Við vinnum fyrir þig

Translate to

SGS GAGNRÝNIR BREYTTAR FORSENDUR KJARASAMNINGA

Svohljóðandi ályktun var samþykkt á formannafundi SGS á Egilsstöðum föstudaginn 11. september 2015.

Formannafundur SGS haldinn á Egilsstöðum 11. september 2015 telur brýnt  að endurmeta forsendur þeirra kjarasamninga á almenna markaðnum sem undirritaðir voru í maí síðastliðnum í ljósi niðurstöðu gerðardóms. Dómurinn setur ný viðmið á vinnumarkaði sem eru í verulegu ósamræmi við þau viðmið sem samninganefnd Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagið sömdu um.

Í kjarasamningunum frá því í maí var það almenn og víðtæk krafa í samfélaginu að hækka bæri lægstu laun og lyft var grettistaki í þá átt við undirritun samninganna. Niðurstaða gerðadómsins er hins vegar sú að hækka ákveðna hópa háskólamenntaðs fólks hlutfallslega meira en gert var í almennu samningunum. Ekki er tekið tillit til samstöðu um hækkun lægstu launa né skattabreytinga í gerðardómnum. Það eru gríðarleg vonbrigði og lýsir algerum dómgreindabresti að gerðadómur hafi litið algjörlega framhjá þeim leiðbeiningum sem dómurinn átti að vinna eftir til að stuðla að stöðugleika.

Gerðir voru samningar á almennum markaði til þriggja og hálfs árs í maí en ef forsendur bresta eru þeir lausir í febrúar 2016 verði ekkert að gert fyrir þann tíma.

Ályktun miðstjórnar ASÍ um flóttamannavandann í Evrópu

Miðstjórn ASÍ fundaði í dag og sendi frá sér eftirfarandi ályktun:

Evrópa stendur frammi fyrir flóttamannastraumi af áður óþekktri stærðagráðu. Fólk í þúsunda vís flýr átök í Sýrlandi, Mið-Austurlöndum og Afríku á degi hverjum. Íslenska þjóðin hefur brugðist við fréttum af hörmungum flóttafólksins af hluttekningu og þegar hefur fjöldi fólks boðið fram aðstoð sína við móttöku flóttafólks í neyð. Þessi viðbrögð sýna náungakærleik og hjálpsemi sem er aðdáunarverð.

Miðstjórn Alþýðusambandsins hvetur ríkisstjórnina til að nálgast vandamál flóttafólks í Evrópu af festu og ábyrgð. Ísland getur svo sannarlega tekið við fleiri flóttamönnum en þeim 50 sem þegar hefur verið ákveðið að veita hér hæli.

Mikilvægt er að stjórnvöld standi vel að komu flóttamanna með því að tryggja að þeir sem hingað koma fái sannanlega nýtt tækifæri í nýju landi. Í þessu felst að tryggja þarf fólkinu bæði gott húsnæði og nauðsynlegan samfélagslegan stuðning. Slíkur stuðningur þarf að vera í formi sálfræðiaðstoðar, íslenskukennslu, aðlögunar að íslensku samfélagi, heilbrigðis- og menntakerfi sem og aðlögunar og þekkingar að íslenskum vinnumarkaði til að koma í veg fyrir að á fólkinu verði brotið. Miðstjórn ASÍ lýsir sig reiðubúna til samstarfs um þetta verkefni því verkalýðshreyfingin býr að mikilli þekkingu og reynslu í þeim þáttum sem snúa að vinnumarkaðinum.

Verðkönnun á nýjum skólabókum

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á nýjum skólabókum í 5 bókabúðum á höfuðborgarsvæðinu sl. þriðjudag. Við samanburð á sambærilegri könnun sem gerð var í ágúst 2014 kemur í ljós að verð á skólabókum hefur breyst á þeim 20 bókatitlum sem bornir voru saman að þessu sinni.

