Við vinnum fyrir þig

Translate to

Nánari upplýsingar um kjarasamning frá 20. febrúar sl.

Kynningarefni vegna kjarasamninga – febrúar 2014 (4)

Kosning er rafræn og stendur frá kl. 12:00 föstudaginn 28. febrúar til föstudagsins 7. mars kl. 12:00

Inn á heimasíðu félagsins, baran.is,  eru leiðbeiningar og hnappur sem opnar á aðgang að kosningunni. Verið er að senda kjörgögn til félagsmanna og þar með er notendanafn og lykilorð.

Hægt er að hafa samband við skrifstofu í s. 480 5000 og fá aðstoð.

Starfsmenn félagsins geta veitt einnig veitt aðstoð í fyrirtækjum sé þess óskað. Skrifstofan verður opin miðvikudaginn 5. mars nk til kl. 19:30.

Helstu atriði sáttatillögu frá 20. febrúar 2014

Þann 20. febrúar síðastliðinn skrifaði Báran, stéttarfélag undir sáttatillögu ríkissáttasemjara vegna nýrra kjarasamninga. Um er að ræða tillögu sem er hugsuð sem viðauki við kjarasamning sem undirritaður var 21. desember sl. við Samtök atvinnulífsins.

 

Viðaukinn felur í sér hækkanir á desember- og orlofsuppbótum, en þær munu hækka um samtals 32.300 kr. frá síðast gildandi kjarasamningi. Desemberuppbót á árinu 2014 verður 73.600 og orlofsuppbót fyrir orlofsárið sem hefst 1. maí 2014 verður 39.500 kr.

 Einnig kemur til sérstök eingreiðsla verður greidd út til launafólks í stað launabreytinga frá 1. janúar 2014. Eingreiðslan nemur 14.600 kr. miðað við fullt starf, fyrir þá starfsmenn sem voru starfandi í janúar 2014 og voru ennþá starfandi þann 1. febrúar sl.

 Þá má nefna bókun sem Starfsgreinasamband Íslands/Flóabandalagið og Samtök atvinnulífsins gerðu með sér. Samkvæmt henni munu samningaaðilar skoða grundvöll fyrir breytingum á fyrirkomulagi fatapeninga í fiskvinnslum fyrir 1. maí næstkomandi og leggja til breytingar á þeim ef ástæða reynist til.

 Samningurinn gildir til loka febrúar 2015 og mun hann þá falla úr gildi án sérstakrar uppsagnar.

 

Kosning verður um kjarasamninginn frá kl. 12:00 föstudaginn 28. febrúar og lýkur föstudaginn 7. mars og verður með svipuðum hætti og síðasta kosning.

Kjörgögn fara í póst í dag og einnig verður frekari upplýsingar birtar á heimasíðunni seinna í dag.

 

 

Skrifað undir kjarasamning við SA

Báran, stéttarfélag skrifaði síðdegis undir kjarasamning  við Samtök atvinnulífsins. Samningurinn byggist á sáttatillögu ríkissáttasemjara.  Sex önnur verkalýðsfélög innan vébanda Starfsgreinasambandsins skrifuðu undir samninginn. Félögin sem skrifuðu undir auk Bárunnar, stéttarfélags eru:  Eining – Iðja, Samstaða Blönduósi, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Aldan stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands og Verkalýðsfélag Snæfellinga. Félagsmenn allra þessara verkalýðsfélaga felldu kjarasamning sem undirritaður var fyrir jól.  Samninganefnd félagsins verður boðað til fundar næstkomandi mánudag þar sem samningurinn verður kynntur. Hann verður síðan kynntur félagsmönnum. 

Ábyrgðin liggur hjá atvinnurekendum og hinu opinbera að bjóða ásættanlega lausn

Starfsgreinasamband Íslands sendi frá sér eftirfarandi ályktun í dag af formannafundi sambandsins um stöðuna á vinnumarkaði:

„Stór hluti aðildarfélaga SGS felldi þá samninga sem undirritaðir voru í desember síðastliðnum og engar formlegar viðræður eru hafnar við fulltrúa fjármálaráðuneytisins vegna samninga SGS og ríkisins sem runnu út um síðustu mánaðamót. Þá brýna aðrir opinberir starfsmenn verkfallsvopnið um þessar mundir og ljóst að ýmislegt þarf að koma til umfram þær kauphækkanir sem samið var um í desember svo friður ríki á vinnumarkaði á komandi mánuðum,“ 

Það stendur vissulega uppá atvinnurekendur að mæta launafólki sem hafnaði kjarasamningum í atkvæðagreiðslu og hafa ýmsar hugmyndir verið kynntar í þá veru af hálfu launafólks. Atvinnurekendur bera hins vegar ekki einir ábyrgð. Í aðdraganda og eftirleik kjarasamninganna í desember var það ljóst að launafólk kallar ríkisvaldið og sveitarfélög til ábyrgðar á bættum kjörum. Þær gjaldskrárhækkanir sem tóku víða gildi um áramót voru í hrópandi ósamræmi við nýgerða kjarasamninga og urðu til þess að draga úr trú launafólks á að takast mætti að halda niðri verðbólgu og auka kaupmátt.

