéttarfélaga um allt land sem fara með samningsumboð fyrir um 23.000 félagsmenn.

AFL Starfsgreinafélag

Aldan stéttarfélag

Báran stéttarfélag

Drífandi stéttarfélag

Eining-Iðja

Vel heppnaður fundur með félagsmönnum

Formaður Bárunnar og fulltrúi félagsins funduðu með starfsfólki Hótel Selfoss í gær. Fundurinn var haldinn í fundarsal hótelsins. Farið  var yfir starfsmenntamál og áherslur félagsins í kjarasamningaviðræðunum. Einnig var farið yfir orlofskosti félagsins og aðra þjónustu.  Fram kom að starfsmenn eru mjög ánægðir með starfið og vinnuandann, enda var fyrirtækið kjörið Fyrirtæki ársins 2012. Rætt var um hvernig hægt er að auka áhuga ungs fólks á að mæta á fundi hjá félaginu.  Einn félagsmaðurinn nefndi bjórkvöld sem dæmi um aðferð til að auka áhugann.

Desemberuppbót 2013

Báran, stéttarfélag:   

Almenni samningur milli SGS og SA  52.100 kr.

Samningur f.h. Ríkissjóðs og SGS  52.100 kr.

Samningur SGS og Launanefndar sveitarf.  80.700 kr.

Bændasamtök Íslands og SGS  52.100 kr.

Landsamband smábátaeigenda og SGS  52.100 kr.

Samningur SA vegna Sólheima við Báruna  52.100 kr.

Samningur Dvalarh. Kumbaravogs  80.700 kr.

Vinnustaðasamningur MS  52.100 kr.

Landsvirkjun og SGS  88.456 kr

Kjarasamningur SGS og NPA miðstöðvar innar 52.100 kr.

 

Önnur sveitarfélög fylgi fordæminu

Alþýðusamband Íslands fagnar þeirri ákvörðun borgarráðs að hætta við fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir Reykjavíkurborgar, en það gerir borgin til að sporna við verðbólgu og auka kaupmátt í komandi kjarasamningum. ASÍ skorar á aðra að fylgja fordæmi borgarráðs.

Forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, skorar á önnur sveitarfélög að fylgja fordæmi höfuðborgarinnar og hækka ekki sínar gjaldskrár. Það sama segir hann eiga við um ríkisstjórnina en í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir víðtækum gjaldskrárhækkunum á ýmsum sviðum sem þurfi að endurskoða.

Hlusta: asi-rikid-tharf-ad-fylgja-fordaeminu