Við vinnum fyrir þig

Translate to

Greiðslur í ræstingum breytast

Greiðslur fyrir tímamælda ákvæðisvinnu í ræstingum breytast frá og með næsta samningstímabili.  Samkvæmt kjarasamningi á almennum vinnumarkaði tekur breytingin í gildi frá og með 1. febrúar nk. Meginbreytingin felst í því að nú er verið að taka mið af því samningsumhverfi sem gildir almennt fyrir félagsmenn innan Starfsgreinasambands Íslands (SGS) þar sem álagstímabil fyrir eftirvinnu hefst kl. 17.00 virka daga og mun sama launatafla gilda fyrir ákvæðisvinnu í ræstingu og aðra starfahópa. Þessi breyting er ekki síst til komin í kjölfar aukinna útboða á ræstingum. Útboðin hafa leitt til þess að sá ávinningur sem fólst í því að hægt væri að ljúka verkinu með færri vinnustundum en greitt var fyrir, hefur nánast horfið og er víðast hvar eingöngu greitt fyrir staðinn tíma.

Tímamæld ákvæðisvinna við ræstingu er greidd samkvæmt þremur meginkjarasamningum sem gilda hjá SGS, þ.e. á almenna markaðnum við Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkið. Það er þó mismunandi eftir kjarasamningum hvenær næsta samningstímabil hefst og þá eins hvenær nýtt kerfi tekur gildi. Hjá ríkinu verður greitt samkvæmt nýju kerfi frá og með 1. febrúar 2014 en hjá öðrum sveitarfélögum frá og með 1. mars 2014. Í kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins var gert ráð fyrir að nýja greiðslufyrirkomulagið myndi gilda til 1. febrúar 2014 sem var sú dagsetning sem að nýr samningur átti upphaflega að taka gildi. Samningstímabilinu var hins vegar flýtt um tvo mánuði sem þýðir að í þeim samningaviðræðum sem eiga sér nú stað þarf að taka ákvörðun um greiðslur fyrir tímamælda ákvæðisvinnu fyrir desember og janúar næst komandi.

Meginbreytingin felst í því að nú er verið að taka mið af því samningsumhverfi sem gildir almennt fyrir félagsmenn innan SGS þar sem álagstímabil fyrir eftirvinnu hefst kl. 17.00 virka daga. Í kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins mun álagstímabilið breytast í áföngum, þar sem að frá 1. janúar 2015 fer það úr klukkan 18.00 í 17.00 og úr klukkan 07.00 í 08.00.

Þá er einnig nýmæli að lágmarkstaxtar fyrir tímamælda ákvæðisvinnu í ræstingum taka framvegis mið af gildandi launatöflu líkt og ræsting í tímavinnu og ræsting í vaktavinnu. Sú breyting þýðir jafnframt að starfsaldurshækkanir munu gilda fyrir þá sem vinna í ákvæðisvinnu. Ákvæðisvinnuálag fyrir tímamælda ákvæðisvinnu er 20%, þar af er 8% álag fyrir neysluhlé. Í kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins er lágmarkstaxti fyrir tímamælda ákvæðisvinnu við ræstingar launaflokkur 2, auk 20% ákvæðisvinnuálags. Til viðbótar kemur 33% eftirvinnuálag virka daga á kvöldin og 45% álag á nóttunni og um helgar. Fyrir vinnu umfram 40 stundir á vikur er greitt 80% yfirvinnuálag.

Líkt og ávallt hefur gilt fyrir tímamælda ákvæðisvinnu í ræstingu er mjög mikilvægt að skrifleg verklýsing ásamt ræstingartíðniteikningu liggi fyrir sem afmarkar skýrt það sem þrífa á og með hvaða áherslum. Tekið skal fram á hvaða tíma dags svæðið skal ræst og hve oft. Ekki var greitt sérstakt ákvæðisvinnuálag í því greiðslufyrirkomulagi sem gilti áður heldur átti ávinningurinn að felast í því að ljúka verkinu á skemmri tíma en sem nam þeim vinnustundafjölda sem greiddir voru. Nýtt fyrirkomulag ætti því alla jafna að fela í sér að greiddir verði færri tímar fyrir verkið. Það er þó með afar misjöfnum hætti hvernig slík breyting verður hjá hverjum og einum starfmanni og því mikilvægt að verklýsingar séu skýrar.

Fyrirkomulag ræstingarvinnu fyrir tímavinnu og vaktavinnu verður óbreytt. Lágmarkstaxtar fyrir tímavinnu eða dagræstingu er launaflokkur 2 í kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins og greiðist 80% yfirvinnuálag eftir kl. 17.00 virka daga og um helgar. Lágmarkstaxtar fyrir ræstingu í vaktavinnu er launaflokkur 6 í kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins þar sem vaktir þurfa að vera fyrirfram skipulagðar og getið um það í ráðningarsamningi.

