Við vinnum fyrir þig

Translate to

Fundur um feril kjaraviðræðna

Ríkissáttasemjara í samstarfi við helstu samtök og stéttarfélög á vinnumarkaði sem vinna að gerð kjarasamninga funduðu  í dag með erlendum sérfræðingum um samningatækni og feril kjaraviðræðna.  Sérfræðingur í samningatækni frá Harvard  flutti erindi. Að auki kynntu fulltrúar frá stéttarfélögum í Svíþjóð, Noregi og Danmörku tilhögun og umgjörð kjarasamninga. Öll aðildarfélög ASÍ og þar á meðal Báran, stéttarfélag voru boðuð til fundarins.

Köllum til ábyrgðar þá sem standa fyrir vaxtaokri á íslenskum lánamarkaði.

Að nýloknu 40. þingi ASÍ er margt sem fer í gegnum huga manns. Á þinginu voru 290 þingfulltrúar þeirra rúmlega 100.000 launamanna sem eru innan ASÍ. Yfirskrift þingsins var atvinna og verlferð í öndvegi.  Félagsmenn innan aðildarfélaga ASÍ eru starfandi á flestum sviðum samfélagsins, hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði. Alþýðusambandið berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna, kemur fram fyrir hönd aðilarfélaganna, gagnvart stjórnvöldum, atvinnurekendum, stofnunum, hagsmunasamtökum og hvers konar alþjóðlegum samtökum.

Fyrir þinginu lágu þrjú megin málefni.

  • Atvinnumál, og þeim tengd mennta- og vinnumarkaðsmál.
  • Húsnæðismál.
  • Lífeyrismál.

Skipt var í hópa og allir þingfulltrúarnir lögðu sitt á vogarskálarnar í þeim umræðum og niðurstöðum sem lágu til grundvallar þeim ályktunum sem urðu síðan niðurstöður þingsins. Ályktanirnar sem samþykktar voru á þinginu eru samtas 7 og tekur á flestum þeim málefnum sem varða hinn íslenska launþega. Upplýsingar um þessa vinnu og ályktanir eru á heimasíðu ASÍ (www.asi.is)

Heitustu umræðurnar urðu um verðtrygginguna og tillögu Verkalýðsfélags Akranes um að afnema verðtrygginguna. Verkalýðshreyfingunni hefur verið legið á hálsi að vera talsmaður verðtryggingarinnar, hafa menn jafnvel gegnið svo langt að persónugera Gylfa Arnbjörnsson forseta ASÍ sem helsta talsmann verðtryggingarinnar. Miklar og heitar umræður urðu um þetta og sitt sýndist hverjum. Það er ekki nokkur vafi á því að  öllum ofbýður það lánaokur sem viðgengst á íslenskum lánamarkaði. Það er ekkert samhengi milli þeirrar láglaunastefnu sem virðist vera viðloðandi á íslenskum vinnumarkaði og þeirra lánakjara sem í boði eru. Það er staðreynd að allar forsendur eru brostnar varðandi afborganir af lánum og launin halda engan vegin í við þær hækkanir. Því miður einkenndust umræðurnar um að kenna einhverjum um innan okkar raða frekar en að setjast niður og gera tillögur að því hvernig við nálgumst þetta mikilvæga hagsmunamál okkar allra þ.e.a.s létta þessu vaxtaokri sem við búum við. „Við viljum“ Burt með verðtrygginguna ! Þak á vexti ! Lægri vexti ! Þetta eru allt kröfur sem við getum öll  verið sammála um að séu réttlátar.

En spurningin er þessi. Hvernig förum við að þessu? Þetta er ekki einfalt en upphrópanir gagnast okkur ekki neitt í þessari umræðu. Við þurfum að setjast niður og fá samnigsstöðu um þessi mál með hliðsjón af okkar eigin ávöxtunarkröfu. Skoða forsendur fyrir útreikningi verðtryggingar, eru  þær forsendur eðlilegar og sanngjarnar?  Þetta er stórt mál og hagsmunir lántakanda fyrir borð bornar en lánveitandi hefur alltaf pálmann í höndunum eða eins og við segjum svo oft axlabönd og belti. Hvernig getum við breytt þessu? Ekki með upphrópunum,  við skulum standa saman og kalla á þá sem standa fyrir þessu vaxtaokri til ábygðar.