Penninn-Eymundsson hefur lækkað hjá sér verð á milli mælinga á 11 titlum af 18 sem þeir áttu til í báðum mælingum, um allt að 24%. A4 lækkar verð á 7 titlum af 18 en hækkar verð á 11 titlum. Hjá Bóksölu Stúdenta og Forlaginu Fiskislóð hefur verð bókanna oftast hækkað um 4%. Bókabúðin IÐNÚ hefur oftast hækkað verð um 4%, þó má sjá mun meiri hækkanir hjá versluninni en einnig stöku lækkun.

Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miða við breytingar á verði verslana milli verðkannana verðlagseftirlits ASÍ þann 19.8.14. og 18.8.15. Rétt er að árétta að tekin eru þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma og geta tilboðsverð haft áhrif á verðbreytingar.

Kannað var verð í eftirtöldum verslunum: Bóksölu stúdenta, Pennanum-Eymundsson, A4, Forlaginu Fiskislóð og Bókabúðinni IÐNÚ.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Nánari samanburð má sjá í meðfylgjandi töflu.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

Eftirlitið á fulla ferð.

Nú, þegar halla fer að hausti og starfsfólk týnist til baka úr sumarfríum tekur alvara lífsins við að nýju og starfsemi skrifstofu stéttarfélaganna kemst á fullt skrið að nýju.

Nokkuð hefur borið á fyrirspurnum vegna nýrra kjarasamninga en ekki verður annað séð en flestir atvinnurekendur hafi brugðist rétt við breytingum. Þó eru örfá mál í gangi þar sem tekist er á um nokkur atriði, sérstaklega hvað varðar sumarstarfsmenn. Í því tilefni er rétt að árétta að þessi samningur nær til allra þeirra sem vinna eftir samningum félagsins, líka hlutavinnufólks og sumarstarfsmanna.

Vinnustaðaskírteiniseftirlit ASÍ er komið á fullt en samkvæmt lögum frá Alþingi frá árinu 2010 ber atvinnurekanda að sjá til þess að hver starfsmaður beri, eða hafi tiltækt, vinnustaðaskírteini . Tilgangur laganna er að fylgjast með því að stemma stigu við svartri atvinnustarfsemi og að lög, reglur og kjarasamningar séu virt. Stéttarfélögin leggja sérstaka áherslu á eftirlit með kjarasamningshluta laganna. Eftirlitsfulltrúar okkar hafa verið á ferðinni undanfarið víða og kannað stöðuna. Áhersla hefur verið lögð á ferðaþjónustuna og er það að gefnu tilefni. Víða er pottur brotinn, ekki síst hvað varða útlendingana og unga fólkið okkar. Nokkur mál hafa komið til kasta stéttarfélaganna eftir þessar eftirlitsferðir fyrir utna þau mál sem berast eftir öðrum leiðum. Reynslan sýnir okkur að þetta eftirlit hefur áhrif, ekki bara til að fylgjast með og kanna grun um kjarasamningsbrot, heldur ekki síður til að gefa atvinnurekendum og félagsmönnum tækifæri til að fá svör við spurningum sem kannski hafa vaknað en fólk ekki alltaf vitað hvert það hefur átt að snúa sér.

Einnig hefur verið farið í eftirlit með starfsfólki eftirlitssviðs Ríkisskattstjóra tail að fylgjast með að farið sé eftir skattalögum en að sjálfsögðu helst það í hendur að ef kjaramálum starfsfólks er ábótavant þýðir það gjarnan um leið að skatturinn er snuðaður um sitt og gjarnan er sitthvað fleira í ólagi um leið. Það er Ríkisskattstjóri ókátur með og gefur lítinn afslátt á þeim lögum og reglum sem gilda um þau atriði.

