Við vinnum fyrir þig

Translate to

Hverjir greiða atkvæði um boðun verkfalls?

Nokkuð hefur verið um að félagsmenn Bárunnar hafi haft samband við Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna og spurt fyrir um hverjir hafi rétt til að greiða atkvæði um boðun verkfalls sem koma á til framkvæmda í apríl. Því er til að svara að þeir starfsmenn sem starfa eftir kjarasamningum sem gilda m.a.  fyrir starfsfólk í matvælavinnslu, bílstjóra, starfsfólk í kjöt- og mjólkuriðnaði og starfsfólk í ferðaþjónustu svo sem á hótelum og gistiheimilum hafa rétt til að greiða atkvæði um verkfallsboðun. Þetta eru hópar sem starfa eftir almenna kjarasamningi Bárunnar og Samtaka atvinnulífsins og kjarasamningi Bárunnar og Samtaka atvinnulífsins vegna starfsfólks í ferðaþjónustu.

Undanskyldir eru starfsmenn sem starfa eftir:

Kjarasamningi Bárunnar og fjármálaráðherra fh. ríkisjóðs (starfsmenn ríkisstofnana)

Kjarasamningi Bárunnar og Launanefndar sveitarfélaga (starfsmenn sveitarfélaga)

Kjarasamningi Bárunnar og Bændasamtakana (landbúnaðarverkamenn)

Kjarasamningi Bárunnar og Landssambands smábátaeigenda

Kjarasamningi Bárunnar og Landsvirkjunar

Kjarasamningi Bárunnar og Sólheima ses

Kjarasamningi Bárunnar og Kumbaravogs

Þeir sem telja sig eiga atkvæðisrétt en fá ekki send kjörgögn eru beðnir um að hafa samband við Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna að Austurvegi 56 eða í síma 480 5000

Þá koma þeir félagsmenn sem eru atvinnulausir eða í fæðingarorlofi ekki til með að greiða atkvæði um verkfallsboðun.

Atkvæðagreiðsla um verkfall hafin

Á slaginu 08:00 í morgun hófst rafræn atkvæðagreiðsla Bárunnar, stéttarfélags, um heimild til verkfallsboðunar vegna félagsmanna sem starfa eftir kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins.  Fólk er hvatt til að skoða gögnin vel og vandlega og hafa samband við skrifstofu Bárunnar, stéttarfélags ef einhverjar spurningar vakna. Þá er rétt að benda á vefsvæði SGS sem inniheldur mikið magn gagnlegra upplýsinga um verkfallsaðgerðirnar.

Eins og áður sagði þá er um rafræna atkvæðagreiðslu að ræða. Lykilorðið sem fylgir með kjörgögnum veitir aðgang að kosningunni, sem fer fram hér.  Hver og einn ber ábyrgð á sínu atkvæði. Atkvæðin eru ekki persónurekjanleg þannig að það er ekki hægt að óska eftir nýju lykilorði, ef það kynni að glatast. Þar af leiðandi er mikilvægt að passa vel upp á lykilorðið.

Ef einhver telur sig eiga að vera á kjörskrá en fær ekki send kjörgögn þá getur viðkomandi kært sig inn á kjörskrá. Sá hinn sami þarf þá að hafa samband við skrifstofu Bárunnar, stéttarfélags. Í framhaldinu er málið sent til kjörstjórnar sem mun taka afstöðu til þess.

Að síðustu vill Báran, stéttarfélag eindregið hvetja kosningabæra félagsmenn að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og greiða atkvæði um verkfallsboðunina. Nú er reynir á að íslenskt verkafólk standi saman sem eitt, berjist fyrir réttlátum kröfum og sendi Samtökum atvinnulífsins skýr skilaboð!

 

 

Allt að 140% verðmunur er á þjónustu við dekkjaskipti

Allt að 140% verðmunur er á þjónustu við dekkjaskipti fyrir jeppa af stærri gerðinni með álfelgu af stærð 265/70R17. Titancar var alltaf með lægsta verðið í nýrri könnun á dekkjaskiptum. Þetta kemur fram í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði hjá 21 hjólbarðaverkstæði víðsvegar um landið þann 8. apríl sl. Titancar var alltaf með lægsta verðið á þjónustunni en Gúmmívinnustofa SP dekk var oftast með það hæsta.

 

Mestur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti á jeppa (t.d. Mitshubishi Pajero)  með 17´´ álfelgu (265/70R17) sem var ódýrust á 5.500 kr. hjá Titancar en dýrust á 13.197 kr. hjá Gúmmívinnustofunni SP dekk, verðmunurinn var 7.697 kr. eða 140%. Fyrir stálfelgu af sömu stærð var ódýrast að umfelga á 5.500 kr. hjá Titancar en dýrast á 12.384 kr. hjá. Gúmmívinnustofunni SP dekk verðmunurinn var 6.884 kr. eða 125%.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á dekkjaskiptum fyrir meðalbíl (t.d. Subaru Legacy) á 16´´ stálfelgum (205/55R16) sem var ódýrust á 4.500 kr. hjá Titancar en dýrust á 7.195 kr. hjá Gúmmívinnustofunni SP dekk, verðmunurinn var 2.695 kr. eða 60%. Fyrir bíl á álfelgu af sömu stærð var þjónustan ódýrust á 4.500 kr. hjá Titancar en dýrust á 8.120 kr. hjá Gúmmívinnustofunni SP dekk. Verðmunurinn var 3.620 kr. eða 80%.