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags Selfossi.

 

Matarkarfan ódýrust hjá Bónus

Bónus var með lægsta verðið á matarkörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum á höfðuborgarsvæðinu síðastliðinn laugardag. Matarkarfan var ódýrust hjá Bónus á 16.791 kr. en dýrust hjá Nóatúni á 20.523 kr. sem er 3.732 kr. verðmunur eða 22%.

Verslunin Iceland var með næst ódýrustu matarkörfuna en þar kostaði hún 17.154 kr. sem er 2% meira en karfan hjá Bónus. Á eftir Iceland kom Krónan með matarkörfu sem kostaði 18.059 kr. sem er 8% hærra verð en hjá Bónus. Matarkarfan hjá Fjarðarkaup kostaði 18.683 kr. og var því 11% dýrari en hjá Bónus. Eins og áður segir var matarkarfan dýrust hjá Nóatúni á 20.523 kr. Verslanirnar Nettó og Hagkaup komu þar á eftir og voru 17% dýrari en karfan hjá Bónus. Kostur Dalvegi, Samkaup-Úrval og Víðir neituðu þátttöku í könnuninni.
 
 Sjá nánar í frétt á heimasíðu ASÍ
 
 

Hvort er hagstæðara að kaupa inn á föstudegi eða laugardegi?

Við samanburð verðkönnunar sem gerð var föstudaginn 26. október og verðkönnunar sem gerð var daginn eftir, á laugardegi, kom í ljós að verð á þeirri matvöru sem verðlagseftirlitið skoðaði var nánast óbreytt. Hagkaup var eina matvöruverslunin þar sem engar verðbreytingar voru á milli daganna tveggja. Verslanirnar Kostur, Samkaup Úrval og Víðir neituðu að taka þátt.

 
Verðhækkanir
Af þeim matvörum sem skoðaðar voru hækkaði verðið mest á iceberg salati, blómkáli, tómötum og agúrku hjá versluninni Nettó Mjódd eða um 43% milli daga. Aðrar vörur sem hækkuðu milli daga voru t.d. Myllu hveitibrauð sem hækkaði um 12% hjá Krónunni og Holta kjúklingapylsur um 15% hjá Nóatúni.
 
Verðlækkanir
Mesta lækkunin á milli kannanna var á kartöflum í lausu eða um -30% hjá Nettó. Sem dæmi um aðrar vörur sem lækkuðu í verði eru t.d. Bíó bú kókosjógúrt sem lækkaði um -6% hjá Nóatúni og jarðaberja Húsavíkurjógúrtið sem lækkaði um -8% hjá Bónus.   
 
Sjá nánari niðurstöður á heimasíðu ASÍ
 
Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.
 
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Kringlunni, Krónunni Granda, Nettó Mjódd, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Iceland Engihjalla, Nóatúni Hringbraut og Hagkaupum Holtagörðum.
 
Verslanirnar Kostur, Samkaup Úrval og Víðir neituðu að taka þátt í verðkönnuninni, þar sem þeir telja það ekki þjóna hagsmunum sínum að verðlageftirlit ASÍ upplýsi neytendur um verð í verslunum þeirra.
 
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.
 
Tekið af heimasíðu ASÍ
 

Náms- og starfsráðgjöf

Báran, stéttarfélag býður upp á náms- og starfsráðgjöf fyrir félagsmenn. Ráðgjöfin fer fram á Þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi. Með því að ræða við náms- og starfsráðgjafa gefst félagsmanni tækifæri til að skoða og meta eigin stöðu, til dæmis áhuga og hæfni og gera áætlun um hvert skal stefna.

