Við vinnum fyrir þig

Translate to

Raunfærnimat í slátrun og málmsuðu

Námsvísir Fræðslunets Suðurlands í rafrænni útgáfu kom út í dag. Framboð námskeiða hefur aldrei verið fjölbreyttara. Í vetur verður einnig í boði raunfærnimat í slátrun og málmsuðu sem verður auglýst nánar í september (sjá bls. 15).  Nánari upplýsingar um útgáfuna er hægt að nálgast í frétt á heimasíðu Fræðslunets Suðurlands.

Bónus með ódýrustu matarkörfuna

Bónus var með lægsta verðið á matarkörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu síðastliðinn mánudag. Matarkarfan kostaði 13.376 kr. hjá Bónus en hún var dýrust hjá Samkaupum-Úrvali og Nóatúni þar sem hún var 23% dýrari.

Krónan var með næst ódýrustu matarkörfuna á 14.700 kr. sem er 10% hærra verð en hjá Bónus. Á eftir Krónunni kom Iceland með matarkörfu sem kostaði 14.785 kr. sem er 11% dýrari en hjá Bónus, hjá Nettó kostaði karfan 14.837 kr. sem er einnig 11% dýrari en hjá Bónus.

Matarkarfan var sem fyrr segir dýrust hjá Samkaupum Úrval á 16.460 kr. Karfan var 29 kr. ódýrari hjá Nóatúni en báðar eru þær 23% dýrari en ódýrasta matarkarfan. Matarkarfan hjá Hagkaupum var 21% dýrari en ódýrasta karfan og matarkarfan hjá Víði 20% dýrari.

Af einstaka vörum í matarkörfunni var mestur verðmunur á ódýrustu rauðu eplunum sem voru dýrust á 489 kr./kg. hjá Víði en ódýrust á 186 kr./kg. hjá Nettó, verðmunurinn er 303 kr. eða 163%. Ekki er víst að verið sé að bera saman epli af sama gæðaflokki, enda eru verslanirnar ekki allar að merkja það sérstaklega. Mikill verðmunur var einnig á ferskum ýsuflökum sem voru dýrust á 1.978 kr./kg. hjá Nóatúni en ódýrust á 1.298 kr./kg. hjá Bónus, verðmunurinn var 680 kr./kg. eða 52%. 

Nýmjólk kostaði það saman hjá öllum verslunum eða 120 kr./l. Af öðrum vörum í könnuninni má nefna Lambhagasalat í potti sem var dýrast á 329 kr. stk. hjá Hagkaupum en ódýrast á 275 kr. stk. hjá Bónus, verðmunurinn var 54 kr. eða 20%.   

Sjá nánar í töflu í frétt á heimasíðu ASÍ.

Matarkarfan samanstendur af 34 almennum neysluvörum til heimilisins t.d. mjólkurvörum, morgunkorni, grænmeti, kjöti, drykkjarvörum, ásamt ýmsum pakkavörum, dósamat og fleiru.

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum; Bónus, Krónunni, Nettó, Fjarðarkaupum, Iceland, Nóatúni, Víði, Samkaupum Úrval og Hagkaupum.

Aðeins er um verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ.

Skrifstofuherbergi á Selfossi til leigu

Þjónustuskrifstofa stéttarfélaganna á Suðurlandi auglýsir 18. fm skrifstofuherbergi til leigu. Herbergið er staðsett í húsnæði stéttarfélaganna á Austurvegi 56, Selfossi.

Um er að ræða bjarta skrifstofu með aðgengi að glæsilegri sameign, eldhúsi, salerni og aðgang að fundarsölum (ca. 10 manna og 50 manna) með símafjarfundarbúnaði og skjávarpa.  Innifalið í leigu er rafmagn, hiti og þrif.  Gott aðgengi fyrir fatlaða. Nánari upplýsingar veita Þór Hreinsson og Gils Einarsson í síma 480-5000 eða í tölvupósti thor@midja.is , gils@vms.is

 

Kjarakönnun Bárunnar

Nú eru samningar lausir þann 31. oktober næstkomandi og af því tilefni sendir Báran, stéttarfélag út kjarakönnun til félagsmanna sinna á næstu dögum.

