Við vinnum fyrir þig

Translate to

Viðtal við Halldóru Sveinsdóttur formann Bárunnar á Rás 2

Í gær ræddi morgunútvarp Rásar 2 við  Halldóru S. Sveinsdóttur, formann Bárunnar-stéttarfélags og Arnar G. Hjaltalín, formann Drífandi-stéttarfélags í Vestmannaeyjum um kosningarnar framundan og þau mál sem efst eru á baugi í Suðurkjördæmi. Atvinnumál, kjaramál,  samgöngur og aðgangur að heilbrigðisþjónustu voru meðal þess sem bar á góma.

Read more „Viðtal við Halldóru Sveinsdóttur formann Bárunnar á Rás 2“

Fáheyrður atburður í versluninni Kosti

Eigandi Kosts, Jón Gerald Sullenberger, reyndi að meina starfsfólki verðlagseftirlits ASÍ að framkvæma verðkönnun í verslun Kosts í dag og krafðist þess að fulltrúar verðlagseftirlitsins yfirgæfu verslunina. Starfsfólk verðlagseftirlitsins benti Jóni Gerald á að verslunin væri opin almenningi og að lögum samkvæmt ættu verð að vera öllum aðgengileg. Starfsmenn verðlagseftirlitsins væru því í fullkomlega lögmætum tilgangi í versluninni og myndu halda verðkönnuninni áfram.

Jón Gerald sætti sig ekki við þetta og kallaði til lögreglu og óskaði eftir atbeina hennar við að vísa fulltrúum verðlagseftirlitsins á dyr. Lögreglan mætti á staðin og eftir að hafa ráðfært sig við lögfræðing þá taldi lögreglan ekki ástæðu til að aðhafast neitt. Fulltrúar verðlagseftirlitsins ætluðu þá að halda áfram að sinna sínu starfi en nú brá svo við að Jón Gerald hrifsaði gögn af starfsmanni verðlagseftirlitsins, hindraði för starfsmanna verðlagseftirlitsins um verslunina og hafði í frammi ógnandi tilburði. Starfsmenn verðlagseftirlitsins sáu því þann kost vænstan að hverfa á braut.

Þess má geta að Kostur er þar með eina verslunin sem ekki er með í verðkönnun ASÍ sem birt verður síðar í vikunni en bæði Nóatún og Víðir heimiluðu verðtöku eftir nokkurt hlé.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Á ferð um félagssvæðið

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags og Gils Einarsson formaður Verslunarmannafélags Suðurlands heimsóttu í dag fyrirtæki á Laugarvatni og í Grímsnesi. Þau hittu félagsmenn og forsvarsmenn fyrirtækja.  Á ferð sinni komu þau við á Menntaskólanum á Laugarvatni og færðu skólanum Sögu ASÍ að gjöf. Páll Skúlason aðstoðarmeistari tók á móti gjöfinni fyrir hönd skólans.  Einnig hittu þau Ingibjörgu Harðardóttur sveitarstjóra Grímsnes og Grafningshrepps og færðu henni bókina að gjöf fyrir hönd hreppsins.  Meðfylgjandi eru myndir úr ferðinni.

5. apríl 2013 Grímsnes Laugarvatn 012 5. apríl 2013 Grímsnes Laugarvatn 015 5. apríl 2013 Grímsnes Laugarvatn 008 5. apríl 2013 Grímsnes Laugarvatn 006 5. apríl 2013 Grímsnes Laugarvatn 005 5. apríl 2013 Grímsnes Laugarvatn 002

 

 

Allt að 86% verðmunur á skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu hjá 22 hjólbarðaverkstæðum víðsvegar um landið sl. miðvikudag. Mestur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti á jeppa með 18´´ stálfelgum (265/60R18) sem var ódýrust á 6.982 kr. hjá Bifreiðaverkstæði S.B á Ísafirði en dýrust á 12.985 kr. hjá Brimborg – Max 1, verðmunurinn var 6.003 kr. eða 86%. Fyrir álfelgu af sömu stærð er þjónustan ódýrust hjá Hjólbarða og smurþjónustunni Klöpp á 6.900 kr., en dýrust á 11.860 kr. hjá Brimborg – Max 1, verðmunurinn var 4.960 kr. eða 72%.

Minnstur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti undir smábíl og meðalbíl á 14, 15 og 16´´ stálfelgu (175/65R14, 195/65R15 og 205/55R16), sem var ódýrust á 5.390 kr. hjá Nýbarða, en dýrust á 7.360 kr. hjá Öskju, verðmunurinn var 1.970 kr. eða 37%. Fyrir álfelgu af sömu stærð er þjónustan ódýrust á 5.490 kr. hjá VDO Borgardekk en dýrust á 7.939 hjá Brimborg – Max 1, verðmunurinn var 2.449 kr. eða 45%.