Langoftast eru móttökurnar góðar á vinnustöðum og flestir viljugir til að lagfæra það sem þarf en stundum þarf þó að fara í hart. Án þess að hafa tekið það sérstaklega saman má trúlega telja í milljónum fjárhæðirnar sem innheimtar eru á hverju ári vegna brota á kjarasamningum. Okkur hjá stéttarfélögunum þykir ástandið heldur fara versnandi hvað þessi brot varðar og má velta fyrir sér afhverju svo er. Ljóst má þó vera að vöxtur ferðaþjónustunar er við það eða kominn fram yfir getu eftirlitsaðila til að fylgjast með sem skyldi og virðast sumir tilbúnir til að nýta sér það.

Þetta eftirlit mun halda áfram og vonandi tekst að efla það með tímanum.

NÝ LAUNATAFLA VEGNA AÐSTOÐARFÓLKS FATLAÐS FÓLKS

Búið er að undirrita nýja launatöflu vegna aðstoðarfólks fatlaðs fólks samkvæmt samningi á milli Starfsgreinasambands Íslands og NPA miðstöðvarinnar. Launahækkun tekur gildi frá 1. maí síðastliðnum og eru byrjunarlaun nú 267.823 krónur á mánuði, eftir eitt ár í starfsgrein eru mánaðarlaunin 275.107 krónur, eftir þrjú ár í starfsgrein eru þau 282.610 krónur og eftir fimm ár í starfsgrein eru mánaðarlaunin 290.339 krónur. Orlofsuppbót frá 1. maí 2015 er 42.000 krónur eins og í öðrum kjarasamningum á hinum almenna markaði. Frekari breytingar á samningnum eru væntanlegar en þeim viðræðum verður fram haldið í ágústmánuði. Þar ber hæst ákvæði um sólarhringsvaktir, en nýleg lagabreyting veitir þessum hópi undanþágu frá almennum hvíldartímareglum á vinnumarkaði, tímabundið og háð umsögn og eftirliti. Stefnt er að því að undirrita nýjan heildarkjarasamning til rúmlega þriggja ára fyrir lok ágúst. Þessi launatafla gildir frá 1. maí 2015 til 30. apríl 2016:

Mán.laun Dagvinna Yfirvinna Stórh.kaup 33% álag 55% álag 90% álag 16,5% bakv.álag 27,5% bakv.álag
Byrj.-laun 267.823 1.557,11 2.781,34 3.682,56 513,85 856,41 1.401,40 256,92 428,20
1 ár í st.gr. 275.107 1.599,46 2.856,99 3.782,72 527,82 879,70 1.439,51 263,91 439,85
3 ár í st.gr 282.610 1.643,08 2.934,91 3.885,89 542,22 903,70 1.478,78 271,11 451,85
5 ár í st.gr. 290.339 1.688,02 3.014,17 3.992,16 557,05 928,41 1.519,21 278,52 464,20

VIÐRÆÐUM VIÐ RÍKI OG SVEITARFÉLÖG FRESTAÐ FRAM Í ÁGÚST

Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta viðræðum við bæði ríki og sveitarfélög fram í ágúst en stefnt er að því að undirrita samninga við þessa tvo aðila fyrir 1. október næstkomandi.  Næstu samningafundir verða haldnir um miðjan ágúst.

Fulltrúar SGS hafa gengið frá samkomulagi við samninganefnd ríkisins annars vegar og hins vegar samninganefnd Sambands Íslenskra Sveitarfélaga um frestun viðræðna, þó þannig að það sem um semst í samningum sem undirritaðir verða fyrir 1. október mun gilda afturvirkt frá 1. maí síðastliðnum, eða síðan kjarasamningarnir runnu út. Í báðum þessum tilvikum óskuðu viðsemjendur SGS eftir frestun og var ákveðið að verað við því, bæði vegna þess að beðið er eftir niðurstöðu í öðrum samningum og eins vegna

Of algengt að ráðningarsamning vanti

Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem ASÍ og SA létu Capacent Gallup framkvæma er 85% launafólks á Íslandi með skriflegan ráðningarsamning eða skriflega staðfesta ráðningu. Á almennum vinnumarkaði er hlutfallið þó aðeins 75% meðan það er 98% á opinberum vinnumarkaði. 8% launafólks hefur aldrei haft skriflegan ráðningarsamning eða fengið ráðningu staðfesta skriflega. Staðan er verst í aldurhópnum 18-24 ára þar sem hlutfallið er 14%. Ljóst er margt má bæta og ítrekað að launafólk gangi eftir þessum réttindum sínum þegar við ráðningu eða skömmu eftir hana.