Nánari upplýsingar um launataxta og álagsgreiðslur í einstökum kjarasamningum er hægt að sjá á heimasíðu SGS undir „Kaup & kjör“.

 Tekið af heimasíðu SGS

Leiðbeiningar vegna atkvæðagreiðslu

Rafræn atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna Bárunnar, stéttarfélags sem vinna á almennum vinnumarkaði er hafin. Hér eru fyrir neðan eru leiðbeiningar til að geta greitt atkvæði um kjarasamningana.  Athugið að þeir sem vinna eftir kjarasamningum við ríki og sveitarfélög greiða ekki atkvæði í þessari kosningu. Kjarasamningurinn er borinn undir atkvæði félagsmanna í leynilegri, rafrænni atkvæðagreiðslu sem líkur kl. 12.00 á hádegi þriðjudaginn 21. janúar 2014. 896

Félagsmenn geta fengið aðstoð við að kjósa rafrænt yfir helgina hjá Halldóru í síma 896-5724 eða Þór í síma 865-6020.

 

Atkvæðagreiðslan fer fram á:

Kjörseðill minniKjörseðill minniEkki lengur hægt að kjósa

 

Félagsmenn þurfa að skrá sig inn með sínu notandanafni og lykilorði sem þeir fengu sent í pósti. Eftir innskráningu birtist atkvæðaseðilinn. Kjörgögn voru send út á föstudaginn og ættu að berast til félagsmanna næstu tvo daga. Einnig er hægt að kjósa á skrifstofu félagsins.

ATH nota þarf bandstrik í kennitölu.

ATH ef þú vilt ekki taka afstöðu ýtir þú á senda án þess að merkja við já eða nei.

ATH ef fleiri en einn kjósa í sömu tölvu þarf að gæta þess að sá sem búinn er að kjósa skrái sig út á eftirfarandi hátt: Efst á skjánum er svört rönd, lengst til hægri er kennitalan og þar þarf að skrá sig út áður en næsti getur kosið.

Virkar ekki lykilorðið? Möguleiki er að lítið L sé stórt i  eða að stórt i sé lítið L. Einnig getur stafurinn o verið núll eða öfugt.

 Þeir sem ekki fá send kjörgögn eru beðnir að hafa samband við skrifstofu félagsins í síma 480-5000. Athugið að kosningu lýkur kl. 12.00 þann 21. janúar nk. og verður þá lokað fyrir aðgang.

 

 

 

 

Rafræn atkvæðagreiðsla um nýja kjarasamninga

Á morgun þriðjudag kl. 12.00 hefjast kosningar um kjarasamningana sem undirritaðir voru þann 21. desember síðastliðinn. Kjarasamningurinn verður borinn undir atkvæði félagsmanna í leynilegri, rafrænni atkvæðagreiðslu sem líkur kl. 12.00 á hádegi þriðjudaginn 21. janúar 2014.  Á föstudaginn voru send út bréf til félagsmanna sem starfa eftir samningi við Samtök atvinnulífsins, þ.e. þeirra sem starfa á almenna markaðinum.  Í sendingunni til félagsmanna eru kjörgögn með notandanafni og lykilorði inn á rafrænan atkvæðaseðil á heimasíðu Bárunnar, stéttarfélags.  Einnig er hægt að greiða atkvæði á skrifstofu félagsins. 

Athugið að opnað verður fyrir aðgang klukkan 12.00 á morgun þriðjudag.

Við hvetjum alla félagsmenn til að tjá skoðun sína á samningunum með því að taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Þeir sem telja sig hafa atkvæðisrétt en fá ekki kjörgögn eru beðnir um að hafa samband við skrifstofu félagsins í síma 480-5000.

Ítarlegt kynningarefni á íslensku, pólsku og ensku um samninginn er hægt að nálgast hægra megin á heimasíðu félagsins.

Í TILEFNI UMRÆÐU UM KJARASAMNINGA 12. JANÚAR 2014

 

Tekið af vef Starfsgeinasambandsins:

Mikil umræða hefur farið fram í fjölmiðlum og víðar um nýgerða kjarasamninga sem félagsmenn okkar eru þessa dagana að greiða atkvæði um.

Umræða um kjaramál er góð en þó þarf að gæta sanngirni og að fólk geti treyst því að rétt sé farið með. Rétt er að koma því á framfæri að mikil og góð samstaða var innan samninganefndar SGS þegar kröfugerð sambandsins var mótuð. Krafan var að hækka lægstu taxta um 20.000 krónur og önnur laun tækju 7% hækkun.

 Þarna verður að hafa í huga að Starfsgreinasambandið semur fyrir fólk sem er með lægstu launin á almenna vinnumarkaðnum. Með kröfunni um 7% hækkun var ekki verið að leggja til að hálaunafólk fengi slíka hækkun enda er það fólk ekki innan raða SGS. Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur alltaf hafnað því að kröfugerð sambandsins leiddi til aukinnar verðbólgu enda ber SGS ekki ábyrgð á launaskriði millitekju- og hálaunafólks.

