Við vinnum fyrir þig

Translate to

Raunfærnimat hjá Fræðsluneti Suðurlands

Í kvöld mánudaginn 24. mars kl. 19.30 verður haldinn kynningarfundur um raunfærnimat  í hestamennsku. Fundurinn verður haldinn í Fjölheimum við Bankaveg á Selfossi, stofu 205.  Við hvetjum félagsmenn sem hafa starfað við hestamennsku að nýta þetta stóra tækifæri til meta fyrri reynslu og færni. Þess má geta að raunfærnimat er félagsmönnum að kostnaðarlausu. 

Næstu kynningarfundir:

Stuðningsfulltrúar og leikskólaliðar fimmtudaginn 27. mars kl. 18.00.

Garð og skógarplöntuframleiðsla fimmtudaginn 3. apríl kl. 17.00.

Vegna mánaðarmóta

Næstu mánaðarmót ber að greiða umsamdar hækkanir á launum samkvæmt nýjum kjarasamningi SGS og SA.  Samningurinn gildir frá 1. febrúar sl.  og ber að greiða kr. 14.600 í eingreiðslu fyrir janúar.  Almenn hækkun fyrir utan launataxta er 2,8%. Kauptaxtar sem eru kr. 230.000 og lægri hækka sérstaklega og nemur hækkunin tæplega 5%. Dæmi: Launaflokkur 1, byrjunarlaun, hækkar um kr. 9.565 og launaflokkur 17, eftir sjö ár, hækkar um kr. 10.107. Aðrir kauptaxtar og kjaratengdir liðir (Bónus, premía, akkorð o.fl.) hækka um 2,8%, þó að lágmarki um kr. 8.000 á mánuði fyrir dagvinnu miðað við fullt starf.

Hægt er að sjá upplýsingar um taxtabreytingar í meðfylgjandi skjali  merkt kauptaxtar hér fyrir neðan.

Kauptaxtar.

Eingreiðsla

Þar sem samningurinn gildir frá 1. febrúar verður kr. 14.600 eingreiðsla vegna janúarmánaðar miðað við fullt starf/starfshlutfall og að viðkomandi hafi verið í vinnu 1. febrúar.

 

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf, fullar 173,33 unnar stundir á mánuði (40 stundir á viku) skulu vera sem hér segir fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki:

 

Hinn 1. febrúar 2014

kr.

214.000

á mánuði.

 

  • Mánaðarlega skal greiða uppbót á laun viðkomandi starfsmanna sem ekki ná framangreindum tekjum, en til launa í þessu sambandi teljast allar greiðslur, þ.m.t. hverskonar bónus-, álags- og aukagreiðslur, sem falla til innan ofangreinds vinnutíma.
  • Laun fyrir vinnu umfram 173,33 stundir á mánuði og endurgjald á útlögðum kostnaði reiknast ekki með í þessu sambandi.

 

Orlofsuppbót

Orlofsuppbót fyrir hvert orlofsár (1.maí til 30. apríl) miðað við fullt starf er:

  • Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2014 verði orlofsuppbót kr. 39.500.

 

Desemberuppbót

Desemberuppbót miðað við fullt starf er:

  • Á árinu 2014 kr. 73.600.

 

Sjá nánari upplýsingar hér:

  taxtar_sa_1_feb_2014

Nordisk Forum á Selfossi

Kynningarfundur um samnorrænu kvennaráðstefnuna Nordisk Forum sem haldinn verður í Malmö í júní, verður haldinn í sal Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna nk. þriðjudag kl.18.00. Léttar veitingar í boði. Sjá meðfylgjandi auglýsingu.

 

 

 

Boðað verkfall hjá framhaldsskólakennurum

Á mánudaginn hefst boðað verkfall framhaldsskólakennara ef samningar takast ekki fyrir þann tíma. Rétt er að benda á að  yfirvofandi verkfall tekur aðeins til þeirra sem eru félagar í Félagi framhaldsskólakennara og Félagi stjórnenda í framhaldsskólum. Verkfallið tekur ekki húsvarða, starfsfólks í mötuneytum, starfsfólks við ræstingar eða annarra sem vinna almenn störf í framhaldsskólum. Þeim er þó óheimilt að ganga í störf kennara.

Félagsmenn í Bárunni stéttarfélags sem starfa innan framhaldsskólanna hafa mætingarskyldu og vinnuskyldu í verkfalli kennara. Félagsmönnum ber að mæta á hefðbundnum tíma og sinna sínum daglegu verkefnum eins og ekkert hafi í skorist eins og þeim er framast unnt. Félagsmenn Bárunnar fá líka óskert laun í verkfalli kennara. Samkvæmt flestum ráðningarsamningum geta stjórnendur falið starfsfólki tilfallandi verkefni og skal starfsfólk ganga í þau verk sem óskað er, þ.e. ef þau ganga ekki inn á verksvið kennara eða stjórnenda í verkfalli. Því er sennilegt að ef til verkfalls kemur verði tækifærið nýtt til að gera hreint eða sinna öðrum störfum sem ekki hefur unnist tækifæri til.