 

Nánar:

Tilskipun ESB 91/533 um skyldu vinnuveitanda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi var innleidd hér á landi með kjarasamningum. Sé starfsmaður ráðinn til lengri tíma en eins mánaðar og að meðaltali lengur en átta klst. á viku, skal eigi síðar en tveim mánuðum eftir að starf hefst gerður skriflegur ráðningarsamningur eða ráðning staðfest skriflega. Láti starfsmaður af störfum áður en tveggja mánaða frestinum lýkur, án þess að skriflegur ráðningarsamningur hafi verið gerður eða ráðning staðfest skriflega, skal slík staðfesting látin í té við starfslok.

Við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði 2013 ákváðu ASÍ og SA að láta kanna framkvæmd þessara ákvæða, þ.e. hvort launafólk væri almennt með skriflega ráðningarsamninga eða skriflega staðfestingu ráðningar. Þá var samið um að brot gegn ákvæðum kjarasamninga hér að lútandi geti varðað skaðabótum.

Haustið 2014 var samið við Capacent um framkvæmd könnunar og liggja niðurstöður fyrir. Þó þær séu nokkuð afgerandi og flest launafólk sé með skriflega ráðningarsamninga eða skriflega staðfestingur ráðningar vantar talsvert upp á framkvæmdin sé í lagi en svo virðist sem að 25% launafólks á almennum vinnumarkaði sé hvorki með skriflegan ráðningarsamning eða skriflega staðfestingur ráðningar. Ekki verður of oft ítrekað að launafólk gangi eftir því við ráðningu eða strax í kjölfar hennar að ráðning og ráðningarkjör verði staðfest og forðist þannig ágreining í framhaldinu um það hvað hafi verið samið um. Í ráðningarsamningi eða skriflegri staðfestingu ráðningar á a.m.k. eftirfarandi að koma fram:

1. Deili á aðilum þ.m.t. kennitölur.

2. Vinnustaður og heimilisfang vinnuveitanda. Sé ekki um fastan vinnustað að ræða, eða stað þar sem vinnan fer jafnaðarlega fram, skal koma fram að starfsmaður sé ráðinn á mismunandi vinnustöðum.

3. Titill, staða, eðli eða tegund starfs sem starfsmaður er ráðinn í eða stutt útlistun eða lýsing á starfinu.

4. Fyrsti starfsdagur.

5. Lengd ráðningar sé hún tímabundin.

6. Orlofsréttur.

7. Uppsagnarfrestur af hálfu vinnuveitanda og starfsmanns.

8. Mánaðar- eða vikulaun, t.d. með tilvísun til launataxta, mánaðarlaun sem yfirvinna er reiknuð af, aðrar greiðslur eða hlunnindi svo og greiðslutímabil.

9. Lengd venjulegs vinnudags eða vinnuviku.

10. Lífeyrissjóður.

Könnun Capacent Gallup

Sjá frétt á heimasíðu así

Vörukarfan lækkar hjá Kjarval, Krónunni og Nettó

Vörukarfa ASÍ hefur hækkað hjá 9 verslunarkeðjum af 12 frá því í desember 2014 (viku 48) þar til í byrjun júní (vika 24). Þannig hefur vörukarfan hækkað meira en sem nemur breytingu á vsk. og afnáms sykurskatts hjá helmingi verslana.

Mesta hækkunin á þessu tímabili er hjá Iceland, Hagkaup, Víði og Kaupfélagi Skagfirðinga. Á sama tímabili lækkar vörukarfan hjá Kjarval, Krónunni og Nettó. Í heildina er það mat verðlagseftirlitsins að breytingar á virðisaukaskatti og vörugjöldum gefi tilefni til hækkunar á verði matarkörfu meðalheimilis um u.þ.b. 1,5% en þegar innihald matarkörfunnar er skoðað nánar eru áhrifin á einstaka vöruflokka mjög misjöfn.

