Við vinnum fyrir þig

Translate to

Lyfja oftast með hæsta verðið á lausasölulyfjum

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði á mánudaginn verð á 45 algengum lyfjum sem seld eru án lyfseðils. Farið var í 18 apótek en Árbæjarapótek, Lyfjaborg Borgartúni og Apótek Ólafsvíkur neituðu þátttöku í könnuninni. Lægsta verðið var oftast að finna hjá Garðs Apóteki Sogavegi í 25 tilvikum af 45. Lyfja Borgarnesi var hins vegar oftast með hæsta verðið eða í 12 tilvikum af 45. Verðmunur á lausasölulyfjum var frá 20% upp í 100%, en oftast var fjórðungs til helmings verðmunur á hæsta og lægsta verði. Verðlagseftirlitið hvetur neytendur að spyrja um samheitalyf, sem gætu verið á hagstæðara verði og athuga með afsláttakjör.

Mestur verðmunur í könnuninni var Nicotinell Tropical Fruit (204 stk. 4 mg.) sem var dýrast á 9.249 kr. í Apóteki Suðurnesja, Reykjanesbæ en ódýrast á 4.625 kr. hjá Lyfjavali Álftarmýri sem er 4.624 kr. verðmunur eða 100%. Minnstur verðmunur í könnuninni var á Nicorette Quickmist (2 * 150 skammtar) sem var dýrast á 9.599 kr. hjá Lyfju Borgarnesi en ódýrast á 7.971 kr. í Skipholts Apóteki sem er 1.628 kr. verðmunur eða 20%.

Af öðrum algengum lausasölulyfjum má nefna Postafen sem er gefið við ferðaveiki (10 stk.) sem var dýrast á 590 kr. hjá Siglufjarðar Apóteki en ódýrast á 440 kr. hjá Garðs Apóteki, sem er 150 kr. verðmunur eða 34%. Exemkremið Mildison Lipid (30 gr.) var dýrast á 1.525 kr. hjá Rima Apóteki, Langarima en ódýrast á 1.190 kr. hjá Garðs Apóteki sem er 28% verðmunur. Verkjalyfið Treo (500 mg. 20 stk.) var dýrast á 889 kr. hjá Lyfju en ódýrast á 635 kr. hjá Garðs Apóteki sem er 40% verðmunur. Ofnæmislyfið Histasin (10 mg. 30 stk.) var dýrast á 1.359 kr. hjá Lyfju en ódýrast á 988 kr. hjá Apótekinu Akureyri sem er 38% verðmunur.

Sjá nánar í töflu. á heimasíðu ASÍ

Könnunin var gerð í eftirtöldum apótekum: Apóteki Hafnarfjarðar, Tjarnarvöllum 11; Apótekarinn Smiðjuvegi, Kópavogi; Apótekinu Akureyri, Furuvöllum 17; Garðs Apóteki, Sogavegi 108; Lyf og heilsu Selfossi; Lyfju Borgarnesi; Lyfjavali Álftamýri, Álftamýri 1-5; Lyfjaveri, Suðurlandsbraut 22; Reykjavíkur Apóteki, Seljavegi 2; Rima Apóteki, Langarima 21; Skipholts Apóteki, Skipholti 50B; Urðarapóteki, Vínlandsleið 16; Akureyrarapóteki, Kaupangi við Mýrarveg; Apóteki Vesturlands, Smiðjuvöllum 32, Akranesi; Siglufjarðar Apóteki, Norðurgötu 4B; Apóteki Garðabæjar, Litlatúni 3; Apóteki Suðurnesja, Reykjanesbæ; Austurbæjar Apóteki, Ögurhvarfi 3. Árbæjarapótek, Lyfjaborg Borgartúni og Apótek Ólafsvíkur neituðu þátttöku í könnuninni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Vel heppnaður aðalfundur

Aðalfundur Bárunnar, stéttarfélags var haldinn á mánudagskvöldið. Fundurinn var hefðbundinn  og voru ársreikningar voru lagðir fram og samþykktir. Listi uppstillinganefndar  til stjórnar var einnig lagður fram og samþykktur. Stjórnin var því sjálfkjörin.  Engin stór mál sem biðu úrlausnar ef frá er talin breyting á sjúkrasjóð en bæði hefur ásókn í sjóðinn aukist töluvert síðustu ár. Því var lögð fram tillaga stjórnar sjúkrasjóðs um að fækka sjúkradagpeningadögum úr 180 niður í 120. Upphæðir úr sjóðnum verða óbreyttar en bætt verður við styrk til sálfræði og fjölskyldu- og félagsmeðferðar.  Staða sjóðsins er í þokkalegu jafnvægi eftir þessar aðgerðir og vonandi verður frekar hægt að bæta í á komandi árum.

Þegar hefðbundnum aðalfundarstörfum lauk flutti Herdís Pála Pálsdóttir erindi um að gagn og gaman af í vinnunni. Erindið vakti mikla lukku hjá fundargestum. Að öðru leyti fór fundurinn vel fram og ekki annað að greina en fundargestir væru þokkalega ánægðir með félagið sitt.