Skipting, umfelgun og jafnvægisstilling fyrir jeppling (t.d. Toyota Rav) á 16´´ álfelgum (225/70R16) var ódýrust á 5.900 kr. hjá Nicolai en dýrust á 9.889 kr. hjá Brimborg – Max 1, verðmunurinn var 3.989 kr. eða 68%. Fyrir bíl með stálfelgu af sömu stærð var þjónustan ódýrust á 5.900 kr. hjá Nicolai en dýrust á 9.000 kr. hjá VIP dekk, verðmunurinn var 3.100 eða 53%.

Sjá nánar niðurstöður í töflu á heimasíðu ASÍ

Dekkjahöllin, Hjólbarðaverkstæði Kaldársels, Bón og púst, Bílaáttan, Kvikkfix, Pústþjónusta BJB, Hjólbarðaverkstæði Ísafjarðar, Nesdekk, Gúmmívinnslan og Toyota Egilsstöðum gerðu verðlagseftirlitinu ókleift að framkvæma verðkönnun.

Kannað var verð á þjónustu við dekkjaskiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu á álfelgum og stálfelgum af stærðum 14,15,16 og 18´´ á 22 hjólbarðaverkstæðum í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Ísafirði, Egilsstöðum og Selfossi. Verð í könnuninni eru án afsláttar en mörg þeirra bjóða ýmsa afsætti t.d. FÍB, eldri borgara- og staðgreiðsluafslátt. Viðskiptavinir eru hvattir til að spyrja um afslátt.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð á þjónustu að ræða en ekki var lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Formenn á ferðalagi

Þau Gils Einarsson formaður Verslunarmannafélags Suðurlands, Halldóra Sigríður Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags og Þór Hreinsson skrifstofustjóri Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna eru þessa dagana á ferðalagi um félagsvæði félaganna. Þau hafa hitt forsvarsmenn fyrirtækja og sveitarfélaga auk trúnaðar- og félagsmanna. Megintilgangurinn er að heyra í hagsmunaaðilum á svæðinu um hvernig ástandið er í atvinnumálum. Einnig koma þau færandi hendi því á ferð sinn hafa þau komið við á bókasöfnum sveitarfélaganna og gefið þeim eintak af ný útkomnu og vönduðu ritverki, Saga Alþýðusambands Íslands.

Hér eru nokkrar myndir úr ferðalaginu Read more „Formenn á ferðalagi“

Allt að 35% verðmunur á páskaeggjum

Algengast er að 20-30% verðmunur sé á hæsta og lægsta verði á páskaeggjum milli matvöruverslana að því er fram kemur í nýrri verðkönnun sem Verðlagseftirlit ASÍ gerði í verslunum á höfuðborgarsvæðinu í vikunni. Bónus var oftast með lægsta verðið á þeim eggjum sem skoðuð voru en Samkaup-Úrval og Iceland voru oftast með hæsta verðið. Flest páskaeggin í könnuninni voru fáanleg í Iceland og Fjarðarkaupum en fæst í Kosti og Nóatúni.

Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni eða á 19 af þeim 27 tegundum páskaeggja sem kannað var verð á. Af þeim 18 tegundum eggja í könnuninni sem unnt var að bera saman verð á milli Bónuss og Krónunnar reyndist einungis 1 krónu verðmunur á verslunum tveimur í 11 tilvikum og innan við 10 króna verðmunur í 15 tilvikum.

Hæsta verðið í könnuninni var oftast í Samkaupum-Úrvali eða á 10 páskaeggjum af 27 og í Iceland sem reynst 8 sinnum með hæsta verðið.

Flest páskaeggin í könnuninni voru fáanleg í Iceland sem átti öll eggin sem skoðuð voru, í Fjarðarkaupum voru 26 af 27 tegundum fáanlegar og í Hagkaupum 25 tegundir. Fæst eggjanna voru fáanleg í Kosti eða 5 talsins en af þeim tegundum sem könnunin náði til  voru aðeins fáanleg egg frá Góu í Kosti. Í Nóatúni voru 12 af þeim 27 eggjum sem skoðuð voru fáanleg.

Oftast var 20-30% munur á hæsta og lægsta verði páskaeggjanna í könnuninni. Sem dæmi má nefna að 25% verðmunur var á 320 gr. páskaeggi nr. 4 frá Nóa Síríus sem var ódýrast á 1.279 kr. í Bónus en dýrast á 1.598 kr. í Samkaupum–Úrvali, en það er 319 kr. verðmunur. Þá var 35% verðmunur á 250 gr. páskaeggi nr. 4 frá Freyju sem var ódýrast á 995 kr. í Krónunni en dýrast á 1.346 kr. í Iceland sem er 351 krónu verðmunur.  Minnstur verðmunur í könnuninni var á Góu páskaeggi nr. 6 sem var ódýrasta á 1.549 kr. í Kosti en dýrast á kr. 1.799 í Nettó sem er 16% verðmunur.

Sjá nánar niðurstöður í töflu á heimasíðu ASÍ

Verðkönnunin tók til algengra páskaeggja frá íslenskum framleiðendum.