  • Ráðgjöf um starfsleit. Aðstoð við gerð ferilskrár og atvinnuumsókna. Góð ferilskrá getur skipt miklu máli við að ná árangri í atvinnuleit.
  • Greining á áhugasviði.  Áhugasviðskannanir geta hjálpað fólki við að kortleggja áhuga sinn og starfsumhverfi. Boðið er upp á áhugasviðsgreininguna Í leit að starfi. Um er að ræða spurningalista sem lagður er fyrir af náms- og starfsráðgjafa. Niðurstöðurnar gefa til kynna í hvaða átt áhuginn beinist varðandi val á námi, starfi og tómstundum. Ráðgjafinn fer yfir niðurstöðurnar strax eftir að listanum hefur verið svarað. Greiningin er félagsmönnum að kostnaðarlausu.
  • Upplýsingar og ráðgjöf um námsleiðir. Veittar eru upplýsingar um nám og námskeið m.a. úrræði og styrki á vegum stéttarfélaganna. Báran, stéttarfélag styrkir félagsmenn sína til að afla sér aukinnar fræðslu.

Ráðgjöfin er félagsmönnum að kostnaðarlausu. Náms- og starfsráðgjafi þjónustuskrifstofunnar er Þór Hreinsson. Hægt er að panta viðtalstíma í síma 480-5000. Jafnframt er hægt að senda rafrænar fyrirspurnir á netfangið thor@midja.is

 

Um 60 trúnaðarmenn mættu á ráðstefnu

Trúnaðarmannaráðstefna var haldin á Hótel Selfossi í gær. Báran, stéttarfélag, Verslunarmannafélag Suðurlands, Félag iðn- og tæknigreina, Verkalýðsfélags Suðurlands og Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi stóðu í fyrsta sinn fyrir ráðstefnu af þessu tagi. Einar Gylfi Jónsson sálfræðingur hélt kynningu um samskipti og líðan á vinnustað. Sólveig Kristinsdóttir verkefnastjóri hjá Fræðsluneti Suðurlands kynnti raunfærnimat á Suðurlandi. Guðmundur Hilmarsson fjallaði um hlutverk trúnaðarmannsins á vinnustað. Að lokum var slegið á létta strengi með Sigríði Klingenberg sem ræddi um samskiptatækni.

Fyrirtæki ársins 2012

Báran, stéttarfélag og Verslunarmannafélag Suðurlands standa fyrir vali á fyrirtæki ársins á Suðurlandi. Tilgangurinn með átakinu er að kanna nokkra lykilþætti hjá fyrirtækinu sem varðar félagsmenn. Könnunin mælir m.a. hversu vel svarendum líður í vinnunni, stjórnun, starfsanda og ánægju með símenntunarstefnu fyrirtækisins. Að auki verður lögð til grundvallar samskipti stéttarfélaganna við fyrirtækið vegna félagsmanna.

Könnunin var send í vikunni til allra félagsmanna og er skilafrestur til 14. nóvember nk. Valið verður kynnt við hátíðalega athöfn í lok nóvember þar sem veitt verða verðlaun og viðurkenningarskjal. Niðurstaðan verður birt á heimasíðu félaganna og send fjölmiðlum. Spurningalistinn er jafnframt happadrættismiði og verður dregið úr innsendum svörum. Í verðlaun eru tvær veglegar matarkörfur frá Sláturfélagi Suðurlands. Dregið verður þann 4. desember nk. og vinningsnúmerin síðan birt á heimasíðu félaganna.

ASÍ þingi lokið

Þriggja daga þingi Alþýðusambands lauk í dag. Ragnar Þór Ingólfsson þingfulltrúi úr VR bauð sig fram gegn Gylfa Arnbjörnssyni sitjandi forseta. Gylfi hlaut 69,8% atkvæða en Ragnar Þór 30,2%. Gylfi Arnbjörnsson er því réttkjörinn forseti ASÍ til ársins 2014 en hann var fyrst kjörinn í embættið í október árið 2008.  Páll Líndal þingfulltrúi bauð sig fram gegn sitjandi varforseta Signýju Jóhannesdóttur.  Signý hlaut  59,5% en Páll 40,5%.  Á þinginu voru til umfjöllunar mörg mál varðandi stefnumörkun Alþýðusambandsins.  Ályktanir um kjaramál, Evrópumál, atvinnumál, húsnæðismál og lífeyrismál sem  samþykktar voru þinginu eftir undangengna hópa- og nefndarvinnu má nálgast á heimasíðu ASÍ.