Um áramótin var virðisaukaskattur á mat- og drykkjarvörur hækkaður úr 7% í 11% auk þess sem vörugjöld voru felld niður af sykri og sætum matar- og drykkjarvörum. Breytingin um áramótin gefur því að hámarki tilefni til 3,7% hækkunar á matvöru en áhrifin á verði þeirra matvara sem innhalda sykur eða sætuefni ráðast af sykurinnihaldi vörunnar. Almennt má því segja að þeim mun sætari sem varan er þeim mun þyngra vegur afnám vörugjaldanna í verðinu og þeim mun meira ætti hún að lækka í verði.

Eins og sjá má á meðfylgjandi súluriti hefur vörukarfan hækkað í verði hjá 9 verslunum af 12 og hjá 7 þeirra er hækkunin mun meiri en skýrist af breytingunum á vsk. og afnámi sykurskatts. Mesta hækkunin er 4,8% hjá Iceland, 4,6% hjá Hagkaup, 4% hjá Viði, 3% hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, 2,5% hjá 10/11 og 2,1% hjá Samkaupum-Úrvali. Í verslunum Bónus, Samkaup-Strax og Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga er hækkunin um og undir 1,5%. Lækkun á verði vörukörfunnar er um 3% hjá Kjarval, 1,1% hjá Nettó og 1% hjá Krónunni.

Í meðfylgjandi töflu má sjá hvernig afnám sykurskattsins og breyting á vsk. skilar sér til neytenda í hverjum vöruflokki fyrir sig.

Afnám sykurskatts hefur lítil áhrif á verð á drykkjarvörum

Vöruflokkurinn drykkjarvörur hefur aðeins lækkað í 6 verslunum af 12 en áætlaði verðlagseftirlitið að þessi vöruflokkur mundi lækka u.þ.b. um 2,5%. Mesta lækkunin er 9,9% hjá Kjarval, 7,2% hjá Nettó, 4,8% hjá Bónus, 4,4% hjá Krónunni, 3,3% hjá Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga og um 0,4% hjá 10/11. Drykkjarvörur hækka í verði um 6,3% hjá Víði, 5,8% hjá Hagkaupum, 3,7% Iceland og um 0,4-1% hjá Samkaup-Strax, Kaupfélagi Skagfirðinga og Samkaup-Úrvali.

Verðlagseftirlitið áætlaði að vöruflokkurinn sætindi ætti að lækka um u.þ.b. 10% vegna afnáms sykurskatts en það er aðeins Bónus sem lækkar í takt við það. Krónan, Nettó og Kaupfélag Vestur-Húnvetninga koma þar á eftir með lækkun á bilinu 6,6-7,7%. Enn minni lækkun er hjá Hagkaup, Samkaup-Úrvali, Víði, Kaupfélagi Skagfirðinga og Kjarval eða um 1,2-4,4%. Í verslunum Iceland, 10/11 og Samkaup-Strax eru sætindi að hækka í verði eða um 0,2-2,2%.

Samkvæmt áætlun verðlagseftirlitsins ætti afnám sykurskattsins og breyting á vsk. í

vöruflokknum mjólkurvörur, ostar og egg ekki að gefa tilefni til hækkunar umfram 2,5% en aðeins Krónan, Nettó og 10/11 eru við eða undir því marki. Mesta hækkunin er um 9,7% hjá Víði,  um 6,9% hjá Hagkaup, 5,4% hjá Bónus, 5,1% hjá Iceland, um 3,4-4,8% hjá Samkaup-Úrvali, Samkaup-Strax, Kaupfélagi Skagfirðinga og Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga, en svo hefur vöruflokkurinn lækkað um 6% hjá Kjarval.