Reikna má með erfiðum samningaviðræðum ef marka má orð framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og forystumanna í verkalýðshreyfingunni í fjölmiðlum undanfarið.

Saminganefnd Bárunnar er nauðsynlegt að vita hvað félagsmenn vilja leggja mesta áherslu á, því þær áherslur munu samningarnefndarmenn okkar í samninganefnd Starfsgreinasambandsins fara með og berjast hatrammlega fyrir.

Við ríkjandi aðstæður er einnig bráðnauðsynlegt að sem flestir fylki sér bak við samninganefndir stéttarfélaganna því oft hefur verið þörf en nú er alger nauðsyn um samstöðu þegar kemur að því að krefjast eðlilegs bita af kökunni sem til skiptanna er.

Við vonumst eftir því að sem flestir sjái sér fært að taka þátt í þessari könnun svo vilji sem allra flestra félagsmanna skili sér inn í kröfugerð fyrir komandi samningaviðræður. Könnunin er nafnlaus.

Skilafrestur er til 1. september.

Könnunina má setja ófrímerkt í póst, skila til trúnaðarmanna eða á skrifstofu félagsins á Austurvegi 56.

Tökum þátt í því að marka stefnuna, tökum ábyrgð á kjörum okkar og sýnum samstöðu með samningarnefnd okkar.

Aukin misskipting

Starfsgreinasambandið telur að margt bendi til þess að misskipting sé að aukast í samfélaginu og vísar m.a. til upplýsinga úr álagningaskrám.  Launaskriðið hefur leitað  á gamalkunnar slóðir og  fyrst og fremst í fjármálageirann. Þjóðin siglir því með hraðbyri inn í nýtt „2007-ástand.  Sjá meðfylgjandi frétt frá Starfsgreinasambandinu:

 

Lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði fyrir starfsfólk sem unnið hefur fjóra mánuði eða lengur eru 204.000 krónur á mánuði og eftir skatta og önnur gjöld eru útborguð laun tæplega 168.000 krónur á mánuði. Þó flestir séu á hærri launum þá má fyrir þessa upphæð kaupa vinnuframlag í heilan mánuð og getur það varla talist hátt verð. Í haust verður gengið til samninga um meðal annars lágmarkslaun á vinnumarkaðnum. Í aðdraganda kjarasamninga er ástand einstakra atvinnugreina skoðað, stjórnvaldsaðgerðir og hverju má eiga von á næstu misseri í lagasetningu, laun annarra hópa á vinnumarkaði og svo mætti áfram telja. Kjarasamningar eru ekki gerðir í tómarúmi heldur í samhengi við aðra þætti og í þá er rýnt þessa dagana.

 

Ein af undirstöðuatvinnugreinum landsins er sjávarútvegurinn og verður varla annað sagt en að hann sé sterkur nú um mundir. Horfið var frá hækkun veiðigjaldsins, en sú aðgerð er talin hafa sparað sjávarútvegsfyrirtækjum allt að 10 milljarða á fiskveiðiárinu 2013/2014. Stærstu fyrirtækin í greininni eru að skila gríðarlegum hagnaði og fréttir berast af háum arðgreiðslum til hluthafa. Á fleiri sviðum atvinnulífsins gengur vel og það virðist víða vera borð fyrir báru í komandi samningum.