Frekari upplýsingar veitir skrifstofa Bárunnar, stéttarfélags eins getum við komið á fund hjá ykkur og farið yfir málin.

Kveðja,

starfsfólk Bárunnar, stéttarfélags

 

Raunfærnimat á vorönn 2014

Nú hafa yfir 100 einstaklingar á Suðurlandi farið í raunfærnimat hjá Fræðslunetinu og fengið þannig færni sína metna til framhaldsskólaeininga.  Á næstu vikum verða haldnir kynningarfundir á raunfærnimati í hinum ýmsu greinum m.a. fyrir starfsfólk á garðyrkjustöðvum, hestabúum, verslunum og í  leikskólum og fl. sjá mynd hér fyrir neðan.

Við hvetjum félagsmenn sem hafa starfsreynslu á þessum sviðum að nýta sér tækifærið og mæta á kynningarfund í viðkomandi grein.  Kynningarfundirnir verða haldnir í Fjölheimum við Bankaveg á Selfossi.

 Í kvöld kl. 18.00 verður kynning á raunfærni fyrir verslunarfólk. Allar upplýsingar veita Sólveig og Eydís Katla hjá Fræðslunetinu í síma 560-2033.

 

 

 

Fleiri og meiri afslættir

Starfsmenn Þjónustuskrifstofu, hafa nú um skeið verið í sambandi við fjölda fyrirtækja í því skyni að fá afslætti og sérkjör fyrir félagsmenn sína í Verslunarmannafélagi Suðurlands og Bárunnar, stéttarfélags.

Lauslega áætlað þá hefur verið haft samband við um áttatíu fyrirtæki í hinum ýmsu greinum á félagssvæðinu svo sem ferðaþjónustu, bílgreinum, afþreyingu og veitingum.

Í stutt máli sagt þá hafa viðtökur þessara fyrirtækja verið framar öllum vonum. Langflest hafa fallist á að veita afslætti og sum verulega  en sum fyrirtæki eiga þó erfiðara með það en önnur vegna eðlis starfsemi sinnar og er það skiljanlegt. Þó þótti rétt að reyna við þau líka og var greinilegur áhugi á þessari tillögu okkar  og ekki að vita hvernig það þróast á næsta ári eða árum. Á nýju félags- og afsláttarskírteini eru á bilinu 60 – 70 fyrirtæki sem veita afslætti eða bjóða félagsmönnum önnur sérkjör, gegn framvísun félagsskírteinis

Nokkrar breytingar hafa orðið frá síðasta ári þar sem nokkrir aðilar hafa hætt eða eru að breyta til í rekstrinum. Aðrar hafa komið inn í staðinn og fögnum við því.

Tilgangur þessa framtaks er af tvennum toga, annarsvegar er þetta viðleitni félaganna að létta undir með félagsmönnum sínum en ekki síður að viðhalda eða auka atvinnu á svæðinu með öflugri verslun og þjónustu.

Við hvetjum fólk eindregið til að nýta sér þá afslætti sem í boði eru og munum að hver spöruð króna léttir róðurinn.

Fyrirtækin láta okkar fólk njóta afsláttarkjara, látum fyrirtæki í heimabyggð njóta viðskipta okkar, það er beggja hagur.

Töluvert hefur verið spurt eftir afsláttarskírteinunum og greinilega eru fleiri og fleiri að nýta sér sparnaðinn sem felst í að muna eftir skírteininu.

Kjarasamningurinn samþykktur

Atkvæðagreiðslu er lokið hjá Bárunni, stéttarfélagi, Selfossi um Sáttatillögu Ríkissáttasemjara frá 21. febrúar 2013 og jafnframt Aðalkjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Bárunnar, stéttarfélags sem undirritaður var 21. desember 2013. Atkvæðagreiðslan var rafræn og þeir félagsmenn sem voru í sambandi við skrifstofu lýstu ánægju sinni með það fyrirkomulag. Atkvæðagreiðslunni lauk í dag föstudaginn 7. mars kl. 12:00.

 Á kjörskrá voru 1098, atkvæði greiddu 150 eða 13,66%

Já 122 eða 81,4%

Nei 24 eða 16%

Auðir 4 eða 2,6%

 Samningurinn er því samþykktur.

 

 

Kjörstjórn Bárunnar, stéttarfélags

 

Líf og fjör á öskudaginn

Í dag öskudaginn er búið að vera líf og fjör á Austurvegi 56. Margir hressir krakkar í skrautlegum búningum tóku lagið.  Krakkarnir sögðu að vel hefði gengið að safna nammi og að æfingar fyrir daginn hefðu gengið prýðilega.  Nokkrir starfsmenn skrifstofunnar klæddu sig einnig upp í tilefni dagsins.
 
Öskudagur3 Öskudagur Öskudagur 4 Öskudagur 5