Aðalfundur Bárunnar4 Aðalfundur Bárunnar1 Aðalfundur Bárunnar2 Aðalfundur Bárunnar3

 

 

Vörukarfa ASÍ hækkaði um 12% hjá Krónunni og Iceland á 8 mánuðum

Verð vörukörfu ASÍ hefur ekki hækkað í verslunum Víðis frá því í september 2012 og aðeins um 1% hjá Nettó. Á sama tímabili hækkaði vörukarfan um 12% í Krónunni og Iceland.   

Þegar verðbreytingar fyrir seinustu þrjár mælingar eru skoðaðar má sjá að hækkun hjá flestum verslunum er á bilinu 3-12%. Frá mælingunni í september 2012 hefur vörukarfan hækkað mest um 12% hjá Krónunni og Iceland. Hjá Hagkaupum hækkaði hún um 10%, hjá Tíu-ellefu um 8%, Bónus um 6% og Samkaupum–Úrvali um 5%. Hjá Nóatúni og Samkaupum–Strax hækkaði vörukarfan um 3% og 1% hjá Nettó. Eins og áður sagði hefur verð vörukörfunnar ekki hækkað hjá Víði á áðurnefndu tímabili.

Verðlagseftirlitið mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar mat- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðalheimilis. 

 vorukarfa_06.5.13

Verðbreytingar eru skoðaðar í eftirfarandi verslanakeðjum: Í lágvöruverðsverslunum Bónus, Krónunni, Nettó og Iceland og í almennu matvöruverslununum Hagkaupum, Nóatúni, Samkaupum-Úrvali, Víði og klukkubúðunum, 10-11 og Samkaupum-Strax.

 

Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar í verslanakeðjunum á milli verðmælinga. Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða  þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum því haft áhrif á niðurstöðurnar.   

Óheimilt er að vitna í niðurstöðurnar í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

Tekið af heimasíðu ASÍ

Raunfærnimat matartækni

Næstkomandi mánudag kl. 18.00 verður  haldinn kynningurfundur í Fjölheimum við Bankaveg á Selfossi fyrir þá sem hafa starfað við matartækni í þrjú ár eða lengur og hafa áhuga að meta færnina.  Raunfærnimat miðar að því að meta færni og þekkingu sem viðkomandi býr yfir inn í skólakerfið. Að loknu raunfærnimati fara þátttakendur í skóla og ljúka því námi sem eftir stendur til að útskrifast. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Sólveigu hjá Fræðsluneti Suðurlands í síma 560-2030 eða með því að senda fyrirspurn á solveig@fraedslunet.is.

Raunfærnimat matartækni

Góð þátttaka í 1. maí göngu á Selfossi

1. maí var haldinn hátíðlegur á Selfossi í dag eins og hefð er fyrir. Góð þátttaka var enda gott veður þó heldur væri svalt. Gengið var fylktu liði undir forystu lögreglunnar og félaga úr Hestamannafélaginu Sleipni og Lúðrasveit Selfoss blés göngumönnum baráttuanda í brjóst. Gengið var frá Tryggvatorgi í miðbæ Selfoss og endaði gangan við hús stéttarfélaganna.

 Þar fór fram hátíðardagskrá þar sem fléttað var saman skemmtiatriðum og tónlist í bland við hefðbundin ræðuhöld. Halldóra S. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags stýrði fundinum. Aðalræðumaður dagsins var Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB og Guðmundur Snæbjörnsson, nemandi í Menntaskólanum að Laugarvatni flutti ræðu fyrir hönd yngri kynslóðarinnar.

Að ræðuhöldum loknum tók við dagskrá þar sem meðal annars Lalli töframaður og Ingó veðurguð skemmtu gestum. Fornbílaeigendur voru mættir með tryllitækin sín sem vöktu mikla athygli.

IMG_2696 IMG_2691 IMG_2695 IMG_2685 IMG_2686 IMG_2682 IMG_2677 IMG_2668 IMG_2671 IMG_2675

 

Nóatún og Víðir aftur með í verðkönnun verðlagseftirlitsins

Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í níu dagvöruverslunum víðsvegar um landið mánudaginn 15. apríl. Kannað var verð á 59 algengum matvörum. Hæsta verðið var oftast að finna hjá Hagkaupum en lægsta verðið var oftast að hjá Bónus. Í um helmingi tilvika var verðmunurinn á hæsta og lægsta verði vöru undir 25% en dæmi eru um mun meiri verðmun á einstöku vörutegundum, t.d. er 50% verðmunur á 2 l. af Coke Cola, 50% verðmunur á kartöflumjöli og 135% verðmunur á frostnum jarðaberjum.

Read more „Nóatún og Víðir aftur með í verðkönnun verðlagseftirlitsins“

Sumarafleysing við ræstingar – umsóknarfrestur til 3. maí nk.

Þjónustuskrifstofa stéttarfélaganna á Suðurlandi óskar eftir að ráða starfsmann í sumarafleysingu við ræstingar, tímabilið 24. júní – 2. ágúst 2013.

Starfssvið:
Starfið felst í ræstingu á skrifstofuhúsnæði, Austurvegi 56 (þriðja hæð), Selfossi. Um er að ræða hlutastarf sem unnið er eftir kl. 16.00 virka daga,  þrisvar í viku.

Hæfniskröfur:
Reynsla af sambærilegu starfi er æskileg.

Umsóknarfrestur er til 3. maí nk.

Nánari upplýsingar veitir Þór Hreinsson skrifstofustjóri í síma 480-5000. Umsóknir má senda á thor@midja.is