 

Kjararáð ákvað að hækka laun ríkisforstjóra um allt að 20% afturvirkt um eitt ár þar sem þeir höfðu tekið á sig skerðingar eftir hrun. Nú er það svo að almennt starfsfólk fór ekki varhluta af hruninu frekar en forstjórarnir. Margt almennt starfsfólk ríkisstofnana tók á sig meiri vinnu, stóraukið álag og skert starfshlutfall til að mæta niðurskurðarkröfum. Þetta er fólkið á lægstu laununum, í umönnunarstéttum og starfsfólk í ræstingum. Ekkert bólar á aðgerðum til að bjóða þeim sem það kjósa aukið starfshlutfall eða létta álaginu heldur er farin sú leið að leiðrétta laun þeirra hæst launuðu fyrst og fremst. Þó ber að nefna að kvennastéttir á heilbrigðisstofnunum hafa fengið umframhækkanir vegna jafnlaunaátaks en þar hafa stéttir með meiri menntun notið meiri hækkana en lægst launuðu stéttirnar þar sem ekki er krafist menntunar.

 

Ýmislegt bendir til þess að misskipting sé að aukast í samfélaginu og við siglum hraðbyri inn í nýtt „2007-ástand“. Upplýsingar úr álagningaskrám gefa til kynna launaskrið meðal þeirra hæst launuðu og gögn hagstofunnar staðfesta umtalsvert launaskrið innan fjármálageirans síðustu tvö árin. Einhverjir miðlar hafa túlkað það sem svo að laun hafi hækkað á almenna vinnumarkaðnum en þegar betur er að gáð leitar launaskriðið á gamalkunnar slóðir, í fjármálageirann fyrst og fremst.

 

Eftir hrunið vorum við flest sammála um að það væri ýmislegt á okkur leggjandi til að endurreisa samfélagið og við ætluðum að forðast gömul mistök. Í þeim anda tók almennt starfsfólk á sig þyngri byrðar, meira álag og aukin útgjöld auk þess að fara fram með hóflegar kröfur um launahækkanir í kjarasamningum. Það launaskrið sem við verðum vör við um þessar mundir er ekki í takt við þá stemningu sem var í samfélaginu eftir hrun. Það verður ekki lagt á herðar þeirra sem eru með lægstu launin að axla ábyrgð á verðbólgunni á meðan misskiptingin vex óáreitt. Þessu verður haldið til haga þegar komið er að kjaraviðræðum í haust og vetur en aðildarfélög Starfsgreinasambandsins vinna nú kröfugerðir fyrir samningana.

Malbikað á Selfossi

Vegna malbikunarvinnu er ekki hægt að leggja fyrir utan skrifstofu félagsins, Austurvegi 56 fram eftir degi. Skrifstofan verður samt opin í dag á hefðbundnum opnunartíma.

Afslættir fyrir félagsmenn Bárunnar

Á þjónustuskrifstofu Bárunnar, stéttarfélags eru seldir gistimiðar á Eddu- og Fosshótel, Útilegukortið, Veiðikortið og afsláttarmiðar í
Hvalfjarðargöngin.
• Verð á Veiðikortinu er kr. 5.500
• Verð á miða í Hvalfjarðargöngin er kr. 635
• Verð á Útilegukortinu er kr. 12.000
• Verð á gistimiða fyrir Edduhótel er kr. 9.250 (1 miði)
• Verð á gistimiða fyrir Fosshótel er kr. 9000 (2 miðar fyrir júní, júlí og ágúst, 1 miði aðra mánuði).

Báran, stéttarfélag niðurgreiðir Útilegukortið  til félagsmanna sem greitt hafa til félagsins síðustu sex mánuði áður en  kaup eru gerð. Verð Útilegukortsins með niðurgreiðslu er kr. 8000.

 

Viðtal við Drífu Snædal um réttindi og skyldur á vinnumarkaði

Ungmenni stíga gjarnan sín fyrstu skref á vinnumarkaði á sumrin. Oft eru þau illa að sér um réttindi og skyldur. Starfsgreinasambandið hefur því séð ástæðu til að vekja sérstaklega athygli ungs fólks á ákvæðum kjarasamninga. M.a. því sem virðist viðgangast í einhverjum mæli, launalausum prufudögum.  Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, var gestur í þættinum Sjónmáli á Rás 1 í byrjun þessa mánaðar. Viðtalið er hægt að nálgast hér.