Þegar rýnt er í vöruflokkinn brauð og kornvörur má benda neytendum á að hann inniheldur töluverðan sykur og sætuefni; t.d. brauð, kökur og morgunkorn. Samkvæmt áætlun verðlagseftirlitsins ætti vöruflokkurinn ekki að gefa tilefni til hækkunar umfram 2%. Sjö verslanir eru að hækka verðið um 1-3%. Mesta hækkunin er 6,5% hjá Iceland og 3,7% hjá Hagkaup. Aðeins verslunin Samkaup-Strax er að lækka verðið og nemur lækkunin 0,5%.

Eftir breytingu á vsk. ætti vöruflokkurinn kjötvörur ekki að gefa tilefni til hækkunar umfram 3,7%. En hjá verslunum Bónus, Iceland, 10/11 og Kaupfélagi Skagfirðinga er hækkunin á bilinu 4,5-5,9% meðan aðrar verslanir hækka minna, minnsta hækkunin er 0,1% hjá Nettó. Sömu sögu má segja um ýmsar matvörur en þar er heldur ekki tilefni til meiri hækkunar en 3,7%, en verslanirnar Iceland, Hagkaup, Samkaup-Úrval, 10/11, Víðir, Kaupfélag Skagfirðinga og Kjarval hafa hækkað um 3,8-12,7%. Aðrar verslanir hækka minna og minnsta hækkunin er hjá Bónus 0,4%.

Verðlagseftirlitið mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar matar- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðalheimilis.

Verðbreytingar voru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Í lágvöruverðsverslununum Bónus, Krónunni, Nettó og Iceland; í almennu matvöruverslununum Hagkaup, Nóatúni og Samkaup-Úrvali, Tíu-ellefu, Samkaup-Strax og Víði; í verslunum staðsettum á landsbyggðinni, Kjarval, Kaupfélagi Skagfirðinga og Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga. Því miður var ekki hægt að framkvæma könnun í Kaskó að þessu sinni.

Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar milli verðmælinga. Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða  þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna. Einnig er rétt að athuga að skoðuð eru þau verð sem eru í gildi í verslununum á hverjum tíma og geta tilboð á einstaka vöruliðum því haft áhrif á niðurstöðurnar.

Óheimilt er að vitna í niðurstöðurnar í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Samkomulag um framlengingu viðræðna

Samkomulag hefur verið gert um að framlengja kjaraviðræður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands á grundvelli eftirfarandi forsendna:

Aðilar eru sammála um að framlengja kjaraviðræðum til 30. september 2015 til og skapa þannig svigrúm til frekari viðræðna.

Náist samkomulag um framlengingu kjarasamninga aðila fyrir lok september 2015 mun sú upphafshækkun sem um semst, eða ígildi hennar, gilda frá og með 1. maí 2015

Náist ekki samkomulag fyrir 30. september er SNS ekki bundin af fyrrgreindu tímamarki um gildistöku kjarasamnings

 

Undi þetta samkomulag skrifa fulltrúar í samninganefnd sveitarfélaganna og samningamenn Starfsgreinasambandsins.

SAMNINGUR VIÐ BÆNDASAMTÖKIN UNDIRRITAÐUR

Starfsgreinasambandið hefur gengið frá nýjum kjarasamningi við Bændasamtök Íslands vegna starfsfólks í landbúnaði. Samningurinn tekur sömu hækkunum og samið var um í almennum kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins auk þess sem farið var yfir gildissvið samningsins og er nú talað um að hann taki til starfsfólks í landbúnaði en ekki einungis á lögbýlum. Þá voru upphæðir sem draga má frá launum vegna fæðis og húsnæðis hækkaðar lítillega. Samningurinn gildir frá 1. maí 2015 og út árið 2018 eins og aðrir samningar á almennum vinnumarkaði.

Nýr kjarasamningur Starfsgreinasambands Íslands og Bændasamtaka Íslands

Kauptaxtar SGS fyrir starfsfólk í landbúnaði