Nauðsynlegt er að hafa það í huga í umræðum um kröfugerðir annars vegar og fyrirliggjandi samninga hinsvegar. Samningaviðræðurnar voru erfiðar og ljóst að Samtök atvinnulífsins ætluðu ekkert að gefa eftir og höfnuðu því lengst af að fara upp fyrir 2% almenna hækkun hvað þá að hækka lægstu laun sérstaklega um ákveðna krónutölu. Þeir samningar sem nú liggja fyrir voru að mati meirihluta samninganefndar SGS eins góðir og hægt var að ná á þessum tímapunkti og var niðurstaðan að leggja þá í dóm almennra félagsmanna.

Almennur félagsfundur

Nú þarft þú að taka ákvörðun kæri félagi og láta að þér kveða.

Almennur félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags verður haldinn
að Austurvegi 56 3. hæð mánudaginn 13. janúar kl. 18:00

Dagskrá:
1. Kynning á kjarasamningum sem undirritaðir voru þann 21. desember 2013.
2. Önnur mál.

Stórum spurningum þarf að svara. Hver er hagurinn í því að samþykkja samningana,
hvað gerist ef þeir verða felldir? 

Eins og kunnugt er þá skrifaði formaður félagsins Halldóra Sigr. Sveinsdóttir ekki undir samninginn. Á fundinum mun Halldóra svara fyrir þessa ákvörðun sína.Forystu félagsins er nauðsynlegt að heyra í félagsmönnum og fá að vita þeirra afstöðu. Kæru félagar mætum öll og tökum ábyrgð á eigin málum. Kosningin um kjarasamninginn verður rafræn í gegnum heimasíðu félagsins.
Á næstu dögum verða send aðgangsorð og kjörgögn til þeirra sem greitt hafa til félagsins síðastliðna sex mánuði.
Einnig verður hægt að kjósa á skrifstofu félagsins. Skrifstofan er opinn frá 08:00-16:00.Fulltrúar félagsins eru tilbúnir til að mæta á vinnustaðafundi sé þess óskað.Nánari upplýsingar á skrifstofu félagsins í síma 480 5000.

Ýtarlegt kynningarefni er á heimsíðu félagsins. www.baran.is
f.h. samninganefndar Bárunnar, stéttarfélags,

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir

Fundur samninganefndar um kjarasamningana

Stjórn og og trúnaðarmenn Bárunnar sem skipa samninganefnd félagsins komu saman  nú fyrir helgi þar sem staðan var tekin varðandi kjarasamninginn sem skrifað var undir 21. des sl.

Sem kunnugt er og fram hefur komið í fjölmiðlum, var formaður Bárunnar einn fimm formanna sem skrifaði  ekki undir samninginn. Formaður útskýrði þá ákvörðun sína, en jafnframt væri eðlilegt að bera endanlega ákvörðun undir atkvæði félagsmanna.

 Ákveðið var að kosning yrði rafræn og verður nánar auglýst í staðarblöðum á næstu dögum hvernig henni verður háttað.

Kynning á kjarasamningi sem skrifað var undir 21. desember

Kaupliðir
 

Almenn launahækkun

Hinn 1. janúar 2014 skulu laun hækka um 2,8%, þó að lágmarki kr. 8.000 á mánuði fyrir dagvinnu miðað við fullt starf. Aðrir kjaratengdir liðir hækka um 2,8% á sama tíma.

 Sérstök hækkun kauptaxta

Í stað áðurgildandi kauptaxta komi nýir sem eru hluti samninga viðkomandi aðildarsamtaka ASÍ. Launataxtar undir 230.000 kr. á mánuði hækka sérstaklega um 1.750 kr. Kauptaxtar gilda frá 1. janúar 2014.

 Lágmarkstekjur fyrir fullt starf

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf skv. kjarasamningum viðkomandi aðildarsamtaka ASÍ skulu vera kr. 214.000 frá 1. janúar 2014 fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki.

 Desember- og orlofsuppbót

Desemberuppbót  miðað við fullt starf er á árinu 2014 kr. 53.600 (VR/LÍV 60.900).

Orlofsuppbót (1.maí til 30. apríl) miðað við fullt starf er á árinu 2014 kr. 29.500 (VR/LÍV 22.200).

 Framlög til fræðslu- og starfsmenntasjóða hækka um 0,1%.

 

Samningurinn í heild sinni

 

Kjarasamningur 21.12.2013

 

Nýji kjarasamningurinn hamfarasamningur

Í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær var rætt við Halldóru S. Sveinsdóttur formann Bárunnar, stéttarfélags um nýjan kjarasamning Alþýðusambands Íslands við Samtök atvinnulífsins. Í viðtalinu kom fram að 45% af félagsmönnum  Bárunnar eru á lágmarkstöxtum og skilar samningurinn litlu til þeirra. Ekki er hægt að sætta sig við slíkan samning. Viðtalið er hægt að nálgast hér.