Fyrir smábíl með 14´´ dekk á álfelgu (175/65R14) var þjónustan ódýrust á 4.000 kr. hjá Titancar en dýrust á 8.120 kr. hjá Gúmmívinnustofunni SP dekk sem var 4.120 kr. verðmunur eða 103%. Fyrir stálfelgu af sömu stærð var þjónustan ódýrust á 4.000 kr. hjá Titancar en dýrust á 7.195 kr. hjá Gúmmívinnustofunni SP dekk sem var 3.195 kr. verðmunur eða 80%. Það kostar það sama fyrir 15´´(195/65R15) sem er dekk fyrir minni meðalbíl.

Sjá nánar niðurstöður í töflu.

Eftirfarandi þjónustuaðilar vildu ekki upplýsa verðlagseftirlitið um verð á þjónustunni: N1 Fellsmúla,  Hjólbarðaverkstæði Heklu, Klettur, Borgardekk VDO, Hjólbarðaverkstæði Grafarvogs, Barðinn, Hjólbarðaþjónusta  Magnúsar, Bílaáttan, Sólning, Hjólbarðaverkstæði Kaldasels, Hjólbarðaverkstæði Ísafjarðar, Toyota Selfossi, Smurstöðin Klettur og Bifreiðaverkstæði SB.

Kannað var verð á þjónustu við dekkjaskiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu á álfelgum og stálfelgum af stærðum 14,15, 16 og 18´´ á 21 hjólbarðaverkstæði í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi. Verðin í könnuninni eru án afsláttar en verkstæðin bjóða upp á margskonar afsætti t.d. FÍB, eldri borgara og staðgreiðslu, viðskiptavinir eru því hvattir til að spyrja um afslátt.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð á þjónustu að ræða en ekki var lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Skipulag verkfallsaðgerða

Starfsgreinasambandið (SGS) hefur tilkynnt um víðtækar verkfallsaðgerðir sem bresta munu á í lok þessa mánaðar og í maímánuði, hafi ekki náðst samningar fyrir þann tíma. Um er að ræða harðari og umfangsmeiri aðgerðir en áður höfðu verið kynntar en í stað staðbundinna vinnustöðvana þá hefjast allsherjarverkföll. Aðgerðirnar ná til yfir 10 þúsund félagsmanna aðildarfélaga SGS og munu hafa mikil áhrif á fjölda vinnustaða um land allt. Atkvæðagreiðsla vegna verkfallsboðunarinnar hefst mánudaginn 13. apríl kl. 8.00 og henni lýkur viku síðar á miðnætti 20. apríl.

Skipulag verkfallsaðgerðanna:

30. apríl 2015 – Allsherjar vinnustöðvun frá klukkan 12:00 á hádegi til miðnættis sama dag.

6. maí 2015 – Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 6. maí).

7. maí 2015 – Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 7. maí).

19. maí 2015 – Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 19. maí).

20. maí 2015 – Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis (allur 20. maí).

26. maí 2015 – Ótímabundin vinnustöðvun hefst á miðnætti aðfaranótt 26. maí 2015.

SGS boðar harðari verk­fallsaðgerðir

Tekið af mbl.is

Starfs­greina­sam­bandið (SGS) hef­ur til­kynnt um víðtæk­ar verk­fallsaðgerðir sem bresta munu á í lok þessa mánaðar og í maí­mánuði, hafi ekki náðst samn­ing­ar fyr­ir þann tíma. Um er að ræða harðari og um­fangs­meiri aðgerðir en áður höfðu verið kynnt­ar en í stað staðbund­inna vinnu­stöðvana þá hefjast alls­herj­ar­verk­föll. Aðgerðirn­ar ná til yfir 10 þúsund fé­lags­manna aðild­ar­fé­laga SGS og munu hafa mik­il áhrif á fjölda vinnustaða um land allt. At­kvæðagreiðsla vegna verk­falls­boðun­ar­inn­ar hefst mánu­dag­inn 13. apríl kl. 8.00 og henni lýk­ur viku síðar á miðnætti 20. apríl. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá sam­band­inu.

Ástæðan fyr­ir þessu fyr­ir­huguðu hertu verk­fallsaðgerðum Starfs­greina­sam­bands­ins eru m.a. til­raun­ir Sam­taka at­vinnu­lífs­ins til að tefja fyr­ir at­kvæðagreiðslum launþega­sam­taka og mik­ill bar­áttu­vilji meðal fé­lags­manna aðild­ar­fé­laga Sam­bands­ins. Upp­haf­lega var áætlað að hefja vinnu­stöðvan­ir um miðjan þenn­an mánuð en vegna úr­sk­urðar Fé­lags­dóms varð að hefja at­kvæðagreiðslu um aðgerðirn­ar upp á nýtt.