Könnunin var gerð í samtímis í eftirfarandi verslunum þriðjudaginn 19. mars: Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Hagkaupum, Fjarðarkaupum, og Samkaup-Úrvali. Vegna þeirra þeirra afstöðu verslana Kosts, Nóatúns og Víðis að vísa fulltrúum verðlagseftirlitsins á dyr voru verð tekin í þeim verslunum miðvikudaginn 20. mars.  

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Tekið af heimasíðu ASÍ

Virðing + mikilvægi = Hærri laun

Góð mæting var hjá félagsmönnum Bárunnar, stéttarfélags á  ræstingaráðstefnu sem haldin var á Hótel Selfossi þann 18. mars sl. Félagsmenn Bárunnar eru 2500, þar af eru 120 sem skráðir eru í ræstingum. Þessi hópur er mjög dreifður og hefur jafnvel ekki fasta starfsstöð. Tilgangur ráðstefnunnar var að nálgast þennan hóp betur og finna út hvað helst brennur á starfsmönnum i ræstingum. Yfirskrift ráðstefnunnar var virðing + mikilvægi = hærri laun. Eins og yfirskriftin ber með sér voru umræðurnar líflegar og skemmtilegar. Farið var yfir stöðu ræstingafólks og ýmis mál þeim tengdum. Árni Steinar sérfræðingur hjá SGS fór yfir uppmælingaþjónustu og    kjarasamninga. Sesselja Eiríksdóttir fór yfir ræstingamál almennt, möguleika og framtíðarsýn. Tveir frábærir fyrirlesttrar hjá þeim Jóhönnu Guðmundsdóttur sem vinnur í ræstingum á HSU „Virðing fyrir starfinu“ og Kristrúnu Agnarsdóttur hjá ISS „Að skúra sig upp“. Að lokum var farið í hópavinnu.

 Ýmislegt kom í ljós þegar félagsmenn fóru að bera saman bækur sínar.  Helstu atriðin voru þessi.

  1. Að hafa gaman af starfinu og bera virðingu fyrir því.
  2. Aukin fræðsla – meiri virðing – betri laun?
  3. Að bæta upplýsingastreymi milli deilda, yfirmanna og starfsmanna.
  4. Hækka laun
  5. Bæta kaflann um vinnuföt t.d. skór
  6. Bæta skilgreiningar í samningnum t.d. hvað þýðir „eftir þörfum“?  Einnig að starfslýsing, ræstingasvæði sé alveg skýrt við ráðningu.

Þetta er ekki tæmandi listi yfir þau mál sem báru á góma en er gott fóður fyrir komandi kjarasamninga og  vill félagið hér með koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem komu að þessari ráðstefnu.

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður.

 

  Ræstingarráðstefna 027 Ræstingarráðstefna 023

Ræstingarráðstefna 037Ræstingarráðstefna 034

Góður fundur með frambjóðendum

 Stéttarfélögin á Suðurlandi héldu sameiginlegan fund með frambjóðendum þeirra framboða sem hyggja á framboð í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum.

Fundurinn fór hið besta fram og greinilegt að kosningabaráttan verður með fjörugasta móti fyrir þessar kosningar.

Tólf framboð fengu boð um fundinn og mættu tíu til fundarins.

Fram kom að nýju framboðin boða aðra hugsun í stjórnmálum en áður hefur heyrst en eftir á að koma í ljós hver ahrif málflutningur þeirra hefur haft í aðdraganda kosninga.

Eftirfarandi framboð sendu fulltrúa:

Björt framtíð

Vinstri grænir

Hægri grænir

Alþýðufylkingin

Framsóknarflokknum

Sjálfstæðisflokknum

Regnboganum

Lýðræðisvaktin

Pírataflokkurinn

Samfylkingin

Röggsamur fundarstjóri fundarstjóri var Pamela Morrisson og Þór Hreinsson sinnti tímavörslu.

Stéttarfélögin vilja þakka fundargestum og frambjóðendum fyrir komuna og vonast til að þessi fundur hafi orðið til að skýra stefnur flokkanna sem áætla að bjóða fram í næstu alþingiskosningum sem fram fara 27. apríl nk.

Myndirnar tók Tómas Jónsson fyrir stéttarfélögin.

Meðfylgjandi myndir tók Tómas Jónsson fyrir stéttarfélögin. Read more „Góður fundur með frambjóðendum“

Opinn fundur annað kvöld með frambjóðendum

Fundur verður með frambjóðendum allra flokka sem munu bjóða fram lista sína í Suðurkjördæmi vegna alþingiskosninganna nú í vor

Fundarstaður verður Hótel Selfoss  miðvikudaginn 20. mars kl : 19:00    

Til fundarins boða eftirtalin stéttarfélög:

Verslunarmannafélag Suðurlands,

Báran, stéttarfélag,

Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi,

Félag iðn- og tæknigreina og

Verkalýðsfélag Suðurlands

Á fundinum munu frambjóðendur svara spurningum frá stéttarfélögunum og fundargestum úr sal. Fundurinn er öllum opinn.