Samanburður á æfingagjöldum

Mörg börn á landinu æfa íþróttir yfir vetrartímann. Verðlagseftirlit ASÍ tók saman hvað það kostar að æfa handbolta og fimleika hjá fjölmennustu íþróttafélögum landsins í þessum greinum. Mikill verðmunur er á hæsta og lægsta verði námskeiðanna en mestur er verðmunurinn 148% á 4 klst. fimleikanámskeiði fyrir 8-10 ára börn.

  
Fimleikar
Verðlagseftirlitið bar saman gjaldskrá fyrir 6-8 ára börn sem æfa 2 klst. á viku og fyrir 8-10 ára börn sem æfa 4 klst. á viku, en tekinn er saman æfingakostnaður fram að jólum (4. mánuðir). Ekki er tekið tillit til þess hvaða tegund fimleika sé verið að æfa (t.d. almenna, hóp- eða áhalda). Öll félögin eiga það sameiginlegt að setja saman gjaldskrá eftir fjölda klukkustunda sem æft er í viku hverri.
 
Dýrast er að æfa 2 klst. á viku fyrir 6-8 ára börn en það kostar 40.617 kr. hjá Gerplu en er ódýrast á 14.500 kr. hjá Hamri sem er 26.117 kr. verðmunur eða 180%. Dýrast er að æfa 4 klst. á viku fyrir 8-10 ára börn á 54.579 kr. hjá Gerplu en ódýrast á 22.000 kr. hjá Hamri sem er 32.579 kr. verðmunur eða 148%.
 
Handbolti
Verðlagseftirlitið tók saman gjaldskrá fyrir 4.,6. og 8. flokk í handbolta fyrir allan veturinn 2012-13. Ekki er tekið tillit til hvað félögin eru að bjóða upp á margar æfingar í viku, en ekki er mikill munur á fjölda æfinga milli félaga. Hjá 8. flokki er um 2-3 æfingar á viku að ræða, hjá 6. flokki eru þær 3 á viku og hjá 4. flokki 4-6 æfingar á viku auk þrekæfinga, hjá eldri börnunum.
 
Af þeim félögum sem bjóða upp á æfingar fyrir 8. flokk er dýrasta árgjaldið 45.000 kr. hjá Haukum en ódýrast á 22.000 kr. hjá KA sem er 23.000 kr. verðmunur eða 105%. Fyrir 6. flokk er gjaldið hæst á 55.000 kr. hjá ÍR en ódýrast 27.000 kr. hjá Umf. Selfoss sem er 28.000 kr. verðmunur eða 104%. Hjá 4. flokki er dýrasta árgjaldið 66.000 kr. hjá Gróttu en ódýrast á 40.000 kr. hjá Þór sem er 26.000 kr. verðmunur eða 65%. Hjá 4. flokki Fylkis kostar veturinn 50.000 kr. fyrir stráka og 53.000 fyrir stúlkur, annars er sama gjald hjá hinum félögunum fyrir bæði kynin.  
 
Árgjaldið hjá ÍBV er bæði fyrir handbolta og fótbolta.
 
Auk þess ber að athuga að hér er aðeins um verðsamanburð að ræða og sú þjónusta eða dagskrá sem í boði er á námskeiðum íþróttafélaganna er ekki metin.  Verðlagseftirlitið tekur heldur ekki tillit til safnanna sem íþróttafélögin standa fyrir og eða styrkja frá sveitarfélögunum, hvorki æfingagallar né keppnisgjöld eru með í gjaldinu sem borið er saman.
 
 
Sjá nánar í töflu á heimasíðu ASÍ
Tekið af heimasíðu ASÍ