Meg­in­kraf­an af hálfu SGS hef­ur verið hækk­un grunn­launa sem liggja nú í rúm­um 200 þúsund krón­um fyr­ir fulla vinnu og að lág­marks­laun fari þannig upp í 300 þúsund krón­ur inn­an þriggja ára. Kraf­an er sett fram meðal ann­ars í ljósi mik­ils hagnaðar fyr­ir­tækja og hækk­ana til hinna hæst launuðu í þjóðfé­lag­inu.

„Fólk er bara orðið reitt. Það er ekki hægt að lifa sóma­sam­legu lífi á þess­um laun­um,“ seg­ir Björn Snæ­björns­son, formaður SGS. „Þegar við bæt­ast hækk­an­ir á mat­ar­skatti og hærri hús­næðis­kostnaður þá er ljóst að staða verka­fólks er orðin óviðun­andi og það nær ein­fald­lega ekki að fram­fleyta fjöl­skyld­um sín­um. Fé­lags­menn okk­ar eru harðdug­legt fólk sem geng­ur óþreytt til sinna verka gegn því að fá sann­gjörn laun.“

„Al­menn­ing­ur er á okk­ar bandi um að þetta séu ekki boðleg laun fyr­ir fulla vinnu – rúm­ar tvö hundruð þúsund krón­ur á mánuði. Miðað við for­send­ur þær sem at­vinnu­rek­end­ur hafa sett fram þá er verið að bjóða þessu fólki upp á nokkra þúsund kalla í hækk­un. Það sætt­ir sig eng­inn við í okk­ar hópi og við erum því nauðbeygð að grípa til þess­ara aðgerða. Við von­um auðvitað í lengstu lög að það megi forða verk­föll­um. Þau eiga alltaf að vera neyðarúr­ræði. Það er hins veg­ar eng­inn bil­bug­ur á okk­ar fólki og við erum búin und­ir að þetta geti orðið löng orr­usta.“

Samninganefnd samþykkir verkfallsboðun

Samninganefnd Bárunnar samþykkti samhljóða á fundi sínum að efna til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um boðun verkfalls.

Þar sem fyrri atkvæðagreiðsla var dregin til baka vegna dóms Félagsdóms um sambærilega atkvæðagreiðslu hjá tæknimönnum útvarpsins þá er nauðsynlegt að endurtaka hana. Greinilegt er að þessi afstaða Samtaka atvinnulífsins að hengja sig á tæknileg atriði og vefengja allar aðgerðir stéttarfélaganna í stað þess að setjast niður við samningaborðið hefur hleypt illu blóði í félagsmenn og var fólki þó nóg boðið áður.

Atkvæðagreiðsla mun hefjast kl. 8:00 13.apríl nk og standa fram til miðnættis 20.apríl.

Hún verður með sama hætti og hin fyrri nema talið verður sérstaklega frá hverju félagi fyrir sig í stað sameiginlegrar talningar sem fyrirhuguð var. Lykilorð verður sent til félagsmanna og munu þau berast strax eftir helgi.

Það er gríðarlega mikilvægt að fá góða þáttöku og því hvetjum við félagsmenn að kjósa um leið og þeir fá lykilorðin í hendur. Því betri þáttaka sem verður í kosningunni, því sýnilegri er samstaðan og því sterkari komum við til leiks, ef og þegar Samtök atvinnulífsins sjá sóma sinn í að axla ábyrgð sína og setjast niður við samningaborðið.

Undirbúningur atkvæðagreiðslu

Undirbúningur að því að endurtaka atkvæðagreiðslu um verkfall er nú í fullum gangi. Fyrri atkvæðagreiðsla var dæmd ólögmæt og því er hún endurtekin núna og greint á milli aðildarfélaga innan SGS og þeirra samninga sem kosið er um. Aldrei hefur verið dæmt í svona máli áður en ljóst er að SA ætlar að beita lagaklækjum frekar en að setjast að samningaborðinu. Atkvæðagreiðslan hefst á mánudaginn 13. apríl kl. 8 og verður í rafrænu formi. Félagsmenn Bárunnar, stéttarfélags fá sent lykilorð í pósti á mánudag eða þriðjudag.

Páskafundur trúnaðarmanna

Í gær hittust trúnaðarmenn og stjórnir Bárunnar, stéttarfélags og Verslunarmannafélags Suðurlands. Sigurlaug Gröndal frá Félagsmálaskóla Alþýðu hélt fyrirlestur um lýðræði og hlutverk stéttarfélaga. Formenn félaganna fóru yfir stöðu kjaraviðræðna. Trúnaðarmenn skiptust á skoðunum um hlutverk þeirra og það sem framundan er.

IMG_3535 IMG_3537