Þá hafa félög innan Starfsgreinasambandsins haldið til haga kröfu um hækkun persónuafsláttarins eða að skattabreytingar kæmu með öðrum hætti þeim tekjulægstu til góða. Ríkisvaldið verður að kannast við sinn hluta ábyrgðarinnar á að friður ríki á vinnumarkaði. Formenn Starfsgreinasambandsins krefjast þess að samtök launafólks eigi aðkomu að gjaldskrárbreytingum og leggja áherslu á að létt sé álögum af fólki sem þarf að nýta sér heilbrigðisþjónustu. Launafólk skorast ekki nú frekar en fyrri daginn undan því að ganga til kjarasamninga og virða þá en ljóst er að nú liggur ábyrgðin hjá atvinnurekendum og hinu opinbera að bjóða ásættanlega lausn á vinnumarkaði,“ 

Fjöldi sveitarfélaga hefur hækkað verð í sund

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verðbreytingar á gjaldskrám sundstaða hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins frá 1. janúar 2013. til 1. janúar 2014.  Sjö sveitarfélög af þeim fimmtán sem skoðuð voru hafa hækkað gjaldið á stökum miða í sund fyrir fullorðna. Árskort fullorðinna hefur einnig hækkað í verði hjá 7 sveitarfélögum af 15. Sveitarfélagið Árborg er eitt af þeim sveitarfélögum sem hefur hækkað verð á stökum miða og árskortum fullorðinna.
 
 
Gjaldskrá fullorðinna
Stakt gjald í sund kostar nú 527 kr. þegar tekið er meðalverð 15 stærstu sveitarfélaganna. Sjö sveitarfélög hafa hækkað gjaldið á stakri sundferð milli ára. Mesta hækkunin er 20% hjá Fjarðabyggð eða úr 500 kr. í 600 kr. Minnsta hækkunin er 4% hjá Ísafjarðarbæ eða úr 530 kr. í 550 kr. og um 4% hjá Mosfellsbæ úr 550 kr. í 570 kr. Eins og sést á töflunni hér fyrir neðan er lægsta staka gjaldið 400 kr. hjá Reykjanesbæ og Akraneskaupstað en hæsta staka gjaldið 600 kr. hjá Reykjavíkurborg, Fjarðarbyggð og Sveitarfélaginu Árborg.
 
 

Sjá frétt á heimasíðu ASÍ

Báran til sáttasemjara

Ríkissáttarsemjari boðaði í fyrradag á fund sinn samninganefndir þeirra félaga SGS sem felldu kjarasamninga.

Fulltrúar Bárunnar, stéttafélags mættu á fund Ríkissáttasemjara í gær.

Á fundinn mættu einnig framkvæmdarstjóri og aðstoðarframkvæmdastjórar Samtaka atvinnulífsins.

Fundurinn var fyrst og fremst boðaður til að þreifa á aðilum og fá útskýringar á viðbrögðum í kjölfar þess að kjarasamningar voru felldir með meirihluta atkvæða í síðustu viku.

Ekki hefur verið boðaður annar fundur en þreufingar halda áfram.

Báran felldi samningana

Niðurstaða liggur fyrir í atkvæðagreiðslu félagsmanna Bárunnar, stéttarfélags um kjarasamningana sem undirritaðir voru af samninganefndum ASÍ og SA þ. 21. desember sl.

Niðurstaðan er sem hér segir:

Á kjörskrá voru 1544

Alls greiddu 176 félagsmenn atkvæði eða 11,40%.

 Já sögðu 53 eða alls 30%

 Nei sögðu 118 eða alls 67%

 5 skiluðu auðu eða alls 3%.

 

 Samningurinn er því felldur.

Niðurstöðu í öðrum félögum má sjá hér, á heimasíðu ASÍ

https://asi.is/desktopdefault.aspx/tabid-2/19_read-4016

Kjörfundi lýkur á miðvikudag

Ákveðið hefur verið að framlengja kosningu um kjarasamningana sem undirritaðir voru þann 21. desember síðastliðinn. Kjörfundi líkur kl. 12.00 á hádegi nk. miðvikudag í stað þriðjudags.  Send voru út bréf til félagsmanna sem starfa eftir samningi við Samtök atvinnulífsins, þ.e. þeirra sem starfa á almenna markaðinum.  Í sendingunni til félagsmanna eru kjörgögn með notandanafni og lykilorði inn á rafrænan atkvæðaseðil á heimasíðu Bárunnar, stéttarfélags.  Einnig er hægt að greiða atkvæði á skrifstofu félagsins. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á skrifstofu félagsins í síma 480-5000.

Aðstoð við rafræna kosningu

Um helgina er hægt að fá aðstoð í gegnum síma við að kjósa rafrænt. Halldóra og Þór eru á vaktinni í síma 896-5724 og 865-6020. Einnig er hægt að koma við á skrifstofunni á mánudag og þriðjudagsmorgun. Það verður heitt kaffi á könnunni.

Ertu búin/nn að kjósa?

Nú standa yfir kosningar um kjarsamninga á almennum vinnumarkaði.  Hægt er að fá aðstoð yfir helgina við að kjósa hjá Halldóru í síma 896-5724 eða hjá Þór í síma 865-6020.  Ef lykilorð virkar ekki þá er hægt að nálgast leiðbeiningar ofar á síðunni. Við hvetjum alla félagsmenn til að nýta atkvæðaréttinn.